Hæstiréttur íslands

Mál nr. 517/1997


Lykilorð

  • Samningur
  • Skaðabætur
  • Ógildi samnings hafnað
  • Matsgerð
  • Yfirmat


D Ó M U R:

Fimmtudaginn 28. janúar 1999.

Nr. 517/1997.

S. Konráðsson & Co ehf.

(Sigurður Georgsson hrl.)

gegn

Ekrunni ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

                                                     

Samningar. Skaðabætur. Ógildi samnings hafnað. Matsgerð. Yfirmat.

S og E gerðu með sér samstarfssamning um að E seldi og dreifði áfengistegundum sem S hafði, eða kynni að hafa, umboð fyrir. Rúmum mánuði eftir að samningur aðila hafði verið undirritaður seldi S fyrirtækinu L áfengisumboð sín. Málsástæðu S um að samningur aðila hefði verið ósanngjarn í skilningi 36. gr. laga laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, var hafnað. Var talið að S hefði vanefnt samning aðila með þeim hætti að hann hefði bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart E. Ekki þótti tækt að bæta E tjón vegna alls samningstímans þar sem samningur aðila hafði verið uppsegjanlegur eftir ákveðið tímabil. Var tjón E metið að álitum og með hliðsjón af undirmatsgerð. Ekki varð byggt á yfirmatsgerð sem aflað hafði verið eftir uppsögu héraðsdóms með því að hún var  talin of seint fram komin.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Afrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 29. desember 1997. Krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnda og að felld verði úr gildi kyrrsetningargerð, er fram fór hjá honum 25. nóvember 1996 í víxli, samþykktum af Daníel Ólafssyni hf., útgefnum af Einari Kristjánssyni, að fjárhæð 3.000.000 krónur, með gjalddaga 10. september 1997. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi gerðu aðilar málsins með sér samstarfssamning 19. júlí 1996 varðandi sölu og dreifingu áfengistegunda, sem áfrýjandi hafði umboð fyrir eða kynni síðar að taka að sér. Er efni samningsins nánar rakið í héraðsdómi. Með kaupsamningi við Daníel Ólafsson hf. fyrir hönd Lindar ehf., sem gerður var á grundvelli kauptilboðs hinn 26. ágúst 1996, seldi áfrýjandi fyrrnefnd umboð. Stefndi taldi áfrýjanda með þessu hafa rift samningnum með ólögmætum hætti og höfðaði mál þetta gegn honum til greiðslu skaðabóta.

Áfrýjandi byggir á því að samningi aðilanna frá 19. júlí 1996 beri að víkja til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Vísar hann í því sambandi einkum til 6. gr. samningsins þar sem kveðið er á um að hann gildi til 1. ágúst 2001 en sé þó uppsegjanlegur að 3 árum liðnum með að minnsta kosti 6 mánaða fyrirvara. Hann kveðst hafa staðið frammi fyrir gjaldþroti við gerð samningsins og verði að telja að honum hafi verið heimilt að víkja honum til hliðar þegar honum bauðst að gera annan og mun betri samning til að komast hjá gjaldþroti. Bendir hann á að forsvarsmaður stefnda, sem annaðist gerð samningsins, sé löglærður og hafi hann haft yfirburðastöðu gagnvart áfrýjanda. Þegar litið sé til aðstöðumunar aðila, efnis samningsins og ekki síst til hinna síðari atvika, er kauptilboð barst í ágúst 1996, megi ljóst vera að áfrýjandi eigi að vera laus frá samningnum við stefnda.

Áfrýjandi hafði, áður en til fyrrnefndrar samningsgerðar við stefnda kom, stundað innflutning áfengis og hlaut fyrirsvarsmaður hans að hafa nokkra þekkingu á því sviði, auk þess sem gera verður ráð fyrir að hann hafi haft almenna þekkingu og reynslu á sviði viðskipta. Verður ekki séð að sú staðreynd að fyrirsvarsmaður stefnda var löglærður hafi skapað þann aðstöðumun milli aðilanna, sem skipti máli. Ekki verður heldur fallist á að upplýsingar í málinu um fjárhagsstöðu áfrýjanda hafi hér þýðingu. Þá hefur áfrýjandi ekkert fært fram því til stuðnings að ákvæði 6. gr. samnings aðilanna um gildistíma og uppsögn hafi verið óvenjulegt eða andstætt góðri viðskiptavenju. Betra tilboð að mati áfrýjanda, sem barst honum um það bil mánuði eftir samningsgerðina, verður heldur ekki talið þess háttar atvik, sem hann geti borið fyrir sig því til stuðnings að hann eigi að vera laus undan samningnum. Að þessu athuguðu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að hafna beri þeirri málsástæðu áfrýjanda að samningnum beri að víkja til hliðar á grundvelli framangreinds ákvæðis samningalaga. Verður að fallast á að áfrýjandi hafi vanefnt samning aðilanna með þeim hætti að hann hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnda.

