Hæstiréttur íslands

Mál nr. 322/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Miðvikudaginn 14

 

Miðvikudaginn 14. júní 2006.

Nr. 322/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Böðvar Bragason lögreglustjóri)

gegn

X

(Anna Ragnhildur Halldórsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X sætti nálgunarbanni gagnvart A og heimili hennar samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en ekki þótti ástæða til að nálgunarbannið næði einnig til heimilis foreldra A.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2006, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði breytt á þá leið, að varnaraðila verði ekki gert að sæta nálgunarbanni hvað varðar heimili foreldra A að B. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður á báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða að fyrir hendi séu skilyrði til að varnaraðili sæti nálgunarbanni gagnvart A. Þykja ekki efni standa til að það nái sérstaklega til heimilis foreldra hennar. Verður hinn kærði úrskurður að öðru leyti staðfestur.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða allan kostnað af kærumáli þessu eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að frátöldu ákvæði hans um að nálgunarbann skuli ná til B.

Varnaraðili, X, greiði allan kostnað af kærumáli þessu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda, Önnu Ragnhildar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 50.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist þess 28. apríl sl., fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000. Ekki tókst að birta honum kvaðningu um að mæta fyrir dóm, en hann mætti án kvaðningar í þinghald 8. júní sl.

Þess er krafist að X verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [kt.], að C, og heimili foreldra hennar að B, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis nefnd hús, og jafnframt að lagt verði bann við því að hann veiti henni eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi til hennar eða setji sig á annan hátt í samband við hana.

Varnaraðili, X krefst þess að synjað verði um kröfuna. Til vara er þess krafist að bannið verði takmarkað við að varnaraðili komi á eða í námunda við heimili A að C. Jafnframt verði nálgunarbanni markaður skemmri tími. Til þrautavara er þess krafist að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá er krafist málsvarnalauna.

I.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að A kveðst hafa kynnst varnar-aðila í lok ársins 2000 og hafi hann flutt inn á heimili foreldra hennar sumarið 2002, þar sem hún hafi þá búið. Hún segist hafa keypt sér íbúð í húsinu nr. [...] við C hér í borg en þangað hafi hún og varnaraðili flutt í árslok 2002. Þar hafi þau búið þar til sambandi þeirra lauk í febrúar 2004, en þau hafi þó aldrei verið skráð í sambúð. Þegar sambandi þeirra lauk hafi hún verið barnshafandi og hafi sonur þeirra, D, fæðst 11. október 2004. A kveðst fara ein með forræði barnsins. Varnaraðili hafi ekki umgengnisrétt við barnið þar sem hann hafi ekki virt bráðabirgðasamkomulag sem gert hafi verið hjá sýslumanni í janúar sl. Samkomulaginu hafi því verið rift en umgengnismálið sé nú til meðferðar hjá sýslumanni.   

Vísað er til þess að hjá lögreglunni í Reykjavík séu nokkrar kærur A á hendur varnaraðila til rannsóknar og afgreiðslu. Þá séu nokkrar bókanir í dagbók lögreglu vegna tilkynninga hennar um ónæði og brot hans gagnvart henni.   

Mál nr. 010-2005-[...].

Hinn 2. nóvember 2005 hafi A óskað aðstoðar lögreglu vegna ofsókna varnaraðila sem hún kvað hafa staðið í margar vikur. Bókað sé í dagbók lögreglu að um ágreining vegna umgengni væri að ræða og hafi varnaraðili tjáð lögreglumönnum að hann ætlaði að leita aðstoðar lögfræðings.

Mál nr. 010-2005-[...]:

Hinn 7. nóvember 2005 hafi A óskað eftir að fært yrði í dagbók lögreglu að varnaraðili væri að ofsækja hana og að hann hafi stuttu áður elt hana úr miðbænum að heimili foreldra hennar og meinað henni inngöngu í íbúðina.

Mál nr. 010-2005-[...]:

Hinn 15. nóvember 2005 hafi A óskað eftir aðstoð lögreglu á heimili sitt þar sem varnaraðili sæti um hana. Í dagbók lögreglu sé bókað eftir henni að varnaraðili hringi reglulega í hana og hefði í hótunum um að berja gesti hennar.

