Hæstiréttur íslands

Mál nr. 410/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Lausafé
  • Handveð
  • Haldsréttur


Föstudaginn 2. september 2011.

Nr. 410/2011.

Þorsteinn Steingrímsson

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

gegn

Selmu Ragnarsdóttur

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Innsetningargerð. Lausafé. Handveð. Haldsréttur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa S um að henni yrði heimilað að fá nánar tilgreinda lausafjármuni tekna úr vörslum Þ og fengna sér með beinni aðfarargerð. Málavextir voru þeir að er S rýmdi íbúðarhúsnæði, sem hún hafði á leigu hjá Þ, flutti hún búslóð sína í geymsluhúsnæði sem Þ útvegaði henni. Er S óskaði eftir því við Þ að fá aðgang að geymsluhúsnæðinu til að taka þaðan búslóðina, krafði Þ hana um greiðslu vegna vangreiddrar húsaleigu fyrir íbúðarhúsnæðið, viðgerða á því og hreingerninga, auk tryggingar fyrir greiðslu vegna frekari viðgerða. Hafnað var þeirri viðbáru Þ að S hefði sett honum búslóð sína að handveði til tryggingar kröfum, sem hann teldi sig geta reist á leigumála þeirra um íbúðarhúsnæði. Þá var Þ ekki talið heimilt eins og atvikum máls var háttað að halda fyrir S búslóð hennar til tryggingar ógreiddum geymslukostnaði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að henni yrði heimilað að fá nánar tiltekna lausafjármuni tekna úr vörslum sóknaraðila og fengna sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um aðfarargerð og henni gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hafði varnaraðili á leigu hjá sóknaraðila íbúðarhúsnæði, sem hún mun hafa rýmt 31. desember 2010. Óumdeilt er að varnaraðili hafi þá flutt búslóð sína í geymsluhúsnæði, sem sóknaraðili útvegaði henni, en það mun vera í eigu Álftavatns ehf., sem varnaraðili staðhæfir að sóknaraðili sé fyrirsvarsmaður fyrir. Fyrir liggur að varnaraðili óskaði eftir því við sóknaraðila 19. janúar 2011 að fá aðgang að geymsluhúsnæðinu til að taka þaðan búslóðina, sem hann svaraði með kröfu um greiðslu á samtals 475.000 krónum vegna vangreiddrar húsaleigu fyrir íbúðarhúsnæðið, viðgerða á því og hreingerninga, auk þess að krefjast tryggingar fyrir greiðslu á um 600.000 krónum vegna frekari viðgerða. Af þessu reis ágreiningur, sem varð til þess að varnaraðili leitaði 7. mars 2011 eftir heimild héraðsdóms til að fá muni sína í fyrrnefndu geymsluhúsnæði afhenta sér með innsetningargerð, en í hinum kærða úrskurði eru þessir munir taldir í einstaka atriðum.

Sóknaraðili hefur ekki borið því við að máli þessu sé ranglega beint að sér sem vörslumanni munanna, sem varnaraðili krefst að fá afhenta. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hafnað þeirri viðbáru sóknaraðila að varnaraðili hafi sett honum búslóð sína að handveði til tryggingar kröfum, sem hann telur sig geta reist á áðurnefndum leigumála þeirra um íbúðarhúsnæði. Um þá málsástæðu sóknaraðila að hann njóti haldsréttar í munum varnaraðila vegna ógreiddrar leigu fyrir geymsluhúsnæðið er þess að gæta að í orðsendingu, sem lögmaður sóknaraðila beindi til lögmanns varnaraðila 15. febrúar 2011, sagði meðal annars að „ekki hefur því verið haldið fram að um haldsrétt sé að ræða í eigum umbj. þíns.“ Til þess verður og að líta að varnaraðili óskaði sem áður segir eftir því 19. janúar 2011 að fá aðgang að geymsluhúsnæðinu til að taka þaðan búslóðina, sem hafði þá verið geymd þar skemur en í þrjár vikur. Samkvæmt reikningi Álftavatns ehf. á hendur sóknaraðila, sem hann hefur lagt fram, virðist hann hafa greitt félaginu sem svarar 37.000 krónum á mánuði fyrir leigu á 20 m2 í geymsluhúsnæðinu, sem ætla verður að sóknaraðili telji að nýttir séu undir búslóð varnaraðila. Óumdeilt virðist vera í málinu að varnaraðili eigi kröfu á hendur sóknaraðila út af ofgreiddri hlutdeild í reikningum vegna orkukaupa fyrir íbúðarhúsnæðið að fjárhæð rúmlega 23.000 krónur, sem hún bauð honum 26. janúar 2011 að jafna á móti skuld vegna leigu á geymsluhúsnæði. Að þessu virtu getur sóknaraðili hvað sem öðru líður ekki borið því við að honum sé heimilt að halda fyrir varnaraðila búslóð hennar til tryggingar ógreiddum geymslukostnaði.