II.

Stefndi lagði í héraði fram matsgerð tveggja manna, sem að hans beiðni voru dómkvaddir til að meta tjón hans vegna riftunar áfrýjanda á samningi þeirra. Var þess óskað annars vegar, að matsmenn mætu beinan og óbeinan kostnað af aðgerðum, sem stefnda voru nauðsynlegar til þess að efna samninginn og hins vegar yrði metið beint fjárhagslegt tjón hans vegna missis á nettóávinningi af áfengissölu á samningstímanum. Matsgerð lá fyrir 15. október 1997. Var það niðurstaða matsmanna að kostnaður samkvæmt fyrri lið matsbeiðnar næmi 126.092 krónum. Varðandi missi á nettóávinningi mátu matsmenn þann þátt á 3.162.864 krónur miðað við óbreytta sölu, en einnig mátu þeir slíkan missi miðað við 5% og 10% söluaukningu á ári, eins og nánar er greint frá í héraðsdómi. Við útreikning á sölutölum var miðað við sölu ÁTVR til veitingahúsa á árinu 1995 að undanskildum desembermánuði, en fyrir þann mánuð var stuðst við áætlun áfrýjanda. Miðað var við að álagning stefnda yrði 1% lægri en hjá verslunum ÁTVR, enda væri það í samræmi við framkvæmd hjá innflytjendum. Til frádráttar reiknuðu matsmenn síðan kostnað vegna dreifingar, stjórnunar og annarra atriða, samtals 75.000 krónur á mánuði. Matið miðaðist við allan samningstímann.

Aðalmeðferð málsins í héraði fór fram tæpum mánuði eftir að matsgerð lá fyrir eða 13. nóvember 1997. Matsmenn komu þá fyrir dóm og staðfestu mat sitt. Fram kom hjá öðrum þeirra að hann hafði reynslu af innflutningi og sölu áfengis.

Eins og fram kemur í héraðsdómi byggist hann á niðurstöðu matsmanna um tap á nettóávinningi miðað við óbreytta sölu, svo og á niðurstöðu þeirra um kostnað samkvæmt fyrri lið matsbeiðni.

III.

Eins og áður er fram komið var máli þessu áfrýjað 29. desember 1997. Greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar kom fram 25. mars 1998 og sagði þar að áfrýjandi hyggðist afla yfirmats til að hnekkja fyrrgreindu mati. Í greinargerð stefnda 22. apríl 1998 var því mótmælt að áfrýjandi gæti eftir uppsögu héraðsdóms aflað yfirmats, sem hefði sönnunargildi fyrir Hæstarétti.

Hinn 15. september 1998 óskaði lögmaður áfrýjanda eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu þrír matsmenn til að meta yfirmati tilgreind atriði í matsgerð undirmatsmanna. Var þess óskað að metið yrði, hve stórri markaðshlutdeild stefndi kynni að hafa náð á samningstímanum í samkeppni við ÁTVR og þá einkum höfð í huga sala á líkjörnum Grand Marnier og Chateau Du Cleray hvítvíni. Einnig yrðu kostnaðarútreikningar matsmanna metnir yfirmati. Taldi yfirmatsbeiðandi að undirmatsmenn hefðu vanáætlað kostnað og taldi hann vera 190.000 krónur á mánuði en ekki 75.000 krónur eins og metið var í undirmati. Samkvæmt þessu var ekki fullt samræmi milli þess sem óskað var yfirmats á og metið var undirmati.

Á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 1998 voru dómkvaddir þrír löggiltir endurskoðendur til að framkvæma umbeðið yfirmat. Skiluðu þeir matsgerð 9. desember 1998. Var það niðurstaða þeirra að stefndi hefði ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við það að samstarfssamningur aðilanna var ekki efndur. Ekki er í matinu sérstaklega fjallað um mat undirmatsmanna á kostnaði samkvæmt fyrri lið matsbeiðnar þeirrar, sem þeir unnu eftir.

