Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit


Föstudaginn 11. október 2013.

Nr. 453/2013.

Gildi - lífeyrissjóður

Lífeyrissjóður verslunarmanna

Festa - lífeyrissjóður

Sameinaði lífeyrissjóðurinn og

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

(Reimar Pétursson hrl.)

gegn

Glitni hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu GL o.fl. um að lagt yrði fyrir slitastjórn G hf. að beina ágreiningsefni er varðaði þóknun slitastjórnarinnar til héraðsdóms í samræmi við fyrirmæli 128. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 gæti sá sem ætti kröfu á hendur G hf. borið upp skriflegar aðfinnslur um störf slitastjórnarinnar við héraðsdóm, þar sem hún hafi verið skipuð. Rakti dómurinn því næst ákvæði 2. og 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 þar sem mælt er fyrir um hvernig málsmeðferð héraðsdóms skuli háttað að fram komnum slíkum aðfinnslum. Í málinu hefðu GL o.fl. ekki krafist þess að héraðsdómur viki slitastjórn G hf. úr starfi, heldur að fundið yrði að því að hún hafi ekki beint til dómsins ágreiningsefni um þóknun þeirra manna, sem sæti ættu í henni, og lagt jafnframt fyrir hana að bæta úr því innan einnar viku. Samkvæmt fyrirmælum 2. og 3. mgr. 76. gr. laganna ætti héraðsdómur ekki að taka afstöðu til slíkrar kröfu með úrskurði, heldur með ákvörðun, sem yrði færð í þingbók og hvorki skotið til Hæstaréttar með kæru samkvæmt 179. gr. sömu laga né öðrum lagaheimildum. Hafi því héraðsdómur ekki átt að taka afstöðu til kröfu GL o.fl. á þann sem gert hafði verið. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að lagt yrði fyrir slitastjórn varnaraðila að beina nánar tilteknu ágreiningsefni til héraðsdóms í samræmi við fyrirmæli 128. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðilar krefjast að þessi krafa þeirra verði tekin til greina og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því krafa hans um málskostnað í héraði ekki til álita hér. Þá er þess að gæta að röksemdir, sem varnaraðili færir í greinargerð til Hæstaréttar fyrir áðurgreindri aðalkröfu sinni, varða eingöngu atriði, sem komið gætu til athugunar við úrlausn um hvort vísa ætti málinu frá héraðsdómi. Þess gerist því ekki þörf að taka frekari afstöðu til aðalkröfu varnaraðila.

