Hæstiréttur íslands
Mál nr. 526/2010
Lykilorð
- Skuldamál
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn 26. maí 2011. |
|
Nr. 526/2010. |
Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf. (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) gegn NBI hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Skuldamál. Samningur.
M höfðaði mál til heimtu skaðabóta vegna tjóns, sem M taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu N, þar sem N hefði brugðist skyldum sem hann hefði gengist undir við áritun um móttöku fyrirmæla í tveimur yfirlýsingum árið 2008. M hafði starfað sem undirverktaki fyrir H og með yfirlýsingunum höfðu M og H samþykkt að allar greiðslur frá verkkaupum vegna malbikunarframkvæmda yrðu framvegis lagðar inn á lokaðan reikning H hjá N. Aðilar lýstu því yfir fyrir Hæstarétti að skýra bæri yfirlýsingarnar svo að N hefði verið skylt að annast greiðslu þeirra reikninga M, sem samþykktir hefðu verið af H, að öðrum skilyrðum yfirlýsinganna uppfylltum og að því tilskildu að innstæða væri á bankareikningi þeim er greindi í yfirlýsingunum. Þá var einnig óumdeilt með aðilum að reikningarnir, sem krafa M var reist á, hefðu ekki verið áritaðir af H um samþykki. Taldi M að þar sem reikningum hefði ekki verið andmælt af hálfu H innan tíu daga frá móttöku þeirra, hefðu þeir talist samþykkir af félaginu. Gegn andmælum N var talið ósannað að sú regla hefði gilt í samskiptum M og H að reikningar teldust samþykkir ef þeim yrði ekki andmælt innan framangreinds frests og að N hefði verið gerð grein fyrir þessari reglu. Varð þegar af þessari ástæðu talið ósannað að N hefði ekki staðið við þær skyldur, sem lagt var til grundvallar í málinu að á honum hefði hvílt samkvæmt yfirlýsingunum. Var N því sýkn af kröfu M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2010. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 64.912.361 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir af völdum stefnda. Hina skaðabótaskyldu háttsemi telur áfrýjandi felast í því að stefndi hafi brugðist skyldum sem hann hafi gengist undir við áritun um móttöku fyrirmæla í tveimur yfirlýsingum, 16. júní og 19. nóvember 2008. Gerð er grein fyrir efni yfirlýsinganna í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi telur að hin saknæma og ólögmæta háttsemi hafi leitt til þess að hann hafi ekki fengið greiddan fjölda reikninga vegna tveggja verksamninga þar sem hann hafi verið undirverktaki Hektars hf. (áður Heimir og Þorgeir hf.) sem hafi verið aðalverktaki. Sé samanlögð fjárhæð reikninganna 64.912.361 króna.
Aðilar lýstu yfir því fyrir Hæstarétti að skýra bæri yfirlýsingarnar svo, hvað sem líður orðalagi þeirra, að stefnda hafi verið skylt að annast greiðslu þeirra reikninga áfrýjanda, sem samþykktir hefðu verið af Hektari hf., að öðrum skilyrðum yfirlýsinganna uppfylltum og að því tilskildu að innstæða væri á bankareikningi þeim er greinir í yfirlýsingunum. Þá er einnig óumdeilt með aðilum að reikningar áfrýjanda, sem krafa hans er reist á, hafi ekki verið áritaðir af Hektari hf. um samþykki. Telur áfrýjandi að þar sem reikningunum hafi ekki verið andmælt af hálfu Hektars hf. innan tíu daga frá móttöku þeirra, hafi þeir talist samþykktir af félaginu. Gegn andmælum stefnda er ósannað, að sú regla hafi gilt í samskiptum áfrýjanda og Hektars hf., að reikningar teldust samþykktir ef þeim yrði ekki andmælt innan framangreinds frests og að stefnda hafi verið gerð grein fyrir þessari reglu. Verður þegar af þessari ástæðu talið ósannað að stefndi hafi ekki staðið við þær skyldur, sem lagt er til grundvallar í málinu að á honum hafi hvílt samkvæmt yfirlýsingunum. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf., greiði stefnda, NBI hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2010.
