Hæstiréttur íslands

Mál nr. 40/2009


Lykilorð

  • Birting
  • Áfrýjunarstefna
  • Málsvari
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. október 2009.

Nr. 40/2009.

M

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

S

(Jónas Þór Guðmundsson hrl.

málsvari)

 

Birting. Áfrýjunarstefna. Málsvari. Frávísun frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. janúar 2009. Hann krefst þess að viðurkennt verði með dómi að S sé faðir hans. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

Stefndi hefur ekki sótt þing fyrir Hæstarétti. Hefur honum með vísan til 13. gr. barnalaga nr. 76/2003 verið skipaður málsvari fyrir réttinum, Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður. Hann krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann þóknunar úr ríkissjóði.

Með vísan til 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var málsaðilum gefinn kostur á að tjá sig munnlega fyrir Hæstarétti um birtingu áfrýjunarstefnu fyrir stefnda og atriði sem varðar rekstur málsins í héraði.

Svo sem fram kemur í héraðsdómi er stefndi talinn eiga tiltekið heimilisfang í Englandi. Var stefna til héraðsdóms birt þar og lagðar fram í málinu fullnægjandi upplýsingar um að við birtinguna hefði verið farið eftir breskum lögum, sbr. 90. gr. laga nr. 91/1991. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð gögn um að reynt hafi verið að birta áfrýjunarstefnu fyrir stefnda á sama stað en birting ekki tekist. Var þá gripið til þess ráðs að birta stefnuna í Lögbirtingablaði og birtist hún þar 6. mars 2009. Telur áfrýjandi að þessi birting sé fullnægjandi, þar sem ekki hafi tekist að birta stefnuna þar sem stefndi hafi verið talinn eiga heima. Í áfrýjunarstefnunni er fyrrgreint heimilisfang stefnda tilgreint. Ekki er í þar tekið fram af hverri ástæðu birt sé í Lögbirtingablaði svo sem áskilið er í 2. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 eru þau skilyrði meðal annars sett fyrir að birta megi stefnu í Lögbirtingablaði, að upplýsinga verði ekki aflað um hvar birta megi stefnu eftir almennum reglum eða erlend yfirvöld neiti eða láti hjá líða að verða við ósk um birtingu samkvæmt 90. gr. laganna. Hvorugu þessara skilyrða er fullnægt í þessu máli. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Með vísan til 11. gr. barnalaga greiðist málskostnaður áfrýjanda úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Þóknun skipaðs málsvara stefnda greiðist samkvæmt 13. gr. barnalaga úr ríkissjóði og verður ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Málskostnaður áfrýjanda, M, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Huldu Rósar Rúriksdóttur hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Þóknun Jónasar Þórs Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs málsvara stefnda S, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.