Hæstiréttur íslands

Mál nr. 694/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala


                                     

Þriðjudaginn 4. nóvember 2014.

Nr. 694/2014.

Aðalheiður S. Axelsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Dróma hf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Grímsnes- og Grafningshreppi

Tollstjóra og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(enginn)

Kærumál. Nauðungarsala. 

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að nauðungarsala á fasteign, sem fram fór að beiðni D hf., G, T og V hf., yrði felld úr gildi að því leyti sem hún byggði á nauðungarsölubeiðni D hf. Í hinum kærða úrskurði, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að þegar nauðungarsalan var tekin fyrir hjá sýslumanni hefði legið fyrir lögmætar heimildir til hennar, ekki einungis samkvæmt beiðni D hf., heldur einnig frá hinum varnaraðilunum sem A hafði ekki gert athugasemdir við. Væri nauðungarsalan því reist á gildri heimild og yrði því ekki felld úr gildi. Þegar af þeirri ástæðu hafði A ekki lögvarða hagsmuni af því að skorið væri úr um það hvort einhverjir annmarkar hefðu hugsanlega verið á málatilbúnaði D hf. hjá sýslumanni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. september 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi nauðungarsölu sem fram fór 30. apríl 2013 á sumarbústað hennar að Hallkelshólum í Grímsnes- og Grafningshreppi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega að nauðungarsalan verði felld úr gildi að því leyti sem hún byggði á nauðungarsölubeiðni varnaraðilans Dróma hf., en til vara að þeirri nauðungarsölubeiðni verði hafnað og öll meðferð málsins hjá sýslumanni felld úr gildi. Að því frágengnu krefst sóknaraðili þess að umrædd nauðungarsölubeiðni verði hafnað og einnig tilboði varnaraðilans í nauðungarsöluandvirðið. Þá gerir sóknaraðili kröfu um „málskostnað að skaðlausu“. 

Varnaraðilinn Drómi hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Grímsnes- og Grafningshreppur, Tollstjóri og Vátryggingafélag Íslands hf. hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann veg sem greinir í dómsorði.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilanum Dróma hf. kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfum sóknaraðila, Aðalheiðar S. Axelsdóttur, sem lúta að gildi nauðungarsölu sem fram fór 30. apríl 2013 á sumarbústað hennar að Hallkelshólum í Grímsnes- og Grafningshreppi, lóð 168486, með fastanúmer 220-7361.

Sóknaraðili greiði varnaraðilanum Dróma hf. 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. september 2014.

             Mál þetta var þingfest þann 4. júlí 2013 og upphaflega tekið til úrskurðar þann 20. janúar sl. Málið var endurupptekið og endurflutt þann 26. september sl.

             Sóknaraðili er Aðalheiður S. Axelsdóttir, kt. [...], til heimilis að Kirkjustétt 13, Reykjavík.

             Varnaraðilar eru Drómi hf., kt. [...], Lágmúla 6, Reykjavík, Vátryggingafélag Íslands, Grímsnes- og Grafningshreppur og Tollstjóri.

             Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að nauðungarsala á eigninni Hallkelshólum, lóð 168486, fnr. 220-7361, hjá sýslumanninum á Selfossi þann 30. apríl 2013, verði felld úr gildi  að því leyti sem nauðungarsalan byggðist á uppboðsbeiðni Dróma ehf. Til vara er þess krafist að uppboðsbeiðni Dróma hf. frá 13. september 2012 til sýslumannsins á Selfossi í ofangreindu uppboðsmáli verði hafnað og öll meðferð uppboðsmálsins hjá sýslumanninum á Selfossi verði þar af leiðandi ómerkt og felld úr gildi. Til þrautavara er þess krafist að uppboðsbeiðni Dróma hf. frá 13. september 2012 verði felld úr gildi og hafnað, sem og tilboði Dróma hf. í uppboðsandlagið þann 30. apríl 2013. Þá gerir sóknaraðili kröfu  um málskostnað að skaðlausu.

             Dómkröfur varnaraðilans Dróma hf. eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi, öðrum en kröfu um að nauðungarsala á eigninni Hallkelshólum verði felld úr gildi, en þess er krafist að henni verði hafnað. Að öðru leyti sem kröfum sóknaraðila verður ekki vísað frá dómi er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

             Varnaraðilinn Grímsnes- og Grafningshreppur krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og nauðungarsala á eigninni Hallkelshólum standi óhögguð. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

             Varnaraðilinn Tollstjóri krefst viðurkenningar á því að nauðungarsalan á Hallkelshólum haldi gildi sínu og jafnframt að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu.

             Tveir síðasttaldir varnaraðilar lýstu því yfir við upphaf munnlegs málflutnings að málið yrði ekki flutt frekar en vísuðu í framlagðar greinargerðir.

             Varnaraðilinn Vátryggingafélag Íslands lét þetta mál ekki til sín taka.