Mál þetta, sem höfðað var 29. október 2009, var dómtekið 18. maí sl.
Stefnandi er Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf., Gullhellu 1, Hafnarfirði. Stefndi er NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 64.912.361 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara krefst stefndi lækkunar á dómkröfu stefnanda. Að auki er krafist málskostnaðar. Þá er krafist virðisaukaskatts af dæmdri málflutningsþóknun til stefnda.
I
Stefnandi hefur í gegnum tíðina starfað með Hektar hf., kt. 560994-2229, Hlíðarsmára 2, Kópavogi (áður Heimir og Þorgeir ehf.). Hefur stefnandi sinnt malbikun í undirverktöku í stærri verkum sem Hektar hf. hefur tekið að sér sem aðalverktaki.
Í ljósi versnandi efnahagsástands og sífellt lakari aðstæðna á verktakamarkaði fór stefnandi að óttast um hag sinn gagnvart stefnda Hektar hf., sem bar að standa stefnanda skil á greiðslum frá verkkaupa. Brást stefnandi við með því að gera ráðstafanir til að verja sig gegn því að halla tæki undan fæti hjá Hektar hf.
Stefnandi gerði af þessum sökum samninga við Hektar hf. um ráðstöfun fjármuna til að tryggja að hann fengi greitt fyrir vinnu sína sem undirverktaki við nánar tiltekin verk.
Annars vegar var um að ræða verk við malbikun göngustíga í Garðabæ fyrir sveitarfélagið sjálft og í svokölluðu Blikastaðalandi fyrir Stekkjabrekku hf. en vegna þess var gerður samningur um ráðstöfun fjármuna á reikningi, dags. 16. júní 2008. Útistandandi fjárhæð reikninga sem gefnir hafa verið út af stefnanda vegna þessa verks er 19.428.508 krónur.
Hins vegar var um að ræða verk fyrir Reykjavíkurborg vegna Reynisvatnsáss en um það var gerður samningur um ráðstöfun fjármuna á reikningi, dags. 19. nóvember 2008. Útistandandi fjárhæð reikninga sem gefnir hafa verið út af stefnanda vegna þessa verks er 45.483.853 krónur. Er stefnufjárhæðin, kr. 64.912.361, samtala útistandandi reikninga fyrir þessi tvö verk.
Yfirlýsingarnar um ráðstöfun fjármuna, sem samdir voru af málsaðilum, hljóðuðu efnislega á um að greiðslur vegna malbikunarframkvæmda sem bærust frá verkkaupum inn á lokaðan reikning Hektars hf., nr. 132-26-6001 hjá stefnda, væru Hektar hf. ekki til reiðu nema stefnandi hefði fyrst fengið sína reikninga vegna malbikunarvinnu greidda samkvæmt samþykktum reikningum.
Stefnandi kveður stefnda hafa átt að sjá til þess að yfirlýsingunum yrði framfylgt í samræmi við áritun fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. á samningana.
Stefndi heldur því hins vegar fram að í áritun starfsmanna Landsbanka Íslands hf. á yfirlýsingarnar komi einungis fram að þau fyrirmæli sem þær innihaldi hafi verið móttekin.
Stefnandi lýsir því fyrirkomulagi sem stefnandi og Hektar hf. höfðu á uppgjöri sín á milli þannig að samþykkt reikninga hafi farið fram með þeim hætti að stefnandi hafi sent út reikninga eftir því sem verkunum vatt fram og töldust þeir samþykktir af hálfu Hektars hf. væru ekki gerðar athugasemdir við þá innan tíu daga frá móttöku. Jafnharðan og Hektar hf. hafði tekið afstöðu til tiltekins reiknings bar félaginu að framsenda hann á stefnda. Um leið og greiðsla barst frá verkkaupa gat stefnda staðið stefnanda skil á greiðslu samkvæmt reikningnum. Var Hektar hf. heimilt að verja eftirstöðvum á lokaða reikningnum í eigin þágu að því gefnu að engir reikningar frá stefnanda vegna þess verks væru ógreiddir.