Sóknaraðili hefur bæði í héraði og fyrir Hæstarétti gert fyrirvara um „réttmæti upptalningar varnaraðila á þeim munum, sem hann krefst innsetningar í“, svo sem segir í greinargerð sóknaraðila hér fyrir dómi. Þetta hefur hann í engu skýrt frekar eða rökstutt. Að þessu gættu og öðru því, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er litið til þess að kæra í máli þessu er að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þorsteinn Steingrímsson, greiði varnaraðila, Selmu Ragnarsdóttur, 400.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2011.

Með aðfararbeiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. mars sl., hefur sóknaraðili, Selma Ragnarsdóttir, kt. 280872-5719, Sogavegi 92, Reykjavík, krafist dómsúrskurðar um að tilteknar eignir, sem hún hafi afhent varnaraðila til geymslu 30. og 31. desember 2010, skuli afhentar henni með beinni innsetn­ingar­gerð. Sóknaraðili krefst innsetningar í eftirtalda muni:

- Vegabréf sóknaraðila

- Dökkgrænt 70´s sófasett og 2 stólar

- Ílangt sófaborð

- Langur svefnsófi

- 2 kassar með persónulegum gögnum, þar á meðal vegabréf

- 2 kommóður

- 2 rúm

- 3 kassar með dóti úr strákaherbergi, þ. á m. dvd diskar og tölvuleikir

- 2 viðarhillur með plasthirslum í krakkaherbergi

- Skrifborð fyrir ungling

- Kassi með strákafatnaði

- Plötuspilari, 2 hátalarar og 2 kassar af vinylplötum

- 3 kassar með eldhúsáhöldum og fleiru úr eldhúsi

- 4 kassar með dóti úr stofu, lampar, myndir og skrautmunir

- Plastþvottakarfa með baðherbergisdóti

- 2 borðstofustólar

- 4 eldhússtólar

- Viðarhillur

- Hvítur hár skápur

- Borðtölva og skjár

- Lítið sjónvarp og eldhúsútvarp

- Blaðakarfa með borði ofan á

- 3 ferðatöskur með fatnaði

- 4 stórir pokar með fatnaði

- 2 stórir pokar með skóm

- 4 bókakassar

- 2 kassar með ýmsum persónulegum gögnum, bréfum og skjölum

- Skóhilla og önnur lítil hilla

- Iðnaðar- Pfaff beinsaumsvél

- Iðnaðar Yuki overlockvél

- Stórt sníðaborð

- Hátt vinnuborð með járnhillum undir

- Sníðahnífur

- 3 stórar gráar álhillur

- 2 járnhillur með svörtum hillum í

- Antík saumavél í boxi

- 3 kassar með sníðaáhöldum, skærum og reglustikum

- Bókhald Listauka, nokkrar möppur í kassa

- Meistarabréf og sveinsbréf

- Stór spegill í ramma

- Strauborð og straujárn

- 3 saumagínur

- Vinnustóll á hjólum

- 2 háir stólar (við sníðaborð)

- 5 kassar með vinnumöppum, fagbókum, teikningum og blöðum

- Trékassi með sniðum í

- 6 stórir svartir pokar með efnisströngum í

- 4 stórir pappakassar með vefnaðarvöru

- 12 plastkörfum með efnum og bútum

- 5 stór plastbox með efnum og fatnaði

- 2 töskur með búningum

- Kassi með ljósmyndum í möppum og í römmum

- Kassi með ýmsu saumatengdu; tölur, rennilásar

- Kassi með myndlistardóti; spray og litir

Sóknaraðili segir eignirnar vera í geymsluhúsnæði, sem varnaraðili hafi umráð yfir, í kjallara að Barónsstíg 47, Reykjavík.

Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila, auk þess sem fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Varnaraðili krefst sýknu af öllum kröfum sóknaraðila. Þá krefst varnar­aðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts.

Málið var tekið til úrskurðar 16. maí að aflokinni aðalmeðferð.

Málavextir, málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst hafa tekið á leigu af varnaraðila íbúðarhúsnæði að Vatnsstíg 9a, Reykjavík, með leigusamningi, dags. 7. ágúst 2009. Hafi leigutími verið frá 1. september 2009 til 31. ágúst 2010, en samkomulag hafi orðið um að framlengja samninginn til 31. desember 2010. Hafi sóknaraðili búið í íbúðinni ásamt syni sínum umrætt tímabil. Í íbúðinni hafi sóknaraðili haft alla sína búslóð auk vinnutækja, en sókn­ar­aðili sé klæðskera- og kjólameistari. Á leigutímanum hafi samskipti málsaðila verið með ágætum og hafi hvor staðið við sínar skyldur.

Eftir að leiguíbúðin hafi verið rýmd í lok desember 2010, eins og samkomulag var um, hafi sóknaraðili ekki haft annað íbúðarhúsnæði til umráða. Varnaraðili hafi boðist til að lána sóknaraðila geymsluhúsnæði í kjallara að Barónsstíg 47, Reykjavík, undir búslóð hennar og eigur í allt að einn mánuð. Þetta fyrirkomulag hafi verið ákveðið án endurgjalds, en sóknaraðili hafi ofgreitt orkureikning vegna íbúðar­innar að Vatnsstíg 9a, um 25% á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2010, án þess að uppgjör vegna þess hefði farið fram. Hafi sóknaraðili því gengið að þessu boði varnar­aðila í góðri trú um að fá að nýta geymslurýmið í nokkra daga og hafi komið búslóð sinni og eigum fyrir í geymslunni dagana 30. og 31. desember 2010.

Að sögn sóknaraðila hafi varnaraðili ekki viljað afhenda sóknar­aðila lykla að geymslunni í þeim tilgangi að sækja eigur sínar. Allt frá þriðjudeginum 18. janúar sl. hafi sóknaraðili ítrekað reynt að fá aðgang að eigum sínum og boðið varnaraðila að finna tíma. Óskað hafi verið eftir hentugum tíma til þess að losa geymsluna, og hafi sókn­araðili mætt í tvígang með flutningabíl ásamt aðstoðarfólki í þeim tilgangi að flytja eigurnar út, en án árangurs. Varnaraðili hafi ítrekað neitað að opna geymslu­rýmið, og haldið því fram að hann ætli að halda eigunum sem tryggingu vegna meintrar kröfu varðandi leigusamninginn um íbúðina að Vatnsstíg 9a, þar á meðal vegna þrifa og málningarvinnu, sem sóknaraðili vísar á bug. Varnaraðili hafi því bein­línis staðið í vegi fyrir því að sóknaraðili fái umráð eigna sinna.

Eftir árangurslausar tilraunir sóknaraðila hafi varnaraðila verið send formleg áskorun um afhendingu eignanna, dags. 3. febrúar 2011, þar sem skorað hafi verið á hann að hleypa sóknaraðila inn í geymslurýmið, svo hún gæti tekið eigurnar í sínar vörslur.

Sóknaraðili hafi hafnað þeirri áskorun með bréfi, dags. 10. febrúar 2011, án nokkurra haldbærra raka. Svarbréfi varnaraðila hafi verið svarað með bréfi, dags. 12. febrúar 2011, þar sem rökum varnaraðila hafi verið svarað auk þess sem fyrri áskorun hafi verið ítrekuð. Ekkert formlegt svar hafi borist við síðara bréfi sóknar­aðila, en lögmenn málsaðila hafi sent hvor öðrum tölvupósta, þar sem áskorun­inni hafi aftur verið hafnað og því meðal annars haldið fram að varnaraðili hefði hand­veðs­rétt í eigum sóknaraðila. Sóknaraðili telur skilyrði fyrir einhvers konar tryggingu, haldsrétti eða handveðsrétti, í eigum hennar, fjarri því að vera uppfyllt. Beri varnar­aðila að tryggja sér sönnun um slíka íþyngjandi ráðstöfun. Að mati sóknaraðila verði ekki betur séð en að athæfi varnaraðila flokkist undir gertæki, eins og sakir standa. Telji varnar­aðili sig eiga kröfu á hendur sóknaraðila sé honum í lófa lagið að innheimta hana, en það skuli gert með löglegum hætti.

