Hæstiréttur íslands

Mál nr. 112/2001


Lykilorð

  • Óvígð sambúð
  • Fjárskipti
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2001.

Nr. 112/2001.

M

(Gunnar Sólnes hrl.)

gegn

K

(Hreinn Pálsson hrl.)

 

Óvígð sambúð. Fjárskipti. Gjafsókn.

 

M og K hófu óvígða sambúð á árinu 1983, en slitu henni á árinu 1999. Í málinu krafðist K þess að M greiddi sér fjárhæð sem næmi 50% af fasteignamati húseignar, sem K kvað þau hafa keypt á árinu 1986. Héraðsdómur féllst á kröfu K með vísan til þess að fjárhagsleg samstaða hefði myndast með þeim á sambúðartímanum. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms óskaði M eftir því að dómkvaddur yrði maður til að meta líklegt söluverðmæti hússins á almennum markaði. Niðurstaða matsmannsins var sú að ástand hússins væri það slæmt að vart væri hugsanlegt að nokkru sinni yrði ráðist í að endurgera það. Taldi hann að fjárhagslegt verðmæti þess væri fyrst og fremst fólgið í þeim gjöldum, sem nýr lóðarhafi þyrfti að greiða til sveitarfélagsins og veitustofnana. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að hvorugur aðila hafi sýnt fram á sérstök framlög til fasteignakaupanna, sem verði rakin til eigna frá því fyrir upphaf sambúðarinnar, og þá hafi þau bæði lagt til heimilisins eftir þörfum hverju sinni. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms yrði staðfest niðurstaða hans um að viðurkenna eignarrétt K að húsinu til jafns við M. Í ljósi niðurstöðu matsmannsins taldi Hæstiréttur hins vegar ekki unnt að leggja fasteignamat eignarinnar til grundvallar, heldur yrði að taka til greina varakröfu K um viðurkenningu á helmings eignarhlut hennar í eigninni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2001. Hann krefst sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að viðurkenndur verði eignarréttur hennar á helmingi fasteignarinnar [...]. Hún krefst jafnframt málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

I.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms óskaði áfrýjandi eftir því að dómkvaddur yrði maður til að meta líklegt söluverðmæti hússins [...] á almennum markaði. Af því tilefni var X fasteignasali dómkvaddur af Héraðsdómi Norðurlands eystra 7. júní 2001 til að gera umbeðið mat. Hefur matsgerð hans 20. júní 2001 verið lögð fram í málinu. Er niðurstaða matsmannsins sú að ástand hússins sé slæmt og að vart sé hugsanlegt að nokkru sinni verði ráðist í að endurgera það. Lýsir hann jafnframt þeirri skoðun sinni að verðmæti þess sé fyrst og fremst fólgið í þeim gjöldum til [sveitarfélagsins X], sem nýr lóðarhafi þyrfti að greiða til sveitarfélagsins og veitustofnana vegna gatnagerðargjalda og tengigjalda. Segir í matsgerðinni að samkvæmt upplýsingum yfirmanns þeirrar deildar [sveitarfélagsins X], sem fer með slík mál, myndu gjöldin nema 1.700.000 til 1.800.000 krónum. Hvort eitthvað fengist fyrir húsið til niðurrifs treysti matsmaðurinn sér ekki til að kveða upp úr um.

II.

Meðal málsskjala er samningur 11. desember 1984 um kaup áfrýjanda á áðurnefndri húseign og afsal til hans frá fyrri eigendum 8. janúar 1986. Var endurgjald fyrir húsið að miklu leyti greitt með yfirtöku áhvílandi lána. Samkvæmt veðbókarvottorði var þessum lánum aflétt á árunum 1990 og 1991 og er því ómótmælt haldið fram af stefndu að lánin hafi þá fyrst verið greidd að fullu.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir löngum sambúðartíma aðilanna og tekjum þeirra á þeim árum, sem kaupverðið var greitt, og á sambúðartímanum að öðru leyti. Hvorugt þeirra hefur sýnt fram á sérstök framlög til fasteignarkaupanna, sem verði rakin til eigna frá því fyrir upphaf sambúðarinnar, og bæði lögðu þau til heimilisins eftir þörfum hverju sinni. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að viðurkenna beri eignarrétt stefndu að húsinu til jafns við áfrýjanda.

