Hæstiréttur íslands
Mál nr. 185/2008
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 29. maí 2008. |
|
Nr. 185/2008. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn Andrzej Kisiel (Sigurður Jónsson hrl. Sigurður Gísli Gíslason hdl.) (Ragnar Baldursson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Nauðgun. Miskabætur. Sératkvæði.
A var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa á víðavangi með ofbeldi haft samræði og endaþarmsmök við X og sumpart notfært sér að hún gat ekki spornað við háttseminni sökum ölvunar, sbr. 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. A neitaði sök og kvaðst hafa haft samræði við X með fullum vilja hennar. Talið var sannað að A hafði samræði við X en frásögn hans um að hún hafi viljað þýðast hann við aðstæður í málinu án nokkurs aðdraganda eða orðaskipta þótti ótrúverðug. Með hliðsjón af trúverðugri frásögn vitna um lýsingu kæranda á atburðunum og læknisfræðilegum gögnum þótti ekki varhugavert að telja sannað að A hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um hrottafengna árás á kynfrelsi X var að ræða með mjög alvarlegum afleiðingum. Þótti refsing A hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár. Þá var ákærði dæmdur til að greiða X miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða X 3.000.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í ákæru.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins og bótakröfu X, en verði sakfelling héraðsdóms staðfest krefst hann þess að refsing verði milduð. Til vara krefst ákærði þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað á ný.
I.
Ákærða er gefið að sök að hafa nauðgað X aðfaranótt 22. september 2007 á víðavangi, eins og nánar er lýst í ákæru, með því að hafa með ofbeldi haft samræði og endaþarmsmök við hana og sumpart notfært sér að hún gat ekki spornað við háttsemi hans sökum ölvunar. Ákærði neitar sök. Kveður hann kynferðismök þeirra hafa verið með samþykki X, jafnframt því sem hann hefur frá upphafi neitað að hafa haft endaþarmsmök við hana.
Meðal málsgagna er skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun, sem gerð var á X á Heilbrigðistofnun [...] snemma morguns 22. september 2007. Þar er meðal annars getið um sár eða rifu í endaþarmi. Í skýrslu Karls Björnssonar læknis fyrir dómi kom fram að blætt hafi úr sárinu og að áverkar á X hafi verið ferskir. Í héraðsdómi er jafnframt greint frá niðurstöðu rannsóknar á lífsýnum. Hafi sýni, sem tekin voru úr leggöngum og endaþarmi X, innihaldið sáðfrumur úr ákærða. Að því virtu, sem að framan greinir, er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi haft kynferðismök við hana um endaþarm.
II.
Í greinargerð ákærða til Hæstaréttar segir að framburður hans fyrir dómi hafi komist illa til skila meðal annars vegna þess að hann hafi þurft að „fara í gegnum túlk.“ Því hafi ekki farið fram milliliðalaust og hlutlaust mat á framburði hans, heldur hafi héraðsdómur strax tekið þá stefnu að telja framburð ákærða engu máli skipta. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var því borið við að nafngreind kona af pólskum uppruna, sem fengin var sem túlkur í þinghöldum, sé ekki löggiltur dómtúlkur eða skjalaþýðandi. Túlkar með full réttindi hvað varðar pólska tungu séu hins vegar hér á landi og feli þetta í sér að ákærði hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 13. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Við munnlegan flutning málsins var þessu svarað af hálfu ákæruvaldsins á þann veg að umræddur túlkur hafi búið hér á landi í yfir 20 ár, sé starfsmaður Alþjóðahúss og hafi mikla reynslu af störfum hér á landi við að túlka í dómsmálum af og á pólska tungu. Hún hafi einnig túlkað í máli ákærða við skýrslutökur fyrir lögreglu. Jafnframt var vísað til þess að fyrir liggi hljóðupptaka af munnlegri skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi, þar sem fram komi spurningar til hans á íslensku ásamt þýðingu þeirra á pólsku og svör hans á því tungumáli ásamt þýðingu þeirra á íslensku, en ákærði hafi ekki óskað eftir að löggiltur dómtúlkur yrði fenginn til að hlýða á þessa upptöku til að ganga úr skugga um réttmæti þýðingarinnar. Af hálfu ákærða er ekki haldið fram að einhver einstök atriði hafi farið úrskeiðis við framkvæmd starfa túlksins, heldur einungis bent á áðurgreint réttindaleysi. Að öllu framangreindu virtu getur það eitt ekki leitt til þess að fallist verði á varakröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms. Hinu sama gegnir um þá málsvörn hans að ekki hafi verið tekin skýrsla fyrir dómi af nafngreindum kunningja ákærða, sem hafi verið með honum á áðurnefndum dansleik, en af hálfu ákæruvaldsins er komið fram að til hafi staðið að taka af honum skýrslu fyrir dómi en það ekki reynst unnt þar eð maðurinn var horfinn úr landi þegar aðalmeðferð málsins fór fram.
Við munnlegan flutning málsins var lagt fram skjal, sem samkvæmt fyrirsögn sinni er sérfræðiálit um truflun á starfsemi endaþarms, unnið að beiðni talsmanns ákærða. Framlagning þessa skjals fær ekki samrýmst ákvæðum VIII. kafla laga nr. 19/1991, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 202/1999 í dómasafni réttarins 1999, bls. 2452, og 168/2002 í dómasafni 2003, bls. 1379. Kemur skjalið ekki til neinna álita í málinu.
III.
Ljóst er að X var undir verulegum áhrifum áfengis umrætt sinn. Í frumskýrslu lögreglunnar í [...] segir að hún hafi komið á lögreglustöðina snemma morguns 22. september 2007 illa til reika og verið í miklu uppnámi. Þar hafi hún greint frá því að henni hafi verið nauðgað. Hún hafi verið á dansleik um nóttina og dansað þar við útlending. Eftir dansleikinn hafi hún farið inn á opið svæði á bak við tiltekið hús til að kasta af sér vatni. Þá hafi sami maður ráðist aftan að sér, skellt henni á jörðina og nauðgað henni. Svo sem greinir í héraðsdómi hefur minni X af atvikum eftir þetta reynst mjög stopult og sjálf lýsir hún því svo að atburðir kvöldsins komi einungis upp í huga hennar sem minningabrot. Fyrir dómi sagði hún „ég man það ... bara að ég ligg á grúfu og finn bara gífurlegan sársauka og ég lá á grúfu með hendina svona upp við mig. Og það er eina sterka minningarbrotið sem ég á“. Ítrekað kom fram í framburði hennar að hún hafi legið á grúfu, fundið gífurlegan sársauka og séð aðra hönd sína og hús nafngreinds manns útundan sér þar sem hún lá. Tveir lögreglumenn hafa staðfest fyrir dómi að frásögn X að morgni 22. september hafi verið með þeim hætti sem greinir í lögregluskýrslunni. Vinkona X gaf einnig skýrslu fyrir dómi en hún kveðst hafa komið á lögreglustöðina áðurnefndan morgun eftir að X hringdi í hana. Þar hafi X margendurtekið að hún hafi farið afsíðis til að kasta af sér vatni, en þá hafi maður skyndilega ráðist á hana og nauðgað henni. Hann hafi ýtt henni niður í „stéttina og moldina, hún talaði um bæði sko.“ Þá hafi maðurinn rifið í hárið á henni og haldið henni niðri.
Ákærði heldur hins vegar fram að þau hafi haft þarna kynferðismök með fullu samþykki X. Í byrjun hafi hún legið á bakinu, síðan á hnjánum og loks aftur á bakinu og hafi samræði eingöngu verið um leggöng. Í áðurnefndri skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á X segir meðal annars: „Neðan nafla ... í húðfellingu er gras.“ Þessa atriðis er einnig getið í niðurstöðu skýrslunnar. Af hálfu ákæruvaldsins er byggt á því að þetta styðji frásögn X um að samræðið hafi orðið meðan hún lá á maganum á jörðinni, sem fær samrýmst lýsingu hennar á því hvernig ákærði hafi haldið henni fastri meðan hann nauðgaði henni. Rannsókn lögreglu á ummerkjum á fatnaði hennar gefur hins vegar ekki einhlítar vísbendingar um þetta, en moldarkám fannst bæði á bakhluta hans og á framhlið jakka hennar og hlíratopps.
Í hinum áfrýjaða dómi er framburður vitna ítarlega rakinn og gerð grein fyrir öðrum sönnunargögnum í málinu. Framburður X er þar metinn trúverðugur, en framburður ákærða ótrúverðugur. Með vísan til forsendna héraðsdóms og að gættu því sem að framan var getið eru sannaðar þær sakir, sem ákærði er borinn í málinu. Háttsemi hans er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Refsing ákærða er hæfilega ákveðin í héraðsdómi. X hefur hlotið verulegan miska við brot ákærða, svo sem nánar er lýst í héraðsdómi. Að öllu virtu er fjárhæð miskabóta til hennar ákveðin 1.500.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Andrzej Kisiel.