Stefndi kveður lýsingu stefnanda á fyrirkomulagi uppgjörsins milli stefnanda og Hektars hf. hins vegar ekki styðjast við nein gögn málsins og hafa í sjálfu sér hvorki gildi gagnvart Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma né stefnda. Bankinn hafi með engu móti getað vitað að engir reikningar frá stefnanda vegna tiltekins verks væru ógreiddir umfram það sem samþykktir reikningar frá Hektar gáfu til kynna. Hafi bankinn verið bundinn við þau fyrirmæli sem fram komu í hinum gagnkvæmu yfirlýsingum stefnanda og Hektars um að greiða einungis þá reikninga sem honum bærust og væru sannanlega samþykktir af stefnanda og Hektar hf. Eins og fram komi í bréfi Hektars hf., dags. 9. september 2009, voru þeir malbiksreikningar frá stefnanda sem bárust Landsbanka Íslands hf. og stefnda, og voru samþykktir af stefnanda og Hektar hf., greiddir af Landsbankanum.
Stefndi kveður með engu móti verða séð að reikningar þeir sem stefnukrafa sé byggð á hafi verið samþykktir af Hektar hf. eins og áskilið sé í yfirlýsingum aðila. Þá hafi Landsbanki Íslands og stefndi ekki séð hvaða aðilar hafi verið að leggja inn á reikninginn, hvenær og hve háa fjárhæð. Þá hafi bankarnir ekki getað séð hvort greiðslan var fyrir malbikun eða einhverja aðra vinnu. Fram komi í tölvupóstum milli starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og Hektars hf. að Landsbanki Íslands hafi leitast við eftir fremsta megni að framkvæma þau fyrirmæli sem hann hafði móttekið með áritun sinni á yfirlýsingarnar.
Í október 2008 var stefnanda farið að lengja eftir greiðslum á grundvelli samningsins frá 16. júní 2008. Taldi stefnandi þá hugsanlegt að stefnda og Hektar hf. hefðu vanefnt gerða samninga með því að greiðslur hefðu borist inn á hinn lokaða reikning en ekki skilað sér til hans. Vegna þess kveðst stefndi hafa afhent stefnanda alla útgefna reikninga þann 17. október 2008, sem enn voru ógreiddir, í því skyni að þeir yrðu greiddir með fjármunum af hinum lokaða reikningi. Engar greiðslur bárust samkvæmt reikningunum til stefnanda.
Stefnandi kveðst hafa, til að fylgja eftir fjölda símtala til Hektars hf. og NBI hf., með tölvupósti, dags. 15. desember 2008, gert reka að því að stefndi kannaði hvort ekki hefðu átt að hafa borist greiðslur til stefnanda í samræmi við samningana. Ekkert svar hafi borist frá bankanum. Sama dag hafi framkvæmdastjóri stefnanda ýtt eftir greiðslu frá Hektar hf. með tölvupósti til framkvæmdastjóra félagsins. Ítrekaði framkvæmdastjóri stefnanda þetta erindi sitt daginn eftir og aftur 11. febrúar 2009.
Með tölvupósti 1. apríl 2009 upplýsti framkvæmdastjóri Hektars hf. stefnanda um að Hektar hf. hefði ekki burði eða getu til að standa skil á skuldbindingum sínum. Síðan hafa engar greiðslur borist vegna ofangreindra verka í Blikastaðalandi og við Reynisvatnsás. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, dags. 7. október 2009, var Hektar hf. tekið til gjaldþrotaskipta.
II
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni með því að vanefna skyldur sínar samkvæmt ofangreindum samningum um ráðstöfun fjár á reikningi. Þetta hafi stefndi gert með því að sinna ekki því hlutverki sínu að sjá til þess að stefnandi fengi fjármuni greidda út af reikningnum heldur millifæra beint fjármuni út af reikningnum til Hektars hf. Hafi þetta valdið stefnanda tjóni sem nemi stefnufjárhæð málsins. Beri stefnda að bæta stefnanda tjón þetta samkvæmt almennum bótareglum.