Í dómi Hæstaréttar [...] í dómasafni réttarins, er ástandi hússins [...] lýst. Er fram komið að síðan þá hefur lítið verið gert til að bæta ástand þess. Með matsgerð 20. júní 2001 er í ljós leitt að mjög er óvíst um hver verðmæti kunni að felast í því. Við svo búið er ekki unnt að leggja fasteignamat eignarinnar til grundvallar um uppgjör aðilanna, svo sem aðalkrafa stefndu er reist á. Verður niðurstaða málsins því sú að varakrafa hennar verður tekin til greina.

Rétt þykir að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu verður staðfest, en um gjafsóknarkostnað hennar fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Viðurkenndur er eignarréttur stefndu, K, að helmingi fasteignarinnar [...].

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. febrúar 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. f.m. hefur Arnar Sigfússon hdl. höfðað með stefnu útgefinni á Akureyri 18. maí 2000, birtri 22. s.m. og þingfestri 8. júní sama ár, f.h. K á hendur M.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda kr. 1.187.500 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 1. maí 1999 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar, að mati dómsins, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Lögmaður stefnda, Gunnar Sólnes hrl., krefst þess að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Stefnandi lýsir málsástæðum og öðrum atvikum svo í stefnu að aðiljar hafi hafið óvígða sambúð á árinu 1983 og hafi þá átt sáralitlar eignir.  Stefnandi hafi þó átt nýlega bifreið, aðiljar hafi keypt saman húseignina [...] árið 1986 og hafi bæði lagt fé til kaupanna, hafi stefnandi þó lagt fram meira fé til húsakaupanna heldur en stefndi, þar sem stefnandi hafi á þessum tíma haft hærri tekjur en hann. 

Hafi stefnandi lagt fram vinnu á sameiginlegu heimili aðilja allan sambúðartímann, auk þess hafi hún unnið við rekstur fyrirtækis stefnda.  Eigi aðiljar saman tvö börn fædd árið 1983 og 1992, séu bæði börnin búsett hjá stefnanda og sé því stefnanda algjör nauðsyn að fá greiddan út hlut sinn úr sameiginlegu búi aðilja til að geta lagt grunn að framtíð sinni og barnanna. 

Stefndi hafi ekki sýnt neinn vilja til að leysa málið á sanngjarnan hátt og með öllu neitað að rétta hlut stefnanda.  Vegna langrar sambúðar, fjárhagslegrar samstöðu og ótvíræðs þáttar stefnanda í öflun tekna til heimilisins krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 50% af fasteignamati fasteignarinnar [...], eins og eignin var framtalin á sameiginlegu skattframtali þeirra í árslok 1998, þ.e.a.s. kr. 2.375.000÷2, sem er stefnufjárhæðin kr. 1.287.500.  Sambúð aðilja hafi lokið með formlegum hætti þann 26. mars 1999.

Til lagaákvæða vísar stefnandi til ólögfestra reglna sifjaréttar um tilurð óskiptrar sameignar sambúðarfólks á sameignartíma, dómvenjum, dómafordæma og til 103. gr. laga nr. 31, 1993, samkvæmt lögjöfnum, einnig er vísað til vaxtalaga og um málskostnaðinn er vísað til laga nr. 91, 1991, en stefnandi hafi fengið gjafsóknarleyfi 27. apríl 2000.

Í greinargerð sinni segir stefndi að stefnandi halli mjög réttu máli í málavaxtalýsingu sinn.  Rétt sé að aðiljar hafi átt litlar sem engar eignir þegar sambúð hófst.  Bifreið sú sem stefnandi átti hafi verið endurnýjuð af stefnda og á hans kostnað, en bifreiðin ávallt skráð á nafn stefnanda og við sambúðarslit hafi stefnandi farið með þá bifreið og stefndi ekki gert kröfur á hendur stefnanda vegna hennar.  Þrátt fyrir helmingaskiptakröfuna þá haldi stefnandi þessari bifreið utan skiptanna. 

Mótmælt er sem röngu að aðiljar hafi keypt saman húseignina [...] á árinu 1986 og stefnandi lagt meira fé til þeirra kaupa.  Þá sé það rangt að stefnandi hafi unnið við fyrirtæki stefnda.  Rekstur stefnda hafi byggst á einni þungavinnuvél sem stefndi hafi stjórnað og haft til þess atvinnuréttindi sem stefnandi hafi ekki. 

