Hæstiréttur íslands
Mál nr. 388/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2017 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi nauðungarsala sem fram fór 30. janúar 2017 á fasteigninni að Grænumýri 9 í Mosfellsbæ, fastanúmer 229-0700. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa sín verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Óskar Björgvin Jónsson, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2017.
Mál þetta barst dóminum 10. febrúar sl. með kröfu sóknaraðila um málskot, samkvæmt XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, og var þingfest 10. mars sl.
Sóknaraðili krefst þess að „framhaldssala á fasteigninni Grænumýri 9, 270 Mosfellsbæ sem fram fór hinn 30. janúar 2017, verði dæmd ógild og felld niður“. Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði nauðungarsala nr. 2016-019133 á fasteigninni Grænumýri 9, Mosfellsbæ, fastanúmer 229-0700, sem fram fór hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 30. janúar 2017. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. maí sl.
I
Málavextir
Samkvæmt gögnum málsins gaf sóknaraðili út þrjú tryggingarbréf til Sparisjóðs Mýrasýslu árunum 2006 til 2008. Nánar tiltekið gaf sóknaraðili út tryggingarbréf nr. 130156 þann 11. desember 2006 til tryggingar öllum skuldum hans við sparisjóðinn að fjárhæð 37.855.000 japönsk jen og 394.000 svissneskir frankar. Var fasteign hans að Grænamýri 9, Mosfellsbæ, fastanr. 229-0700, sett að veði með 3. veðrétti og uppfærslurétti. Þann 25. maí 2007 gaf sóknaraðili út tryggingarbréf nr. 130326 til tryggingar öllum skuldum hans við Sparisjóð Mýrasýslu að fjárhæð 4.300.000 krónur og var áðurnefnd fasteign sett að veði með 3. veðrétti og uppfærslurétti. Þann 27. mars 2008 gaf sóknaraðili út verðtryggt tryggingarbréf nr. 130500 til tryggingar öllum skuldum hans við Sparisjóð Mýrasýslu upphaflega að fjárhæð 7.500.000 krónur og var áðurnefnd fasteign hans nú sett að veði með 4. veðrétti og uppfærslurétti. Samkvæmt gögnum málsins hvíla tryggingarbréfin þrjú nú á 1., 3. og 4. veðrétti fasteignarinnar.
Varnaraðili þingfesti fjögur mál á hendur sóknaraðila fyrir héraðsdómi Vesturlands 7. október 2014 til greiðslu skulda samkvæmt fjórum lánssamningum sem munu hafa verið gerðir milli sóknaraðila og Sparisjóðs Mýrasýslu á árunum 2006 til 2007. Sóknaraðili tók ekki til varna og voru stefnurnar áritaðar af héraðsdómi um aðfararhæfi dómkrafna 14. nóvember 2014 ásamt málskostnaði. Skuldirnar voru tryggðar með veði í fasteign sóknaraðila samkvæmt ákvæðum fyrrgreindra tryggingarbréfa. Varnaraðili tók síðar við réttindum og skyldum Sparisjóðs Mýrasýslu samkvæmt lánssamningunum vegna samruna varnaraðila og sparisjóðsins, sbr. auglýsingu um samruna 21. október 2010 sem birt var í Lögbirtingablaðinu. Með samrunanum tók varnaraðili því einnig við réttindum og skyldum samkvæmt fyrrgreindum tryggingarbréfum. Enginn ágreiningur er með aðilum um aðild varnaraðila að málinu.
Með beiðni 16. nóvember 2015 krafðist varnaraðili fjárnáms hjá sóknaraðila til tryggingar einni af þeim fjórum stefnum sem héraðsdómur Vesturlands hafði áritað um aðfararhæfi þann 14. nóvember 2014. Samkvæmt hinni árituðu stefnu var um að ræða kröfu að fjárhæð 20.628.220 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. nóvember 2013 til greiðsludags auk 112.950 króna í málskostnað. Nam heildarfjárhæð kröfunnar 26.571.886 krónum.