IV.

Af hálfu stefnda er yfirmatsgerð mótmælt sem of seint fram kominni og óstaðfestri.

Svo sem fyrr er rakið lá undirmat fyrir 15. október 1997, tæpum mánuði áður en aðalmeðferð málsins í héraði fór fram. Þar sem áfrýjandi sætti sig ekki við undirmatið var brýnt að hann hlutaðist til um yfirmat sem fyrst. Hafði hann til þess svigrúm undir rekstri málsins í héraði. Þess í stað var gagnaöflun lokið og málið tekið til dóms 13. nóvember 1997. Yfirmats var ekki beiðst fyrr en tíu mánuðum síðar og átta og hálfum mánuði eftir áfrýjun málsins. Hefur þessi dráttur ekki verið réttlættur og verður að hafna matinu sem of seint fram komnu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga.

Við ákvörðun bóta verður byggt á niðurstöðu undirmats um kostnað stefnda vegna nauðsynlegra aðgerða í tengslum við samning aðila, sem hljóðar upp á 126.092 krónur. Í matinu er fjárhæð tapaðs nettóávinnings miðuð við allt samningstímabilið. Í ljósi þess að heimild var til uppsagnar samningsins með 6 mánaða fresti eftir 3 ár var eðlilegra að miða við 3 ár og 6 mánuði. Einnig þykir verða að hafa í huga að mat á sölu og kostnaði hlýtur hér að vera talsverðum óvissuþáttum háð. Vegna þessa, en að öðru leyti með hliðsjón af matinu, þykir rétt að meta þennan þátt tjóns stefnda að álitum á 2.000.000 krónur. Samkvæmt því verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 2.126.092 krónur. Vaxtakröfu hefur ekki verið mótmælt sérstaklega og verða vextir ákveðnir eins og í héraðsdómi og nánar segir í dómsorði.

Dæma ber áfrýjanda til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Staðfesta ber kyrrsetningargerð, er fram fór hjá áfrýjanda 25. nóvember 1996 í víxli, samþykktum af Daníel Ólafssyni hf., útgefnum af Einari Kristinssyni, að fjárhæð 3.000.000 krónur, með gjalddaga 10. september 1997 til tryggingar framangreindu.

Dómsorð:

Áfrýjandi, S. Konráðsson & Co. ehf., greiði stefnda, Ekrunni ehf., 2.126.092 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. október 1996 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda 700.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Framangreind kyrrsetningargerð 25. nóvember 1996 er staðfest.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 1997.

   Ár 1997 föstudaginn 28. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Allani Vagni Magnússyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. E-6323/1996: Ekran ehf. gegn S. Konráðssyni og Co. ehf., sem dómtekið var 13. nóvember sl.        

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 11. desember 1996.

Stefnandi er Ekran ehf., kt. 490392-2629, Vatnagörðum 6, Reykjavík.

Stefndi er S. Konráðsson og Co. ehf., kt. 710791, Höfðabakka 9, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.258.963 króna með dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. október 1996 að telja til greiðsludags og að staðfest verði með dómi kyrrsetningargerð, er fram fór hjá stefnda 25. nóvember 1996 í víxli samþykktum af Daníel Ólafssyni hf., útg. af Einari Kristinssyni, Markarflöt 12, Garðabæ að fjárhæð 3.000.000 króna með gjalddaga 10. september 1997 samkvæmt c lið samnings milli Daníels Ólafssonar hf., f.h. Lindar ehf. og stefnda. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda allan kostnað af kyrrsetningargerð sem hófst 22. nóvember 1996 og lauk 25. nóvember 1996, auk málskostnaðar af staðfestingarmáli þessu og vegna matsmáls.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og úr gildi felld kyrrsetningargerð sem fram fór hinn 25. nóvember 1996. Þá krefst hann þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

Málsatvik.

Með samningi stefnanda og stefnda dags. 19. júlí 1996 fól stefndi stefnanda að annast sölu og dreifingu þeirra áfengistegunda, sem stefndi hafði þá umboð fyrir og kynni síðar að taka við sbr. 1. gr. samningsins. Samningur þessi var tímabundinn og skyldi gilda til 1. ágúst 2001, þó með þeim fyrirvara að hvorum samningsaðila var heimilt að segja honum upp með 6 mánaða fyrirvara þremur árum frá gerð hans sbr. 6. gr.

