Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2017

Þrotabú Gyðu Brynjólfsdóttur (Einar Hugi Bjarnason hrl.)
gegn
Ystaseli 28 ehf. (Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu þb. G á hendur Y ehf. um að félaginu yrði gert að afsala til búsins tiltekinni fasteign. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að eftir að G hafði afsalað fasteigninni til Y ehf. hefði hún verið veðsett yfir verðmæti sitt. Lægi þannig fyrir að yrði fallist á framangreinda kröfu þb. G væru áhvílandi á eigninni nýjar skuldir Y ehf. sem næmu hærri fjárhæð en aðilar teldu vera markaðsvirði hennar. Skorti þb. G því lögvarða hagsmuni af því að fá fasteigninni afsalað til sín.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. janúar 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um að honum yrði gert að afsala til sóknaraðila fasteigninni Ystaseli 28 í Reykjavík. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Gyðu Brynjólfsdóttur, greiði varnaraðila, Ystaseli 28 ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017.

Mál þetta, sem höfðað var 2. maí sl., var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda, Ystasels 28 ehf., Ystaseli 28, Reykjavík, 14. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi. Stefnandi málsins er þrotabú Gyðu Brynjólfsdóttur, Ystaseli 28, Reykjavík, sem mótmælir kröfu stefnda um frávísun. Báðir aðilar hafa uppi kröfu um málskostnað.

Bú Gyðu Brynjólfsdóttur var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 18. nóvember 2015. Málið hefur skiptastjóri, fyrir hönd þrotabúsins, höfðað til riftunar á sölu þrotamanns á fasteigninni að Ystaseli 28, Reykjavík, til stefnda samkvæmt afsali 13. febrúar 2015, en söluverð samkvæmt afsalinu nam 54 milljónum króna. Taldist það að fullu greitt samkvæmt afsalinu, en kaupandi tók yfir áhvílandi veðskuldir á fyrsta veðrétti við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, upphaflega að fjárhæð fjórar milljónir króna, veðskuldir á öðrum veðrétti við Íslandsbanka hf., upphaflega að fjárhæð 12.411.000 krónur, og veðskuldir á þriðja veðrétti sem voru fjögur tryggingarbréf til handhafa, samtals að fjárhæð 32 milljónir króna. Aðrar áhvílandi veðkröfur voru sagðar greiddar upp við afsalið. 

Í efnisþætti málsins krefst stefnandi þess að rift verði með dómi fyrrgreindri ráðstöfun og, aðallega, að stefndi verði dæmdur til að afsala fasteigninni til stefnanda, en  til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 54 fjórar milljónir króna , ásamt nánar tilteknum dráttarvöxtum. Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að um hafi verið að ræða gjafagerning til nákomins aðila samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Það sé rangt sem staðhæft sé í afsalinu að kaupverðið hafi verið að fullu greitt og stefndi yfirtekið áhvílandi veðskuldir. Þá liggi ekkert fyrir um að raunverulegar skuldir búi að baki þeim fjórum tryggingarbréfum sem hvíldu á eigninni og liggi beinast við að álykta að um málamyndagerninga hafi verið að ræða. Í öllu falli verði að leggja til grundvallar að áhvílandi skuldir hafi verið miklu lægri en verðmæti fasteignarinnar. Krafa um afhendingu fasteignarinnar byggist á 144. gr. laga nr. 21/1991 og er vísað til þess að ekkert sé því til fyrirstöðu að eigninni sé skilað. Greiðslukrafa stefnanda byggist á 142. gr. sömu laga.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu í efnisþætti málsins. Er í meginatriðum vísað til þess að um hafi verið að ræða sölu eignarinnar á eðlilegu verði. Lögð er á það áhersla að eignin hafi verið yfirveðsett og hafi ráðstöfunin með engum hætti leitt til þess að eignin hafi ekki staðið veðhöfum eða öðrum kröfuhöfum til fullnustu. Því er mótmælt að ekki hafi verið raunverulegar skuldir að baki áðurgreindum tryggingarbréfum.

Frávísunarkrafa stefnda er í meginatriðum á því reist að eignin sé yfirveðsett. Ef fallist yrði á aðalkröfu stefnanda í málinu hefði það því engin áhrif á hag þrotabúsins eða veðhafa Ystasels 28. Málsókn stefnanda hafi því ekki að markmiði að leysa úr raunverulegum ágreiningi og skorti stefnanda lögvarða hagsmuni af kröfu sinni. Þessum sjónarmiðum er mótmælt af hálfu stefnanda.

 

Niðurstaða

Ekki er um það deilt að söluverð fasteignarinnar að Ystaseli 28 nam 54 milljónum króna við afsal hennar til stefnda 13. febrúar 2015. Ekki er heldur um það ágreiningur að téð verð hafi verið eðlilegt markaðsverð. Af gögnum málsins verður dregin sú ályktun að þegar bú Gyðu Brynjólfsdóttur var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 18. nóvember 2015 hafi þær veðskuldir sem fram komu í afsali, og áður er gerð grein fyrir, enn verið áhvílandi á eigninni. Samkvæmt nýlegu þinglýsingavottorði sem stefndi hefur lagt fram hvílir hins vegar nú á fasteigninni, á fyrsta veðrétti, veðskuld að fjárhæð 45 milljón króna við ALM verðbréf hf., áðurgreind tryggingarbréf að fjárhæð 32 milljónir og loks veðskuld við ARM Securities Ltd. að fjárhæð 35 milljónir króna. Veðskuldir á fyrsta og þriðja veðrétti voru stofnaðar eftir að búið var tekið til gjaldþrotaskipta og eru skjöl vegna þeirra árituð um mótttöku til þinglýsingar eftir útgáfu stefnu málsins.

Jafnvel þótt horft sé fram hjá umræddum fjórum tryggingarbréfum, sem stefnandi telur enga skuld standa á bakvið, er samkvæmt áðurgreindu ljóst að eftir söluna til stefnda hefur eignin verið veðsett langt umfram verðmæti sitt. Liggur þannig fyrir að ef fallist yrði á aðalkröfu stefnanda þess efnis að eigninni yrði afsalað aftur til hans væru áhvílandi á eigninni nýjar skuldir stefnda sem næmu hærri fjárhæð en það sem aðilar telja vera markaðsverð hennar. Verður því að fallast á það með stefnda að stefnanda, sem þrotabú, skorti lögvarða hagsmuni af því að fá eigninni afsalað til sín, eins og atvik málsins liggja nú fyrir. Er því óhjákvæmilegt að vísa kröfu stefnanda þar að lútandi frá dómi af þessum sökum.

Varakrafa stefnanda, samhliða kröfu um riftun, gerir ráð fyrir því að stefndi greiði fjárhæð sem svarar til verðmæti fasteignarinnar með vísan til 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Svo sem áður greinir byggist krafan á því að ekkert endurgjald hafi komið fyrir eignina úr hendi stefnda en því er þó hreyft í stefnu að þær skuldir sem stefndi yfirtók hafi í öllu falli verið mun lægri en raunverulegt verðmæti eignarinnar.

Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu kom fram af hálfu stefnda að hann hefði í reynd tekið yfir öll framangreind lán sem vísað væri til í afsali. Þar sem hann, sem einkahlutafélag hafi ekki getað tekið yfir húsnæðislán á fyrsta og öðrum veðrétti, hafi verið tekið nýtt lán til þess að greiða þessi lán upp og væri þar um að ræða þá veðskuld að fjárhæð 45 milljónir króna við ALM verðbréf hf. sem nú hvílir á fyrsta veðrétti eignarinnar. Við munnlegan flutning var einnig staðfest að hvorki Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins né Íslandsbanki hf. væru meðal kröfuhafa í búinu og væri líklega ástæða þess að veðskuldir við þá hefðu verið greiddar upp. Með hliðsjón af þessu útilokaði skiptastjóri ekki að frekari könnun á atvikum málsins myndi leiða til lækkunar greiðslukröfu stefnanda. Hins vegar ítrekaði skiptastjóri þá afstöðu stefnanda að á bakvið umrædd tryggingarbréf stæðu engar raunverulegar skuldir auk þess sem gerður var fyrirvari við skuldabréf ARM Securities Ltd. að fjárhæð 35 milljónir króna.

Að mati dómsins hljóta málsástæður stefnda á þá leið að hann hafi innt af hendi hagsmuni og fullt endurgjaldi með því að taka yfir framangreindar veðskuldir við sölu eignarinnar að Ystaseli 28, þ.á m. samkvæmt fjórum áðurlýstum tryggingarbréfum, að koma til skoðunar þegar tekin er afstaða til þess hvort í umræddri ráðstöfun hafi í reynd falist gjafagerningur, að hluta eða í heild, í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 sem leiða eigi til greiðslukröfu gagnvart stefnda samkvæmt nánari reglum 142. gr. laganna. Eins og atvikum málsins er háttað getur ekki skipt máli í því sambandi þótt vafi sé uppi um endanlega fjárhæð greiðslukröfu stefnanda. Er því kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað að öðru leyti en að framan greinir.

Ákvörðun um málskostnað bíður dóms í málinu.

Af hálfu stefnda flutti málið Heiðar Ásberg Atlason hrl.

Af hálfu stefnanda flutti málið Einar Hugi Bjarnason hrl.

Skúli Magnússon kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfu stefnanda, þrotabús Gyðu Brynjólfsdóttur, um að stefndi, Ystasel 28 ehf., verði dæmdur til að afsala fasteigninni Ystaseli 28 ásamt öllum tilheyrandi réttindum, þ.m.t. lóðarréttindum aftur til stefnanda, er vísað frá dómi. Að öðru leyti er kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.