Beiðni varnaraðila var tekin fyrir hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 15. apríl 2016 og hlaut aðfarargerðin númerið 2016-001121. Sóknaraðili mætti ekki við gerðina. Að ábendingu varnaraðila var gert fjárnám fyrir kröfu hans á hendur sóknaraðila í fyrrgreindri fasteign að Grænumýri 9, Mosfellsbæ, á grundvelli veðréttinda varnaraðila í fasteigninni samkvæmt fyrrgreindum þremur tryggingarbréfum.
Með beiðni 10. júní 2016 fór varnaraðili þess á leit við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að fasteignin að Grænumýri 9, Mosfellsbæ, yrði seld nauðungarsölu til lúkningar fyrrgreindri skuld. Í beiðninni var um heimildarskjal vísað til endurrits fjárnámsgerðar frá 15. apríl 2016 og um málavexti vísað til þess að krafa varnaraðila styddist við áðurnefnt fjárnám sem gert hafði verið í fasteigninni og vísað til 1. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Þá er vísað til þess hvernig krafan er til komin og afrit áðurnefndra tryggingarbréfa einnig lögð fram.
Beiðnin var tekin fyrir hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 13. október 2016 og hlaut hún númerið 2016-019133. Lögmaður mætti af hálfu sóknaraðila og voru honum kynnt framlögð gögn. Við fyrirtökuna var ákveðið að uppboð á eigninni skyldi byrja á skrifstofu sýslumanns 9. janúar 2017. Uppboðið hófst þann dag eins og ráðgert hafði verið og mætti lögmaður af hálfu sóknaraðila. Við fyrirtökuna var ákveðið að uppboð færi fram á eigninni sjálfri 30. janúar 2017. Uppboðið fór fram þann dag og mætti þá nýr lögmaður fyrir hönd sóknaraðila. Voru þá lagðar fram kröfulýsingar Mosfellsbæjar, Vátryggingafélags Íslands hf. og Íslandsbanka hf. Lögmaður sóknaraðila gerði athugasemdir við uppboðsheimild varnaraðila á þeim forsendum að hún virtist byggjast á beinni uppboðsheimild í tryggingarbréfunum þremur eins og segir í endurritinu. Lögmaður varnaraðila vísaði til þess að beiðni hans byggði á fjárnámi. Fulltrúi sýslumanns ákvað að hafna athugasemdum sóknaraðila og var nauðungarsölunni fram haldið. Lögmaður sóknaraðila lýsti því yfir við gerðina að hann myndi skjóta ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms. Svo fór að varnaraðili var hæstbjóðandi á uppboðinu með 45.000.000 króna boð í eignina. Var honum greint frá því að boð hans yrði samþykkt ef greiðsla bærist samkvæmt því í samræmi við uppboðsskilmála þann 13. febrúar 2017.
Sóknaraðili sendi tilkynningu til héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2017 og krafðist þess að nauðungarsalan yrði dæmd ógild og felld niður.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili krefst þess að áðurnefnd nauðungarsala verði ógilt. Sóknaraðili vísar í upphafi til þess að í 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför komi fram að álitaefni um gildi fjárnáms geti komið til úrlausnar í dómsmáli um heimild gerðarbeiðanda til að krefjast nauðungarsölu eða um gildi nauðungarsölunnar.
Sóknaraðili kveður að í nauðungarsölubeiðni varnaraðila komi fram að uppboðsheimildin sé fjárnám sem gert var hjá sóknaraðila 15. apríl 2016 og vísað sé til 1. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 sem krafa varnaraðila sé sögð styðjast við. Í endurriti umrædds fjárnáms sé þó með óljósum hætti vísað til tryggingarbréfanna þriggja sem hvíla á eigninni. Í tryggingarbréfunum sjálfum sé raunar að finna beina uppboðsheimild og í texta bréfanna sé þar um vísað til 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Umfjöllun sóknaraðila verði því að taka mið af þessum tveimur uppboðsheimildum þar sem ekki liggi ljóst fyrir við hvaða heimild var stuðst.