I

Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, sem þá hét Glitnir banki hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Eftir að fyrrnefndu lögunum hafði verið breytt með lögum nr. 44/2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn fyrir varnaraðila og er hún enn við störf, en um þau gilda meðal annars nánar tiltekin ákvæði laga nr. 21/1991, sem vísað er til í XII. kafla laga nr. 161/2002. Á kröfuhafafundi, sem slitastjórnin hélt vegna slita varnaraðila 27. febrúar 2013, báru sóknaraðilar upp mótmæli gegn „töku meðlima slitastjórnar á óhóflegum þóknunum“ og kröfðust þess að tveir nafngreindir lögmenn, sem þar eiga sæti, endurgreiddu varnaraðila samtals 481.663.980 krónur. Þá kváðu sóknaraðilar það liggja fyrir að slitastjórn varnaraðila féllist ekki á þessi mótmæli og væri þess því krafist að ágreiningi um þetta yrði þegar í stað beint til héraðsdóms samkvæmt 128. gr. laga nr. 21/1991. Í fundargerð frá þessum kröfuhafafundi kom fram að umboðsmaður tiltekinna annarra lánardrottna varnaraðila hafi tekið þar til máls og lýst þá andvíga kröfu sóknaraðila, en af fundargerðinni verður ekki ráðið að slitastjórnin hafi á fundinum greint frá afstöðu sinni til kröfunnar. Slitastjórnin ritaði á hinn bóginn bréf til sóknaraðila 18. mars 2013, þar sem vísað var til þess að upplýst hafi verið á kröfuhafafundi á árinu 2009 að slitastjórnin myndi áskilja sér tímagjald fyrir störf sín og fá þóknun á þeim grunni greidda „meðan á skiptum stæði“, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 128. gr. sömu laga, sbr. 103. gr. laga nr. 161/2002, yrði lánardrottinn að hafa uppi mótmæli eða kröfur þegar í stað vegna ákvarðana og ráðstafana, sem teknar væru eða kynntar á kröfuhafafundi sem hann væri viðstaddur eða hefði verið boðaður réttilega til, en slíku yrði hann ella að hreyfa á næsta fundi, sem hann yrði boðaður til, að því viðlögðu að hann glataði rétti til þess. Slíkum mótmælum hafi aldrei verið hreyft gegn þóknun slitastjórnar á kröfuhafafundum í varnaraðila fyrr en sóknaraðilar gerðu það 27. febrúar 2013. Að auki teldi slitastjórnin sóknaraðila hafa uppi kröfu fyrir hönd varnaraðila um endurgreiðslu þóknunar, sem sóknaraðilar hefðu þó ekki forræði á, og gætu þeir heldur ekki gert slíka kröfu í máli, sem rekið yrði fyrir dómi á grundvelli 128. gr. laga nr. 21/1991. Af þessum sökum myndi „Glitnir hf. ekki senda ágreiningsmál til héraðsdóms“ samkvæmt því lagaákvæði, enda sneru mótmæli sóknaraðila annars vegar að atriðum, sem hafi þegar verið samþykkt á kröfuhafafundum, og hins vegar að fjárkröfu, sem þeir væru ekki bærir til að hafa uppi. Við þessu brugðust sóknaraðilar með því að beina í bréfi til héraðsdóms 26. mars 2013 aðfinnslum um störf slitastjórnar varnaraðila, sem vörðuðu þessa ákvörðun hennar. Kröfðust sóknaraðilar þess að héraðsdómur fyndi að synjun slitastjórnar um að beina til dómsins máli vegna mótmæla þeirra og legði fyrir hana að gera það innan viku frá því að ákvörðun yrði tekin um þetta, að viðlögðu því að slitastjórninni yrði vikið frá störfum. Um heimild til þessa vísuðu sóknaraðilar til 76. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfi 29. maí 2013 hafnaði héraðsdómur þessari kröfu sóknaraðila á þeim grunni að mótmæli þeirra varðandi þóknun slitastjórnar væru of seint fram komin, svo og að þeir hefðu ekki forræði á kröfu um endurgreiðslu, sem þeir hafi haft uppi. Í framhaldi af því kröfðust sóknaraðilar þess í bréfi 3. júní sama ár að héraðsdómur kvæði upp úrskurð um þetta efni og vísuðu þeir í því sambandi til 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991. Af því tilefni var hinn kærði úrskurður kveðinn upp 19. sama mánaðar.

II

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991, sem gildir um slitastjórn varnaraðila eins og mælt er fyrir um í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, getur sá, sem á kröfu á hendur honum, borið upp skriflegar aðfinnslur um störf slitastjórnarinnar við héraðsdóm, þar sem hún var skipuð. Að fram komnum slíkum aðfinnslum skal héraðsdómur kveðja á sinn fund slitastjórnina ásamt þeim, sem borið hefur þær upp, til að tjá sig um málefnið. Telji héraðsdómur aðfinnslur vera á rökum reistar getur hann gefið slitastjórninni kost á að bæta úr innan tiltekins frests, sbr. 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991. Verði slitastjórnin ekki við því eða telji héraðsdómur framferði hennar í starfi annars vera slíkt að ekki sé réttmætt að gefa henni kost á að bæta úr starfsháttum sínum skal hann víkja henni þegar í stað úr starfi með úrskurði. Fallist héraðsdómur á hinn bóginn ekki á að víkja slitastjórninni úr starfi er þeim, sem þess hefur krafist, veitt heimild í 3. mgr. sömu lagagreinar til að krefjast úrskurðar héraðsdóms um hvort slitastjórninni verði vikið frá og sætir slíkur úrskurður kæru til Hæstaréttar samkvæmt 179. gr. sömu laga. Eins og ráðið verður af áðursögðu hafa sóknaraðilar ekki krafist þess að héraðsdómur víki slitastjórn varnaraðila úr starfi, heldur að fundið verði að því að hún hafi ekki beint til dómsins ágreiningsefni við sóknaraðila um þóknun þeirra manna, sem eiga sæti í henni, og lagt jafnframt fyrir hana að bæta úr því innan einnar viku. Samkvæmt áðurgreindum fyrirmælum 2. mgr. og 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 á héraðsdómur ekki að taka afstöðu til slíkrar kröfu með úrskurði, heldur með ákvörðun, sem verður færð í þingbók og hvorki skotið til Hæstaréttar með kæru samkvæmt 179. gr. sömu laga né öðrum lagaheimildum. Héraðsdómur átti því ekki að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila á þann hátt, sem gert var, og ber því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Þrátt fyrir þessi úrslit málsins er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu, enda er ágreiningur þeirra sprottinn af því að slitastjórn varnaraðila hefur ranglega talið á sínu færi að neita að beina til héraðsdóms ágreiningsefni vegna ástæðna, sem ekki er hennar að leysa úr, heldur dómstóla.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2013.