             Samkvæmt heimild í 6. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 sendi sýslumaðurinn á Selfossi dóminum athugasemdir sínar um málefnið og reifaði þær við munnlegan málflutning fyrir dómi.

             Varnaraðilinn Drómi hf. tekur fram að í veðskuldabréfinu hafi verið bein uppboðsheimild, andstætt því sem sóknaraðili haldi fram. Þessi varnaraðili segir lánið hafa verið í vanskilum frá 1. maí 2011, sóknaraðili hafi óskað eftir skuldskeytingu þann 10. júní 2003 og fengið hana samdægurs. Hún hafi fengið senda greiðsluáskorun þann 6. október 2011 og greitt 50.000 krónur inn á lánið þann 18. október sama ár. Drómi hf. hafi verið hæstbjóðandi á nauðungarsölunni þann 30. apríl 2013 með kaupverðinu 3.000.000 króna.

Málavextir.

             Sóknaraðili lýsir atvikum með þeim hætti að krafa varnaraðilans Dróma hf. sé byggð á veðskuldabréfi útgefnu 30. október 2002 og sé heiti uppboðsheimildarinnar veðskuldabréf, jafngreiðslulán (annuitet) bundið vísitölu neysluverðs og föstum vöxtum. Í veðskuldabréfinu segi að Leifur Steinn Elísson viðurkenni að skulda nb.is sparisjóði 2.200.000 krónur. Við hlið nafns Leifs sé skrifað með prentstöfum nafnið Aðalheiður S. Axelsdóttir. Í veðskuldabréfinu séu samningsskilmálar í tíu liðum og í lið 1 segi að skuldari lofi að endurgreiða lán þetta sem jafngreiðslulán (annuitetslán). Vextir séu reiknaðir fyrir allan lánstímann, en þeim síðan skipt niður ásamt afborgunum af höfuðstól í jafn háar fjárhæðir á hvern gjalddaga. Fjárhæð hvers gjalddaga sé bundin vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu skv. ofanskráðu. Skuldara beri að greiða viðbót við hverja greiðslu, er svari til hækkunar sem hverju sinni hafi orðið frá grunnvísitölu bréfsins til gildandi vísitölu á gjalddaga. Í lið 2 sé kveðið á um 10% fasta ársvexti og í lið 3 séu ákvæði um gjaldfellingu skuldabréfsins, en hvergi sé í bréfinu heimild til beinnar nauðungarsölu og þá segir sóknaraðili gjaldfellingarskilyrði óljós. Samkvæmt skuldabréfinu var skuldareiganda sett að veði með 1. veðrétti Hallkelshólar, lóð 168486, Grímsnesi, sumarbústaður, fasteignanúmer 220-7361.

             Sóknaraðili segir að fljótlega eftir hrun hafi hún átt erfitt með greiðslur og hafi hún beðið um skilmálabreytingar. Seinni hluta ársins 2010 hafi sóknaraðili hætt að fá greiðslutilkynningar og hafi hún ekki vitað í hvers höndum bréfið hafi verið fyrr en hún hafi fengið greiðsluáskorun þann 6. október 2011. Sóknaraðili tekur fram að á sínum tíma hafi verið gerðar breytingar á skuldabréfinu, skuldskeyting sóknaraðila við nb.is sparisjóð þann 10. júní 2003, sem ekki virðist hafa verið þinglýst, en hafi verið lögð fram hjá sýslumanni þann 15. nóvember 2012. Breyting hafi verið gerð á greiðsluskilmálum þann 14. október 2009 með samþykki Nýja Kaupþingsbanka hf. Önnur skilmálabreyting hafi verið gerð þann 10. desember 2010 með samþykki Arionbanka hf. Sóknaraðili fær ekki séð að veðskuldabréfið hafi færst yfir til Dróma hf., sbr. yfirfærslubréf dagsett 26. maí 2009, er Drómi hf. yfirtaki eignir og þar með kröfur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Löginnheimta Dróma hf. hafi beðið um uppboð á veðinu en veðskuldabréfið sé í nauðungarsölubeiðninni sagt eign Dróma hf. Þann 23. janúar 2013 hafi Tollstjórinn í Reykjavík beðið um uppboð á veðinu og þann 26. febrúar sama ár hafi Vátryggingafélag Íslands beðið um uppboð á veðinu. Þann 4. mars sama ár hafi Grímsnes- og Grafningshreppur beðið um uppboð á veðinu, en skv. uppboðsauglýsingum sé Drómi hf. fyrsti uppboðsbeiðandi. Þann 30. apríl sama ár hafi eignin verið boðin upp og slegin Dróma hf.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

