Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2001


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Miskabætur
  • Fyrning


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002.

Nr. 420/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur. Fyrning.

X var saksóttur fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni, A, fæddri 1983. Ekki var fallist á frávísun málsins né ómerkingu en kröfur um frávísun og ómerkingu voru reistar á því að ekki hefði verið aflað vottorðs um andlegan þroska og heilbrigði A. Byggði dómurinn á því að skv. 46. gr. laga um meðferð opinberra mála mæti dómari hverju sinni hvert sönnunargildi skýrslur ákærða og vitna skyldu hafa. Ekki væru efni til þess að leita eftir áliti annarra sérfræðinga til stuðnings við það mat, nema sérstakar ástæður kæmu til. Ekki hefði verið bent á neitt sem gæfi tilefni til þess að A gengist undir slíka rannsókn. Var vitnisburður A, varðandi þá atburði er greindi í fyrstu tveimur töluliðum ákæru, talinn trúverðugur og vísað til þess að sá vitnisburður væri styrktur af skýrslum vitna um frásagnir A af athöfnum X gagnvart sér. Var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu X af greindum ákæruliðum. Framburður A um þá atburði sem ákært var fyrir í þriðja tölulið ákæru þótti að vísu ljós en þótti ekki njóta sama stuðnings í málsgögnum og skýrsla hennar um atvik samkvæmt öðrum ákæruliðum. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu af þeim ákærulið var staðfest. Var X dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar. Þá var miskabótakrafa A, sem talin hafði verið fyrnd í héraðsdómi, tekin til greina með vísan til 26. gr. skaðabótalaga og 16. gr. laga um fyrningu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. október 2001. Ákæruvaldið krefst sakfellingar á ákæruliðum 1, 2 og 3, þyngingar refsingar og að dómfelldi verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur til stúlkunnar A. Í kröfugerðinni felst að fallist er á úrlausn héraðsdóms um sýknu af 4. ákærulið og að bótakröfu B, sem sýknað var af í héraði, er ekki haldið til laga fyrir Hæstarétti.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim til dómsmeðferðar að nýju. Til þrautavara krefst hann sýknu en ella að refsiákvörðun verði milduð og bótakrafa lækkuð.

Ákærði reisir kröfur sínar um frávísun málsins og ómerkingu á því að í bréfi ríkissaksóknara 1. desember 2000 til lögreglustjórans í Reykjavík hafi verið óskað eftir því að aflað yrði vottorðs um andlegan þroska og heilbrigði brotaþola. Sú beiðni hafi síðar verið afturkölluð og rannsókn því ekki farið fram. Í héraðsdómi er því lýst að brotaþoli hafi komið fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og ekkert í gögnum þess eða fari stúlkunnar gefi að mati dómsins tilefni til þess að hún gangist undir framangreinda rannsókn.

Samkvæmt 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála metur dómari hverju sinni hvert sönnunargildi skýrslur ákærða og vitna skuli hafa. Eru ekki efni til þess að leita eftir áliti annarra sérfræðinga til stuðnings við það mat, nema sérstakar ástæður komi til. Ákærði hefur við meðferð málsins í Hæstarétti ekki bent á atriði sem breyta eigi greindu áliti héraðsdóms.

Í héraðsdómi er því lýst að vitnisburður brotaþola varðandi atburði þá sem ákæruliðir 1 og 2 fjalla um sé trúverðugur. Fyrir Hæstarétti hefur ekkert komið fram því til styrktar að það mat kunni að vera rangt svo að einhverju nemi. Vitnisburður stúlkunnar fær styrk af skýrslum vitna um frásagnir hennar af athöfnum ákærða gagnvart sér. Hafa skýrslur hennar frá því er hún skýrði fyrst frá brotum ákærða verið í fullu samræmi við það sem fram kom hjá lögreglu og fyrir dómi. Ber að fallast á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða af greindum ákæruliðum. Eru brot ákærða réttilega færð til refsiákvæða í héraðsdómi og hafa athugasemdir ekki verið gerðar við þá heimfærslu.

Framburður brotaþola um þá atburði, sem ákært er fyrir í 3. tölulið ákæru þykir að vísu ljós, en hefur ekki sama stuðning í málsgögnum og skýrsla hennar um atvik samkvæmt öðrum ákæruliðum. Verður að fallast á niðurstöðu héraðsdóms um sýknu af þessum ákærulið. Þá þykir einnig mega fallast á refsiákvörðun dómsins með skírskotun til þeirra forsendna sem þar greinir.