Samningarnir um ráðstöfun fjár á hinum lokaða reikningi beri með sér að greiða átti stefnanda fyrir vinnu vegna malbikun. Samningurinn um verkið í Blikastaðalandi sé orðrétt svohljóðandi: „Undirritaðir, f.h. Hlaðbær-Colas hf. (HC), kt. 420187-1499, Gullhellu 1, 221 Hafnarfirði og Heimir og Þorgeir hf. (HÞ), kt. 560994-2229, Hlíðarsmára 2, 201 Kópavogi, samþykkja hér með að allar greiðslu frá Garðabæ og Stekkjabrekku hf. sem innihalda malbik munu framvegis verða lagðir inn á reikning HÞ í Landsbanki Íslands hf. nr. 0132-26-6001. Um er að ræða lokaðan reikning. HÞ fær ekki greitt frá þeim verkkaupum fyrr en hlutur HC hefur verið greiddur samkvæmt reikningi frá HC sem samþykktur hefur verið af HÞ.“
Samningurinn sé dagsettur og undirritaður af stefnanda og Hektar hf. í votta viðurvist og áritaður af stefnda um samþykki og móttöku fyrirmæla samkvæmt honum. Samningurinn vegna verksins við Reynisvatnsás sé að breyttu breytanda nákvæmlega eins.
Í þessum samningum hafi falist að þeir fjármunir sem Hektar hf. fengi, samkvæmt verksamningum um einstök verk vegna malbikunarvinnu sem stefnandi innti af hendi sem undirverktaki, skyldu lagðir inn á lokaðan reikning hjá stefnda, sem Hektar hf. ætti ekki að hafa aðgang að, og að stefndi ætti að tryggja að stefnandi fengi greidda útistandandi samþykkta reikninga áður en innistæða reikningsins yrði Hektar hf. til ráðstöfunar.
Samningarnir beri með öðrum orðum ljóslega með sér að um leið og stefnda hafði borist einn greiddur reikningur frá tilteknum verkkaupa hafi honum með öllu verið óheimilt að hleypa Hektar hf. í fjármuni á reikningnum, sem næmu greiðslum frá viðkomandi verkkaupa, nema reikningar stefnanda hefðu fyrst verið greiddir. Fjármunir hafi ekki verið sérgreindir á reikningnum en skýringar með millifærslum gefi til kynna hver greiddi inn á hann. Fjárhæðir sem nemi þeim greiðslum urðu að vera óhreyfðar á reikningnum þar til stefnandi hafði fengið greitt. Þetta hafi stefnda borið að tryggja.
Í raun hafi hér verið um ráðstöfun að ræða til þess að tryggja að stefnandi fengi greitt fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi sem undirverktaki. Tryggingarráðstöfunin sem stofnaðist til hafi verið í formi handveðs eða sambærilegs gernings. Til hennar hafi stofnast með samningum um hinn lokaða reikning og skýrri áritun stefnda um samþykki og móttöku fyrirmæla. Um stofnun handveðréttar gildi ekki strangar formreglur. Nægi að eigandi verðmætis sé sviptur vörslum þess. Séu vörslur í höndum þriðja aðila nægi að honum sé tilkynnt um stofnun veðréttarins. Um form slíkrar tilkynningar gildi heldur ekki strangar formreglur. Svo hátti einkum til þegar í hlut eigi aðilar á borð við stefnda, sem sérþekkingu eigi að hafa á sviði veðréttinda og lokun reikninga.
Ástæða þess að atbeina stefnda hafi verið leitað og þess sérstaklega farið á leit við hann að hann samþykkti móttöku fyrirmæla í samningunum hafi verið sú að veita átti stefnanda aukna tryggingu fyrir greiðslu og bæta stöðu hans. Þannig hafi stefnandi lagt traust á bankann og treyst því að fyrir tilstuðlan hans myndu greiðslur ávallt skila sér, að því gefnu að verkkaupar stæðu í skilum.
Greiðslur höfðu áður skilað sér á grundvelli sambærilegs samnings milli sömu aðila um ráðstöfun fjár á reikningi. Þær hafi verið tilkomnar vegna verks að Hlíðarenda fyrir JÁVERK ehf. Um það hafi verið gerður samningur um ráðstöfun fjármuna á reikningi, dags. 10. júlí 2008. Greiðslur vegna þessa verks hafi allar borist stefnanda og hafi sá samningur verið efndur samkvæmt efni sínu.