Sóknaraðili áréttar að búslóð og vinnutæki hennar séu í vörslum varnaraðila og því raski athæfi hans verulega daglegu lífi og vinnu hennar.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á óumdeildum umráða- og eignarrétti að mununum sem sé varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Varnar­aðili hafi aldrei haft umráða- eða vörslurétt yfir þeim. Óumdeilt sé að sóknar­aðili sé og hafi alltaf verið eigandi þessara muna og véla. Sóknaraðili hafi því ský­lausan og ótvíræðan rétt til varslna og umráða yfir eigunum en vörslur og umráð varnaraðila séu heimildarlaus og brjóti gegn lögvörðum eignarrétti sóknaraðila. Þar sem varnaraðili muni áfram hindra sókn­ar­aðila í að neyta réttinda sinna séu ekki aðrar leiðir færar en að leita atbeina dómstóla með vísan til 78. gr. laga nr. 50/1989 um aðför.

Ekki sé ágreiningur um að sóknaraðili eigi munina. Enn fremur sé óumdeilt að þeir hafi ekki verið settir sem trygging á grundvelli húsaleigulaga. Því verði að teljast ámælisvert af varnaraðila að halda þeim í sínum vörslum og neita sóknaraðila um umráð og vörslur þeirra, þrátt fyrir að varnaraðili mótmæli ekki eignarrétti sóknaraðila.

Sóknaraðili telur fullnægt öllum skilyrðum laga nr. 90/1989 um aðför. Kröfu sína styður hann við 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 50/1989 um aðför. Kröfu sína um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 50/1989 um aðför.

Málavextir, málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili mótmælir málavaxtalýsingu sóknaraðila sem rangri í veigamiklum atriðum. Sóknaraðili hafi haft á leigu fasteign varnaraðila að Vatnsstíg 9a í Reykjavík, nánar tiltekið hæð og ris. Leigusamningurinn, skriflegur, á stöðluðu formi félags­mála­ráðu­neytisins, hafi verið tímabundinn og skyldi leigutíma lokið 31. ágúst 2010 án sérstakrar uppsagnar. Við upphaf leiguafnotanna hafi risið verið nýstandsett með nýju parketti og hæðin nýmáluð, parket þar nýlakkað og baðherbergi nýstandsett.

Þegar liðið hafi að lokum leigutímans án þess að frá sóknaraðila kæmi tilkynn­ing með þeim þriggja mánaða fyrirvara, sem samningurinn greinir, um að hann vildi nýta sér áframhaldandi leigurétt, hafi varnaraðili hugað að því að afla sér nýs leigjanda frá 1. september 2010. Hafi varnaraðili fengið tilboð frá færeysku ræðisskrifstofunni sem vildi taka íbúðina á leigu fyrir 270.000 krónur á mánuði. Hafi hann ætlað að taka því, en rúmri viku fyrir leigulok hafi hann fengið beiðni frá sóknaraðila um að fá að hafa íbúðina eitthvað lengur, enda gæti sóknaraðili ekki flutt út á tilsettum tíma, þar sem hann hefði ekki í önnur hús að venda. Varnaraðili hafi orðið við þeirri beiðni, enda þá þegar ljóst að fyrirsjáanleg vanefnd sóknaraðila kæmi í veg fyrir að varnar­aðili gæti leigt færeysku ræðisskrifstofunni tímanlega. Hafi hann því næst gert fyrir­vara við móttöku leigugjalds fyrir septembermánuð. Hafi fyrirvarinn verið gerður bæði til að fyrirbyggja að sóknaraðili stofnaði ný sjálfstæð leiguréttindi og vegna þess, að hann hugðist hækka leigugjaldið við fyrsta tækifæri. Síðan hafi mál þróast þannig að sóknaraðili hafi þæfst við að losa húsnæðið og hafi ekki komið sér út úr því fyrr en í lok desember 2010, en varnaraðili hafi þá hækkað leigugjaldið frá og með desember­mánuði um 50.000 krónur. Því sé röng sú fullyrðing sóknaraðila að samkomulag hafi verið með aðilum um að framlengja samninginn til 31. desember 2010. Miklu fremur megi segja að mál hafi þróast þannig vegna framgöngu sóknaraðila en að óvilja varnaraðila.

