Hæstiréttur íslands

Mál nr. 485/2003


Lykilorð

  • Vátrygging
  • Samningsgerð


Föstudaginn 18

 

Föstudaginn 18. júní 2004.

Nr. 485/2003.

Halldóra Skaftadóttir

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Alþjóða líftryggingarfélaginu hf.

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Vátrygging. Samningsgerð.

H keypti sjúkdómatryggingu hjá A, en hafði áður fyllt út umsóknareyðublað fyrir tryggingunni. Þótti í ljós leitt að við þá útfyllingu hafi H mátt vita að hún væri að veita rangar upplýsingar um heilsufar sitt. Jafnframt þótti nægilega í ljós leitt að A hefði ekki tekið að sér að veita H tryggingu gegn þeirri áhættu sem um var að ræða. Í samræmi við þá niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 20/1954 var A sýknað af kröfu H um greiðslu tryggingabóta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediksdóttir og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2003. Krefst hún þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.139.301 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags. Einnig krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Sjúkrasaga áfrýjanda er rakin í hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum. Óumdeilt er að áfrýjandi var með ósæðarlokuleka áður en hún keypti sjúkdómatryggingu af stefnda 1. september 2000. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að eftir rannsóknir á árunum 1998 og 1999 var áfrýjanda kunnugt um að hún var með ósæðarlokuleka. Þá var henni ráðlögð lyfjagjöf við tilteknar aðstæður. Auk þess var eftirlit talið nauðsynlegt og þá „með ómskoðun a.m.k. árlega“, eins og fram kemur í skýrslu Jóns Vilbergs Högnasonar sérfræðings í lyflækningum og hjartasjúkdómum, 30. apríl 1998 vegna ómskoðunar á áfrýjanda þann sama dag. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi mun ástand áfrýjanda hafa verið sjúklegt og varð það alvarlegt í janúar 2001. Leiddi það til skurðaðgerðar í maí sama ár. Hins vegar gaf áfrýjandi 29. ágúst 2000 þær upplýsingar á umsóknareyðublaði fyrir umræddri tryggingu að hún hafi ekki haft „sjúkdóm/vandamál í hjarta, æðakerfi ...“. Samkvæmt framanrituðu er í ljós leitt að áfrýjandi mátti vita að hún væri að veita rangar upplýsingar við gerð umrædds vátryggingarsamnings.

Í 1. gr. skilmála er fylgdu samningi aðila segir að um ábyrgð stefnda fari samkvæmt ákvæðum þágildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga ef rangar upplýsingar hafi verið gefnar eða leynt hafi verið upplýsingum, sem kynnu að hafa breytt áhættumati stefnda. Af framlögðum gögnum um skilmála endurtryggingar stefnda sést að endurtrygging kemur ekki til ef um „talsverðan ósæðarlokuleka“ er að ræða hjá hinum vátryggða. Þegar litið er til alls framangreinds og eðlis sjúkdóms áfrýjanda, eins og honum er lýst í gögnum málsins, er nægilega í ljós leitt að stefndi hefði ekki tekið að sér að veita áfrýjanda tryggingu gegn þeirri áhættu, sem varð virk í umrætt sinn.

Samkvæmt öllu framanrituðu og með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 20/1954 verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Halldóra Skaftadóttir, greiði stefnda, Alþjóða líftryggingarfélaginu hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2003.

                Mál þetta var höfðað 30. ágúst 2002 og dómtekið 9. þ.m.

Stefnandi er Halldóra Skaftadóttir, Þúfubarði 17, Hafnarfirði.

Stefndi er Alþjóða líftryggingarfélagið hf., Lágmúla 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 3.139.301 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags auk málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að hann verði dæmdur til greiðslu mun lægri fjárhæðar en sem nemur dómkröfu stefnanda og í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi hennar.

Málið er höfðað til heimtu tryggingabóta sjúkdómatryggingar sem stefnandi keypti hjá stefnda.