Með bréfi Reimars Péturssonar hrl. f.h. sóknaraðila, Gildis ‒ lífeyrissjóðs, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Festu ‒ lífeyrissjóðs, Sameinaða lífeyrissjóðsins og Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, sem móttekið var 27. mars sl., voru bornar upp aðfinnslur um störf slitastjórnar Glitnis hf., en sóknaraðilar eru allir kröfuhafar í bú Glitnis hf.

Þess var krafist að héraðsdómur fyndi að synjun slitastjórnar á því að senda mótmæli sóknaraðila til héraðsdóms til úrlausnar og legði fyrir slitastjórn að senda þau til héraðsdóms innan viku frá ákvörðun héraðsdóms um slíkt. Verði slitastjórn ekki við því er gerð krafa um að héraðsdómur víki slitastjórn frá störfum með úrskurði.

Varnaraðili hefur andmælt þessum kröfum.

Með bréfi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 29. maí sl., var erindinu hafnað.

Með bréfi Reimars Péturssonar hrl. f.h. sóknaraðila, dags. 3. júní 2013, var gerð krafa um rökstuddan úrskurð um kröfur þær, sem bornar voru upp í fyrrgreindu erindi, með vísan til 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991.

Málavextir

Í bréfi sóknaraðila, sem móttekið var 27. mars sl., er greint frá því að á skiptafundi í búinu hinn 27. febrúar sl. hafi sóknaraðilar borið upp mótmæli vegna þóknana sem slitastjórn Glitnis hafði tekið sér og þeir telji óhóflegar. Af því tilefni gerðu þeir kröfu um að slitastjórn endurgreiddi Glitni þann hluta þóknananna sem þeir töldu oftekinn. Loks gerðu þeir kröfu um að slitastjórn beindi málinu til héraðsdóms þegar í stað og tafarlaust í samræmi við fyrirmæli 128. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., enda lá fyrir að slitastjórn hafnaði mótmælunum.

Með bréfi, dags. 18. mars sl., lýsti varnaraðili því yfir að ágreiningsmál um þetta yrði ekki sent til héraðsdóms.

Af þessu tilefni boðaði dómari til fundar samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 og voru tveir fundir haldnir, 23. og 30. apríl sl. Lögmenn aðila gerðu grein fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum á fundum þessum.

Málið varðar synjun varnaraðila á því að senda ágreiningsmál um þetta til héraðsdóms.

Málsástæður sóknaraðila

Í erindi sóknaraðila er gerð grein fyrir forsögu málsins. Þar kemur fram að sóknaraðilar hafi sem kröfuhafar Glitnis um nokkurt skeið óskað eftir upplýsingum um þóknanir þær sem slitastjórn Glitnis hefur tekið sér vegna starfa sinna. Þær upplýsingar hafi tveir þeirra fengið eftir að hafa óskað atbeina héraðsdóms með beiðni, dags. 1. sept. 2012, samkvæmt 76. gr. laga nr. 21/1991.

Með beiðni, dags. 25. jan. 2013, óskuðu sóknaraðilar eftir atbeina héraðsdóms og kröfðust þess að dómurinn myndi á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991 finna að þóknunum slitastjórnar, gera kröfu um endurgreiðslu þeirra og víkja slitastjórn frá störfum ef endurgreiðslurnar yrðu ekki inntar af hendi. Þessari kröfu mótmælti varnaraðili m.a. á þeirri forsendu að mótmæli sem þessi ætti að bera upp á skiptafundi samkvæmt fyrirmælum 128. gr. laga nr. 21/1991.

