Hæstiréttur íslands

Mál nr. 35/2005


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Tilraun
  • Vopnalagabrot
  • Upptaka


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. maí 2005.

Nr. 35/2005.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

George Voskanian

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

 

Líkamsárás. Tilraun. Vopnalagabrot. Upptaka.

G var sakfelldur fyrir tilraun til líkamsárásar með hnífi. Var verknaðurinn talinn varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. laganna. Þar sem hnífur sá sem í ákæru var getið var ekki fjaðrahnífur og ekki þeirrar gerðar sem lýst er í a. – f. liðum 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 var G sýknaður af broti gegn b. lið ákvæðisins. Hins vegar var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 30. gr. laganna. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tíu mánuði en átta mánuðir af refsingunni voru skilorðsbundnir.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu hans og staðfestingar um upptöku.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

          Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru með þeim athugasemdum að hnífur sá sem þar getur var ekki fjaðrahnífur heldur með innfeldu blaði, 8, 8 cm löngu, og er ekki þeirrar gerðar sem lýst er í a. - f. liðum 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.  Verður ákærði því sýknaður af broti gegn b. - lið 2. mgr. 30. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er vopnaburður á almannafæri bannaður, en heimilt er að bera á sér bitvopn þar sem það getur talist eðlilegt og sjálfsagt. Telja verður að ákærði hafi brotið gegn þessu ákvæði með því að bera með sér hnífinn umrætt sinn.

          Í ákæru er líkamsárásarbroti ákærða lýst með þeim hætti að hann hafi „reynt að stinga ... með fjaðrahnífi”. Verknaðinum er þannig lýst sem tilraun til líkamsárásar en ekki fullfrömdu broti. Eins og fram kemur í héraðsdómi var atlaga ákærða að A sérstaklega hættuleg þar sem hnífi var beitt og tilviljun réði að ekki fór verr. Varðar þessi verknaður ákærða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, sbr. 20. gr. laganna. Með vísan til þess og forsendna héraðsdóms fyrir ákvörðun refsingar verður hún ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Ákærði hefur einu sinni áður gerst sekur um hegningarlagabrot, en með dómi 4. febrúar 2004 var hann dæmdur í fangelsi í 45 daga, skilorðsbundið í þrjú ár, vegna þjófnaðar. Þykir mega fresta fullnustu átta mánaða af refsingunni og fellur hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

          Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga verður staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku.

          Ákvæði héraðsdóms sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Ákærði, George Voskanian, sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu átta mánaða af refsingunni og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykja­víkur 16. desember 2004.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 20. ágúst 2004, á hendur:  „George Voskanian, [kt], Víðimel 21, Reykjavík, fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir og ólöglegan vopnaburð á almannafæri, með því að hafa fimmtudaginn 19. júní 2003, á veitingastaðnum Bomkikker við Hafnarstræti 6, Reykjavík, veist að A og B og reynt að stinga þá með fjaðrahnífi sem hann hafði í vörslum sínum.

Þessi háttsemi ákærða þykir varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 1. mgr. og b-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum hnífi samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 37. gr. vopnalaga.”

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá krefst hann málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málsatvik

             Samkvæmt lögregluskýrslu dagsettri 19. júní 2003 var lögregla send að Hafnarstræti 6 en þaðan hafði borist tilkynning um æstan mann innandyra.  Á leiðinni á vettvang var lögreglumönnum tjáð að þessi maður hefði verið með hníf en búið væri að afvopna hann og væri hann í tökum hjá starfsmönnum staðarins.  Er lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir ákærða liggja á gólfinu og nokkra aðila halda honum.  Á vettvangi ræddu lögreglumenn við A, B og C sem kváðust öll hafa séð hvað gerðist þarna.

             A, eigandi staðarins, sagði þau þrjú hafa setið við borð inni á staðnum þegar útidyrahurðin hafi verið opnuð og ákærði hafi komið inn og gengið beint að borði þeirra.  Hann hafi verið með latexhanska og haldið á hníf.  Ákærði hafi síðan staðið við borðið á milli hans og B og spurt á ensku hvort hann héti A en því næst hafi hann hafið hnífinn á loft og sveiflað honum, bæði að honum og B.  A kvaðst þá hafa rokið í manninn en það hafi B einnig gert en á milli þeirra hafi orðið átök.  Ákærði hafi reynt að ná til þeirra nokkrum sinnnum með hnífnum áður en þeim hafi tekist að afvopna hann.  A kvaðst ekki þekkja ákærða.  Hann kvaðst hafa bitið ákærða í átökunum í fingur vinstri handar. 