Ákærði greiði X 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. september 2007 til 18. febrúar 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 622.384 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ragnars Baldurssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
hæstaréttardómara
Í máli þessu er ákærða gefin að sök nauðgun aðfararnótt laugardagsins 22. september 2007 „á víðavangi suðaustan við hús nr. 23 við Kirkjuveg í Vestmannaeyjum, með því að hafa með ofbeldi haft samræði og endaþarmsmök við X og sumpart notfært sér að hún gat ekki spornað við háttseminni sökum ölvunar.“ Í ákæru greinir að við þetta hafi X hlotið „sár í endaþarmi, marbletti á útlimum, húðrispur á vinstri upphandlegg og tognun í vinstri litlafingri.“
I.
Óumdeilt er að ákærði hafði kynferðismök við kæranda umrætt sinn að loknum dansleik um klukkan fimm að morgni. Framburður ákærða og kæranda er rakinn í héraðsdómi og eru þau tvö ein til frásagnar. Þá er þar rakinn framburður þeirra sem hittu kæranda á lögreglustöð og skýrslur sérfræðinga um ástand hennar. Héraðsdómur sakfellir ákærða í samræmi við ákæru. Til stuðnings þeirri niðurstöðu er vísað til framburðar kæranda en ekki síður til framburðar vitna um frásögn hennar í sinni viðurvist og að kærandi hafi verið í mikilli geðshræringu er hún kom á lögreglustöð þá um nóttina. Einnig er vísað til lýsingar Karls Björnssonar heimilislæknis á líkamlegu og andlegu ástandi kæranda við skoðun, en hann annaðist réttarfræðilega skoðun á henni sem mun hafa hafist klukkan 06:30 þá um morguninn. Vísað er til læknisfræðilegra gagna og síðari sálfræðiskýrslna og nefnt að framburður þeirra vitna sem skýrslur gáfu um ástand kæranda eftir atvikið hafi verið trúverðugur. Einnig er tiltekið að ekki sé komið fram að samdráttur hafi verið með ákærða og kæranda á skemmtistaðnum Lundanum umrætt kvöld og talið ótrúverðugt að kærandi hafi viljað þýðast ákærða án nokkurs aðdraganda eða orðaskipta þeirra í milli. Í héraðsdómi er sagt frá því að áðurnefndur Karl Björnsson hafi metið lýsingu kæranda trúverðuga. Þá er fjallað um greiningu sálfræðinema á ástandi hennar þremur dögum síðar og svo sálfræðings nokkru eftir það, sem og umsögn Kjartans B. Örvar sérfræðings í lyflækningum og meltingarsjúkdómum er kvað á um starfræna truflun á endaþarmshringvöðva kæranda. Skýrslur þeirra eru raktar í héraðsdómi og vísað til þess að þessi vitni mátu það svo að kærandi hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi.
II.
Ég er ósammála niðurstöðu héraðsdóms og meirihluta dómenda og tel að sýkna beri ákærða af sakargiftum. Ekki verður hjá því komist að rekja nokkur atriði úr skýrslum ákærða og vitna fyrir dómi frekar en gert hefur verið einkum sum þau er horfa ákærða til hagsbóta og ekki hafa verið gerð nægileg skil að mínu áliti. Um önnur atriði vísast til þess sem að framan greinir, héraðsdóms og atkvæðis meirihluta dómenda.
Um málsatvik sagði kærandi fyrir dómi að hún myndi eftir því að hafa verið á skemmtistaðnum Lundanum og að hafa dansað þar við vinkonu sína. Þá sagði hún: „Næsta sem ég man það er bara að ég ligg á grúfu og finn bara gífurlegan sársauka og ég lá á grúfu með hendina svona upp við mig. Og það er eina sterka minningarbrotið sem ég á. Og næsta er það bara að ég verð, lít niður á mig, er einhvers staðar að labba, ég veit ekkert hvaða leið ég labba, og þá tek ég eftir því að ég er bara í einum skó, steig í poll eða eitthvað sem ég verð vör við það. Og næsta sem ég man það er bara, ég sé lögreglustöðina bara svona í ljósi og það er það sem ég man. Man eftir röddinni í Pétri lögreglumanni man að hann talaði einhvers staðar hér. Þannig að meira á ég ekki til.“ Hins vegar nefnir kærandi hvorki með skýrum hætti hvernig ákærði hafi beitt hana kynferðisofbeldi né getur hún þess fyrir dómi að hún hafi verið að kasta af sér þvagi er ráðist var að henni og að hún hafi sumpart vegna ölvunar ekki getað spornað við ofbeldi árásarmanns. Lögregluskýrslur voru ekki bornar undir kæranda við meðferð málsins fyrir dómi.
Af niðurstöðu rannsóknar á blóðsýni sem tekið var af kæranda eftir atvik verður ekki dregin örugg ályktun um ölvunarástand hennar á þeim tíma er atvik gerðust. Ákæruvaldið vill miða við að kærandi hafi verið ofurölvi. Hjá lögreglu komst kærandi hins vegar svo að orði að hún hafi „ekki verið ofurölvi“ og lýsa vitni ekki ástandi hennar þannig. Um þetta segir til að mynda í framangreindri skýrslu Karls Björnssonar heimilislæknis sem eins og áður segir hitti kæranda klukkan 06:30 þá um morguninn að hún hafi verið „svolítið ölvuð“.
Í skýrslum sínum hjá lögreglu og fyrir dómi lýsir kærandi því ekki að hún hafi hitt ákærða á skemmtistaðnum, en vitni bera þó um að hún hafi sagt þeim að hún hafi talað ensku við útlending á skemmtistaðnum. Framburður ákærða var stöðugur við alla meðferð málsins um að hann hafi hitt kæranda á skemmtistaðnum, farið með henni þaðan og gengið að grasbala bak við hús þar við þar sem þau hafi haft kynmök. Eftir kynferðismökin, sem ekki hafi verið í endaþarm, hafi kærandi ekki viljað þiggja aðstoð sína við að rísa á fætur. Ákærði kvaðst þá hafa hagað sér kjánalega en viðbrögð hans hefðu verið þau að kveðja kæranda og fara á hótelið þar sem hann dvaldi. Ákærði gat þess að hann hefði daginn eftir skýrt vini sínum Richard Vrtiel frá atvikum.
Í hinum áfrýjaða dómi er tiltekið að ekki sé fram komið að nokkur samdráttur hafi verið með ákærða og kæranda, en sagt að vitnið Sæþór Þorbjarnarson hafi þó borið um að honum hafi fundist þau yfirgefa veitingastaðinn saman eftir lokun. Um þetta bar vitnið fyrir dómi að hann hafi séð þau ganga „út í sömu andránni bara og mjög þétt þannig séð“. Er það í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu. Hins vegar er ekki getið í héraðsdómi um skýrslu vitnisins Richard Vrtiel hjá lögreglu þar sem telja verður að hann skýri frá samdrætti ákærða og kæranda inni á veitingastaðnum nokkuð á sömu lund og Sæþór. Kvaðst hann hafa séð ákærða spjalla við stúlku þar inni og hafi farið vel á með þeim, án þess þó að þau væru sjáanlega að reyna við hvort annað, eins og komist var að orði. Tók vitnið fram að þau hefðu talað saman á ensku, en ákærði hafi þó talað lélega ensku. Þau hefðu síðan yfirgefið staðinn saman. Þá var bókað eftir vitninu að ákærði hefði hitt sig daginn eftir og sagt að hann hefði haft kynmök við konuna sem farið hefði með honum af veitingastaðnum og það hefði verið utandyra. Ákærði hefði sagt sér að kynmökin hefðu verið með vilja þeirra beggja en að þeim loknum hafi konan sagt ákærða að hún hefði ekki viljað þetta. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Því hefur skýrsla vitnis hjá lögreglu takmarkað sönnunargildi að öllu jöfnu. Skýrsla Richard hjá lögreglu, ásamt framburði Sæþórs, styður hins vegar framburð ákærða um samdrátt milli hans og kæranda. Þá má hafa í huga að vitnið Richard kveður ákærða hafa sagt sér frá atvikum strax daginn eftir með líkum hætti og ákærði skýrði síðar frá hjá lögreglu og fyrir dómi. Ekkert er upplýst um hvort og þá hvernig reynt var að hafa upp á vitninu til skýrslugjafar fyrir dómi. Að teknu tilliti til þessa og ákvæða 45. gr. laga nr. 19/1991 hefði því héraðsdómur átt að styðjast við skýrslu þessa vitnis hjá lögreglu þegar komist var að niðurstöðu í málinu samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laganna í stað þess að hafa hana að engu.
