Hæstiréttur íslands

Mál nr. 476/2008


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Kaupverð


Miðvikudaginn 20

 

Miðvikudaginn 20. maí 2009.

Nr. 476/2008.

Magnús Guðjónsson                          

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Johan Rönning hf.

(Garðar Garðarsson hrl.)

 

Kaupsamningur. Kaupverð.

M seldi J hf. allt hlutafé í Í ehf. Skyldi kaupverð m.a. greitt miðað við rekstrarafkomu. Var rekstur Í ehf. síðar seldur öðru félagi og Í ehf. rann inn í J hf. M krafðist greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningnum við J hf. þar sem engin atvik hafi orðið í samskiptum aðila sem fellt hafi þá skuldbindingu niður. Talið var að skuldbinding J hf. til að greiða M það sem eftir hafi staðið af kaupsamningsverði hafi verið miðuð við að unnt yrði að snúa taprekstri Í ehf. í rekstur með hagnaði á þeim tíma sem í hönd hafi farið. Þetta hafi ekki tekist og hafi staða félagsins verið orðin slík að skylt hafi verið að gefa bú þess upp til gjaldþrotaskipta. J hf. hafi valið að selja varanlega rekstrarfjármuni Í ehf. og yfirtaka félagið síðan með samruna. Þetta hafi m.a. falið í sér skuldbindingu af hans hálfu til að greiða kröfur lánardrottna félagsins. Var ekki fallist á með M að ákvörðun um þetta hafi haft þau áhrif að skuldbinding J hf. við hann samkvæmt samningnum hafi orðið virk, jafnvel þó að þessar aðgerðir hafi leitt til þess að ekki reyndi á árangur af rekstri félagsins á næsta ári. Ekki var heldur talið að M gæti byggt á því að honum hafi ekki sérstaklega verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna þegar þessar ákvarðanir hafi verið teknar, enda var ekki talið að hann hefði að réttu lagi getað hindrað þær eða sett það skilyrði að skuldbindingin við hann yrði efnd. Var J hf. því sýknað af kröfu M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Benedikt Bogason dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 2008. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.134.846 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi er krafa áfrýjanda reist á samningi sem hann gerði við stefnda 2. desember 1999, er hann seldi stefnda allt hlutafé í einkahlutafélaginu Ísbergi. Eru ákvæði samningsins sem ágreiningi valda tekin upp í hinn áfrýjaða dóm. Fyrir Hæstarétti byggir áfrýjandi kröfu sína einungis á þeirri málsástæðu að stefnda beri að efna skuldbindingu sína samkvæmt nefndum samningi og engin atvik hafi orðið í samskiptum aðila sem felli þá skuldbindingu niður.

Málsaðilar deila ekki um að allt frá því umræddur samningur var gerður árið 1999 og til loka reksturs Ísbergs ehf. í árslok 2003 hafi félagið samfellt verið rekið með tapi, þótt það hafi skilað bókfærðum rekstrarhagnaði árið 2003, sem stafaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna félagsins til Balko ehf. á því ári. Samkvæmt gögnum málsins nam bókfært neikvætt eigið fé Ísbergs ehf. 13.798.825 krónum í árslok 1999. Í árslok 2002 var neikvætt eigið fé félagsins komið í 49.011.865 krónur.