             B sagðist hafa setið við borð hjá A og C en þá hafi útidyrahurðin opnast og ákærði komið inn og gengið rakleitt að borðinu þeirra og spurt á ensku hvort þarna væri maður sem héti A.  Í framhaldi af því hafi hann hafið hnífinn á loft og reynt að ná bæði til hans og A.  A hafi þá staðið upp og farið í manninn en B kvaðst einnig hafa farið í hann til að ná honum niður.  Komið hafi til átaka og liðið hafi nokkur stund þar til þeir náðu að afvopna ákærða.  Hann sagði ákærða hafa náð að ógna þeim með hnífnum nokkrum sinnum í átökunum. 

Bsagði ákærða vera kærasta barnsmóður sinnar.  Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða áður en fengið morðhótanir frá honum í gegnum síma.  Barnsmóðir hans, D, væri mjög ósátt við hann en þau væru að ganga í gegnum skilnað.  Hann kvaðst vera að sækja um forræði yfir barni þeirra en barnið hafi verið hjá D undanfarna daga.  B kvaðst hafa fengið símtal frá D fyrr um daginn þar sem hún hafi hótað að hann fengi ekki barnið aftur.  B kvaðst vera fullviss um að D hafi sent ákærða til að gera honum mein. 

             C kvaðst hafa setið til borðs með B og A.  Ákærði hafi þá komið inn á staðinn með latexhanska og haldið á hníf, að hún hélt í hægri hendi.  Hún sagði  hann hafa haft hnífinn upp með handleggnum fyrst en þegar hann hafi verið kominn að borðinu hafi hann lyft hnífnum og reynt að ná til A og B, fyrst A og svo B.  Þetta hafi verið ein sveifla með hnífinn.  Þá hefðu A og B farið í manninn og reynt að ná hnífnum af honum.  Komið hafi til átaka og nokkur tími hafi liðið þangað til þeir hafi haft hann undir og náð af honum hnífnum.  C kvaðst vera málkunnug ákærða og oft hafa séð hann áður. 

             Hnífur sem B og A kváðu ákærða hafa verið með var haldlagður, sem og blóðugur latexhanski. 

             Farið var með ákærða á slysadeild en síðan á lögreglustöðina við Hverfisgötu.

A og B lögðu fram kærur vegna málsins 19. og 20. júní 2004 en þá afhenti A lögreglu skyrtuna sem hann kvaðst hafa verið í þegar ákærði réðst á hann.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákærði neitar sök.  Hann kvaðst búa með D en hún hafi verið eiginkona B og þau eigi tveggja og hálfs árs gamalt barn saman.  Hann sagði B hafa hótað sér ýmsu.  Ákærði sagði að ef hann myndi rétt hafi einhver á mánudegi í þessari viku, áður en hann fór í vinnuna, byrjað að hringja í D en henni hafi verið sagt að koma strax með barnið til B.  Hafi henni verið hótað að hún myndi aldrei fá að sjá barnið þar sem ekki væri samkomulag um forsjá barnsins á milli þeirra.  Hann kvaðst á þessum tíma hafa verið að hreinsa salerni á heimili sínu og taka þar til er B byrjaði að hringja í farsíma hans og hafi sagt við sig að hann þekkti götunúmerið, vinnunúmerið og vinnuheimilisfang.  Hann kvað félaga B hafa hringt tveimur mínútum síðar. Þeirra á meðal hafi verið maður sem hafi kynnt sig sem A, yfirstjórnanda dyravarða á [..] bar.  Hann sagði þennan mann hafa endurtekið það sem B hafði sagt og að hann hefði hótað honum.  Hann kvað D hafa verið æsta út af þessu og barnið hafi grátið og hafi D beðið hann um að verja sig.  Hann sagði meðleigjanda sinn hafa reynt að sannfæra sig um að hringja í lögregluna en hann hafi talið það þýðingarlaust eins og á stóð.  Ákærði kvaðst hafa hugsað um þetta í nokkrar mínútur en síðan ákveðið að fara og tala við fyrrverandi vinkonu sína sem heiti C.  Hann farið akandi og lagt bílnum fyrir utan barinn þar sem hann fór inn en þar hafi verið a.m.k. fimm menn sem hafi setið við borð að drekka.  Hafi hann spurt C hver þessi A væri.  Þá hafi maður strax staðið upp.  Maðurinn hafi gripið í jakkann sinn og byrjað að slá sig í andlitið og í sama mund hafi einhverjir byrjað að slá hann aftan frá.  Ákærði kvaðst hafa tekið hnífinn með sér en hann hafi verið í vasanum.        