III.
Marblettum á útlimum kæranda og húðrispum sem nefndar eru í ákæru er ekkert frekar lýst þar, en í héraðsdómi er rakið áverkavottorð Karls Björnssonar læknis um þessi atriði. Eins og áður segir kveður ákærði kynferðismökin hafa verið með fullu samþykki kæranda. Í byrjun hafi hún legið á bakinu, síðan á hnjánum og loks aftur á bakinu og hafi kynferðismökin einungis verið um leggöng. Ákærði er hins vegar sakfelldur fyrir að hafa með ofbeldi haft kynferðismök við kæranda í endaþarm og er umsögn Kjartans B. Örvar læknis um starfræna truflun í endaþarmsvöðva kæranda einkum fært fram til sönnunar fyrir þessari háttsemislýsingu, sem og rifa í endaþarmi. Hefur ákæruvaldið einnig bent á að slík mök séu frekar til sönnunar fyrir því að ákærði hafi beitt kæranda ofbeldi umrætt sinn. Líta verður til þess að kærandi hefur hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi borið að um endaþarmsmök hafi verið að ræða og ekkert vitna segir kæranda hafa getið um slíkt. Auk þessa er í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á kæranda ritað svofellt eftir kæranda um þetta atriði: „Segir að hann hafi nauðgað sér. Heldur að það hafi verið um leggöng. Spurð um endaþarmsmök segist hún ekki viss og muni það ekki.“ Í þessari skýrslu er þess getið að blóðblettur hafi verið á endaþarmi úr rifu. Þá segir: „Sár í endaþarmi vekja grun um þvingaðar samfarir um endaþarm. Sýni voru tekin frá endaþarmi og leggöngum til sæðisrannsókna.“ Rifa sú sem um ræðir er í áverkavottorði Karls Björnssonar læknis sögð vera „ca. 0,5 cm út í húðina“. Í vottorði um réttarlæknisfræðilega skoðun var fyrst talað um að staðsetning rifunnar hefði verið „kl. 5“, en í áverkavottorði Karls síðar að hún hafi verið „kl. 1“. Ekki var getið um það í vottorðinu að blætt hafi úr sárinu, heldur hafði læknirinn fyrst orð á því við aðalmeðferð málsins, eða rúmum fimm mánuðum eftir atvik. Auk þess kom fram hjá lækninum að sýni það sem sagt er hafa verið tekið úr endaþarmi hafi að líkindum í raun aðeins verið tekið úr endaþarmsopi. Sýnið gaf jákvæða svörun við sæðiskönnun, sem og bæði þau sýni sem tekin voru úr leggöngum kæranda. Er allt framangreint til stuðnings því sem ákærði hefur haldið staðfastlega fram að um kynferðismök í leggöng hafi verið að ræða en ekki í endaþarm og hafi hann fellt sæði til kæranda.
Ekki verður fallist á að grasstrá sem fannst neðan á nafla kæranda hafi sérstaka þýðingu um sönnun á sekt ákærða um mök í endaþarm meðan hún lá á maganum. Helgast það meðal annars af því að grasstrá eða mold fundust ekki síður á bakhlið en framhlið fata kæranda og meðal annars í hnéhæð buxna hennar.
IV.
Kynferðisbrot eins og það sem ákærða er gefið að sök er alvarlegt afbrot og hefur einatt verulegar afleiðingar fyrir þann sem fyrir því verður. Verður ekki dregið í efa það mat sérfræðinga að slíkt brot geti leitt til þess að þolandi muni lítt eða óljóst eftir atvikum, eins og kærandi kveðst gera. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að hér er um að ræða sönnun í sakamáli þar sem kærandi og ákærði eru ein til frásagnar og ber dómara að lögum skylda til að túlka vafa ákærða í hag. Mat héraðsdóms á trúverðugleika framburðar ákærða og vitna kemur ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Hins vegar eru að framan nefnd nokkur atriði sem telja verður ákærða í hag varðandi sönnun um sekt hans og jafnframt bent á ýmislegt sem leiðir líkur að því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunarmat kunni að vera röng svo einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Ég tel þó ekki þörf á að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar í héraði samkvæmt ákvæðinu en í því sambandi ber einkum að líta til þess sem áður segir að kærandi og ákærði eru ein til frásagnar um það sem ákært er fyrir en eins og áður er rakið eru skýrslur kæranda, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, brotakenndar og ekki í samræmi við háttsemislýsingu í ákæru. Að öllu þessu sögðu og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 er varhugavert, gegn staðfastri neitun ákærða, að telja sekt hans sannaða og verður ekki talið að lýsingar vitna á ástandi kæranda fái breytt þessari niðurstöðu. Að þessari niðurstöðu fenginni þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort brotinn hafi verið réttur á ákærða samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, með því að gefa honum ekki kost á að hafa löggiltan túlk sér til aðstoðar við yfirheyrslur fyrir héraðsdómi þannig að ómerkja beri héraðsdóm og vísa málinu í hérað á ný. Því tel ég að sýkna beri ákærða af kröfu ákæruvaldsins. Einnig beri að vísa framkominni skaðabótakröfu kæranda frá héraðsdómi samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 og fella allan sakarkostnað á ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 166. gr. sömu laga.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 7. mars 2008.
Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 15. janúar sl. á hendur Andrzej Kisiel, kt. [...], pólskum ríkisborgara, Hafnarbraut 4, Kópavogi „fyrir nauðgun aðfaranótt laugardagsins 22. september 2007, á víðavangi suðaustan við hús nr. [...] við [...] í [...], með því að hafa með ofbeldi haft samræði og endaþarmsmök við X og sumpart notfært sér að hún gat ekki spornað við háttseminni sökum ölvunar. Við þetta hlaut X sár í endaþarmi, marbletti á útlimum, húðrispur á vinstri upphandlegg og tognun í vinstri litlafingri.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992 og 3. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Af hálfu X, kt. [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 3.000.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. september 2007 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa þessi er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Mál þetta var þingfest 18. janúar sl. og kom ákærði þá fyrir dóm og neitaði sök. Aðalmeðferð málsins var haldin á Selfossi 4. febrúar sl. og var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi. Verjandi ákærða krafðist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, frávísunar á framkominni bótakröfu og málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins. Réttargæslumaður kæranda, Páley Borgþórsdóttir, hdl., krafðist þess að krafa hennar næði fram að ganga og henni yrði dæmd hæfileg þóknun samkvæmt framlögðum reikningi.
Málavextir.
Í frumskýrslu lögreglu og færslu í dagbók kemur fram að kærandi, X, kt. [...],[...],[...], hafi komið á lögreglustöðina í [...] laugardaginn 22. september 2007 kl. 05:55 í mikilli geðshræringu. Hafi hún verið grátbólgin, í krumpuðum svörtum buxum með moldarblett á hægra hné og einungis í öðrum skónum. Eftir að hafa rætt við kæranda í um tíu mínútur hafi hún tjáð lögreglumanni að henni hefði verið nauðgað utan við skemmtistaðinn A skömmu áður. Hefði atvikið átt sér stað í portinu aftan við B og hefði útlendingur komið fram vilja sínum gagnvart henni þar. Hún kvaðst hafa verið að dansa inni á A um nóttina ásamt vinkonum sínum af árgangsmóti. Taldi hún sig hafa dansað með manninum þar eins og komist er að orði í skýrslunni. Eftir lokun staðarins hafi hún ætlað að halda heim á leið en fyrst komið við í sundinu við B til þess að pissa. Hefði hún verið búin að leysa niður um sig buxurnar er maðurinn hefði komið skyndilega aftan að henni, skellt henni í jörðina og komið fram vilja sínum gagnvart henni þar. Eftir atvikið kvaðst kærandi hafa gengið rakleitt að lögreglustöðinni til þess að tilkynna verknaðinn. Sökum geðshræringar hafi hún mjög takmarkað getað tjáð sig um atburðinn eða gefið haldbærar upplýsingar. Hún hafi sagt gerandann hafa talað góða ensku og hefði hann verið dökkhærður og grannur. Kærandi var þegar færð á Heilsugæslustofnunina til rannsóknar.