             Sóknaraðili telur að hún hafi verið beitt órétti og telur að uppboðsbeiðni varnaraðilans Dróma hf. hafi ekki verið rétt úr garði gerð og ekki óyggjandi heimild samkvæmt nauðungarsölulögum og réttarreglum um kröfuhafaskipti. Ekki hafi verið upplýst hvernig Drómi hf. hafi komist yfir skuldabréfið frá nb.is sparisjóði og á hvaða kjörum. Þá séu útreikningar á höfuðstól veðskuldabréfsins ekki gerðir lögum samkvæmt og sé með engu móti hægt að gera sér grein fyrir hvernig þær eftirstöðvar skuldarinnar sem krafist sé í nauðungarsölumálinu séu útreiknaðar. Upphaflegur kröfuhafi hafi verið nb.is sparisjóður en sóknaraðili eigi erfitt með að átta sig á því hvaða fyrirbæri það sé eða hafi verið, en ekkert í gögnum málsins sýni hvernig Drómi hf. hafi komist yfir skuldabréfið frá þessum aðila. Hins vegar liggi fyrir í gögnum málsins bréf um yfirfærslu lána frá Spron til Dróma hf. en engin skýring sé á því af hverju Nýja Kaupþing geri skilmálabreytingu árið 2009 f.h. Spron og síðan Arionbanki árið 2011. Samkvæmt veðbókarvottorði eigi að vera þinglýst á eignina skjali 433-X002976/2011, útg. 21. júlí 2011 mótt. 13. september sama ár. Ekki verði séð að skjal þetta hafi verið lagt fram í málinu og það sé ekki í samræmi við það sem stimplað sé af Arionbanka aftan á skuldabréfið, uppboðsheimild Dróma hf. Samkvæmt skuldskeytingunni sé strikað yfir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, sem staðfesti að skuldabréfið hafi verið í eigu nb.is sparisjóðs og því sé vandséð hvernig eignarhald Spron á bréfinu hafi getið farið til annarra lögaðila. Sóknaraðili bendir á að nauðungarsölubeiðnin beri undirritun Löginnheimtu Dróma hf. en enginn lögaðili með því nafni hafi innheimtuleyfi eða skráningu sem fjármálafyrirtæki, ekki heldur Spron eða Frjálsi og því síður nb.is, en það sé afskráð félag. Hins vegar sé til eignarhaldsfélag sem heiti Drómi og beri það sömu kennitölu og sé á beiðninni. Það sé hins vegar ekki tilgreint sem kröfuhafi á beiðninni og sé ekki heldur veðhafi samkvæmt veðbókarvottorði. Verði því að álykta að Drómi hf. gangi erinda Spron sem þó hafi aldrei verið kröfuhafi veðskuldabréfsins eða uppboðsheimildarinnar, heldur nb.is sparisjóður. Telur sóknaraðili því vandséð að Drómi hf. hafi haft heimild til að biðja um uppboð og verði ekki annað séð en að brotið hafi verið gegn 3. gr. innheimtulaga. Þá sé ekkert í veðskuldabréfinu sem heimili beina nauðungarsölu.

             Sóknaraðili vísar máli sínu til stuðnings til 60. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 80. gr. nauðungarsölulaga. Sóknaraðili byggir á því að uppboðsheimildin, veðskuldabréfið, verði að bera með sér bæði hver sé kröfuhafi skuldarinnar og hvernig hafi verið greitt af bréfinu. Sóknaraðili vísar til almennra reglna kröfuréttar um kröfuhafaskipti og tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798, svo og laga um neytendalán nr. 121/1994. Drómi hf. verði að upplýsa hvernig hann komst yfir veðskuldabréfið og á hvaða kjörum og á hverju hann byggi heimild sína og þar með eignarhald sitt sé um það að ræða. Kröfuhafaskipti á veðskuldabréfinu séu e.t.v. til komin með aðkomu íslenska ríkisins, eftir atvikum með samningum sem gerðir hafi verið af slitastjórn upphaflegs kröfuhafa, fjármálaeftirlitsins og íslenska ríkisins og af núverandi eigendum Arionbanka hf./Dróma hf. Hugsanlegt sé að sóknaraðili geti borið fyrir sig ákvæði 36. gr. samningalaga, sem og ákvæði skaðabótaréttar um ólögmæta auðgun.

             Sóknaraðili byggir á því að umkrafið veðskuldabréf hafi aldrei orðið viðskiptabréf, sbr. viðskiptabréfareglur viðskiptabréfaréttar eða kröfuréttar, þar sem aðilaskipti hafi ekki orðið við venjuleg eða eðlileg viðskipti, heldur með einhverjum óútskýrðum hætti eða vegna hrunsins og aðgerða opinberra aðila í því sambandi.