Ákærða var sýnt ljósmynd af hníf meðal gagna málsins en sagði hann ekki vera hnífinn sem hann var með en sá hnífur hafi verið mjög líkur þeim sem ljósmynd er af.  Hann kvaðst ekki vita hvað varð um hnífinn sem hann var með en hann kvaðst hafa misst hann úr vasanum. Hann kvaðst hafa greint lögreglunni sem kom á vettvang frá því að hann hefði verið með hníf en honum þá verið sagt að hann hefði verið tekinn af lögreglu. 

  Ákærði kvaðst ekki hafa ætlað að mæta á barinn með hnífinn.  Hann kvaðst hafa ætlað að geyma hann í bílnum en þegar hann hafi mætt hafi hann verið með hnífinn í vasanum.  Hann kvaðst ekki vita að það væri ólöglegt að eiga svona hníf.  Hann kvaðst hafa komið með hnífinn til Íslands með alls konar eldhúshnífum. 

Ákærði sagði að þegar mennirnir hafi byrjað að slá hann hafi hann misst hnífinn úr vasanum.   Hann sagði einhvern hafa verið fyrir aftan sig með hníf.  Hann kvaðst hafa gripið í hnífinn, en hann hafi haldið að þetta væri hnífurinn sem hann var með, og haldið á hnífnum þangað til hann datt í gólfið en þá hafi hann fljótlega gefist upp.  Hann sagði að þá hefði einhver barið sig í fæturna og stigið á hann en a.m.k. fimm menn hafi framkvæmt þetta.  Þeir hafi einnig hótað honum.  Ákærði sagði einhvern annað hvort hafa byrjað að bíta í höndina á sér eða skera eða stinga í höndina en hann muni það ekki alveg.  Hann kvaðst ekki muna hvort það var hundur, sem þarna var, eða hver reyndi að opna höndina á sér og setja eitthvað þar.  Hann sagði að þegar lögreglumennirnir hafi komið hafi hann verið liggjandi með andlitið í gólfið.  Ákærði neitaði því að hafa veist að A og B og reynt að stinga þá með hnífnum.

Vitnið, E, kvaðst leigja herbergi með ákærða og D unnustu hans.  Þau hafi öll verið að hreinsa til í herberginu og barn D hafi einnig verið þarna. Hann taldi þetta hafa verið 19. júní sl.  Hann sagði mann D hafa hringt í hana og sagt eitthvað um að hún ætti að koma til hans, annars fengi hún ekki barnið.  Hún hafi þá farið að gráta og þeir ákærði spurt hana hvers vegna en hún hafi sagt að maðurinn sinn hefði hringt.  E kvað nokkrar mínútur hafa liðið þegar sími ákærða hafi hringt en það hafi verið maður D sem hringdi og hafi byrjað að hóta ákærða sem ekki hafi náð að segja neitt áður en lagt var á.  Þá hafi verið hringt aftur en þá hafi A hringt sem hafi sagst vera dyravörður á [...] en hann hafi meira og minna endurtekið það sem B hafði sagt.  E kvaðst hafa sagt ákærða að snúa sér til lögreglu en ákærði hafi sagt að hann þekkti konu sem ynni á barnum og hann ætlaði að tala við hana.  E kvað þá ákærða hafa verið að þrífa salernið og hann hafi verið með gúmmíhanska og hafi annar hanskinn verið á ákærða þegar hann fór.  Ákærði hafi tekið með sér hníf úr eldhúsinu en hann hafi sagst ætla að koma honum fyrir í bílnum sínum. E kvaðst hafa notað bifreið ákærða og tekið eftir að hnífurinn var alltaf í bílnum. E kvað ljósmynd af hníf úr gögnum málsins ekki vera hníf ákærða. 

