Hæstiréttur íslands

Mál nr. 860/2014


Lykilorð

  • Fjársvik
  • Þjófnaður
  • Ítrekun


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 15. október 2015.

Nr. 860/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Jónu Sigurbjörgu Guðmundsdóttur

(Friðbjörn E. Garðarsson hrl.)

Fjársvik. Þjófnaður. Ítrekun.

J var í héraði sakfelld fyrir fjársvik og þjófnað í verslun. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu hennar fyrir fjársvik. Hins vegar var talið að þar sem sakfelling J fyrir þjófnað á tveimur sápum hefði aðeins verið studd vætti eins vitnis yrði, gegn staðfastri neitun hennar, að sýkna hana af þeim sakargiftum enda hefði lögregla ekki gengið úr skugga um það hvort J hefði keypt sápurnar í annarri verslun eins og hún hefði haldið fram. Við ákvörðun refsingar var litið til þess J hafði áður verið dæmd til greiðslu sektar fyrir þjófnað og hafði það brot ítrekunaráhrif samkvæmt 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing J ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing hennar verði þyngd.

Ákærða krefst sýknu af kröfu ákæruvaldsins.

Með skírskotun til framburðar vitnanna A og B fyrir héraðsdómi er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að sakfella ákærðu fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í versluninni [...] 5. nóvember 2013, þrátt fyrir neitun hennar. Á hinn bóginn er sakfelling ákærðu fyrir brot gegn 244. gr. sömu laga umrætt sinn einungis studd vætti eins vitnis. Verður því, gegn staðfastri neitun ákærðu, að sýkna hana af þeim sakargiftum, enda gekk lögregla ekki úr skugga um það, svo sem ástæða hefði verið til, hvort hún hefði áður keypt sápurnar, sem fundust í tösku hennar, í annarri verslun.

Eins og greinir í héraðsdómi var ákærða dæmd til greiðslu sektar fyrir þjófnað 2. desember 2010 og 13. júní 2013 gekkst hún undir að greiða sekt hjá lögreglustjóra fyrir eignaspjöll. Samkvæmt 255. gr. almennra hegningarlaga hefur fyrra brotið ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar ákærðu nú. Af þeim sökum og að teknu tilliti til þess hve brot hennar 5. nóvember 2013, sem hún hefur verið sakfelld fyrir, var smávægilegt er ákvörðun héraðsdóms um refsingu hennar staðfest. Því verður heldur ekki hróflað við ákvörðun hans um sakarkostnað.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærða, Jóna Sigurbjörg Guðmundsdóttir, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 387.791 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Friðbjörns E. Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. nóvember 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember 2014, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 6. maí 2014, á hendur Jónu Sigurbjörgu Guðmundsdóttur, kt. [...], Birkimel 8b, Reykjavík, fyrir fjársvik og þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 5. nóvember 2013, í verslun [...], [...], [...], stolið tveimur sápum að verðmæti kr. 1.996 og blekkt afgreiðslumann, er ákærða framvísaði og greiddi fyrir tvo kertastjaka kr. 954, sem voru að verðmæti kr. 4.396, eftir að hafa límt 954 kr. verðmiða á kertastjakana.

Telst brot þetta varða við 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu ákærðu er krafist sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, greiðist úr ríkissjóði.

I

Um málavexti segir í frumskýrslu lögreglu að tveir lögreglumenn hafi verið sendir í verslun [...] í [...] vegna þjófnaðarmáls. Hafi kona verið stöðvuð í versluninni grunuð um að hafa skipt á verðmiðum á vöru, en fylgst hafi verið með ákærðu þar sem hún hafi tekið verðmiða af hnífaparasetti og sett á tvo kertastjaka og greitt fyrir. Við leit á konunni fundust tvær sápur í tveimur áldósum sem tilheyrðu [...], en ákærða hafði greitt fyrir ýmsar aðrar vörur.

Í skýrslu lögreglu kom fram að rætt hafi verið við tvö vitni, starfsmenn [...] sem bæði kváðust hafa séð þegar ákærða var að eiga við kertastjaka og hafi hún tekið verðmiða af þeim og sett í staðin verðmiða af hnífapörum.