Stefnandi greinir þannig frá aðdraganda málsins:

Stefnandi, sem starfar í Sparisjóði Hafnarfjarðar, var í ágúst árið 2000 að fara í gegnum tryggingamál fjölskyldu sinnar en í sparisjóðnum var starfandi trygginga­ráðgjafi frá stefnda, Torfi K. Karlsson, sem aðstoðaði við þessa endur­skoðun. Að frumkvæði tryggingaráðgjafans keypti stefnandi m.a. sjúkdóma­tryggingu.   Hún fékk fyrst tilboð í tryggingarnar í heild í apríl 2000 en endanlega hafi verið gengið frá þeim með undirskrift 29. ágúst s.á. og tryggingarnar voru síðan samþykktar af stefnda 1. september 2000.  Þegar gengið var frá umræddri tryggingu var það með þeim hætti að stefnandi greindi tryggingaráðgjafanum frá ákvörðun sinn um kaup á tryggingunni í síma og spurði hann hana út í heilsufar og annað sem svara þurfti á eyðublaðinu og fyllti út.  Hún fékk síðan samninginn útfylltan sendan til undirritunar.

Í stefnu segir jafnframt:

Stefnandi hafði á árinu 1998 leitað til heimilislæknis vegna verkja sem hún hafði milli herðablaða, í olnbogum og um mjaðmir.  Hún var þá send í einhverjar rannsóknir, m.a. hjartarannsókn.  Kom þá í ljós að hjartað starfaði eðlilega en hins vegar lak ósæðarlokan.  Enginn þeirra lækna, sem kom að þessari rannsókn, taldi sennilegt að þessi ósæðarlokuleki væri að valda þeim óþægindum sem stefnandi hafði leitað til læknis með.  Hún var þá greind með vefjagigt.  Haustið 1999 hafði stefnandi verið undir miklu álagi í vinnu og fékk þá verk í viðbein.  Hún leitaði þá aftur til heimilislæknis sem greindi hækkun á sökki sem benti til sýkingar.  Hún var þá send í frekari rannsóknir, m.a. hjartarannsókn.  Ekkert kom þarna fram sem benti til alvarlegs hjartasjúkdóms hjá henni.  Sýkingin jafnaði sig og hafði stefnandi ekki frekari áhyggjur af þessu.  Við ómskoðun 18. janúar 2001 kom hins vegar í ljós að ósæðar­lokulekinn hafði aukist mjög mikið og var orðin full ástæða til aðgerðar.  Stefnandi undirgekkst svo hjartaaðgerð í maí 2001.  Hún lagði fram bótakröfu vegna þessa hjá stefnda, dags. 11. maí 2001.  Þeirri bótakröfu var hafnað.  Stefnandi vísaði málinu þá til tjónanefndar vátryggingafélaganna sem synjaði erindinu.  Þá var málinu vísað til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem úrskurðaði að bótaskylda væri ekki fyrir hendi.

Frammi liggur vátryggingarumsókn stefnanda um (sjálfstæða) sjúkdóma­tryggingu að upphæð 3.000.000 króna.  Hún er undirrituð 29. ágúst 2000 af stefnanda sem umsækjanda og Torfa K. Karlssyni sem ráðgjafa.  Í lokin eru ritaðar athugasemdir:  “Starfsm. SPH =25% afsl.  01.9.2000 – samþ. Hjördís.”  Í umsókninni er eftirfarandi spurningum svarað neitandi:    6.3.  Ert þú nú eða hefur þú verið á lyfjum?”    6.4.  Ert þú undir lækniseftirliti eða á sér mataræði?”    6.6.a)  Hefur þú nú eða áður haft eftirfarandi:  a) Sjúkdóm/vandamál í hjarta, æðakerfi eða heilaæðum (t.d. heilaáfall) eða háan blóðþrýsting ?”

Undirskrift stefnanda fól m.a. í sér svofellda yfirlýsingu:

