Hæstiréttur íslands

Mál nr. 197/2013


Lykilorð

  • Manndráp
  • Tilraun
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 197/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Rafal Gawot

(Kristján Stefánsson hrl.

Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

(Björgvin Jónsson hrl. réttargæslumaður)

Manndráp. Tilraun. Skaðabætur.

R var ákærður fyrir tilraun til manndráps, samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. sömu laga, með því að hafa veist að A með hnífi með þeim afleiðingum að hann hlaut stungusár vinstra megin á brjóstkassa, en hnífurinn gekk inn í vinstra lunga og olli loftbrjósti. Þá hlaut A einnig skurð langsum á hryggsúlu vinstra megin og skrámur á hálsi. R viðurkenndi að hann hefði átt í átökum við A þar sem hnífur hefði komið við sögu. Var talið sannað að R hefði veist að A og veitt honum framangreinda áverka. R hefði ekki getað dulist að langlíklegast væri að hnífstunga í brjósthol myndi valda dauða þess sem fyrir yrði, jafnvel þótt ekki væri víst að A hefði í þessu tilviki látið lífið af stungunni. Yrði því að líta á háttsemi R sem tilraun til manndráps. Var refsing R ákveðin fangelsi í 5 ár auk þess sem honum var gert að greiða A 905.000 krónur í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, til vara að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.795.018 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.005.000 krónum frá 28. júlí 2012 til 2. nóvember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 2.005.000 krónum frá 2. nóvember 2012 til uppsögu dóms í málinu og af 2.795.018 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína.

Kröfuna um ómerkingu héraðsdóms reisir ákærði annars vegar á því að nauðsynlegt hefði verið að dómur í héraði væri skipaður þremur dómurum, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og hins vegar að brotalýsing í ákæru sé ekki nægilega skýr.

Fyrrnefnda röksemdin er nánar á því reist að sönnunarmat í málinu sé mjög flókið þar sem ákærði og fjöldi vitna sé af erlendum uppruna. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að einn héraðsdómari skipi dóm í hverju máli nema svo standi á sem segir í 3. mgr. til 5. mgr. Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ef ákærði neiti sök og dómari telur sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi geti dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu. Tilvitnuð regla heimilar að hafa dóm fjölskipaðan við þær aðstæður, sem vísað er til, en slíkt er ekki skylt. Með hliðsjón af sakarefni málsins er ekki nægt tilefni til að ómerkja héraðsdóm af þessum sökum.

Rök sín fyrir því að ákæra hafi ekki verið nægilega skýr kveður ákærði vera þau að háttsemi hans hafi ekki verið lýst sem ásetningsbroti til líkamsárásar. Af verknaðarlýsingu megi ætla að afleiðingar háttseminnar hafi hlotist af gáleysi sem fella beri undir 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í ákæru segir að ákærði hafi veist að A með hnífi með nánar tilgreindum afleiðingum og er háttsemin aðallega heimfærð undir 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en til vara 2. mgr. 218. gr. Verður ekki fallist á með ákærða að verknaðarlýsing í ákæru gefi til kynna að um gáleysisbrot hafi verið að ræða, en slíkt gæti ekki eitt og sér leitt til ómerkingar héraðsdóms. Verður því hafnað kröfu ákærða um það.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar. Um frádrátt gæsluvarðhalds sem ákærði hefur sætt fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Brotaþoli hefur fyrir Hæstarétti krafist þess að ákærða verði gert að greiða sér 795.018 krónur í skaðabætur vegna sjúkrakostnaðar auk miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur. Krafa hans vegna sjúkrakostnaðar hefur verið hækkuð frá kröfu hans í héraði sem nemur 790.018 krónum. Í greinargerð brotaþola fyrir Hæstarétti kemur fram að hækkunin nemi fjárhæð reiknings frá Landspítala háskólasjúkrahúsi sem honum hafi verið gert að greiða þar sem hann hafi ekki verið sjúkratryggður samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar er brot ákærða hafi verið framið og sé um að ræða „nýjan kröfulið undir aðalkröfu frá í héraði“.

Samkvæmt 1. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 skal einkaréttarkröfu komið á framfæri við lögreglu meðan á rannsókn máls stendur eða við ákæranda áður en ákæra er gefin út. Heimilt er þó samkvæmt ákvæðinu að koma kröfu á framfæri við ákæranda eftir útgáfu ákæru ef fullnægt er skilyrðum 1. mgr. 153. gr. laganna til útgáfu framhaldsákæru í máli eða að fengnu samþykki ákærða, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þess að hafa megi slíka kröfu uppi í málinu. Í 1. mgr. 153. gr. laganna er mælt fyrir um heimild ákæranda til að breyta eða auka við ákæru með útgáfu framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út, gefa tilefni til. Segir í ákvæðinu að framhaldsákæru skuli gefa út svo fljótt sem verða má eftir að þörfin á henni er kunn, en þó í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalmeðferð máls, nema ákærði samþykki að það sé gert síðar. Reikningur sá er liggur til grundvallar kröfu brotaþola er dagsettur 14. nóvember 2012, en aðalmeðferð í héraði hófst þann sama dag. Ekki eru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008 fyrir útgáfu framahaldsákæru í málinu. Þá hefur ákærði ekki samþykkt að kröfu brotaþola um hinn aukna sjúkrakostnað verði komið að í málinu. Kemst þessi krafa brotaþola því ekki að fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um einkaréttarkröfuna, svo sem brotaþoli krefst til vara fyrir Hæstarétti, en ekki hafa verið lögð fram gögn um afleiðingar af broti ákærða.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að til frádráttar refsingu ákærða, Rafal Gawot, kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt óslitið frá 29. júlí 2012.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 776.386 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2012.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 24. september sl., á hendur ákærða, Rafal Gawot, kt. [...], [...], [...], „fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa laugardagskvöldið 28. júlí 2012 til móts við kirkju Fíladelfíusafnaðarins á gatnamótum Höfðatúns og Skúlagötu, í Reykjavík, veist að A með hnífi með þeim afleiðingum að hann hlaut stungusár vinstri megin á brjóstkassa þannig að hnífurinn gekk inn í vinstra lunga og olli loftbrjósti, skurð langsum á hryggsúlu vinstra megin, og skrámur á hálsi.

Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur, sbr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, vegna sjúkrakostnaðar, samtals að fjárhæð kr. 100.000. Brotaþoli gerir einnig kröfu um greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 3.000.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 28. júlí 2012 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

Krafa um bætur fyrir sjúkrakostnað hefur verið lækkuð í 5.000 krónur.

Málavextir

Samkvæmt staðfestri skýrslu Hallgríms Hallgrímssonar lögregluvarðstjóra, var það klukkan hálfníu, laugardagskvöldið 28. júlí sl. að tilkynning barst frá neyðarlínunni um að meðvitundarlaus maður væri á Laugavegi á móts við hús Fíladelfíusafnaðarins.  Fljótlega hafi svo borist upplýsingar að maðurinn hefði verið stunginn með hnífi og að árásarmaðurinn eða – mennirnir hefðu hlaupið á brott.  Þegar lögreglumenn komu á vettvang lá maður á miðri akbraut Höfðatúns, rétt niður undan gatnamótunum við Laugaveg.  Þá segir í skýrslunni að nokkur fjöldi fólks hafi verið á vettvangi en illa hafi gengið að tala við fólkið vegna æsings og tungumálaörðugleika.  Hinn slasaði, pólskur maður að nafni A, hafi verið með skurð á baki og einnig hafi virst vera stungusár á síðunni.  Lítið hafi blætt úr sárunum.  Þá segir að maðurinn hafi verið fluttur með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar og mun hafa komið þangað kl. 20.40.  Lögreglumenn fengu þær upplýsingar hjá fólki á staðnum að tveir menn hefðu sést hlaupa á brott.  Þá segir að sést hafi svo til tveggja manna við bíl hjá [...] og var annar þeirra blóðugur.  Reyndu þeir að forða sér en voru handteknir.  Voru það B og ákærði, sem var með djúpan skurð á hendi.  Talsvert blæddi úr skurðinum og mátti rekja blóðslóð frá árásarvettvangi norður [...] og að [...] og þar inn.  Fóru lögreglumenn þangað inn og hittu fyrir tvo Pólverja, C og D.  Segir að blóð hafi verið á stuttbuxum C og á sokkum hans.  Virtist hann vera í annarlegu ástandi.  Inni á baðherbergi var mikið blóð sem þó hafði greinilega verið reynt að þrífa og var það ennþá blautt.  D kvaðst vera gestkomandi í íbúðinni og sagði hún mann hafa komið inn með blóðugan áverka á hendi.  Hefði hún hjálpað honum að þrífa sig en hann farið fljótlega út aftur.  Sagði hún manninn hafa verið með hníf þegar hann kom og vísaði hún á hnífinn þar sem hann var falinn í hillu í skáp við hliðina á baðherberginu.      