Talið verður að skuldbinding stefnda til að greiða áfrýjanda það sem eftir stóð af kaupsamningsverði samningsins 2. desember 1999 hafi verið miðuð við að unnt yrði að snúa taprekstri Ísbergs ehf. í rekstur með hagnaði á þeim tíma sem í hönd fór. Þetta tókst ekki og er vafalaust að á árinu 2003 og raunar fyrr var svo komið að skylt var samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta. Stefndi valdi fremur þann kostinn að selja varanlega rekstrarfjármuni Ísbergs ehf. og yfirtaka félagið síðan með samruna. Þetta fól meðal annars í sér skuldbindingu af hans hálfu til að greiða kröfur lánardrottna félagsins. Verður ekki fallist á með áfrýjanda að ákvörðun um þetta hafi haft þau áhrif að framangreind skuldbinding stefnda við hann samkvæmt samningnum frá 2. desember 1999 hafi orðið virk, jafnvel þó að þessar aðgerðir hafi leitt til þess að ekki reyndi á árangur af rekstri félagsins árið 2004. Ekki verður heldur talið að áfrýjandi geti byggt á því að honum hafi ekki sérstaklega verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna þegar þessar ákvarðanir voru teknar, enda verður ekki talið að hann hefði að réttu lagi getað hindrað þær eða sett það skilyrði að skuldbindingin við hann yrði efnd. Er þá haft í huga að rekstri félagsins var svo komið á þessum tíma að umræddar ákvarðanir verða að teljast hafa verið eðlilegar miðað við hagsmuni eigenda og lánardrottna félagsins.

Með vísan til þess sem að framan segir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Það athugast að í þinghaldi í héraði 26. maí 2008 fórst fyrir að bóka að málið hefði verið munnlega flutt og tekið til dóms svo sem rétt var, sbr. 2. mgr. 11. gr. og 3. og 5. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Magnús Guðjónsson, greiði stefnda, Johan Rönning hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2008.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 26. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 9. nóvember 2007.

Stefnandi er Magnús Guðjónsson, Gullsmára 5, Kópavogi.

Stefndi er Johan Rönning hf., Sundaborg 15, Reykjavík.

Með bókun sem lögð var fram í þinghaldi 26. maí sl., var dómkröfum breytt og eru endanlegar dómkröfur stefnanda þær að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 3.134.846 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2004 til greiðsludags. Stefnandi lýsir því yfir að hann falli frá öðrum kröfuliðum í stefnu en kröfu vegna eftirstöðva kaupsamningsgreiðslu og málskostnað enda hafi stefndi lýst því yfir að hann falli frá innheimtum á eftirstöðvum viðskiptaskuldar stefnanda sem höfð var uppi til skuldajafnaðar.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu.

Málsatvik.

Aðilar máls þessa gerðu kaupsamning 2. desember 1999 um hlutafé stefnanda í einkahlutafélaginu Ísbergi ehf. auk annarra réttinda. Samkvæmt 1. gr. samningsins keypti stefndi af stefnanda:

1.   Allt hlutafé stefnanda í Ísberg ehf.

2.   Allar vörubirgðir verslunarinnar samkvæmt vörutalningu sem fram fór 1. nóvember 1999, að matsvirði 18.470.818 krónur.

3.   Allan búnað og innréttingar félagsins að matsvirði 5.302.626 krónur

4.   Viðskiptakröfur pr. 1. nóvember 1999 kr. 4.501.326.

5.   Viðskiptavild (goodwill) félagsins, aðstöðu, nafn og réttindi öll hverju nafni sem nefnast og gengið geti til kaupanda lögum samkvæmt, samkvæmt mati aðila 20.000.000 króna.

Kaupverð var þannig talið eiga að nema 48.274.770 krónum, þar af voru efnisleg verðmæti samkvæmt liðum 2-4 samtals 28.274.770 krónur. Liður í kaupunum var að stefnandi héldi áfram sem framkvæmdastjóri hjá félaginu, þrátt fyrir eigendaskipti.

Kaupverð ofangreindra hluta og réttinda var 48.274.770 krónur sem greiðast skyldu með þeim hætti að 43.796.418 krónur greiddust með yfirtöku skulda, en um mismun á kaupverði og yfirteknum skuldum 4.478.352 krónur er sagt í kaupsamningi aðila að 30% þeirrar tölu, eða 1.343.506 krónur, skyldi greiða við undirskrift samnings, en um eftirstöðvar kaupverðs er svofellt ákvæði:

i) Af hagnaði eftir skatta árin 1999-2002 umfram fyrstu 5 milljónirnar áttu að greiðast 50% og skipti þá ekki máli hvort greiðslan færi yfir 4,5 milljónir. Ef 4,5 milljóna markinu yrði ekki náð að loknu árinu 2002 yrði haldið áfram með skiptingu hagnaðar í 2 ár til viðbótar. Að þeim tíma liðnum yrði ekki um frekari greiðslur að ræða enda þótt 4,5 milljóna markinu yrði þá ekki náð.

