Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Mánudaginn 21. janúar 2013. |
|
Nr. 36/2013.
|
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn B (Lúðvík Emil Kaaber hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu 4. janúar 2013.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 4. sama mánaðar um að hún skuli vistuð nauðug á sjúkrahúsi samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Kæruheimild er 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns og skipaðs talsmanns varnaraðila, Lúðvíks Kaaber héraðsdómslögmanns vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.400 krónur til hvors þeirra um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2013.
Með beiðni, dagsettri 10. þ.m. hefur A, kt. [...], [...], hér í borg, farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 4. þ. m., um það að hún skuli vistast á sjúkrahúsi til meðferðar vegna geðveiki. Varnaraðili mótmælir beiðninni.
Sóknaraðili var færður nauðugur á sjúkrahús hinn 4. þ. m. Meðal gagna málsins er staðfest vottorð [...] geðlæknis þar sem fram kemur að sóknaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, geðhvarfaklofa með ranghugmyndum og aðsóknarhugmyndum. Telur læknirinn brýna þörf á því að vista sóknaraðila á sjúkrahúsi til þess að hann fái þar viðeigandi meðferð. Þá geti hann verið hættulegur sjálfum sér í þessu ástandi.
Dómarinn telur ljóst af því sem rakið hefur verið að sóknaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Læknir metur ástand sóknaraðila svo að brýn þörf sé til þess að vista hann á sjúkrahúsi til meðferðar við sjúkdóminum. Ber því, með heimild í 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997 að ákveða að ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.
Þóknun til talsmanna málsaðila, Brynjólfs Eyvindssonar og Lúðvíks Kaaber, héraðsdómslögmanna, 50.000 krónur, ber samkvæmt 17. gr. nefndra laga að greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 4. janúar 2013, um að sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], skuli vistast á sjúkrahúsi til meðferðar.
Þóknun til talsmanna aðilanna, Brynjólfs Eyvindssonar og Lúðvíks E. Kaaber, héraðsdómslögmanna, 50.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.