Mál nr. 010-2005-[...]:

Hinn 16. nóvember 2005 hafi A óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem varnaraðili hefði ruðst í heimildarleysi inn á heimili hennar. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafi móðir A, sem stödd var á heimili hennar, tjáð lögreglunni að varnaraðili væri farinn.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Hinn 8. janúar 2006 hafi A óskað eftir aðstoð lögreglu við að koma varnaraðila út úr íbúð sinni, en hann hefði ruðst þangað inn í heimildarleysi.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Hinn 16. janúar sl. hafi A lagt fram kæru á hendur varnaraðila fyrir líkamsárás þann 13. s.m. Hafi A greint svo frá atvikum að hún hafi verið stödd á heimili sínu en barnið hafi verið sofandi í barnavagni utan dyra. Hún segist hafa heyrt að barnið rumskaði og hafi hún farið út til að huga að því. Varnaraðili hafi þá staðið við barnavagninn og tilkynnt henni að hann ætlaði að taka barnið. Hún kveðst hafa neitað því en hann hafi hrint henni og tekið barnið. Hún kveðst hafa fengið hann til að koma inn í íbúðina til að ná í barnabílstól en hún hafi haft í hyggju að komast inn til að hringja á lögreglu. Varnaraðili hafi komið í veg fyrir að hún hringdi í lögregluna og hafi hann beitt hana frekara ofbeldi. Vinkona hennar sem stödd hafi verið á heimilinu hafi hins vegar hringt í lögregluna og hafi lögreglumönnum tekist að telja varnaraðila á að skila barninu.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Hinn 1. febrúar sl. hafi A kvatt lögregluna að heimili sínu og óskað eftir nærveru hennar þar sem hún óttaðist að varnaraðili beitti hana ofbeldi þegar hann kæmi og skilaði barni þeirra.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Hinn 4. febrúar sl. hafi A kvatt lögregluna að heimili foreldra hennar þar sem varnaraðili hafi hringt dyrabjöllu heimilisins í sífellu. Lögreglumenn sem sinntu útkallinu hafi ekið varnaraðila til síns heima.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Að kvöldi 26. febrúar sl. hafi A óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem einhver væri að reyna að komast inn í íbúð hennar. Hafi hún sagt vera búin að loka sig inn á salerni íbúðar sinnar en barn hennar væri sofandi inn í herbergi. A hafi sagst telja víst að varnaraðili hefði verið þarna á ferð en þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi viðkomandi verið farinn á brott.

Mál nr. 010-2006-[...]:

A hafi komið á lögreglustöð 3. mars sl. og kært varnaraðila fyrir líkamsárás. Hafi hún greint svo frá atvikum að hún hafi komið heim til sín um hádegisbil þann 28. febrúar sl. Hún kvaðst hafa fengið sér að borða, setið við tölvu sína og loks hringt í vinkonu sína þegar hún hafi orðið vör við að varnaraðili hafi komið út úr svefnherbergi hennar og ráðist á hana. Hann hafi hrint henni í sófa, sest ofan á hana, tekið fyrir vit hennar og slegið hana ítrekað. Varnaraðili hafi tjáð henni að þau þyrftu að ræða um deilur sínar um umgengni við barnið og hafi þau rætt saman í 30-40 mínútur, en í því samtali hafi varnaraðili tjáð henni að hann fylgdist með henni og hafi hótað henni því að eitthvað hræðilegt myndi gerast ef hún hitti aðra karlmenn.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Óskað hafi verið aðstoðar lögreglu að heimili foreldra A að morgni 26. apríl sl. þar sem varnaraðili hefði reynt að nema barn þeirra á brott. A og faðir hennar hafi greint svo frá að A hafi verið á leið með barnið á leikskóla en varnaraðili hafi setið fyrir henni fyrir utan húsið, þrifið barnið af henni og sett það inn í bifreið sína. E, faðir A, hafi séð til hans og hlaupið út. Er E hafi komið að bifreið kærða hafi kærði hrint honum í götuna. Til ryskinga hafi komið á milli þeirra en A getað notað tækifærið á meðan og náð barninu út úr bifreiðinni og farið með það inn í húsið.