ii) Við útreikning á hagnaði eftir skatta skyldi reikna fjármagnskostnað af meðalstöðu birgða (kostnaðarverðmæti) og meðalstöðu viðskiptakrafna m.v. hagstæðustu lánskjör Johans Rönning hf. á fjármagnsmarkaði á hverjum tíma.

Stefnandi kveður að samkomulag hafi orðið um að hann yrði áfram skráður eigandi 10% hlutafjár, þar til fullar efndir hefðu orðið á greiðslu kaupverðs. Þessari staðhæfingu mótmælir stefndi.

Ekkert greiddist upp í eftirstöðvar söluverðs á árunum 1999-2002, en samkvæmt samningnum gat komið til skiptingar hagnaðar á rekstrarárunum 2003 og 2004. Þannig var fyrirséð að við gerð ársreiknings 2004 vegna rekstrarársins 2003 og síðast við gerð ársreiknings 2005 vegna rekstrarársins 2004 gat komið til hlutdeildar í hagnaði til greiðslu eftirstöðva kaupverðs.

Í kringum mánaðamót nóvember-desember 2003 keyptu nýir aðilar allt hlutafé í stefnda. Um svipað leyti seldi stefndi Bako ehf. allan rekstur Ísbergs ehf. Í lok árs 2003 var eigið fé Ísbergs ehf. neikvætt um 45,2 milljónir króna þrátt fyrir sölu allra eigna félagsins. Ísberg ehf. var sameinað Rönning hf. 31. desember 2003. Lögð var fram samrunaáætlun til hlutafélagaskrár 26. febrúar 2004. Í samrunagögnum kemur fram að stefndi eigi allt hlutafé í Ísbergi ehf. Samruninn var samþykktur 26. apríl 2004.

Í málinu liggur frammi fundargerð aðalfundar Ísbergs ehf. frá 15. júlí 2003, þar sem m.a. kemur fram að hluthafar í félaginu hafi í upphafi árs verið tveir, Johan Rönning hf., sem eigi 90% hlutafjár, og Magnús Guðjónsson sem eigi 10% hlutafjár.

Tap ársins nam 5, 7 milljónum og var samþykkt að flytja það til næsta árs.

Með tilkynningu til Hagstofu Íslands 4. desember 2003 var skýrt frá því að á hluthafafundi í Ísbergi ehf., sem haldinn hafi verið 15. júlí 2003, hafi samþykktum félagsins verið breytt þannig að stjórn félagsins skyldi skipuð einum manni. Undir þessa tilkynningu ritaði Guðmundur Ólafsson. Á hluthafafundi í félaginu 4. desember 2003 voru kjörnir í stjórn félagsins Bogi Þór Siguroddsson og til vara Kjartan Broddi Bragason. Í 23. gr. samþykkta félagsins, sem stefnandi ritaði undir 15. júlí 2003 ásamt Guðmundi Ólafssyni, segir að með tillögur um slit og skipti á félaginu skuli fara sem um breytingar á samþykktunum. Þurfi atkvæði hluthafa sem ráði minnst 2/3 hlutum af heildarhlutafé félagsins til að ákvörðun sé gild og að hluthafafundur sem tekið hafi löglega ákvörðun um slit eða skipti félagsins skuli einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda.