Tekið var blóðsýni úr ákærða til rannsóknar og mældust í því 1,96 ‰ af vínanda og 0,6 mg/nl af tetrahýdrókannabínóli.

Meðal gagna málsins er staðfest vottorð Bjarna Torfasonar, yfirlæknis á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans, um áverkana á A.  Segir þar að yfirborðsskurður, nokkurra cm langur, hafi legið langsum eftir hryggsúlunni, vinstra megin.  Þá hafi stungusár verið hliðlægt á vinstri brjóstkassa u.þ.b. á móts við 4. rifbein.  Er sárið ýmist sagt vera 0,5 eða 1 cm.  Ekki hafi heyrst greinileg öndunarhljóð við vinstra lunga en við það hægra hafi þau verið greinileg.  Á tölvusneiðmynd hafi sést að maðurinn var með loftbrjóst vinstra megin og lungað samfallið að stórum hluta.  Hafi keri verið settur í brjósthol til þess að hleypa út loftinu.  Ekki hafi sést áverki á hjarta, ósæð, miðmæti né öðrum líffærum.  Lítils háttar blæðing hafi verið í brjóstholi vinstra megin.  Þá segir í vottorðinu að stunga yfir hjarta í gegnum lunga sé almennt lífshættulegur áverki.  Í þessu tilviki hafi stungan ekki náð svo djúpt að valda skaða á hjarta eða ósæð sem séu í nágrenni áverkans.  Gert sé ráð fyrir því að maðurinn nái sér að fullu.  Auk alls þessa kemur fram í vottorðinu að tvær grunnar skrámur hafi verið vinstra megin á hálsi, um það bil handarlangar.

Meðal gagna málsins er staðfest skýrsla Stefáns Fróðasonar lögreglumanns um afskipti hans af málinu þegar hann kom á brotavettvang.  Segir þar að maður hafi legið á gatnamótum Skúlagötu og Höfðatúns og hjá honum hópur fólks.  Hópur fólks var þarna og ræddi lögreglumaðurinn við móður brotaþola, sem þarna var og sagðist hafa komið hjólandi í átt að syni sínum.  Sá hún þá hvar maður með svart hár réðist fyrirvaralaust á brotaþola og hljóp svo á brott.  Gat hún ekki lýst honum nánar.  Þá segir í skýrslunni að E hafi verið þarna og sagst hafa séð tvo menn hlaupa frá vettvangi norður Höfðatún en gat ekki lýst þeim.  Þá er í skýrslunni getið tveggja Pólverja, F og G, sem þarna voru og sögðust vera kunningjar brotaþola.  Sögðust þeir hafa verið á gangi í sömu átt og hann, en ekki hafa séð atburðinn.  Loks er þess að geta að fyrrnefndur G er í skýrslunni sagður hafa túlkað frásögn móðurinnar fyrir lögreglumönnunum.

Lögreglumenn fóru á slysadeild Landspítalans í Fossvogi að kvöldi hins 28. júlí og hittu þar fyrir móður brotaþolans, H.  Var tekin af henni skýrsla kl. 21.21 með aðstoð túlks.  Jafnframt var skýrslan hljóðrituð.  Sagðist hún hafa farið út í hjólreiðatúr fyrr þetta kvöld og verið á leið heim til sín.  Þegar hún nálgaðist Höfðatún hefði hún úr fjarlægð séð son sinn koma gangandi og annan strák handan við götuna, lávaxnari en A, sem öskraði á hann: „Komdu hingað!“  Hefði strákurinn svo hlaupið að syni hennar, í um 10 m fjarlægð frá henni, og líkt og slegið eða sparkað í A, sem féll við það í götuna.  Hefði hún þá áttað sig á því að strákurinn var með stóran hníf í hendi, a.m.k. ekki „eldhúshnífur“.  Kvaðst hún hafa sagt við strákinn að láta A í friði og að hún myndi kalla á lögreglu.  Strákurinn hefði þá hlaupið niður götuna í átt að sjónum.  Hún sagði árásarmanninn hafa verið ungan, á aldrinum 20 – 22 ára, 176 cm á hæð, grannvaxinn með skollitað hár.  Hann hefði verið í ljósbleikum bol og stuttbuxum sem náðu rétt niður fyrir hné.  Tvær rosknar konur hefðu komið að á bíl og hefði hún beðið þær að hringja á sjúkrabíl.  Hefði A verið allur blóðugur og hún fært hann úr bolnum.  Hefði hún þá séð að hann var götóttur og skorinn á bakinu.  Hefði hún tekið bolinn til handargagns þar sem lögreglan hirti ekki um hann.  Kvaðst hún svo hafa fleygt bolnum í tunnuna.  Hún sagði að ekki hefðu aðrir menn en þessi ráðist á son hennar og hún ekki séð þarna aðra en þennan mann.  Tveir vinir sonarins hefðu komið þarna að þegar hún fór að öskra.  Líklega hefði verið samkvæmi þarna skammt frá.  Hefði lögreglan tekið niður deili á þeim.  Hún kvaðst hafa spurt þá hvort þeir þekktu árásarmanninn en þeir neitað því.  Gætu þeir kannski komist að því.  

Fram er komið í málinu að næsta kvöld afhenti H lögreglu umræddan bol, en hún hafði tekið hann með sér heim til sín í Brautarholt.

Að kvöldi 29. júlí var tekin skýrsla á hjartadeild af brotaþolanum, A, sem þar var rúmliggjandi.  Var skýrslan tekin upp á segulband og tekin með hjálp túlks.  Þegar honum var gerð grein fyrir skyldum sínum sem vitni sagðist hann þekkja rétt sinn sem vitni og þyrfti hann ekki að segja um aðra en allt um sjálfan sig.  Hann kvaðst hafa verið með kunningjum sínum kvöldið áður.  Ekki vissi hann hvort þeir hefðu verið að slást eða hvað gerðist en skyndilega hefði hann fundið til mikils sársauka í vinstri síðu og séð að blóð var á hendi hans.  Hafi hann fallið í jörðina og muni svo ekki meira.  Hann hafi þó ekki misst meðvitund og muna eftir því að sjúkrabíll kom á vettvang.  Aðspurður hverjir þessir kunningjar væru nefndi hann I en gat ekki nefnt fleiri.  Þeir hefðu þó verið þrír til fimm talsins.  Hann sagðist ekki þekkja alla þessa menn með nafni, enda ekki búinn að vera hér mjög lengi.  Ekki vissi hann hver hefði verið að verki en hann sagðist hafa verið að fíflast í samkvæminu.  Hann kvaðst hafa verið heima hjá manni, sem hann gat ekki nafngreint, um 5-600 m frá staðnum, sem ráðist var á hann, og setið þar að drykkju.  Hann hefði þó ekki verið ofurölvi og þarna hefði allt verið í góðu þangað til...(lauk ekki setningunni).  Kannski hefði einhver „planað“ þetta, það sé hugsanlegt.  Sagði hann aðspurður skýringuna geta legið í því að hann væri nýr hér en samt fljótt fallið vel inn í hópinn og kynni einhverjum að hafa mislíkað það.  Hefði hann enga hugmynd um hver það væri.  Þá gat hann þess að hann væri frá [...] en þeir hinir frá [...].  Lægi það orð á [...] að þeir væru hnífamenn.  Hann kvaðst viss um að I hefði ekki gert þetta, enda fínn strákur, og ekki heldur bróðir hans, J.  Reyndar vissi hann ekki hvort J var þarna.  Aðspurður kvaðst hann ekki ætla að leggja fram kæru út af árásinni.       