Ákærða neitaði allri sök hjá lögreglu og kvaðst ekki hafa skipt á strikamerkjum í búðinni og hafi haft næga fjármuni til þess að greiða rétta upphæð fyrir kertastjakana.

II

Hér verða eftir þörfum raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.

Fyrir dómi neitaði ákærða sök og bar hafa þann 5. nóvember 2013 farið í verslun [...] í þeim tilgangi að kaupa bleyjur og aðrar nauðsynjavörur. Hafi hún einnig farið í sérvörudeild og keypt þar nokkra hluti. Þegar hún hafi verið komin á kassa hafi komið í ljós að trékubbar og skilti að henni minnti hafi verið ranglega verðmerktir of lágt og hafi hún bent afgreiðslukonu á það. Þegar hún hafi verið á leið út hafi hún síðan verið stöðvuð og ásökuð um þetta „rugl“. Beðin um að lýsa sápu sem mun hafa fundist í veski hennar, bar hún að þetta hafi verið litlar sápur í boxum. Hafi hún keypt þær áður í annarri búð í Garðabæ og verið með þær á leið til vinkonu sinnar og hafi önnur sápan verið notuð. Borið undir ákærðu skýrsla hennar hjá lögreglu bar ákærða að þar væri rétt eftir henni haft á þann hátt að hún hafi bent afgreiðslukonunni á rangar verðmerkingar. Spurð hvort hún hafi verið látin greiða fyrir sápurnar sem fundust í veski hennar kom fram að svo hafi ekki verið og þær verið teknar. Þá kom fram að ákærða teldi að mál þetta væri tengt forræðisdeilu á milli hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar, enda hafi hann vitað í smáatriðum um málið og einnig taldi ákærða að hugsanlega væru til myndbandsupptökur úr versluninni frá þessum degi.

Vitnið A, kom fyrir dóminn og bar að starfa sem öryggisvörður og húsvörður í verslun [...]. Starfskona að nafni B sem starfi í búsáhöldum hafi hringt í hann þar sem hún hafi verið búin að sjá konu sem hafi verið að skipta á verðmiðum á vörum. Hafi hann fylgt henni eftir og beðið eftir því að konan færi á kassa. Hafi starfsstúlka á kassa áttað sig á því hvað væri að gerast þegar „viskastykki“ var orðið að einhverju öðru. Ekki væri rétt að ákærða hafi bent afgreiðslukonunni á mistökin. Aðspurður hvort það væri algengt að vörur væru rangt verðmerktar bar vitnið að svo væri ekki, allavega ekki með þessum hætti. Hafi hann síðan stöðvað ákærðu þegar hún hafi verið komin fram fyrir kassa að hann minnti og farið með ákærðu inn á skrifstofu þar sem hringt var í lögreglu. Hafi ákærða verið mjög reið. Aðspurður hvort hann hafi séð þegar ákærða skipti á verðmiðum í versluninni mundi hann það ekki alveg, enda langt um liðið. Aðspurður um það sem fram komi í skýrslu lögreglu að hann hafi fylgst með ákærðu inni í versluninni þar sem hún hafi verið að eiga við kertastjaka og hafi hún tekið verðmiða af hnífaparasetti og sett á tvo kertastjaka, bar vitnið að þar væri rétt eftir honum haft, en langt væru umliðið og mörg mál komið upp á þessum tíma. Aðspurður hvernig það hafi verið athugað að sápur sem fundust hjá ákærðu hafi verið úr versluninni bar vitnið að hann teldi að [...] væru einir með þessar sápur. Þær væru ekki merktar [...] en varan hafi komið upp þegar hún var skönnuð. Aðspurt sagði vitnið að ekki væru myndavélar á því svæði sem um ræði í máli þessu. Vitnið mundi ekki hver hafa tekið „þýfið“ í þessu tilfelli, en það væri yfirleitt hann sjálfur, enda hafi ákærða ekki greitt fyrir vöruna.