Með bréfi 26. febrúar 2004 til fyrirtækjaskrár RSK var tilkynnt að stjórnir Johans Rönning hf., Linda ehf., SP Rönning ehf. og Ísbergs ehf. hefðu samþykkt samrunaáætlun fyrir félögin. Undir tilkynninguna ritar, f.h. Ísbergs ehf., Bogi Þór Siguroddsson. Með bréfi fyrirtækjaskrár RSK til Lögbirtingablaðs frá 3. mars 2004 var tilkynnt að borist hefði samrunaáætlun félaganna ásamt fylgiskjölum og tilkynnt að í síðasta lagi mánuði fyrir hluthafafundi/stjórnarfundi þá sem endanlega ákvæðu samruna og halda megi í fyrsta lagi mánuði eftir birtingu auglýsingar um móttöku samrunaáætlunar, skuli skjöl þau er geti í 5. mgr. 99. gr. ehfl. og 124. gr. hfl. lögð fram hluthöfum til skoðunar eða afhendingar. Á hluthafafundi í Ísbergi ehf. 26. apríl 2004 samþykkti fundurinn samruna félagsins við ofangreind félög.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort ,,eftirstöðvar kaupverðs“ samkvæmt samningi aðila frá 2. desember 1999 hafi fallið í gjalddaga þegar rekstur Ísbergs ehf. var seldur Bako ehf. og Ísberg ehf. rann inn í Johan Rönning hf. og hvort stefndi eigi rétt til greiðslu þeirra.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi kveður að samkvæmt kaupsamningi aðila frá 2. desember 1999 hafi stefnandi átt rétt á að fá kaupverð greitt miðað við rekstrarafkomu áranna 2003-2004. Með sölu reksturs Ísbergs ehf. til Bako ehf., og með því að Ísberg ehf. rann inn í Johan Rönning hf., hafi verið komið í veg fyrir þann möguleika að uppfyllt yrðu samningsbundin skilyrði til að greiða eftirstöðvar kaupverðs hlutabréfa að fjárhæð 3.134.846 krónur. Einhliða ákvarðanir stefnda hafi leitt til þess. Með því að koma þannig í veg fyrir mögulegar efndir byggir stefnandi á því að túlka beri samning aðila þannig að eftirstöðvar umsamins kaupverðs samkvæmt kaupsamningi að fjárhæð 3.134.846 krónur hafi fallið í gjalddaga.

Verði ekki fallist á að framangreind tilvik leiði til þess að eftirstöðvar kaupverðs hafi fallið í gjalddaga er á því byggt að stefndi sé bótaskyldur vegna brots á samningi aðila, sem felist í einhliða ákvörðun um sölu rekstrar og lok starfsemi Ísbergs hf. Tjón stefnanda vegna þess nemi framangreindri eftirstöðvafjárhæð.

Þá er á því byggt að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda þar sem ekki hafi verið tekið tillit til hlutar stefnanda í Ísbergi ehf. við samruna félagsins við stefnda. Á því tímamarki sem samruni þessi hafi farið fram hafi stefnandi átt 10% hlutafjár í Ísbergi ehf. Þrátt fyrir það hafi hann ekki verið boðaður til hluthafafunda vegna sameiningar og hafi ekki fengið endurgjald fyrir hluti sína, hvorki í formi peninga né hlutabréfa í stefnda svo sem hann hljóti að eiga rétt til. Vegna þess telji stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni sem nemi eftirstöðvum kaupverðs hlutabréfa hans í Ísbergi ehf., enda hafi verðmæti 10% hlutarins í Ísbergi ehf. við sameiningu að minnsta kosti staðið fyrir þeirri fjárhæð. Eins og fram komi í fundargerð aðalfundar Ísbergs ehf. frá 15. júlí 2003 komi fram að stefndi eigi 90%, en stefnandi 10%. Þeim hlut hafi stefnandi aldrei afsalað til stefnda eða annarra. Bent sé á að 4. desember 2003 hafi nýr eigandi stefnda tilkynnt um nýja stjórn í Ísbergi ehf. og samhliða því hafi verið afhentar tilkynningar um niðurstöður aðalfundar 15. júlí 2003.

Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar til stuðnings kröfum sínum um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir.