             Sóknaraðili byggir á því að það sé grundvallarregla í öllum fullnustumálum að höfuðstóll þeirrar kröfu sem verið sé að sækja af kröfuhafa sé skýr og skiljanlegur, sbr. upphaf 6. gr. nauðungarsölulaga, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna, sbr. og upphaf 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga. Þá byggir sóknaraðili á 11. gr. laga um vexti og verðtryggingu, en þar segi að ákvæði laganna gildi um skuldbindingar sem varði sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofi að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið sé að greiðslurnar skuli vera verðtryggðar. Með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda vísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fari skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað. Þá segi að afleiðusamningar falli ekki undir ákvæði þessa kafla.  Sóknaraðili byggir á því í fyrsta lagi að útreikningsaðferð varnaraðila feli ekki í sér að ákveðið hafi verið með settum lögum að höfuðstóll skuldarinnar skuli reiknaður út eins og gert sé ráð fyrir. Greinilega sé farið eftir 4. gr. III. kafla reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001, en þar segi að verðtrygging láns með ákvæði um að höfuðstóll þess miðist við vísitölu neysluverðs sé því aðeins heimil að lánið sé til fimm ára hið minnsta. Höfuðstóll lánsins breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skuli höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun séu reiknuð út. Sóknaraðili byggir á því að hér sé um reglur að ræða sem geti ekki fallið undir þá skilgreiningu sem sett sé í 11. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Þá sé ljóst að það hvernig framkvæmdin sé á grundvelli vísitöluútreiknings Hagstofunnar að um afleiðslusamning sé að ræða sem ekki fái staðist. Lán sóknaraðila geti ekki verið í vanskilum ef það byggist á ólögmætum útreikningi kröfuhafa á skuldinni.

             Sóknaraðili byggir einnig á því að hún hafi aldrei verið upplýst um það hvernig skuldin hafi verið reiknuð miðað við þær verðbætur sem hún hafi borið og geti hún með engu móti gert sér grein fyrir því hvernig umkrafinn höfuðstóll sé reiknaður. Hún telji sig eiga rétt á því að upplýst verði hvernig eftirstöðvar skuldabréfsins séu tilkomnar og hljóti kröfuhafi að hafa upplýsingar um það fyrst þær séu ekki skráðar á veðskuldabréfið. Sóknaraðili vísar til fjölmargra dóma þar sem skuldari hafi verið krafinn um skuld samkvæmt viðskiptayfirliti, en krafan hafi ekki verið talin sönnuð fyrr en frumrit fyrir viðskiptunum hafi verið lagt fram. Í þessu máli séu atvik svipuð, greiðsluáskorun og uppboðsbeiðni séu ákveðin viðskiptayfirlit en uppboðsheimildin sjálf, veðskuldabréfið, geymi ekki þessar upplýsingar. Því sé ekki loku fyrir það skotið að umkrafðar eftirstöðvar séu uppspuni frá rótum. Alla vega sé ljóst að uppboðsheimildin sé ekki skýr eða ótvíræð varðandi það hverjar eftirstöðvar skuldarinnar séu í raun og veru.

             Sóknaraðili byggir einnig á því að skilmálabreytingar hafi verið gerðar við umkrafið skuldabréf án þess að það hafi verið upplýst í uppboðsbeiðni, en ekki hafi verið krafist uppboðs með hliðsjón af þessum skilmálabreytingum.

             Sóknaraðili byggir einnig á lögum nr. 121/1993 um  neytendalán eftir því sem við geti átt og vísar til tilskipunar EBE frá 5. apríl 1993 nr. 93/13/EBE, sbr. forúrskurð Evrópudómstólsins í málinu nr. C-415/11, en þar sé fjallað um jafnvægi milli kröfuhafa og skuldara, eða fjármálafyrirtækis og neytanda án þess að dómur hafi gengið um ágreining þeirra. Þegar ákveðinn forsendubrestur verði í þjóðfélaginu við hrunið sé ekki sanngjarnt að sóknaraðili verði að bera hann ein, en viðkomandi kröfuhafi fái aðstoð ríkisins til að innheimta kröfuna, án þess að komið sé til móts við skuldarann/neytandann á nokkurn hátt. Sóknaraðili byggir á því að færa megi að því rök að um sé að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár. Allavega sé varhugavert að heimila að ganga megi að veðinu án dóms eða í það minnsta án fjárnáms/aðfarargerðar, en ekki sé bein uppboðsheimild í skuldabréfinu.

             Sóknaraðili byggir einnig á því að afgreiðsla málsins hjá sýslumanni hafi ekki verið samkvæmt lögum.

Málsástæður og lagarök varnaraðilans Dróma hf.

             Frávísunarkrafa varnaraðilans Dróma hf. er á því byggð að krafa um ómerkingu nauðungarsölunnar hafi enga sjálfstæða þýðingu því sé krafan ómerkt hafi það aðeins þá þýðingu að hún sé felld úr gildi. Krafa sóknaraðila um að krafan verði úrskurðuð ólögmæt sé lögspurning og verði dómstólar ekki krafðir álits um lögfræðileg efni, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Varakröfur sóknaraðila séu málsástæður fyrir aðalkröfu og hafi ekkert sjálfstætt gildi. Hvað varðar kröfu sóknaraðila um að uppboðsbeiðni Dróma hf. verði felld úr gildi og hafnað, sem og tilboði Dróma hf. í uppboðsandlagið, telur þessi varnaraðili að það þjóni engum tilgangi að fella úr gildi uppboðsbeiðni varnaraðila. Ekki sé hægt að fella beiðni úr gildi, aðeins megi gera kröfu um að henni verði hafnað, en það sé orðið fullseint, því sýslumaður hafi orðið við henni. Engir lögvarðir hagsmunir séu fyrir slíkri kröfugerð og ekki á valdi dómstóla að hafna tilboði varnaraðila. Hver og einn geti mætt og boðið í eign. Auk þess sé aðeins hægt að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns, sbr. 39. gr., sbr. 2. mgr. 75. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, en ekki ákvörðun varnaraðila um að gera tilboð. Hafi þrautavarakrafan því ekkert sjálfstætt gildi. 