Vitnið B, kom fyrir dóminn og bar að vera deildarstjóri gjafavöru í verslun [...]. Aðspurð sagðist hún ekki kannast neitt við ákærðu. Hafi hún séð konu koma inn í verslunina sem hafi verið að „dásama“ eitthvað. Síðan hafi ákærða tekið kertastjaka og sett í körfu. Hafi hún séð að það vantaði verðmiða á þá. Hafi hún þá litið á staðinn þar sem þeir höfðu verið og þá fundið verðmiðana þar. Aðspurð hvort hún hafi séð þegar ákærða skipti um verðmiða, bar vitnið að hafa séð þegar hún tók verðmiðana af kertastjökunum en hafi ekki séð þegar hún hafi sett aðra á. Hafi hún farið til ákærðu sem hafi rætt um lágt verð á vörum og vitnið þá tekið eftir því að það voru komnar teygjur á kertastjakana. Hafi hún verið fljót að finna hvar ákærða hefði fengið teygjurnar, enda ekki margir hlutir með þesskonar verðmiða, en um hafi verið að ræða miða af hnífapörum. Hafi hún látið öryggisvörð vita. Síðar hafi verið kallað á hana þegar ákærða var komin á kassa og hafi kassastúlkan þá tekið eftir því að kertastjaki hafi verið merktur sem hnífur eða gaffall og hafi munað nokkru í verði. Enn hafi verið kallað á hana og þá hafi annar hlutur verið með allt öðru heiti en hún hafi ætlað að kaupa. Hafi ákærða rætt um það hvað fólk væri duglegt að skipta um verðmiða í búðinni og vitnið upplifði það þannig að ákærða hafi talið að hún hafi ekki komið neitt nálægt því. Aðspurð hvort það kæmi fyrir að vörur væru ranglega verðmerktar bar vitnið að það gæti komið fyrir en eins og þessu tilfelli hafi verðmiði af „Takk tusku“ verið kominn á gjafavöru og það gæti ekki ruglast í kerfi verslunarinnar. Aðspurð um sápur kvaðst vitnið ekki hafa komið nálægt því og vissi ekki hvað hafi orðið af kertastjökunum. Þá bar vitnið að ekki væru myndavélar í þessum hluta verslunarinnar.

Vitnið C, lögreglumaður, staðfesti frumskýrslu sína í málinu og bar fyrir dómi að hafa verið sendur í verslun [...] þann 5. nóvember 2013 vegna þess að kona hafi verið að stela að sögn starfsmanna. Hafi öryggisvörður upplýst lögreglu að ákærða hafi verið að skipta á verðmiðum og einnig hafi hún verið með tvær sápur í töskunni sem tilheyrðu versluninni. Hafi sápunum verið skilað og eftir útreikning hafi vantað nokkur þúsund krónur. Spurður um umbúðir sápunnar kom fram að þær hafi verið í áldósum og minnti vitninu að þær hafi einnig verið í plasti. Hafi ákærða borið að hafa komið með þær í verslunina. Hafi sápunum og kertastjökunum verið skilað í verslunina, enda hafi vörurnar verið óskemmdar og þeim því alltaf skilað. Lögreglan haldi aðeins eftir strimli um verðmæti vörunnar.

Vitnið D, lögreglumaður, gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar aðspurður að hafa verið kallaður til vegna þjófnaðar, þar sem verðmiði hafi verið tekinn af kertastjökum og settir aðrir verðmiða á, að hann minnti. Síðan hafi lögreglan einnig fundið að hann minnti kremdósir. Spurður hvort það gætu hafa verið sápur taldi vitnið að svo væri, en mundi ekki í hvernig umbúðum þær hafi verið. Taldi vitnið aðspurt að þær hafi verið í umbúðum og ónotaðar. Hafi sápurnar verið skannaðar í þeim tilgangi að athuga hvort þær tilheyrðu versluninni. Hafi verslunin tekið vörurnar eins og vant væri í svona málum.

III

Ákærða neitaði sök. Meint brot ákærðu eru annars vegar talin varða við 248. gr. almennra hegningarlaga fyrir þá háttsemi að skipta um verðmiða á vörum og þannig hafi hún blekkt afgreiðslukonu verslunarinnar þegar hún greiddi fyrir vörurnar og hins vegar fyrir þjófnað samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga, með því að stela tveimur sápustykkjum.

