Hæstiréttur íslands
Mál nr. 447/2016
Lykilorð
- Lögmannsþóknun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og að „kröfur áfrýjanda í gagnsök í héraði verði teknar til greina“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í héraðsdómi leitaði stefndi eftir lögmannsþjónustu áfrýjanda á árinu 2008, eftir að vanskil höfðu orðið á greiðslu kaupverðs tveggja einkahlutafélaga, sem stefndi seldi félagi með heitinu FS21 ehf. á árinu 2007. Undirritaði stefndi af þessu tilefni yfirlýsingu 2. apríl 2008 þar sem hann fól áfrýjanda að innheimta hina vangoldnu skuld. Á árinu 2011 ákvað stefndi í samráði við áfrýjanda að höfða skaðabótamál á hendur þeim sem höfðu haft milligöngu um sölu einkahlutafélaganna. Þeirri málsókn lyktaði með dómi Hæstaréttar 7. nóvember 2013 í máli nr. 302/2013, þar sem stefnda voru dæmdar 122.488.155 krónur með nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum og auk þess 4.000.000 krónur í málskostnað. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi voru 15. nóvember 2013 lagðar inn á reikning lögmannsstofu áfrýjanda 168.021.535 krónur en sú fjárhæð samanstóð af dæmdum skaðabótum, vöxtum og málskostnaði. Hinn 19. sama mánaðar voru 140.000.000 krónur færðar af reikningi lögmannsstofunnar á reikning stefnda með þeim skilaboðum frá starfsmanni hennar að gengið yrði frá uppgjöri við hann síðar.
Lögmannsstofa áfrýjanda gerði í kjölfarið tvo reikninga vegna þjónustu við stefnda. Annars vegar var reikningur nr. 1638 frá 31. janúar 2014 að fjárhæð 19.438.527 krónur og kom þar fram að hann væri reistur á samkomulagi áfrýjanda og stefnda vegna kostnaðar við rekstur á máli því er lauk með áðurgreindum dómi Hæstaréttar 7. nóvember 2013. Hins vegar var reikningur nr. 1721 frá 14. apríl 2014 að fjárhæð 14.196.985 krónur og kom þar fram að hann væri vegna innheimtu á hendur FS21 ehf. Stefndi vildi ekki una reikningsgerðinni og bar í samræmi við ákvæði laga nr. 77/1998 um lögmenn þann ágreining undir úrskurðarnefnd Lögmannafélags Íslands sem kvað upp úrskurð í málinu 10. október 2014. Niðurstaða nefndarinnar var að þóknun samkvæmt reikningi nr. 1638 að fjárhæð 19.438.527 krónur fæli í sér hæfilegt endurgjald í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998. Á hinn bóginn taldi nefndin að hæfilegt endurgjald samkvæmt reikningi nr. 1721 vegna innheimtustarfa í þágu stefnda væri 850.000 krónur án virðisaukaskatts.
Stefndi höfðaði mál þetta til að fylgja eftir niðurstöðu úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands hvað varðaði reikning nr. 1721. Er kröfugerð stefnda, eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi, reist á því að af þeim 28.021.535 krónum sem áfrýjandi hélt eftir af þeirri greiðslu, sem lögð var inn á reikning lögmannsstofu hans í kjölfar dóms Hæstaréttar 7. nóvember 2013, hafi að minnsta kosti 11.016.258 krónum verið haldið eftir umfram heimild.
Að sönnu gætir nokkurs ósamræmis í málatilbúnaði stefnda um grundvöll málsóknar hans. Auk reglna samninga- og kröfuréttar vísar stefndi kröfum sínum til stuðnings til reglna um skaðabætur utan samninga, þar sem hann hafi beðið fjártjón vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi áfrýjanda. Þrátt fyrir þetta ósamræmi má, sbr. d., e. og f. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, af samhengi kröfugerðar, málsástæðna og lagaraka stefnda vera ljóst, að málsókn hans sé á því reist að áfrýjandi hafi í samningssambandi þeirra oftekið sér þóknun vegna innheimtustarfanna og sé hann sóttur til greiðslu skuldar sem af því stafi. Að gættu þessu er með skírskotun til forsendna hins áfrýjað dóms staðfest niðurstaða hans um að áfrýjandi sé réttur aðili málsins til varnar en ekki lögmannsstofa hans. Ber áfrýjandi samkvæmt því ábyrgð gagnvart stefnda á endurgreiðslu þess fjár sem sá fyrrnefndi kann eftir atvikum að hafa oftekið sér í þóknun vegna starfa í þágu stefnda og haldið umfram heimild.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er staðfest að ósannað sé að áfrýjandi hafi frá upphafi áskilið sér þóknun byggða á heildarhagsmunum við innheimtuna eða að stefnda hafi á annan hátt verið gert ljóst hvert endurgjaldið fyrir þá vinnu gæti orðið. Á sama hátt er staðfest sú niðurstaða dómsins að umkrafið endurgjald samkvæmt reikningi nr. 1721 hafi verið langt umfram það sem áfrýjanda var rétt að áskilja sér vegna innheimtunnar og að leggja verði í ljósi atvika heildstætt mat á hvað sé hæfilegt í þeim efnum. Með skírskotun til forsenda héraðsdóms er jafnframt staðfest sú niðurstaða að hæfilegt endurgjald áfrýjanda fyrir innheimtustörfin hafi með virðisaukaskatti verið 1.380.500 krónur, enda hefur áfrýjandi í málatilbúnaði sínum ekki lagt fram gögn sem fá því hnekkt.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest úrlausn hans um að innborganir stefnda til áfrýjanda 1. apríl 2008 og 3. maí 2010, samtals 1.500.000 krónur, hafi verið vegna innheimtustarfanna. Áfrýjandi hefur viðurkennt að innborganir stefnda 22. febrúar, 13. júlí og 5. september 2013, samtals 1.500.000 krónur, hafi verið vegna innheimtunnar og annars málareksturs í þágu stefnda. Samkvæmt þessu hefur stefndi með innborgunum sínum greitt áfrýjanda samtals 3.000.000 krónur í þóknun vegna þeirra starfa.
Eins og fyrr greinir voru 15. nóvember 2013 lagðar 168.021.535 krónur inn á reikning lögmannsstofu áfrýjanda til greiðslu kröfu samkvæmt dómi Hæstaréttar 7. sama mánaðar og var hluta þeirrar fjárhæðar haldið eftir upp í lögmannsþóknun. Í ljósi þess sem áður greinir að hæfilegt endurgjald samkvæmt reikningi nr. 1638 sé 19.438.527 krónur og 1.380.500 krónur samkvæmt reikningi nr. 1721 átti áfrýjandi, þegar umrædd fjárhæð var lögð inn á reikning lögmannsstofu hans 15. nóvember 2013, rétt til þóknunar samtals að fjárhæð 20.819.027 krónur. Að teknu tilliti til innborgana stefnda samkvæmt framansögðu, samtals að fjárhæð 3.000.000 krónur, er ljóst að áfrýjandi hefur oftekið 10.202.508 krónur í þóknun og haldið þeirri fjárhæð. Ber honum að standa stefnda skil á henni og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Kristján Stefánsson, greiði stefnda, Eyvindi Jóhannssyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2015.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 9. febrúar sl., er höfðað 27. apríl 2015 af Eyvindi Jóhannssyni, til heimilis að Hæðarbyggð 24 í Garðabæ, á hendur réttargæslustefnda Sjóvá-Almennum tryggingum, Kringlunni 5, Reykjavík, og 5. maí 2015 á hendur Kristjáni Stefánssyni, til heimilis að Flyðrugranda 20 í Reykjavík.
Stefndi, Kristján Stefánsson, höfðaði gagnsök gegn stefnanda með gagnstefnu sem lögð var fram í þinghaldi og birt stefnanda 2. júní 2015.
Dómkröfur aðalstefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda 11.016.258 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. nóvember 2013 til 11. desember 2014, og með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðalstefnandi vaxtavaxta samkvæmt 1. mgr. 12. gr. sömu laga, sem leggist við höfuðstól kröfunnar á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 19. nóvember 2014. Aðalstefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Gagnstefnandi gerir þá kröfu í aðalsök að hann verði sýknaður af kröfum aðalstefnanda. Þá krefst gagnstefnandi þess að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Í gagnsök gerir gagnstefnandi þá dómkröfu að úrskurður Lögmannafélags Íslands í máli nr. 6/2014, að því er varðar kostnað vegna innheimtustarfa gagnstefnanda fyrir aðalstefnanda, sem vísað sé til í síðari lið úrskurðarins er segi: „Hæfilegt endurgjald vegna innheimtustarfa varnaraðila í þágu sóknaraðila er kr. 850.000 auk virðisaukaskatts“, verði ógiltur. Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk vaxta af málskostnaði samkvæmt 3. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags, auk virðisaukaskatts af málskostnaði.