             Að því er þá málsástæðu sóknaraðila varðar að varnaraðili Drómi hf. sé ekki réttmætur eigandi kröfunnar vekur varnaraðili athygli á heimild í 5. gr. laga nr. 125/2008 sem falið hafi í sér viðbót við lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og orðið að 100. gr. a þeirra laga og á grundvelli hennar hafi Fjármálaeftirlitið þann 21. mars 2009 tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda SPRON í kjölfar fjárhags- og rekstrarerfiðleika sparisjóðsins. Hafi verið ákveðið að víkja félagsstjórn sparisjóðsins frá störfum þegar í stað og jafnframt hafi verið skipuð skilanefnd sem tekið hafi við öllum heimildum stjórnar félagsins skv. ákvæðum hlutafélagalaga nr. 2/1995 í samræmi við ofangreinda 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Samhliða þessari ákvörðun hafi verið stofnað sérstakt hlutafélag í eigu sparisjóðsins sem tekið hafi við öllum eignum þessum þ.m.t. tryggingarréttindum, öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengst hafi kröfum sparisjóðsins. Sé félag þetta varnaraðilinn Drómi hf., sem skráð hafi verið 19. maí 2009. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið mælt fyrir um að allar eignir SPRON skyldu fluttar til dótturfélags SPRON (varnaraðila). Þá segi í 8. tl. ákvörðunarinnar að hún skuli jafnframt taka til innstæðna dótturfélags SPRON, nb.is hf. og eigna þess félags.

             Varnaraðili Drómi hf. telur það rangt hjá sóknaraðila að engar handbærar sannanir um eignarrétt varnaraðila sé að finna í gögnum málsins. Varnaraðili vísar til þeirra gagna sem lögð hafi verið fram samhliða nauðungarsölubeiðni þar sem fram komi framsal til Dróma hf. á fylgiskjali 9 og þá hafi verið þinglýst á eignina yfirlýsingu dagsettri 21. júlí 2011, fskj. 26, þar sem fram komi að eignir nb.is sparisjóðs hafi verið færðar yfir til varnaraðilans Dróma hf. Sé varnaraðili því rétthafi kröfunnar og beri öll gögn  málsins með sér að svo sé. Þar að auki hafi sóknaraðili verið í sambandi við varnaraðila og greitt inn á kröfuna og þar með sýnt að honum hafi frá öndverðu verið kunnugt um kröfuhafaskiptin. Sé skilyrðum 3. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 því fullnægt.

             Varnaraðili bendir á að hann hafi ekki verið eini gerðarbeiðandinn í málinu. Hafi meðferð tveggja eða fleiri beiðna verið sameinuð samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og ef ein þeirra fellur niður, þá ráðist umfang nauðungarsölunnar af þeim sem standi eftir, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Allar nauðungarsölubeiðnir í málinu hafi beinst að eigninni í heild sinni en ekki ákveðnum eignarhlutum og því ljóst að nauðungarsalan hafi farið réttilega fram  óháð því hvort talið verði að nauðungarsölubeiðni varnaraðila hafi verið á lögmæltu formi eða ekki.

             Varnaraðili hafnar því að farið sé á svig við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu og jafnframt hafnar varnaraðili því að bein uppboðsheimild standist ekki lög, sbr. Evróputilskipun nr. 93/13/EBE. Að auki verði ekki séð að bein uppboðsheimild sé í andstöðu við greindar tilskipanir eða tilvitnuð ákvæði mannréttindasáttmálans og stjórnarskrárinnar.

             Varnaraðili mótmælir því að krafan sé ekki reiknuð með fullnægjandi hætti og að höfuðstóll hennar sé ekki skýr. Krafan sé reiknuð með hefðbundnum hætti í samræmi við lög og hafnar varnaraðili öllum staðhæfingum sóknaraðila um annað. Þá hafnar varnaraðili því að um afleiðusamning sé að ræða en þó svo væri teljist slíkir samningar löglegir, sbr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og dóm Hæstaréttar í máli nr. 16/2001.