Hið rétta sé að stefndi hafi keypt fyrir eigin reikning húseignina [...] fyrir kr. 185.000 þann 11. desember 1984 og greiðslan verið í því fólgin að stefndi yfirtók áhvílandi skuldir eins og fram komi í kaupsamningnum á dskj. nr. 14 og hafi stefndi verið einn kaupandi eignarinnar.  Hafi stefndi einn greitt samkvæmt kaupsamningnum og áhvílandi lán verið skráð á nafn hans, en ekki stefnanda.  Rétt sé að vekja athygli á því að þegar stefndi keypti húseignina hafi hún ekki verið íbúðarhæf og nánast ónýt eins og staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar [...]. 

Þó svo að stefndi hafi lagfært húsnæðið og aðiljar búið þar um skeið þá liggi fyrir að húsnæðið sé ónýtt og sé einungis til niðurrifs.  Allan sambúðartímann hafi aðiljar verið með aðskilinn fjárhag og það sé fyrst árið 1989 sem þau skili sameiginlegu skattframtali og hafi það eingöngu verið gert með tilliti til skattalegs hagræðis beggja aðilja, en sanni engan eignarrétt stefnanda.  Hafi stefndi greitt einn allar afborganir af áhvílandi lánum á húseigninni, enda hafi stefnandi ekki haft fjárhagslega burði til að standa undir þeim greiðslum.  Hafi eignin verið til sölu, en enginn kaupandi sýnt áhuga, þrátt fyrir lágt verð.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að aðiljar hafi ávallt verið með aðskilinn fjárhag, þó svo að aðiljar hafi skilað inn sameiginlegu skattframtali þá hafi það ekki skapað stefnanda neinn eignarrétt í eignum stefnda, sem hann hafi keypt fyrir eigið fé.  Tekjur stefnanda hafi verið það lágar allt sambúðartímabilið að þær hafi ekki getað orðið grundvöllur fyrir eignamyndum, eins og sjá megi þegar skattframtöl aðilja séu skoðuð.

Verða nú raktir framburðir aðilja, svo og önnur gögn málsins eftir því sem til skýringar þyki horfa.

Fyrir dómi bar stefnandi að við upphaf sambúðar 1983 hafi hún átt nýlega Nissan bifreið og stefndi átt 1 traktor og 1 bifreið.  Innbú hafi þau ekkert átt að ráði og byrjað nánast með tvær hendur tómar og búið hjá foreldrum stefnda.  Hafi fasteignin [...] verið keypt á nauðungaruppboði og yfirtekin áhvílandi lán og eitthvað smávegis borgað út.  Heldur hún að hún hafi borgað útborgunina, en kaupin verið fjármögnum með smávíxlum.  Er þetta var hafi hún unnið á [...] í fullri vinnu.  Stefndi hafi verið í vinnu stundum og hafi haft tekjur, en hún hafi haft hærri tekjur framan af en hann og síðan hafi tekjurnar verið eitthvað svipaðar.  Hafi fjárhagur þeirra verið sameiginlegur allan sambúðartímann og hafi þau annast fjármálin til skiptis. 

Aðspurð gat hún ekki geta sagt hvers vegna húseignin hafi verið skráð á stefnda, hann hafi ráðið því og hafi sagt að þau ættu þetta saman. 

Hún kvaðst hafa hætt að vinna á [...] í október 1992 og eftir það unnið afleysingavinna, en allan tímann hafi hún unnið á heimilinu og hafi séð að mestu um heimilisstörfin.  Hafi hún verið í snúningum fyrir rekstur stefnda, annast innheimtu reikninga eftir þörfum og annað slíkt. 

Hafi sambúðinni lokið í október 1998 er hún hafi gengið út af heimilinu [...] án þess að taka nokkuð af eignum búsins.  Síðan hafi hún fengið af eignunum bifreið, Toyota Corolla árgerð 1987, ísskáp og þvottavél, auk lausamuna í eldhúsi  Meira hafi stefndi ekki viljað láta af hendi og hafi haldið eftir öðrum eignum búsins, þ.e.a.s. húseigninni og tveimur vinnuvélum o.fl.

Sambúð þeirra hafi staðið frá apríl 1983 til október 1998.  Hún upplýsti að þau hefðu búið að [...] frá 1986.  Hún upplýsti að hún hafi verið í 50% starfi á [...] þar til hún hætti störfum þar 1992.  Er húsakaupin áttu sér stað seinni part árs 1984, hafi húseignin þarfnast viðgerðar og þau hafi flutt í það 1986.  Hún neitaði því að ástæða þess að hún hafi hafnað hugmynd stefnda til sátta, er sett var fram á dómþingi 16. f.m. í þá veru að hún fengi húseignina gegn því að greiða stefnda þriðja hluta fasteignaverðs hennar og að áhvílandi veðskuldum yrði létt, hafi ekki verið byggð á því að hún hafi talið húseignina ónýta og kveðst hún hafna þeirri staðhæfingu stefnda að húseignin væri ónýt. 