Föstudaginn 3. ágúst var A yfirheyrður í lögreglustöðinni við Hverfisgötu að viðstöddum réttargæslumanni og með hjálp túlks.  Var skýrslan tekin upp í mynd og hljóði.  Af upptökunni verður ekki annað séð en að vitnið hafi verið allsgáð, áttað og fullfært til skýrslugjafar.  Skýrði A svo frá að hann hefði setið að drykkju með J og tveimur öðrum öðrum, heima hjá B, sem handtekinn var.  Kvað hann Rafal Gawot hafa sagt við sig þarna að hann myndi drepa hann.  Hann kvaðst þó hafa tekið þessu sem gríni, enda maðurinn sagt þetta við sig áður, allsgáður.  Hefði hann hlegið að þessu en þá hefði hinn sagt: „Sjáðu bara til.“  Eftir þetta hefði hann viljað fara heim til sín í [...] og gengið í áttina þangað.  Á móts við Fíladelfíu hefði hann heyrt einhvern segja mjög nálægt sér: „Ég drep þig.“  Hefði hann svo fundið til sársauka í síðunni og hefði verið um að ræða djúpa stungu, sem gekk á hol nálægt hjartanu.  Hann hefði ekki séð vopnið sem maðurinn beitti en þó gæti hann hugsanlega hafa séð hnífi bregða örsnöggt fyrir, eldhúshnífi.  Hann kvaðst hafa litið við og í andlit mannsins sem hann mundi að var andlitið á Rafal Gawot, og sagt honum að hætta en Rafal þá reynt að skera hann á háls.  Kvaðst hann hafa hopað undan og því aðeins komið rispa á hálsinn.  Hann kvaðst hafa heyrt móður sína æpa: „Láttu hann í friði!“ en Rafal hefði haldið áfram og sært hann á bakinu með 20 – 30 cm löngum skurði.  Fólk hafi drifið þarna að og kveðst hann muna að móðir hans hafi verið miður sín.  Hann minnir að hann hafi sett fingurinn í sárið á síðunni til þess að stöðva blæðinguna.  Móðir hans hafi haldið utan um hann þar til hjálp barst.  Hann var sérstaklega spurður hvort fleiri en Rafal hefðu tekið þátt í árásinni og svaraði hann því að á þessum stað hefðu ekki verið aðrir en ákærði.  Hann vissi þó ekki hverjir voru þarna fyrr.  Kvaðst hann ekki vita hvernig Rafal hlaut áverka á hendi en segir að Rafal gæti hafa veitt sér þá sjálfur eða fengið þá þegar hann var að verjast honum. Hann kvaðst halda að hið fyrra væri líklegra og Rafal hefði með því verið að koma sér upp undankomuleið úr málinu.  Hann kveðst ekki hafa hugmynd um hvers vegna Rafal hefði viljað drepa hann en hugsanlega hafi það verið vegna þess hve góðu sambandi hann hafði náð við vini Rafals.  Hann kvaðst hafa þekkt Rafal frá því í febrúar. Hann kvaðst hafa verið búinn að drekka um 2 - 300 g af landa þegar atburðurinn varð.  Hann kvaðst hafa verið klæddur í svartar gallabuxur og dökkan bol, sem nú sé ónýtur.  Ekki muni hann hvort hann var í peysu.  Hann lýsti svo bol sem verið hafi í sælgætislit með bleikum kraga.  Um klæðnað Rafals sagðist hann halda að hann hefði verið í stuttbuxum úr bláu gallaefni.  Hann sagðist aðspurður ekki vita hvernig hafi staðið á því að móðir hans var þarna en sagði að hún færi stundum í hjólreiðatúr á þessum tíma.  Vitnið var spurður af hverju frásögn hans væri mun ítarlegri en þegar hann var yfirheyrður á sjúkrahúsinu.  Kvaðst hann þá ekki hafa viljað segja eitthvað sem hann var ekki viss um og auk þess hefði hann verið undir morfínáhrifum.  Þá hefði hann heldur ekki munað allt en það hefði síðan rifjast upp. 

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 29. júlí sl. að viðstöddum verjanda og með aðstoð túlks.  Var skýrslan tekin upp í hljóði og mynd.  Kvaðst hann ekki muna vel atvikin.  Kvaðst hann hafa farið úr húsinu og lent í einherjum átökum við A og hefði A kýlt hann í andlitið.  Hafi A tekið upp hníf og þeir slegist.  Kvað hann A hafa skorið hann á vinstri hendi svo að fossblæddi.  Hann kvaðst svo hafa flúið í áttina að [...] eftir að hafa náð hnífnum af A.  Aðspurður um áverkana á A, sagði ákærði að hann kynni ekki að skýra þá en sagði að hann, ákærði, hlyti þá að hafa veitt A þá.  Annars vissi hann það ekki.  Hann kvaðst ekki vita hvað orðið hafði af hnífnum og gat ekki lýst honum.  Hann kvaðst hafa verið miðlungs-ölvaður þegar þetta gerðist, eftir að hafa drukkið vodka.  Nánar aðspurður sagðist hann ekki viss um það hvor þeirra A hefði verið með hnífinn í upphafi.  Þá sagðist hann ekki vita hvort hann veitti A áverkana eða hvort það var einhver annar.  Hann sagði fleira fólk hafa verið í [...] og nefndi til D, K, B og F.  Hann kvaðst hafa sest inn í bíl hjá B ásamt D og ætlað á spítala með meiðslin en þá séð til lögreglunnar og lagt á flótta.  Ákærði kvaðst ekki geta skýrt hnífinn sem fundist hefði í [...] eða vita neitt um það hvort einhver hefði þar reynt að hreinsa af honum blóð.

Aftur var tekin skýrsla af ákærða 2. ágúst sl. að viðstöddum verjanda og með hjálp túlks.  Var skýrslan tekin upp í hljóði og mynd.  Ákærði sagði slagsmálin hafa byrjað með því að A kýldi hann í andlitið en vissi ekki af hverju.  Hann kvaðst ekki muna þetta nema í brotum vegna áfengisneyslu.  Myndi hann að þeir tveir lágu í jörðinni og einhver kona var að öskra.  Hefði átökunum lokið með því að hann stóð upp og hljóp í [...].  Hann kvaðst hafa verið búinn drekka nokkur vodkastaup og 2 – 3 sterka bjóra.  Þá sagðist hann hafa verið í meðallagi undir áhrifum.  Hann kvaðst ekki muna hvernig hann fékk áverkana á höndina.  Hann kvaðst ekki geta útskýrt áverkana á A.  Hann kvaðst aldrei ganga með hníf á sér.  Hann kvaðst ekki muna hver hefði veitt A áverkana, hugsanlega hefði hann, ákærði, gert það.  Hann myndi þó aldrei gera slík fullmeðvitaður.  Hann neitaði því að hafa komið með hníf í [...] eða hélt að hann hefði ekki gert það.  Hann kvaðst aðeins muna eftir konu, sem var að öskra, þarna á vettvangi átakanna, ekki öðrum.  Hann kvaðst hafa farið út í bílinn til þess að fara til læknis út af sárinu sem hann var með á hendinni.  Hann sagði að auk sjálfs sín hefðu, fyrir átökin, verið í samkvæminu í [...] D, C, A, K og F.  Allt hefði farið friðsamlega fram í samkvæminu.  Kvaðst hann hafa setið þar í um 3 klukkutíma áður en hann fór út.  B var þarna einnig og hefði hann ekki verið viðstaddur átökin heldur verið heima í [...] þegar ákærði kom þangað eftir þau.  Hann kvaðst hafa verið klæddur í bláar gallabuxur með síðum skálmum, hvítan bol og verið á svörtum skóm.  Undir ákærða var borin frásögn H.  Hann kvaðst ekkert geta um hana sagt og myndi hann ekki eftir þessu frekar en hann hefði sagt.  Hann sagðist ekki vita til þess að aðrir hefði tekið þátt í átökunum og fyndist honum eins og þeir A hefðu einir komið þar við sögu. 

Ákærði var yfirheyrður að nýju 8. ágúst sl. að viðstöddum verjanda og með aðstoð túlks.  Var skýrslan tekin upp í hljóði og mynd.  Kvaðst hann engu hafa að bæta við fyrri skýrslur sínar.  Framburður A 3. ágúst um árásina var borinn undir ákærða.  Kvaðst hann ekki hafa neitt um hana að segja nema að honum fyndist eins og þetta hefði ekki gerst.  Hann kvað það rangt að hann hefði hótað A því að drepa hann.  Hann myndi það að vísu ekki en kvaðst ekki vera þeirrar gerðar að hóta slíku.  Hann sagði enn fremur varðandi lýsingu A á árásinni að hann gæti ekki játað eitthvað sem hann ekki myndi.  Hann kvaðst ekki muna atvikin vegna áfengisneyslu.  Hann neitaði því að hafa reynt að skera A á háls, enda myndi hann ekki gera slíkt.  Hann neitaði því að hafa hótað A því að drepa hann í samkvæminu.  Kvaðst hann muna nokkurn veginn hvað fram fór þar.  Þar hefðu menn setið og skemmt sér.  Þá væri það ekki satt að hann hefði sagt slíkt áður við hann.  Kveðst hann ekki hafa átt í illdeilum við A.  Áverkann á hendinni kvaðst ákærði hafa fengið í átökum við A.  Hefði hann orðið hans var þegar hann kom að húsinu við [...].  Hann kvaðst ekki vita hvort hann veitti sér áverkann sjálfur.  Hann ítrekar að A hafi kýlt hann fyrst og segir hann A nú reyna að koma öllu á sig.  Hann ítrekaði að hann myndi ekki eftir átökunum nema þá einhverju „myndbroti.“  Hann kvaðst ekkert vita um hníf í þessu sambandi og kvaðst aldrei ganga með hníf á sér.  Hann kvaðst ekki trúa því að hann hefði veitt A þessa áverka.    