Efnislegur kjarni samninganna um ráðstöfun fjár á reikningi og grunntilgangur þeirra hafi verið að tryggja að hömlur væru á greiðslum til Hektars hf., með öðrum orðum að reikningurinn væri lokaður. Þetta hafi verið öllum hlutaðeigandi ljóst enda hafi samningar þessir verið réttilega efndir framan af bæði af Hektar hf. og stefnda með því að stefnda gætti þess að stefnandi fengi greiðslur út af hinum lokaða reikningi, en það hafi verið starfsmaður stefnda sem millifærði af reikningunum til að greiða stefnanda.
Eins og áður greini vaknaði á haustdögum ársins 2008 hjá stefnanda sterkur grunur um að greiðslur bærust inn á reikninginn frá verkkaupum án þess þó að þær greiðslur skiluðu sér áfram til hans. Stefnandi hafi hins vegar ekki verið í aðstöðu til að slá því sjálfur föstu að greiðslur vegna malbikunar hefðu borist inn á reikninginn. Hafi stefnandi því leitað upplýsinga um það hjá Hektar hf. hvort greiðslur hefðu borist.
Grunsemdir stefnanda hafi reynst á rökum reistar því auðsýnt sé af bankayfirliti sem Hektar hf. útvegaði stefnanda, dags. 22. júlí 2009, að á gildistíma hinna vanefndu samninga bárust greiðslur er nemi á þriðja hundrað milljónum króna frá verkkaupum sem stefnandi hafi unnið fyrir sem undirverktaki Hektars hf. Greiðslurnar hafi borist eftir að reikningar voru sendir út af stefnanda og verið samþykktir af Hektar hf. Því hafi Hektar hf. verið óheimilt að ganga í innistæður á reikningnum. Enn fremur hafi stefnda, samkvæmt fyrirmælum í samningunum, verið óheimilt að veita Hektar hf. aðgang að innistæðunni.
Af sama yfirliti sé enn fremur ljóst að Hektar hf. hafi tekið umtalsverðar fjárhæðir út af hinum lokaða reikningi. Hafi reikningurinn til að mynda verið tæmdur oftar en einu sinni síðan 17. október 2008 líkt og yfirlitið beri með sér.
Af framangreindum sökum þyki stefnanda einsýnt að Hektar hf. hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins með því að ganga í innistæður á hinum lokaða reikningi.
Stefndi hafi jafnframt brugðist skyldum sínum með því að greiða út af reikningnum til Hektars hf. Sé ljóst að stefndi hafi ekki verið í góðri trú er hann greiddi út af hinum lokaða reikningi til Hektars hf.
Með því að gefa Hektar hf., að því er virðist, óheftan aðgang að innistæðu hins lokaða reiknings hafi stefnda vanefnt samningsskyldur sínar. Hafi stefndi, sem fjármálafyrirtæki, ótvírætt verið kunnugt um skyldur sínar sem vörsluhafa handveðs þriðja manns auk þess sem stefnda hafði áður millifært greiðslur til stefnanda samkvæmt samþykktum reikningi. Með því að láta undir höfuð leggjast að fylgja fyrirmælum sem það hafði gengist undir stofnaðist til skaðabótaábyrgðar stefnda.
Í þessu samhengi sé vert að benda á sérstaka stöðu stefnda sem fjármálafyrirtækis. Ekki leiki vafi á að þar á bæ átti að vera til staðar þekking til að gera greinarmun á hinum lokaða reikningi og annars konar reikningum þar sem Hektar hf. kunni að hafa ótakmarkaðar heimildir til úttekta.
Hvað varði tjón stefnanda átti stefnandi, samkvæmt samningum um ráðstöfun fjár á reikningi, að fá greitt fyrir vinnu sína sem undirverktaki Hektars hf. af hinum lokaða reikningi nr. 132-26-6001 í samræmi við framlagða reikninga. Tjón stefnanda felist í því að honum hafa ekki borist greiðslur af hinum lokaða reikningi eins og honum bar. Nemi tjónið stefnufjárhæð máls þessa en hún nemur samtölu þeirra reikninga sem ekki hafi fengist greiddir með fjármunum af hinum lokaða reikningi. Því geri stefnandi kröfu um að stefnda bæti honum það tjón enda sé ljóst að frekari greiðslur verði ekki sóttar til Hektars hf.