Kærandi mætti til skýrslutöku hjá lögreglu kl. 15:10 sama dag en þá kvaðst hún ekki muna eftir atvikinu þrátt fyrir að hafa reynt að rifja það upp. Hún kvaðst hafa verið stödd í C kvöldið áður og fram á nótt þar til dansleik lauk þar um kl. 03:00. Hafi hún þá farið á A ásamt nokkrum vinkonum sínum og hafi þær dansað þar. Ekki mundi hún eftir að hafa dansað við karlmann þar inni. Hún kvaðst ekki muna eftir því þegar hún fór út og það eina sem hún mundi hafi verið að höfði hennar hafi verið þrýst niður. Þá kvaðst hún muna eftir því að hún hafi einungis verið í öðrum skónum á leiðinni á lögreglustöðina. Hún kvaðst muna eftir sér á lögreglustöðinni en kvaðst ekki muna hvernig hún hafi komist þaðan á sjúkrahúsið. Hún kvaðst ekki geta sagt til um hversu mikið hún drakk, en sagðist hafa verið undir áhrifum áfengis.
Kærandi gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 15. nóvember sl. og lýsti þá nánar áfengisneyslu sinni. Hún kvaðst hafa drukkið talsvert af hvítvíni í C en hún hafi ekki verið ofurölvi er hún kom í A. Hún kvaðst hafa smá minningabrot frá veru sinni þar. Hún kvaðst muna eftir vinkonum sínum þeim D og E þar sem þær hafi verið að dansa. Hún mundi ekki hvort hún keypti áfengi á barnum. Hún mundi ekki eftir því að hafa verið að ræða við ókunnuga á skemmtistaðnum og ekki mundi hún eftir því hvort útlendingar hefðu verið þar inni. Næsta minningarbrot kvað hún vera er hún lá á grúfu og fann fyrir gríðarlega miklum sársauka. Hún kvaðst hafa verið með vinstri hönd kreppta að líkamanum og hafi hægri vangi hennar numið við jörðina og hún horft á krepptan hnefa sinn. Hún kvaðst muna eftir að hafa horft í norðurátt að húsi sem hún þekkti. Hún kvaðst við þennan gríðarlega sársauka í raun ekki hafa gert sér grein fyrir því hvað væri að gerast og hún mundi ekki eftir því hvað gerðist í framhaldinu þar sem hún hefði legið á grúfu. Þá hafi undanfarið verið að koma fram hjá henni minningarbrot um að hún hafi verið að kasta af sér þvagi upp við hvíta girðingu.
Lögregla rannsakaði og ljósmyndaði vettvang og við þá rannsókn fundust nærbuxur kæranda á götu nokkrum tugum metra frá ætluðum vettvangi.
Ákærði var handtekinn á [...] kl. 18:55 sama dag og kannaðist hann við að hafa hitt konu fyrir utan skemmtistað í [...] aðfaranótt laugardagsins og haft samfarir við hana með vilja þeirra beggja. Kvaðst hann hafa hitt konuna rétt fyrir lokun í anddyri skemmtistaðarins og hafi hann blikkað hana. Hún hafi svarað því með látbragði og þau farið saman út. Þau hafi síðan haft kynmök utandyra í grennd við skemmtistaðinn og hafi konan leitt hann þangað. Hann kvað konuna hafa lagst á bakið í upphafi og hann farið ofan á hana og sett getnaðarliminn inn í hana. Hann hafi síðan gefið til kynna að hann vildi taka hana aftan frá og hafi hann hjálpað henni að snúa sér þannig að hún var á hnjánum og hafi þetta gerst án allrar nauðungar. Hafi hún síðan farið á bakið aftur og hann fellt sæði til hennar. Hann kvaðst ekki hafa notað smokk. Hann kannaðist ekki við að hafa haft samfarir í við konuna í endaþarm.
Ákærði var sama dag og hann var handtekinn færður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til réttarskoðunar og var aflað lífsýna af honum til nánari greiningar. Hann var einnig færður til læknisrannsóknar og fannst þá smá roðablettur bak við vinstra eyra, þá var smáskeina á hnúa hægri handar, ca 3 mm sem virtist nýleg. Framan á vinstra læri virtist vera far eða rispa, ca 5 cm löng, sem læknir taldi allt eins geta verið nokkurra daga gamalt.
Kærandi var samdægurs flutt á Heilbrigðisstofnunina í [...] til rannsóknar. Samkvæmt skýrslu Karls Björnssonar, læknis, kom hún þangað kl. 06:30 og nokkru síðar voru tekin úr henni blóð- og þvagsýni til alkóhólrannsóknar. Samkvæmt niðurstöðu Guðlaugar Þórsdóttur læknis hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndist alkóhól í blóði vera 1,50, en í þvagi 2,55. Segir í vottorðinu að hlutaðeigandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar blóðsýnið var tekið og bendi styrkur alkóhóls í þvagi til þess að styrkur alkóhóls í blóði hafi verið fallandi þegar sýnin voru tekin.
Karl Björnsson segir kæranda hafa verið í andlegu losti og átt erfitt með að muna atburði. Hún gráti, stari fram fyrir sig og sé sein til svara. Hann hefur eftir henni að hún hafi verið á árgangsmóti og verið að skemmta sér á veitingastaðnum A. Eftir skemmtun hafi hún farið bak við B til að pissa og hafi maður, útlendingur sem hún kunni ekki að nefna eða lýsa, ráðist þar að henni, komið aftan að henni og ýtt henni niður á magann og haldið henni. Hún segi hann hafa nauðgað sér og heldur að það hafi verið um leggöng. Hún kvaðst ekki viss um endaþarmsmök og ekki muna eftir þeim. Fram kemur í skýrslu læknisins að föt hennar, buxur og jakki, hafi verið óhrein og hafi hún verið nærbuxnalaus við skoðun. Þá kemur fram að hún hafi verið með marblett á vinstri upphandlegg innanvert og hrufl utanvert á handleggnum. Sár eða rifa sjáist í endaþarmi við kvenskoðun og sést það liggja inn í endaþarminn og sé rifan ca 0,5 cm út í húðina. Sárið sé grunnt en þó vel greinanlegt. Engin áverkamerki sáust á sköpum. Önnur áverkamerki segir læknirinn vera 3x3 cm marblett ofanvert á báðum olnbogum. Á vinstra hné sé mar framan á hnéskelinni og mar á vinstri jarka, ca 5x5 cm. Innanvert á báðum hnjám séu litlir marblettir og þá sé marblettur ca 4x4 cm á hægri sköflungi. Þá sé kærandi með verk í vinstra litlafingri, hún sé aum yfir metacarpus V. lið og aum við hliðarsveigju eins og liðband hafi tognað. Hún hafi eymsli með nefrótinni hægra megin og sé aum viðkomu þar. Hún sé með vöðvaverki í handleggjum og höndum og sé þreifiaum í framhandleggjum, upphandleggjum og yfir öxlum. Segir Karl þetta einkenni sem sjáist við mikil átök eða vöðvavinnu og/eða eftir mikla spennu og séu einkenni sem oft komi ekki fram fyrr en eftir 1-2 daga.
Sýni voru tekin úr leggöngum og endaþarmi kæranda til sæðisrannsóknar og rannsókn á þeim gaf jákvæða svörun við AP sæðisprófi. Sýnin voru prófuð áfram með ABA p30 staðfestingarprófi og gáfu þau jákvæða svörun. Þann 17. október sl. 2006 voru send til DNA-greiningar hjá Rettsmedisinsk Institutt við háskólann í Osló sýni sem safnað var í þágu rannsóknar málsins. Í niðurstöðu rannsóknarstofunnar dagsettri 11. desember sl. sama ár kemur fram að sýnin hafi verið rannsökuð með DNA greiningaraðferðum og hafi sýni sem tekin voru úr leggöngum og endaþarmi reynst við frumrannsókn innihalda mikið magn sáðfruma og þekjufruma. Voru frumugerðir sýnanna aðskildar og þær rannsakaðar og DNA snið hvorrar frumugerðar ákvörðuð. Leiddu niðurstöður þeirra greininga í ljós að DNA snið sáðfrumuhluta sýnanna var hið sama og DNA snið ákærða og verði þau sýni því rakin til hans. Þá kom í ljós að DNA snið þekjufrumuhluta sýnanna var hið sama og DNA snið kæranda. Í niðurstöðunni kemur fram að líkurnar á að finna sams konar snið frá óskyldum einstaklingi sé ávallt minni en 1:1.000.000.000.