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda skal fyrning kröfu samkæmt ákvæðum laganna ekki vera því til fyrirstöðu að sakamaður sé jafnframt sakfellingu dæmdur til greiðslu skaðabóta. Skiptir því ekki máli hvort krafa brotaþola um bætur fyrir þann miska, sem henni hefur verið gerður, kynni að vera fyrnd við aðrar aðstæður. Ber á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, áður 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að dæma ákærða til að greiða brotaþola 700.000 krónur í miskabætur með vöxtum, svo sem í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um sakfellingu og refsingu ákærða, svo og sakarkostnað.

Ákærði, X, greiði A 700.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. maí 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin laun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjanda fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2001.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 15. febrúar 2001  á hendur:  ,,X, kennitala […], fyrir eftirtalin kynferðisbrot framin í Reykjavík:

1.     Með því að hafa á árinu 1990 á heimili sínu, sett fingur sinn í leggöng

        dóttur sinnar A sem fædd er árið 1983.

2.     Með því að hafa 2-3 vikum síðar á sama stað sleikt kynfæri A.

3.     Með því að hafa á tímabilinu 1990 til 1996 á sama stað, í bifreið sinni

        og er  feðginin voru í sundi, ítrekað káfað á brjóstum og kynfærum

        A utanklæða, kysst hana og þá rekið tunguna sína upp í hana.

4.     Með því að hafa árið 1982 eða 1983 á þáverandi heimili sínu að

       […], sett getnaðarlim sinn í munn systur sambýliskonu sinnar,

       B sem fædd er árið 1976 og fengið sáðlát í munn hennar.

       Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Einkaréttarkröfur:

A krefst miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 úr hendi ákærða auk vaxta.

B krefst miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 úr hendi ákærða auk vaxta.”

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og af bótakröfum A og B. Til vara er krafist  vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakröfum A og B verði vísað frá dómi.  Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins, greiðist úr ríkissjóði.

Upphaf rannsóknar málsins er 2. febrúar 2000, þegar C, móðir A, kærði ákærða fyrir kynferðisbrot gegn dóttur þeirra, A.  Í lögregluskýrslu sem dags. er 2. febrúar 2000 segir að C og ákærði hafi skilið í janúar 1985 og ákærði verið með umgengnisrétt og A hafi hitt föður sinn aðra hverja helgi þar til hún varð 12 eða 13 ára. Eftir það hafi hún hitt hann óreglulega.  C greindi frá því að A hefði liðið illa veturinn 1998 til 1999 er hún var í 10. bekk grunnskóla.  Þá hefði henni liðið mjög illa að undanförnu og viðhaft sjálfskaðandi háttsemi. Leiddi þetta til þess að hún leitaði læknisaðstoðar á sjúkrahúsi. C kvaðst hafa hringt heim til sín úr vinnu 31. janúar 2000 og A hefði svarað og grátið í símann. C spurði hana þá hvað væri að.  A hefði sagt  ,,ég get ekki sagt þér það”.  A hringdi síðan í C í vinnuna og sagði að Kristín Árnadóttir, sem hún taldi geðlækni, myndi segja henni frá því er gerðist, en fyrirhugað var að þær hittust daginn eftir.  C kvaðst hafa spurt dóttur sína að því að kvöldi 31. janúar 2000 hvort það sem væri að hefði eitthvað með föður hennar að gera og játti A því.  Er hún spurði hvort hann hefði gert henni eitthvað spurði A hvort Kristín læknir hefði sagt henni eitthvað.  A hefði síðan farið upp í herbergi sitt og ekki viljað ræða þetta frekar.  C kveðst hafa minnst á ákærða í þessu sambandi vegna þess að hún vissi að hann hefði misnotað systur C, B, kynferðislega er hún var 5 til 7 ára gömul.  Þessa atburði kvaðst hún hafa rætt við ákærða, sem viðurkenndi þetta fyrir henni. 

Í kæruskýrslunni greinir C frá ráðstöfm sínum, meðal annars í því skyni að reyna að koma í veg fyrir að A færi til ákærða.  Hún lýsti ekki nánar í hverju ætluð brot ákærða fólust og verður kæruskýrslan ekki rakin frekar.

Þann 3. febrúar 2000 kom A til viðtals hjá lögreglu í fylgd móður sinnar, réttargæslumanns auk starfsmanns barnaverndarnefndar.  Hún lýsti þá háttsemi sem hún hefði orðið fyrir af hálfu föður síns. Ráða má af hennar stuttu frásögn í þessari skýrslu að þar er lýst atburðum sem greinir í ákæruliðum 1 til 3.