Stefnandi hafi ítrekað beint áskorunum til stefnda um að ráðstöfun fjár á hinum lokaða reikningi verði komið í rétt horf og hann fái greiðslu kröfu sinnar. Til að fylgja eftir ítrekuðum símtölum, tölvupóstsendingum og fundi með stefnda og Hektar hf., þann 22. júlí 2009, sendi stefnandi formlegt bréf til stefnda án þess að það bæri árangur. Bréfi þessu fylgdu afrit allra reikninga sem liggi að baki skuld Hektars hf. við stefnanda. Bréfinu hafi stefndi ekki svarað með formlegum hætti og þrátt fyrir móttöku þess ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningunum.
Dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sé krafist frá þeim degi er liðinn var mánuður frá samþykkt síðasta reiknings er stefnandi gaf út vegna verkanna þriggja.
Til stuðnings kröfum sínum vísi stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og almennra reglna skaðabótaréttarins. Einnig til meginreglna veðréttar sem og laga um samningsveð nr. 75/1997, einkum 1. gr. og 22. gr. Jafnframt vísi stefnandi til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum vísireglu 19. gr.
Kröfur um dráttarvexti styðji stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla l. nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. Varðandi varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991.
III
Stefndi byggir á að skilyrði almennu sakarreglunnar séu ekki fyrir hendi. Stefndi hafnar því algjörlega að hann hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni með athöfnum sínum eða athafnaleysi. Hvorki stefndi né Landsbanki Íslands hf. hafi verið aðilar að þeim gagnkvæmu yfirlýsingum sem stefnandi og Hektar hf. undirrituðu til staðfestingar á því fyrirkomulagi sem þeir kusu sjálfir að hafa um uppgjör á reikningum vegna verka sinna. Skýrt komi fram í hinum gagnkvæmu yfirlýsingum, bæði hvað varðar verkin í Garðabæ og Blikastaðalandi, sem og verkið við Reynisvatnsás, að hlutur stefnanda skuli greiddur af reikningi Hektars hf. samkvæmt reikningi stefnanda sem samþykktur hafi verið af Hektar hf. Stefnandi hafi í engu sýnt fram á að stefndi, eða eftir atvikum Landsbanki Íslands hf., hafi virt að vettugi þau fyrirmæli sem þeir fengu frá stefnanda eða Hektar hf. í tengslum við greiðsluuppgjör milli þessara síðastnefndu aðila. Bresti því skilyrði fyrir því að fella bótaábyrgð á stefnda, eins og aðalkrafa stefnanda hljóði upp á.
Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að það hafi verið á ábyrgð aðila að hinum gagnkvæmu yfirlýsingum, þ.e. stefnanda og Hektars hf., að upplýsa stefnda um þær greiðslur sem inna átti af hendi af reikningi Hektars í Landsbanka Íslands hf. og til stefnanda.
Samkomulag um nánari útfærslu á því uppgjöri hafi verið á forræði stefnanda og Hektars hf. og sé fráleitt með öllu að stefndi eigi að bera einhverskonar hlutlæga ábyrgð á þeim misbresti sem orðið hafi. Í því sambandi bendi stefndi sérstaklega á að framkvæmd viðlíka uppgjörs milli sömu aðila fyrir milligöngu stefnda hafi gengið snurðulaust fyrir þegar aðilar höfðu gefið stefnda viðhlítandi greiðslufyrirmæli og upplýsingar. Greiðslufyrirmæli og skýringar hafi algjörlega verið á forræði stefnanda og Hektars hf. Geti stefndi ekki borið ábyrgð á því að framkvæmd aðila að þessu leyti hafi verið ábótavant.