Hvað uppboðsheimild samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 varðar tekur sóknaraðili fram að fjárnámi því sem gert var 15. apríl 2016 hafi ekki verið þinglýst á fasteign sóknaraðila. Í áðurnefndu ákvæði komi fram að skuldheimtumaður geti krafist nauðungarsölu á grundvelli fjárnáms í viðkomandi eign. Í ljósi upphafsorða 1. mgr. 6. gr. laganna eigi ekki að orka tvímælis að það beri að skilja fyrirmæli 1. töluliðar ákvæðisins á þann veg að skuldheimtumaður þurfi hér að styðjast við fjárnám sem hefur verið gert í þeirri eign, sem hann krefst nauðungarsölu á, og að fjárnámið hafi verið gert fyrir þeirri peningakröfu sem hann leitar fullnustu á með nauðungarsölunni. Eins og þegar sé fram komið hafi fjárnámið verið gert samkvæmt áritaðri stefnu að höfuðstólsfjárhæð 20.628.220 krónur en krafa samkvæmt fjárnámsbeiðni hafi numið 26.571.886 krónum með dráttarvöxtum og kostnaði.
Samkvæmt ofansögðu geti varnaraðili eingöngu krafist nauðungarsölu til fullnustu á þeirri peningakröfu, sem fjárnámið var gert fyrir og samkvæmt fjárnáminu. Í endurriti sýslumanns komi ekki fram að fjárnámið hafi verið gert inn í nefnd tryggingarbréf heldur eingöngu tiltekið „sbr. tryggingarbréf“ og númer þeirra tilgreind. Slík orðanotkun sé villandi og verði að ganga út frá því að eingöngu sé krafist uppboðs samkvæmt fjárnáminu eins og uppboðsbeiðni varnaraðila byggi á en ekki á grundvelli tryggingarbréfanna.
Á fasteigninni Grænumýri 9, Mosfellsbæ, séu samkvæmt veðbókarvottorði fjórir veðréttir, að nafnvirði samtals 62.368.000 en samkvæmt kröfulýsingum séu þeir eftirfarandi:
|
1. veðr. |
trygging.bréf |
45.568.000 kr. |
skv. kröfulýs. |
96.102.978. kr. |
|
2. veðr. |
trygging.bréf |
5.000.000 kr. |
skv. kröfulýs. |
23.090.349 kr. |
|
3. veðr. |
trygging.bréf |
4.300.000 kr. |
skv. kröfulýs. |
5.070.361 kr. |
|
4. veðr. |
trygging.bréf |
7.500.000 kr. |
skv. kröfulýs. |
13.556.303 kr. |
|
Samtals |
|
|
|
137.819.991 kr. |
Í 5. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1991 komi fram að sé nauðungarsölu krafist á grundvelli 6. gr. laganna og ekki sé boðið meira í eignina en svo að enginn gerðarbeiðenda geti fengið neitt í sinn hlut af söluverðinu skuli telja beiðni um nauðungarsöluna fallna niður.
Samkvæmt framangreindu hafi heimildarskjal nauðungarsölunnar verið fjárnámið sem gert var 15. apríl 2016 og studdi varnaraðili gerðina við 1. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Varnaraðili hafi verið eini gerðarbeiðandinn með uppboðsbeiðni sem var grundvölluð á óþinglýstu fjárnámi í eigninni. Af því leiði að varnaraðili hafi þurfti að bjóða upp fyrir 137.819.991 krónu. Að öðrum kosti fengi hann ekkert í sinn hlut og af því leiði að fella beri uppboðsbeiðni hans niður og ógilda uppboðið samkvæmt 5. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1991.
Verði einhverra hluta vegna talið að tilvísun til tryggingarbréfanna í endurriti fjárnámsins leiði til þess að líta beri svo á að uppboðið fari fram á grundvelli þeirra án þess að þau séu tiltekin í uppboðsbeiðni sem heimildarskjöl fyrir uppboðinu eða vísað til uppboðsheimildar þeirra samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 tekur sóknaraðili eftirfarandi fram.