Tekin var skýrsla af D á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 31. júlí sl. með hjálp túlks og að viðstaddri móður hennar.  Var skýrslan tekin upp í hljóði og mynd.  Sagði hún að allt hefði verið í góðum friði í samkvæminu í [...].  Strákarnir hefðu allir verið þarna með strákalæti en engin illindi þó.  Eftir að hún hafði verið þarna í um einn og hálfan klukkutíma hefðu allir horfið skyndilega úr samkvæminu, nema þær K og C.  Skyndilega hefði ákærði komið inn blóðugur og skorinn á hendi og B á eftir honum.  Hefði ákærði hlaupið viðstöðulaust inn í baðherbergið að þrífa af sér blóðið.  Eftir að þeir voru farnir út kvaðst hún hafa fundið hníf inni í baðvaskinum.  Sérstaklega aðspurð kvaðst hún ekki muna hvort hún sá ákærða koma með hnífinn með sér en hún hefði tekið hnífinn, vafið honum í þurrku og lagt inn í skáp.  Hefði hann verið með tenntu blaði, svörtu handfangi sem hafi verið brotið og um 15 til 20 cm að lengd. B hefði hrópað að það þyrfti að binda um sárið en hún að það þyrfti að fara með ákærða á sjúkrahús enda hefði fossblætt úr sárinu.  Hefðu þau K og B farið með ákærða á sjúkrahús.  Þau C hefðu hins vegar farið að þrífa blóðið sem þarna varð eftir.  Hafi lögreglan svo komið þarna í húsið og hún vísað á hnífinn.  Að öðru leyti viti hún ekkert um þennan hníf.  Hún kvaðst hafa drukkið lítils háttar af landa í [...]. 

Tekin var skýrsla af C daginn eftir atburðinn, eða 29. júlí sl. á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 31. júlí sl. með hjálp túlks.  Var skýrslan tekin upp í hljóði og mynd.  Hann kvaðst hafa verið í [...] í umrætt sinn og setið þar að drykkju ásamt Rafal og fleirum.  Skyndilega hefði vinur hans, Rafal, komið inn skorinn á hendinni og blóðugur.  Hefði hann svo komið út af baðinu aftur og beðið um að vera ekið á spítala.  Hann kvaðst hafa farið að þurrka blóð af gólfinu ásamt D.  Rafal hefði sagt eitthvað um A en mundi ekki hvað, kvaðst enda hafa verið fullur.  Hann sagði A hafa verið í samkvæminu en kvaðst ekki vita hvað orðið hefði af honum.  Hann kvaðst engan hníf hafa séð þarna.  Lögreglan hefði svo komið.  Hann sagði engin illindi hafa verið á milli manna þarna.  Hefðu þeir verið að drekka vodka saman.  Hann kvaðst ekki vita hvort þeir A og Rafal hefðu farið út. 

Tekin var skýrsla af B 29. júlí sl. á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 31. júlí sl. með hjálp túlks.  Var skýrslan tekin upp í hljóði og mynd.  Skýrði hann svo frá að hann hefði farið með vinkonu sinni í hraðbankann en verið handtekinn.  Þá hafi verið þarna mjög blóðugur náungi.  Kvaðst hann hafa reynt að binda um skurðsár á hendi mannsins og ætlað með hann á spítala.  Þegar lögreglan kom hafi maðurinn flúið og sjálfur hafi hann verið handjárnaður.  Hann sagði að mikið samkvæmi hefði verið heima hjá honum í [...], 10 eða 20 manns, áður en hann var handtekinn.

Kristján Friðþjófsson rannsóknarlögreglumaður gerði rannsókn á vettvangi, tók þar ljósmyndir og í [...], bæði utan húss og innan.  Ennfremur tók hann myndir af blóðblettum í bíl og við húsið [...].  Þá útbjó hann loftmynd af svæðinu og merkti inn á hana kennileiti og staðsetningar.  Í staðfestri skýrslu hans um þá rannsókn segir að blóðblettir hafi verið á götunni þar sem atvikið var talið hafa átt sér stað.   Þaðan hafi verið blóðslóð eftir Höfðatúni sem rekja hafi mátt að húsi nr. [...] við [...].   Þar inni á efri hæð hússins hafi verið blóðkám á veggjum og blóðdropar á gólfi. [...] sé steinsteypt einbýlishús á tveimur hæðum og snúi langhliðar þess í norður og suður.  Gengið sé inn í húsið að norðanverðu.  Sést hafi að búið var að hreinsa eitthvað af blóði sem var á gólfum í íbúðinni.  Við [...] hafi verið rauður [...]-skutbíll, [...], en var sagður hafa verið við hús nr. [...] við [...] áður en honum var ekið þangað þar sem kærði og ökumaður voru handteknir. Í aftursæti bifreiðarinnar var ætlað blóðkám.

Björgvin Sigurðsson sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar rannsakaði fatnað brotaþola og ákærða.  Í staðfestri skýrslu um rannsókn á bol brotaþola segir  að hann sé ljósgrænn og hvítur, þverröndóttur polo-bolur með stuttum ermum.  Bolurinn sé með hvítum kraga í hálsmáli og opnum brjóstvasa vinstra megin á framhlið.  Hálsmál hneppt með þrem hvítum.  Bolurinn sé sundurklipptur á baki.   Bogalaga gat sé neðarlega vinstra megin á bakhlið, 1,7 cm að lengd og miðja þess 3,1 cm inn frá vinstri hliðarsaumi og 18 cm ofan við neðri brún bolsins.  Brúnir gatsins séu sléttar, sem bendi til að gatið sé eftir eggvopn.  Fjölmargir rauðbrúnleitir blettir séu sjáanlegir á bolnum, bæði á fram- og bakhlið.  Á framhlið sé ferill stórra bletta sem nái frá hálsmáli, niður eftir framhlið og út að vinstri hlið bolsins, auk minni bletta á báðum ermum.  Á bakhlið séu stórir blettir ofarlega fyrir miðju og neðarlega við vinstri síðu auk minni bletta, dreifðra um bakhliðina.  Sýni hafi verið tekin úr völdum blettum á báðum hliðum sem öll gáfu jákvæða svörun við blóðprófi. 

Björgvin rannsakaði einnig fatnað og skó, sem ákærði var í þegar hann var handtekinn.  Um er að ræða hvítan stuttermabol úr 100% bómull með áletruninni „Nike“ stórum stöfum þvert yfir bolinn á þrjá mismunandi vegu, þar af einni í skærrauðum lit, af myndum að dæma.  Bolurinn var ljósmyndaður áður en rannsókn hófst.  Í staðfestri skýrslu Björgvins um rannsóknina segir að bolurinn sé óhreinn að sjá og á hægri öxl sé 8 cm löng rifa út frá hálsmáli.  Á framhlið hans séu fjölmargir rauðleitir/brúnleitir blettir, bæði á bol og ermum, þeir stærstu vinstra megin í brjósthæð, rétt neðan við hálsmál, en minni blettir dreifðir um bolinn, bæði dropar og kámblettir.  Sýni hafi verið tekin úr blettum víða á framhliðinni og þau prófuð og öll gefið til kynna mannsblóð.  Sýni úr þessum blettum hafi verið varðveitt á bómullarpinnum sem síðan voru settir í pappaöskjur til varðveislu.  Eins hafi verið farið með blóðbletti aftan á bolnum. 

