Hæstiréttur íslands

Mál nr. 199/2017

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
X (Óttar Pálsson hrl.), Y (Reimar Pétursson hrl.) og Z (Gunnar Egill Egilsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Gagnaöflun
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu Z um að honum yrði afhent nánar tilgreint tölvupósthólf. Kröfum X og Y var hins vegar vísað frá Hæstarétti þar sem þá brast heimild til að kæra úrskurðinn, sbr. 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 23. og 24. mars 2017 sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2017 þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að sóknaraðili aflaði og legði fram eða afhenti nánar tilgreind gögn. Um kæruheimild vísa varnaraðilar til c. og p. liða 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilinn X krefst þess að sóknaraðili leggi fram eða eftir atvikum afli nánar tilgreindra gagna.

Varnaraðilinn Y krefst þess að sóknaraðila verði gert að haldleggja nánar tilgreind gögn hjá Fjármálaeftirlitinu „og veita verjanda aðgang að þeim.“ Varnaraðilinn Z krefst þess að sóknaraðila verði gert að afhenda sér tölvupósthólf sitt hjá A hf.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Krafa varnaraðilans X lýtur að því að sóknaraðila verði gert að leggja fram eða eftir atvikum afla nánar tilgreindra gagna sem veitt geti upplýsingar um kauprétti og lánveitingar A hf. til starfsmanna hans og félaga í þeirra eigu á nánar tilgreindu tímabili. Kröfu þessa setti verjandi ákærða fram í bréfi til héraðssaksóknara 30. janúar 2017. Með svarbréfi héraðssaksóknara 8. febrúar sama ár var ákærða gefinn kostur á að kynna sér og fá afhent tilgreind gögn hjá héraðssaksóknara sem hann kysi að leggja fram í málinu. Síðan sagði í bréfinu: ,,Að öðru leyti eru umrædd gögn ekki til samantekin í málinu og óljóst hvort þau eru meðal haldlagðra gagna.“

Samkvæmt p. lið 1. mgr. 192. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sætir kæru til Hæstaréttar úrskurður héraðsdómara um skyldu til að láta af hendi sönnunargagn til framlagningar í máli eða hald til að fylgja þeirri skyldu eftir. Eins og hér hefur verið rakið snýr krafa varnaraðilans öðrum þræði að því að lögregla eða ákæruvald taki saman upplýsingar í þágu meðferðar sakamálsins sem höfðað hefur verið gegn honum, en að hinu leytinu að gögnum sem honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér og leggja fram. Úrskurður þess efnis sætir ekki kæru eftir fyrrgreindri heimild eða öðrum stafliðum 1. mgr. 192. gr. laganna, sbr. dóma Hæstaréttar 21. nóvember 2012 í máli nr. 692/2012, 4. apríl 2013 í máli nr. 220/2013 og 13. desember 2013 í máli nr. 772/2013.

Varnaraðilinn Y krefst þess að sóknaraðila verði gert að haldleggja nánar tilgreind gögn í því skyni að veita verjanda hans aðgang að þeim. Úrskurður héraðsdómara um skyldu til að veita aðgang að gögnum fellur ekki undir neina af kæruheimildum fyrrgreinds lagaákvæðis, sbr. dóm Hæstaréttar 5. nóvember 2010 í máli nr. 625/2010.

Samkvæmt framangreindu brast varnaraðilana X og Y heimild til að kæra úrskurðinn og verður  kröfum þeirra vísað frá Hæstarétti.

Varnaraðilinn Z krefst þess að fá afhent tölvupósthólf sitt hjá A hf. Samkvæmt gögnum málsins hefur ákæruvaldið lýst því yfir að innihald tölvupósthólfsins sé aðgengilegt fyrir varnaraðila hjá lögreglu. Getur hann því kynnt sér efni þess þar og eftir atvikum krafist þess að gögn sem í því er að finna verði lögð fram í málinu, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um kröfu varnaraðilans Z á þann hátt sem í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Kröfum varnaraðilanna, X og Y, er vísað frá Hæstarétti.

Staðfestur er hinn kærði úrskurður um að hafna kröfu varnaraðilans, Z, um að ákæruvaldinu verði gert að afhenda honum tölvupósthólf hans hjá A hf.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 23. mars 2017

I

Mál þetta er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 4. mars 2016, þar sem ákærðu eru gefin að sök brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti og almennum hegningarlögum. Ákæran er þrískipt en samkvæmt I. kafla hennar er ákærðu öllum gefið að sök að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun, með hlutabréf útgefin af A hf., á tímabilinu frá og með 1. júní 2007 til og með 26. september 2008, eins og nánar er rakið í ákærunni. Samkvæmt II. kafla ákæru er ákærða X gefin að sök markaðsmisnotkun með því að koma á viðskiptum með hluti í A hf. 15. og 16. maí 2008 og samkvæmt III. kafla ákæru eru honum gefin að sök umboðssvik með því að hafa í maí 2008 misnotað aðstöðu sína sem forstjóri A þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga til félaga í eigu starfsmanna bankans.

