Hæstiréttur íslands

Mál nr. 234/2013


Lykilorð

  • Fullnusta refsingar
  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof


 

Miðvikudaginn 10. apríl 2013.

Nr. 234/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

 

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2013, þar sem varnaraðila var gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem honum var gerð með fjórum nánar tilgreindum dómum. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X verði á grundvelli 2. mgr. 65. gr.  laga um fullnustu refsinga  gert að sæta afplánun 350 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms  Suðurlands frá 5. janúar 2012 og dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. des. 2011, 3. maí 2011 og  2. júlí 2010, sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 8. nóvember 2012.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars, sbr. R-122/2013, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr. 219/2013 hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. 

Um kröfu sínar vísar lögregla til máls lögreglu nr. 007-2013-[...] þar sem kærða eru gefin að sök alvarleg hegningarlagabrot. Upphaf málsins hafi verið að lögreglan hafi verið kölluð að [...] hinn 29. mars sl.  en  þar hafi verið í miklu uppnámi, þau A og B. Þau hafi sagst hafa orðið fyrir árás og  frelsissviptingu. Þá hafi A sagst hafa orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu kærða. Hafi mátt sjá áverka á andliti og hálsi á hennar. Einnig hafi mátt sjá áverka á B, sprungna vör. Hafi hann verið bólgin og hafi kvartað um eymsli í kjálka og  nefi. 

Samkvæmt frásögn A, sem sé 15 ára, hafi  hún og B  verið sótt af kærða 29. mars sl. að [...].  Hafi kærði ekið þeim til heimilis síns að [...]. Þar hafi þau farið inn, en þau hafi ætlað að hjálpa kærða. A hafi sofnað, en þegar hún hafi vaknað um tveimur tímum síðar hafi kærði verið að ásaka B um að hafa stolið peningum. Hafi kærði verið með exi  sem hann sveiflaði og neyddi þau út í bifreið sína. Ók hann þeim að [...] að heimili C, en þar hafi X og B farið út en A  hafi beðið í bifreiðinni. Hafi kærði farið inn ásamt B en þar C verið. Þar inni að [...] hafi kærði verið með hótanir við B og skipað honum að afklæðast og einnig hafi kærði neytt í hann efnum, MDMA mulningi. Síðan hafi kærði komið og sagt að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af B. Kærði hafi síðan ekið með hana aftur að dvalarstað sínum, að [...]. Þegar inn hafi verið komið hafi kærði skipað henni að setja pappírsbút undir tunguna, LSD að hún telur.  Hann hafi beitt hana ofbeldi með því að taka í hnakka hennar, sett hnéð á bak hennar og sagt henni að afhenda honum peninga. Kærði hafi slegið hana og hótað henni lífláti og einnig hafi hann reynt að setja MDMA krystalla ofan í hana, en hún hafi náð að frussa þeim út úr sér.  Kærði hafi skipað henni úr peysunni og hafi hann leitað að peningum á henni og síðan klætt hana úr buxunum og sagst ætla leita að peningum inn á henni. Síðan hafi hann farið með fingur í leggöng hennar og leitað. Kvaðst A hafa fundið til sársauka. Þess á milli hafi kærði verið að káfa henni. Þá hafi kærði hent henni inn í annað  herbergi og  stungið í andlit og brjóst hennar með penna. Sé A með áverka á vinstri kinn og öxl eftir penna.

Kærði viðurkenni að hafa  slegið A  utan undir og viðurkenni að hafa verið með penna. Þá viðurkenni hann að hafa gripið annarri hendi um háls hennar.  Ennfremur viðurkenni hann að hafa látið A hafa hvíta töflu (íbúfen), en neiti að hafa neitt þessu í hana. Kærði viðurkenni að hafa rétt MDMA krystal að munni hennar Samkvæmt  frásögn kærða, hafi hann leitað á henni með hennar leyfi, þ.e. farið ofan í buxnastrenginn.

A kveður að eftir að þessa atlögu hafi þau farið til baka að [...], en þar hafi kærði haldið áfram hótunum og hótað að stinga þau með einhverjum hlut. Kærði hafi slegið til B.  Viðurkenni kærði að hafa slegið B með flötum lófa. Einnig segist A hafa verið slegin í andlitið af kærða þegar hér hafi verið komið við sögu.  Húsráðandi hafi reynt að róa kærða niður og hafi hann svo hleypt A og B út. Þau hafi verið í miklu uppnámi og hafi B náð að hringja í lögreglu. Í framhaldinu hafi lögregla komið og A flutt á slysa- og bráðadeild Landsspítala til skoðunar. Samkvæmt skoðun læknis hafi ekki komið ekki fram áverkar á kynfærum hennar en áverkar í andliti, m.a. sprungin vör  og áverkar á brjósti. B telji að brotnað hafi upp úr tönn eftir að kærði hafi slegið hann og þvingað hann með exi.

Kærði X hafi verið handtekinn hinn 29. mars og hafi hann  viðurkennt að hafa verið á heimili sínu ásamt A hinn 28. mars. Hann hafni ofbeldi en viðurkenni að hafa slegið til hennar og leitað á A. Hann kvaðst hafa  verið reiður vegna peninga sem hann hafi talið að hafi verið stolið af sér.  Á heimili kærða hafi fundist sterar og efni sem ekki sé búið að efnagreina, sem kærði hafi játað að eiga. Einnig hafi fundist ísexi sem kærði hafi játað að eiga. Að [...] hafi fundist ætluð fíkniefni, MDMA og amfetamín.

 Lögregla vísar til þess að samkvæmt framangreindu sé komin fram sterkur grunur um að kærði hafi framið kynferðisafbrot,  sbr. 1. mgr. 194. gr.,  frelsissviptingu og líkamsársás, sbr. 218. gr., 225. og eða 226. gr. almennra hegningarlaga, en brot við 194. gr. og 226. gr.  varði allt að 16 ára fangelsi ef sök sannist og eftir atvikum ævilangt fangelsi. Rannsókn málsins sé á lokastigi  og muni lögregla hraða rannsókn málsins og í framhaldinu verði það sent ríkissaksóknara til meðferðar.  Ennfremur sé kærði grunaður um vopnalaga- og umferðarlagabrot, sbr. mál nr. 007-2013-[...], 007-2013-[...] og 007-2012- [...].

Að mati lögreglu hafi kærði nú rofið gróflega skilyrði reynslulausnar enda liggi sterkur grunur um að hann hafi framið brot er varði allt að 16 ára fangelsi, sbr. 1. mgr. 194. gr.,  218. gr., og  eftir atvikum 225., eða 226. gr.  almennra hegningarlaga og 6 ára fangelsi, sbr. 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 er varði vörslur á fíkniefnum. Kærða hafi verið veitt reynslulausn hinn 8. nóvember 2012 skilorðsbundið í tvö ár á 350 daga eftirstöðvar refsingar, sem kærði eigi eftir óafplánað.  Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og  2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða.

Fallist er á það með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sem stutt er með framlögðum gögnum, að fyrir liggi sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti a.m.k. sex ára fangelsi.  Fyrir liggur að kærði fékk reynslulausn 8. nóvember 2012 á eftirstöðvum 350 daga fangelsisrefsingar.  Að mati dómsins hefur kærði rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnarinnar og eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 til að verða við kröfu lögreglustjórans um að kærða verði gert að afplána 350 daga eftirstöðvar refsingar.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal afplána 350 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms  Suðurlands frá [...] og dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...], [...] og [...].