B lagði fram kæru á hendur ákærða hjá lögreglunni 28. febrúar 2000.  Í kæruskýrslu hennar kemur fram að ákærði og C, systir B, hafi búið saman frá árinu 1981 eða 1982 til ársins 1984.  Þau hafi á árm 1982 til 1983 búið á heimili hennar að […]. Þá hafi ákærði beitt hana kynferðislegu ofbeldi á þann hátt, sem lýst er í 4. ákærulið.  Hún hafi skammast sín fyrir þennan atburð og reynt að gleyma honum.  Hún sagði vinkonu sinni og vini frá þessu er hún var 14 ára gömul og þá sagði hún J, sambýlismanni systur sinnar, frá þessum atburði á árinu 1991 eða 1992.  Þótt hún hafi reynt að gleyma atburðinum rifjist hann upp við tilteknar aðstæður.  B kvaðst ekki hafa ætlað að kæra, en ákvað að gera það eftir að A greindi frá því að faðir hennar hefði misnotað hana kynferðislega. 

Ákærði neitar sök bæði hjá lögreglu og fyrir dómi.

Nú verður lýst framburði ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákæruliður 1

Ákærði neitar sök.  Hann lýsti umgengni sinni við dóttur sína frá unga aldri, en samkvæmt samkomulagi kom hún til hans hálfsmánaðarlega um helgar.  Hann kvaðst hafa misst sambandið við dóttur sína eftir að hún varð 13 ára.  Eftir þetta sé teljandi á fingrum annarrar handar hversu oft hún gisti hjá honum.  Hann kvaðst aldrei hafa greint ótta hjá dóttur sinni í sinn garð.  Hann kvað A hafa gengið vel í skóla framan af, en breytingar í hegðum og erfiðleikar í skóla hafi byrjað undir lok grunnskóla og lýsti hann því nánar og kvaðst engar skýringar hafa á þessum breytingum í fari hennar.  Hún hafi þá tíðum dvalið á heimili móðurforeldra sinna og hafi ákærði þar iðulega haft samband við hana símleiðis.  Hann lýsti því hvernig algengt var að þau eyddu helgum saman, en meðal annars var farið á heimili foreldra hans og þá fóru þau iðulega í sund á laugardögum. 

Ákærði lýsti kannabisneyslu sinni á þeim tíma sem lýst er í ákæruliðum 1 og 2.  Hann kvað neyslu sína hafa verið í algjöru lágmarki þegar hann hafði A dóttur sína hjá sér og hann hafi aldrei látið neitt bera á neyslu sinni. A hafi verið orðin unglingur þegar einhver greindi henni frá neyslu hans.  Hann kvaðst aldrei hafa tapað minni vegna neyslunnar. 

Ákærði greindi frá símtali þar sem C, móðir A, lýsti grunsemdum sínum í garð ákærða um að hann áreitti A dóttur þeirra kynferðislega.  Langt væri um liðið frá þessu símtali, en þau C hefðu þá átt í deilum vegna umgengni ákærða við dóttur sína.  Hann hafi eftir þetta hitt C á heimili hennar þar sem þetta var rætt og ákærði neitaði þessum ásökm.  Hann myndi ekki hvort þá voru rædd ætluð brot ákærða gegn B systur C.  Hann kvað C hins vegar hafa borið sig þeim sökum en hann taldi að það hefði verið talsvert síðar.  Ákærði greindi frá vitneskju sinni um símtal sem stjúpi A átti við móður ákærða þess efnis að ekki yrði um frekari samskipti ákærða og A að ræða.  Ákærði kvað ekki viðeigandi að koma með skýringar á því hvers vegna hann sæti kærum frá A og B.  Skýringar sínar séu hugrenningar sem hann hafi ekki vissu fyrir. 

Aðspurður kvað ákærði ekki hafa verið nein illindi milli sín og A og B og kærurnar séu því ekki sprotnar af þeim rótum.

A lýsti þessu ætlaða broti ákærða fyrst í viðtali við lögreglu 3. febrúar 2000 sem vitnað var til að ofan. 

Í skýrslu Berglindar Eyjólfsdóttur rannsóknarlögreglumanns frá 3. febrúar 2000 er haft eftir A að foreldrar hennar hafi skilið er hún var eins árs gömul.  A dvaldi hjá föður sínum aðra hverja helgi og er hún var 6 til 7 ára gömul og gisti hjá föður hefði hún sofið í sama rúmi og hann, en hún gisti alla jafnan hjá föðurömmu sinni.  Faðir hennar hefði þá þuklað hana og sett fingur upp í leggöng hennar nokkrum sinnum.  Hún hafi beðið hann um að hætta, en hann haldið áfram uns hann sofnaði skyndilega.  Eftir þetta fór hún fram á bað og sá að blæddi úr leggöngum hennar.  Hún hefði grátið og verið inni á baðherberginu mest alla nóttina.  A greindi frá því í viðtalinu að á þessum tíma hefði faðir hennar stundað fíkniefnaneyslu. 