Vitnið, A, kvað upphaf máls þessa mega rekja til þess er B, sem hafi verið plötusnúður á [...], hóf störf. B hafi átt í forræðisdeilu við konu sína en hann hafi komið á [...] fyrr þennan dag og sagt ákærða vera að skipta sér af deilunni. Hafi B beðið vitnið um að hringja í ákærða og biðja hann um að hætta afskiptum af málinu.  Kvaðst A hafa hringt í ákærða í þessu skyni.  Hann kvaðst hafa setið við borð með C og B er ákærði hafi komið inn og spurt um “A” en vitnið kvaðst hafa kynnt sig í símanum áður.  A kvaðst ekki hafa áttað sig strax á því að þetta væri sami maðurinn en ákærði hafi gengið að borðinu til þeirra. Hann hafi hálf staðið upp og ákærði þá sagt “A” og síðan hafi hann komið að borðinu og sveiflað hníf.  Ákærði hafi verið með vettlinga og hafi haldið á hníf í hægri hendi.  A kvaðst hafa blokkerað höggið með vinstri hendi og kýlt ákærða niður og farið á eftir honum. A kvað ákærða hafa lagt til sín með hnífnum og hafi hnífurinn farið í gegnum föt sín og strokist með fram kviðnum.  A kvaðst hafa snúið sér að ákærða aftur, snúið hann niður og lagt hann á magann og reynt að snúa hnífinn úr höndum hans en hann hafi verið búinn að fá aðstoð, að hann haldi, frá B.  A sagði að þegar hann hélt ákærða á gólfinu hafi hann ítrekað reynt að stinga hann eða alla vega þrisvar sinnum eftir fyrstu stunguna að því er hann taldi.  Hann hafi reynt að snúa upp á höndina á ákærða til að losa hnífninn, án árangurs. Kvaðst A þá hafa bitið ákærða í fingurna svo hann losaði takið á hnífnum en B hafi haldið um fætur ákærða. A lýsti því að er hér var komið sögu hafi tveir menn komið inn, F og G, en þeir hafi hjálpað við að halda ákærða uns lögreglan kom. 

A kvað þá B báða hafa reynt að koma ákærða niður í gólfið en það hafi verið ljóst að ákærði hafi lagt í áttina til allra viðstaddra.  A kvaðst ekki hafa séð hnífinn strax þegar ákærði kom inn á staðinn en hann hafi verið með höndina niður með síðunni.  Hann sagði hnífinn hafa verið með svörtu handfangi ca 8 sentimetrar og hafi hann séð er lögreglan tók hnífinn og kvaðst hann vera viss um að lögreglan tók hnífinn sem ákærði hélt á. 

Vitnið, B, kvað ákærða hafa komið á [...] þar sem hann og A hafi setið og drukkið kaffi en ákærði hafi síðastliðna eina og hálfa viku hringt í sig með hótanir vegna skilnaðar milli sín og konunnar sinna. Hann hafi  átt í forræðisdeilu en ákærði hafi farið að skipta sér af henni.  Hafi símtölin sem lýst hefur verið snúist um forræðisdeiluna.  Daginn sem hér um ræðir hafi þeir ákærði ræðst við í síma og ákærði sagt að hann skyldi leyfa D að hafa barnið ella hefði hann verra af.  Ákærði hafi viðhaft sams konar ummæli er A talaði við hann í síma.  Tíu eða fimmtán mínútum síðar hafi ákærði komið inn á [...] með latexhanska á hendum og hníf, gengið að borðinu þar sem B sat ásamt fleirum og spurt um A. Er það varð ljóst hafi ákærði sveiflað hendinni og reynt að stinga A.  B kvaðst hafa verið í sjokki en hafi stokkið að ákærða og reynt að afvopna hann en ákærði hafi verið mjög æstur. Þeir A og ákærði hafi velst um og slegist og reynt að afvopna ákærða.  Hann kvaðst ekki muna hvað þetta tók langan tíma en tveir dyraverðir hafi komið í dyragættina og hjálpað þeim að afvopna ákærða.  B kvað ákærða hafa stungið í allar áttir en hann hafi ekki vitað hvort atlögunni var beint að sér, öðrum eða öllum.  B vissi ekki hvort ákærði var með hnífinn í höndunum er hann kom inn.  B var sýnd ljósmynd af hníf meðal gagna málsins og kvað hann sér sýnast það vera hnífurinn sem hér um ræðir en lögreglan hafi lagt hald á hnífinn.