             Varnaraðili bendir á að verðtrygging hafi verið sett til að stemma stigu við víxlhækkunum verðlags og launa. Hafi lántaki mátt sjá hver skuldbinding hans væri með föstu verðlagi án alls tillits til launahækkana sem ekki hafi verið innistæða fyrir. Hafi útreikningar á kröfu varnaraðila verið að öllu leyti í samræmi við lög. Lántaki hafi skuldbundið sig til að greiða höfuðstól láns til baka ásamt vöxtum og telur varnaraðili að sjónarmið sóknaraðila um verðtryggingu skipti engu máli. Hvort sem farin yrði sú leið við framkvæmd verðtryggingar að verðbæta  höfuðstól eða greiðslur yrði efnisleg  niðurstaða sú sama. Eftirstöðvar myndu verðbætast þegar lánið yrði gert upp í heild, hvort sem væri á einstökum gjalddögum eða fyrr. Niðurstaða um það hvað skuldari greiddi yrði sú sama. Gjaldfalli lán vegna nauðungarsölu eða öðrum ástæðum sé krafan orðin réttur til greiðslu sem verðbætist. Ekki verði séð að það breyti neinu þar um að um annuitetslán hafi verið að ræða og mótmælir varnaraðili öllum staðhæfingum þar um. Þá bendir varnaraðili á að hvað sem líði ágreiningi um útreikning kröfunnar þá sé hafið yfir allan vafa að ekki hafi verið staðið í skilum með mánaðarlegar afborganir af láninu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 211/2010.

             Varnaraðili telur hugleiðingar sóknaraðila um verðmæti kröfunnar til sín enga þýðingu hafa, enda hafi slíkt engin áhrif á skuldbindingar sóknaraðila. Hrun íslenskra banka sé ekki forsendubrestur sem heimili frávik frá samningum.

             Varnaraðili vísar til almennra reglna um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga, laga nr. 90/1991, einkum 6.gr., 13. gr., 14. gr., 22. gr. 39. gr. og 75. gr. Þá vísar varnaraðili til laga nr. 108/2007, einkum 2. gr. Krafa um málskostnað er reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989.

Málsástæður og lagarök varnaraðilans Grímsness- og Grafningshrepps.

             Varnaraðilinn Grímsnes- og Grafningshreppur telur að eins og málatilbúnaði sóknaraðila sé háttað virðist honum kröfur sóknaraðila einvörðungu beinast að varnaraðila Dróma hf. Ekki verði séð að beiðni varnaraðilans Grímsnes- og Grafningshrepps sé mótmælt eða heimildir til hennar dregnar í efa. Nauðungarsölubeiðni þessa varnaraðila hafi verið byggð á lögmætum grundvelli sem og öll meðferð hennar hjá sýslumanninum á Selfossi. Beiðnin hafi því verið fullnægjandi grundvöllur nauðungarsölunnar og eigi hún því að standa óhögguð og halda gildi sínu.

             Varnaraðili vísar til 7. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sem og laga nr. 90/1991, einkum 5. tl. 6. gr. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök varnaraðilans Tollstjóra.

             Varnaraðilinn Tollstjóri byggir á því að sóknaraðili virðist eingöngu byggja á því að uppboðsbeiðni Dróma hf. sé haldin annmarka sem leiða eigi til ógildingar á nauðungarsölunni. Í sóknarskjölum komi ekkert fram sem kasti rýrð á nauðungarsölubeiðnir Vátryggingafélags Íslands, Grímsnes- og Grafningshrepps og þessa varnaraðila. Virðist sóknaraðili því fallast á að aðrar nauðungarsölubeiðnir séu gildar og málsmeðferð þeirra lögum samkvæmt. Samþykkisfrestur hafi verið ákveðinn 11. júní 2013 og hafi gerðarbeiðendur ekki afturkallað nauðungarsölubeiðnir sínar. Þegar gerðarbeiðendur séu fleiri en einn hafi það ekki grundvallarþýðingu hvort ein nauðungarsölubeiðni falli niður eða sé haldin ógildingarannamarka þegar uppboð fari fram með árangri, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 209/1999. Verði því að staðfesta gildi hinnar umþrættu nauðungarsölu. Krafa þessa varnaraðila um málskostnað er studd við 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991.

Athugasemdir sýslumannsins á Selfossi.

