Hæstiréttur íslands

Mál nr. 186/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka
  • Stefnubirting


Þriðjudaginn 3. maí 2011.

Nr. 186/2011.

Iceland Global Water ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

GE verki sf.

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

Kærumál. Endurupptaka. Stefnubirting.

I ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um endurupptöku máls sem G sf. höfðaði gegn honum og lauk með áritun dómara á stefnu 17. maí 2010. I ehf. óskaði eftir endurupptöku málsins 22. desember 2010 og hélt því fram að honum hefði fyrst verið kunnugt um það 17. sama mánaðar að stefna á hendur fyrirtækinu hefði verið árituð í maí. Í Hæstarétti var talið að verulegir misbrestir hefðu orðið á birtingu stefnu í málinu og yrði að leggja til grundvallar að stefna hefði hvorki verið birt fyrir I ehf. né öðrum sem birta mátti hana fyrir. Að því leyti væru skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt a. lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 því talin uppfyllt. Þá var talið að sönnunarbyrði yrði ekki lögð á I ehf. um að bréf frá C þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða skráningu á vanskilaskrá hefði ekki borist honum og væri þá einkum litið til þess að málið væri ekki réttilega höfðað sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991. Var því lagt til grundvallar að I ehf. hefði fyrst orðið kunnugt um stefnu G sf. og afdrif hennar 17. desember 2010. Var því fallist á kröfu I ehf. um að mál G sf. gegn honum skyldi endurupptekið.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. mars 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku máls varnaraðila gegn honum og lauk 17. maí 2010 með áritun dómara á stefnu samkvæmt 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og krafa hans um endurupptöku framangreinds máls tekin til greina. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili gaf út stefnu á hendur sóknaraðila 17. mars 2010 þar sem hann krafðist greiðslu á 124.500 evrum með nánar tilgreindum vöxtum auk málskostnaðar. Við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Suðurlands 12. maí 2010 var ekki sótt þing af hálfu sóknaraðila. Var stefnan við svo búið árituð 17. sama mánaðar um aðfararhæfi, sbr. 113. gr. laga nr. 91/1991.

Með bréfi sóknaraðila 22. desember 2010 til Héraðsdóms Suðurlands fór hann þess á leit með vísan til 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 að málið yrði endurupptekið. Fram kom í bréfinu að þann 17. sama mánaðar hafi athygli fyrirsvarsmanns sóknaraðila verið vakin á því að félagið væri á vanskilaskrá þar sem stefna á hendur því hefði verið árituð í maí 2010, en þennan dag hefði honum fyrst orðið kunnugt um það. Stefna hafi aldrei verið birt sóknaraðila og skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt nefndu lagaákvæði væru uppfyllt. Þá mótmælti hann að atvik hafi verið með þeim hætti, sem lýst sé í málatilbúnaði varnaraðila. Sá síðastnefndi mótmælti beiðninni og taldi að bæði hafi stefnan verið réttilega birt og að sóknaraðili hafi fengið vitneskju um áritun dómara á hana þegar í maí 2010.

Í hinum kærða úrskurði var beiðni sóknaraðila hafnað, en eins og málið lægi fyrir yrði hann að sanna að honum hafi fyrst orðið kunnugt um hina árituðu stefnu síðar en í lok maímánaðar 2010. Það hafi hann ekki gert og væri beiðnin samkvæmt því of seint fram komin.

II

Meðal málsgagna er vottorð stefnuvotts vegna birtingar stefnu, þar sem skráð er í þar til gerða reiti dagsetningin 7. maí 2010 kl. 21:08 og staðsetning að Svöluhöfða 17, einbýli í Mosfellsbæ, en þar mun vera lögheimili hollensks fyrirsvarsmanns sóknaraðila hér á landi. Í reit fyrir athugasemdir er skráð: „Íbúar heima en opna ekki. Bréf sett inn um lúgu.“

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 er birting stefnu lögmæt ef stefnuvottur eða lögbókandi vottar að hann hafi birt hana fyrir stefnda eða einhverjum sem sé bær um að taka við henni í hans stað og samkvæmt 2. mgr. 86. gr. sömu laga skal sá, sem annast birtingu, afhenda þeim sem birt er fyrir samrit stefnu og vekja athygli hans á því hver athöfn sé að fara fram. Ljóst er af áðurnefndri lýsingu stefnuvotts í birtingarvottorði á því hvernig hann stóð að verki, að fyrirmælum þessara lagaákvæða var ekki fylgt í umrætt sinn. Misbrestir, sem á því urðu, voru svo verulegir að leggja verður til grundvallar að stefna varnaraðila hafi hvorki verið birt sóknaraðila né öðrum, sem mátti birta hana fyrir. Skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt a. lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 er því uppfyllt.

