Hæstiréttur íslands
Mál nr. 456/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Óskipt bú
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. júní 2016, þar sem kröfu sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúi B var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að áðurgreind krafa um opinber skipti verði tekin til greina, en til vara að lagt verði fyrir héraðsdóm ,,að taka til efnismeðferðar kröfu skiptabeiðanda“.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti, en fyrir héraðsdómi virðist hafa verið farið með mál þetta og leyst úr því samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 43. gr. laga nr. 20/1991 án þess að þeir sem kynnu að telja til arfs eftir hina látnu væru kvaddir til þinghaldsins í tilefni af kröfu sóknaraðila.
Í hinum kærða úrskurði greinir að B heitin hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, C, er lést [...] 1992, með einkasyni þeirra, D. Hann lést [...] 2009 og var B einkaerfingi hans. Lauk skiptum á búi D [...] 2010. Af 7. gr. erfðalaga nr. 8/1962 leiðir að við andlát hans brast forsenda fyrir setu hennar í óskiptu búi eftir eiginmann sinn og féll seta hennar í óskipta búinu því sjálfkrafa niður. Af framangreindu er ljóst að við andlát B [....] 2015 sat hún ekki í óskiptu búi og geta því ákvæði 2. mgr. 19. gr. erfðalaga ekki átt við um töku arfs eftir hana.
Í málinu er fram komið að B gerði tvær erfðaskrár sama efnis þar sem hún arfleiddi tilgreinda konu að öllum eignum sínum. Var síðari erfðaskráin gerð [...] 2010 eftir að skiptum á dánarbúi sonar hennar lauk. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 getur erfingi krafist þess að dánarbú verði tekið til opinberra skipta. Sóknaraðili, sem er skiptabeiðandi, er ættingi hins látna eiginmanns B, en ekki sá sem arfs á að njóta eftir hana samkvæmt fyrrgreindri erfðaskrá. Eru því ekki skilyrði til að fallast á kröfu hans um opinber skipti á dánarbúi B. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. júní 2016.
Mál þetta barst dómnum 1. júní. Er um að ræða kröfu A, kt. [...], [...], [...], um opinber skipti á dánarbúi B, sem fædd var [...] 1922, bjó síðast að [...], [...], en lést þann [...] 2015. B heitin sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, C, sem lést [...] 1992.
Beiðni sama efnis frá öðrum aðilum, þ.á m. systkinum skiptabeiðanda, hefur áður borist dómnum. Var því mótmælt að hún yrði tekin til greina og var rekið um hana ágreiningsmál nr. Q-[...]/2016.
Töldu sóknaraðilar málsins til lögerfðaréttinda eftir C heitinn. Varnaraðili taldi til bréferfðaréttinda eftir B heitna. Tók erfðaskrá hennar til allra eigna sem hún léti eftir sig.
Er B heitinni var veitt leyfi til setu í óskiptu búi var á lífi sonur þeirra C heitins, D. Hann lést [...] 2009. Var B heitin einkaerfingi hans. Hún fékk leyfi til einkaskipta og lauk þeim 5. maí 2010.
Sóknaraðilar byggðu á því að búi C heitins hefði aldrei verið skipt. Hefði B heitin aðeins haft heimild til að ráðstafa sínum búshluta með erfðaskrá.
Varnaraðili byggði á því að B heitin hefði ekki setið í óskiptu búi er hún lést. Stæðu sóknaraðilar ekki til arfs og bæri að vísa kröfu þeirra frá dómi þar sem þeir ættu ekki lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hafði synjað varnaraðila um leyfi til einkaskipta.
Niðurstaða dómsins var að er C heitinn lést hefðu B heitin og D heitinn talið ein til arfs eftir hann. Þótt B heitinni kynni að hafa láðst að gera grein fyrir því, þegar hún erfði D heitinn, að með fylgdi hlutdeild hans í óskipta búinu, svo og að hún tæki þar með við öllum eignum eftir C heitinn að öðru leyti sem erfingi hans, þannig að hugsanlega hefði ekki verið greiddur erfðafjárskattur af þessum eignum, breytti það engu um að þau D heitinn hefðu staðið ein til arfs eftir hann. B heitin hefði ráðstafað eignum sínum til varnaraðila með erfðaskrá. Hefði ekki komið fram, svo séð yrði, að erfðaskráin væri vefengd. Að svo vöxnu máli yrði fallist á það með varnaraðila að sóknaraðilar hefðu ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni.
Í samræmi við þetta er það niðurstaðan í þessu máli að ekki séu skilyrði til að verða við kröfu skiptabeiðanda, þar sem hann teljist ekki erfingi í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Ber því samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna að hafna kröfunni.
Erlingur Sigtryggsson kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu A um opinber skipti á dánarbúi B er hafnað.