             Í athugasemdum sýslumannsins á Selfossi kemur fram að nauðungarsölubeiðni varnaraðilans Dróma hf. hafi stuðst við heimild í 2. tl. 6. gr. laga nr. 90/1991 og með henni hafi fylgt ljósrit skuldabréfs sem þinglýst hafi verið á umrædda fasteign. Í 8. tl. veðskuldabréfsins sé að finna umrædda heimild og með nauðungarsölubeiðninni hafi fylgt afrit af greiðsluáskorun sem birt hefði verið gerðarþola ásamt birtingarvottorði. Þar sem nauðungarsölubeiðnin og nauðungarsöluheimild gerðarbeiðanda hafi að mati sýslumanns verið í lögmætu formi hafi hún verið skráð inn í nauðungarsölumál sem þegar hefði verið stofnað vegna eignarinnar. Við meðferð nauðungarsölunnar hafi ekki komið fram mótmæli sem varðað hafi atriði er sýslumanni hafi borið að gæta að af sjálfsdáðum eða atriði sem bentu til þess að óvíst væri að gerðarbeiðendur ættu rétt á að nauðungarsalan færi fram. Þá hafi einnig legið fyrir að gerðarbeiðendur í nauðungarsölumálinu hafi verið fleiri en Drómi hf. og gætu því mótmæli gerðarþola ekki haft áhrif á framgang nauðungarsölunnar. Gegn mótmælum gerðarbeiðenda hefðu því ekki verið skilyrði til þess að meðferð nauðungarsölunnar yrði frestað að ósk gerðarþola, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991. Hafi beiðni gerðarbeiðandans Dróma hf. þar að auki fullnægt formkröfum 11. gr. laganna og því ekki verið fyrir hendi atvik sem valdið gætu því að beiðninni yrði hafnað vegna ákvæða 1. mgr. 13. gr. laganna eða vegna annarra sambærilegra ástæðna og þar komi fram. Gerðarbeiðandinn Drómi hf. hafi lagt fram frumrit skuldabréfsins áður en framhald uppboðs hafi farið fram og hafi það verið tilkynnt gerðarþola. Þá bendir sýslumaður á að samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laganna sé gerðarbeiðanda heimilt að láta ljósrit af veðskuldabréfi fylgja með beiðni sinni. Sýslumaður geti hins vegar hvenær sem er krafið hann um frumrit skjalsins, í síðasta lagi er sala fari fram. Þá hafi sýslumaður afhent gerðarþola staðfest endurrit úr gerðarbók vegna málsins sem og ljósrit af öllum gögnum þess með framlagningarnúmeri. Sýslumaður hafi ekki tök á því að afhenda ljósrit af gögnum án þess að þau séu merkt með framlagningarnúmeri, enda séu gögn málsins sem liggi hjá sýslumanni þannig merkt.

Niðurstaða.

             Sóknaraðili gerir í máli þessu þá kröfu aðallega að nauðungarsala á eigninni Hallkelshólum sem fram fór hjá sýslumanninum á Selfossi þann 30. apríl 2013, verði felld úr gildi að því leyti sem nauðungarsalan byggðist á uppboðsbeiðni Dróma ehf. Til vara krefst sóknaraðili þess að uppboðsbeiðni Dróma hf. frá 13. september 2012 til sýslumannsins á Selfossi í ofangreindu uppboðsmáli verði hafnað og öll meðferð uppboðsmálsins hjá sýslumanninum á Selfossi verði þar af leiðandi ómerkt og felld úr gildi. Til þrautavara er þess krafist að uppboðsbeiðni Dróma hf. frá 13. september 2012 verði felld úr gildi og hafnað, sem og tilboði Dróma hf. í uppboðsandlagið þann 30. apríl 2013. 

             Samkvæmt gögnum málsins sendi varnaraðilinn Drómi hf. sýslumanninum á Selfossi beiðni um nauðungarsölu á umræddri fasteign með bréfi dagsettu 13. september 2012 en mótteknu 19. september sama ár. Var uppboðsheimildin sögð vera veðskuldabréf með veði í fasteigninni Hallkelshólum og hefði höfuðstóll þess verið gjaldfelldur, 3.646.314 krónur, en sóknaraðili væri aðalskuldari og veðsali. Í umræddu skuldabréfi er ákvæði þess efnis að sé skuldin gjaldfallin megi selja veðið nauðungarsölu án dóms, sáttar eða aðfarar skv. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Fær því ekki staðist sú fullyrðing sóknaraðila að hvergi sé í bréfinu að finna heimild til beinnar nauðungarsölu. Þá sendi varnaraðilinn Tollstjóri sýslumanninum á Selfossi beiðni um nauðungarsölu á umræddri fasteign með bréfi dagsettu 23. janúar 2013 en mótteknu 25. janúar sama ár. Var uppboðsheimildin sögð vera fjárnám sem gert hafði verið í eigninni þann 30. nóvember 2012 vegna ógreiddra gjalda að höfuðstól 821.207 krónur. Þá sendi varnaraðilinn Vátryggingafélag Íslands sama sýslumanni beiðni um  nauðungarsölu á fasteigninni með bréfi dagsettu 26. febrúar 2013 en mótteknu 28. febrúar sama ár. Um heimild til nauðungarsölunnar var vísað til 4. tl. 1. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 58. gr. laga nr. 90/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 48/1994, sbr. 2. gr. laga nr. 131/1996. Var höfuðstóllinn sagður vera 17.773 krónur vegna brunatryggingar fasteignarinnar, en slík krafa nýtur lögveðsréttar. Þá sendi varnaraðilinn Grímsnes- og Grafningshreppur sama sýslumanni nauðungarsölubeiðni vegna ógreiddra fasteignagjalda að fjárhæð 40.492 krónur með bréfi dagsettu 4. mars 2013 en mótteknu 7. mars sama ár. Þessi krafa nýtur lögveðsréttar á grundvelli 7. gr. laga nr. 4/1995.