Þegar komið var fram í desember hafi hinn færeyski aðili, sem hafi viljað fá eignina á leigu, ekki getað tekið hana á leigu, enda hafi hann þá þegar leigt aðra eign. Hins vegar hafi verið kominn til skjalanna nýr leigutaki, sem vildi fá eignina leigða frá 1. janúar 2011 á 200.000 krónur á mánuði og hafi nauðsynlega þurft að geta flutt inn 2. janúar 2011. Hafi varnaraðili gengið frá samningi í desember 2010 við þann mann, enda hafi þá legið fyrir eindræg loforð sóknar­aðila um að hann yrði kominn út úr íbúð­inni fyrir áramót og myndi skila henni hreingerðri og leiguklárri 30. desember 2010. 

Fram undir áramótin hafi varnaraðili verið öldungis grandalaus um þær hremmingar í samskiptum hans við sóknaraðila, sem áttu eftir að koma og bætast við fyrri vanefndir um skil á húsnæðinu.

Eftir móttöku tölvuskeytis 26. desember 2010 frá sóknaraðila hafi varnar­aðili haft verulegar áhyggjur af því að sóknaraðili væri í vandræðum með að koma sér og búslóð sinni út úr leiguhúsnæðinu á tilsettum tíma og hafi þess vegna boðið fram geymslu­húsnæði í nokkra daga að Barónsstíg 47. Ekkert hafi verið afráðið um endur­gjald og því sé röng sú fullyrðing að ákveðið hafi verið að þetta væri án endurgjalds. Sókn­ar­aðili hafi efnislega hafnað þessu boði varnaraðila 29. desember 2010 með tölvu­skeyti, þar sem hann kvaðst mundu flytja búslóðina í geymslurými að Bergstaðastræti.

Það sé athyglivert og lýsandi fyrir framgöngu sóknaraðila við rekstur málsins, að hann hafi aðeins lagt fram samskiptahrinu málsaðilanna í tölvupóstum frá 22. til 27. desember 2010. Samskiptin, svona fram sett, gefi ranga mynd af málsefninu og nægi í því efni að vísa til þess sem fram fór á milli aðilanna í áðurnefndu tölvuskeyti 29. desember 2010, þar sem sóknaraðili hafi efnislega afþakkað að geyma muni sína á Baróns­stígnum og kvaðst mundu flytja það í húsnæði á Bergstaðastræti síðdegis þann 30. desember og bað varnaraðila að hitta sig þá, til að fá afhenta lykla.

Þetta hafi ekki gengið eftir fremur en annað sem sóknaraðili hafi lofað. Hafi máls­aðilar hist um hádegi á gamlársdag í íbúðinni, sem þá hafði hvorki verið rýmd né þrifin. Við það tækifæri hafi varnaraðili lesið sóknaraðila pistilinn og bent á hvaða tjón hefði hlotist og myndi hljótast af háttalagi hans og vanefndum. Hafi varnaraðili við þetta tækifæri krafist þess að hann fengi handveð í þeirri búslóð, sem þá hafi verið í íbúðinni, til tryggingar bótakröfum sínum og hækkaðri leigu í desember. Hafi varnar­aðili þá jafnframt krafist þess að búslóðin yrði flutt á Barónsstíg 47 í sína vörslu og að hún yrði geymd þar sem trygging hans fyrir því að sóknaraðili leysti úr þeim kröfum, sem varnaraðili hefði á hendur honum. Sóknaraðili hafi fallist á þetta og flutt búslóð sína á Barónsstíginn eftir hádegi þennan dag. 