Það sem áður greinir hafi komið í hennar hlut við skiptin, bifreið Toyota Corolla árg. 1987, ísskápur, þvottavél og eldhúsáhöld, annað innbú hafi fallið í hlut mannsins, þ.e.a.s. hornsófasett, sjónvarp, þurrkari, svo og hjólaskófla og traktor.  Skuldir taldi hún hafa verið heimilisreikninga um kr. 80.000 sem hún hafi sjálf greitt, en þetta hafi verið einhverjar smáskuldir.  Hafi henni verið kunnugt um fjárhagsstöðu heimilisins og almennt um fjárhagsstöðu heimilisins þá hafi hún staðið í járnum.  Innbú þeirra hafi verið lítið vegna þess hver húsið var lítið.

Fyrir dómi bar stefndi að hann hafi keypt húseignina í desember 1984 af fasteignasölu.  Yfirteknar hafi verið skuldir en engin útborgun greidd, hafi þau verið með aðskilinn fjárhag, en með „sameiginlegan“ fjárhag þannig að þau hafi talið fram sameiginlega frá 1989 vegna skattalegs hagræðis, án þess að í því fælist nokkuð annað.  Hafi tekjur hans alltaf verið hærri en tekjur stefnanda, hafi hann verið með sjálfstæðan rekstur, auk þess unnið hjá [...] og [...].  Hafi greiðslur af húseigninni verið inntar af hendi eins og hann hafi samið um.  Hafi bifreið stefnanda verið í skuld við upphaf sambúðar og hafi þau séð um að greiða af henni í sameiningu.  Hafi bifreiðin verið seld 1986 og kr. 300.000 teknar að láni til að fjármagna kaup stefnanda á bifreið þeirri er hún fékk við skiptin.

Vinna stefnanda við fyrirtæki hans hafi verið í því fólgin að hún hafi nokkrum sinnum farið með reikninga til traustra greiðanda, alls kannski fimm sinnum.  Hafi stefnandi yfirgefið heimilið án fyrirvara, hafi hann einn greitt eftirstöðvar skulda, t.d. skatta.  Engar skuldir hafi verið vegna vélakaupa við sambúðarlok, svo og hafi hann greitt allar greiðslur vegna kaupa húseignarinnar, enda húsið hans eign. Húsið væri ekki til sölu þar sem það væri varla íbúðarhæft og hafi hann lánað það kunningjafólki sínu til íbúðar leigulaust. 

Aðspurður um veðsetningar hans á húsinu samkvæmt veðbókarvottorði á dskj. nr. 6, vegna tveggja veðlána að fjárhæð kr. 2.000.000, að það samrýmdist að húsið væri veðandlag ef það væri ónýtt, þá kvaðst hann hafa notfært sér tölur í fasteignamati til þess að veðsetja eignina, því að veðsetningar þessar hefðu nánast verið formsatriði þar sem lán þessi hafi verið tryggð með veði í nýjum vinnuvélum.

Nánar aðspurður um tekjur aðilja viðurkenndi hann að samkvæmt skattframtölum á dskj. nr. 29-32 þá hafi stefnandi haft hærri tekjur á árbilinu 1989-1992 og nánar aðspurður kvaðst hann ekki geta fullyrt að stefnandi hafi ekkert greitt af húseigninni.

Aðspurður hvernig heimilishaldi hafi verið háttað, t.d. varðandi innkaup, sagði stefndi að það hefði farið eftir því hver var á ferðinni og sá sem fór í verslun hafi greitt.  Ekkert hafi verið jafnað þeirra á milli og reikningar þeirra aldrei gerðir upp með kerfisbundnum hætti.  Ekki hafi hallast á hver lagði peninga til heimilishaldsins.  Allar skuldir hafi verið á hans nafni, svo og húseignin.  Stefnandi hafi átt bifreið allan sambúðartímann.  Eignir og skuldir hafi verið skráðar á raunverulegan eiganda og raunverulegan skuldara.  Hann upplýsti að húseignin væri 34 m² að innanmáli, auk kjallaraholu sem væri nýtt sem geymsla, þannig að ekki hafi verið rúm fyrir mikið innbú, enda hafi þau nánast ekkert átt neitt innbú. 