Þá segir að buxur ákærða séu bláar gallabuxur og hafi þær verið ljósmyndaðar.  Fjölmargir rauðleitir blettir séu á báðum skálmum framanvert.  Mun fleiri blettir séu niður eftir allri vinstri skálm, en stærri blettir auk kámbletta séu á hægri skálm, frá streng og niður að hnéhæð.  Sýni hafi verið tekin úr völdum blettum á báðum skálmum og þau reynst vera blóð.  Sýni hafi verið tekin úr sömu blettum og varðveitt á pinnum sem síðan voru settir í pappaöskjur til varðveislu.  Aftan á buxunum séu  stórir kámblettir efst, vinstra megin í streng og ofan við vinstri afturvasa.  Minni blettir og dropar séu niður eftir báðum skálmum, mun fleiri á vinstri skálm.  Sýni hafi verið tekin úr blettum á báðum skálmum og þau reynst blóð.  Sýni úr sömu blettum voru varðveitt á pinnum sem síðan voru settir í pappaöskjur til varðveislu.  Loks hafi verið rauðleitt blóðkám.

Skórnir séu svartir íþróttaskór með hvítri hliðarrönd á sóla, af tegundinni „Adidas“ og stærð 8/42.  Fjölmargir blóðblettir séu sjáanlegir á báðum skóm, sérstaklega ofan á tá og á jaðri sólanna.  Sýni úr sömu blettum hafi verið varðveitt á pinnum í pappaöskjum.

Sýni sem tekin voru af blóði á stuttermabol ákærða, buxum hans og skóm voru send til Statens kriminaltekniska laboratorium í Linköping í Svíþjóð.  Reyndust þau sýni, sem hægt var að greina, öll vera úr ákærða sjálfum eða einhverjum nánum ættingja hans.

Loks er að geta rannsóknar sem Björgvin Sigurðsson gerði á tveimur hnífum sem lagt var hald á í [...].  Samkvæmt staðfestri skýrslu hans er annars vegar um að ræða búrhníf með svörtu tréskefti, sem fannst í garði sunnanmegin við húsið.  Engin tegundarmerking sé á hnífnum en áletrunin „Rostfrei“ sé greypt á aðra hlið blaðs við skefti.  Hnífseggin sé íbjúg en bakkinn sléttur.  Heildarlengd hnífsins sé 32,5 cm en blaðlengd 19,5 cm.  Mesta breidd blaðs sé 4,5 cm.  Skefti sé brotið og hnífsoddurinn brotinn af.  Óhreinindi, rispur og ryðblettir séu báðum megin á blaði og á bakka.  Skemmdir séu á bakkanum, líkt og honum hafi verið barið í hart.  Hnífurinn hafi verið skoðaður með Polilight fjölbylgjuljósgjafa en ekkert markvert hafi fundist á honum.

Hinn hnífurinn sé steikarhnífur með brotnu, svörtu tréskefti.  Engin tegundarmerking sé á honum en áletrunin „Rostfrei“ blaðinu.  Blað var með íbjúgri, tenntri egg og sléttum bakka.  Heildarlengd hnífsins sé 22 cm og blað 11,2 cm.  Mesta breidd blaðs sé 1,6 cm.  Hnífurinn var ljósmyndaður áður en rannsókn hófst.  Hnífurinn hafi verið skoðaður með Polilight fjölbylgjuljósgjafa.  Ljósleitir kámblettir hafi verið sjáalegir báðum megin á blaðinu, líklega fita, en ekkert annað markvert hafi verið sjáanlegt á hnífnum.  Að lokum segir að það sé niðurstaða rannsóknarinnar, að á hnífunum hafi engin lífsýni fundist, sem nothæf væru til DNA- kennslagreiningar.

Aðalmeðferð málsins

Ákærði, sem neitar sök, hefur skýrt frá því að þeir A hafi verið saman í samkvæmi.  Hafi A verið að fara heim úr því og þá kýlt ákærða í andlitið úti á verönd.  Kveðst hann hafa reiðst og farið á eftir honum og þeir lent í áflogum á Skúlagötu.  Aðspurður kveðst hann ekki vita hvort einhver annar hafi tekið þátt í átökunum en þeir tveir.  Þá sé honum ekki kunnugt um að annar maður hafi ráðist á A eftir að átökum þeirra lauk.  Hann kveðst hafa verið nokkuð ölvaður þegar þetta gerðist og muni hann atvikin því ekki betur.  Hann kannast við að hafa farið í [...] eftir átökin, blóðugur og skorinn.  Hann kveðst ekki vita hvernig hann fékk áverkann.  Ekki segist hann aðspurður muna hvort hann fór þar inn á baðherbergi til þess að þrífa sig.  Hann segist ekki vita neitt um hnífinn sem D er sögð hafa fundið á baðherberginu.  Hann kveðst halda að hann hafi ekki haldið á hnífi enda gangi hann ekki með hníf á sér.  Hann segir þá A vera vini.  Hann kveðst ekki hafa haft í hótunum við A í samkvæminu og engar óuppgerðar sakir séu á milli þeirra.  Þá viti hann ekki hvers vegna A sló hann í andlitið og haldi hann að það hafi verið að tilefnislausu.  Aðspurður kveðst hann hafa verið við drykkju frá því um kl. 13 eða 14 þennan dag og hafi þeir A komið saman í [...].  Hann segir engar deilur hafa verið með mönnum í samkvæminu.  Undir ákærða er borin skýrsla hans hjá lögreglu 29. júlí sl. þar sem hann segir A hafa dregið upp hníf.  Hann kveðst ekki muna eftir þessu.  Kannski hafi hann eða einhver annar verið með hnífinn.  Hann muni þó ekki eftir neinum öðrum sem til greina geti komið.   

Ákærði kveðst hafa komið hingað til starfa í [...] og hafa komið sér vel þar.  Fjölskylda hans sé ekki búsett hér.  Hann eigi kærustu í Póllandi.  Hann sendi stundum hluta af launum sínum til Póllands.  Hann segist einungis drekka um helgar, stundum meira en stundum minna, t.d. tvo bjóra.          

A kveðst ekki muna vel eftir atvikum en muna það að hann sneri sér við og tók eftir ákærða og að ákærði særði hann.  Hann segir allt hafa verið í góðu með þeim tveimur þegar þeir fóru saman í samkvæmið.  Hafi þeir setið saman að drykkju.  Hann hafi svo haldið heim og svo séð ákærða seinna.  Meira muni hann ekki.  Undir hann er borið það sem hann sagði hjá lögreglu að ákærði hefði hótað honum í veislunni.  Hann segir að hann hafi verið undir áhrifum morfíns þegar hann gaf skýrsluna og muni hann ekki allt sem hann sagði þá.  Hann segist ekki muna hvort ákærði hótaði honum.  Hann segist ekki vera hræddur við ákærða nú.  Hann kveðst ekki muna hvort hann sló ákærða, eins og hann segi.  Muni hann ekki hvort þeir ákærði lentu í átökum.  Það eina sem hann muni sé þegar hann sneri sér við og sá ákærða á götunni, mjög nálægt sér.  Ekki muni hann nákvæmlega hvernig þeir sneru þá hvor við öðrum.  Hafi hann fundið fyrir stungu og einhverju heitu á síðunni.  Hann hafi fallið við og muni hann næst eftir sér á spítalanum.  Kveðst hann halda að enginn annar hafi verið þarna nema ákærði og svo móðir hans, þótt hann geti ekki verið viss um það þar sem þetta gerðist allt svo snöggt og hann var jafnframt ölvaður.  Hann segist alls ekki hafa verið með hníf þarna.  Segist hann aldrei hafa skaðað nokkurn mann og aldrei ganga með hníf.  Hann kveðst hafa verið undir áhrifum áfengis, nógu ölvaður til þess að muna ekki allt.  Aðspurður segir hann að þegar hann sneri sér við hafi ákærði sagst myndu drepa hann.  Hann sé þó ekki alveg viss um þetta.  Undir hann er borið það sem hann sagði hjá lögreglu 3. ágúst að ákærði hefði einnig reynt að skera hann á háls.  Hann hefði þó getað hörfað undan laginu, en samt fengið rispu á hálsinn.  Segir hann þetta geta verið en hann muni það ekki fyllilega.  Hafi hann þá verið undir áhrifum verkjalyfja og gæti af þeirri ástæðu hafa sagt eitthvað sem ekki var rétt.  Hann segist hafa verið með skurð á hálsinum eftir hníf en hvernig það gerðist viti hann ekki fyllilega.  Hann kveðst ekki muna hvernig hann fékk skurðinn á bakið.  Hann segist ekki muna eftir neinum illdeilum sem leitt gætu til svo alvarlegrar árásar.  Hann segist ekki hafa hugmynd um það hver annar gæti hafa ráðist á hann.  Hann segist ekki drekka oft og yfirleitt ekki svo að hann muni ekki eftir sér.  Í þetta skipti hafi hann drukkið meira en venjulega og muni því ekki allt nákvæmlega.  Sé hann rólegur með víni en hafi þó gaman af því að grínast.  Hann segist aðspurður halda að enginn annar en ákærði hafi getað veitt honum þessa áverka.  Hann kveðst hafa kynnst ákærða fyrir um sex mánuðum síðan.  Hafi verið kunningsskapur með þeim.