Lögð hefur verið fram í málinu umsögn Kjartans B. Örvars, læknis, sérfræðings í lyflækningum og meltingarsjúkdómum, dagsett 11. janúar sl. Kemur þar fram að næstu daga eftir atvikið hafi kærandi verið með særindi við endaþarminn, hafi blætt frá honum og hún átt erfitt með að sitja. Hafi hún fljótlega farið í sigmoidscopiu hjá Bjarna Þjóðleifssyni á LSH og hafi þá komið í ljós yfirborðslegar afrifur. Hún hafi eftir það ekki orðið vör við hægðarleka en verkurinn sé minni eða nánast horfinn. Hún geti hins vegar engan veginn hafið hægðarlosun og finnist hún ekki geta myndað þrýsting eða rembing þar niðri og þurfi að teygja sig og reigja sig aftur til að geta komið hægðum frá sér. Sé þetta stöðugt vandamál og valdi henni erfiðleikum og kvíða. Hún hafi engin einkenni haft frá endaþarmssvæði fyrir þennan áverka og hafi aldrei stundað endaþarmskynklíf. Við skoðun Kjartans var ekki að sjá sár við endaþarmsopið og við lauslega þreifingu á endaþarmsopi hafi ekki verið að finna nein merki um fistulu núna og væri palperalinea dentatum allan hringinn. Var það álit hans að samkvæmt sögu og klíník, þar sem vöðvar væru eðlilegir og endaþarmsómskoðun eðlileg, væri kærandi með klassísk einkenni fyrir anismus sem í hennar tilviki tengist án efa kynferðislegu ofbeldi.
Fyrir liggur í málinu vottorð Thelmu Gunnarsdóttur, meistaranema í sálfræði dagsett 28. janúar sl. Þar kemur fram að hegðun og líðan kæranda beri skýr merki um áfallastreituröskun. Vekji þættir tengdir atburðinum (t.d. erlent tungumál) hjá henni sterk líkamleg tilfinningaviðbrögð sem geri það að verkum að hún forðist tilteknar aðstæður. Hún upplifi sig fjarlæga öðru fólki, hafi minnkaðan áhuga á þátttöku í félagslífi og minnkaða getu til að upplifa eðlilegar tilfinningar. Hún hafi þrálát einkenni örvunar sem birtist í svefnörðugleikum, pirringi og lítilli einbeitingu. Hún muni enn ekki mikilvæga þætti tengda atburðinum sem sé þekkt sem verndandi þáttur í upplifun áfalls (trauma). Þrátt fyrir að betra jafnvægi sé komið á tilfinningar kæranda og líðan í dag þurfi lítið til að hún bresti í grát. Hafi þessi einkenni haft víðtæk áhrif á daglegt líf kæranda, s.s. á starfsgetu, þátttöku í félagslífi, hvíld, næringu og almenna líðan. Þá upplifi hún enn sár líkamleg einkenni sem minni hana stöðugt á atburðinn, en um sé að ræða einkenni sem ekki hafi verið fyrir hendi áður.
Þá hefur verið lagt fram vottorð Valgerðar Magnúsdóttur, sálfræðings, dagsett 30. janúar sl., en hún mun hafa átt 7 viðtöl við kæranda frá 5. október sl. Segir í vottorðinu að líðan kæranda á þessum tíma hafi einkum einkennst af dofa, minnisleysi, einbeitingarerfiðleikum og skorti á úthaldi. Auk þess hafi hún daglega glímt við alvarlegar og kvalafullar meltingartruflanir sem séu þekkt afleiðing af nauðgun og hafi ekki verið til staðar áður. Kvað Valgerður ástand kæranda uppfylla formlega skilgreiningu á langvarandi áfallaröskun og hafi andlegar og líkamlegar afleiðingar atviksins valdið henni miklum daglegum þjáningum. Taldi hún kæranda hafa þörf fyrir langvarandi sálfræðiaðstoð.
Lagt hefur verið fram í málinu vottorð Veðurstofu Íslands um veður í [...] kl. 05:00 umræddan dag. Þar kemur fram að hiti hafi verið 7,3ºC, austsuðaustan 7,3 m/s.
Ákærða var birt skaðabótakrafa kæranda við þingfestingu málsins og hafnaði hann henni.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann og vinur hans hafi ætlað að fara á diskótek, en þetta hafi verið síðasta kvöldið sem þeir voru í [...]. Þeir hafi ætlað að fara heim í Kópavog daginn eftir. Þeir hafi fengið sér nokkra bjóra á skemmtistað og milli kl. þrjú og fjögur hafi þeir ætlað að fara og hann farið fram. Þá hafi hann séð þar vin sinn sem heitir Risart og þar hafi verið stúlka sem hann kannaðist við. Hann kvaðst hafa heilsað stúlkunni, en þetta hafi verið tveim til þremur metrum frá aðal útihurðinni. Hinum megin við hafi staðið stúlka sem hann hafi blikkað og vikið sér að henni og hafi hún verið fús að fara út með honum. Hann kvaðst aldrei hafa séð þessa stúlku áður og kvað hann þau ekkert hafa talað saman, enda kunni hann hvorki ensku né íslensku. Þau hafi farið saman út, hann hafi haldið með hægri hendi yfir bakið, haldið utan um hana og hún hafi haldið hinum megin frá um mittið á honum. Þannig hafi þau gengið út, yfir götuna og á bak við B. Þar á bak við B hafi þau kysst tvo stutta kossa og þá hafi stúlkan tekið í höndina á honum og þau gengið yfir bílastæði. Stúlkan hafi þá opnað tölu á buxum hans og þá hafi hann farið meira úr þeim. Hann hafi hjálpað henni að leggjast niður og klætt hana úr þröngum fatnaði af öðrum fætinum, hann vissi ekki hvort um buxur eða sokkabuxur var að ræða. Þau hafi byrjað að hafa mök, hún hafi verið á bakinu til að byrja með og hafi þetta tekið alls u.þ.b. 4 5 mínútur. Svo hafi hún farið á fjóra fætur og þannig hafi þau haldið áfram. Þau hafi klárað mökin með því að hún lagðist á bakið aftur og þannig hafi þau hætt. Ákærði kannaðist ekki við að um harkaleg kynmök hefði verið að ræða og hann neitaði því að hafa haft samfarir við kæranda um endaþarm. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við nein mótmæli af hennar hálfu og kvaðst hann hafa fundið að hún vildi hafa kynmök við hann. Eftir að hann hafi verið búinn að klæða sig í buxurnar hafi hann ætlað að bjóða henni að hjálpa henni á fætur, en þá hafi hún bara sagt stutt nei og hafi hún ekki virkað reið. Ákærði kvaðst kannski hafa hagað sér bjánalega þá, vegna þess að hann hefði kannski átt að vera lengur eftir, en hann kvaðst hafa þakkað fyrir og gengið í burtu. Ákærði taldi að frá því hann blikkaði kæranda og þar til samförunum lauk hafi liðið um 20 mínútur. Ákærði mundi ekki eftir því að kærandi hefði kastað af sér vatni þarna á vettvangi. Hann kvað hafa sést greinilega að kærandi var ekki edrú en honum fannst hún ekki hafa verið mjög ölvuð. Hann kvaðst sjálfur hafa drukkið nokkra bjóra og því ekki verið edrú. Hann kvaðst hafa farið stystu leið heim sín og farið svo að sofa.
Kærandi skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi verið á árgangsmóti í C og eftir skemmtunina þar hafi hún ásamt fleirum farið á A. Hún kvaðst lítið muna eftir sér þar að frátöldum nokkrum minningabrotum. Hún mundi eftir að hafa dansað við vinkonu sína, að öðru leyti mundi hún ekki eftir að hafa farið inn á A. Hún kvaðst hafa reynt að rifja þetta upp og væri búin að tala við sálfræðing út af þessu en gæti engan veginn munað þetta. Það næsta sem hún kvaðst muna var að hún lá á grúfu og fann gífurlegan sársauka, en hún kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hvaðan hann kom. Hún mundi eftir að hafa séð blátt hús sem hún kannaðist við. Hún kvaðst næst muna eftir sér á gangi og þá hafa tekið eftir því að hún var bara í einum skó. Hún gerði sér ekki grein fyrir hvaða leið hún gekk. Þá kvaðst hún muna eftir lögreglustöðinni og röddinni í Pétri, lögreglumanni. Þá kvaðst hún muna eftir vinkonu sinni á lögreglustöðinni en hún mundi ekki eftir því þegar hún fór á sjúkrahúsið. Hún kvað hafa farið að rofa til hjá sér þegar hún var í skoðun og var að gefa blóð- og þvagsýni. Hún mundi ekki eftir því að hafa talað við Karl lækni. Meira kvaðst hún ekki muna frá umræddu kvöldi. Hún kvaðst ásamt tveimur öðrum hafa drukkið hvítvínsflösku áður en hún fór á bekkjarmótið, þá hafi hún drukkið einn bjór og á skemmtuninni hafi hún drukkið hvítvín. Kærandi sá ákærða í dómsalnum en mundi ekki eftir því að hafa séð hann áður. Aðspurð hvort einhvern tíma hafi hvarflað að henni að þetta hafi kannski verið eitthvað sem gerðist með hennar vilja, þetta væri eitthvað sem hún myndi ekki svaraði kærandi því til að það hvarflaði ekki að henni að fara út af skemmtistað með einhverjum bak við hús. Það væri ekki hún. Kærandi kvaðst búa ein og ekki eiga börn og færi hún á skemmtistað og vildi sofa hjá einhverjum, þá kæmi hann heim með henni.