Um verkaskiptingu stefnanda og stefnda varðandi innflutning og afgreiðslu þeirra víntegunda, sem samningurinn tók til, var fjallað í 3. gr. samningsins og í 4. gr. um tekjuskiptingu samningaðilanna. Samkvæmt síðastgreindu ákvæði féll öll heildsöluálagning í hlut stefnanda en stefndi skyldi halda öllum umboðslaunum frá framleiðendum.

Stefndi, sem var í nokkrum fjárhagserfiðleikum þegar gengið var frá samningnum, óskaði eftir því við stefnanda, að hann legði sitt að mörkum til að afla fjár til að rétta rekstur stefnda af, sbr. 2. mgr. 7. gr. samningsins.

Stefndi fékk tilboð þann 20. ágúst frá Daníel Ólafssyni hf., Skútuvogi 3, Reykjavík vegna Lindar ehf., um kaup síðargreinda félagsins á öllum erlendum og innlendum viðskiptasamböndum stefnda fyrir kr. 12.000.000. Stefnanda barst tilkynning frá stefnda dags. 2. október 1996, þess efnis að ekkert yrði af framkvæmd samnings þeirra, þar sem hann hefði tekið kauptilboði í rekstur fyrirtækis síns. Samkvæmt kaupsamningnum, sem gerðu var 26. ágúst 1996, fékk stefndi kr. 13.000.000 í sinn hlut fyrir viðskiptasamböndin, sem hann seldi Daníel Ólafssyni hf., fyrir hönd Lindar ehf. Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra stefnda, Sigurðar Konráðssonar, hefur öllum greiðslum samkvæmt samningnum nú þegar verið ráðstafað til greiðslu skulda, að frátöldum víxli pr. 10. september 1997, að fjárhæð kr. 3.000.000.

Því er haldið fram af hálfu stefnda að forsvarsmenn hans hafi átt fund með forsvarsmanni stefnanda eftir að tilboð Lindar hf. barst en áður en samningurinn 26. ágúst var gerður, og leitað eftir því að að losna undan samningnum frá 19. júlí en ekki hafi verið fallist á þá málaleitan stefnda.

Undir rekstri máls þessa beiddist stefnandi þess að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að meta:

„Allt fjárhagslegt tjón matsbeiðanda vegna riftunar S. Konráðssonar og Co. ehf., á samstarfssamningi matsbeiðanda og matsþola um dreifingu áfengis, sem gerður var þann 19. júlí 1996.

1. Óskað er mats á beinum og óbeinum kostnaði matsbeiðanda vegna aðgerða, sem nauðsynlegar voru af hans hálfu til að efna samstarfssamninginn við matsþola s.s. vegna öflunar tilboða í flutning áfengis frá höfnum í Evrópu til Íslands, undirbúnings að gerð nýs vörulista fyrir matsbeiðanda, er geymdi upplýsingar um þær áfengistegundir, sem matsbeiðandi annaðist sölu á og loks vegna breytinga á húsnæði matsbeiðanda.

2. Óskað er mats á beinu fjárhagslegu tjóni matsbeiðanda vegna missis hans á nettó ávinningi af áfengissölu samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samstarfssamningsins á samningstímanum frá 19. júlí 1996 til 31. júlí 2001. Verði í því sambandi annars vegar miðað við óbreytt verð og magn selds áfengis, eins og það var á árinu 1995 hjá matsþola og hins vegar að teknu tilliti til allt að 10% söluaukningar á ári út samningstímann.“

Á dómþingi 21. apríl 1997 og 2. júlí 1997 kvaddi dómari þá Friðbjörn Björnsson löggiltan endurskoðanda og Trausta Sigurðsson, viðskiptafræðing til þess að framkvæma umbeðna matsgerð. Luku þeir henni 15. október sl.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir kröfur sínar í máli þessu á þeim málsástæðum, að hann og stefndi hafi gert með sér samning 19. júlí 1996 um samstarf á sviði innflutnings og dreifingu áfengis, sem hafi átt að gilda til 1. ágúst 2001. Samkvæmt samningnum hafi stefndi átt að annast samskipti við erlenda framleiðendur þ.á.m. að panta það áfengi sem flytja hafi átt inn. Stefnandi hafi hins vegar átt að sjá um innflutning þess, þ.á.m. greiðslu tolla og annarra gjalda, afgreiðslu til viðskiptavina hér á landi, gerð sölureikninga, innheimtu þeirra, uppgjör við erlenda viðskiptavini og virðisaukaskattsskil.