Lögreglan telur að bókanir í dagbók lögreglu og fyrirliggjandi rannsóknargögn beri með sér að varnaraðili hafi ítrekað brotið gegn A, raskað friði hennar og valdið henni miklum ótta. Kærur hennar og tilkynningar til lögreglu lúti að því að hann hafi ítrekað ruðst í heimildarleysi inn á heimili hennar, beitt hana ofbeldi, fylgt henni eftir og gert henni fyrirsát, auk þess sem hann hafi ítrekað gert tilraun til að svipta hana forsjá barnsins. A beri að henni standi mikill stuggur af varnaraðila og háttsemi hans. Vegna ótta hennar hafi hún flutt inn á  heimili foreldra hennar þar sem hún treysti sér ekki lengur til að búa ein í íbúð sinni að C. Af fyrirliggjandi gögnum verði ekki ráðið að varnaraðili hafi í hyggju að láta af háttsemi sinni gagnvart A heldur virðist hann þvert á móti vera að færast í aukana og virðist varnaraðila fyrirmunað að virða þá sjálfsögðu ósk hennar að friði hennar sé ekki raskað. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið hér að framan telji lögreglan að rökstudd ástæða sé til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot og raska á annan hátt friði A og því sé nauðsynlegt að hann sæti nálgunarbanni. 

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 110. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, er þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

II.

Í greinargerð varnaraðila kemur fram að þar sem hann og A hafi aldrei verið skráð í sambúð hafi hún farið með forsjá sonar þeirra allt frá fæðingu. Varnaraðili hafi  þó mikið verið með barnið allt frá fæðingu þess og verið m.a. með barnið alla virka daga, um nokkurt skeið, á meðan konan stundaði nám sitt. Hafi hann og hún verið í miklum og nánum samskiptum allt fram í október sl. Þannig hafi hann heimsótt hana á [...] síðastliðið sumar og dvalið þar hjá henni og barninu í eina viku.

Varnaraðili segir að í október sl. hafi samskipti þeirra farið að versna, einkum eftir að í ljós hafi komið að konan hafi verið að hitta annan mann, m.a. á meðan varnaraðili gætti barnsins og vissi ekki betur en konan væri að sækja kennslustundir. Upp úr því hafi konan farið að meina varnaraðila að hitta son þeirra. Hafi varnaraðili því fljótlega lagt fram beiðni við embætti sýslumannsins í Reykjavík um umgengni við barnið. Hafi varnaraðila verið boðin sérfræðiráðgjöf vegna meðferðar málsins, sem hann hafi þegið. Málið hafi verið í biðstöðu meðan á ráðgjöf stóð en 24. janúar sl. hafi náðst samkomulag til bráðabirgða hjá sálfræðingi embættisins, sem skyldi gilda í tvo mánuði. Konan hafi þó brotið samkomulagið mjög fljótlega, án þess að gefa fyrir því neinar ástæður er vörðuðu velferð barnsins. Í ljósi þessa hafi varnaraðili krafist þess að sýslumaður úrskurðaði í málinu. Konan hafi hins vegar krafist þess að umgengni yrði undir eftirliti barnaverndaryfirvalda vegna meintra ofsókna varnaraðila í hennar garð. Af þeim sökum hafi málinu verið vísað til Barnaverndar Reykjavíkur til umsagnar og sé umgengnismálinu ólokið. 

Þá segir að konan hafi nú meinað varnaraðila með öllu að hitta barnið um allt að fjögurra mánaða skeið. Varnaraðili mótmælir fullyrðingum hennar um að hann hafi ekki umgengnisrétt við barnið þar sem hann hafi ekki virt bráðabirgðasamkomulag sem gert hafi verið hjá sýslumanni í janúar og því verið rift. Varnaraðili telur sig eiga á skýlausan umgengnisrétt við barnið, og barnið við hann, lögum samkvæmt. Það sé ekki á valdi konunnar að fella þann rétt niður með einhliða ákvörðun sinni. 

