Hæstiréttur íslands
Mál nr. 653/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. október 2017 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 4. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til var að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er svo fyrir mælt að í skriflegri kæru til héraðsdómara skuli greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í skriflegri kæru varnaraðila, sem barst héraðsdómi innan tilskilins kærufrests, er í engu vikið að þeim ástæðum, sem kæran er reist á, heldur segir að varnaraðili muni skila greinargerð til Hæstaréttar þar sem meðal annars verði reifaðar málsástæður til stuðnings kröfu hans. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands mánudaginn 9. október 2017
Ár 2017, mánudaginn 9. október, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur, með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, farið fram á að héraðsdómur staðfesti ákvörðun Lögreglustjórans á Suðurlandi, sem tekin var þann þann 4. október sl. með vísan til 4. gr. og 5. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.
Samkvæmt framangreindri ákvörðun hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi ákveðið að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart A, kt. [...], í fjóra mánuði frá og með birtingu ákvörðunar sbr. 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...],[...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.
Ákvörðunin var birt varnaraðila þann 4. október sl. kl. 10:55.
Krafan barst dóminum 6. október 2017 og var gefið út útivistarfyrirkall þann sama dag og málið tekið fyrir í dag. Varnaraðili kom fyrir dóminn ásamt skipuðum verjanda sínum. Sveini Andra Sveinssyni hrl. og krafðist þess að staðfestingu nálgunarbanns yrði synjað, en til vara að nálgunarbanni yrði markaður skemmri tími. Þá er krafist þóknunar fyrir skipaðan verjanda. Af hálfu brotaþola sótti þing Jónína Guðmundsdóttir hdl., skipaður réttargæslumaður hennar. Af hálfu brotaþola er farið fram á að nálgunarbann verði staðfest, auk þess að krafist er þóknunar fyrir skipaðan réttargæslumann.
Málavextir
Í hinni umræddu ákvörðun, sem dagsett er þann 4. október 2017, segir að forsaga málsins sé að þann 3. september 2017 hafi lögreglustjórinn á Suðurlandi tekið ákvörðun um að kærða yrði brottvísað af sameiginlegu heimili hans og brotaþola, þá ennfremur að kærða yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola. Ákvörðun lögreglustjóra hafi verið staðfest af Héraðsdómi Suðurlands í máli nr. [...]. Úrskurðurinn hafi ekki verið kærður til Hæstaréttar. Samkvæmt forsendum í úrskurði héraðsdóms hafi kærði þótt vera undir rökstuddum grun um að hafa framið refsivert brot gagnvart brotaþola sem varðað geti fangelsi, og hafa með þeirri háttsemi raskað friði brotaþola á heimili hennar. Þá hafi fyrirliggjandi læknisvottorð þótt styðja frásögn brotaþola um ítrekað ofbeldi af hálfu kærða, en fyrir hafi legið að kærði hafi kannast við að hafa í eitt skipti tekið brotaþola hálstaki.
Þann 7. september 2017, þ.e. í kjölfar þess að framangreind ákvörðun um brottvísun og nálgunarbann hafi verið birt kærða, hafi brotaþoli komið á lögreglustöð ásamt tilnefndum réttargæslumanni sínum, til þess að kæra brot kærða á nálgunarbanni gagnvart henni, í a.m.k. fjögur aðgreind skipti (sjá mál nr. [...]). Í kjölfarið hafi kærði verið boðaður til skýrslutöku vegna þess máls, þar sem hann hafi staðfest annars vegar að hafa verið staddur að heimili brotaþola þann 5. september sl. og kallað til brotaþola inn um eldhúsglugga, og hins vegar að hafa sent brotaþola snapchat-skilaboð þann 7. september 2017. Hvað varðar meint brot á nálgunarbanni, er brotaþoli hafi greint frá að hefði átt sér stað þann 4. september sl., hafi kærði sagt að þær ásakanir brotaþola væru ekki á rökum reistar en sagst ekki geta svarað fyrir ásökun um brot á nálgunarbanni er eigi skv. framburði brotaþola að hafa átt sér stað þann 6. september sl., þ.e. kærði hafi hvorki staðfest af eða á hvort hann hefði komið að heimili brotaþola umrætt sinn, eins og hún hafi lýst. Vitni muni þó hafa staðfest framburð brotaþola hvað varðar brot á nálgunarbanni umrætt sinn.