“Ég svaraði sjálf spurningum þessarar umsóknar og samþykki að hún ásamt vátryggingarskilmálum Alþjóða líftryggingarfélagsins, sem ég hef kynnt mér, séu undirstaða og grundvöllur vátryggingarsamningsins milli mín og félagsins.  Enn­fremur er mér ljóst að ábyrgð félagsins hefst ekki fyrr en félagið hefur samþykkt undirritaða umsókn með nauðsynlegum upplýsingum og vottorðum.  Ég geri mér grein fyrir að rangar eða ófullkomnar upplýsingar um heilsufar mitt geta valdið missi bótaréttar að hluta eða  öllu leyti og greidd iðgjöld tapast.  Mér er ljóst að vátryggingin nær ekki til fyrri slysa og sjúkdóma eða afleiðinga þeirra nema að þeirra hafi verið getið í svörum við ofangreindum spurningum. . .”  Þessu skyldar eru leiðbeiningar sem gefnar eru efst á fyrstu síðu eyðublaða vátryggingarumsóknarinnar:  “1.  Mikilvægt er að umsóknin sé fyllt út eins nákvæmlega og hægt er og að þú fyllir sjálf/ur út liði 4-7.  Ef þú ert í vafa um hvort eitthvað atriði skipti máli skaltu taka það fram frekar en að sleppa því.”

Í bótakröfu stefnanda, sem var móttekin af stefnda 14. maí 2001, kveðst hún vera að fara í hjartaaðgerð 16. maí þar sem skipt verði um hjartaloku, þ.e. leki í ósæðar­loku.  Ef leki verði í ósæðar- eða miturloku geti það með tímanum leitt til skertrar starfshæfni hjartans og hjartabilunar með vaxandi mæði.  Hún lýsir þannig einkennum sem hafi verið undanfari greiningar sjúkdómsins og hvenær þau hafi átt sér stað:  “Verkur í brjóstkassa og vinstri handlegg við áreynslu, fyrstu einkennin fyrstu dagana í janúar 2001.”  Hún kveðst fyrst hafa leitað læknis vegna sjúkdómsins 18. janúar 2001.  Þá svarar hún neitandi spurningu á kröfueyðublaðinu um það hvort hún hafi áður haft (svo) eða verið í meðferð vegna samskonar eða skylds sjúkdóms. 

Í aðgerðarlýsingu Þórarins Arnórssonar, hjartaskurðlæknis Landspítala Hring­braut, kemur fram að stefnandi hafi farið í ósæðarlokuskipti vegna lekrar loku 16. maí 2001.  Þar segir:  “Sj. er 44 ára gömul kona sem ekki hefur reykt en haft gigtsjúkdóm og mun hafa fengið meðf. við því.  Fékk slæmar blæðingar frá vi. nös og þurfti endurtekið að gera blóðstöðvandi aðgerðir á því.  Hún hefur haft þekktan ósæðar­lokuleka (þetta kveður læknirinn byggt á upplýsingum úr sjúkraskrá en ekki vegna þess að hann hafi haft neitt með sjúklinginn að gera fyrir aðgerð) um allnokkurt skeið.  Þetta hefur farið vaxandi, hún hefur verið að fá þurrahósta og einkenni um hjartabilun.  Hefur haft mjög vaxandi mæði og hefur fengið þyngsli yfir brjóst, út í handleggi við vinnu með handleggjum.  Hún hefur ekkert getað unnið sl. ½ mán. vegna þessa og leggst nú inn til lagfæringar á þessu. . .”

Í bréfi Hauks Heiðars Ingólfssonar, heimilislæknis stefnanda, til Ísaks G. Hallgrímssonar, trúnaðarlæknis stefnda, dags. 28. júní 2001, segir að Jón Högnason hjartasérfræðingur hafi að öllu leyti haft með hjartasjúkdóm stefnanda að gera, alveg frá upphafi.  Stefnanda hafi verið vísað til Jóns af Árna J. Geirssyni gigtarlækni sem hafi stundað stefnanda vegna vefjagigtar en hann hafi heyrt hjá henni hjartaóhljóð.

Í vottorði Árna Jóns Geirssonar, sérfræðings í lyflækningum og gigtar­sjúkdómum, dags. 20. september 2001, segir:  “Það vottast hér með að Halldóra Skaftadóttir leitaði til mín þann 09.03.98 og var þá með verki á milli herðablaða, í olnbogum og um mjaðmir.  Við skoðun þá heyrist hjartaóhljóð, einnig eymsli í festum.  Hún er greind með vefjagigt, er einkennalaus frá hjarta en vegna hjarta­óhljóðs og sökkhækkunar er sjúklingur sendur til hjartalæknis í hjartaómskoðun.  Hún kemur aftur til mín í september ´99 og þá með verki í hæ. viðbeini, greinist með slitgigt í miðlægum viðbeinslið hæ. megin.”