Með bréfi 30. janúar síðastliðinn til Héraðssaksóknara krafðist ákærði X þess að fá í hendur tiltekin gögn varðandi eftirfarandi: „Veitingu [...], síðar A hf., á kaupréttum til starfsmanna sinna frá árinu 2000 til haustsins 2008. Er óskað eftir gögnum sem veitt geta upplýsingar um kaupréttaráætlanir bankans, veitta kauprétti til hvers og eins starfsmanns, skilmála þeirra og hvort, og þá að hvaða marki, þeir voru nýttir. Ennfremur er óskað eftir gögnum varðandi meðferð slíkra mála innan bankans, svo sem samþykki viðeigandi aðila fyrir veitingu kaupréttanna og samskiptum í aðdraganda þeirra. Þá er óskað eftir gögnum sem lúta að kostnaði bankans tengdum slíkum kaupréttum og hvernig staðið var að færslu þeirra í bókhald bankans. Búi héraðssaksóknari ekki yfir slíkum gögnum er þess krafist að þeirra verði aflað.

Láveitingar [...], síðar A hf., til starfsmanna sinna og/eða félaga í eigu starfsmanna vegna hlutabréfakaupa frá árinu 2000 til haustsins 2008. Er óskað eftir gögnum sem veitt geta upplýsingar um fjárhæðir slíkra lána, skilmála þeirra og tryggingar sem settar voru fyrir lánunum. Ennfremur er óskað eftir gögnum varðandi meðferð slíkra lánveitinga innan bankans svo sem samþykki viðeigandi nefndar fyrir lánveitingunum og samskiptum í aðdraganda lánveitinganna. Búi héraðssaksóknari ekki yfir slíkum gögnum er þess krafist að þeirra verði aflað.“

Héraðssaksóknari svaraði ákærða með bréfi 8. febrúar síðastliðinn. Í bréfinu segir að í skjalaskrá málsins megi sjá að tiltekin rannsóknargögn hafi ekki verið lögð fram en þau séu yfirstrikuð. „Meðal þeirra gagna eru gögn sem varða þau atriði sem tiltekin eru í umræddu bréfi þínu. Þú getur fengið að kynna þér þau hjá embætti héraðssaksóknara og fengið þau gögn afhent sem þú kýst að leggja fram í málinu. Að öðru leyti eru umrædd gögn ekki til samantekin í málinu og óljóst hvort þau eru meðal haldlagðra gagna. Því er hafnað að embætti héraðssaksóknara afli slíkra gagna enda rannsókn málsins hjá lögreglu lokið og ekki um að ræða gögn sem ætla má að hafi sönnunargildi í málinu.“

Í málflutningi um kröfuna 9. mars síðastliðinn krafðist ákærði úrskurðar um að dómarinn beindi því til ákæruvaldsins að það legði fram, eða eftir atvikum, aflaði framangreindra gagna. Byggir ákærði á því að lánaveitingar þær sem hann er ákærður fyrir í III. kafla ákæru hafi tengst kaupréttum starfsmanna bankans, lánveitingarnar væru sambærilegar við kauprétti. Vísaði ákærði til ákvæða 1. mgr. 37. gr. og 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 máli sínu til stuðnings. Einnig til ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.

Ákæruvaldið hefur hafnað kröfu ákærða með vísun til þeirra raka sem að framan getur í bréfi þess.

Ákærða X eru gefin að sök umboðssvik með því að hafa veitt tilteknum einkahlutafélögum lán til að fjármagna hlutabréfakaup í bankanum án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar og án þess að endurgreiðsla lánanna væri tryggð í samræmi við reglur bankans, eins og nánar greinir í ákærunni. Krafa ákærða um afhendingu og/eða öflun gagna lýtur annars vegar að því að afla gagna um kaupréttaráætlanir bankans og kauprétti einstakra starfsmanna hans, eins og rakið var. Hins vegar lýtur krafan að því að upplýst verði um lán bankans til starfsmanna sinna og/eða félaga í eigu starfsmanna vegna hlutabréfakaupa á tilteknu tímabili. Gögnin sem ákærði vill fá afhent varða þannig ekki ákæruefni málsins. Er er því ekki ástæða til þess að verða við kröfum hans og er þeim hafnað.

II

Ákærði Y, sem ákærður er fyrir markaðsmisnotkun í I. kafla ákæru, krafðist þess með bréfi til ákæruvaldsins 16. ágúst 2016 að hann fengi aðgang að öllum gögnum sem aflað hafði verið í þágu rannsóknar málsins. Enn fremur krafðist hann þess að hann fengi afnot af tilteknu tölvupóstleitarforriti til að leita í tölvupóstum. Með úrskurði dómsins 18. október 2016 var kröfu ákærða hafnað og var sá úrskurður ekki kærður til Hæstaréttar. Með úrskurði, uppkveðnum 2. desember 2016, úrskurðaði þáverandi dómari málsins sig vanhæfan til að fara með það.