Þá hafi verið ljóst að sóknaraðili réð vart við að skila eigninni á tilsettum tíma í leiguhæfu ástandi, en þá hafi sóknaraðili lofað því, að hann kæmi með „flokk manna“ í þrifin á nýársdagsmorgun. Það hafi ekki gengið eftir, heldur hafi sóknaraðili komið ein á staðinn eftir hádegi á nýársdag og hafi lítið hafst að. Skömmu síðar hafi vinkona hennar einnig komið uppáklædd en hafi ekki verið til neins gagns við þrif fremur en sóknaraðili sjálfur, sem hafi skömmu síðar farið af staðnum með vinkonu sinni. Virtist varnaraðila sem sóknaraðila hafi fallist hendur yfir því verkefni, sem hans beið á staðnum. 

Sóknaraðili hafi hins vegar sjálfur þurft að ræsa út mannskap til að þrífa og mála íbúðina, sem hafi talsvert verið skemmd. Meðal annars hafi parket á íbúðinni skemmst veru­lega vegna olíuleka úr saumavélum, en svo virtist sem sóknaraðili hefði rekið þarna sauma­stofu með tilheyrandi vélbúnaði. Vegna nauðsynlegrar málningar­vinnu á íbúðinni og þrifa hafi varnaraðili þurft að seinka afhendingu til nýs leiguhafa og gefa honum verulegan afslátt af leigu fyrir janúar sem skaðabætur. Þá sé parketið enn óviðgert, en talið sé að skipta þurfi um parket á um það bil 30 fermetrum.

Varnaraðili getur þess, vegna handveðsetningar búslóðarinnar, að varnaraðili hafi seinna þennan dag fengið staðfestingu sóknaraðila á henni með smáskilaboðum (sms) í farsíma sinn. Varnaraðili hafi ekki varðveitt þessi smáskilaboð nægjanlega lengi og samkvæmt athugun sé ekki unnt að þessum tíma liðnum að fá skeytið endur­lífgað hjá símafyrirtækinu.

Allt frá þessum samskiptum aðilanna hafi varnaraðili með réttu litið svo á að hann hefði búslóðina að handveði til tryggingar óloknum ágreiningsefnum milli máls­aðil­anna. Þá líti hann jafnframt svo á að frá áramótum hafi hann haldsrétt í búslóðinni til tryggingar geymslukostnaði, sem hann hafi þurft að greiða Álftavatni ehf., eiganda húsnæðisins, eða 37.000 krónur á mánuði. 

Þessu til viðbótar byggi varnaraðili á því að hann sé samkvæmt samkomulagi málsaðila, gerðu 31. desember 2010, handveðshafi í búslóðinni til tryggingar þeim kröfum, sem hann hafi á sóknaraðila og séu óumsamdar. Honum sé því rétt að hafa áfram vörslur búslóðarinnar að óbreyttu. 

Varnaraðili hafi lagt fram tölvuskeyti sóknaraðila frá 29. desember 2010 þar sem hann hafni því efnislega að koma búslóðinni í geymslu hjá varnaraðila, eins og nokkru fyrr hefði verið boðið. Við svo búið hljóti sönnunarbyrðin að snúast við þannig að sóknaðili verði gegn staðhæfingu varnaraðila að sanna að hann hafi ekki látið varn­ar­aðila í té handveð í búslóðinni, enda liggi fyrir að sóknaraðili hafi sjálfur komið búslóðinni í vörslur varnaraðila eftir að hafa hafnað því að geyma hana hjá honum.

Þá telji varnaraðili sig hafa réttmætan haldsrétt í búslóðinni til tryggingar kostnaði við geymslu hennar, burtséð frá sjónarmiðum varðandi handveðrétt. Í öllu falli verði ekki hjá því litið að myndast hafi haldsréttur í búslóðinni fyrir geymslu­kostnaði frá 31. desember 2010, þótt ekki yrði fallist á þá málsástæðu að búslóðin sé handveð­sett varnaraðila. Varnaraðili eigi rétt á slíkum kostnaði frá 31. desember 2010 til 28. febrúar 2011, en sóknaraðili hafi tilkynnt varnaraðila fyrst 19. janúar 2011 að hann hefði hug á að sækja búslóð sína.