Skilyrði fyrir endurupptöku snúa að öðru leyti að frestum, en samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði getur stefndi í máli óskað endurupptöku þess eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því málinu lauk í héraði, en þó innan árs frá sama tíma, enda berist beiðnin dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn. Varnaraðili reisir málatilbúnað sinn meðal annars á því að sóknaraðila hafi orðið kunnugt um málsúrslit þegar í lok maí 2010 og því löngu verið liðinn sá mánaðarfrestur, sem hann hafi haft þegar bréf hans barst héraðsdómi 3. janúar 2011. Varnaraðili fylgdi áritun stefnu um aðfararhæfi ekki eftir með beiðni um fjárnám og hlutaðist sjálfur ekki til um með öðrum hætti að málsúrslit yrðu kynnt sóknaraðila, en heldur fram að með bréfi frá félaginu Creditinfo til sóknaraðila 26. maí 2010 hafi þeim síðastnefnda verið kynnt niðurstaða málsins. Sóknaraðili mótmælir að hafa fengið umrætt bréf og heldur fast við að honum hafi fyrst orðið kunnugt um málið 17. desember 2010 og þá strax brugðist við með beiðni um endurupptöku. Hann telur jafnframt ósannað að bréfið hafi verið sent, hvenær það hafi verið gert og að það hafi borist á áfangastað. Sönnunarbyrði um það hvíli á varnaraðila.

Af málatilbúnaði varnaraðila verður ekki annað ráðið en að umrætt bréf hafi verið sent í almennum pósti og samkvæmt hljóðan þess var það sent til skrifstofu sóknaraðila að Kleifum 1 í Vestmannaeyjum. Bréfið er óundirritað. Þar er tilkynnt um „fyrirhugaða skráningu á Vanskilaskrá Lánstrausts hf “ og að kröfuhafi sé varnaraðili samkvæmt áritaðri stefnu frá Héraðsdómi Suðurlands. Hvorki er getið um dagsetningu stefnu né áritunar eða kröfufjárhæðar. Í lok bréfsins er vísað í frekari upplýsingar á bakhlið, sem hefur þó ekki verið lögð fram í málinu.

Knappt efni þessa óundirritaða bréfs var eitt og sér ekki til þess fallið að móttakanda yrðu „málsúrslit kunn“ án þess að frekari eftirgrennslan kæmi til. Að þessu gættu og atvikum málsins að öðru leyti verður sönnunarbyrði ekki lögð á sóknaraðila um að bréfið hafi ekki borist honum og er þá einkum litið til þess að málið var ekki réttilega höfðað, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991, eins og fram er komið. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að sóknaraðila hafi fyrst orðið kunnugt um stefnu varnaraðila og afdrif hennar 17. desember 2010 eins og hann ber sjálfur. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður krafa sóknaraðila tekin til greina.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, Iceland Global Water ehf., um að mál varnaraðila, GE verks sf., gegn sóknaraðila nr. E-296/2010 fyrir Héraðsdómi Suðurlands skuli endurupptekið.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

                                              

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 3. mars 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um endurupptökukröfu stefnda 18. febrúar sl., er höfðað með stefnu sem stefnandi heldur fram að hafi verið birt 7. maí sl.

Stefnandi er GE verk sf., kt. 420209-2660, Skildingavegi 10-12, Vestmannaeyjum.