A var ekki orðin 18 ára gömul er rannsókn málsins fór fram og var því tekin af henni skýrsla undir rannsókn málsins en fyrir dómi 29. febrúar 2000. 

Því er áður lýst að móðir A og faðir skildu er hún var eins árs gömul. A kvaðst hafa tekið að heimsækja föður sinn reglulega er hún var 8 til 10 ára.  Hún kvað sér þykja vænt um hann, en hún hafi alltaf verið hrædd við hann og ekki þorað að segja neinum frá því að hún vildi ekki fara til hans, þar sem hún vildi ekki að nokkur kæmist að því sem hann gerði henni og lýst verður hér á eftir.  Hún kvaðst ekki hafa gist hjá föður sínum eftir 13 ára aldur og ekki að eigin frumkvæði hafa haft samband við hann síðan.  Hann hafi hins vegar haft samband við hana símleiðis.  Hún kvaðst fyrst hafa sagt kærasta sínum frá þessum atburðum, síðan sálfræðingi sínum, en ráða má af gögnum málsins að það var Kristín Árnadóttir læknir, og loks greindi hún móður sinni frá þessu.  Hún kvaðst hafa greint kærasta sínum frá þessu er þau voru stödd á heimili sínu, en hún hafi verið að lesa einhverja ,,kvennabók”.  Hún kvaðst hafa grátið mikið er hún greindi  honum frá þessu.  Hún lýsti því að faðir hennar hefði alltaf hegðað sér undarlega gagnvart sér og ,,ekki eins og pabbar gera”.  Hann hafi stöðugt kysst hana og látið hana sleikja á sér fingurna.  Hún lýsti því er hún gisti hjá föður sínum þegar hún var 7 ára gömul.  Hún gisti þá á heimili hans og í hans rúmi.  Hann hafi þá sett fingur inn í leggöng hennar.  Þetta hafi hann gert ,,ógeðslega fast”.  Hún bað hann um að hætta, en hann sinnti því engu heldur hélt áfram enn fastar en áður.  Skyndilega hefði hann látið eins og hann hefði sofnað eða dáið og orðið alveg máttlaus.  Hún hefði þá farið inn á salernið og séð að blæddi úr leggöngum sínum.  Hún kvaðst hafa orðið mjög hrædd og dvalið lengi inni á salerninu.  Hún hefði farið heim til móður sinnar daginn eftir en engum sagt frá þessum atburði.  Hún kvaðst ekki muna hvernig hún fór með nærbuxurnar sem hún klæddist, en þær hefðu orðið blóðugar eftir þetta. 

A lýsti því að eftir á að hyggja hafi hún áttað sig á því að faðir hennar hafi verið í einhvers konar vímu, því hann hafi verið eins og sofandi.  Ástæðuna kvað hún þá að hún hafi um sumarið 2000 verið að passa barn í íbúðinni við hliðina á íbúð föður síns.  Hún hefði þá læst sig úti en börnin verið sofandi inni í íbúðinni.  Hún hefði leitað til föður síns og beðið hann um aðstoð við að komast inn í íbúðina.  Hún hefði þá séð á borðinu í íbúð hans hluti sem ráða hefði mátt af samhenginu að tengdust fíkniefnanotkun.  Hún kvaðst hafa greint móður sinni frá þessu og hún þá sagt henni að faðir hennar hefði allt frá fæðingu hennar neytt fíkniefna.

A kom fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins.  Hún kvaðst muna þennan atburð vel og hafa greint rétt frá við fyrri skýrslu sína fyrir dómi.  Hún kvað þá atburði sem hún varð fyrir af hálfu föður síns og lýst er í ákærunni hafa komið upp á yfirborðið um það leyti er hún greindi V frá þessu.  Hún kvað sig ávallt hafa langað að greina frá þessum atburðum, en verið hrædd við það.  Hún hafi lokað á þessa atburði þar til hún varð 14 til 15 ára gömul er hún fór að hugsa mikið um þetta og beðið eftir tækifæri til að greina frá.  Hún kvað sér þykja vænt um föður sinn, en hún vilji ekki tala við hann og sé hrædd við hann.