Varnaraðili mótmæli þeirri málsástæðu sóknaraðila, að umráða- eða vörslu­réttur varnaraðila hafi aldrei verið fyrir hendi. Þá mótmæli varnaraðili þeirri stað­hæf­ingu sókn­ar­aðila, að „óumdeilt“ sé að eignirnar hafi ekki verið settar sem trygging á grund­velli húsaleigulaga.

Varnaraðili bendir á að lagaskilyrði séu ekki fyrir því að heimila beina innsetn­ingu í búslóðina, sbr. 83. gr. laga nr. 31/1990, enda skuli að jafnaði hafna aðfarar­beiðni, verði talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnun­ar­gagna, sem heimilt sé að afla í slíku máli. Framlögð gögn sóknaraðila verði ekki með neinu móti talin taka af allan vafa, sem um málsefnið ríki, sem lesa megi af greinar­gerð varnaraðila og lykil­gögnum, svo sem tölvuskeytinu frá 29. desember 2010 svo og gjörðum sóknaraðila í framhaldi af því.

Máli sínu til stuðnings vísar varnaraðili til almennra reglna samningaréttarins um loforð, einnig til laga nr. 31/1990, einkum 83. gr., ákvæða laga nr. 75/1997, einkum 22. gr. og varðandi sjónarmið um haldsrétt til 55.-57. gr. laga nr. 36/1994. Þá vísar varn­ar­aðili til reglna einkamálaréttarfars um sönnunarfærslu, sönnunarbyrði og sönnunar­mat. Kröfur um málskostnað styður hann við 130. gr. laga nr. 91/1991.

Loks setur varnaraðili fyrirvara við áreiðanleika upptalningar sóknaraðila á þeim eigum, sem hann telji vera í vörslu varnaraðila. 

Niðurstaða

Samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför getur héraðsdómari úrskurðað að fullnægt verði með aðfarargerð rétti manns sem honum er aftrað að neyta og hann telur sig eiga og vera svo ljósan, að sönnur verði færðar fyrir honum með gögnum, sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laganna. 

Óumdeilt er að sóknaraðili er eigandi þeirra muna sem krafist er innsetningar í. Varnaraðili hefur neitað að afhenda sóknaraðila umrædda muni og byggir á því að stofnast hafi handveð eða haldsréttur í búslóð sóknaraðila.

Varnaraðili byggir á því að samið hafi verið um að hann fengi handveð í búslóðinni til tryggingar óloknum ágreiningsefnum milli málsaðila. Sóknaraðili hafnar því að þau hafi samið um eitthvað slíkt. Samkvæmt 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð er heimilt að stofna til handveðréttar í lausafé og stofnast réttarvernd við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hefur að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Samningsveð stofnast ekki nema það grundvallist á gildu loforði. Ekkert í gögnum málsins styður þá fullyrðingu varnaraðila að samið hafi verið um handveð í búslóð sóknaraðila og því verður ekki fallist á að varnaraðili eigi handveð í búslóð sóknaraðila.

Þá lítur varnaraðili svo á að frá áramótum hafi hann haldsrétt í búslóð sóknaraðila til tryggingar geymslukostnaði sem hann hafi greitt Álftavatni ehf., eiganda húsnæðisins að Barónsstíg 47, eða 37.000 krónur á mánuði. Haldsréttur er tryggingarréttur og á að stuðla að því að haldsréttarhafi fái tiltekna greiðslu sem hann á rétt á og veitir halds­rétturinn honum heimild til að hafa hlut í haldi þangað til greiðslan er innt af hendi. Því er nauðsynlegt í þessu sambandi að skoða rétt varnar­aðila til greiðslu frá sóknaraðila sem haldsréttur verður byggður á. Hvergi í gögnum málsins kemur fram um hvaða fjárhæð var samið að greidd yrði fyrir afnot af geymslu­rýminu að Barónsstíg 47. Sóknaraðili spyr varnaraðila í tölvuskeyti frá 27. desember 2010 á hvaða verði hann hafi hugsað séð að leigja geymsluplássið í mánuð. Varnaraðili svarar með tölvuskeyti sama dag að hann hafi ekki hugsað út í leigu­fjár­hæð, en þau hljóti að geta samið um hana eins og annað. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga um þjónustukaup, sem meðal annars taka til geymslu á lausafjármunum, ber neytanda ekki skylda til að greiða seljanda fyrir þjónustu fyrr en hann hefur fengið sundurliðaðan reikning sem er í samræmi við gildandi opinber fyrirmæli um gerð reikninga. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi verið krafin um greiðslu fyrir geymsluna fyrr en reikningur dagsettur 11. mars, útgefinn af Álftavatni ehf. og stílaður á varnaraðila, var lagður fram í þinghaldi 15. apríl sl.