A segir eftir að hafa horft á upptökuna af skýrslunni 3. ágúst að örugglega sé ekki allt til enda rétt sem hann segi þar, enda hafi hann verið mjög ölvaður þegar atvikin urðu.  Nú þegar hann hugsi aftur til þeirra muni hann ekki sumt.  Viti hann ekki hvort hann mundi atvikin betur þegar hann gaf skýrsluna. 

H hefur skýrt frá því að hún hafi verið á reiðhjóli þegar hún sá sér á vinstri hönd að sonur hennar var á gangi. Á móts við Fíladelfíu hafi komið strákur og farið að öskra á son hennar.  Hafi hann hlaupið aftan að syni hennar og stefnt einhverju, sem hann var með í hendinni, að höfði sonarins.  Hafi sonurinn dottið við það.  Kveðst hún hafa hraðað sér þangað og sagt við strákinn að láta A í friði því hann væri að drepa hann.  Hafi blóð lekið úr munni A.  Hafi strákurinn svo skorið son hennar á bakinu.  Það hafi enginn annar verið þarna og hún farið að öskra.  Tvær konur hafi komið akandi á bíl og numið staðar.  Þá hafi komið þarna að hlaupandi hópur fólks sem virtist á ferðalagi.  Hafi það hringt á sjúkrabíl og lögreglu.  Hún segir að árásarmaðurinn hafi verið lægri en sonur hennar, með skollitað hár í bleikum bol og gallastuttbuxum.  Nánar aðspurð segir hún þetta hafa verið hnésíðar buxur en einnig geti verið að brett hafi verið upp á skálmarnar.  Hafði hún aldrei séð mann þennan áður.  Hún sér ákærða í dóminum og segist hún vera viss um að hann sé maðurinn sem réðist á son hennar.  Hún segist ekki hafa séð neinn annan en þennan mann þarna en þetta hafi gerst úti á miðri götu.  Í fjarlægð hafi verið tveir strákar sem fylgdust með og komu svo að.  Hafi þeir talað við lögregluna.  Undir vitnið er borinn framburður tveggja kvenna hjá lögreglu um að þær hafi séð tvo menn ráðast á þann þriðja.  Hún segir þær hafa komið að á eftir henni og kveðst hún hafa stöðvað þær.  Hún ítrekar að enginn annar árásarmaður en ákærði hafi verið þarna en tveir menn verið handan götunnar.  Hafi þeir svo komið að eftir átökin, þegar A féll í jörðina.  Hafi þeir svo talað við lögregluna þegar hún kom á vettvang.  Henni eru sýndar myndir af hnífunum sem eru í málinu og segir hún minni hnífinn vera líkari þeim sem árásarmaðurinn var með.  Hún segir árásarmanninn hafa flúið í sömu átt og hann kom úr.  Hún kveðst hafa tekið bolinn, alblóðugan, til handargagns.  Hún hafi svo afhent rannsóknarlögreglumanni hann.  Hún staðfestir lýsingu sína á árásarmanninum sem hún gaf í lögregluyfirheyrslunni 28. júlí sl.             

D hefur skýrt frá því að hún hafi verið í samkvæmi í [...].  Kveðst hún ekki hafa orðið vör við að hótanir eða nokkuð annað misjafnt færi á milli manna.  Hafi einungis verið um venjuleg strákalæti að ræða.  Hún segist ekki hafa orðið vitni að líkamsárásinni og ekki orðið vör við það þegar ákærðu og [...] fóru út, enda margt fólk í samkvæminu.  Hún segir ákærða hafa verið blóðugan og skorinn á hendi þegar hann kom inn í húsið og með hníf.  Hafi hann hlaupið inn á baðherbergi til að reyna að loka fyrir skurðinn.  Hann hafi sett hnífinn á vaskinn en hún hafi tekið hnífinn.  Hafi hún svo vísað lögreglunni á hann.  Henni eru sýndar myndir af hnífi í málinu og kveðst hún ekki muna hvort hann líkist hnífnum sem hún vísaði lögreglunni á.  Ákærði hafi enga skýringu gefið á blóðinu.  Hún segir B hafa komið inn með ákærða og hjálpað honum vegna sársins.  Hún segist hafa ákveðið að þrífa húsið og taka til.  Hafi hún þess vegna tekið hnífinn til handargagns.

E hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hún hafi verið farþegi í bíl sem, L ók.  Hafi þær beygt frá Sæbraut upp Höfðatún.  Þegar komið var langleiðina upp Höfðatún „sáum við áflog framundan og mér finnst, það sé í minni mínu núna, að þeir hafi verið hvítir að ofan.  Þeir voru svona álútir og mér fannst þessir vera bara unglingar að stympast“ og ekki beint að slást heldur eins og að ýta.  Þegar þær nálguðust hafi hún beðið L að nema staðar því hún ætlaði út að tala við þá.  Hafi hún hætt á þetta, að hún heldur, vegna þess að hún áleit þetta vera unglinga, stráklinga sem hún gæti fengið til þess að hætta að slást á götunni og færa sig heldur upp á grasið.  Um leið og L hafi numið staðar „og það kemur kona, svartklædd á reiðhjóli ofan frá Laugavegi ... tekur snarbeygju og beint og mér fannst hún fara svo fram hjá þeim, nálægt þeim að hún hefði“ komið við þá.  Trúlega hafi hún verið sú fyrsta sem kom að þessum mönnum.  Síðan kveðst hún hafa farið úr bílnum og „um leið og hún fer framhjá, L stoppar, þá taka tveir þeirra á rás yfir götuna og einn liggur á götunni.“  Hafi þetta verið, að henni fannst, ungir og grannir og með ljósan hörundslit en hún kveðst aðeins hafa séð þetta í sviphendingu.  Hún hafi fyrst haldið að maðurinn á götunni gæti staðið upp sjálfur viljað rétta honum höndina og reisa hann við.  Þá hafi hún séð að hann var alblóðugur.  Nánar spurð út í það sem hún segir, að hún hafi séð þrjá menn í átökum og tvo hlaupa á brott, segir hún að henni hafi fundist það.  Geti hún ekki fullyrt að þeir hafi verið þrír.  „Þetta voru eins og þrír eða tveir, þrír menn.  En alla vega hlupu tveir í burtu og einn varð eftir.“  Þessir tveir hafi hlaupið niður Höfðatúnið.

L hefur skýrt frá því að þær E hafi verið að koma frá [...] í bíl hennar.  Kveðst hún hafa beygt upp hjá Höfða og þegar þær voru komnar upp fyrir Hringtorgið „sáum við að það lágu einhverjir...einhver hrúga ... slagsmál, sýndist okkur..“ rétt ofan við gatnamótin á Skúlagötu.  Hún hafi ekið áfram því hún áleit að þeir myndu fara.  Þeir hafi þó ekki gert það og hún ekið áfram nærri því alveg upp að þeim.  Hafi þær þá séð að tveir menn lágu ofan á einhverjum og „voru að lemja hann, gengu í skrokk á honum“.  Þeir hafi ekki hreyft sig og hún þess vegna ekið áfram alveg að þeim og hleypt E út.  Þær hafi ekki séð þá hvað maðurinn var slasaður.  Þeir hafi ekki farið af manninum né hætt að berja hann fyrr en hún var komin alveg að þeim á bílnum.  Kveðst hún hafa stigið út og ætlað að ná í símann úr aftursætinu en annar maður hafi þá verið búinn að hringja á lögregluna, sem hafi komið mjög fljótt.  Hún segir mennina svo hafa hlaupið á brott yfir Höfðatúnið og inn í Skúlagötuna, hoknir, eins og þeir væru að fela sig á milli bílanna sem þar stóðu.  Hún kveðst ekki hafa séð framan í þessa menn.  Meðan á þessu gekk hafi komið kona ofan frá Laugavegi á hjóli.  Hafi hún hent hjólinu frá sér og öskrað, alveg vitfirrt: „It´s my son, it´s my son!“  Kveðst hún hafa gengið að manninum sem lá í götunni.  Kveðst hún þá hafa séð stungu undir herðablaðinu.  Þá segist hún hafa séð fleiri rispur eða stungur neðar á honum og þetta hafi hún séð mjög greinilega.  Hún segist aðspurð ekki hafa séð hníf þarna en segir menn hafa látið hnefana ganga.