C, móðir A, kvað þáverandi sambýlismann sinn hafa greint sér frá því eftir B, systur hennar, að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega þegar hún var 5 til 7 ára gömul.  B hefði haldið að ákærði hefði pissað upp í munninn á henni.  Eftir þetta kvaðst hún ekki hafa viljað að A hitti föður sinn.  Hún kvaðst hafa rætt þetta símleiðis við ákærða og hann hafi þá viðurkennt að hafa gert B.  Ákærði hefði sagt að hann hefði verið svo ruglaður þá, en hann myndi aldrei gera dóttur sinna þetta.  Þau hafi síðan á löngu tímabili þráttað um umgengnisrétt.  C kvað dóttur sína hafa greint sér frá atburðm skömmu áður en kæran var lögð fram.  Hún kvað aðdragandann þann að A hefði farið að ganga illa í skóla er hún var í 10. bekk grunnskóla.  Hún hefði mætt illa, en það hafi verið mjög ólíkt henni sem alltaf hefði verið mjög ábyrg og staðið sig vel í skóla.  Hún kvað dóttur sinni greinilega hafa liðið illa á þessum tíma.  A hefði meðal annars verið lögð inn á spítala sökum tíðra yfirliða.  Hún hefði gengist undir rannsóknir en í ljós hefði komið að ástæðan var kvíðaköst.  Þá hefði hún leitað til barna- og unglingageðdeildar þar sem hún hefði greint konu, sem C taldi geðlækni, frá þessum atburðum.  Þessi kona hefði kvatt A til að segja móður sinni frá þessu, sem hún hefði gert síðar, en hún hafi í raun þurft að veiða þetta upp úr henni er hún hefði spurt dóttur sína hvort eitthvað væri að.  Vitnið kvaðst hafa nefnt nokkur nöfn, en spurt síðan hvort pabbi A  hefði gert henni eitthvað og hún hefði játt því.  Strax hefði orðið ljóst að það varðaði eitthvað kynferðislegt, þótt hún myndi ekki orðalagið.  Hún kvað dóttur sína aldrei hafa lýst því í smáatriðum sem ákærði hefði gert henni og hún kærði sig ekki um að vita það.  Fljótlega eftir þetta var lögð fram kæra á hendur ákærða.

Kristín Árnadóttir, deildarlæknir á barna- og unglingageðdeild, kvaðst fyrst hafa hitt A  í byrjun árs 2000 er A kom á Landspítalann eftir að hafa tekið inn of stóran lyfjaskammt.  A hafi síðar átt að koma til viðtals hjá Kristínu 31. janúar 2000, en hringt og afboðað komu sína.  Hefði A þá beðið vitnið um að hringja í móður sína og stjúpa og greina þeim frá einhverju í sambandi við föður hennar og að eitthvað svipað hefði átt sér stað varðandi móðursystur hennar.  A hefði ekki greint henni nákvæmlega frá því sem átti sér stað, en ljóst hefði verið að það var eitthvað kynferðislegt.  A hefði síðan komið og hitt vitnið daginn eftir í fylgd móður sinnar og þá hefði hún greint henni frá þessum atburðum, en henni hefði reynst það erfitt.  Í ljós hefði komið að A hefði hug á því að leggjast inn á sjúkrahúsið, en það hefði ekki reynst unnt.  Vitnið kvaðst ekki hafa hitt A eftir þetta, en fylgst með henni á þann hátt að ræða við hana, móður hennar og stjúpa, símleiðis.

V, fyrrverandi sambýlismaður A, kvað hana hafa greint sér frá kynferðisbroti föður hennar gagnvart henni um það bil fjórum mánuðum eftir að þau hófu sambúð, sem var í ágúst 1999.  Hann kvað A hafa átt það til að fá grátköst og vera þunglynd.  Í einu slíku tilviki greindi hún honum frá tveimur tilvikum, þar sem faðir hennar hefði misnotað hana kynferðislega.  Annað tilvikið hefði verið þannig að ákærði hefði sleikt á henni kynfærin, en hann hefði verið að sýna henni hvernig skipta ætti um bleiur á börnum.  Hitt tilvikið hefði átt sér stað er hún var ,,í pössun” hjá ákærða og hefði hann þá sett fingur inn í leggöng hennar svo úr blæddi og hún hlaupið grátandi inn á klósett.  Vitnið kvaðst hafa spurt nánar um þessa atburði og A hafi þá lýst því að ákærði hefði einnig misnotað frænku hennar kynferðislega. 

V var spurður hvort hann myndi til þess að A hefði greint honum frá þessum atburðum í fyrstu eftir að hún hefði lesið einhvers konar kvennabókmenntir, en hún lýsti þessu sjálf þannig fyrir dómi.  V mundi að hún hefði haft þess konar bækur hjá sér á þessum tíma. 

Hann greindi frá því hjá lögreglunni og fyrir dómi að sér hefði í raun ekki komið svo mjög á óvart að A hefði orðið fyrir lífsreynslu sem þeirri sem hún lýsti, þar sem andlegt ástand hennar var þannig, að hann var farið að gruna að eitthvað slíkt kynni að hafa hent hana.