Enn fremur vísi stefndi algjörlega á bug þeirri málsástæðu stefnanda að á grundvelli hinna gagnkvæmu yfirlýsinga hafi stofnast tryggingaráðstöfun í formi handveðs eða sambærilegs gernings. Skýrt komi fram í áritun stefnda á yfirlýsingarnar að með þeirri áritun séu fyrirmæli í þeim móttekin. Ljóst sé að reikningur Hektars var notaður í margvíslegum tilgangi og um hann runnu greiðslur sem vörðuðu hvorki stefnanda né réttarsamband hans við Hektar á nokkurn hátt. Það sé því af og frá að um einhvers konar handveð hafi verið að ræða, enda segi í hinum gagnkvæmu yfirlýsingum að þær taki einungis til greiðslna vegna malbiks sem fari inn á viðkomandi reikning.
Stefnandi haldi því fram að honum hafi borið að fá greitt fyrir vinnu sína sem undirverktaki Hektars hf. af reikningi í samræmi við framlagða reikninga. Stefndi geri ekki ágreining um þetta atriði við stefnanda. Stefnandi telji að tjón hans felist í því að honum hafi ekki borist greiðslur af reikningi Hektars hf. hjá stefnda eins og honum bar, samkvæmt framlögðum reikningum. Nemi stefnufjárhæðin samtölu þessara reikninga. Stefndi hafni því algjörlega að hann hafi tekið á sig ábyrgð fyrir því að stefnandi fengi framlagða reikninga greidda. Í áritun stefnda á áðurnefndar yfirlýsingar milli stefnanda og Hektars hf. hafi engin slík ábyrgð falist. Stefndi áritaði yfirlýsinguna um móttöku þeirra fyrirmæla sem þar var að finna. Hvergi í gögnum málsins sé að sjá nein merki þess að framlagðir reikningar stefnanda hafi verið samþykktir af Hektar hf., eins og áskilið sé í hinum gagnkvæmu yfirlýsingum stefnanda og Hektars hf., og þaðan af síður að þeim samþykktum hafi verið komið á framfæri við stefnda.
Fram komi í málsástæðum stefnanda að honum þyki einsýnt að stefndi Hektar hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins við stefnanda með því að ganga í innistæður á hinum lokaða reikningi án þess að reikningar stefnanda vegna malbikunarvinnu væru greiddir. Stefndi geti vitaskuld ekki tekið afstöðu til þessara fullyrðinga en þær undirstriki enn fremur ábyrgð og forræði stefnanda og Hektars hf. á uppgjöri sín á milli. Stefndi hafni því alfarið að hann hafi veitt Hektar hf. óheftan aðgang að reikningi sínum, enda sýni samskipti starfsmanna stefnda og Landsbanka Íslands hf. fram á hið gagnstæða.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda, gerir stefndi þá kröfu að hann verði sýknaður af dómkröfu stefnanda að því leyti sem hún byggir á atvikum sem urðu fyrir stofnun stefnda 9. október 2008. Byggir stefndi varakröfu sína á því að þeim hluta kröfunnar sé ranglega beint að stefnda og leiði aðildarskortur hans hvað þennan hluta varði til sýknu í samræmi við ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem samþykkt voru á alþingi 6. október 2008 og fólu meðal annars í sér breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, voru Fjármálaeftirlitinu meðal annars fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.
Þann 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun á grundvelli 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 16/2002 að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í samræmi við 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, var Nýi Landsbanki Íslands hf., nú NBI hf., aðalstefndi í máli þessu, stofnaður. Er kröfum á grundvelli bótaábyrgðar vegna atvika sem urðu fyrir 9. október 2008 því ranglega beint að stefnda í máli þessu.
Krafa um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/19888 um virðisaukaskatt. Stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.
IV
Með tveimur yfirlýsingum, dags. 16. júní 2008 og 19. nóvember 2008, samþykktu stefnandi og Heimir og Þorgeir hf., nú Hektar hf., að allar greiðslur frá verkkaupum vegna malbikunarframkvæmda yrðu framvegis lagðar inn á lokaðan reikning Heimis og Þorgeirs hf. í Landsbanka Íslands hf. nr. 132-26-6001. Þá er kveðið á um að Heimir og Þorgeir hf. fái ekki greitt frá þeim verkkaupum fyrr en hlutur stefnanda hefur verið greiddur samkvæmt reikningi frá stefnanda sem samþykktur hafi verið af Heimi og Þorgeiri hf.