Í vottorði Jóns V. Högnasonar, sérfræðings í lyflækningum og hjartasjúkdómum, segir:  “. . .Hún kom til mín fyrst þann 8. apríl 1998 og þá með diastoliskt óhljóð.  Engin óþægindi frá hjarta og þann 30. apríl var gerð ómskoðun sem að sýnir að aortalokan opnast vel.  Enginn mitrallokuleki er til staðar en talsverður aortalokuleki.  Slegill var þá eðlilega stór.  Vegna hita var gerð vélinda­ómun þann 16. september 1999 og sýnir að nokkur aortalokuleki er til staðar.  Halldóra var einkennalaus þar til um áramótin síðastliðin að hún fór að fá óþægindi í kvið og brjóst.  Ótýpiskt en við ómskoðun þann 18. janúar er greinilegt að vinstri slegill dregur sig mun ver saman.  Þótti líklegt þá að einkenni stöfuðu að einhverju leyti frá ósæðaloku og eftir aðgerð hefur það sannað sig þar sem að óþægindi hafa horfið.”

Í skýrslu Sjúkrahúss Reykjavíkur, sem undirrituð er af Jóni V. Högnasyni, greinir frá ómrannsókn hjartalæknisins 30. apríl 1998 á stefnanda.  Þar er skráð að til staðar sé talsverður aortalokuleki.  “Sjúklingur (svo) er ráðlagt með antiobiotica profylaxis og er ráðlegt að láta fylgjast með sér með ómskoðun a.m.k. árlega.”

Í skýrslu Sjúkrahúss Reykjavíkur/Jóns V. Högnasonar um vélindaómskoðun læknisins á stefnanda 16. september 1999 segir m.a.:  “Þó nokkur aortalokuleki.  Fylgjast þarf með aortalokuleka.”  Um þetta segir nánar í bréfi læknisins 29. október 2001 til lögmanns stefnanda:  “Í framhaldi af því var talað um að hún kæmi í reglulegt eftirlit út af þessum leka í lokunni en kunnugt er að í sumum tilfellum getur hann versnað.”  Ennfremur segir í bréfi þessu:  “Halldóra hafði engin óþægindi frá hjartanu og hefur því vafalítið talið sig ekki hafa neinn hjartasjúkdóm. Eins og rakið er í bréfum til Ísaks G. Hallgrímssonar kemur í ljós eins og áður að Halldóra hafði ósértæk óþægindi um síðastliðin áramót.  Ómskoðun þann 18. janúar sýndi að ósæðarloku­lekinn hafði aukist mjög mikið og var orðin full ástæða til aðgerðar.  Að þessu máli komu nokkrir læknar og taldi enginn þeirra sennilegt að ósæðarlokuleki væri að valda þessum óþægindum og ekki ástæða til að ætla að Halldóra hafi talið það heldur frekar en ég.”

Stefndi endurtryggir líftryggingar sínar erlendis hjá Swiss Re Life & Health.  Endurtryggingafélagið birtir leiðbeiningar (underwriting manuals) þar sem fram kemur hvernig  brugðist skuli við upplýsingum um heilsufar sem fram koma frá þeim sem vilja kaupa líftryggingar sem endurtryggðar eru hjá félaginu.  Um ósæðarlokuleka eru leiðbeiningarnar þessar:  “If heart valve and structural surgery is an insured condition, remove an insured event or decline”  (Ef skurðaðgerð til þess að bæta úr lokugalla eða byggingargalla er vátryggður atburður skal annað hvort undanskilja þá áhættu í tryggingunni eða hafna því að taka trygginguna).

Í málinu liggur frammi samningur frá 18. maí 1999 milli stefnda og Sparisjóðs Hafnarfjarðar um sölu vátrygginga. Af ákvæðum hans verður þess hér getið að ráðgjafar Sparisjóðs Hafnarfjarðar selja vátryggingar stefnda gegn þóknun og er útgáfa vátryggingarskírteina, sem Sparisjóður Hafnarfjarðar hefur aflað stefnda, háð samþykki stefnda.

 

Stefnandi byggir málshöfðun sína á því að stefnda beri að greiða sér tryggingabætur og vísar til meginreglna samningaréttarins um að samninga skuli halda svo og til laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954, einkum 7. gr.