Föstudagskvöldið, þann 29. september sl., hafi brotaþoli á ný haft samband við lögreglu og tilkynnt þá um enn eitt brot kærða á nálgunarbanni, sbr. mál nr. [...].
Af hálfu brotaþola hafi réttargæslumaður hennar lagt fram kröfu um áframhaldandi nálgunarbann, sem hafi borist embætti lögreglustjórans á Suðurlandi með tölvupósti að morgni 3. október 2017, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Skýrslutaka af brotaþola, vegna þessa brots á nálgunarbanni hafi farið fram á heimili brotaþola að morgni 4. október, að réttargæslumanni hennar viðstöddum. Við lok skýrslutökunnar hafi kærði gengið inn á heimili brotaþola fyrirvaralaust án þess að hafa verið boðið inn, og staðið inni á gólfi hússins að viðstöddum brotaþola, réttargæslumanni og rannsóknarlögreglumanni.
Samkvæmt 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 sé heimilt að beita nálgunarbanni ef:
a. rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða
b. hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið.
Að mati lögreglustjóra sé í málinu fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi beitt brotaþola ítrekuðu líkamlegu ofbeldi og raskað friði hennar. Ennfremur sé það mat lögreglustjóra að hætta sé á því að kærði brjóti á ný gegn brotaþola, ekki síst í ljósi þess að kærði hafi ítrekað brotið nálgunarbann, með því að ýmist setja sig í samband við brotaþola eða koma að heimili hennar, og staðfest það með því að birtast fyrirvaralaust inni á heimili brotaþola, án þess að vera boðið inn. Með vísan til alls þess sem að framan hafi verið rakið sé það mat lögreglustjórans á Suðurlandi að vægari úrræði en nálgunarbann muni ekki vernda friðhelgi og tryggja öryggi og hagsmuni brotaþola, sbr. 1. gr. 6. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Með vísan til framangreinds og annarra gagna í máli lögreglu nr. [...],[...], og [...] hafi lögreglustjórinn á Suðurlandi ákveðið að X, kt. [...], verði gert sæta nálgunarbanni gagnvart A, kt. [...], í fjóra mánuði frá og með birtingu ákvörðunar þessarar sbr. 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...],[...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.
Forsendur og niðurstaða
Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna vegna þeirra atvika sem urðu tilefni þess að framangreint nálgunarbann var ákveðið af lögreglustjóra. Þá var það upplýst af hálfu sækjanda við fyrirtöku málsins að síðastliðinn föstudag hafi brotaþoli lagt fram hjá lögreglu kæru á hendur varnaraðila fyrir að hafa sett á netið myndskeið sem sýni brotaþola við mjög viðkvæmar aðstæður gegn hennar vilja.
Að virtum gögnum málsins ber að fallast á það með lögreglustjóra að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn brotaþola svo að varðað geti við ákvæði XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og raskað friði hennar.
Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja háttsemi samkvæmt framanlýstum a-lið gagnvart brotaþola.
Er þannig fullnægt skilyrðum til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni eins og krafist er. Þá verður ekki talið sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti.
Tímalengd nálgunarbanns þykir ekki úr hófi.
Af hálfu kærða var á það bent við fyrirtöku málsins að brotaþoli hefði í einhverjum tilvikum haft við hann samband og væri því ljóst að engir verndarhagsmunir varðandi friðhelgi brotaþola væru fyrir hendi. Á þetta sjónarmið verður ekki fallist. Bæði er það að lítt er upplýst um þetta, en jafnframt er þess að geta að brotaþoli er ekki undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn kærða eða raskað friði hans og þykir ekki útilokað að hún geti þurft að hafa samband við hann vegna einhverra mála og verður að telja henni það heimilt, enda sætir hún ekki nálgunarbanni gagnvart honum. Þá þykir þetta á engan hátt til þess fallið að draga úr þeirri þörf sem þykir vera fyrir hendi til að tryggja friðhelgi brotaþola.
Verður þannig fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þóknanir skipaðs verjanda varnaraðila og skipaðs réttargæslumanns brotaþola greiðast úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en við ákvörðun þeirra hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Báðar þóknanirnar teljast til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi um að varnaraðila, X, kt. [...], verði gert sæta nálgunarbanni gagnvart A, kt. [...], í fjóra mánuði frá og með birtingu ákvörðunar þessarar sbr. 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...],[...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.
Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., kr. 210.800, sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., kr. 161.820. Báðar fjárhæðir eru að virðisaukaskatti meðtöldum.