Í hlut stefnda hafi átt að koma öll umboðslaun frá framleiðendum áfengisins en heildsöluálagning, sem getur numið allt að 30% átti að falla stefnanda í skaut. Stefnandi kveður að samningur þessi hefði skilað fyrirtæki hans verulegum veltuauka hefði stefndi efnt hann. Stefndi hafi kosið að ganga bak orða sinna og rift samningnum með ólögmætum hætti og sé því skaðabótaskyldur.

Stefnandi kveður dómkröfur sínar byggja á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna en niðurstaða þeirra um ætlað tjón stefnanda er eftirfarandi:

"1. Kostnaður matsbeiðanda vegna aðgerða sem nauðsynlegar voru af hans hálfu til að efna samstafssamninginn við matsþola telst vera 126.092 kr.

2. Beint fjárhagslegt tjón matsbeiðanda vegna missis á nettó ávinningi af áfengissölu á samningstímanum telst vera eftirfarandi miðað við mismunandi söluaukningu á milli ára.

Söluaukning á ári

Missir á nettó ávinningi

0%

3.162.864 kr.

5%

3.673.846 kr.

10%

4.258.963 kr.

Bent skal á að ofangreint mat miðast við allan samningstímann en samningur þessi var uppsegjanlegur eftir 3 ár og 6 mánuði."

Stefnandi kveður stefnda nú þegar hafa selt rekstur sinn til samkeppnisaðila og því hafi sér verið nauðsyn á að kyrrsetja greiðslur samkvæmt samningi stefnda við Daníel Ólafsson hf., fyrir hönd Lindar ehf., þar sem stefndi eigi engar aðrar eignir að eigin sögn.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á ákvæðum laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, reglum kröfuréttar um skyldu seljanda til að svara kaupanda skaðabótum þegar söluhlutur verður ekki afhentur sbr. m.a. ákvæði kauplaga nr. 39/1992.

Vaxtakrafan er byggð á ákvæðum III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

Varðandi kyrrsetningargerðina er vísað til 5. gr. og 36. gr. nr. 31/1990.

Varðandi málskostnað til ákvæða XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni eða nokkrum skaða við slit stefnda á samstarfssamningi aðila máls þessa.

Stefndi telur að þar sem um engan undirbúning né fjárútlát hafi verið að ræða hjá stefnanda vegna samstarfssamningsins og að stefnanda hafi verið strax tilkynnt um kauptilboð í innlend og erlend viðskiptasambönd ásamt dreifingu, sé ekki um neinn grundvöll bótaskyldu að ræða hjá stefnda.

Samstarfssamningur sá sem aðilar máls þessa gerðu með sér hinn 19. júlí 1996 hafi aldrei komist til framkvæmda. Einungis hafi verið rætt um það milli aðila við undirskrift samningsins að reyna að byrja á dreifingu í september 1996 en aðilar hafi aldrei náð að hittast eftir það. Ekki hafi verið búið að óska eftir samþykki hinna erlendu framleiðenda á hinum nýja dreifingaraðila sem hafi verið eitt af skilyrðum fyrir framkvæmd samningsins. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á hvernig undirbúningi hans var háttað frá 19. júlí til 20. ágúst 1996 vegna samningsins.

Forsvarsmenn stefnanda hafi aldrei átt fund með stefnda um undirbúninginn og framkvæmd samstarfssamningsins né hafi stefnandi verið búinn að fá vínsöluleyfi sem hafi verið algjört skilyrði fyrir starfssemi stefnanda.

Í samstarfssamningnum sé ekkert sérstakt ákvæði um hvenær hann ætti að taka gildi.

Verði stefnandi að bera hallan af því þar sem forsvarsmaður stefnanda Georg H. Tryggvason sé löglærður og hafi útbúið samninginn og því haft yfirburðarstöðu.