Sjúkdómur sá, sem stefnandi hafi verið skorin upp við í maí 2001, hafi fyrst verið greindur í janúar á því ári.  Fram til þess hafi verið vitað um lekann en hann ekki talinn valda neinum sjúkdómi eða óþægindum.  Stefnandi hafi því ekki verið að svara öðru en því sem hún sannast vissi og best þegar hún keypti sjúkdómatrygginguna í ágúst 2000.  Stefnandi verði ekki ásökuð um stórkostlegt gáleysi fyrir að hafa ekki greint félaginu frá heimsóknum sínum til heimilislæknis og rannsóknum í framhaldi af þeim vegna verkja í baki og viðbeini einu og tveimur árum áður en umrædd trygging var keypt og ekkert hafi komið fram í málinu sem styðji fullyrðingar stefnda um að hann hefði hafnað tryggingunni hefði stefnandi greint frá þessum  heimsóknum.

Samkvæmt stefnu var það málsástæða af hálfu stefnanda að Torfi K. Karlsson, sem annaðist sölu vátryggingar til stefnanda, hafi verið starfsmaður stefnda og hafi sem slíkur haft stöðuumboð til að ganga frá tryggingasamningum fyrir hönd stefnda.  Telji stefndi að handvömm hafi orðið við útfyllingu á tryggingunni verði hann að bera hallann af því sjálfur þar sem tryggingin hafi verið útfyllt af starfsmanninum.  Við aðalmeðferðina upplýsti Torfi Karl Karlsson að hann hefði á þeim tíma, sem hér um ræðir, starfað sem verktaki að tryggingaráðgjöf og vátryggingamiðlun hjá Sparisjóði Hafnar­fjarðar og selt viðskipavinum hans og starfsmönnum tryggingar og hafi persónutryggingar eingöngu verið frá stefnda í máli þessu.  Hann kvað  Hjördísi, sem samþykkti vátryggingarumsókn stefnanda 1. september 2000, vera starfsmann stefnda.  Af hálfu stefnanda var fallið frá þessari málsástæðu við munnlegan flutning málsins.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið rangar upplýsingar um heilsufar sitt við útfyllingu tryggingar­umsóknarinnar með því að geta ekki um meðferð og rannsóknir vegna ósæðarlokuleka sem kom í ljós þegar á árinu 1998.  Stefnanda hljóti að hafa verið ljóst eða mátt vera ljóst að umræddar  upplýsingar skiptu máli fyrir félagið þegar það gerði sjúkdómatryggingarsamning við hana. 

Stefndi byggir einnig á því að hefði hann fengið réttar upplýsingar um heilsufar stefnanda áður en vátryggingarsamningurinn var gerður hefði það annað hvort leitt til þess að áhætta vegna hjartasjúkdóma hefði verið undanskilin eða tryggingunni hafnað.  Stefndi hefði ekki veitt stefnanda þá vernd, sem lýst er í skilmálum vátryggingarsamningsins, ef réttar upplýsingar hefðu verið veittar.

Af hálfu stefnda er einkum vísað til 1. gr. og 5. gr. samnings aðila og 4., 6. og 7. gr. laga um vátryggingarsamninga nr 20/1954.

Þá byggir stefndi á því að eðli samninga um sjúkdómatryggingu sé að undir slíka samninga falli einungis sjúkdómar sem vátryggður veikist af eftir að samningar hafi verið gerðir.  Iðgjald sé greitt til þess að mæta áhættunni af því að vátryggður veikist en ekki því að veikindi sem hann búi við versni.

 

Við aðilaskýrslu sína fyrir dómi staðfesti stefnandi það sem að framan er greint varðandi málsatvikalýsingu í stefnu.  Hún kvaðst ekki geta neitað því að Jón V. Högnason hefði (áður en hún sótti um umrædda tryggingu) sagt sér frá (ósæðarloku-) leka og en sér hefði skilist að hann væri undir eðlilegum mörkum.