Þá vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar utan og innan samninga og laga nr. 2/1995, um hlutafélög, varðandi samruna Ísbergs ehf. og stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi kveður kaupverð samkvæmt samningi aðila frá 2. desember 1999 ekki hafa verið fastákveðið, nema hvað varðaði tvo þætti, þ.e. yfirtöku skulda að fjárhæð 43,8 milljónir króna og upphafsgreiðslu til stefnanda, um 1,3 milljónir króna. Óumdeilt er að hvort tveggja hafi verið efnt. Hvað varði það sem útaf stóð, þurfi að líta betur á ákvæðið um skiptingu hagnaðar, en efni þess megi skipta í tvennt. Á árunum 200-2002 hafi aðilar átt að skipta með sér að jöfnu (50% hvor) þeim hagnaði sem yrði umfram 5 milljónir króna eftir skatta og ekkert þak hafi verið á þeirri greiðslu. Sé dæmi tekið megi gefa sér að hefði hagnaður eftir skatta verið 25 milljónir ár hvert fyrir árin 2000, 2001 og 2002, hefði ,,kaupverðið“ hækkað um 30 milljónir króna. Af þessu dæmi sjáist að kaupverð hafi ekki verið fastákveðið heldur árangurstengt. Með sama hætti megi reikna dæmið á hinn veginn, þ.e. ef hagnaður sé minni en fimm milljónir eftir skatta, hafi engin skipting hagnaðar verið og ekkert komið upp í ,,eftirstöðvar kaupverðs“. Í síðari hluta ákvæðisins segi að hafi greiðslur samkvæmt fyrri hluta þess ekki náð 4,5 milljónum króna samtals í árslok 2002, skuli þessu fyrirkomulagi haldið áfram í tvö ár til viðbótar, en hafi 4,5 milljóna króna marki ekki heldur verið náð á þeim tíma falli niður greiðslur samkvæmt þessum lið.

Augljóst sé af þessu öllu, að kaupverð hafi í raun ekki verið fastákveðið, þrátt fyrir orðalag samnings, heldur hafi það getað hækkað eða lækkað eftir því hver árangur yrði af rekstrinum. Sá rekstrarárangur sem þurft hafi til að kaupverð hækkaði umfram yfirtöku skulda og peningagreiðslur við kaupsamning hafi aldrei náðst. Þvert á móti hafi sífellt hallað meira undan fæti. Félagið hafi verið löngu orðið ógjaldfært og órekstrarhæft þegar gripið hafi verið til þess ráðs að selja eignir þess og láta móðurfélagið greiða útistandandi skuldir þess með því að sameina félögin.

Þegar eignir félagsins hafi verið seldar hafi eitt ár verið eftir af þeim tíma sem hefði átt að skipta hagnaði milli aðila, ef einhver yrði, samkvæmt framangreindu (þ.e. árið 2004). Stefnandi byggi á því að með því að félagið hafi ekki verið rekið það ár hafi greiðsluskylda fallið á stefnda fyrir ,,eftirstöðvum kaupverðs“. Þessum sjónarmiðum mótmælir stefndi, þar sem þess verði ekki krafist af stefnda að hann héldi áfram rekstrinum undir þessum kringumstæðum. Félagið hafi í raun verið gjaldþrota og aðeins blasað við að loka því með einum eða öðrum hætti. Ef félagið hefði verið lýst gjaldþrota hefði rekstri þess verið sjálfhætt og verðmæti eigna við skipti hefðu sjálfsagt orðið margfalt minni en raun varð á. Sé litið til rekstrarreiknings ársins 2003 sjáist að reiknaður hagnaður nemi ca 4,3 milljónum króna, með því að allar eignir séu seldar, allur lager, allar innréttingar sem og tæki og búnaður til verslunarrekstrar. Vörusala hafi numið 97,5 milljónum króna og hafði lækkað verulega milli ára. Ef áhrif óreglulegra tekna séu tekin út fyrir sjáist að það sé gríðarlegt tap á rekstrinum. Það séu engar líkur á því að rekstrarárangur ársins 2004 hefði skilað hagnaði, hvað þá rúmlega 11 milljón króna hagnaði eins og þurft hefði til að stefnandi fengi 3,1 milljón króna í sinn hlut samkvæmt hagnaðarskiptingarreglunni í kaupsamningi. Greiðsla til stefnanda var bundin hagnaði sem var enginn og því engar greiðslur að efna.