Aðalstefnandi krafðist þess í öndverðu að kröfum gagnstefnanda í gagnsök yrði vísað frá dómi með eða án kröfu. Að því frágengnu krefst hann þess að hann verði sýknaður af kröfum gagnstefnanda og að hafnað verði kröfu gagnstefnanda um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands í málinu nr. 6/2014. Enn fremur krefst aðalstefnandi þess að úrskurður nefndarinnar verði staðfestur um að hæfilegt endurgjald vegna innheimtustarfa gagnstefnanda í þágu gagnstefnda, 850.000 kr. auk virðisaukaskatts samkvæmt síðari lið úrskurðarins, verði staðfestur. Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda að mati dómsins og sérstaks álags, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 með síðari breytingum, auk réttarfarssektar samkvæmt 1. mgr. 135. gr. sömu laga, á hendur gagnstefnanda og umboðsmanni hans, sbr. 2. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991. Loks er krafist virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Mál nr. E-1536/2015, sem aðalstefnandi höfðaði með sakaukastefnu gegn gagnstefnanda, var sameinað þessu máli 5. maí 2015, og rekið undir númeri þessa máls upp frá því að ósk beggja málsaðila.
Réttargæslustefndi skilaði greinargerð 23. júní 2015. Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar efniskröfur í þessu máli enda eru ekki gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur honum í málinu. Réttargæslustefndi styður þó og tekur undir málatilbúnað stefnda.
Í þinghaldi í málinu 22. október 2015 féll gagnstefndi frá kröfu um frávísun málsins í gagnsök.
II
Málavextir eru þeir helstir að 11. júlí 2007 seldi aðalstefnandi tvö félög, sem höfðu verið í eigu hans, Vinnulyftur ehf. og Smiðsbúð 12 ehf., til félags sem bar heitið FS21 ehf. Tæpu ári síðar, eða í apríl 2008, leitaði aðalstefnandi til gagnstefnanda eftir að veruleg vanskil höfðu orðið á greiðslu kaupverðs fyrir félögin samkvæmt kaupsamningi. Af þessu tilefni undirritaði aðalstefnandi yfirlýsingu, dags. 2. apríl 2008, þar sem hann fól gagnstefnanda að innheimta kaupverðið með málsókn ef með þyrfti.
Samkvæmt gögnum málsins var ráðist í innheimtuaðgerðir af hálfu gagnstefnanda í kjölfarið. Kaupandinn var loks tekinn til gjaldþrotaskipta í apríl 2010 eftir að hann hafði verið sameinaður Vinnulyftum ehf. undir því nafni. Mun gagnstefnandi hafa í fyrstu gætt hagsmuna aðalstefnanda við gjaldþrotaskiptin en þeim lauk 25. apríl 2014. Í greinargerð gagnstefnanda í aðalsök kemur fram að vinna við innheimtu á eftirstöðvum kaupverðsins hafi farið fram frá 2. apríl 2008 til 7. nóvember 2013 en aðilar deila um hve umfangsmikil hún hafi verið.
Aðalstefnandi ákvað, í samráði við gagnstefnanda, að höfða skaðabótamál á hendur KPMG hf. endurskoðun o.fl. í tilefni af viðskiptum aðalstefnanda, en KPMG hf. hafði haft milligöngu við sölu á einkahlutafélögunum. Fyrir liggur að aðilar gerðu samkomulag, dagsett 11. júlí 2011, um lögmannsþóknun fyrir mál aðalstefnanda gegn KPMG o.fl. Samkvæmt samkomulaginu skyldi lögmannsþóknun gagnstefnanda fyrir rekstur málsins í héraði og fyrir Hæstarétti vera 2.000.000 króna ef málið tapaðist. Ef kröfur næðu fram að ganga með dómi eða samkomulagi, hvort sem er fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti, skyldi gagnstefnandi setja fram kröfur samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu hans eins og um munnlega flutt mál væri að ræða. Þá segir í samkomulaginu að aðalstefnandi skyldi greiða, auk tildæmds málskostnaðar, aukaþóknun er næmi 7,5% af innheimtri kröfu.
Með dómi Hæstaréttar Íslands 7. nóvember 2013 í máli nr. 302/2013 var KPMG hf. o.fl. dæmdir til að greiða aðalstefnanda 122.488.155 krónur með nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum allt frá 14. apríl 2010, auk fjögurra milljóna króna í málskostnað. Í samræmi við þessa niðurstöðu voru 15. nóvember 2013 lagðar inn á reikning lögmannsstofu gagnstefnanda 168.021.535 krónur, en fjárhæðin samanstóð af hinum tildæmdu skaðabótum, dráttarvöxtum og dæmdum málskostnaði. Hinn 19. sama mánaðar voru 140.000.000 króna færðar af reikningi lögmannsstofunnar yfir á reikning aðalstefnanda með þeim skilaboðum frá Jóni Bjarna Kristjánssyni hdl. að gengið yrði frá uppgjöri síðar.
Stuttu síðar kynnti Jón Bjarni fyrir aðalstefnanda kröfur gagnstefnanda um lögmannsþóknun og lagði fram ódagsett yfirlit um uppgjör, samtals að fjárhæð 24.738.880 krónur. Aðalstefnandi mótmælti þeim útreikningum sem fram komu í uppgjöri gagnstefnanda og leitaði aðstoðar í framhaldinu hjá Lögsókn ehf. og Lögmannsstofu Guðmundar Jónssonar ehf. Hinn 17. desember 2013 sendi Jón Bjarni aðalstefnanda nýtt yfirlit og voru þá kröfur gagnstefnanda samtals að fjárhæð 34.426.174 krónur. Af hálfu aðalstefnanda var kröfunum mótmælt.
Lögmannsstofa gagnstefnanda gaf út reikning nr. 1638 á hendur aðalstefnanda 31. janúar 2014 að fjárhæð 19.438.527 krónur. Á reikningnum kemur fram að hann sé reistur á samkomulagi vegna kostnaðar við rekstur á máli er lokið hafi með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 302/2013. Lögmannsstofan gerði aðalstefnanda annan reikning 14. apríl 2014 sem ber númerið 1721, en hann er að fjárhæð 14.196.985 krónur. Þar kemur að fjárhæðin sé innheimtuþóknun vegna innheimtu hjá FS21 ehf. sem áður er getið.
Hinn 10. mars 2014 barst úrskurðarnefnd Lögmannafélags Íslands erindi aðalstefnanda þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun gagnstefnanda. Nefndin kvað upp úrskurð sinn 10. október 2014, og kemur eftirfarandi fram í úrskurðarorði: „Áskilin þóknun varnaraðila, Kristjáns Stefánssonar hrl., vegna skaðabótamáls sem hann rak fyrir hönd sóknaraðila, samkvæmt reikningi nr. 1638, að fjárhæð 19.438.527, felur í sér hæfilegt endurgjald í skilningi 24. gr. laga um lögmenn. Hæfilegt endurgjald vegna innheimtustarfa varnaraðila í þágu sóknaraðila er kr. 850.000 auk virðisaukaskatts.“
Með bréfi aðalstefnanda, dagsettu 11. nóvember 2014, var þess krafist að gagnstefnandi greiddi aðalstefnanda 13.232.977 krónur. Í bréfinu kemur fram að krafan sé „byggð á skaðabótaréttarlegum grundvelli“ þar sem gagnstefnandi hafi ekki skilað aðalstefnanda hluta þeirra fjármuna sem hafi innheimst í máli aðalstefnanda gegn „Vinnulyftum ehf. og fl.“ en gagnstefnandi hafi haldið eftir 28.021.535 krónum vegna starfa hans fyrir aðalstefnanda. Krafan samanstóð af höfuðstól að fjárhæð 11.016.258 krónum auk dráttarvaxta og innheimtuþóknunar.
Aðalstefnandi heldur því fram að hann hafi þegar greitt gagnstefnanda eftirtaldar greiðslur vegna lögmannsstarfa hans:
1. 500.000 kr. með tékka nr. 3341483, reikningi nr. 85 í Glitni banka hf., dagsettur 1. apríl 2008 og framseldur eyðuframsali til innlausnar af gagnstefnanda í Kaupþingi banka 2. maí 2008.
2. 1.000.000 kr. með tékka nr. 3344368, reikningi nr. 85 í Glitni banka hf., dagsettur og útgefinn 3. apríl 2010 á gagnstefnanda, framseldur og innleystur sama dag í Arion banka hf.
3. 500.000 kr., sem lagðar hafi verið inn á reikning Kr. St. lögmannsstofu ehf., nr. 6878-26-513 í Íslandsbanka hf., 22. febrúar 2013.
4. 500.000 kr., í reiðufé beint til gagnstefnanda, 19. júní 2013.
5. 500.000 kr., sem lagðar hafi verið inn á reikning Kr. St. lögmannsstofu ehf., nr. 6878-26-513 í Íslandsbanka hf., 13. júlí 2013.