Héraðsdómur tók ákvörðun um málið með bréfi, dags. 26. feb. 2013. Þar sagði að skiptafundur væri „eðlilegur vettvangur kröfuhafa“ til að koma á framfæri aðfinnslum um þóknanir. Þá sagði þar einnig að ágreiningur um slíkar þóknanir „gæti þá átt undir dóm eftir reglum 128. gr. eða 171. gr. laganna“.

Í kjölfarið báru sóknaraðilar upp mótmæli sín á skiptafundi hjá Glitni 27. feb. sl. Þar voru helstu atriði málsins rakin og lýst kröfum vegna þessa. Fyrir liggur að varnaraðili vill ekki fallast á þessi mótmæli.

Sóknaraðilar telja að varnaraðila sé skylt að vísa ágreiningi um mótmælin til héraðsdóms samkvæmt ákvæði 128. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi engar heimildir til að neita kröfuhöfum að bera mótmæli sín undir dóm. Þannig geri lög nr. 21/1991 ráð fyrir að dómstólar skeri úr um réttmæti mótmæla en ekki varnaraðili. Þetta vald dómstóla geti varnaraðili ekki tekið sér og allra síst þegar mótmælin varða beina persónulega hagsmuni varnaraðila, eins og hér háttar til. Af þessum sökum sé synjun varnaraðila á því að vísa málinu til dóms óásættanleg.

Sóknaraðilar telja mikilvægt að héraðsdómur finni að þessu og setji varnaraðila stuttan frest til að bæta úr. Verði varnaraðili ekki við því geti slitastjórn ekki talist hæf til frekari starfa.

Málsástæður varnaraðila

Afstaða varnaraðila liggur fyrir í bréfi frá 18. mars sl., þar sem því er hafnað að vísa málinu til héraðsdóms. Í rökstuðningi fyrir þeirri afstöðu kemur m.a. fram að strax í upphafi slitameðferðar Glitnis hf. hafi verið upplýst á kröfuhafafundi að slitastjórn myndi innheimta tímagjald fyrir vinnu sína og að áfallin þóknun yrði greidd meðan á skiptum stæði. Engin mótmæli hafi nokkurn tíma komið fram við því á kröfuhafafundum, fyrr en með mótmælum sóknaraðila 27. febrúar sl.

Samkvæmt 2. mgr. 128. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 beri kröfuhafa að láta uppi mótmæli sín við ákvörðunum eða ráðstöfunum þegar í stað en í síðasta lagi á næsta fundi sem hann sé boðaður til. Mótmæli kröfuhafi ekki innan umræddra tímamarka hafi hann glatað rétti sínum til að koma mótmælum á framfæri seinna. Teljist þá umrædd ákvörðun eða ráðstöfun endanlega afgreidd. Með vísan til þess að mótmæli sóknaraðila snúi að eðli þóknunar, þ.e. tímagjalds í stað jafnaðarlauna, hafi þeir glatað rétti sínum til að mótmæla þeirri tilhögun, enda hafi sú tilhögun verið samþykkt á kröfuhafafundi á árinu 2009. Að auki er bent á að rekstarkostnaður slitastjórnar hafi verið kynntur á hverjum kröfuhafafundi sem haldinn hafi verið frá upphafi, allt í samræmi við 78. gr. laga nr. 21/1991. Aldrei hafi komið fram mótmæli við þeim rekstrarkostnaði.

Sóknaraðilar geri einnig fjárkröfu á hendur slitastjórnarmeðlimum, að því er virðist fyrir hönd Glitnis hf. Fjárkrafan snúi ekki að hlutdeild sóknaraðila í heildarkröfum gagnvart Glitni hf., heldur sé krafist endurgreiðslu þóknunar til handa Glitni hf. að öllu því leyti sem sóknaraðilar telja hana vera ofgreidda. Það liggi í augum uppi að mati varnaraðila að sóknaraðilar hafi ekki forræði á kröfu sem þessari, auk þess sem lagastoð bresti fyrir því að hafa slíka kröfu uppi í máli samkvæmt 128. gr. laga nr. 21/1991.