Kærandi kvað þetta atvik hafa haft gífurlegar afleiðingar fyrir sig. Hún kvaðst ekki hafa getað haft hægðir síðan og hafi verið að leita sér aðstoðar við því. Það sé eiginlega búið að rugla vöðvana, þegar fólk ætli að hafa hægðir slaki það á en í hennar tilviki herpist vöðvarnir og loki. Hafi þetta háð henni hvern einasta dag og minni hana á þetta. Hún kvaðst hafa dregið sig í hlé, fundist best að vera heima hjá sér eða heima hjá móður sinni og lítið farið út. Hún kvaðst hafa fengið svefnlyf til að hjálpa sér að sofna og hafi verið á þeim síðan. Hún kvaðst hafa hafið viðbótarnám í tveimur fögum í Kennaraháskólanum, en ekki getað tekið prófin í desember í öðru faginu, enda hafi hún ekki getað einbeitt sér að lestri.
Vitnið Þorsteinn Jóhann Þorsteinsson, lögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið staddur einn inni á lögreglustöð í [...] þegar kærandi kom inn í mikilli geðshræringu, mjög tætingsleg, í skítugum fötum, krumpuðum og á öðrum skónum. Henni hafi verið mjög mikið niðri fyrir og ekkert getað sagt í rauninni hvað var að. Hann hafi hleypt henni inn og sagt henni að fá sér sæti og reynt að fá upp úr henni hvað hefði gerst. Eftir einhverjar mínútur hafi hún sagt að sér hafi verið nauðgað. Hann kvaðst þá hafa hringt í lögreglumanninn sem var á vaktinni og sagt honum að koma. Hann hafi komið um tveimur mínútum síðar en mjög erfiðlega hafi gengið að fá upp úr kæranda hvað hefði gerst en smám saman hefði hún sagt frá því. Kvaðst hún hafa verið inni á A að skemmta sér og verið að dansa við einhvern útlending. Hún hafi svo farið út eftir að staðnum lokaði og ætlað að pissa í porti við B. Þá hafi einhver útlendingur komið aftan að henni, hrint henni niður og nauðgað henni. Hún kvaðst hafa gengið beint á lögreglustöðina eftir þetta. Farið hafi verið með kæranda á sjúkrahúsið og eftir það hafi þeir farið með hana til þess að átta sig á vettvangi. Hafi kærandi þá greinilega virst átta sig á aðstæðum og þar hafi skórinn hennar fundist. Hafi kærandi lýst manninum þannig að hann hafi verið grannur og dökkhærður og talað ensku.
Vitnið Pétur Steingrímsson, lögregluvarðstjóri, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið beðinn að koma á lögreglustöðina og þegar hann hafi komið inn hafi hann séð konu sitja inni á varðstjóraherberginu á stól í hnipri og hafi hún grátið mikið og verið með ekka. Hann kvaðst hafa reynt að hugga hana og tala við hana, en geðshræringin hafi verið svo mikil að hann hafi eiginlega engu sambandi náð við hana. Þegar hann hafi fengið hana til að taka hendur frá andlitinu hafi hann kannast við hana. Hún hafi verið öll grátbólgin og fannst honum hún eitthvað víðs fjarri, augun starandi og það hafi verið eins og hún væri einhvers staðar í burtu. En samt kvaðst hann hafa séð sársauka og hræðslu í augunum á henni, mikinn sársauka og mikla hræðslu og þegar hann hafi reynt að ræða við hana hafi hún í fyrstu ekki munað neitt. Hann kvaðst hafa haft upp úr henni að hún hefði verið á fermingarmóti með fólki í C um kvöldið og nóttina og síðan hefði verið ákveðið einhvern tíma um nóttina að fara á dansleik á A. Hún hefði verið að dansa og m.a. hefði verið útlendingur á gólfinu, dökkhærður, grannur og eins og hún orðaði það og hefði hann talað góða ensku. Hún hefði talið að hún hefði dansað við hann. Þegar dansleik lauk hefði hún farið ein út og ætlað að taka leigubíl heim. Hún hefði farið á bak við B og pissað. Á meðan hefði þessi umræddi útlendingur komið og viti hún ekkert fyrr en hún hefði verið snúin niður og henni nauðgað, eins og hún hafi orðað það. Pétur kvaðst hafa hringt í vinkonu kæranda sem hafi komið á stöðina og fylgt henni á sjúkrahúsið. Hann kvað sér aldrei hafa dottið til hugar að kærandi væri undir áhrifum áfengis. Hún hafi verið í mikilli geðhræringu og örugglega í losti. Hann kvaðst vera búinn að vera lögreglumaður í [...] í yfir 20 ár, og lent í ýmsu, þurft að hafa afskipti af og tala við fólk út af slysum, veikindum, dauðsföllum og séð og heyrt og komið að fólki í alls konar ásigkomulagi, en hann kvaðst aldrei hafa séð manneskju í eins mikilli geðshræringu eins og kæranda þennan morgun. Hann kvað tilkynningu hafa borist frá lækninum um að kærandi hefði ekki verið í nærbuxum og hefði þá verið leitað að þeim og þær fundist á [...]. Hann vissi ekki hvort borið hefði verið undir kæranda hvort um hennar nærbuxur væri að ræða.
Vitnið F skýrði svo frá fyrir dómi að hún væri vinkona kæranda og hefði hún farið á lögreglustöðina eftir að hún bað hana um að koma þangað. Hún kvað að kærandi hafi verið niðurbrotin, útgrátin, drulluskítug, hárið allt út í loftið og hafi verið ofsaleg sorg og vanlíðan yfir henni. Hafi kærandi síendurtekið að hún hafi farið bak við að pissa og svo hafi hún ekki vitað fyrr en útlendur maður hafi komið að henni. Hafi hún sagt honum að hún væri að pissa og hafi hún ekki vitað fyrr en hann hafi ráðist á hana og nauðgað henni. Hafi hún endurtekið þetta og verið í algjöru losti. Endurtók þetta ítrekað. Hafi hún lýst þessu nánar þannig að hann hefði komið þarna og nauðgað henni. Hann hafi ýtt henni niður og hafi hún ýmist talað um moldina og stéttina. Þá hafi hún sýnt vitninu hvernig hann hafi rifið í hár hennar og haldið henni niðri. Vitnið kvaðst hafa orðið vör við miklar breytingar á kæranda og fannst hræðilegt að sjá lífsneistann slokkna hjá svo lífsglaðri manneskju. Hún sitji bara heima og gráti yfir þessu og sé ofsalega vansæl, henni líði mjög illa og hún sé búin að eiga við líkamleg vandamál að stríða í kjölfarið.
Vitnið G skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi séð kæranda vera að spjalla við vin sinn inni á A. Þá kvaðst hún hafa séð ákærða vera að dansa einan en hún kvaðst ekki hafa séð hann yfirgefa staðinn. Hún kvaðst ekki hafa séð meira til kæranda þarna um kvöldið.
Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið í hljómsveit sem hafi verið að spila á A og kvaðst hann hafa orðið var við ákærða og kæranda undir lokin þegar verið var að loka staðnum. Fannst honum þau vera að yfirgefa staðinn saman þannig að kærandi hafi gengið á undan og ákærði á eftir. Hann kvaðst ekki hafa séð að þau töluðu saman og ekki hafa orðið var við snertingar á milli þeirra. Hann kvað kæranda hafa verið nokkuð ölvaða þetta kvöld. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt um kvöldið sem benti til þess að þau væru saman. Hann kvaðst ekki hafa séð til þeirra eftir að þau voru farin út.
Vitnið I skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi unnið við dyravörslu á A umrætt kvöld og kvaðst hann muna eftir því að hafa haft lítilleg afskipti af ákærða þar. Ítrekað aðspurður og eftir að skýrslugjöf hans hjá lögreglu hafði verið rifjuð upp fyrir honum kvaðst hann muna eftir tveimur mönnum, ákærða og félaga hans fyrir utan A eftir að staðnum hafði verið lokað. Hafi þeir verið að horfa í kringum sig og það gætu hafa verið einhver læti þarna fyrir utan.
Vitnið J skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi séð ákærða og vin hans á A og hafi ákærði verið að reyna að fá stelpur til að dansa við sig en það hafi ekki gengið vel. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við ákærða fyrir utan og þá kvaðst hún hafa séð til kæranda inni á A að tala við vini sína af árgangsmótinu en ekkert eftir það.
Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði orðið vör við að ákærði væri að dansa inni á A. Hann hafi verið að sniglast í kringum hópinn sem hún hafi verið í og hafi hann pirrað hana örlítið. Framburður hennar varpaði ekki frekari ljósi á málið.
Vitnið Karl Björnsson, læknir, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi séð kæranda upp úr klukkan hálfsjö umræddan dag. Hún hafi þá verið í mjög slæmu ástandi, eiginlega sjokki. Erfitt hafi verið að fá frásögn í byrjun og hafi það tekið svolítinn tíma. Hún hafi verið í óhreinum fötum, blaut og moldug. Hún hafi skýrt svo frá að henni hefði verið nauðgað fyrir utan B af einhverjum ókunnum manni, sem hún þekkti ekki, útlendingi. Kvaðst hún hafa farið bak við húsið að pissa eftir ballið og það hafi komið maður aftan að henni og haldið henni niðri og nauðgað henni. Vitnið staðfesti þau læknisfræðigögn sem liggja fyrir í málinu og stafa frá honum. Hann kvað áverka hennar samræmast því að henni hefði verið haldið niðri aftan frá. Hún hafi lítið munað eftir þessu í byrjun og átt erfitt með að segja frá, verið tómleg til augna og grátið og verið í hnipri og í andlegu sjokki. Þá hafi púls hennar mælst 130 slög á mínútu en það sé til marks um kreppu og spennu. Öndun hafi verið hröð og sjáöldur víkkuð. Séu þetta spennueinkenni fyrst og fremst. Vitninu fannst frásögn kæranda mjög trúverðug. Hann taldi að blóð- og þvagsýni hefðu verið tekin í lok skoðunar eða um hálftíuleytið. Vitnið kvað kæranda hafa leitað til sín eftir þetta bæði út af vandræðum með svefn og þá hafi hún haft einkenni frá endaþarmi, hún hafi átt erfitt með að losa hægðir, var með verki. Henni hafi verið vísað til sérfræðings til rannsóknar út af því. Aðspurður hvort áverkar kæranda geti komið við samfarir án ofbeldis svaraði vitnið að það væri möguleiki en honum fannst það ólíklegt miðað við ástandið á kæranda að þær hafi verið með hennar samþykki.
Vitnið Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur í tæknideild hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kom fyrir dóm, staðfesti sérfræðivinnu sína í máli þessu og gerði jafnframt grein fyrir niðurstöðum Rettsmedisinsk Institut í Osló. Hann kvaðst hafa rannsakað fatnað kæranda og nærbuxur sem fundist hafi annars staðar, en engin sýni hafi verið í buxum kæranda, þannig að ef að sæði hefði átt að leka frá leggöngum og aftur fyrir að endaþarmi, þá gerði hann ráð fyrir því að það myndi finnast sáðblettur í buxunum.
Vitnið Thelma Gunnarsdóttir, sálfræðingur, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi hitt kæranda um þremur dögum eftir atvikið og hafi hún verið í mjög miklu áfalli, hún hafi grátið stöðugt, skolfið og engu haldið niðri og átt erfitt með að tjá sig í fyrstu. Hún hafi haft mikla sektarkennd og átt erfitt með að sjá sig fyrir sér fara aftur út í samfélagið og mæta fólki. Hún búi í litlu samfélagi og hafði miklar áhyggjur af því. Hún eigi langt í land og uppfylli öll skilyrði áfallastreituröskunar eins og hún sé í dag. Hún sé mjög dugleg og hún fari eftir öllum ráðleggingum eins og hún geti. Aðspurð hvort sektarkennd hennar gæti ekki stafað af því að hún hafi gert eitthvað sem hún sæi eftir taldi Thelma að það væri algjörlega útilokað að um eitthvað annað væri að ræða. Hin líkamlegu einkenni og þessi mikli kvíði sem fylgi væri ekki eins og um hefðbundinn móral væri að ræða. Thelma staðfesti vottorð sitt fyrir dómi.
Vitnið Valgerður Magnúsdóttir, sálfræðingur, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði greint kæranda með langvarandi áfallaröskun en hún sé skilgreind þannig að þegar liðnir séu meira en þrír mánuðir frá því áfall átti sér stað og það ástand sem uppfylli það sé þá enn fyrir hendi. Áfallaröskun sé geðrænt ástand, viðbrögð við áfalli og þurfi ákveðin greiningarskilmerki að vera uppfyllt. Lögð hafi verið sálfræðileg próf fyrir kæranda sem sýndu fyllilega þessi greiningarskilmerki. Hún kvaðst ekki hafa lagt þessi próf fyrir hana aftur, vegna þess að hún hafi ekki séð ástæðu til þess, ástand hennar hafi verið óbreytt að mestu leyti, því hafi örlítið létt en hún líði enn fyrir afleiðingar árásarinnar sem hún hafi orðið fyrir á hverjum einasta degi, bæði andlega og líkamlega. Þá sé algengt að konur, sem verði fyrir nauðgun, fái einhvers konar meltingartruflanir á eftir, annað hvort þannig að þær haldi hægðum ekki vel, þær séu með sífelldan niðurgang sem geri lítil boð á undan sér og hefti þær verulega í daglegu lífi, eða eins og í tilviki kæranda, þar sem um sé að ræða mjög svæsið harðlífi sem sé mjög kvalafullt fyrir hana. Hún kvaðst ekki hafa séð neitt í fari kæranda sem bendi til þess að hún eigi við einhverjar ranghugmyndir að stríða og heldur ekki séð neitt sem bendi til þess að hún sé að gera sér þetta upp á einhvern hátt. Hún kvað minnisleysi vel þekkt hjá þeim sem lenda í atvikum af þessu tagi. Þá taldi hún að batahorfur kæranda gætu verið býsna góðar en taldi allt of lítið hafa gerst í því sambandi.
Vitnið Kjartan B. Örvar, sérfræðingur í lyflækningum og meltingarsjúkdómum, skýrði svo frá fyrir dómi að kærandi hefði dæmigerð klínisk einkenni um svokallaðan anismus eða óeðlilega hægðalosun og sé það vel staðfest með þrýstingsmælingu. Hann kvaðst líka hafa gert hjá henni endaþarmsómskoðun og þá gat hann ekki séð nein merki um rof eða skemmdir í hringvöðvunum. Hann taldi því fyrst og fremst um starfræna truflun í hringvöðvanum að ræða sem hann taldi afleiðingu ofbeldis á þessu svæði. Væri þetta vel þekkt sem afleiðing af kynferðislegu ofbeldi. Hann taldi orsökina án efa liggja í taugakerfi þarmanna. Hins vegar skipti áhrifin frá miðtaugakerfi, og þar með andlegar ástæður, verulegu máli. Þetta sé því bein afleiðing af ofbeldinu, en samt sem áður algerlega afbrigðileg svörun vöðva þarna niðri sem hægt sé að mæla. Hann kvað þurfa langan tíma til að vinna á þessu vandamáli og byggi það ekki síst á því að andleg líðan lagist. Kenna þurfi viðkomandi slökun og reyna að ná að byggja upp eðlilega hægðaþörf og eðlilega rembingsþörf, án þess að hún kreppi vöðvana þarna niðri. Það sé komið undir því hvernig andlega hlið hennar verður í nánustu framtíð hver árangurinn verði af þessari meðferð.
Vitnið Guðlaug Þórsdóttir, læknir, kom fyrir dóm og staðfesti matsgerð um mælingu á alkóhóli í blóði og þvagi. Hún kvað niðurstöðuna benda til þess að hlutaðeigandi hafi verið eitthvað meira undir áhrifum áfengis einhverjum klukkutímum áður en sýnin voru tekin.
Tryggvi Kr. Ólafsson, lögreglufulltrúi, kom einnig fyrir dóm. Ekki þykir þörf á að rekja framburð hans hér.
Niðurstaða.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft samfarir við kæranda en heldur því fram að það hafi verið með fullum vilja hennar. Hefur ákærði lýst því að hann hafi blikkað kæranda í lok dansleiks á A, þau farið saman út og haft samfarir bak við hús. Hafi kærandi í fyrstu legið á bakinu en síðan hafi hún farið á fjóra fætur og ákærði haft samfarir við hana þannig. Hafi samförunum síðan lokið þannig að kærandi hafi legið á bakinu. Ákærði kannast ekki við að hafa haft endaþarmsmök við kæranda, en samkvæmt gögnum málsins fannst sæði ákærða í endaþarmi hennar. Ákærði telur að liðið hafi um 20 mínútur frá því þau hittust þar til samförunum lauk. Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki þekkt kæranda áður og ekkert getað rætt við hana þar sem hann tali hvorki ensku né íslensku. Ákærði mundi ekki eftir því að kærandi hefði kastað af sér vatni þarna á vettvangi. Hann kvað hafa sést greinilega að kærandi var ekki edrú en honum fannst hún ekki hafa verið mjög ölvuð. Hann kvaðst sjálfur hafa drukkið nokkra bjóra og því ekki verið edrú.