Um fyrri háttsemi ákærðu um meint fjársvik hefur ákærða borið bæði fyrir dómi og fyrir lögreglu að hún hafi ekki skipt á verðmiðum og hafi bent afgreiðslukonu á mistökin og er ákærða trúverðug að þessu leyti. Á móti kemur að starfsmaður sem kvaðst hafa fylgst með ákærðu á kassa bar að afgreiðslukonan hafi sjálf áttað sig á mistökunum ekki ákærða. Þá virðist sem ýmsir hlutir í innkaupakörfu ákærðu hafi verið ranglega verðmerktir svo sem trékubbar og skilti auk þeirra kertastjaka sem ákært er fyrir í máli þessu og báru vitni að ekki væri mögulegt að verðmerkingar gætu ruglast á milli deilda verslunarinnar eins og reyndin var í einhverjum tilfellum. Í skýrslu lögreglu kemur fram að tvö vitni, starfsmenn [...] hafi séð ákærðu vera að athafna sig með því að taka verðmiða af hnífapörum og setja á kertastjaka. Fyrir dómi bar vitnið A spurður hvort hann hafi séð þegar ákærða skipti á verðmiðum í versluninni að hann myndi mundi það ekki alveg, enda langt um liðið, en það sem kæmi fram í skýrslu lögreglu væri rétt. Vitnið B bar fyrir dómi að hafa séð þegar ákærða tók verðmiðana af kertastjökunum en hafi ekki séð þegar hún hafi sett aðra á. Er framburður vitna ekki að öllu leyti staðfastur en horfa verður til þess að nokkuð er um liðið og þá hafa vitnin borið fyrir dómi að hafa séð þegar ákærða tók verðmiðana af kertastjökunum.

Er það er mat dómsins að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa, að atburðir hafi verið með þeim hætti sem í ákæru greinir og verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi. Er háttsemin réttilega heimfærð til  248. gr. almennra hegningarlaga.

Um seinni háttsemi ákærðu um þjófnað, hefur ákærða borið að hafa verið með sápurnar í töskunni þegar hún kom í verslunina og hafi önnur sápan verið notuð. Hafi hún keypt sápurnar áður í annarri verslun. Vitni sem kom fyrir dóminn taldi að umræddar sápur væru eingöngu seldar í [...] og gaf skönnun það til kynna að sápurnar væru til sölu í versluninni. Ekki hefur annað verið leitt í ljós í máli þessu en að sápurnar hafi verið ónotaðar og bæði í áldósum og plasti. Þá hefur ákærða þrátt fyrir framburð sinn um að hafa keypt sápurnar í annarri verslun ekki gert það sennilegt með neinum hætti svo sem framvísun kvittunar frá þeirri verslun.

Er það er mat dómsins að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa, að atburðir hafi verið með þeim hætti sem í ákæru greinir og verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi. Er háttsemin réttilega heimfærð til  244. gr. almennra hegningarlaga.

IV

Ákærða er fædd í september 1977. Samkvæmt sakavottorði ákærðu hefur henni tvisvar sinnum áður verið gerð refsing. Þann 2. desember 2010 var ákærða dæmd til greiðslu sektar fyrir þjófnað. Þann 13. júní 2013 gekkst hún undir sátt með greiðslu sektar fyrir eignaspjöll. Dómur yfir ákærðu þann 2. desember 2010 hefur ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú skv. 255. gr. almennra hegningarlaga.

Þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga sem verður bundin skilorði svo sem í dómsorði greinir.

V

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærðu til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns fyrir dóminum, Þuríðar Halldórsdóttur hdl., 244.725 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar getur um í dómsorði.

Ekki hlaust annar sakarkostnaður af máli þessu.  

Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari

D ó m s o r ð:

Ákærða, Jóna Sigurbjörg Guðmundsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir dóminum, Þuríðar Halldórsdóttur, héraðsdómslögmanns, 244.725 krónur.