Niðurstaða

Fallist er á með sóknaraðilum að 3. mgr. 76. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 beri að skýra svo, með hliðsjón af lögskýringargögnum, að sóknaraðilar geti krafist úrskurðar um þá ákvörðun héraðsdómara að hafna erindi þeirra sem gert var með bréfi, dags. 29. maí sl.

Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 segir að þeim sem eiga kröfu á hendur búinu sé heimilt meðan á gjaldþrotaskiptum stendur að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara sem hefur skipað hann. Komi slíkar aðfinnslur fram skal héraðsdómari boða til fundar, eins og nánar segir í lagaákvæði þessu. Í 2. mgr. 76. gr. laganna kemur fram að telji héraðsdómari aðfinnslur á rökum reistar geti hann gefið skiptastjóra kost á að bæta úr innan tiltekins frests ella getur komið til þess að skiptastjóra verði vikið úr starfi. Komi til málsmeðferðar af þeim sökum fer um málið eftir 169. gr. laganna.

Aðfinnslur þær sem nú er beint til dómsins á grundvelli 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 varða synjun varnaraðila, slitastjórnar Glitnis hf., á því að að senda mótmæli sóknaraðila, sem uppi voru höfð á kröfuhafafundi 27. febrúar sl., til héraðsdóms til úrlausnar í samræmi við ákvæði 128. gr. laga nr. 21/1991, eins og krafist var. Í því mótmælabréfi voru hafðar uppi sömu fjárkröfur og áður höfðu verið settar fram í bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 25. janúar sl., um að Steinunni Guðbjartsdóttur og Páli Eiríkssyni yrði gert að endurgreiða búi Glitnis hf. þóknanir að fjárhæð 481.663.980 krónur.

Í bréfi varnaraðila, dags. 18. mars sl., er tekið fram að strax í upphafi slitameðferðar Glitnis hf. hafi verið upplýst á kröfuhafafundi að slitastjórn myndi innheimta tímagjald fyrir vinnu sína og að áfallin þóknun yrði greidd meðan á skiptum stæði. Engin mótmæli hafi nokkurn tíma komið fram við því á kröfuhafafundum, ekki fyrr en mótmæli sóknaraðila voru lögð fram þann 27. febrúar sl. Í bréfinu er því lýst yfir að Glitnir hf. muni ekki senda ágreiningsmál til héraðsdóms með vísan til 128. gr. gjaldþrotalaga, enda snúi mótmælin annars vegar að atriðum sem hafi þegar verið endanlega samþykkt á kröfuhafafundum og hins vegar að fjárkröfu sem kröfuhafarnir eigi enga aðild að.

Samkvæmt 3. mgr. 128. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 getur lánardrottinn, sem á atkvæði um málefni búsins og telur ákvörðun eða ráðstöfun skiptastjóra ólögmæta, mótmælt henni þegar á þeim fundi sem hún er kynnt, en ella á næsta fundi sem hann er boðaður til. Komi slík mótmæli fram skal skiptastjóri leitast við að jafna ágreininginn. Takist það ekki skal hann beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr.

Fyrir liggur samkvæmt meðfylgjandi gögnum að kostnaður vegna skilanefndar og slitastjórnar Glitnis hf. og tilhögun þess kostnaðar hafi verið kynntur á mörgum kröfuhafafundum Glitnis hf. allt frá árinu 2009, án þess að nokkrar athugasemdir eða mótmæli hafi komið fram af hálfu sóknaraðila eða annarra kröfuhafa. Verður því að fallast á þau sjónarmið sem sett eru fram í framangreindu bréfi varnaraðila, með vísan til 3. mgr. 128. gr. laga um gjaldþrotaskipti, að mótmæli sóknaraðila séu of seint fram komin. Þá er einnig fallist á það sjónarmið varnaraðila að sóknaraðilar hafi ekki forræði á þeirri endurgreiðslukröfu, sem þeir hafa sett fram. Engin efni eru því til þess að beina ágreiningi þessum til héraðsdóms. Verður kröfum sóknaraðila því hafnað, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfum sóknaraðila, Gildis-lífeyrissjóðs, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Festu-lífeyrissjóðs, Sameinaða lífeyrissjóðsins og Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda,  um það að varnaraðili, slitastjórn Glitnis hf.,  skuli beina ágreiningi aðila til héraðsdóms í samræmi við fyrirmæli 128. gr. laga nr. 21/1991.