Kærandi hefur komið fyrir dóm og lýst því að hún muni mjög takmarkað eftir því sem gerðist. Hún kvaðst muna eftir því að hún hafi dansað við vinkonu sína á A en að öðru leyti mundi hún ekki eftir veru sinni þar. Hún kvaðst muna eftir því að hafa legið á grúfu og fundið gífurlegan sársauka, en hún kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hvaðan hann kom. Hún kvaðst næst muna eftir sér á gangi og þá hafa tekið eftir því að hún var bara í einum skó. Þá kvaðst hún muna eftir lögreglustöðinni og rödd lögreglumanns. Hún mundi eftir vinkonu sinni á lögreglustöðinni en hún mundi ekki eftir því þegar hún fór á sjúkrahúsið. Hún kvað hafa farið að rofa til hjá sér þegar hún var í skoðun og var að gefa blóð- og þvagsýni. Hún mundi ekki eftir því að hafa talað við Karl lækni. Meira kvaðst hún ekki muna frá umræddu kvöldi.
Þeim tveimur lögreglumönnum sem afskipti höfðu af kæranda á lögreglustöðinni ber saman um að hún hafi verið í mikilli geðshræringu og hafi í fyrstu verið erfitt að ná sambandi við hana. Hún hafi síðan sagt þeim að hún hafi verið að dansa við útlending á A sem hafi verið grannur og dökkhærður og talað ensku. Hún hafi síðan farið út og ætlað að pissa bak við B en þá hafi umræddur útlendingur komið, hrint henni niður og nauðgað henni.
Vinkona kæranda, sem kom á lögreglustöðina henni til aðstoðar, ber að kærandi hafi síendurtekið að hún hafi farið bak við að pissa og hafi hún ekki vitað fyrr en útlendur maður hafi ráðist á hana og nauðgað henni. Hafi kærandi verið í algjöru losti, endurtekið þessa frásögn ítrekað og sýnt henni hvernig hann hafi rifið í hár hennar og haldið henni niðri. Kvaðst hún hafa orðið vör við miklar breytingar á kæranda og fannst hræðilegt að sjá lífsneista hennar slokkna.
Karl Björnsson, læknir, hefur lýst því að kærandi hafi verið í mjög slæmu ástandi við komu á sjúkrahúsið, eiginlega í sjokki. Hafi hún skýrt svo frá að henni hefði verið nauðgað af útlendingi við B er hún hefði farið þar bak við til að pissa. Að mati Karls var frásögn kæranda mjög trúverðug og kvað hann áverka hennar samræmast því að henni hefði verið haldið niðri aftan frá. Þá hafi hún borið öll einkenni kreppu og spennu. Miðað við ástand kæranda taldi Karl ólíklegt að áverkar hennar hefðu getað komið til við samfarir án ofbeldis.
Thelma Gunnarsdóttir, sálfræðingur, segir kæranda uppfylla öll skilyrði áfallastreituröskunar, en hún mun hafa hitt hana þremur dögum eftir atvikið og hafi hún þá verið í mjög miklu áfalli. Þá bendi líkamleg einkenni og mikill kvíði ekki til þess að um hefðbundinn móral væri að ræða.
Valgerður Magnúsdóttir, sálfræðingur segist hafa greint kæranda með langvarandi áfallaröskun, en um sé að ræða geðrænt ástand, viðbrögð við áfalli. Þá kvað hún algengt að konur sem verði fyrir nauðgun fái einhvers konar meltingartruflanir sem hefti þær verulega í daglegu lífi. Hún kvaðst ekki hafa séð neitt í fari kæranda sem bendi til þess að hún eigi við ranghugmyndir að stríða og heldur ekkert séð sem bendi til þess að hún sé að gera sér þetta upp. Valgerður kvað minnisleysi vel þekkt hjá þeim sem lendi í atvikum af þessu tagi.
Kjartan B. Örvar, læknir, segist hafa greint hjá kæranda starfræna truflun í endaþarmshringvöðvanum sem hann taldi afleiðingu ofbeldis á þessu svæði. Væri þetta vel þekkt sem afleiðing af kynferðislegu ofbeldi. Hann taldi orsökina án efa liggja í taugakerfi þarmanna, en hins vegar skipti áhrifin frá miðtaugakerfi, og þar með andlegar ástæður, verulegu máli. Þetta sé því bein afleiðing af ofbeldinu, en samt sem áður algerlega afbrigðileg svörun vöðva þarna niðri sem hægt sé að mæla.
Ekki hefur fram komið að nokkur samdráttur hafi verið með ákærða og kæranda umrætt kvöld. Vitnið H hefur þó borið að honum hafi fundist að þau hafi yfirgefið A saman undir lokun. Hefur hann lýst því að kærandi hafi gengið á undan og ákærði á eftir. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að þau töluðu saman og ekki varð hann var við snertingar á milli þeirra. Ljóst er að kærandi var með áverka á endaþarmi og marbletti á útlimum, húðrispur og tognun á vinstra litlafingri og benda þessir áverkar eindregið til þess að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Þá er sannað með niðurstöðu alkóhólrannsóknar að kærandi var undir áhrifum áfengis. Kærandi mun mjög fljótlega hafa gleymt atvikum og þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu kl. 15:10 sama dag og umrætt atvik varð skýrir hún frá á sama hátt og hér fyrir dómi.
Kærandi hefur ekki getað greint nánar frá atvikum fyrir dómi en að hún hafi legið á grúfu og fundið gífurlegan sársauka. Hún hefur því ekki getað lýst þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök. Að mati sálfræðinga hefur kærandi greinst með áfallaröskun og mun minnisleysi þekkt hjá þeim sem verði fyrir kynferðisofbeldi. Þá hefur kærandi greinst með starfræna truflun í endaþarmshringvöðva og að mati Kjartans B. Örvars, læknis, er það vel þekkt afleiðing slíks ofbeldis. Fer ekki á milli mála að kærandi hefur orðið fyrir gífurlegu áfalli. Sannað er að ákærði hafði samfarir við kæranda en að mati dómsins er sú frásögn hans ótrúverðug að hún hafi viljað þýðast hann við þessar aðstæður án nokkurs aðdraganda eða orðaskipta þeirra á milli. Þegar allt framanritað er virt og höfð hliðsjón af trúverðugri frásögn vitna fyrir dómi um samhljóða lýsingu kæranda á atburðum þykir ekki varhugavert að telja sannað að kærandi hafi lýst atvikum eins og þau komu henni þá fyrir sjónir. Hefur ákærði því gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þykir hún rétt færð til refsiákvæða þar.
Ákærði hefur ekki sætt refsingu áður svo kunnugt sé. Ákærði hefur gerst sekur um hrottafengna árás á kynfrelsi kæranda með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir hana. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár.
Kærandi rökstyður bótakröfu sína þannig að ákærði hafi nauðgað henni með hrottafengnum hætti og hafi hún hlotið alvarlega líkamlega og andlega áverka af þeim sökum. Sé ljóst með hliðsjón af skýrslum lækna að afleiðingarnar séu mjög alvarlegar og hafi gríðarleg áhrif á daglegt líf kæranda. Hún hafi enn ekki hafið fullt starf og þá hafi hún ekki getað einbeitt sér að viðbótarnámi sem hún hafði nýlega hafið.
Ákærði hefur gerst sekur um alvarlega meingerð gagnvart kæranda og á hún rétt á miskabótum af þeim sökum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hér að framan hefur verið lýst mjög alvarlegum afleiðingum verknaðar ákærða á andlega og líkamlega heilsu kæranda. Með hliðsjón af því þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 2.000.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991. Þykja málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Jónssonar hrl., hæfilega ákveðin 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Páleyjar Borgþórsdóttur hdl. þykir hæfilega ákveðin 398.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 17.200 krónur í útlagðan kostnað. Þá greiði ákærði annan sakarkostnað samkvæmt yfirliti, 544.253 krónur.
Hulda Elsa Björgvinsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, flutti málið af hálfu ákæruvalds.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, Ástríður Grímsdóttir og Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
Dómsuppsaga hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna anna dómenda.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Andrzej Kisiel, sæti fangelsi í 4 ár.
Ákærði greiði X, kt. [...], 2.000.000 krónur í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. september 2007 til 18. febrúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar, hrl., 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 398.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í þóknun til Páleyjar Borgþórsdóttur, skipaðs réttargæslumanns brotaþola auk annars sakarkostnaðar, 544.253 krónur.