6. 500.000 kr., sem lagðar hafi verið inn á reikning Kr. St. lögmannsstofu ehf., nr. 6878-26-513 í Íslandsbanka hf., 5. september 2013.
Gagnstefnandi fellst á að greiðslur í 3., 5. og 6. tölulið eigi við rök að styðjast en mótmælir því að aðrar greiðslur hafi verið inntar af hendi í tilefni af umræddri innheimtu og málarekstri.
Eins og rakið hefur verið lauk skiptum á þrotabúi Vinnulyfta ehf. í apríl 2014. Með úthlutunargerð skiptastjóra var aðalstefnanda úthlutað 2.794.220 krónum. Þessir fjármunir voru greiddir inn á reikning Kr. St. lögmannsstofu ehf. Eins og rakið er í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2014 í málinu nr. E-5177/2014 hefur aðalstefnandi ekki fengið féð greitt úr hendi lögmannsstofunnar. Þar kemur fram að ekki verði önnur ályktun dregin af gögnum málsins og skýrslum fyrir dómi en að fénu hafi verið ráðstafað til greiðslu þeirrar þóknunar sem lögmannsstofan telur stefnanda skulda.
III
1. Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í aðalsök
Aðalstefnandi tekur fram að með málshöfðun sinni á hendur gagnstefnanda sæki hann kröfur á hendur honum í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna frá 10. október 2014 þrátt fyrir að hann fallist ekki á niðurstöðu úrskurðarins um reikning nr. 1638. Telur hann nánar tiltekið að dómur Hæstaréttar í máli nr. 302/2013, þar sem aðalstefnanda hafi verið dæmdur málskostnaður að fjárhæð 4.000.000 króna, eigi að gilda um uppgjör gagnstefnanda við sig vegna málarekstursins, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna frá 10. október 2014 hafi hins vegar verið staðfesting á þeirri vissu aðalstefnanda að gagnstefnandi hafi haldið eftir mun stærri hlut af skaðabótunum í málinu gegn KPMG o.fl. en hann hafi með réttu getað áskilið sér samkvæmt góðum og gildum lögmannsháttum og venjum.
Aðalstefnandi kveðst byggja kröfur sínar á almennu skaðabótareglunni eða sakarreglunni svokölluðu en hún sé grundvallarregla í skaðabótarétti. Reglan grundvallist á því að sá sem valdi tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti beri skaðabótaábyrgð á því enda sé það sennileg afleiðing af hegðun viðkomandi og raski hagsmunum sem verndaðir séu með skaðabótareglum.
Aðalstefnandi telur gagnstefnanda hafa oftekið sér fjármuni af ásetningi og gerst sekur um saknæman og ólögmætan verknað þar sem hann hafi ekki enn, þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna og áskoranir aðalstefnanda, skilað aðalstefnanda ofteknum fjármunum. Þá telur aðalstefnandi að gagnstefnandi hafi bakað sér almennt fjártjón með því að gera ekki upp við sig með réttum hætti þá fjármuni sem hann tók við fyrir hönd aðalstefnanda og sem gagnstefnanda hafi réttilega borið að greiða honum. Þá sé það deginum ljósara að gagnstefnandi hafi ekki haft vilja til að skila peningunum til aðalstefnanda og bæta fyrir hátterni sitt og hafi í raun kastað eign sinni á fjármunina.
Aðalstefnandi styður kröfur sínar við reglur skaðabótaréttar utan samninga, aðallega sakarregluna og almennu skaðabótaregluna. Sönnun um saknæmi og ásetning gagnstefnanda byggir aðalstefnandi á almennum reglum um sönnun í einkamálaréttarfari, meðal annars á ákvæði VI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem það eigi við, og eðli máls. Þá vísar aðalstefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og lögmannalaga. Aðalstefnandi kveður kröfur sínar um vexti, dráttarvexti og vaxtavexti styðjast við 3. mgr. 5. gr., 1. mgr. 8. gr., 9. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Aðalstefnandi styður kröfu sína um málskostnað við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er vísað til reglna einkamálalaga nr. 91/1991 að öðru leyti þar sem það eigi við.
2. Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í aðalsök
Gagnstefnandi reisir sýknukröfu sína í aðalsök í fyrsta lagi á því að krafa aðalstefnanda sé ekki skaðabótakrafa. Í stefnu sé einungis byggt á þeirri málsástæðu að aðalstefnandi hafði orðið fyrir tjóni af völdum gagnstefnanda. Í stefnu sé vísað til saknæmisreglunnar án frekari rökstuðnings fyrir því hvernig gagnstefnandi eigi að hafa valdið tjóni og hvert tjónið sé. Því sé alfarið mótmælt að gagnstefnandi hafi valdið aðalstefnanda tjóni enda ekkert í málsatvikalýsingu né málsástæðum sem styðji kröfugerð aðalstefnanda. Þá sé ekkert samræmi í málsástæðum og kröfugerð og því beri að sýkna gagnstefnanda af öllum kröfum aðalstefnanda.
Í öðru lagi krefst gagnstefnandi sýknu á grundvelli aðildarskorts. Kr. St. lögmannsstofa, sem sé í eigu nokkurra lögmanna, hafi annast málarekstur fyrir aðalstefnanda en ekki gagnstefnandi einn. Lögmannsstofan Kr. St. hafi innheimt greiðslur og tekið á móti þeim, bæði frá KMPG og skiptastjóra Vinnulyftna ehf., og séð um ráðstöfun fjárins. Reikningar séu útgefnir af Kr. St. lögmannsstofu ehf. og hafi allir eigendur hennar unnið að málum aðalstefnanda, þ.e. auk gagnstefnanda þeir Stefán, Páll og Jón Bjarni Kristjánssynir. Hafi Kristján og Páll unnið mest að innheimtu á kaupsamningsgreiðslu á fyrri stigum, gerð stefnu, kyrrsetningu, fjárnámi og samskiptum við skiptastjóra, sem reikningur nr. 1721 hafi verið gerður fyrir. Jón Bjarni hafi flutt mál aðalstefnanda fyrir héraðsdómi og Stefán hafi flutt mál aðalstefnanda fyrir Hæstarétti. Aðalstefnandi hafi verið viðstaddur umrædd réttarhöld. Jón Bjarni hafi móttekið greiðslu og ráðstafað henni til lækkunar á reikningsskuld aðalstefnanda við Kr. St. lögmannsstofu. Því hafi lögmannstofan borið ábyrgð á uppgjöri, en ekki aðeins gagnstefnandi. Máli þessu sé hins vegar einungis beint að honum, en hann beri ekki persónulega ábyrgð á rekstri lögmannstofunnar. Því beri að sýkna vegna aðildarskorts.
Þá byggir gagnstefnandi á því að endurgjald fyrir störf hans hafi verið eðlileg og með fullri vitund og samþykki aðalstefnanda. Mikil vinna hafi verið lögð í endurheimtu eftirstöðva kaupverðs áður en Vinnulyftur ehf. hafi farið í þrot. Mikil samskipti hafi verið við LEX lögmannsstofu á árunum 2008 og 2009 sem hafi gætt hagsmuna Vinnulyftna ehf. Í framhaldinu hafi meðal annars verið höfðuð tvö innheimtumál og kyrrsetningarmál, farið í fjárnám, farið fram á nauðungarsölu vegna lausafjármuna o.fl., áður en kröfulýsingar hafi verið gerðar. Síðan hafi kröfum verið lýst í búið, auk samskipta og eftirreksturs gagnvart skiptastjóra. Þá hafi verið innt af hendi ýmis önnur vinna við mat og tryggingar á réttarstöðu stefnanda. Hafa beri í huga að hluti af kostnaði byggi á dæmdum kröfum fyrir þrotið þar sem málskostnaður hafi í tveimur málum verið dæmdur samtals að fjárhæð 1.045.000 kr.
Gagnstefnandi vísar til þess að aðalstefnandi hafi stefnt KPMG endurskoðun vegna vanrækslu við sölu á Vinnulyftum ehf. og gert meðal annars kröfu um bætur vegna lögfræðikostnaðar sem hann hafi þurft að stofna til vegna vanrækslu KPMG. Í máli Hæstaréttar nr. 302/2012 hafi aðalstefnandi komið sjálfur fyrir dóm og verið viðstaddur aðalmeðferð, bæði í héraði og Hæstarétti. Aðalstefnandi hafi því verið vel meðvitaður um kröfu sína um kostnað sem hann hafi krafið KMPG um í málinu, auk þess sem hann hafi setið skiptafundi þar sem kröfur hans, meðal annars um kostnað, hafi verið til umræðu. Hæstiréttur hafi viðurkennt bótakröfuna að hluta en talið að ekki hafi verið hægt að taka afstöðu til hluta kröfunnar sem hafi verið reistur á kostnaði sem ekki hefði verið greiddur af hálfu aðalstefnanda. Því hafi aðalstefnandi ekki getað sýnt fram á tjón sitt. Reikningur hafi verið gefinn út fyrir kröfunni 14. apríl 2014, þar sem aðilar hafi gert samkomulag um að málskostnaður yrði greiddur við lok málsins. Líti aðalstefnandi nú svo á að honum beri ekki að greiða þá þóknun, sem krafa hafi verið gerð um í hæstaréttarmálinu, telur gagnstefnandi að vart verði litið fram hjá því að hann hafi ætlað að auðgast með ólögmætum hætti á kostnað KPMG.
Gagnstefnandi mótmælir því að aðalstefnandi hafi þegar greitt inn á kröfuna 3.500.000 krónur. Á uppgjörsblaði vegna reiknings komi fram allar innborganir og hvernig þeim hafi verið ráðstafað.
Innborgun 2. apríl 2008 sé greiðsla vegna vinnu fyrir Vinnulyftur ehf. en ekki fyrir Eyvind enda málsrekstur vegna þessa máls ekki hafinn á þeim tíma.
Tékki að fjárhæð 1.000.000 króna, sem hafi verið innleystur af gagnstefnanda 3. maí 2010, hafi verið vegna uppgjörs á öðru máli, Heiðarverks, en hluti af þeirri greiðslu, eða 499.902 kr., hafi verið lagður inn á reikning gagnstefnanda vegna vinnu við það mál og sé þessu máli óviðkomandi.
Greiðsla 22. febrúar 2013 að fjárhæð 500.000 krónur hafi verið tekin með í uppgjörið og verið bókfærð 19. júní 2013.
Aðalstefnandi haldi því fram að hann hafi innt af hendi 500.000 krónur í reiðufé, 19. júní 2013, og vísi til uppgjörsblaðs með reikningi gagnstefnanda. Gagnstefnandi kveður engar greiðslur hafa verið inntar af hendi með reiðufé en sú dagsetning sem nefnd sé, 19. júní, sé til komin vegna þess að þá sé greiðslan, sem getið sé að framan, bókuð í viðskiptamannabókhald gagnstefnanda. Fullyrðingar um að það eigi eftir að gefa út kvittun fyrir umræddri fjárhæð eigi því ekki við nein rök að styðjast. Beri aðalstefnandi sönnunarbyrði fyrir því að umrædd fjárhæð hafi verið innt af hendi af hans hálfu.
Gagnstefnandi tekur fram að greiðslur 13. júlí og 5. september 2013 hafi verið teknar með í heildaruppgjöri.
Gagnstefnandi telur að aðalstefnandi hafi ekki gert upp að fullu vinnuframlag sem gagnstefnandi hafi innt af hendi, eins og áður hafi verið lýst, þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands frá 10. október 2014. Hafi gagnstefnandi tekið ákvörðun um að fá þeim úrskurði hnekkt fyrir dómi og fá viðurkenningu á framangreindri kröfu vegna vinnuframlags fyrir aðalstefnanda.
Gagnstefnandi vísar til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og meginreglna kröfuréttar. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 129. gr. og 1. mgr. 130.gr. laga nr. 91/1991.
3. Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í gagnsök
Gagnstefnandi áréttar að úrskurðarnefnd Lögmannafélags Íslands í máli nr. 6/2014 hafi komist að þeirri niðurstöðu að samkomulag hafi verið gert milli aðila um þóknun vegna máls Hæstaréttar nr. 302/2013, en það endurgjald telji nefndin að hafi verið eðlilegt. Hins vegar hafi þóknun vegna annarra starfa gagnstefnanda í þágu aðalstefnanda verið ákvörðuð 850.000 krónur og þeirri niðurstöðu vilji gagnstefnandi hnekkja.
Gagnstefnandi bendir á að hann og aðrir lögmenn á lögmannsstofu Kr. St. lögmannsstofu ehf. hafi unnið ýmis lögfræðistörf fyrir aðalstefnanda persónulega og fyrir fyrrum félag hans Vinnulyftur ehf. Þegar aðalstefnandi hafi selt Vinnulyftur ehf. hafi gagnstefnandi aðstoðað aðalstefnanda við að innheimta söluandvirðið. Gagnstefnandi hafi fylgt því eftir með innheimtubréfum og málsókn sem hafi endað með árituðum stefnum. Krafist hafi verið kyrrsetningar eigna hjá Vinnulyftum ehf. til tryggingar á samningsgreiðslum sem hafi verið hafnað hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Því máli hafi síðan verið fylgt eftir með kæru til Héraðsdóms Reykjaness 29. maí 2009. Málið hafi verið flutt munnlega og kveðinn upp úrskurður og var niðurstaða sýslumanns staðfest. Í kjölfarið hafi gagnstefnandi átt í ýmsum samskiptum við eigendur Vinnulyfta ehf. þar sem reynt hafi verið að ná samkomulagi vegna sölunnar en án árangurs. Gagnstefnandi hafi gert eignakönnun og í framhaldinu hafi verið gert fjárnám í lausafjármunum og síðan lögð fram nauðungarsölubeiðni á þeim eignum 3. febrúar 2010.
Í apríl 2010 hafi eigendur Vinnulyfta ehf. lýst félagið gjaldþrota. Gagnstefnandi kveðst hafa lýst kröfum í þrotabúið til innheimtu ógreidds söluverðs á félaginu. Fjórum kröfum hafi verið lýst og í framhaldi af því hafi verið nauðsynlegt að viðhafa mikla hagsmunagæslu og aðhald á skiptastjóra búsins. Mikil samskipti hafi verið við skiptastjóra við að gæta hagsmuna við ráðstöfun eigna búsins svo og að þrýsta á að höfða riftunarmál á hendur fyrri eigendum til að tryggja hagsmuni aðalstefnanda. Þá hafi gagnstefnanda verið falið að undirbúa og gefa út áfrýjunarstefnu í einu slíku máli sem þrotabúið hafi höfðað á hendur fyrrum eigendum sem hafi tapast að hluta. Þegar á reyndi hafi aðalstefnandi ekki viljað leggja út útlagðan kostnað vegna málsins og hafi það því ekki verið þingfest.
Gagnstefnandi kveður þóknun vegna framangreindra innheimtustarfa og hagsmunagæslu fyrir aðalstefnanda vera reista á gjaldskrá Kr.St. lögmannsstofu ehf., og taki hún mið af þeim ýtrustu kröfum sem gerðar hafi verið í þrotabúið og samþykktar hafi verið af skiptastjóra. Þóknun fyrir kröfurnar sé sundurliðuð í kröfulýsingum sem byggist á gjaldskrá gagnstefnanda, dæmdum málskostnaði og útlögðum kostnaði fyrir kröfulýsingu B og C.
Fyrir kröfulýsingu merkt A 3.653.577 kr.
Fyrir kröfulýsingu merkt B 580.047 kr.
Fyrir kröfulýsingu merkt C 637.947 kr.
Fyrir kröfulýsingu merkt D 3.200.000 kr.
Vextir frá 15. júní 2010 til 17. desember 2013 3.343.620 kr.
11.415.191 kr.
Önnur vinna, s.s. samskipi, upplýsingagjöf, ráðgjöf o.fl. 2.781.794 kr.
Samtals 14.196.985 kr.
Reikningur lögmannsstofunnar vegna vinnu gagnstefnanda og annarra lögmanna lögmannsstofunnar Kr. St. ehf. á hendur aðalstefnanda vegna innheimtustarfa hafi verið gefinn út 14. apríl 2014 og verið samtals að fjárhæð 14.196.985 krónur.
Gagnstefnandi byggir á því að aðalstefnanda hafi verið fullkunnugt um skuld sína við gagnstefnanda og að hún væri byggð á gjaldskrá hans. Forsendur fyrir niðurstöðum úrskurðar lögmannafélagsins um að gjaldskrá gagnstefnanda hafi ekki verið kynnt aðalstefnanda og að honum hafi ekki verið kunnugt um gjaldtöku gagnstefnanda vegna starfa hans við innheimtuna fái því ekki staðist.