Stefndi er Iceland Global Water ehf., kt. 540507-1390, Kleifum 1, Vestmannaeyjum, en fyrirsvarsmaður stefnanda er sagður Otto Robert Spock, kt. 060449-2529, Svöluhöfða 17, Mosfellsbæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð EUR 124.500 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af EUR 112.050 frá 2. janúar 2010 til 1. febrúar sama ár, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Á vottorði vegna birtingar stefnu í máli þessu segir að birtingarstund sé föstudagurinn 7. maí 2010 kl. 21:08 og birtingarstaður sé að Svöluhöfða 17, Mosfellsbæ, einbýli.  Gerð er sú athugasemd í vottorðinu að íbúar séu heima en opni ekki.  Bréf sé sett inn um lúgu. 

Stefna í máli þessu var árituð um aðfararhæfi 17. maí sl.

Með bréfi dagsettu 22. desember sl. sem barst dóminum 3. janúar sl. og lagt var fram á dómþingi 2. febrúar sl., gerði stefndi þá kröfu að mál þetta yrði endurupptekið með vísan til 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.  Þá er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnanda.  Stefndi krefst þess jafnframt að réttaráhrif áritunar stefnu í ofangreindu máli verði felld niður að öllu leyti þar til máli lýkur á ný í héraði.

Í þessum þætti málsins verður leyst úr endurupptökukröfunni og krefst stefnandi þess að henni verði synjað og honum úrskurðaður málskostnaður að mati dómsins.

Stefndi byggir á því að þann 17. desember sl. hafi athygli hans verið vakin á því að félagið væri á vanskilaskrá þar sem stefna hefði verið árituð í maí sl.  og heldur stefndi því fram að þann dag hafi honum fyrst verið kunnugt um að stefna á hendur félaginu hafi verið árituð.  Stefndi byggir kröfur sínar á 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 og telur að fram komi í birtingarvottorði að birting stefnu hafi ekki tekist.  Hafi stefnuvottur talið íbúa vera heima en ekki opnað.  Stefndi segist ekki kannast við þetta enda hafi fyrirsvarsmaður félagsins aldrei séð umrædda stefnu og enginn heimilismaður að Svöluhöfða 17 kannist við að hafa móttekið stefnu.  Stefndi vekur athygli á því að ekki virðist hafa verið reynt að birta stefnu á stjórnstöð félagsins líkt og heimilt sé skv. 4.m gr. 85. gr. laga nr. 91/1991.  Stefndi vísar til 1. mgr. 83. gr. sömu laga en þar komi fram að stefnubirting sé lögmæt ef stefnuvottur eða lögbókandi vottar að stefna hafi verið birt fyrir stefnda eða einhverjum þeim sem sé bær til að taka við stefnu í hans stað eða samrit stefnu sé sent í ábyrgðarbréfi sem póstmaður votti að hann hafi afhent bréfið stefnda eða öðrum þeim sem sé bær um að taka við stefnu í hans stað.  Þá vísar stefndi til 2. mgr. 86. gr. sömu laga en þar komi fram að sá sem annist birtingu skuli afhenda þeim sem birt sé fyrir samrit stefnu og vekja athygli hans á því hver athöfn sé að fara fram.  Með þessu lagaákvæði segir stefndi að verið sé að leggja þá skyldu á þann sem birtir stefnu að afhenda stefnuna aðila sem sé bær til að taka við stefnunni.  Sé hvergi að finna lagaheimild fyrir því að birta stefnu með því að setja hana inn um lúgu.  Sé því ljóst að birting stefnunnar uppfylli ekki ákvæði XIII. kafla sömu laga og sé því ekki lögmæt.  Stefndi byggir einnig á því að c-liður 2. mgr. 137. gr. sömu laga eigi við enda muni hann halda uppi vörnum og verjast kröfum stefnanda.  Stefndi segir sér fyrst hafa orðið ljóst þann 17. desember s.l. að á félagið væri komin árituð stefna og séu því skilyrði 2. mgr. 137. gr. lagana fyrir hendi.