Vitnið Jón Vilberg Högnason staðfesti skjöl sem frá honum koma og vitnað hefur verið til hér að framan.  Hann kvaðst hafa sagt stefnanda eftir rannsóknirnar 1998 og 1999 frá ósæðarlokulekanum og ráðlagt sýklalyfjameðferð t.d. ef hún færi í munnhols- eða tannaðgerðir; hins vegar hafi hún ekki verið “króniskt” á lyfjum.  Hann kvað tannlækni stefnanda ekki hafa verið tilkynnt um þetta enda væri slík tilkynning eftirlátin sjúklingi. Hann kvað ekkert hafa bent, hvorki 1998 né 1999, til aukins álags á hjartað vegna lekans.  Aðspurður sagði hann að á mælikvarðanum “vægur”, “meðal” og “mikill” hefði lekinn, sem auðkenndur var sem “talsverður” og hins vegar sem “þó nokkur” í vottorðum hans, í bæði skiptin verið “meðal”.  Hann kvaðst hafa rætt við stefnanda í september 1999 um að það þyrfti að endurtaka ómskoðun síðar en ekki mælt fyrir um reglulegt eftirlit.

Ósæð er aðalslagæð sem liggur frá hjarta.  Ósæðarloka er við upptök æðarinnar og hindrar að blóð renni til baka inn í hjartað.  Sé lekinn mikill leiðir það til þess að hjartað þenst út og stækkar og veldur hjartabilun.  Hjá heilbrigðu fólki lekur þessi loki ekki þótt sjá megi með mjög nákvæmri rannsóknartækni örlítinn leka í undantekningartilvikum.  Samkvæmt gögnum málsins og þá einkum vottorðum og vætti Jóns V. Högnasonar var hér um marktækan leka að ræða sem telja verður sjúklegt ástand sem leiddi til alvarlegs ástands stefnanda í janúar 2001 og skurðaðgerðar í maí s.á.

Óumdeilt er að skurðaðgerð sú, sem stefnandi undirgekkst í maí 2001, telst vátryggingaratburður samkvæmt samningi aðila þar sem segir í 5. gr. skilmála sjúkdómatryggingarinnar:  “. . .Vátryggður gengst undir hjartaskurðaðgerð til að laga lokugalla eða aðra byggingargalla.”  Í 1. gr. skilmálanna segir að hafi rangar upplýsingar verið gefnar eða leynt hafi verið upplýsingum, sem kynnu að hafa breytt áhættumati félagsins, fari um ábyrgð þess eftir ákvæðum laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.

Efst á fyrstu síðu eyðublaða vátryggingarumsóknar stefnanda er svofelld leiðbeining veitt:  “1.  Mikilvægt er að umsóknin sé fyllt út eins nákvæmlega og hægt er og að þú fyllir sjálf/ur út liði 4-7.  Ef þú ert í vafa  um hvort eitthvað atriði skipti máli skaltu taka það fram frekar en að sleppa því.”

Stefnanda var gert kunnugt, eftir rannsóknir á árunum 1998 og 1999, að um ósæðarlokuleka var að ræða, henni var ráðlagt um lyfjagjöf við tilteknar aðstæður og að fylgjast þyrfti með ásigkomulagi hennar að þessu leyti.

Stefnandi hafði ekki leitað læknisaðstoðar vegna einkenna frá ósæðar­loku­lekanum og ekki verður dregið í efa að rétt sé að hún hafi ekki litið svo á að hún væri haldin sjúkdómi að þessu leyti.  Eigi að síður bar henni samkvæmt samningi aðila að skýra frá því, sem hér um ræðir, við umsókn sína og verður henni metið til stórfellds gáleysis að hafa ekki gert það, sbr. 7. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954.

Ætla má, sbr. það sem að framan getur um leiðbeiningar endurtrygginga­félagsins Swiss Re Life & Health, að stefndi hefði ekki tekið á sig vátrygginguna hefði hann haft rétta vitneskju um málavexti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 20/1954.  Þá er á það fallist að það sé hugtaksatriði um sjúkdómatryggingar að undir slíka samninga falli einungis sjúkdómar sem vátryggður veikist af eftir að samningur hefur verið gerður.

Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Eftir atvikum þykir mega ákveða að málskostnaður skuli falla niður.

Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Guðmundur Björnsson endurhæfingalæknir og Magnús Karl Pétursson hjartalæknir.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Alþjóða líftryggingarfélagið hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Halldóru Skaftadóttur.

Málskostnaður fellur niður.