G lýsti því þegar A hringdi eftir miðnætti á heimili hennar og bað um að fá að tala við dóttur G, sem hún fékk.  Síðar um nóttina kvaðst hún hafa heyrt dóttur sína gráta inni í herbergi sínu og fór hún þá inn til hennar og tók símann og ræddi við A , sem greindi þá frá því að faðir hennar hefði misnotað hana kynferðislega er hún var yngri.  Hún kvaðst ekki hafa trúað þessu.  Vitnisburður hennar að öðru leyti varpar ekki ljósi á málavexti.

Auk vitna sem getið er að ofan komu fyrir dóminn P og S, foreldrar ákærða.  Þeirra vitnisburður varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki rakinn hér.  Hið sama á við um vitnisburð H, stjúpu ákærða. 

L, yfirlæknir heilsugæslunnar í […], lýsti komu A  á heilsugæsluna í desember 1990 eftir að hún hafði dottið á reiðhjóli.  Vitnisburður hans varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki rakinn frekar.

Ákæruliður 2

Vísað er til framburðar ákærða við ákærulið 1 en hann neitar sök.

Við dómsyfirheyrsluna 29. febrúar 2000 lýsti A heimsókn sinni til föður síns um það bil einni til tveimur vikum eftir atburðinn sem lýst er í ákærulið 1.  Hún sagði honum frá litlum bróður sínum og var eitthvað að tala um það þegar móðir hennar skipti á honum.  Faðir hennar hefði þá sagt við hana að svona skiptu mömmur ekki á börnum sínum.  Hún hefði þá spurt hvernig það færi fram.  Hann hefði þá girt niður um hana og tekið að sleikja á henni kynfærin.  Hann hefði spurt hana hvort þetta væri vont.  Hún hefði svarað því játandi og verið hrædd, en leyft honum að gera þetta. 

A greindi svo frá fyrir dómi undir aðalmeðferð málsins að atburður sá sem hér um ræddi hafi komið þannig til að hún hafi verið að lýsa því fyrir föður sínum hvernig móðir hennar skipti um bleiju á bróður hennar.  Faðir hennar hefði þá sagt að svona skipti maður ekki um bleiur á börnum.  Hún hefði spurt hvernig það væri gert og faðir hennar hefði þá klætt hana úr buxum og nærbuxum, lyft fótum hennar upp og byrjað að sleikja á henni kynfærin.  Hann hefði spurt hana að því hvort þetta væri vont og hefði hún sagt svo vera.  Þessi atburður hefði gerst tveimur til þremur vikum eftir atburðinn sem lýst er í ákærulið 1.  Hún kvaðst muna þennan atburð vel.

Ákæruliður 3

Vísað er til framburðar ákærða við ákærulið 1 en hann neitar sök.

Við dómsyfirheyrsluna 29. október 2000 lýsti A því að hún hefði í heimsóknum til föður síns iðulega farið með honum í sund.  Hann hefði ítrekað í þeim ferðum káfað utan klæða á brjóstum hennar og kynfærum og látið hana sleikja á sér fingurna og kysst hana og rekið tungu sína upp í hana.  A lýsti því fyrir dómi undir aðalmeðferð málsins að augnaráð ákærða hefði verið óþægilegt er þau fóru saman í sund á þeim tíma sem hér um ræðir.  Þá hefði hann, eins og lýst sé í ákærunni, ítrekað káfað á brjóstum og kynfærum hennar er þau voru í sundi, en þau hafi alltaf farið í sund er hún hitti hann.  Hún hafi hitt föður sinn að jafnaði aðra hvora helgi og kvaðst hún ekki geta sagt nákvæmlega til um hversu oft þeir atburðir sem hér um ræðir áttu sér stað, en það kunni að hafa gerst mánaðarlega.

Ákæruliður 4

Ákærði kvað þau C hafa búið um nokkurra mánaða skeið á heimili hennar og B systir hennar þá verið barn.  Hann hafi hitt hana nokkrum sinnum og hún þá alltaf verið glaðleg.  Hann neitar sök.

Í upphafi var rakinn hluti kæruskýrslu B og er vísað til þess er þar greindi. 

Fyrir dómi lýsti B atburðum í þessum ákærulið þannig að hún hafi farið inn í herbergi bróður síns á heimili þeirra að […].  Hún hafi ekki átt von á ákærða þar inni.  Hún kvað hann hafa tekið í sig og lokað hurðinni.  Hún kvað sér hafa fundist dimmt þarna inni, alla vega í minningunni. Hún kvaðst ekki muna aðdragandann en mundi að ákærði setti lim sinn upp í hana.  Á þessum tíma árið 1982 eða 1983 kvaðst hún hafa haldið að ákærði hefði pissað upp í munninn á henni.  Hún kvaðst ekkert hafa sagt en komst fram og ætlaði inn á baðherbergi til að losa munninn.  Hún komst ekki þangað inn þar sem hana minnti að systir hennar hefði verið í baði.  Hún kyngdi þá því sem hún hafði upp í sér og lýsti hún sviðatilfinningu, sem hún fékk í hálsinn og þessa tilfinningu fái hún stundum enn í dag.  Hún lýsti hjá lögreglu og fyrir dómi þeim tilvikum þar sem ákærði áreitti hana, svo sem með þukli og á annan hátt, en atburðinn í þessum ákærulið kvaðst hún muna vel og hann rifjist upp fyrir henni við tilteknar aðstæður. 