Gagnstefnandi mótmælir niðurstöðum úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins í máli nr. 6/2014, um að sanngjarnt sé að byggja þóknun vegna innheimtustarfa gagnstefnanda áður en farið var í dómsmál á hendur KMPG, á þeim tíma sem ætla megi að nauðsynlegt hafi verið að verja til hennar. Gagnstefnandi byggði reikning sinn á gjaldskrá sinni en ekki á tímaskýrslum enda hefðu tímagjöld annars verið innheimt jafnóðum. Gagnstefnandi lagði þó fram yfirlit fyrir úrskurðarnefndina yfir þá tíma sem hafi farið í innheimtustörfin á tímabilinu frá apríl 2008 til júlí 2011 og málsgögn því til stuðnings. Þar komi fram að 190 tímar hafi farið í innheimtustörf fyrir aðalstefnanda. Úrskurðarnefndin geri engar efnislegar athugasemdir við þá tímaskýrslu aðrar en þær að tímarnir séu ríflega áætlaðir. Úrskurðarnefndin meti umfang starfans heildstætt og telji að 850.000 krónur sé hæfilegt endurgjald fyrir innheimtustörfin, sem hafi tekið yfir þrjú ár. Enginn rökstuðningur sé fyrir þeirri niðurstöðu, hvorki fyrir tímagjaldi né fjölda þeirra tíma sem unnir hafi verið eða með mati á hagsmunagæslu samkvæmt gjaldskrá, og því verði ekki á honum byggt. Úrskurðarnefndin byggi á því að ekkert hafi fengist úr þrotabúinu, sem sé ekki rétt. Greiðslur úr þrotabúinu hafi numið 2.794.220 krónum. Úrskurðarnefndin telur sér fært að meta heildstætt þriggja til fjögurra ára starf vegna innheimtunnar og mikillar viðveru gagnstefnanda á skrifstofu aðalstefnanda án nokkurs frekari rökstuðnings. Til áréttingar því hve þessi niðurstaða sé langt frá raunveruleikanum, hafi málskostnaður verið dæmdur í tveimur málum árið 2009, 2 x 522.500 kr., og hluti bótakröfunnar hafi verið viðurkenndur í Hæstarétti. Þá hafi ekki verið tekið tillit til málskostnaðar vegna ágreiningsmáls um kyrrsetningu, sem kveðinn hafi verið upp í Héraðsdómi Reykjaness, en þar hafi aðalstefnandi verið dæmdur til greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 220.000 kr., vinnu við fjárnám, nauðungarsölubeiðni o.fl. Þá liggi fyrir að margvísleg önnur hagsmunagæsla hafi átt sér stað og gerð hafi verið krafa um hana í bótamáli á hendur KPMG. Niðurstaða nefndarinnar sé órökstudd og beinlínis í andstöðu við kröfugerð aðalstefnanda í máli Hæstaréttar nr. 302/2013 og niðurstöðu réttarins. Því beri að ógilda þennan hluta úrskurðarins.
Gagnstefnandi kveðst styðja kröfur sínar í gagnsök við meginreglu kröfuréttar, stjórnsýslulög nr. 37/1993, 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og lög um meðferð einkamála nr. 91/1991.
4. Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í gagnsök
Aðalstefnandi telur að gagnsökin sé höfðuð af þarfalausu og valdi óþörfum drætti á framgangi málsins í aðalsök. Gagnstefnandi og umboðsmaður hans hafi í gagnsökinni haft í frammi rangar staðhæfingar og mótbárur. Sé fjallað um slíkt athæfi í 1. og 2. mgr. 135. gr., sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og vísar aðalstefnandi til þessara ákvæða.
Aðalstefnandi mótmælir ýmsum staðhæfingum í gagnstefnu. Þannig mótmælir hann því að gagnstefnandi og aðrir lögmenn á lögfræðistofu hans hafi unnið ýmis lögfræðistörf fyrir aðalstefnanda og fyrirtæki hans, önnur en þau er lutu að sölu aðalstefnanda á félögunum Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð ehf., fyrir utan innheimtu á víxilmáli, en fyrir það hafi gagnstefnanda verið greitt að fullu fyrir alllöngu. Aldrei hafi verið áskilin greiðsla úr hendi aðalstefnanda fyrir þau störf enda hafi skuldarinn greitt fulla innheimtuþóknun. Hins vegar hafi gagnstefnandi aldrei skilað áunnum dráttarvöxtum til aðalstefnanda, aðeins höfuðstól kröfunnar.
Í þessu sambandi tekur aðalstefnandi fram að kröfu hans um formlega skilagrein hafi aldrei verið sinnt af hálfu gagnstefnanda. Einnig telur aðalstefnandi sig hafa spurt gagnstefnanda eitt sinn, á fundi með honum vegna málsins um söluna á Vinnulyftum ehf., hvernig staða hans væri ef til skilnaðar hans og eiginkonu hans kæmi. Sérstakur reikningur hafi aldrei verið gerður né krafa um greiðslu komið fram vegna þessa af hálfu gagnstefnanda sjálfs né annarra á lögmannsstofu hans. Aðalstefnandi telur allar staðhæfingar um skuldir við gagnstefnanda vegna vinnu hans rangar, villandi og ósannar. Enda sé ekkert í málatilbúnaði gagnstefnanda sem sýni eða sanni fyrrgreindar skuldir aðalstefnanda.
Aðalstefnandi mótmælir því einnig að gagnstefnandi og lögmenn á lögfræðiskrifstofu hans hafi haft mikla „hagsmunagæslu og aðhald“ vegna starfa skiptastjóra að búi Vinnulyfta ehf. og að samskipti þeirra hafi verið mikil við hann. Aðalstefnandi telur þessar staðhæfingar gagnstefnanda rangar, villandi og ósannar. Hið rétta sé að störf gagnstefnanda er lúti að þessu hafi verið harla léttvæg, samanber það sem komi fram í gögnum sem aðalstefnandi hafi lagt fram í aðalsök og úrskurðarnefnd Lögmannafélags Íslands bendi á í úrskurði sínum.
Aðalstefnandi mótmælir því jafnframt að hann hafi hafnað því að leggja út fyrir kostnaði í málarekstrinum vegna Vinnulyfta ehf. Slíkt sé rangt og ósatt. Staðreyndin sé sú að aðalstefnandi hafi greitt fyrir fram umtalsverðar fjárhæðir inn á rekstur málanna og meðal annars allan útlagðan kostnað vegna reksturs þeirra.
Aðalstefnandi mótmælir því að honum hafi verið kynnt sérstaklega gjaldskrá gagnstefnanda og að öll störf fyrir hann hafi átt að byggjast á slíkri gjaldskrá. Slíkt sé rangt og ósatt og slík staðhæfing sé ekki studd neinum gögnum.
Aðalstefnandi kannast heldur ekki við að skiptastjóri hafi falið gagnstefnanda að vinna tiltekið verk fyrir þrotabúið, eins og að gefa út áfrýjunarstefnu. Hafi svo verið geti slík vinna ekki talist á ábyrgð aðalstefnanda.
Aðalstefnandi telur gagnstefnanda hafa miklað störf sín stórlega varðandi aðdragandann að innheimtu krafna á hendur KPMG ehf. o.fl. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að 4.000.000 króna væri hæfilegur málskostnaður fyrir málaferlin, bæði fyrir héraði og í Hæstarétti. Hafi þessi niðurstaða Hæstaréttar meðal annars verið byggð á mati á störfum gagnstefnanda á fyrri stigum innheimtutilrauna hans á hendur Vinnulyftum ehf. Aðalstefnandi telur að gagnstefnandi hafi áskilið sér gífurlega háar fjárhæðir vegna starfa sinna í innheimtumálum aðalstefnanda gegn Vinnulyftum ehf., langt umfram það sem sé eðlilegt og sanngjarnt megi teljast og samrýmist góðum og gegnum lögmannsháttum. Slíkt sé í raun einnig mat Hæstaréttar þegar rétturinn hafi ákvarðað málflutningsþóknunina.
Aðalstefnandi mótmælir því að hann hafi verið „vel inni í allri kröfugerð“ í málum sínum hjá gagnstefnanda. Telur hann slíkt ekki hafa verið fyrir hendi umfram það sem eðlilegt megi teljast. Aðalstefnandi hafi verið kallaður til af gagnstefnanda til að gefa aðilaskýrslu í máli sínu fyrir héraði og hafi gagnstefnandi einnig fengið hann til þess að mæta við flutning málsins í Hæstarétti. Þetta sé hefðbundin tilhögun í málarekstri og ætti ekki að nota sem málsástæðu til þess að villa um og reyna að réttlæta allt of háa málskostnaðarkröfur.
Aðalstefnandi telur að það sem gagnstefnandi og umboðsmaður hans gefi í skyn með ummælum þess efnis, að aðalstefnandi hafi ætlað, með tiltekinni kröfugerð, að auðgast á kostnað KPMG ehf. o.fl. í ákveðnu tilviki, sé með eindæmum meiðandi og ósæmandi. Byggir krafa aðalstefnanda um réttlætingu réttarfarssektar úr hendi gagnstefnanda og umboðsmanns hans meðal annars á þessari yfirlýsingu. Gagnstefnandi hafi sjálfur ákvarðað allar kröfugerðir í þessum innheimtumálum og ráðið för.