Varnaraðili greinir síðan frá atvikum, sem tilkynnt hafi verið til lögreglu, eins og þau horfa við honum. 

Mál nr. 010-2005-[...]:

Í þessu tilviki hafi varnaraðili hafa komið til konunnar í því skyni að ræða við hana um umgengni hans og sonar þeirra. Konan hafi hins vegar ekki viljað ræða málið og kallað lögreglu til og haldið því fram að varnaraðili hefði haft uppi ofsóknir í hennar garð í margar vikur. Er lögregla hafi komið á staðinn hafi varnaraðili greint lögreglu frá því að þau deildu um umgengnisrétt hans og barns þeirra og hygðist hann leita sér aðstoðar lögfræðings vegna þess. Hafi hann farið sjálfviljugur á brott við svo búið. Ekkert í dagbókarfærslu lögreglu eða öðrum gögnum málsins styðji þær fullyrðingar konunnar að varnaraðili hafi verið að ofsækja hana eða hóta henni.

Mál nr. 010-2005-[...]:

Varnaraðili mótmælir því að hafa elt konuna frá miðbænum og meinað henni inngöngu í íbúð hennar með því að hefta för hennar. Ekkert liggi fyrir í dagbókarfærslu lögreglu eða öðrum gögnum málsins sem stutt geti þessar fullyrðingar konunnar.

Mál nr. 010-2005-[...]:

Varnaraðili kannast aðeins við að hafa reynt að ná tali af konunni símleiðis til að ræða við hana um umgengni hans og barns þeirra. Hann kannast ekki við að hafa setið um konuna, ofsótt með stöðugum símhringingum eða hótað að berja gesti hennar. Ekkert liggi fyrir í dagbókarfærslu lögreglu eða öðrum gögnum málsins sem styðji fullyrðingar konunnar.

Mál nr. 010-2005-[...]:

Varnaraðili kannast alls ekki við að hafa komið óvelkominn á heimili konunnar í þessu tilviki. Hann hafi komið á heimili hennar í einhver skipti um þessar mundir, í því skyni að sækja barnið, þegar konan hafi heimilaði honum það. Í eitt skipti hafi hann komið að ósk konunnar sjálfrar til að gera við tölvu hennar. Ekkert liggi fyrir í frumskýrslu lögreglu eða öðrum gögnum málsins sem styðji fullyrðingar konunnar. Þannig hafi varnaraðili hvorki verið á vettvangi er móðir konunnar hafi komið þangað, né þegar lögreglumenn hafi komið á staðinn. Varnaraðili segir að í skýrslu lögreglu komi hvergi fram að hann hafi „ruðst” í heimildarleysi inn á heimili hennar. Komi þar heldur ekki skýrt fram hvar í húsinu varnaraðili hafi verið staddur þegar konan á að hafa hitt hann fyrir. Samkvæmt upplýsingum konunnar hafi varnaraðili eingöngu lykil að íbúð hennar, ekki að útidyrahurð hússins. Útidyrahurðin sé alltaf læst og ekki hægt að komast inn í húsið án þess að hafa lykil. Varnaraðili bendir á að samkvæmt skýrslu lögreglu hafi engin ummerki verið um innbrot.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Varnaraðili kannast alls ekki við að hafa ruðst inn á heimili konunnar í heimildarleysi. Ekkert liggi fyrir í dagbókarfærslu lögreglu eða öðrum gögnum málsins sem styðji þessar fullyrðingar konunnar.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Varnaraðili kveðst hafa farið að heimili konunnar í því skyni að óska eftir því að fá að sjá son sinn, sem hann hafi þá ekki fengið að sjá um nær þriggja vikna skeið. Hann hafi séð vagn barnsins fyrir utan húsið og því athugað með barnið. Hafi það þá verið vaknað og hann því ætlað að taka barnið upp. Þá hafi konan  ætlað að ryðjast fram hjá sér og að barninu, sem hann hafi þá verið kominn með í fangið. Þá hafi konan boðið honum að koma upp í íbúðina til sín. Hafi hún ekki nefnt að það væri í því skyni að láta hann fá bílstól fyrir barnið, enda hafi varnaraðili vitað að bílstóllinn væri geymdur í bíl konunnar. Hann hafi þegið boðið enda gert ráð fyrir að konan hefði í hyggju að ræða við hann um umgengni hans og barnsins. Þegar inn í íbúðina hafi verið komið hafi konan læst hurðinni og ætlað að meina honum útgöngu. Um leið hafi hún beðið vinkonu sína, sem stödd hafi verið í íbúðinni, að hringja á lögregluna. Varnaraðili neitar því alfarið að hafa ráðist á konuna. Þar sem hún hafi varnað honum útgöngu hafi hann talið sig tilneyddan að ýta henni frá hurð til að komast út með barnið, og hafi hann gert það. Fullyrðingum um ofbeldi af hans hálfu í garð konunnar er vísað á bug sem haldlausum. Lögregla hafi verið kvödd á vettvang og eftir að hafa rætt við hana hafi varnar-aðili skilað barninu með góðu.