Í fyrsta lagi, geti varnaraðili ekki krafist uppboðs á fasteign sóknaraðila með vísan til fjárnámsins og 1. töluliðar 1. mgr. 6. gr., sem eigi eingöngu við um einstakt fjárnám sbr. framangreint en ætla samt á sama tíma að byggja kröfu um uppboð á tryggingarbréfunum. Svo að slíkt hefði verið hægt hefði varnaraðili þurft að vísa til hinnar sérstöku beinu uppboðsheimilda í tryggingarbréfunum og 2. töluliðar áðurnefnds ákvæðis. Fjárnámið geti ekki komið í staðinn fyrir tryggingarbréfin að þessu leyti. Hefði fjárnámið verið gert inn í tryggingarbréfin sé það uppboðsheimild tryggingarbréfanna sem gildir en ekki uppboðsheimild samkvæmt fjárnáminu.
Í öðru lagi vísar sóknaraðili til þess að fram komi í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 673/2013 að tryggingarbréf með allsherjarveði og beinni uppboðsheimild samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991, eins og hér hátti til, veiti ekki heimild til að krefjast nauðungarsölu á tiltekinni eign nema að uppfylltu því skilyrði að um sé að ræða tryggingu fyrir tiltekinni peningakröfu í tryggingarbréfi, þ.e. sem tilgreind er í tryggingarbréfi við útgáfu þess samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í nefndum tryggingarbréfum sé ekki um slíkt að ræða og úr því sé ekki hægt að bæta eftir á með því að gera fjárnám mörgum árum síðar.
Um þetta segi í greinargerð með frumvarpi laga nr. 90/1991 að heimild til að krefjast nauðungarsölu á þessum grundvelli sé aðeins fyrir hendi, þegar samningur er gerður um veðrétt í eign fyrir tiltekinni peningakröfu. Með þessu sé áréttað að samningurinn þurfi sem slíkur að taka af öll tvímæli um fyrir hvaða skuld sé verið að veita þessa heimild. Utan skilgreiningar þess sem 2. töluliður 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 geri ráð fyrir að geti verið uppboðsheimild falli því svokölluð allsherjarveð þar sem kröfuhafa sé veittur veðréttur fyrir margs konar kröfum sínum á hendur tilteknum skuldara án sérstakrar afmörkunar á hverri kröfu fyrir sig.
Sóknaraðili bendir á að engin slík peningakrafa sé tiltekin í tryggingarbréfum varnaraðila og fullnægi þau því ekki áskilnaði áðurnefnds ákvæðis. Varnaraðili var því bundinn við þær uppboðsheimildir sem fram komi í tryggingarbréfunum ef hann á annað borð ætlaði að byggja á þeim bréfum við uppboðið. Bréfin feli á hinn bóginn ekki í sér beina nauðungarsöluheimild.
Samkvæmt ofangreindu virðist þannig útilokað fyrir varnaraðila að ná fram uppboði á fasteign sóknaraðila eins og yfirlýstur tilgangur hans er samkvæmt uppboðsbeiðni enda séu tryggingarbréfin ekki rétt úr garði gerð að þessu leyti og verður varnaraðili sem sérfróður aðili á þessu sviði að bera hallann af því.
Samkvæmt framangreindu beri að ógilda framhaldssölu þá sem fram fór á fasteigninni Grænumýri 9, Mosfellsbæ, þann 30. janúar 2017.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr., 5. mgr. 36. gr. og XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá er byggt á 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Málskostnaðarkrafan er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir á því að beiðni hans um nauðungarsölu á fasteigninni að Grænumýri 9, Mosfellsbæ, bæði að formi og efni, og öll eftirfarandi meðferð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, uppfylli öll skilyrði laga nr. 90/1991. Því séu engir ágallar fyrir hendi sem leitt geti til þess að nauðungarsalan verði felld úr gildi.
Beiðni varnaraðila um nauðungarsölu á fasteign sóknaraðila hafi stuðst við fjárnám sem gert hafði verið í eigninni þann 15. apríl 2016. Beiðnin hafi þannig verið í samræmi við áskilnað 1. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Þá hafi fjárnámið fyrir kröfunni að fullu verið í samræmi við áskilnað laga nr. 90/1989. Gildi þess hafi ekki verið hnekkt. Samkvæmt venju og réttindum varnaraðila hafi fjárnám fyrir kröfunni verið gert á grundvelli tryggingarbréfanna sem hvíldu á eigninni og stóðu til tryggingar kröfunni. Öll önnur skilyrði laga nr. 90/1991 hafi verið uppfyllt þannig að nauðungarsalan mætti fara fram, sbr. til að mynda skilyrði 11., 12. og 13. gr. laganna. Vert sé að geta þess að sýslumaður hafi aldrei séð ástæðu til að vísa beiðni varnaraðila frá eða fresta gerðinni svo hægt væri að bæta úr ágöllum enda hafi engum slíkum göllum verið til að dreifa.