Aðalstefnandi áréttar að byggja eigi þóknun til handa gagnstefnanda á úrskurðarorði í síðari hluta úrskurðar úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands og því eigi að sýkna hann af kröfum gagnstefnanda og staðfesta niðurstöðu nefndarinnar, hvað þetta varði. Niðurstaða nefndarinnar sé sanngjörn og taki hún mið af umfangi innheimtunnar áður en málið gegn KPMG ehf. o.fl. hafi verið höfðað. Aðalstefnandi telur rétt að tengja þessa ákvörðun einnig við dóm Hæstaréttar um 4.000.000 króna málskostnað og að túlka megi dóminn þannig að í raun sé sú fjárhæð nægjanleg til handa gagnstefnanda fyrir störf hans í þágu aðalstefnanda. Hæstiréttur hafi í raun tekið fullt tillit til starfa gagnstefnanda vegna uppbyggingar og aðdraganda málsins gegn KPMG o.fl. í dómi sínum, með ákvörðun fjárhæðarinnar. Aðalstefnandi tekur fram að lítill sem enginn fjárhagslegur ávinningur hafi orðið af upphaflegum störfum gagnstefnanda í innheimtutilraunum hans á hendur Vinnulyftum ehf., ef frá er talinn málareksturinn, sem síðar hafi orðið á hendur KPMG ehf. o.fl.
Aðalstefnandi telur að sú úthlutun fjár, sem að lokum hafi komið úr þrotabúi Vinnulyfta ehf. og hafi síðan átt að ganga til aðalstefnanda, eigi ekki að hafa áhrif á kröfur gagnstefnanda til þóknunar og sé með öllu siðlaust af hálfu gagnstefnanda að hafa krafist hennar af skiptastjóra og síðan neitað að skila henni til aðalstefnanda þrátt fyrir að störfum hans hafi verið lokið talsvert áður en til úthlutunar hafi komið og aðrir lögmenn verið komnir að málinu, samkvæmt umboði aðalstefnanda.
Aðalstefnandi ítrekar allar fyrri mótbárur sínar og mótmæli gegn gjaldtöku gagnstefnanda á störfum sínum fyrir aðalstefnanda. Þá mótmælir aðalstefnandi sérstaklega áskilnaði gagnstefnanda um þóknun í fjórum kröfulýsingum, sem lýst hafi verið í þrotabú Vinnulyfta ehf. Þær séu nánast allar „copy/paste“ útfærslur sem hæglega hefði mátt gera allar saman á innan við klukkustund.
Aðalstefnandi styður kröfur sínar í gagnsök við meginreglur réttarfars svo og reglur skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga, sakarreglunni. Einnig er af hálfu aðalstefnanda vísað til laga nr. 77/1998 um lögmenn, vaxtalaga nr. 38/2001, svo og til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Af málatilbúnað aðalstefnanda verður ráðið að hann reisi kröfu sína gegn gagnstefnanda á því að sá síðarnefndi hafi af ásetningi og með saknæmum og ólögmætum hætti haldið eftir fjármunum, sem hann hafi móttekið fyrir hönd aðalstefnanda í krafti umboðs síns. Ljóst er af málatilbúnaði aðalstefnanda að hann telur sig hafa orðið fyrir fjártjóni af þessum sökum. Að teknu tilliti til niðurstöðu úrskurðarnefndar lögmanna 10. október 2014 um hæfilega þóknun vegna vinnu gagnstefnanda í þágu aðalstefnanda byggir hann á því að af þeim 28.021.535 krónum sem gagnstefndi hélt eftir af 168.021.535 króna greiðslu, sem lögð var inn á reiknings lögmannstofu gagnstefnanda í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands 7. nóvember 2013, hafi a.m.k. 11.016.258 krónum verið haldið eftir með ólögmætum hætti. Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið verður að hafna því sem gagnstefnandi heldur fram, að ekki sé útskýrt nægjanlega í stefnu hvernig gagnstefnandi eigi að hafa valdið aðalstefnanda tjóni og í hverju tjón hans felist. Þá fær dómurinn ekki séð að samræmi skorti milli málsástæðna aðalstefnanda og kröfugerðar hans í stefnu.
Sýknukrafa gagnstefnanda byggist meðal annars á því að kröfum aðalstefnanda sé ranglega beint að gagnstefnanda, Kristjáni Stefánssyni, persónulega í stað þess að höfða málið gegn lögmannsstofu hans, Kr. St. lögmönnum ehf. Meðal gagna málsins er yfirlýsing aðalstefnanda, dagsett 2. apríl 2008, þar sem fram kemur að aðalstefnandi feli gagnstefnanda: „að innheimta hjá FS21 ehf. og/eða eigendum félagsins persónulega, skuld vegna kaupa félagsins á hlutafé í Vinnulyftum ehf. og Smiðsbúð 12 ehf., samkvæmt kaupsamningi 10. júlí 2007“. Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir enn fremur: „Kristján Stefánsson, hrl. skal innheimta kröfuna með málsókn, ef því er að skipta.“ Eins undirritaði gagnstefnandi ásamt aðalstefnanda samkomulag um lögmannsþóknun 11. júlí 2011 vegna reksturs á máli gegn KPMG hf. og fleirum án þess að þar kæmi fram samningurinn væri gerður við Kr. St. lögmannstofu ehf.
Af gögnum málsins og framburði þeirra Páls og Jóns Bjarna Kristjánssona fyrir dómi er þó ljóst að aðrir eigendur á lögmannsstofu gagnstefnanda eða fulltrúar sem þar starfa, hafi auk gagnstefnanda unnið í málum fyrir aðalstefnanda, meðal annars við innheimtu á fyrrgreindri skuld. Hins vegar er ótvírætt að gagnstefnandi hafi, sem lögmaður aðalstefnanda, borið skyldur sem slíkur gagnvart aðalstefnanda. Verður því ekki fallist á það með gagnstefnanda að hann geti ekki borið skaðabótaábyrgð á þeim störfum sem hann tók að sér fyrir aðalstefnanda, þar á meðal í tengslum við endurgjald fyrir þá vinnu og skil á þeim fjármunum sem aðalstefnandi fengi í sinn hlut. Þykir því ekki skipta máli við úrlausn þessa máls þótt aðalstefnandi hafi kosið að beina kröfum sínum að gagnstefnanda en ekki lögmannsstofu hans.
Þegar hefur verið rakið að aðalstefnandi hafi fengið 140.000.000 króna í hendur af þeim 168.021.535 krónum sem greiddar voru inn á reikning lögmannsstofu gagnstefnanda í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands 7. nóvember 2013. Af hálfu gagnstefnanda var því haldið eftir 28.021.535 krónum af þessari greiðslu upp í þóknun. Af hálfu gagnstefnanda er viðurkennt að aðalstefnandi hafi greitt inn á verkið samtals 1.500.000 krónur. Reikningur lögmannsstofunnar nr. 1638 að fjárhæð 19.438.527 krónur með virðisaukaskatti, vegna meðferðar á skaðabótamálinu er lauk með framangreindum hæstaréttardómi, virðist hafa verið greiddur að fullu með því fé sem lögmannsstofan hélt eftir sem og framangreindum innborgunum aðalstefnanda. Reikningur nr. 1721 að fjárhæð 14.196.985 krónur með virðisaukaskatti, vegna innheimtu á söluverði framangreindra einkahlutafélaga, virðist einnig að stórum hluta hafa verið greiddur með þeim fjármunum sem haldið var eftir, eða sem nemur 10.083.008 krónum. Þá verður að ganga út frá því að þeim fjármunum, sem aðalstefnanda var úthlutað úr þrotabúi Vinnulyfta ehf. og greiddir voru inn á reikning lögmannsstofu gagnstefnanda, 2.794.220 krónur, hafi einnig verið ráðstafað til greiðslu reikningsins.
Af hálfu aðalstefnanda er því haldið fram að gagnstefnandi eigi ekki tilkall til hærri þóknunar fyrir þá vinnu, sem reikningur nr. 1721 lýtur að, en sem nemur 850.000 krónum ásamt virðisaukaskatti, samtals 1.066.750 krónum. Því hafi gagnstefnandi einungis getað áskilið sér samtals 20.505.277 krónur í endurgjald vegna vinnu við innheimtu söluverðsins og við skaðabótamálið. Þá heldur aðalstefnandi því fram að hann hafi greitt 3.500.000 krónur inn á vinnu vegna þessara tveggja mála, en ekki einungis 1.500.000 krónur, eins og gagnstefnandi haldi fram. Lýtur ágreiningur málsins að þessum tveimur atriðum, annars vegar réttmæti endurgjaldsins, sem gagnstefnandi hefur áskilið sér fyrir vinnu við innheimtuna, og hins vegar hvað aðalstefnandi hefur þegar innt af hendi fyrir vinnu við þessi tvö mál.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greidda í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Þá bindur loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna. Um endurgjald til lögmanna sem þeim er heimilt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar við löginnheimtu á peningakröfu er síðan fjallað í 3. mgr. 24. gr. laganna, sbr. lög nr. 60/2010. Er ráðherra þar veitt heimild til þess að gefa út leiðbeiningar um það efni að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands, sbr. auglýsingu nr. 450/2013.