Varnaraðili vísar til þess þegar á konuna hafi verið gengið við skýrslugjöf hjá lögreglu, um að lýsa hinni meintu árás nánar, þá hafi hún ekki treyst sér til þess.

Varnaraðili telur að í þessu tilviki hafi hann grunlaus þegið boð konunnar um að koma inn í íbúð hennar til að ræða málin, en konan hafi hins vegar séð sér leik á borði og ætlað sér að haga aðstæðum þannig að réttlætt gæti fyrri tilefnislausar tilkynningar hennar til lögreglu um ónæði af hans hálfu. 

Mál nr. 010-2006-[...]:

Í því tilviki hafi varnaraðili haft umgengni við barnið og verið á leið að skila því til konunnar, er hún hafi hringt í lögreglu og óskað eftir því að lögregla yrði þá viðstödd, að því er virðist af engu tilefni, enda komi fram í dagbókarfærslu lögreglu að barninu hafi verið skilað í góðu.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Í því tilviki hafi varnaraðili átt, samkvæmt áðurnefndu samkomulagi, umgengni við barnið og því komið að heimili foreldra konunnar og hringt þar dyrabjöllu, þar sem hann hafi vitað að konan og barnið væru þar stödd. Er lögregla hafi komið á staðinn hafi varnaraðili farið með henni í góðu. Ljóst sé að í þessu tilviki hafi konan hamlað umsömdum og lögmæltum umgengnisrétti varnaraðila og barns þeirra.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Varnaraðili kveður að ekkert liggi fyrir í dagbókarfærslu lögreglu eða öðrum gögnum málsins sem stutt geti þessar fullyrðingar konunnar og vísar varnaraðili þeim á bug sem haldlausum með öllu. Varnaraðili segir að konan lýsi því ranglega yfir við lögreglu að hún hafi þá verið búin að fá sett á varnaraðila nálgunarbann.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Varnaraðili segir að hann hafi ekki fengið að sjá barnið um alllangt skeið. Hann vísar því á bug með öllu að hafa farið heimildarlaust inn íbúð konunnar, beðið þar eftir henni og ráðist á hana. Hann hafi farið að heimili konunnar í því skyni að ræða við hana um umgengnismálið, þar sem hún hafi ekki svarað símtölum hans. Er hún hafi komið að hafi hún hins vegar ekki viljað ræða við hann og forðast hann. Hafi hann reiðst og tekið í hana og haldið henni, en hann hafnar því með öllu að hafa beitt hana nokkru ofbeldi. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins sem stutt geti fullyrðingar konunnar um árás af hálfu mannsins, inni í íbúð hennar.

Mál nr. 010-2006-[...]:

Varnaraðili vísar til framlagðrar framburðarskýrslu hans um atvik þetta, en jafnframt kæruskýrslu hans vegna sama atviks. Hann kannast ekki við að hafa ætlað að þvinga fram umgengni við barn sitt, en neitar með öllu að hafa ráðist á föður konunnar. Þvert á móti hafi faðirinn ráðist á hann með ofbeldi.

Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt a-lið 110. gr. laga um meðferð opinberra mála verði að vera til staðar rökstudd ástæða til að ætla að maður muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði annars manns. Varnaraðili telur skilyrði laganna langt í frá uppfyllt og beri því að synja um nálgunarbann.