Þegar sóknaraðili hugðist sækja búslóðina 19. janúar sl. lá ekkert fyrir um skuld hennar fyrir afnot af geymslurýminu og af þeim sökum er því hafnað að varnar­aðili hafi öðlast haldsrétt í munum sóknaraðila.

Eins og að framan greinir er óumdeilt að sóknaraðili er eigandi þeirra muna sem krafist er innsetningar í. Þar sem varnaraðili hefur hvorki sýnt fram á að stofnast hafi handveð eða haldsréttur í umræddum munum eru skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför uppfyllt. Dómurinn fellst því á kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Sóknaraðila, Selmu Ragnarsdóttur, er heimilt að fá tekna með beinni aðfarar­gerð úr vörslum varnaraðila, Þorsteins Steingrímssonar, eftirtalda muni sem eru geymdir í geymsluhúsnæði, í kjallara að Barónsstíg 47, Reykjavík:

      - Vegabréf sóknaraðila

      - Dökkgrænt 70´s sófasett og 2 stólar

      - Ílangt sófaborð

      - Langur svefnsófi

      - 2 kassar með persónulegum gögnum, þar á meðal vegabréf

      - 2 kommóður

      - 2 rúm

      - 3 kassar með dóti úr strákaherbergi, þ.á m. dvd diskar og tölvuleikir

      - 2 viðarhillur með plasthirslum í krakkaherbergi

      - Skrifborð fyrir ungling

      - Kassi með strákafatnaði

      - Plötuspilari, 2 hátalarar og 2 kassar af vinylplötum

      - 3 kassar með eldhúsáhöldum og fleiru úr eldhúsi

      - 4 kassar með dóti úr stofu, lampar, myndir og skrautmunir

      - Plastþvottakarfa með baðherbergisdóti

      - 2 borðstofustólar

      - 4 eldhússtólar

      - Viðarhillur

      - Hvítur hár skápur

      - Borðtölva og skjár

      - Lítið sjónvarp og eldhúsútvarp

      - Blaðakarfa með borði ofan á

      - 3 ferðatöskur með fatnaði

      - 4 stórir pokar með fatnaði

      - 2 stórir pokar með skóm

      - 4 bókakassar

      - 2 kassar með ýmsum persónulegum gögnum, bréfum og skjölum

      - Skóhilla og önnur lítil hilla

      - Iðnaðar- Pfaff beinsaumsvél

      - Iðnaðar Yuki overlock-vél

      - Stórt sníðaborð

      - Hátt vinnuborð með járnhillum undir

      - Sníðahnífur

      - 3 stórar gráar álhillur

      - 2 járnhillur með svörtum hillum í

      - Antík saumavél í boxi

      - 3 kassar með sníðaáhöldum, skærum og reglustikum

      - Bókhald Listauka, nokkrar möppur í kassa

      - Meistarabréf og sveinsbréf

      - Stór spegill í ramma

      - Strauborð og straujárn

      - 3 saumagínur

      - Vinnustóll á hjólum

      - 2 háir stólar (við sníðaborð)

      - 5 kassar með vinnumöppum, fagbókum, teikningum og blöðum

      - Trékassi með sniðum í

      - 6 stórir svartir pokar með efnisströngum í

      - 4 stórir pappakassar með vefnaðarvöru

      - 12 plastkörfum með efnum og bútum

      - 5 stór plastbox með efnum og fatnaði

      - 2 töskur með búningum

      - Kassi með ljósmyndum í möppum og í römmum

      - Kassi með ýmsu saumatengdu; tölur, rennilásar

      - Kassi með myndlistardóti; spray og litir

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.