Yfirlýsingarnar, sem fyrir liggur að samdar voru af Geir Sæmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Hektars hf., eru áritaðar f.h. Landsbanka Íslands hf. um að fyrirmæli samkvæmt þeim séu móttekin.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á að stefndi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt yfirlýsingunum, þ.e. stefndi hafi ekki séð til þess að stefnandi fengi fjármuni greidda út af reikningnum.
Yfirlýsingarnar þykja ekki verða skýrðar öðru vísi en samkvæmt orðanna hljóðan þannig að þær séu staðfesting á því fyrirkomulagi sem aðilar að þeim ákváðu sjálfir að hafa á uppgjöri sín á milli. Í áritun Landsbankans felist einungis að bankinn hafi móttekið þau fyrirmæli sem þær kveða á um.
Í yfirlýsingunum kemur skýrt fram að það sé skilyrði fyrir greiðslu hlutar stefnanda að Hektar hf. hafi samþykkt reikning stefnanda.
Staðhæfingar stefnanda um að reikningar hafi talist samþykktir af hálfu Hektars hf. væru ekki gerðar athugasemdir við þá innan tíu daga frá móttöku eiga sér enga stoð í gögnum málins.
Vitnið, Geir Sæmundsson, bar fyrir dóminum að allir reikningar, sem samþykktir voru af stefnanda og honum f.h. Hektars hf., og sendir voru þjónustufulltrúa Landsbankans hf., hafi verið greiddir.
Þá bar vitnið, Guðrún Sigurlaug Ólafsdóttir útibússtjóri, fyrir dóminum að hún vissi ekki til þess að ógreiddir væru hjá stefnda reikningar frá stefnanda sem Hektar hf. hefur samþykkt.
Með hliðsjón af framburði vitnanna, og þar sem öðrum gögnum er ekki til að dreifa, verður að telja ósannað að einhverjir reikningar stefnanda, sem samþykktir hafa verið af Hektar hf., hafi ekki verið greiddir í samræmi við fyrirmæli yfirlýsingarinnar. En telja verður að það hafi verið hlutverk Hektars hf. að upplýsa stefnda um samþykkta reikninga sem greiða átti af reikningnum.
Stefnandi byggir jafnframt á því að á grundvelli yfirlýsinganna hafi stofnast tryggingarráðstöfun í formi handveðs eða sambærilegs gernings.
Umræddur reikningur var svokallaður lokaður reikningur en samkvæmt því sem fram kom í framburði, Guðrúnar Sigurlaugar Ólafsdóttur útibússtjóra, fyrir dóminum þýðir það að ekki er hægt að millifæra af reikningnum nema bankinn taki læsinguna af honum. Hún kvað bankann ekki hafa haft handveð í reikningnum og því hafi umráðarétturinn yfir honum verið hjá eiganda hans. Eigandinn hafi því getað komið í útibúið, eða sent tölvupóst, og beðið um að læsingin yrði tekin af reikningnum. Bankanum hafi þannig borið að opna reikninginn fyrir úttektum ef eigandi hans óskaði eftir því.
Samkvæmt framangreindu, og þar sem fyrir liggur að um reikninginn fóru ekki einungis fjármunir sem vörðuðu viðskipti aðila, þykir ekki unnt að fallast á það að reikningurinn hafi verið handveðsettur bankanum. Voru því ekki aðrar takmarkanir á ráðstöfunarrétti Hektars hf. yfir reikningnum en leiddu af fyrirmælum samkvæmt yfirlýsingunum og því að reikningurinn var lokaður.
Samkvæmt því sem að framan er rakið verður að telja að ekkert liggi fyrir í málinu um að stefndi hafi vanefnt skyldur sínar og valdið stefnanda með því tjóni.
Verður því ekki hjá því komist að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir niðurstöðu málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, NBI hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Malbikunarstöðvarinnar Hlaðbær-Colas hf.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.