Í 6. gr. samstarfssamningsins sé mjög óeðlilegt samningsákvæði og hafi af hálfu stefnda gerð athugasemd við það en ákvæðið kveður á um lengd og uppsögn samningsins. Annars vegar hafi samningurinn átt að gilda til 11. ágúst 2001 en hins vegar hafi hann ekki verið uppsegjanlegur fyrr en að liðnum 3 árum með a.m.k. 6 mánaða fyrirvara. Forsvarsmaður stefnda sem sé ólöglærður hafi ekki áttað sig á bindingu ákvæðisins og áhættunni af því að skrifa undir slíkt.

Stefndi heldur því fram að 6. gr. samningsins gangi í berhögg við 36. gr. samningalaganna nr. 7/1936 sbr. l. nr. 11/1986 og almennt um samningsskilmála í viðskiptum. Jafnframt telur stefndi að samstarfssamningi aðila hafi mátt víkja til hliðar í heild sinni í ljósi aðstæðna stefnda sbr. gjaldþrotabeiðnir á hendur honum en til að forðast gjaldþrot hafi stefndi þurft að selja viðskiptasambönd sín. Telur stefndi að af hálfu stefnanda hafi verið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Regla 36. gr. sml. sé ógildingaregla þ.e. hún veit heimild til þess að lýsa löggerning óskuldbindandi. Feli 36. gr. sml. í sér almenna heimild til þess að ógilda samninga (víkja til hliðar) af sanngirnisástæðum t.a.m. um atvik sem síðar koma til þ.e. tilvika sem koma til eftir gerð samnings.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á reglum skaðabótaréttarins, sérstaklega almennu sakarreglunni (culpa) um grundvöll bótaábyrgðar, sönnun fjártóns o.fl. Jafnframt er vísað til 36. gr. samningalaganna nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986.

Niðurstaða.

Ákvæði 6. gr. samnings aðila frá 17. júlí 1996 hljóðar svo: „Samningur þessi er gerður til 1. ágúst árið 2001 en er þó uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila að 3 árum liðnum með a.m.k. 6 mánaða fyrirvara. Verði samningnum ekki sagt upp á samningstímanum framlengist hann sjálfkrafa um 1 ár í senn.“

Ekki verður fallist á það með stefnda að ákvæði þetta sé þess efnis eða að aðstæður við samningsgerð hafi verið slíkar að ógildingarákvæði samningalaga komi til álita hér og þykir ekki vera sýnt fram á að víkja beri samningi aðila til hliðar.

Byggt er á því af hálfu stefndu að forsvarsmenn stefnda hafi þegar eftir að tilboðið frá Lind hf. barst þeim leitað eftir að verða leystir undan samningsskyldum sínum en því verið hafnað af hálfu stefnanda. Mátti forsvarsmönnum stefnda vera það fullljóst að stefnandi vildi halda stefnda við samninginn og með því að efna ekki samning sinn við stefnanda og í reynd rifta honum án þess að skilyrði riftunar væru fyrir hendi olli stefndi stefnanda tjóni sem honum ber að bæta honum.

Stefnandi hefur lagt fram matsgerð dómkvaddra manna um hvert tjón hans hafi verið af vanefndum stefnda á samningi þeirra. Mati þessu hefur ekki verið hnekkt og verður lagt til grundvallar í máli þessu þó þannig að óvarlegt þykir að ætla söluaukningu á áfengi nokkra þannig að byggt verður á því að missir stefnanda á nettó ávinningi sé 3.162.864 krónur og kostnaður vegna undirbúningsaðgerða til efnda samnings nemi 126.092 krónum eins og matsmenn telja. Samkvæmt þessu hefur stefnandi sýnt fram á að tjón hans af vanefndum stefnda nemi 3.288.956 krónum og verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð auk vaxta eins og krafist er í stefnu.

Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 550.000 krónur í málskostnað og er við ákvörðun hans litið til kostnaðar vegna matsgerðar og kostnaðar vegna kyrrsetningargerðar en ekki litið til reglana um greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Þá ber að staðfesta kyrrsetningargerð þá sem fram fór hjá stefnda 25. nóvember 1996 í víxli samþykktum af Daníel Ólafssyni hf., útgefnum af Einari Kristinssyni, Markarflöt 12, Garðabæ að fjárhæð 3.000.000 króna með gjalddaga 10. september 1997.

Dómsorð:

Stefndi, S. Konráðsson og Co. ehf. greiði stefnanda Ekrunni ehf. 3.288.956 krónur með dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. október 1996 að telja til greiðsludags og 550.000 krónur í málskostnað.

Framangreind kyrrsetningargerð er staðfest.