Varnaraðili kveður röksemdir sóknaraðila að engu hafandi og er öllum málsástæðum hans hafnað. Varnaraðili tekur fram að enginn óskýrleiki sé í beiðni hans um nauðungarsölu. Þar sé skýrt tekið fram að beiðnin styðjist við 1. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Ekkert gefi ástæðu til að ætla að beiðnin byggi á 2. tölulið ákvæðisins, líkt og sóknaraðili virðist leggja til grundvallar. Þá hafi engin ástæða verið til að þinglýsa fjárnáminu sem fram hafi farið 15. apríl 2016 enda hafi það verið gert á grundvelli veðréttinda varnaraðila samkvæmt tryggingarbréfunum þremur sem hvíldu á eigninni. Engu skiptir í þessum efnum þótt orðalag fjárnámsendurritsins sé með þeim hætti sem raun beri vitni, þ.e. að notað sé orðalagið „sbr. tryggingarbréf“ en það feli ekki í sér neinn óskýrleika. Augljóslega sé átt við að fjárnám sé gert fyrir kröfum varnaraðila í fasteign sóknaraðila á grundvelli veðréttar eða inn í veðrétt varnaraðila. Þá sé túlkun sóknaraðila á ákvæði 5. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1991 algerlega á skjön við orðalag þess og áralanga framkvæmd þess.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur varnaraðili einsýnt að hafna verði kröfu sóknaraðila og að staðfest verði nauðungarsala nr. 2016-019133 á fasteigninni Grænumýri 9, Mosfellsbæ, fastanúmer 229-0700, sem framkvæmd var af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þann 30. janúar 2017.
Um lagarök kveðst varnaraðili vísa til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga. Vísað er til II. kafla laga nr. 75/1997 um samningsveð og til meginreglna veðréttar. Vísað er til laga nr. 90/1989 um aðför og laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.
IV
Niðurstaða
Sóknaraðili hefur með beiðni sinni til dómsins krafist þess að ógilt verði nauðungarsala á fasteign hans að Grænumýri 9 í Mosfellsbæ, fastanúmer 229-0700, er fram fór hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 30. janúar 2017. Er beiðninni réttilega beint til dómsins á grundvelli XIV. kafla laga nr. 90/1991 og að uppfylltum áskilnaði 1. mgr. 80. gr. þeirra laga um tímafrest.
Málatilbúnaður sóknaraðila mætti um margt vera skýrari en hann verður skilinn svo að umrædda nauðungarsölu beri að fella úr gildi þar sem hún hafi ekki farið fram í samræmi við ákvæði laga nr. 90/1991, einkum 6. og 36. gr. þeirra. Þá verður málatilbúnaður sóknaraðila einnig skilinn svo að á gildi fjárnáms þess er nauðungarsalan byggðist reyni einnig í málinu, sbr. 92. gr. laga nr. 90/1989.
Sóknaraðili hefur raunar ekki með skýrum hætti bent á þau atriði sem hann telur að leiða eigi til þess að gildi áðurnefnds fjárnáms komi til skoðunar í máli þessu. Verður þó helst ráðið af málatilbúnaði hans að eftirfarandi tilvísun í endurriti úr gerðarbók sýslumanns þar sem fjárnám er gert fyrir kröfum varnaraðila „sbr. tryggingarbréf nr. 0326-63-130156, 0326-63-130326, 0326-63-130500 tryggðu með veði í Grænamýri 9, Mosfellsbæ, fnr. 229-0700“ leiði til þess að fjárnámið geti ekki verið grundvöllur nauðungarsölu samkvæmt nauðungarsölubeiðni varnaraðila sem byggt hafi á 1. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Hefur sóknaraðili haldið því fram að beiðnin hefði með réttu átt að byggja á 2. tölulið ákvæðisins þar sem í bréfunum hafi verið að finna beina nauðungarsöluheimild en jafnvel þótt svo hefði verið væru tryggingarbréfin ekki gild nauðungarsöluheimild þar sem þau hafi falið í sér allsherjarveð vegna ótilgreindra skulda sóknaraðila og einungis hámarksfjárhæð tilgreind í bréfinu.
