Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-13
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Tómlæti
- Fyrning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 1. febrúar 2022 leitar þrotabú Kl2020 ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 18. janúar 2022 í máli nr. 732/2021: Þrotabú Kl2020 ehf. gegn Landsbankanum hf. á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að fjórum kröfum sem gagnaðili lýsti sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti leyfisbeiðanda. Skiptastjóri hafnaði þremur þessara krafna, nr. 8, 9 og 11 á kröfuskrá, á grundvelli þess að þær væru niður fallnar fyrir tómlæti og þeirri fjórðu, nr. 12, þar sem hún væri fallin niður fyrir fyrningu og tómlæti.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að viðurkenna kröfurnar fjórar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 auk eftirstæðra krafna. Í úrskurðinum var vísað til þess að kröfur nr. 8, 9 og 11 væru byggðar á skýrum og ótvíræðum samningum sem fælu í sér skyldu til greiðslu tiltekinna fjárhæða á ákveðnum gjalddögum. Með vísan til dómaframkvæmdar var ekki fallist á að kröfurnar hefðu fallið niður fyrir tómlæti. Varðandi kröfu nr. 12 sem lýtur að endurgreiðslu á gjöldum sem gagnaðili greiddi vegna kaupleigu- og fjármögnunarleigusamninga vísaði Landsréttur til þess að í samkomulagi aðila 4. desember 2017 hafi gagnaðila verið heimilað að ráðstafa innborgunum félagsins til að greiða kostnað vegna gjalda til þriðja aðila. Talið var að í því hafi falist viðurkenning á kröfunni og hún því ófyrnd og ekki fallin niður fyrir tómlæti.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði bæði mikilsverða almannahagsmuni auk þess sem niðurstaðan hafi fordæmisgildi. Vísar hann til þess að niðurstaða um kröfur nr. 8, 9 og 11 geti verið fordæmisgefandi um tómlætisreglur í fjármunarétti. Ekki hafi áður verið fjallað um mál þar sem jafn langur tími hafi liðið án greiðslu inn á kröfur án þess að þær teljist niður fallnar sökum tómlætis. Varðandi kröfu nr. 12 hafi úrlausn um hana fordæmisgildi fyrir reglur um slit fyrningar og beitingu 14. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda þar sem Landsréttur geri mun minni og takmarkaðri kröfur til slita á fyrningu en áður hafi verið gert í dómaframkvæmd. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar um kröfu nr. 12 sé bersýnilega röng. Loks hafi kæruefnið grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni. Beiðninni er því hafnað.