Stefndi hefur lagt fram tryggingu í samræmi við ákvæði 3. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi byggir á því að sönnunarbyrðin um það hvenær stefnda urðu málsúrslit kunn hvíli á stefnda.  Stefndi segi í endurupptökubeiðni að þann 17. desember sl. hafi athygli hans verið vakin á færslu á vanskilaskrá og sama dag hafi honum orðið málsúrslit kunn.  Að mati stefnanda hafi stefndi með þessu ekki fært sönnur á að skilyrði fyrir endurupptöku séu fyrir hendi.  Ekki sé skýrt með fullnægjandi hætti hvernig stefnda urðu málsúrslit kunn og þá hafi ekki verið færðar sönnur á að það hafi fyrst verið 17. desember sl.   Með bréfi Creditinfo dags. 26. maí sl. hafi stefnda verið tilkynnt um fyrirhugaða skráningu áritaðrar stefnu á vanskilaskrá og með því bréfi hefði stefnda mátt vera kunn úrslit málsins.  Sé beiðni um endurupptöku því of seint fram komin og beri þegar af þeirri ástæðu að synja henni.

Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi ekki hnekkt framlögðu birtingarvottorði eða að öðru leyti sýnt fram á að skilyrði a-c liða 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 séu fyrir hendi.  Birtingarvottorð sé opinbert skjal og teljist það rétt þar til annað sannist, sbr. 3. mgr. 71. gr. laganna.  Stefnuvottur hafi staðfest að birting hafi farið fram eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 91/1991 og það sé stefnda að hnekkja því.  Það hafi hann ekki gert með neinum gögnum og séu því skilyrði a-liðar 2. mgr. 137. gr. ekki fyrir hendi.  Þá telur stefnandi að stefndi hafi ekki fært fram nein rök um að sýkna hefði átt í málinu án kröfu og geti því c- liður 2.mgr. 137. gr. laganna ekki átt við.  

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að endurupptaka útivistarmál í héraði að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.  Samkvæmt 1. mgr. 137. gr. getur stefndi beiðst endurupptöku innan þriggja mánaða frá því máli lauk í héraði, enda berist beiðnin dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn.  Er í því tilviki ekki þörf sérstaks rökstuðnings.  Séu þrír mánuðir liðnir frá því máli lauk í héraði en innan árs frá því getur stefndi samkvæmt 2. mgr. 137. gr. beiðst endurupptöku berist beiðnin dómara innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn og jafnframt þarf stefndi að sýna fram á að einhverju þeirra skilyrða sem getið er í stafliðum a-d sé fullnægt.  Ágreiningur er með aðilum um það hvenær stefnda urðu málsúrslit kunn og heldur stefndi því fram að það hafi fyrst verið 17. desember sl. er athygli hans hafi verið vakin á því að félagið væri á vanskilaskrá en stefnandi heldur því fram að stefnda hafi verið sent bréf 26. maí sl.  þar sem honum hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða skráningu áritaðrar stefnu á vanskilaskrá.  Stefnandi hefur lagt fram afrit af þessu bréfi og er það stílað á stefnda með heimilisfang að Kleifum 1, 900 Vestmannaeyjum.  Hvað sem líður lögmæti stefnubirtingar í máli þessu þá liggur fyrir að samkvæmt vottorði stefnuvotts taldi hann íbúa að Svöluhöfða 17 í Mosfellsbæ vera heima en ekki opna og því hafi bréf verið sett inn um lúgu, en þarna mun vera heimilisfang fyrirsvarsmanns stefnda.  Stefnandi hefur því gert sennilegt að athygli stefnda hafi með framangreindum hætti verið vakin á umræddri málshöfðun og afdrifum hennar.  Stefndi hefur hins vegar engin gögn lagt fram hér fyrir dómi sem styðja þá fullyrðingu hans að honum hafi ekki orðið kunnugt um málsúrslit fyrr en 17. desember sl.  Verður að telja að sönnunarbyrðin að þessu leyti hvíli á stefnda og þar sem  honum hefur að mati dómsins ekki tekist að sanna að honum hafi orðið málsúrslit kunn síðar en í lok maímánaðar 2010 verður að telja að beiðni um endurupptöku sé of seint fram komin og verður kröfu stefnanda þegar af þeirri ástæðu hafnað.

Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda 75.000  krónur í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Beiðni um endurupptöku í máli nr. E-296/2010 er hafnað.

Stefndi, Iceland Global Water ehf., greiði stefnanda, GE verki sf., 75.000 krónur í málskostnað.