Vitnið, C, kvaðst hafa setið við borð með A og B þegar inn hafi komið maður sem hún þekki sem Coca, en það er ákærði.  Hann hafi ekki heilsað sér en tekið upp hníf. Hún kvaðst hafa séð ákærða koma inn með hnífinn og hann hafi verið með latex vinnuvettlinga.  Hann hafi spurt um A en ekki B að því er hún taldi og síðan reynt að stinga A.  Hún kvaðst ekki muna vel atburði, svo langt sé um liðið, en ákærði hafi í raun og veru gert tilraun til að stinga í A. Hún mundi ekki hvort hann hafi verið með hnífinn í hægri eða vinstri hendi.  Hún kvað A hafa komið ákærða í gólfið og að lokum hafi honum tekist að afvopna hann.  Áður en lögreglan kom hafi vinir þeirra, F og G, komið og séð hvað var í gangi og hjálpað þeim að halda ákærða í gólfinu og B hafi einnig haldið honum síðar.  Hún kvað atburðarásina hafa verið líka því að ákærði hafi einbeitt sér að því að stinga A en búið hafi verið að afvopna ákærða er B tók þátt í þessu. Kvaðst hún viss um að ljósmynd af hníf meðal gagna málsins væri af hnífnum sem hér um ræðir og lögreglan lagði hald á.

Vitnið, H, var við störf á barnum á þessum tíma og allt hafi verið rólegt, e.t.v. þrír eða fjórir menn auk A og C.  Kvaðst hann í raun ekki hafa séð hvað gerðist en hafa séð A hlaupa upp í átt að dyrunum þar sem ákærði hafi verið að ganga inn.  Einhvers konar slagsmál hafi verið í gangi en hann viti að hnífur hafi verið í umferð. Hann kvaðst engan hníf hafa séð fyrr en þrír eða fjórir menn hafi verið sitjandi á baki ákærða.  Hann mundi ekki eftir að hafa séð ákærða ógna B.  Hann kvaðst hafa séð stimpingar á gólfinu og telja sig hafa séð hníf í hendi ákærða þegar mennirnir sátu á honum en hann kvaðst ekki vera viss. Hann kvaðst ekki muna vel hvenær hann sá ákærða halda á hnífnum eða hvort hann gerði það. Borinn var undir ákærða ljósmynd meðal gagna málsins og kvaðst hann halda að það væri hnífurinn.

Vitnið, D, kvaðst hafa verið heima ásamt ákærða á heimili þeirra sama dag og ákærði fór á [...] 19. júní í fyrra.  Hún sagði fyrrverandi eiginmann sinn, B, hafa hringt í sig til að segja sér að skila syni þeirra en þau hafi gert samkomulag um að hún hefði barnið í þrjá daga en hann fjóra en hún kvaðst aðeins hafa haft barnið í sólarhring þegar hann hringdi.  Hún sagðist hafa farið að gráta og panikerað en þá hafi ákærði spurt hvað væri í gangi.  Hún hafi sagt honum það. Þá hafi byrjað símhringingar þar sem þeim ákærða hafi verið hótað og hafi hún sagt ákærða frá símtalinu.  Hún kvað B hafa hringt í ákærða og hótað honum.  Hún kvað seinna símtalið hafa verið frá A en hann hafi sagt það sama við hann og B en A hafi sagt ákærða að hann væri dyravörður á [...]. Hún sagði ákærða hafa farið á [...] til að sjá hver hefði hringt í hann en það hafi ekki verið ljóst.  Hann hafi viljað ræða þetta við C.  Hún kvaðst hafa vitað að ákærði var að fara á [...] þegar hann fór að heiman en hún kvaðst ekki hafa vitað hvort hann fór með hníf með sér.  Hún sagði hníf sem ákærði fór með heiman að frá sér hafa verið lítinn. Borin var undir vitnið ljósmynd af hníf meðal gagna málsins. Kvaðst hún viss um að þetta væri ekki sami hnífurinn og kvað hún ákærða aldrei hafa átt slíkan hníf. 