C hefur greint frá því að hann hafi verið staddur í samkvæminu í [...] í umrætt sinn.  Hann segist ekki hafa orðið var við að neitt missætti væri með þeim A og Rafal og hefðu þeir tveir komið saman í samkvæmið.  Þeir tveir hafi orðið ölvaðir og hann sjálfur einnig.  Hann kveðst ekki hafa orðið var við að þeir tveir yfirgæfu samkvæmið.  Ákærði hafi komið inn alblóðugur og kveðst hann hafa farið að stumra yfir honum.  B hafi verið fyrir í húsinu þegar ákærði kom inn.  Hafi hann farið með ákærða og stúlku, sem verið hafi allsgáð, út í bíl til þess að fara með hann til læknis.  Hann kveður ákærða ekki hafa verið með neitt í höndunum þegar hann kom inn.  Hann segist ekki hafa séð neinn hníf þarna.  Lögreglan hafi komið eftir stutta stund og allt gerst mjög hratt. 

B hefur skýrt frá því að hann hafi verið í [...] í samkvæminu, þáverandi heimili sínu.  Hann segir þau öll hafa setið saman í sátt og samlyndi og engar deilur eða orðahnippingar verið með mönnum, a. m. k. muni hann ekki eftir slíku.  Hann kveðst hafa verið ölvaður þegar þetta var.  Hann kveðst ekki hafa orðið var við að ákærði og A yfirgæfu samkvæmið.  Hann kveðst ekki muna eftir eða vita neitt um það sem kann að hafa gerst eftir árásina.  Hann muni þó eftir því að hafa verið handtekinn við hraðbankann í [...] á móti [...].  Hafi hann þá séð blóð á ákærða en þeir hafi verið þar saman og man hann að hann hafi þá verið að binda um sár ákærða.  Lögreglan hafi svo komið að þeim og handtekið þá.  Hann muni ekki hvort ákærði hafi sagt hvernig á áverkanum stæði eða til þess að ákærði hafi sagst hafa stungið manninn.  Þá muni hann ekki eftir sér í íbúðinni með ákærða blóðugum.  Hafi hann ekki séð blóð í íbúðinni fyrr en daginn eftir, þegar lögreglan hafði sleppt honum úr haldi.  Undir vitnið eru bornar myndir af tveimur hnífum í málinu.  Kveðst hann kannast við stærri hnífinn af brotnum oddinum.  Um minni hnífinn sé það að segja að hann eigi svipaðan hníf en hann viti ekki hvort myndin sé af honum.

Bjarni Torfason yfirlæknir, sem staðfestir vottorð sitt í málinu, segir að frá stungusárinu sé stutt í hjartað og mjög stutt í ósæðina.  Hvorki hafi þó verið merki um skaða á hjartanu né ósæðinni.  Sárið hafi náð í gegnum brjóstvegginn og hnífurinn náð inn í lungað og gert á það gat.  Hann viti ekki hvers konar hníf var um að ræða og venjulega ýtist lungað undan hnífslagi þannig að í þessu tilviki sé ekki vitað hvor hnífurinn náði svo djúpt að hann hefði getað komið í hjartað.  Það sé þó ekki langt frá hjartanu út í brjóstvegginn vinstra megin í brjóstinu.  Aðspurður segir læknirinn að hnífur með 11 cm löngu blaði hefði getað náð inn í lífsnauðsynleg líffæri.  Ekki sé útilokað að hægt hefði verið að bjarga manninum þótt hann hefði fengið stungu í sjálft hjartað eða ósæðina en lífshættan hefði verið gríðarlega miklu meiri í þeim tilvikum og þurft að bregðast mjög rösklega við til þess að bjarga lífi mannsins.  Aðspurður hvað gerst hefði ef ekki hefði verið gert að áverka A segir læknirinn að hann hefði fengið samfall á vinstra lunga en ekki sé endilega víst að hann hefði dáið af því. 

Stefán Fróðason lögreglumaður hefur komið fyrir dóm og sagt að hann hafi verið í fyrsta lögreglubílnum sem kom á vettvang.  Kveðst hann hafa rætt við fólk sem þar var fyrir, þar á meðal tvo pólska karlmenn sem hafi verið æstir og ölvaðir.  Sögðust þeir þekkja manninn sem stunginn hafði verið en ekki séð atburðinn.  Þarna hafi verið kona í miklu uppnámi, að sögn móðir þess sem stunginn hafði verið.  Hafi annar ölvuðu karlmannanna túlkað yfir á ensku það sem konan sagði á pólsku.  Hafi konan lýst manni sem hefði veist að syni hennar og hlaupið á brott.  Þarna hefði verið hjúkrunarkona sem hefði, að hann kvaðst halda, komið fyrst á vettvang.  Sagði hún tvo menn, sem hún sá ógreinilega, hafa hlaupið niður Höfðatún. 

Fram er komið í málinu að í pólsku er ekki til eitt lýsingarorð sem notað sé um skolhærður heldur eru notuð um þann háralit orð eins og dökkur eða „dökk-blond“.

Samantekt

Ákærði, vettvangur, hnífur o.fl.

Fyrir liggur að ákærði var skorinn á hendi og alblóðugur þegar hann var handtekinn.  Tvö vitni, þau C og D hafa borið að ákærði hafi komið aftur í íbúðina í [...], alblóðugur og skorinn.  Þá er komið fram að blóðslóð lá frá vettvanginum að [...] og þar inn á baðherbergi.  Engu verður slegið föstu um það hvernig ákærði skarst á hendi en ætla verður af blóðslóðinni að það hafi gerst á vettvanginum.  D hefur jafnframt sagt hníf hafa orðið eftir í baðvaskinum eftir að ákærði hafði athafnað sig við hann.  Ekki er, vegna skýrrar frásagnar hennar hjá lögreglu, óhætt að byggja á því að hún hafi séð ákærða koma inn með hnífinn, eins og skilja má af framburði hennar fyrir dómi.  Hins vegar segist hún hafa tekið hnífinn til handargagns og vísað lögreglunni á hann.  Styðst það atriði við  lögreglurannsóknina, en samkvæmt henni var eftir tilvísun hennar lagt hald á steikarhníf með tenntu, mjóu og 11 cm löngu blaði.  H hefur séð mynd af þessum hnífi og segir hann líkjast þeim hnífi sem ákærði var með.  Af læknisvottorðinu má einnig ráða að stungusárið hafi hlotist af mjóu áhaldi.

Kennsl

Fyrir liggur að ákærði og A voru kunnugir þegar atburðurinn varð og höfðu komið saman í samkvæmið í [...] og verið þar að drykkju.

H hefur lýst árásarmanninum svo að hann hafi verið ungur, skolhærður og grannvaxinn.  Verður að telja að þessi lýsing svari til útlits ákærða.  Þá er á það að líta að hún sá ákærða í dóminum og sagði hann hiklaust og afdráttarlaust vera árásarmanninn.  Hins vegar álítur dómurinn lítið leggjandi upp úr því, sem haft var eftir H, í skýrslu Stefáns Fróðasonar um háralit mannsins, enda hafði það skolast um þrjú tungumál og þar að auki með milligöngu drukkins manns.  Er þá einnig haft í huga það sem sagði um það hér að framan hvernig „skolhærður“ er orðað á pólsku.

Fyrir liggur að ákærði var klæddur í hvítan stuttermabol með stórum áletrunum að framan, þar af einni í skærrauðum lit.  Var bolurinn jafnframt talsvert blóðugur, eins og sést á ljósmyndum í málinu.  Þá var ákærði klæddur í síðar, bláar gallabuxur.  Á myndum af þeim má sjá að blóðblettir eru dreifðir um þær allar, nema aðra skálmina framanverða, frá hné og niður úr, en þar er ekki blóð að sjá.  Mest er blóðið aftan á buxunum, á streng og neðan við hann.  H hefur sagt árásarmanninn hafa verið klæddan í bleikan bol og stuttar gallabuxur eða hnésíðar eða jafnvel með uppbrettum skálmum.  Þegar það er haft í huga að rauður litur var í hvítum bol ákærða og að ekki skakkar miklu um skálmarnar verður ekki séð að slíkt ósamræmi sé með lýsingu H á fatnaði árásarmannsins og því sem fram er komið um fatnað ákærða að það dragi úr vægi framburðar hennar að þessu leyti. 