B lýsti afleiðingum þessa atburðar fyrir sig og hvernig þetta ,,eiginlega braust þetta út þegar ég var unglingur”.  Þá kvaðst hún hafa sagt tveimur vinum sínum frá þessum atburði er hún var 14 eða 15 ára gömul, þeim Í og I.  Þessi atburður bar síðan á góma oftar á milli hennar og þessara vina hennar síðar og þá einkum þannig að hún hefði áhyggjur af því að A hitti föður sinn.  Þessir vinir hennar vissu af hverju áhyggjur hennar af þessu stöfuðu.  Þá kvaðst hún hafa sagt J, fyrrum sambýlismanni systur sinnar, frá þessum atburði á árinu 1992 eða 1993 og síðar rætt þetta við hann á sömu nótum, það er að hún hefði áhyggjur af því að A hitti föður sinn.  Hún hefði beðið J um að greina C systur sinni ekki frá þessu.  Síðar hefði hún frétt að C systir hennar vissi af þessu.  Hún vissi til þess að í framhaldinu var reynt að koma í veg fyrir að A hitti föður sinn.  Þá sagði hún sambýlismanni sínum frá þessu.  Hún kvað aldrei hafa verið óvild eða illindi milli sín og ákærða. 

Vísað er til vitnisburðar C sem rakinn var undir ákærulið 1 að því er varðar vitnisburð hennar um sakarefni þessa ákæruliðar.

J lýsti því er B greindi honum frá því að ákærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi er hún var 7 ára gömul.  B hefði iðulega sagt honum frá málum í trúnaði. Eftir að hún lýsti þeim atburði sem hér er ákært vegna hafi hún hágrátið.  Hann kvað hana hafa sagt sér frá því að ákærði hefði sett lim sinn upp í hana og fengið sáðlát.  J kvað viðbrögð sín við þessu hafa verið þau að hann reyndi að koma í veg fyrir að A heimsótti föður sinn.  Hann lýsti tilraunum sínum í þessa veru.

Í kvaðst vera æskuvinkona B.  Þær hafi kynnst er hún var 11 ára gömul.  Í lýsti því er þær voru staddar á heimili hennar og voru að drekka áfengi, en Í var þá 14 ára.  B hefði þá brotnað saman og sagt sér frá atviki er ákærði beitti hana kynferðislegu ofbeldi.  B  hefði lýst þessu þannig að ákærði hefði sett lim sinn upp í munninn á henni.  B hefði beðið Í að segja engum frá þessu, en Í kvaðst hafa reynt að segja systur hennar frá þessu, en hún ekki svarað í síma.

I kvaðst vera æsku- og trúnaðarvinur B, en þau hafi þekkst frá því að þau voru 7 eða 8 ára gömul.  Þess vegna hefði hún greint honum frá þeim atburði, sem í þessum ákærulið greinir, er þau voru 13 eða 14 ára.  Hún hefði lýst atburðinum þannig fyrir honum að ákærði hefði sett lim sinn upp í hana er hún var 7 ára gömul og að hann hefði fengið sáðlát.  Þau B hafi rætt þennan atburð iðulega síðan þótt hún hafi þá ekki lýst honum jafnítarlega og hún gerði í fyrstu.

Niðurstaða

Meðal gagna málsins er bréf ríkissaksóknara dags. 1. desember 2000 til lögreglustjórans í Reykjavík, sem annaðist rannsókn málsins.  Eitt af því sem óskað er eftir í bréfi ríkissaksóknara er að aflað verði vottorðs um andlegan þroska og heilbrigði A.  Sú beiðni var síðan afturkölluð undir rannsókn málsins.  Ákærandinn greindi frá því undir aðalmeðferð málsins að þessi rannsókn hefði síðar verið talin óþörf. Hún fór því ekki fram. 

Verjandi ákærða fann að því að þessi rannsókn skyldi ekki hafa farið fram.

A kom fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins.  Það er álit dómsins að ekkert í gögnum málsins eða í fari hennar gefi tilefni til þess að fara fram á það að hún gangist undir þá rannsókn sem lýst er að ofan.