Það sé líka augljóst af því sem að framan er rakið og af lestri ársreikninga félagsins að aldrei hefði getað komið til skiptingar hagnaðarins á árinu 2004. Af þeim ástæðum sé ljóst að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni og eigi hann því engan rétt til skaðabóta. Því til viðbótar sé bent á þá meginreglu skaðabótaréttarins að sá sem telji sig hafa orðið fyrir tjóni, verði að sanna það. Það kæmi því á stefnanda að sanna að rekstur félagsins myndi hafa skilað þeim rekstrarárangri árið 2004 að komið hefði til skiptingar hagnaðar. Sú sönnun liggi ekki fyrir og öll gögn hnígi í aðra átt.

Stefndi kveður þá málsástæðu stefnanda, að hann hafi verið eigandi 10% hlutafjár í Ísbergi ehf., þegar það hafi verið sameinað Johan Rönning hf., vera þversögn í sjálfu sér, þar sem stefnandi sé í málinu að krefjast greiðslu fyrir eftirstöðvar alls hlutafjár í félaginu, en ekki 90% þess. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið eigandi einhvers hlutafjár í Ísbergi ehf. eftir að kaupsamningur var gerður og ósannað að einhverjar breytingar hafi verið gerðar á skýrum og skriflegum ákvæðum kaupsamnings þar að lútandi. Því er mótmælt að stefnandi hafi verið eigandi einhvers hluta hlutafjárins þegar Ísberg ehf. var sameinað Johan Rönning hf. í árslok 2003. Til vara er því haldið fram að þó svo hefði verið, þá hafi sá hlutur verið einskis virði. Þá er einnig bent á að stefnandi hafi verið með í ráðum þegar eignir félagsins voru seldar síðla árs 2003 og honum hafi verið fullkunnugt um sameiningu félaganna en ekki hreyft neinum mótmælum, byggðum á þessum grunni, hvorki við Fyrirtækjaskrá RSK né við stefnda, eins og hann hefði átt að gera hefði hann talið að réttur hans væri fyrir borð borinn. Hann hafi ekki höfðað mál á hendur stefnda á grundvelli laga um einkahlutafélög innan tiltekins frests. Hann geti því ekki byggt kröfur sínar á þessu meinta eignarhaldi sínu á hlutafé í Ísbergi ehf. og þaðan af síður hafi hann sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni, þótt svona hefði háttað til. Stefndi ákvað að axla allar skuldir Ísbergs ehf. Ef stefnandi hefði verið eigandi 10% hlutafjár í árslok 2003, hefði hann með sama hætti átt að axla 10% af skuldum félagsins umfram eignir.

Hvað sem öllu líði sé ljóst að hlutaféð hafi verið einskis virði í árslok 2003 og allt niðurskrifað þegar Ísbergi ehf. var slitið án skuldaskila með sameiningu Ísbergs ehf. og Rönning hf. Stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni, þó svo að hann hafi átt hlut í Ísbergi ehf. á þessu tímamarki og geti þar af leiðandi ekki átt neinar kröfur á hendur stefnda, byggða á þessum grunni.

Jafnframt kveður stefndi að kröfur stefnanda séu niður fallnar fyrir tómlæti. Umræddar kröfur séu taldar vera frá árslokum 2003 og hafi þeim ekki verið haldið til haga síðan þá. Dómstólar hafi margsinnis dæmt kröfur niður fallnar fyrir tómlæti, þótt ófyrndar séu, ef mál til úrlausnar á ágreiningi er ekki höfðað fljótlega eftir að ágreiningur verður ljós. Megi þar m.a. nefna hrd. 93/2001, 320/2001, 254/2003 og hrd. 186/2006.