Komi upp ágreiningur milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds fyrir lögmannsstörf eða fjárhæð þess getur annar aðila, eða þeir báðir, lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Þegar slíku máli er lokið er aðila heimilt að leita fyrir dómi ógildingar á úrskurði nefndarinnar eða sátt sem gerð hefur verið fyrir henni eða leita þannig breytingar á niðurstöðu sem þar hefur fengist, eins og segir í 5. mgr. 28. gr. laganna.
Eins og rakið hefur verið leitaði aðalstefnandi eftir úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna um ágreining aðila um rétt gagnstefnanda til endurgjalds fyrir þau lögmannsstörf sem um ræðir. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að áskilin þóknun vegna reksturs skaðabótamálsins gegn KPMG o.fl., 19.438.527 krónur, teldist hæfilegt endurgjald í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar væri hæfilegt endurgjald vegna innheimtustarfa í þágu aðalstefnanda 850.000 krónur. Gagnsökin í máli þessu er höfðuð á grundvelli fyrrgreindrar 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 í því skyni að fá niðurstöðu úrskurðarnefndar um hæfilegt endurgjald fyrir innheimtustörfin fellda úr gildi.
Í yfirlýsingu aðalstefnanda frá 2. apríl 2007, þar sem hann fól gagnstefnanda að innheimta eftirstöðvar á söluverði einkahlutafélaganna hjá FS21 ehf., er í engu vikið að þóknun fyrir innheimtustörfin.
Gagnstefnandi hefur rökstutt umrædda innheimtuþóknun með því að vísa til gjaldskrár lögmannstofunnar Kr. St. lögmannsstofu ehf. og í því sambandi lagt fram skjal sem ber með sér að vera gjaldskrá lögmannsstofunnar sem gerð hafi verið í apríl 2013. Þar er í 2. gr. fjallað um grunngjald innheimtuþóknunar, sem skal vera 6.481 króna, en við þá fjárhæð bætist ákveðið hlutfall af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta kröfunnar og fer hlutfallið lækkandi eftir því sem fjárhæðin hækkar. Í ákvæðinu segir að skuldareigandi „ábyrgist greiðslu innheimtulaunanna“.
Útilokað er að aðalstefnanda hafi verið kynnt umrædd gjaldskrá áður en innheimta á eftirstöðvum söluverðsins hófst í apríl 2008, enda var hún sett fimm árum síðar. Ekkert er heldur fram komið til stuðnings því að gagnstefnandi hafi í upphafi innheimtunnar eða meðan á henni stóð áskilið sér þóknun byggða á heildarhagsmunum við innheimtuna er geti rennt stoðum undir ríflega ellefu milljóna króna endurgjald fyrir þá vinnu. Því er ósannað að samið hafi verið með þeim hætti milli aðila. Þá hafa ekki verið færðar sönnur á að aðalstefnanda hafi á annan hátt verið gert ljóst hvert endurgjaldið gæti orðið eða að hann gæti orðið ábyrgur fyrir greiðslu þess innheimtukostnaðar sem krafist yrði úr hendi skuldara.
Af þessu leiðir að engu skiptir fyrir úrlausn málsins þótt aðalstefnanda eigi að hafa verið ljóst að í fjórum kröfulýsingum í þrotabú Vinnulyfta ehf. hafi meðal annars verið lýst kröfu um innheimtuþóknun annars vegar að fjárhæð 2.911.217 krónur, auk 742.360 króna í virðisaukaskatt, vegna ógreidds skuldabréfs að fjárhæð 90 milljónir króna, og hins vegar þóknunar að fjárhæð 3.200.000 krónur með virðisaukaskatti vegna eftirstöðva kaupsamningsins 11. júlí 2007 að fjárhæð 105 milljónir króna. Ekki verður heldur talið skipta máli í þessu sambandi þó að aðalstefnanda hafi mátt vera ljóst að í tveimur öðrum kröfulýsingum í þrotabúið, sem reistar voru á árituðum stefnum frá 2. desember 2009 vegna vangreiddra vaxta af fyrrgreindu skuldabréfi, var í hvoru máli krafist 522.500 króna vegna dæmds málskostnaðar auk ýmiss annars kostnaðar sem hlotist hefði af aðfararbeiðnum og kröfum um nauðungarsölu.
Með sömu röksemdum verður heldur ekki á það fallist að aðalstefnandi hafi samþykkt að ábyrgjast greiðslu innheimtuþóknunar sem krafist var samkvæmt framansögðu þó að af hans hálfu hafi verið byggt á því við höfðun skaðabótamálsins gegn KPMG o.fl. að tjón hans væri meðal annars reist á þessum liðum í kröfulýsingunum. Raunar hefur ekkert verið lagt fram í málinu sem gefur til kynna að gagnstefnandi hafi við innheimtuna áskilið sér einhverja innheimtuþóknun úr hendi aðalstefnanda, t.d. á grunni útseldrar vinnu eða innheimtuárangurs. Ber að árétta í þessu sambandi skyldu lögmanns samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir því hvert endurgjald hans „gæti orðið í heild sinni“, en orðalag þetta gefur til kynna að þessi upplýsingaskylda hvíli á lögmanni áður en vinna í þágu skjólstæðingsins hefst. Er það í andstöðu við þessi fyrirmæli ef lögmaður kynnir skjólstæðingi sínum fyrst eftir að innheimtutilraunum er lokið að þóknun lögmannsins sé reiknuð út sem hlutfall af umkrafinni fjárhæð og geri honum reikning sem tekur mið af því.
Af framangreindu leiðir að endurgjald samkvæmt reikningi nr. 1721 að fjárhæð 11.312.339 krónur án virðisaukaskatts vegna framangreindrar innheimtu er verulega umfram það sem gagnstefnanda var rétt að áskilja sér úr hendi aðalstefnanda fyrir þau innheimtustörf sem hann tók að sér í apríl 2008. Á hinn bóginn gat aðalstefnandi ekki litið svo á að gagnstefnandi ætti að bera alla áhættu af því að innheimta lögmannskostnaðar hjá skuldara bæri árangur. Í ljósi atvika verður að leggja heildstætt mat á hvert sé sanngjarnt endurgjald úr hendi aðalstefnanda fyrir þá vinnu. Er á það fallist að virða beri það gagnstefnanda til sakar að halda eftir verulega hærri fjárhæð af greiðslum í þágu aðalstefnanda en sem nemur þessu sanngjarna endurgjaldi.
Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna kemur fram að við mat á sanngjarni þóknun vegna innheimtunnar verði öðru fremur að byggja á þeim tíma sem ætla megi að nauðsynlegt hafi verið að verja til hennar. Þá er þar vísað til þess að taka verði tillit til þess að kröfum aðalstefnanda var af hálfu gagnstefnanda fylgt eftir með kyrrsetningar-, aðfarar- og nauðungarsölumálum, auk þess sem gagnstefnandi gætti hagsmuna aðalstefnanda við gjaldþrotaskipti á Vinnulyftum ehf. Þá kemur þar fram að hér verði einnig litið til þess að enginn árangur hafi orðið af þessari innheimtu.
Þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin verða talin málefnaleg við mat á sanngjörnu endurgjaldi fyrir vinnu gagnstefnanda í þágu aðalstefnanda. Ekki er efni til athugasemda við forsendur úrskurðarins að þessu leyti, nema að sá árangur varð af innheimtu af hálfu gagnstefnanda að 2.794.220 krónum var úthlutað til aðalstefnanda úr þrotabúi Vinnulyfta í apríl 2014. Eins og fram hefur komið hefur öllum þessum fjármunum verið varið af hálfu gagnstefnanda til greiðslu hinnar umdeildu innheimtuþóknunar og breytir því engu um forsendur úrskurðarins.
Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar er vikið að því að tímaskráningar af hálfu gagnstefnanda þyki í einstökum atriðum mjög ríflegar miðað við þá verkliði sem um ræði og yrði skráningin ekki lögð til grundvallar eins og hún kæmi fyrir þó að af henni megi draga ályktanir um umfang verksins. Við þetta má bæta að umrædd tímaskráning var ekki unnin samhliða vinnu við verkið, heldur er hún samantekt lögmanns eftir að ágreiningur um þóknun reis milli aðila. Þegar umfang starfans var þannig metið heildstætt komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að 850.000 krónur auk virðisaukaskatts væri hæfilegt endurgjald fyrir umrædd innheimtustörf. Sérstaklega er tekið fram að þá hafi verið tekið tillit til vaxta af fjárhæðinni frá því krefja mátti um endurgjaldið til uppkvaðningar úrskurðarins.