Samkvæmt gögnum málsins virðast tekjur stefnanda árið 1984 hafa verið kr. 125.544, 1985 kr. 174.375, 1986 kr. 240.541, 1987 kr. 356.493, 1988 kr. 479.278, 1989 kr. 534.341, 1990 kr. 639.638, 1991 kr. 741.050 og kr. 1992 kr. 643.948 og tekjuskattsstofn stefnda 1984 kr. 241.150 og skuldir umfram eignir það ár kr. 33.547, 1985 kr. 357.260 og skuldir umfram eignir kr. 140.165, 1986 tekjuskattsstofn kr. 525.564 og skuldir umfram eignir kr. 122.904, 1987 tekjuskattsstofn kr. 962.230 og skuldir umfram eignir kr. 64.993, 1988 tekjuskattsstofn kr. 343.428, 1989 tekjuskatts- og útsvarsstofn kr. 400.500? (athugasemd hundraðkrónutalan ólæsileg) 1990 tekjuskatts- og útsvarsstofn kr. 554.986 og sama 1991 kr. 653.585, 1992 sama kr. 550.000.

Eins og áður er rakið eiga aðiljar tvö börn, stúlku fædda í september 1983 og dreng í nóvember 1992 og á dskj. nr. 5, sem er skjal sýslumannsins á Akureyri útgefið 26. mars 1999 til staðfestu á sambúðarslitum aðilja er stefnandi með forsjá barnanna.

Á dskj. nr. 9, sem er skattframtal stefnda 1985, telur hann til eignar fasteignina [...] á kr. 185.000 og skuldir alls kr. 201.627.  Með rekstrarreikningi sem að fylgir framtalinu segir að stefndi reki loftpressu- og snjómokstursþjónustu og noti til þess vél í eigu bróður síns, sem hann hafi leigulaus afnot af, en annist allt viðhald á. 

Álit dómsins:

Engar settar lagareglur eru um skipti er slit verða á óvígðri sambúð.  Litið er á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og um fjármál þeirra fer eftir almennum reglum fjármálaréttarins.  Við skipti til fjárslita milli sambúðarfólks verður m.a. að taka tillit til lengdar sambúðar, fjárhagslegrar samstöðu aðilja, sameiginlegra nota af eign og til tekna aðilja.  Ágreiningur aðilja tekur eingöngu til fasteignarinnar [...], sem hefur verið sameiginlegt heimili þeirra frá 1986 til 1998 og er þinglesin eign stefnda samkvæmt afsali útgefnu 8. janúar 1986. 

Af því sem að framan er rakið má ljóst vera að aðiljar hefja sambúðina mjög eignalítil og að tekjur þeirra allt til ársins 1992 er þau eignast yngra barnið hafa verið áþekkar, þó svo að nokkur áraskipti hafi orðið.

Samkvæmt framburði stefnda virðist fjárfélag þeirra hafa verið sameiginlegt a.m.k. eru reikningarnir aldrei gerðir upp milli þeirra á sambúðartímanum og hvort um sig hafi greitt eftir efnum og ástæðum til heimilisins.

Húseignin sem er lítil er öll keypt í skuld og er ekki að sjá að stefndi hafi verið sýnu aflögufærara en stefnandi að standa undir eignamyndun á sambúðartímanum, enda eignamyndun ekki mikil.  Stefndi heldur því reyndar fram að eignin [...] sé verðlaus, eða a.m.k. mjög verðlítil og getur dómurinn í sjálfu sér fallist á það sjónarmið að nokkru leyti, en til hins ber að líta að krafa stefnanda er byggð á fasteignamati eignarinnar sem stefndi hefur ekki talið hagkvæmt að fá leiðréttingu á og veðdregið eignina um 2.000.000 kr., sbr. veðbókarvottorð.

Að öllu þessu virtu telur dómurinn sannað að fjárhagsleg samstaða hafi myndast með aðiljum á sambúðartímanum og beri því að viðurkenna 50% eignarétt konunnar í verðmæti í fasteignamati eignarinnar að [...], að fjárhæð kr. 1.187.500 og greiði maðurinn konunni þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá 1. maí 1999 að telja.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður, en ríkissjóður greiði málflutningsþóknun til lögmanns stefnanda, Arnars Sigfússonar hdl., kr. 175.000 auk virðisaukaskatts.

Dóm þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, M, greiði stefnanda, K, kr. 1.187.500, auk dráttarvaxta frá 1. maí 1999 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Ríkissjóður greiði málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Arnars Sigfússonar hdl., kr. 175.000 auk virðisaukaskatts.