Ákæruliðir 1 og 2

A átti í erfiðleikum með að greina frá þeim atburðum sem hér er ákært fyrir.  Hún kvaðst hafa lokað á atburðina þar til hún var 14 eða 15 ára gömul.  Hún greindi V, kærasta sínum, fyrst frá þessari lífsreynslu sinni, þá Kristínu Árnadóttur lækni og loks móður sinni.  Engin ákvörðun lá fyrir um kæru er hún lýsti þessum atburðum fyrir V, en hún greindi honum frá atburðm efnislega á sama veg og hún lýsti síðar hjá lögreglu og enn síðar ítrekað fyrir dómi. Hún greindi G einnig frá því að faðir hennar hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi er hún var ung. Vísað er til vitnisburða þessa fólks  hér að framan.  Af vitnisburði þeirra má ráða, ekki síst af vitnisburði V, að A átti erfitt með að greina frá þessum atburðum, en hún lýsti atburðm fyrir V efnislega eins og hún hefur ítrekað gert í viðtölum hjá lögreglu og tvisvar sinnum fyrir dómi og var vitnisburður hennar fyrir dómi í bæði skiptin samhljóða um þau tilvik sem um ræðir í þessum ákæruliðum. 

Vitnisburður Aar  er trúverðugur að mati dómsins.  Hún man þessa atburði vel.  Þótt kæra hennar sé seint fram komin dregur það ekki úr trúverðugleika vitnisburðar hennar. Vitnisburður hennar fær og stuðning af vitnisburði V og vitnisburði C, móður hennar, sem kveðst hafa hringt í ákærða eftir að henni barst vitneskja um brot hans, sem lýst er í ákærulið 4 og þá hafi ákærði viðurkennt brot sín fyrir henni.  Vísast til vitnisburðar C um þetta. Þá sagði A fleira fólki frá þessu eins og áður er rakið.

Þegar allt ofanritað er virt í heild telur dómurinn sannað með vitnisburði A , sem fær stuðning af þeim gögnum öðrum sem lýst var, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið þá háttsemi sem í báðum þessum ákæruliðum greinir.

Brot ákærða samkvæmt þessum ákæruliðum voru framin á árinu 1990.  Þá vörðuðu brotin við 200. og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Brot ákærða varða nú við 1. mgr. 200. gr. og 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. og 9. gr. laga nr. 40/1992.

Ákærða er gerð refsing eftir hinum nýju lögum þó þannig að ekki verður gerð þyngri refsing en heimil var á þeim tíma er hann framdi brot sín, sbr. meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæruliður 3

Vitnisburður A um atburði þá sem hér er ákært fyrir er ekki svo nákvæmur og ljós og er hún bar um atvik í ákæruliðum 1 og 2.  Vitnisburður hennar fær ekki samskonar stuðning og lýst var í niðurstöðum við ákæruliði 1 og 2. 

Að þessu virtu telur dómurinn ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir og ber því að sýkna hann af þessum ákærulið.

…

Ákærði hefur frá árinu 1998 gengist undir þrjár dómsáttir fyrir fíkniefnabrot og eina fyrir umferðarlagabrot.  Þá hefur hann frá 1994 hlotið tvo refsidóma fyrir umferðarlagabrot.

Brot ákærða eru alvarleg og brást hann trausti dóttur sinnar á þann hátt sem lýst er.

Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 18 mánuði.  Hvorki þykir koma til álita að skilorðsbinda refsivist ákærða í heild né að hluta.

Miskabótakröfur A og B fyrnast á 10 árum sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Verjandi ákærða mótmælti báðum kröfm m.a. vegna fyrningar.

Dómurinn telur að miða beri við það að fyrnigarfrestur rofni við birtingu ákæru. Þetta álit dómsins fær stoð í 11. gr. laga nr. 14/1905 þar sem segir að málssókn teljist byrjuð áður en fyrningarfrestur er liðinn ef stefna er birt innan nefnds tíma. Ákæra var birt ákærða 12. mars 2001. Samkvæmt ofanrituðu og með vísan til 4. gr. laga nr. 14/1905 voru báðar kröfurnar þá fyrndar og ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna ákærða af báðum miskabótakröfm sem lýst er í ákærunni.

Ákærði greiði ¾ hluta sakarkostnaðar á móti ¼ hluta sem greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn tilgreindan hluta af 250.000 króna málsvarnarlam til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns.

Þá greiði ákærði sama hlutfall af 120.000 króna þóknun til Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A og B.

Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Jón Finnbjörnsson og Páll Þorsteinsson.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði er sýknaður af miskabótakröfum A og B.

Ákærði greiði ¾ hluta sakarkostnaðar á móti ¼ hluta sem greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn tilgreindan hluta af 250.000 króna málsvarnarlam Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns og sama hlutfall af 120.000 króna þóknun til Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Aog B.