Dómurinn telur ekkert fram komið í málinu sem hnekki þessari ályktun úrskurðarnefndarinnar í grundvallaratriðum að öðru leyti en því að fyrir liggur dómur Hæstaréttar Íslands frá 7. nóvember 2013 þar sem mat er lagt á tjón aðalstefnanda er hlaust af því að hann naut ekki trygginga fyrir kröfum sínum á hendur FS21 ehf. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að skaðabótaábyrgð tjónvalds taki til tjóns sem svari til þeirrar fjárhæðar sem aðalstefnandi hefði með réttu lagi átt á fá greidda úr hendi FS21 ehf. 31. mars 2008 samkvæmt kaupsamningi þeirra. Er þar lagt til grundvallar að aðalstefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem nemur meðal annars þeim málskostnaði sem hann fékk ekki greiddan samkvæmt tveimur árituðum stefnum, en hann nam samtals 1.045.000 krónum, auk kostnaðar af beiðni um fjárnám og gjald í ríkissjóð vegna fjárnámsgerða, samtals að fjárhæð 53.245 krónur. Miðað við þessa niðurstöðu þykir ekki rétt að ákvarða gagnstefnanda lægra endurgjald fyrir innheimtustörfin en sem nemur 1.100.000 krónum og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Með vísan til 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 verður niðurstöðu úrskurðarnefndar lögmanna breytt að því leyti.
Kemur þá til athugunar hvort þær greiðslur sem aðalstefnandi lýsir í málsóknarskjölum séu fyrir vinnu við innheimtu á eftirstöðvum af söluverði einkahlutafélöganna og málareksturs til heimtu skaðabóta úr hendi KPMG o.fl. vegna þeirra viðskipta. Þær greiðslur sem eru umdeildar að þessu leyti eru í fyrsta lagi greiðsla með tékka að fjárhæð 500.000 krónur sem dagsettur er 1. apríl 2008. Gagnstefnandi framseldi tékkann í banka 2. maí 2008. Gagnstefnandi heldur því fram að þessi greiðsla sé vegna vinnu fyrir Vinnulyftur ehf. en ekki aðalstefnanda, enda hafi vinna ekki verið hafin við innheimtu á eftirstöðvum söluverðsins. Aðalstefnandi kannast ekki við að hafa skuldað gagnstefnanda á þessum tíma endurgjald vegna vinnu fyrir Vinnulyftur ehf. Engin gögn liggja fyrir um þá skuld eða þá vinnu sem gagnstefnandi kveður liggja þar að baki. Gagnstefnandi undirritaði yfirlýsingu, sem er dagsett 2. apríl 2008, þar sem hann fól gagnstefnanda að annast innheimtu söluverðsins á einkahlutafélögunum. Þykir nægjanlega fram komið að umrædd 500.000 króna greiðsla hafi verið fyrirframgreiðsla inn á það verk.
Í öðru lagi er deilt um 1.000.000 króna greiðslu sem aðalstefnandi innti af hendi með tékka, dags. 3. maí 2010, sem gagnstefnandi framseldi í banka sama dag. Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að þessi greiðsla hafi verið vegna uppgjörs á öðru máli sem í greinargerð hans í aðalsök er kallað Heiðarverk. Aðalstefnandi kannast ekki við að hafa verið í skuld við gagnstefnanda vegna annars verks á þessum tíma en innheimtutilrauna á eftirstöðvum söluverðsins. Ekki hafa verið lögð fram viðhlítandi gögn til stuðnings fullyrðingum gagnstefnanda í þá veru. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi verður að leggja til grundvallar að greiðslan hafi verið fyrir vinnu við framangreinda innheimtu.
Í þriðja lagi er ágreiningur milli aðila um það hvort aðalstefnandi hafi greitt 500.000 krónur með reiðufé 19. júní 2013. Því til stuðnings vísar aðalstefnandi til þess sem fram komi á ódagsettu uppgjöri milli aðila og yfirliti um sama efni, dags. 17. desember 2013, sem Jón Bjarni Kristjánsson hdl. tók saman, þar sem segi að aðalstefnandi hafi þennan dag greitt 500.000 krónur inn á útlagðan kostnað. Af hálfu gagnstefnanda er því mótmælt að greiðsla hafi verið innt af hendi í reiðufé þennan dag. Er dagsetningin á framangreindum skjölum skýrð með því að þá hafi greiðsla, sem fram hafi farið 22. febrúar 2013, verið bókuð í viðskiptamannabókhaldi lögmannsstofunnar. Aðalstefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að umrædd greiðsla hafi verið innt af hendi með reiðufé eins og hann heldur fram. Í því efni dugar ekki að vísa til þess sem fram kemur í framangreindu uppgjöri og yfirliti sem gagnstefnandi hefur gefið tilteknar skýringar á. Því er ósannað að umrædd fjárhæð hafi verið innt af hendi með reiðufé inn á kröfu gagnstefnanda um endurgjald fyrir lögmannsþjónustu.
Samkvæmt framansögðu er fallist á það að aðalstefnandi hafi verið búinn að greiða samtals 1.500.000 krónur inn á kröfu gagnstefnanda vegna vinnu við innheimtu á eftirstöðvum söluverðs einkahlutafélaganna þegar þær greiðslur fóru fram sem ágreiningslaust er að aðalstefnandi hafi innt af hendi vegna reksturs skaðabótamálsins 22. febrúar, 13. júlí og 5. september 2013, samtals 1.500.000 krónur. Við uppgjör fyrir lögmannsþjónustu vegna þessara tveggja mála verður því að taka tillit til innborgana aðalstefnanda að fjárhæð samtals þrjár milljónir króna.
Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið verður á það fallist að aðalstefnandi eigi bótakröfu á hendur gagnstefnanda sökum þess að hann hélt til muna hærri fjárhæð eftir af greiðslum sem bárust lögmannstofu hans í þágu aðalstefnanda en hann átti rétt á. Að teknu tilliti til þeirrar þóknunar sem hann átti tilkall til með virðisaukaskatti, sem samtals nemur 20.819.027 krónum (1.380.500 + 19.438.527) að frádregnum framangreindum innborgunum að fjárhæð 3.000.000 króna, nam krafa gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda 17.819.027 krónum á þeim tíma er greiðsla á skaðabótum til aðalstefnanda var lögð inn á reikning lögmannsstofu gagnstefnanda og hluta þeirra haldið eftir upp í lögmannsþóknun. Af þessu leiðir að tjón aðalstefnanda nemur 10.202.508 krónum (28.021.535 – 17.819.027). Verður gagnstefnanda gert að greiða aðalstefnanda þá fjárhæð í skaðabætur.
Aðalstefnandi krefst vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. nóvember 2013 til 11. desember 2014. Af hálfu gagnstefnanda sætir þessi krafa ekki andmælum, enda á hún sér stoð í gögnum málsins og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Verður því fallist á hana eins og hún er fram sett.
Aðalstefnandi krefst jafnframt dráttarvaxta „skv. 9. gr.“ laga nr. 38/2001 frá 11. desember 2014 til greiðsludags. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og það ákvæði hefur verið skýrt í dómaframkvæmd, ber að tilgreina, svo glöggt sem verða má, ekki aðeins þá fjárhæð sem vaxta og dráttarvaxta er krafist af og upphafstíma þeirra, heldur einnig þá vaxtaprósentu sem krafa er gerð um. Í 11. gr. laga nr. 38/2001 er heimilað frávik frá þessu á þann veg að ef mál er höfðað til heimtu peningakröfu og krafist vaxta með tilvísun til 4. eða 8. gr. eða dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., megi dæma slíka vexti, enda þótt hundraðshluti þeirra sé ekki tilgreindur í stefnu. Krafa aðaláfrýjanda um dráttarvexti uppfyllir ekki þessi skilyrði og verður henni því sjálfkrafa vísað frá dómi.
Í ljósi heildarniðurstöðu málsins verður að líta svo á að gagnstefnandi hafi tapað málinu í öllu verulegu og verður honum því gert að greiða aðalstefnanda málskostnað samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að teknu tilliti til umfangs málsins þykir hann hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur.
Af hálfu aðalstefnanda er farið fram á að gagnstefnanda verði gert að greiða réttarfarssekt á grundvelli 1. og 2. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991. Miðað við málavexti verður ekki talið að gagnsök hafi verið höfð uppi af hálfu gagnstefnanda að þarflausu. Þá er ekki á það fallist að gagnstefnandi hafi haft uppi vísvitandi rangar kröfur, staðhæfingar eða mótbárur eða viðhaft ósæmileg skrifleg eða munnleg ummæli um gagnaðila sinn. Telur dómurinn ekkert tilefni til að beita réttarfarssekt í málinu.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en dómari og aðilar voru á einu máli um að ekki væri þörf á því að flytja málið að nýju.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Gagnstefnandi, Kristján Stefánsson, greiði aðalstefnanda, Eyvindi Jóhannssyni, 10.202.508 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. nóvember 2013 til 11. desember 2014. Kröfu aðalstefnanda um dráttarvexti er vísað frá dómi.
Úrskurði úrskurðarnefndar lögmannafélagsins frá 10. október 2014 í máli nr. 6/2014 er breytt á þann veg að hæfilegt endurgjald vegna innheimtustarfa gagnstefnanda í þágu aðalstefnanda er 1.100.000 krónur auk virðisaukaskatts í stað 850.000 króna.
Gagnstefnandi greiði aðalstefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.