Dómurinn tekur fram að hvorki verði séð af gögnum málsins né því sem fram hefur komið fyrir dóminum að nokkuð við framkvæmd fjárnámsins sem fram fór 15. apríl 2016 geti leitt til þess að það verði talið ógilt með þeim afleiðingum að það geti ekki talist grundvöllur þeirrar nauðungarsölu sem um er deilt í málinu. Fjárnámið fór fram á grundvelli áritaðrar stefnu á hendur sóknaraðila vegna skuldar sem þá nam að heildarfjárhæð 26.571.886 krónum. Í hinni árituðu stefnu er skýrlega gerð grein fyrir skuldinni sem þar er krafið um og hvernig hún er til komin. Að þessu sögðu er því hafnað sjónarmiðum sóknaraðila er lúta að fjárnámi því er var grundvöllur hinnar umdeildu nauðungarsölu. Þá tekur dómurinn jafnframt fram að áðurnefnd tilvísun í fjárnámsgerðinni til hinna þriggja tryggingarbréfa sem stóðu að veði í eign sóknaraðila, til tryggingar öllum skuldum hans við varnaraðila, verði ekki skilin öðruvísi en svo að hún feli í sér að fjárnám sé gert í eigninni inn í veðrétt varnaraðila samkvæmt bréfunum. Er því ekki fallist á þau sjónarmið sóknaraðila sem fyrr eru greind.
Þá tekur dómurinn fram að nauðungarsölubeiðni varnaraðila byggði ekki á 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 og kemur því ekki til álita hvort áðurnefnd tryggingarbréf hafi falið í sér beina nauðungarsöluheimild sem gild væri samkvæmt áðurnefndu ákvæði. Ljóst má vera að varnaraðili nýtti sér ekki það réttarfarsúrræði sem felst í beinni nauðungarsöluheimild. Auk þess tekur dómurinn fram að kröfuhafar, sem slíka heimild hafa, er það í sjálfsvald sett hvort þeir láti á hana reyna eða hvort þeir kjósi að afla sér aðfararheimildar með öðrum hætti og knýja á um nauðungarsölu á grundvelli 1. töluliðar 6. gr. laga nr. 90/1991.
Að lokum tekur dómurinn fram að hann fái ekki séð að túlkun sóknaraðila á 5. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1991 eigi við í máli þessu og breytir þar engu þótt fjárnámi varnaraðila í eign sóknaraðila hafi ekki verið þinglýst á eignina enda var fjárnámið gert á grundvelli veðréttinda varnaraðila samkvæmt tryggingarbréfunum þremur sem hvíldu á eigninni. Ljóst er af gögnum málsins að nokkrir aðilar lýstu kröfu við nauðungarsöluna og lítur dómurinn svo á að á ágreining um hvað komi að lokum í hlut varnaraðila og hvers þeirra fyrir sig reyni við úthlutun söluverðs eignarinnar.
Þegar á allt þetta er litið verður því að telja að nauðungarsala eignarinnar að Grænumýri 9 í Mosfellsbæ, er fram fór 31. janúar 2017, uppfylli að öllu leyti skilyrði laga nr. 90/1991. Verður kröfu sóknaraðila því hafnað og nauðungarsalan staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum, með hliðsjón af umfangi málsins, málatilbúnaði aðila og rekstri þess fyrir dóminum, hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 28. mars sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Nauðungarsala nr. 2016-019133 á fasteign sóknaraðila, Óskars Björgvins Jónssonar, að Grænumýri 9 í Mosfellsbæ, fastanúmer 229-0700, sem fram fór 30. janúar 2017 hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, er staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Arion banka hf., 400.000 krónur í málskostnað.