Vitnið, E, kvaðst leigja herbergi með ákærða og D unnustu hans.  Þau hafi öll verið að hreinsa til í herberginu og barn D hafi einnig verið þarna. Hann taldi þetta hafa verið 19. júní sl.  Hann sagði mann D hafa hringt í hana og sagt eitthvað um að hún ætti að koma til hans annars fengi hún ekki barnið.  Hún hafi þá farið að gráta og þeir ákærði spurt hana hvers vegna hún væri að gráta, en hún hafi sagt að maðurinn sinn hefði hringt.  E kvað nokkrar mínútur hafa liðið þegar sími ákærða hafi hringt en það hafi verið maður D sem hringdi. Hann hafi byrjað að hóta ákærða sem ekki hafi náð að segja neitt áður en lagt var á.  Þá hafi verið hringt aftur það hafi verið A sem hafi sagst vera dyravörður á [...]. Hann hafi meira og minna endurtekið það sem B hafði sagt.  E kvaðst hafa sagt ákærða að snúa sér til lögreglu en ákærði hafi sagt að hann þekkti konu sem ynni á barnum en hann ætlaði að tala við hana.  E kvað þá ákærða hafa verið að þrífa salernið og hann hafi verið með gúmmíhanska og hafi annar hanskinn verið á ákærða þegar hann fór.  Ákærði hafi tekið með sér hníf úr eldhúsinu en hann hafi sagst ætla að koma honum fyrir í bílnum sínum. E kvaðst hafa notað bifreið ákærða og tekið eftir að hnífurinn var alltaf í bílnum. E kvað ljósmynd af hníf úr gögnum málsins ekki vera hníf ákærða. 

Vitnið, G, kvaðst hafa komið inn á veitingastaðinn [...] þegar búið var að leggja ákærða niður í gólfið en þar hafi hann legið með hendur fyrir aftan bak en hann hafi verið þar með hníf í hendinni en tekist hafi að afvopna hann en hann kvaðst ekki hafa séð það.  Vitnið kvað þá F hafa aðstoðað við að halda ákærða.  G lýsti hnífnum sem hér um ræðir en lögreglan hafi tekið hnífinn.

Vitnið, Katrín Eva Erlarsdóttir lögreglumaður, staðfesti skýrslu sem hún gerði í málinu og vinnu sína við hana.

Vitnið, Sigurður Sigurbjörnsson rannsóknarlögreglumaður, sagði ákærða hafa verið skýrsluhæfan þegar tekin var skýrsla af honum 19. júní 2003.  Hann lýsti skýrslutökunni en skýrslan hafi verið lesin fyrir hann af túlki.  Vitnið kvað sig minna að hnífurinn sem lagt var hald á hafi verið á borðinu í umbúðum.   Hann sagði ákærða hafa kannast við hnífinn við lýsingu.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök.  Hann bar fyrir dómi að hann hefði gengið inn á barinn og spurt C hver A væri og eftir það hafi þrír menn staðið á fætur, gripið í jakkann á sér og byrjað að slá hann í andlitið. Þá hafi einhverjir slegið sig aftan frá. Hann sagði hnífinn hafa verið í vasanum en þegar mennirnir hafi byrjað að slá hann hafi hann misst hnífinn úr vasanum.  Hann kvaðst hafa séð hníf í hendi einhvers annars sem hann hafi gripið í og haldið á honum þar til hann datt á gólfið. Hann neitaði að hafa veist að A og B eins og ákært er fyrir. 

Vitnið, A, kvað ákærða hafa komið að borðinu og sveiflað hníf og lagt til sín með hnífnum og hafi ákærði ítrekað reynt að stinga sig eins og lýst var. Vitnið, B, kvað ákærða hefði komið inn á [...] með hníf, gengið að borðinu og spurt um A og er í ljós kom hver hann var hafi ákærði  sveiflað hendinni og reynt að stinga A. Vitnið C kvað ákærða hafa komið inn með hníf og reynt að stinga A.

Framburður ákærða er mjög ótrúverðugur um margt og í miklu ósamræmi við vitnisburð um það sem gerðist á [...] eins og rakið hefur verið. Með vitnisburði A, B og C, en gegn neitun ákærða, er sannað að ákærði hafi veist að A á þann hátt sem lýst er í ákærunni.  Engir áverkar hlutust af atlögu ákærða. Þrátt fyrir þetta og með vísan til þess að árás ákærða var sérstaklega hættuleg þar sem hnífi var beitt, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, er brot ákærða fullframið brot en ekki tilraun, sbr. hæstaréttarmálið nr. 67/1993.