Ákærði hefur nú uppi þá kröfu aðallega að verjandi hans fái aðgang að öllum gögnum sem haldlögð hafa verið í þágu rannsóknar málsins. Til vara er þess krafist að verjandinn fái aðgang að tilteknum skjölum sem talin eru upp á dómskjali er lagt hefur verið fram. Hafi ákæruvaldið ekki þessi gögn er þess krafist að þau verði haldlögð.

Varðandi aðalkröfu ákærða um aðgang að öllum gögnum sem aflað var í þágu rannsóknar máls er til þess að líta að um gríðarlegt gagnamagn er að ræða. Það samanstendur af pappírsskjölum og gögnum á rafrænu formi. Í málinu er að finna upplýsingar um þau gögn sem haldlögð voru á rannsóknarstigi málsins en þar á meðal eru gögn sem tengjast öðrum en ákærðu í málinu. Er þar um að ræða tölvupósta, upptökur símtala, upplýsingar er varða viðskipti og viðskiptahagsmuni bankans, kaup- og sölutilboð m.a. að hluta til utan þess tímabils sem ákæra máls þessa tekur til, svo fátt eitt sé nefnt. Að mati dómsins er vafalaust að hluti þessara gagna inniheldur upplýsingar sem hafa ekkert sönnunargildi í málinu, varða persónuleg málefni, svo og gögn með upplýsingum sem bankaleynd verður að ríkja um. Þá er í aðalskjalaskrá málsins að finna læsilegar yfirstrikanir yfir einstök gögn sem voru hluti rannsóknar málsins en eru ekki hluti dómsskjala. Það verður því ekki betur séð en að með kröfu þessari sé í reynd verið að stofna til sjálfstæðrar rannsóknar ákærða sem eðli máls samkvæmt gæti orðið til þess að draga mál þetta fram úr hófi á langinn, en það eitt og sér sér hlýtur að vera andstætt hagsmunum hans. Við mat á því hvort ákærður maður njóti réttlátrar málsmeðferðar er litið til atvika í heild sinni en á þann hátt hefur til að mynda Mannréttindadómstóllinn túlkað 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem verjandi ákærða hefur vísað til. Svo víðtækur aðgangur sem ákærði fer fram á nú getur því að mati dómsins ekki verið forsenda þess að málsmeðferð verði talin réttlát. Því er ekki fallist á það með ákærða að jafnræði aðila verði brotið verði dómurinn ekki við kröfu hans. Þá er til þess að líta að aðgangur að gögnum máls getur takmarkast af hagsmunum annarra af friðhelgi upplýsinga. Samkvæmt þessu er aðalkröfu ákærða hafnað.

Ákærðu er öllum gefin að sök markaðsmisnotkun með hlutabréf, gefin út af bankanum sjálfum, á tilteknu tímabili. Háttseminni er nánar lýst svo að þrír hinna ákærðu hafi, að undirlagi hinna tveggja, annar þeirra er ákærði Y, lagt fram fyrir hönd bankans „í upphafi hvers viðskiptadags á tímabilinu, röð stórra kauptilboða með litlu innbyrðis verðbili í hlutabréf í A í tilboðabók Kauphallarinnar. Þegar framboð á hlutabréfunum varð meira en eftirspurn annarra markaðsaðila en A“ hafi þrír meðákærðu mætt því með því að bæta við nýjum kauptilboðum eins og nánar er rakið í ákærunni. Gögn þau sem ákærði krefst að aflað verði varða samskipti við Fjármálaeftirlitið og Kauphöllina, en einnig er krafist gagna varðandi samskipti starfsmanna og stjórnenda bankans án þess að séð verði hvernig þau gögn tengjast ákæruefninu. Loks er krafið um gögn varðandi störf og samskipti ýmissa starfsmanna bankans, þar á meðal þeirra er munu hafa samið við ákæruvaldið um friðhelgi. Hér á hið sama við að ekki verður séð hvernig þessi gögn tengjast ákæruefninu. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af 110. gr. laga nr. 88/2008 er varakröfu ákærða einnig hafnað.

III

Ákærði Z hefur krafist þess að honum verði afhent tölvupósthólf hans hjá A, fyrrum vinnuveitanda hans. Hann kveður ákæruvaldið hafa hafnað þessari ósk en boðið honum aðgang að því hjá embættinu.

Samkvæmt meginreglunni um jafnræði aðila er ákæruvaldinu skylt að veita ákærðu eða verjendum þeirra aðgang að þeim gögnum sem lögregla hefur aflað vegna rannsóknar sakamáls en ekki hafa verið lögð fram í því við málshöfðun. Aftur á móti er ekki unnt að líta svo á að lögreglu eða ákæruvaldi sé skylt að afhenda þeim slík gögn.  Ber samkvæmt þessu að hafna kröfu ákærða.

Samkvæmt öllu framanrituðu er kröfum ákærðu hafnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð.

Kröfum ákærðu, X, Y og Z, um að ákæruvaldið afli og leggi fram gögn er hafnað.