Um varakröfu segir að engin rök séu til þess að tálma manninum för í námunda við foreldra hennar. Aðeins sé um að ræða eitt tilvik þar sem varnaraðili hafi nálgast konuna og barnið á því svæði, og eins og áður sé komið fram hafi varnaraðili sjálfur lagt fram kæru vegna þess tilviks. Þá telur varnaraðili ekki nauðsynlegt að marka banni svo langur tími sem krafist sé, þar sem nú þegar sé liðinn um einn og hálfur mánuður frá síðasta tilviki sem hafi átt sér stað, sem tilgreint sé í kröfunni. Hafi engin tilvik um að varnaraðili setji sig í samband við konuna komið upp síðan.

Varnaraðili styður þrautavarakröfu sína sömu rökum og hér að framan. 

Varnaraðili telur að konan hafi ítrekað tilkynnt, algjörlega að tilefnislausu, um ofsóknir og ofbeldi af hans hálfu í hennar garð. Tilkynningarnar hafi farið að berast fljótlega eftir að deilur aðila byrjuðu og konan farið að tálma umgengni varnaraðila við barn þeirra, án nokkurs tilefnis. Telur hann sýnt að konan hafi gert þetta í því skyni að koma í veg fyrir að hann fái notið lögmæts umgengnisréttar síns við barn sitt. Framlögð gögn málsins renni styrkum stoðum þar undir, en samkvæmt þeim hafi lögregla ítrekuð verið kvödd á vettvang að tilefnislausu. Þá séu engin vitni til staðar er staðfest geti fullyrðingar konunnar um atvik. Þó lög um meðferð opinberra mála setji ekki það skilyrði fyrir nálgunarbanni að sannast hafi sök varnaraðila í opinberu máli þá verði að hafa í huga að um sé að ræða afar íþyngjandi þvingunarráðstöfun sem gangi gegn stjórnarskrárbundnum réttindum varnaraðila. Verði krafa því að vera studd haldgóðum og áreiðanlegum gögnum svo fallast megi á hana og verði að gera ríkar kröfur í þeim efnum. Gögn máls þessa uppfylli ekki þær kröfur. Þá áréttar  varnaraðili að um einn og hálfur mánuður sé liðinn frá síðasta tilvikinu sem vísað sé til í kröfu lögreglu. Hafi varnaraðili í öllu virt þau tilmæli lögreglu að setja sig ekki á nokkurn hátt í samband við konuna. Ekki sé því nokkurt tilefni til að grípa til svo viðurhlutamikilla þvingunarráðstafana, sem hér sé gerð krafa um. 

III.

Eins og gögn málsins bera með sér eiga varnaraðili og A í deilum um umgengi hans við son þeirra. Er umgengnismál til meðferðar hjá sýslumanninum í Reykjavík. A er ein til frásagnar um margt það sem gerst hefur í samskiptum þeirra. Þegar virtur er framburður vitna um suma atburði og með vísan til rannsóknargagna, og þess sem fram er komið í málinu, þykir hins vegar vera rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili muni raska friði A og jafnvel brjóta gegn henni meðan deilur þeirra um umgengni eru enn til meðferðar. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík með heimild í a-lið 110. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000. Dómurinn telur þó ástæðu til að marka banninu skemmri tíma og mælist til þess að það verði endurskoðað þegar fyrir liggur niðurstaða sýslumanns í umgengnismálinu, verði það áður en bannið fellur niður.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber varnaraðila að greiða allan sakarkostnað þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Önnu Ragnhildar Halldórsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Sandra Baldvinsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Varnaraðila, X, [kt. og heimilisfang], er í 3 mánuði frá og með uppkvaðningu úrskurðar þessa bannað að koma á eða í námunda við heimili A, [kt.], að C, og heimili foreldra hennar að B, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis nefnd hús. Einnig er lagt bann við því að X veiti henni eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi til hennar eða setji sig á annan hátt í samband við hana.

Varnaraðili greiði allan sakarkostnað þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Önnu Ragnhildar Halldórsdóttur hdl., 100.000 krónur.