Vitnið, A, kvað ákærða hafa lagt í átt til allra viðstaddra.  Vitnið, B, kvað ákærða hafa stungið í allar áttir en hann viti ekki  hvort því hafi verið beint að sér, öðrum eða öllum.  Vitnið, C, kvað ákærða hafa verið búinn að sleppa hnífnum þegar B hafi tekið þátt í átökunum. 

Með vísan til ofanritaðs og gegn eindreginni neitun ákærða og með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er ósannað að ákærði hafi veist sérstaklega að B eins og ákært er fyrir og verður hann sýknaður af þeirri háttsemi.

Ákærði er einnig ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. og b-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.  Samkvæmt 30. gr. vopnalaga er vopnaburður á almannafæri bannaður og samkvæmt 1. gr. laganna er vopn skilgreint sem hvert það tæki eða efni sem unnt er að beita til að deyða eða skaða heilsu manna eða dýra tímabundið eða varanlega, enda sé, með tilliti til aðstæðna, ástæða til að ætla að fyrirhugað sé að nota tækið eða efnið í slíkum tilgangi.  Samkvæmt b-lið 2. mgr. 30. gr. sömu laga er m.a. bannað að flytja til landsins, framleiða, eignast eða hafa í vörslum sínum fjaðrahníf.  Ákærði hefur borið fyrir dómi að hnífur sá sem haldlagður var í málinu sé ekki sami hnífur og hann kom með inn á barinn.  Vitnið, A, kvaðst hafa séð þegar lögreglan tók hnífinn og hann kvaðst viss um að lögreglan hafi tekið hnífinn sem ákærði hélt á.  Vitninu, C, var sýnd ljósmynd af hníf sem haldlagður var í málinu en hún kvaðst vera viss um að þetta væri sami hnífurinn.  Vitnin, H og B, sögðust halda að þetta væri sami hnífurinn. Vitnið, E, bar fyrir dómi að ákærði hefði tekið með sér hníf úr eldhúsinu þegar hann fór á barinn en hann kvaðst aldrei hafa séð hníf þann sem haldlagður var í málinu áður. Vitnið, D, sagði hníf þann sem ákærði hafi farið með út hafa verið lítinn eða um 5 sentimetra.  Hún kvaðst vera viss um að hnífurinn á ljósmynd sem henni var sýnt væri ekki sami hnífurinn.

Með hliðsjón af vitnaframburði A, C, H og B, er sannað að ákærði hefur gerst sekur um brot gegn 1. mgr. og b-lið 2. mgr. 30. gr.vopnalaga, sbr. 1. mgr. 36. gr. þeirra laga.  Í ákæru hefur láðst að vísa í 1. mgr. 36. gr. vopnalaga en telja verður að vörn ákærða hafi ekki verið áfátt þess vegna, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og kemur þetta ekki að sök eins og hér stendur á.

Ákærði hefur 5 sinnum gengist undir greiðslu sekta vegna umferðarlagabrota og þjófnaðar.  Hinn 4. febrúar sl. hlaut hann 45 daga fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir þjófnað.  Ber nú að dæma hegningarauka sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga en framangreindur dómur er dæmdur upp og ákærða gerð refsnig í einu lagi sbr. 60 og 77. gr. almennra hegningarlaga.

Ráða má af gögnum málsins að ferð ákærða á [...] virðist tengjast deilu sambýliskonu ákærða og B um forræði barns þeirra. Brot ákærða hafði engar afleiðingar í för með sér. Hins vegar ber að líta til þess að atlaga hans gegn A  með fjaðrahnífi var mjög hættuleg og tilviljun réð því að ekki fór verr.  Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 12 mánuði. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga. Þykir því eftir atvikum rétt að fresta fullnustu 9 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1040, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal ákærði sæta upptöku á hnífnum sem lagt var hald á.

Ákærði greiði 2/3 hluta sakarkostnaðar á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t tilgreindan hluta af 200.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlaunum til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns.

Daði Kristjánsson fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, George Voskanian, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptækur er gerður hnífur sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði 2/3 hluta sakarkostnaðar á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t tilgreindan hluta af 200.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlaunum til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns.