Hæstiréttur íslands
Mál nr. 210/2004
Lykilorð
- Sjómaður
- Uppsagnarfrestur
- Ráðningarsamningur
- Sjóveðréttur
|
|
Fimmtudaginn 28. október 2004. |
|
Nr. 210/2004. |
Pétur Stefánsson ehf. (Ólafur Haraldsson hrl.) gegn Guðmundi Bárðarsyni (Jónas Haraldsson hrl.) |
Sjómenn. Uppsagnarfrestur. Ráðningarsamningur. Sjóveðréttur.
G var stýrimaður um borð í togara í eigu og útgerð P. Gilti um hann svokallað skiptimannakerfi, sem fólst í því að G fór aðra hverja veiðiferð, en var aðra hverja veiðiferð í landi og fékk aðeins greitt fyrir þær veiðiferðir sem hann fór. Var G sagt upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Greindi aðila á um hvort G ætti rétt á launum vegna tveggja veiðiferða á uppsagnarfrestinum, er hann átti að vera í launalausu leyfi. Talið var, að við uppsögn P á ráðningarsamningi G og framkvæmd hennar, sem meta yrði sem vikningu hans úr skiprúmi, hafi fallið úr gildi það samkomulag, sem gilt hafði um tilhögun starfa hans. Bæri því samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga, að greiða G full laun í þrjá mánuði frá uppsagnardegi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hans verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Aðila greinir á um hvort stefndi eigi rétt á launum vegna tveggja veiðiferða er hann átti að vera í launalausu leyfi. Áfrýjandi hafði sagt stefnda upp með þriggja mánaðar uppsagnarfresti og jafnframt óskað eftir því að hann hætti strax störfum á skipinu, en hann hafði gegnt stöðu stýrimanns.
Við uppsögn áfrýjanda á ráðningarsamningi stefnda og framkvæmd hennar, sem meta verður sem vikningu hans úr skiprúmi, féll úr gildi það samkomulag, sem gilt hafði um tilhögun starfa hans. Ber því samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga, að greiða stefnda full laun í þrjá mánuði frá uppsagnardegi, sbr. einnig hæstaréttardóm 22. október 1990 í málinu nr. 126/1989. Samkvæmt þessu ber að staðfesta héraðsdóm.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Pétur Stefánsson ehf., greiði stefnda, Guðmundi Bárðarsyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2004.
Stefnandi er Guðmundur Bárðarson, kt. 140159-2209, Neðstutröð 2, Kópavogi, en stefndi er Pétur Stefánsson ehf., kt. 540202-2650, Dalvegi 26, Kópavogi.
Lögmaður stefnanda er Friðrik Á. Hermannson hdl. en lögmaður stefnda er Vífill Harðarson hdl.
I. Dómkröfur.
1. Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 2.123.888,- auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 08.07.2003 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar að skaðlausu og tekið verði tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
2. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður, en til vara er þess krafist, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.
II. Málsatvik.
Stefnandi var ráðinn um borð í Pétur Jónsson RE-169, sem er 1069 brúttórúmlesta frystitogari í ágúst 2000, en togarinn er í eigu og útgerð stefnda. Hann gegndi fyrst stöðu 2. stýrimanns, en var í stöðu 1. stýrimanns frá því snemma árs 2001. Um 1. stýrimann á skipinu gilti svokallað skiptimannakerfi, sem fólst í því að stefnandi fór aðra hverja veiðiferð, en var aðra hverja veiðiferð í landi og fékk aðeins greitt fyrir þær veiðiferðir sem hann fór. Stefndi kvað hafa verið unnið eftir þessu fyrirkomulagi allt frá því stefnandi réði sig um borð og honum því verið kunnugt um þetta fyrirkomulag.
Með bréfi dagsettu 8. apríl 2003 var stefnanda fyrirvaralaust sagt upp störfum og segir svo um uppsögnina í bréfinu:
"Pétur Stefánsson ehf., kt. 540202-2650, hefur ákveðið að segja þér upp störfum á skipinu m/s Pétri Jónssyni RE-69 frá og með 8. apríl 2003.
Uppsagnarfrestur þinn samkvæmt samningum eru þrír mánuðir og lýkur uppsagnarfresti þessum samkvæmt því 8. júlí 2003. Pétur Stefánsson ehf. óskar ekki eftir því að þú vinnir uppsagnarfrestinn, sem er 4. veiðiferð 2003. Um leið vill félagið þakka þér fyrir samstarfið á liðnum árum."
Stefnandi kveður fyrirsvarsmann stefnda hafa staðið í þeirri trú, að unnt væri að segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum og greiða honum einungis laun m.v. eina veiðiferð af þremur sem farnar voru á uppsagnarfrestinum. Stefnandi telur sig eiga rétt til fullra launa á uppsagnarfrestinum og þar af leiðandi ætti hann að fullu rétt til launa í 3. og 5. veiðiferð skipsins á árinu 2003 og eru laun skipstjórans í þessum veiðiferðum samkvæmt framlögðum launaseðlum höfð til hliðsjónar.
Stefndi kveður stefnanda hafa fengið uppgert fyrir 4. veiðiferðina, en annarri veiðiferð hafi verið nýlokið er stefnanda var sagt upp og samkvæmt því fyrirkomulagi, sem var við lýði hafi stefnandi átt að vera í landi í 3. veiðiferð, fara 4. veiðiferð og vera í landi þá 5. Hver veiðiferð hafi verið um það bil um mánuðir og því hafi verið fyrirsjáanlegt að hann færi bara eina veiðiferð á uppsagnarfresti sínum.
III. Málsástæður og lagarök.
1. Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefnandi hafi verið 1.stýrimaður á Pétri Jónssyni RE-69 og því notið þriggja mánaða uppsagnarfrests, sbr. ákvæði 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Við uppsögn fyrirsvarsmanns stefnda á skipsrúmssamningi stefnanda og framkvæmd uppsagnarinnar hafi stefnandi öðlast rétt til óskertra launa í þrjá mánuði frá ráðningarslitum, 08.04.2003 og skipti í engu við ákvörðun skaðabótanna hvort stefnandi hafi verið í svokölluðu skiptimannakerfi á Pétri Jónssyni RE-69, sbr. Hrd. 1990:1246.
Framkvæmd uppsagnar skiprúmssamnings stefnanda hafi verið sú að þriggja mánaða uppsagnarfrestur var veittur, stefnandi leystur undan öllum vinnuskyldum, en einungis greiddar bætur miðað við eina veiðiferð af þremur, sem farnar voru á uppsagnarfrestinum. Í fyrsta lagi megi líta á uppsögn stefnanda sem fyrirvaralausan brottrekstur, enda var stefnda ekki unnt að senda hann í frí án samþykkis, sbr. orðalag í niðurstöðum héraðsdóms sem staðfestur var í Hæstarétti í Hrd. 1987:1358:
Í öðru lagi hafi stefnandi átt rétt til fullra launa á uppsagnarfrestinum, sbr. skýra niðurstöðu Hæstaréttar í þeim efnum í Hrd. 1990:1246. Hann átti með öðrum orðum rétt til fullra launa 1. stýrimanns á Pétri Jónssyni RE tímabilið 08.04.2003 til 08.07.2003. Stefnandi fékk greidda veiðiferð sem farin var tímabilið 08.05.2003 til 02.06.2003, sbr. launaseðil á dskj. nr. 8, en heildartekjur hans í þeirri veiðiferð námu 810.686,00. Hann hafi hins vegar engin laun fengið greidd vegna veiðiferðar sem stóð yfir frá 03.04.2003 til. 02.05.2003, en hásetahlutur í þeirri veiðiferð hafi numið kr. 588.377,00, sbr. upplýsingar þess efnis á dskj. nr. 5, en þar sé að finna launaseðil skipstjórans á Pétri Jónssyni vegna nefndrar veiðiferðar. Þá sé að finna launaseðil skipstjórans á Pétri Jónssyni á dskj. nr. 6, vegna veiðiferðar sem farin var tímabilið 04.06.2003 til 04.07.2003, en hásetahlutur í þeirri veiðiferð nam kr. 637.363,00.
Samkvæmt framangreindu hafi vangreiddur hásetahlutur stefnanda á uppsagnarfresti hans hjá stefnda numið kr. 1.225.740,00. Stefnandi var 1. stýrimaður og hafði 1 1/2 hásetahlut. Aukahlutur hans hafi því numið kr. 612.870,00 eða heildaraflahlutur að fjárhæð kr. 1.838.612,00. Við aflahlutinn bættust aðrir liðir, svo sem fastakaup, starfsaldursálag, hlífðarföt, endurgreitt fæði og orlof. Þar sem ekki liggi fyrir hvað staðgengill stefnanda hafði í laun, umfram aflahlut, í 3. og 5. veiðiferð Péturs Jónssonar RE árið 2003, verði stefnandi að áætla þessa liði. Það verði gert með því að finna út laun stefnanda, hvað þessa liði snertir, í síðustu tveimur veiðiferðum hans hjá stefnda, sem farnar voru tímabilið 27.02.2003 til 01.04.2003, sbr. launaseðil á dskj. nr. 9 og tímabilið 04.05.2003 til 02.06.2003, sbr. launaseðil á dskj. nr. 8.
Samtals hafi föst laun stefnanda í framangreindum tveimur veiðiferðum numið kr. 6.432,00, starfsaldursálagið numið kr. 16.262,00, hlífðarfatakostnaðurinn numið kr. 6.044,00 og fæðispeningarnir numið 60.480,00. Samtals hafi þessir liðir numið kr. 89.218,00 og að viðbættum vangreiddum aflahlut, kt. 1.838.610,00, nemi vangreidd laun stefnanda kr. 1.927.828,00. Við þá fjárhæð bætist orlof, 10,17% að fjárhæð kr. 196.060,00 og séu því kröfurnar samtals að fjárhæð kr. 2.123.888,00. Dráttarvextir reiknist frá ráðningarlokum stefnanda hjá stefnda, 08.07.2003, sbr. dóms Hæstaréttar í máli nr. 326/2000, Róbert Pálsson gegn Þormóði Ramma-Sæbergi hf.
Stefnandi vísar aðallega til 9.,25. og 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, Hrd. nr. 326/2000, Hrd. 1990:1246 og Hrd. 1987:1358. Um dráttarvexti vísast til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Um málskostnað vísast til 1. mgr. 130. gr. EML nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
2. Stefndi byggir aðalkröfu sína á því að stefnandi hafi verið sagt upp störfum en ekki óskað eftir því að hann ynni uppsagnarfrestinn. Stefnanda hafi verið greidd full laun í samræmi við ráðningarsamning hans.
Í útgerð Péturs Jónssonar hafi legið fyrir fastmótað skiptakerfi sem falist hafi í því að fyrsti stýrimaður fór aðeins aðra hverja veiðiferð og var í landi hina. Þegar stefnandi hafi verið ráðinn í stöðu fyrsta stýrimanns var honum þetta fyrirkomulag kunnugt og starfaði eftir því allan þann tíma sem hann gegndi stöðu sinni um borð. Skiptakerfi sem þetta sé mjög víða viðhaft meðal yfirmanna á íslenskum fiskiskipum.
Við uppsögn hafi stefnandi öðlast kröfu um greiðslu launa sem jafngilda þeim launum sem hann hefði haft í uppsagnarfrestinum hefði ekki komið til uppsagnar á ráðningarsamningi hans. Það liggi ljóst fyrir að ef ekki hefði komið til uppsagnar stefnanda, hefði hann aðeins farið eina veiðiferð á því þriggja mánaða tímabili sem uppsagnarfrestur hans var. Verði viðurkenndur réttur stefnanda til bóta fyrir þær veiðiferðir sem farnar voru á uppsagnarfrestinum og hann hefur ekki fengið greiddar, væri stefnandi að fá greiddar bætur sem nemi hærri fjárhæð en laun sem hann hefði fengið á því tímabili sem hér um ræðir, hefði hann haldið áfram starfi sínu.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að skaðabótakrafa stefnanda fyrir uppsögn á ráðningarsamningi hans takmarkist af þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli skuli ekki hagnast á tjónsatviki.
Stefndi byggir varakröfu sína á því að stefnanda hafi verið skylt að takmarka tjón sitt. Allar tekjur sem stefnandi hefur unnið sér inn á tímabilinu 8. apríl til 8. júlí 2003 skulu samkvæmt því dragast frá skaðabótakröfu stefnanda. Skorað var á stefnanda að leggja fram gögn um slíkar tekjur.
IV. Niðurstöður.
Í málinu er ekki deilt um tölulega útreikninga stefnanda á kröfu sinni, né henni mótmælt tölulega, heldur er fyrst og fremst deilt um hvort og hver áhrif svonefnt skiptikerfi eigi að hafa á launakröfu stefnanda í málinu. Stefnandi hefur máli sínu til stuðnings vísað til svo sem að framan er rakið lagaframkvæmdar og dómafordæma um reglur sem hann kveður gilda um fyrirvaralausa uppsögn úr starfi eins og hann varð fyrir og launakröfur í því sambandi. Stefnda hefur ekki tekist að benda á neina nýja framkvæmd eða aðstæður, sem leiða eigi til breytinga á viðtekinni framkvæmd í þessum efnum. Hann hefur að vísu lagt áherslu á, að það væri óeðlilegt og ósanngjarnt að stefnandi hefði hærri laun í uppsagnarfrestinum, en ef ekki hefði komið til uppsagnar og vísar þá til þeirrar meginreglu skaðabótaréttarins, að tjónþoli skuli ekki hagnast á tjónsatviku.
Bætur þær sem hér um ræðir eru lögbundnir samkvæmt 25. gr. sbr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35,1985. Þá er í frumvarpi að þessum lögum tekið fram, að sé skipverja vikið úr skipsrúmi án fyrirvara og án lögmætrar ástæðu, þá eigi hann rétt til launa í öllum uppsagnarfrestinum.
25. gr. sjómannalaganna er afdráttarlaun um rétt skipverja til launa, ef þeim er vikið úr skipsrúmi og skv. 9. gr. eru það 3ja mánaða laun í tilviki stefnanda sem 1. stýrimanns. Verður að telja að hér sé um lágmarkskjör að ræða, sem skipverji geti ekki samið sig frá, og fylgir þeim, sem gegnir hlutaðeigandi stöðu hverju sinni þ.e. 1. stýrimanns, og rýrist hann ekki gagnvart stefnanda, þó að við líði væri á togaranum svonefnt skiptimannakerfi, enda verður að miða við það að stefnandi hefði haft venjubundna vinnuskyldu m/v þrjá mánuði í uppsagnarfrestinum, en samt með hefðbundinni lækkun.
Verður að telja að þeir dómar sem stefnandi vitnar til hafi fullt fordæmisgildi í máli þessu og einnig um önnur atriði svo sem að stefnandi þurfi ekki að sæta frádrætti á framangreindum launum vegna tekna annars staðar, enda ekkert upplýst um þær.
Til grundvallar kröfu stefnanda er aflahlutur 1. stýrimanns í veiðiferðum Péturs Jónssonar RE-69, í uppsagnarfrestinum, sem hann fékk ekki greiddar, svo og starfsaldursálag, hlífðarfatakostnaður, fæðispeningar og orlof eða alls kr. 2.123.888,- og er fallist á kröfu stefnanda um þessa fjárhæð og beri hún dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr.þ laga nr. 28,2001 frá 8. júlí 2003 til greiðsludags.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 525,000,- í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Þá ber að staðfesta sjóveðrétt í Pétri Jónssyni RE-69 til tryggingar framangreindum fjárhæðum.
Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.
DÓMSORÐ
Stefndi, Pétur Stefánsson ehf., greiði stefnanda, Guðmundi Bárðarsyni, 2.123.888 krónur auk dráttarvaxta skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. júlí 2003 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda í málskostnað 525.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Staðfestur er sjóveðréttur í Pétri Jónssyni RE-69 til tryggingar framan-greindum fjárhæðum.