             Með bréfi dagsettu 28. febrúar 2013 sendi sýslumaðurinn á Selfossi sóknaraðila tilkynningu um fyrirhugaða nauðungarsölu og kemur fram í bréfinu að gerðarbeiðendur séu varnaraðilarnir Drómi hf., Grímsnes- og Grafningshreppur og Tollstjóri. Með bréfi dagsettu 16. apríl 2013 tilkynnti sýslumaður sóknaraðila að byrjun uppboðs hefði farið fram 4. apríl sama ár og hefði verið ákveðið að fresta uppboðinu til 30. apríl sama ár. Fram kemur í bréfinu að gerðarbeiðendur séu þeir er hér að framan greinir, að viðbættum varnaraðilanum  Vátryggingafélagi Íslands. Nauðungarsalan fór fram 30. apríl 2013 og samkvæmt endurriti úr nauðungarsölubók sýslumanns mótmælti sóknaraðili kröfu varnaraðilans Dróma og taldi hann ekki hafa heimild til að innheimta kröfuna skv. veðskuldabréfinu. Varnaraðilinn Drómi varð hæstbjóðandi á uppboðinu með 3.000.000 króna boð og var honum tilkynnt að boð hans yrði samþykkt ef greiðsla bærist í samræmi við uppboðsskilmála 11. júní sama ár.

             Varnaraðilinn Drómi hf. krefst frávísunar á kröfum sóknaraðila öðrum en þeirri kröfu  að nauðungarsala á eigninni verði felld úr gildi, en þess er krafist að henni verði hafnað. Telja verður að endanlegar dómkröfur sóknaraðila séu nú með þeim hætti að hægt sé að leysa úr þeim að efni til. Verður frávísunarkröfunni því hafnað.

             Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila svo að ekki séu gerðar athugasemdir við heimildir annarra varnaraðila en Dróma hf. til þess að krefjast nauðungarsölu á eigninni Hallkelshólum. Samkvæmt 2. tl. 6. gr. laga nr. 90/1991 má til fullnustu gjaldfallinni peningakröfu krefjast nauðungarsölu á eign samkvæmt þinglýstum samningi um veðrétt í eigninni fyrir tiltekinni peningakröfu, ef berum orðum er tekið fram í samningnum að nauðungarsala megi fara fram til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Í 8. tl. veðskuldabréfsins er slíka heimild að finna. Upplýst er í máli þessu að umrætt veðskuldabréf var í vanskilum, greiðsluáskorun hafði verið birt sóknaraðila og þá verður ekki fram hjá því litið að sóknaraðili greiddi inn á kröfuna þann 18. október 2011 og í kvittun fyrir innborgun kemur fram að eigandi skuldarinnar sé varnaraðilinn Drómi hf. Gat sóknaraðila því ekki dulist þegar þessi varnaraðili krafðist nauðungarsölu á eigninni að hann væri réttur aðili að þeirri kröfu. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal til peningakröfu skv. 1. mgr. teljast eftir því sem átt getur við verðbætur, vextir, dráttarvextir og önnur samnings- eða lögbundin vanskilaálög, málskostnaður eða innheimtukostnaður, og kostnaður af kröfu, undanfarandi fullnustuaðgerðum, nauðungarsölunni sjálfri og aðgerðum í tengslum við hana. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. laganna að þegar nauðungarsölu er krafist á grundvelli heimildar skv. 1. mgr. verði skjöl fyrir kröfunni, sem er leitað fullnustu á, að bera með sér að gerðarbeiðandi sé rétthafi hennar eða njóti handveðréttar í henni. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þessu er öllum þessum skilyrðum fullnægt og þá verður ekki annað séð en að sýslumaður hafi við meðferð málsins gætt ákvæða 11. gr. og 13. gr. laganna.

             Þegar nauðungarsalan var tekin fyrir hjá sýslumanni lágu samkvæmt framansögðu fyrir lögmætar heimildir til hennar, ekki einungis samkvæmt beiðni varnaraðilans Dróma hf., heldur einnig frá öðrum varnaraðilum máls þessa sem ekki verður séð að sóknaraðili hafi gert athugasemdir við. Var nauðungarsala eignarinnar því reist á gildri heimild og verður hún ekki ómerkt.  Af því leiðir að sóknaraðili hefur ekki lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um það hvort einhverjir annmarkar hafi hugsanlega verið á málatilbúnaði varnaraðilans Dróma hf. hjá sýslumanni, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu því hafnað.

             Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

             Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Kröfu sóknaraðila, Aðalheiðar S. Axelsdóttur, þess efnis að nauðungarsala á eigninni Hallkelshólum, lóð 168486, fnr. 220-7361, hjá sýslumanninum á Selfossi þann 30. apríl 2013, verði felld úr gildi, er hafnað.

             Málskostnaður fellur niður.