Framburður ákærða og vitna um atvikin

Fram er komið að fólkið í [...] var mjög ölvað, einkum karlmennirnir. Þá virðist á stundum hafa gætt nokkurrar tregðu hjá þeim til þess að bera um málsatvikin.

Ákærði neitar sök.  Hann kannaðist við það í yfirheyrslum hjá lögreglu að hafa ölvaður lent í átökum við A utanhúss eftir að A sló hann og hefði hnífi verið beitt.  Ekki vissi hann hvort hann hafði veitt A áverka með hnífnum en hann kvaðst hafa náð af honum hnífnum.  Þá myndi hann eftir að hafa legið í jörðinni ásamt A og að kona var þar hjá og öskraði.  Hefðu ekki aðrir verið þar en hún.  Þá sagðist hann hugsanlega hafa veitt A áverkana en slíkt hefði hann ekki getað gert fullmeðvitaður.  Þá sagðist hann einungis muna atburðarásina í brotum vegna ölvunar.  Fyrir dómi hefur hann einnig kannast við að hafa átt í átökum við A á Skúlagötu eftir að A hafði kýlt hann.  Viti hann ekki hvernig standi á hnífnum sem fannst í [...]. 

A sagðist í lögregluyfirheyrslum muna eftir miklum sársauka í síðunni og blóði.  Hefði hann litið við og séð ákærða.  Ákærði hefði svo reynt að skera hann á háls en hann hopað undan og því aðeins rispast á hálsinum.  Ákærði hefði haldið áfram og skorið hann í bakið.  Fyrir dómi hefur brotaþoli sagt að á leiðinni hafi hann heyrt rödd sem sagðist mundu drepa hann.  Hafi hann snúið sér við og séð ákærða þétt hjá og fundið fyrir stungu og einhverju heitu á síðunni.  Telur hann ákærða og móður sína vera eina fólkið sem þarna var, þótt hann geti ekki verið viss um það vegna ölvunar.  Brotaþoli hefur svo dregið nokkuð úr því sem hann hefur sagt fyrir dómi og hjá lögreglu.  Þannig kveðst hann ekki vera alveg viss um að ákærði hafi sagst mundu drepa hann.  Þá muni hann nú ekki hvort ákærði reyndi að skera hann á háls og muni ekki eftir því þegar hann var skorinn á bakinu eða hvernig.  Sé ekki allt rétt sem hann sagði í skýrslunni 3. ágúst.  Segist hann þá hafa verið undir áhrifum verkjalyfja.  Dómurinn álítur þessa fyrirvara brotaþola fyrir dómi vera léttvæga og að á þeim sé önnur skýring.

H var yfirheyrð af lögreglu á slysadeildinni þegar um kvöldið 28. júlí sl., um 40 mínútum eftir að komið var þangað með son hennar.  Hafði hún séð atburðinn og sagði strák hafa öskrað á og hlaupið að A og virst slá og sparka í hann svo hann féll.  Hefði hún þá orðið þess vör að strákurinn var með hníf í hendi.  Lýsti hún árásarmanninum í nokkrum atriðum, eins og rakið var.  Fyrir dómi hefur hún gefið samhljóða skýrslu en ítarlegri.  Þannig hafi strákurinn fyrst reitt eitthvað aftan frá að höfði A, sem féll við.  Þá hafi hann skorið A á baki.  Enginn annar en þau þrjú hafi verið þarna, nema tveir menn handan götunnar, sem þetta gerðist á. 

E kveðst hafa, á leið í bílnum upp Höfðatún, séð það sem hún áleit vera stympingar unglinga framundan.  Hafi hún farið út til þess að skakka leikinn.  Þá hafi tveir þeirra tekið á rás niður Höfðatún en einn legið eftir og hún svo séð að hann var alblóðugur.  Hún sé ekki viss um að áflogamennirnir hafi verið þrír og geti þeir hafa verið tveir.  Hún sé þó viss um að tveir hafi hlaupið á brott og einn orðið eftir.  Þá kveðst L, sem ók bílnum upp götuna, hafa séð hrúgu manna fram undan í slagsmálum rétt ofan við gatnamótin við Skúlagötu.  Þegar að þeim kom hafi hún séð tvo liggja ofan á þeim þriðja, lemja hann og ganga í skrokk á honum þar til bíllinn var kominn alveg að þeim.  Þessir tveir hafi svo hlaupið á brott yfir Höfðatúnið og inn í Skúlagötuna, hoknir, eins og þeir væru að fela sig á milli bílanna sem þar stóðu.  Frásögn þeirra E og L verður að skoða með það í huga að þær sáu atburðinn úr fjarlægð og úr bíl á hreyfingu og einnig það að L hefur jafnframt þurft að hafa hugann við aksturinn.  Verður að telja að þetta setji mark á skýrslur þeirra.  Þannig segist E hafa haldið, allt þar til hún kom að þeim sem lá í götunni, að um stympingar unglinga væri að ræða.  Þá taldi L sig sjá hrúgu manna á götunni og hnefahögg ganga þar á milli þeirra en þetta er ekki í samræmi við áverkana á A.  Það sem þær segja um fjölda árásarmannanna er ekki í samræmi við frásögn þeirra A, H og ákærða.  Reyndar er E ekki viss um það hvort árásarmaðurinn var einn eða hvort þeir voru tveir.  Þá kemur fram í skýrslum E og H að sú síðarnefnda var fyrir á vettvangi þegar þær hinar bar þar að.  Loks er það að athuga að L segist hafa séð árásarmennina flýja út Skúlagötuna, en það hefur ekki stoð af öðru í málinu. 

Niðurstaða

Þegar haft er í huga að ákærði hefur viðurkennt að hafa átt í átökum við A þar sem hnífur kom við sögu, það að A og H, sem var nærstödd þegar atburðurinn varð og hefur borið kennsl á ákærða, hafa bæði sagt hann hafa veist að A með hnífi og veitt honum áverkana og loks þegar það er haft í huga, sem rakið var um ákærða, hnífinn og vettvanginn hér að framan, telst vera sannað að ákærði veittist að A og veitti honum þá áverka með hnífi sem lýst er í ákærunni, þar á meðal hnífsstungu sem gekk inn í annað lungað, stutt frá hjarta og ósæð.  Hnífsstungu í brjósthol manns verður að telja svo hættulega að langlíklegast sé að hún valdi dauða þess sem fyrir verður.  Gat ákærða ekki dulist þetta og skiptir ekki máli þótt ekki sé víst að brotaþoli hefði í þessu tilviki dáið af stungunni.  Verður því að líta á atlögu ákærða sem tilraun til manndráps og telja að hann hafi með henni gerst brotlegur við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Sakaferill ákærða, sem er sakhæfur, hefur ekki þýðingu fyrir mál þetta.   Ætla má af framburði ákærða og vitna að ákærði hafi ráðist á brotaþola í framhaldi af einhverri móðgun eða misgerð í garð ákærða.  Verður þó ekki litið svo á að hún hafi verið svo mikil að 4. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga greinir.  Þykir refsing ákærða því vera hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár.  Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 29. júlí sl., samtals 138 daga.

Af hálfu A hefur þess verið krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum 3.000.000 króna í miskabætur og 5.000 krónur í bætur fyrir sjúkrakostnað.  Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða af bótafjárhæðinni vexti skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 28. júlí 2012 en síðan dráttarvexti af henni skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  Ber að dæma ákærða til þess að greiða A 900.000 krónur í miskabætur og 5.000 krónur í bætur fyrir fjárhagstjón ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 28. júlí 2012 til 2. nóvember 2012, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 700.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.

Dæma ber ákærða til þess að greiða Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl. 500.000 krónur í réttargæsluþóknun, sem dæmist með virðisaukaskatti.

Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða annan sakarkostnað, 451.163 krónur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Rafal Gawot, sæti fangelsi fangelsi 5 ár.  Frá refsingunni dregst 138 daga gæsluvarðhald.

Ákærði greiði A 905.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum, samkvæmt 8. gr. vaxtalaga, frá 28. júlí 2012 til 2. nóvember 2012, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærði greiði verjanda sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 700.000 krónur í málsvarnarlaun og Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl. 500.000 krónur í réttargæsluþóknun.

Loks greiði ákærði 451.163 krónur í annan sakarkostnað.