Niðurstaða.

Samkvæmt fyrirliggjandi rekstrarreikningum Ísbergs fyrir árin 1999-2002 var tap á rekstri félagsins öll þau ár og óumdeilt að ekkert greiddist til stefnanda upp í eftirstöðvar söluverðs samkvæmt kaupsamningi aðila frá 2. desember 1999, á þeim árum, þar sem endanlegt kaupverð var í raun bundið við árangur af rekstri félagsins. Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2003 var reiknaður hagnaður um 4,3 milljónir króna, eftir að allar eignir félagsins höfðu verið seldar, þar á meðal lager, innréttingar og tæki. Sá hagnaður nær ekki 5 milljón króna markinu sem kveðið var á um í 2. gr., c-lið kaupsamnings aðila og gat því ekki komið til skiptingar hagnaðar á því ári.

Samruni Ísbergs ehf. við stefnda miðaðist við lok árs 2003. Í tilkynningu til Hagstofu Íslands 4. desember 2003 kemur fram að á aðalfundi 4. desember 2003 hafi verið kjörnir í stjórn félagsins Ísbergs ehf. þeir Bogi Þór Siguroddsson stjórnarformaður og Kjartan Broddi Bragason til vara. Af fundargerðum frá aðalfundi 15. júlí 2003, breytingum á samþykktum félagsins, sem stefnandi undirritaði og tilkynningum til Hagstofu Íslands, varðandi breytingar á stjórn félagsins Ísbergs ehf., verður ekki annað ráðið en að stefnanda hafi verið fullkunnugt um fyrirhugaða sameiningu Ísbergs ehf. við stefnda og að hann hafi haft tækifæri til að hafa uppi mótmæli gegn sameiningunni hafi hann talið að réttur hans yrði fyrir borinn með henni. Það gerði stefnandi ekki og hefur því fyrir tómlæti glatað rétti sínum til að bera fram kröfur á þeim grundvelli að um brot á samningi aðila hafi verið að ræða vegna einhliða ákvörðunar um sölu rekstrar Ísbergs ehf.

Þegar Ísberg ehf. og stefndi sameinuðust í lok árs 2003 var eitt ár eftir af þeim tíma sem komið gat til skiptingar hagnaðar Ísbergs ehf., samkvæmt kaupsamningi aðila frá 2. desember 1999. Þegar litið er til slæmrar rekstrarafkomu Ísbergs ehf. á árunum 1999-2003 er það stefnanda að sanna að það tap sem varð á rekstri félagsins árin 1999-2003 hefði snúist í þann hagnað á árinu 2004 sem þurft hefði til að fullnægja ákvæði kaupsamnings aðila um skiptingu hagnaðar umfram 5 milljóna króna markið. Það hefur stefnanda ekki tekist og er ekkert í samningi aðila sem bendir til þess skilnings á samningsákvæðum að eftirstöðvar kaupverðs samkvæmt kaupsamningi, 3.134.846 krónur, hafi fallið í gjalddaga þegar Ísberg ehf. rann saman við stefnda.

Þá hefur stefnandi með engu móti sýnt fram á að stefndi hafi valdið honum tjóni sem nemur eftirstöðvum kaupverðs, þar sem ekki hafi verið tekið tillit til 10% eignarhalds stefnanda á hlutabréfum í Ísbergi ehf. við samrunann við stefnda. Ber hér að líta til þessa að ekkert liggur fyrir um verðmæti hlutafjárins á þeim tíma, en hins vegar liggur fyrir að eigið fé félagsins var í árslok 2003 neikvætt um tæpar 50 milljónir.

Þegar allt framangreint er virt er stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefnandi stefnda 250.000 krónur í málskostnað.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Stefndi, Johan Rönning hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Magnúsar Guðjónssonar.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.