Hæstiréttur íslands
Mál nr. 303/2001
Lykilorð
- Viðurkenningardómur
- Skaðabótaskylda
- Líkamstjón
- Eldsvoði
- Sök
- Orsakasamband
- Sennileg afleiðing
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2002. |
|
Nr. 303/2001. |
Ísafjarðarbær(Hákon Árnason hrl.) gegn Hildi Jóhannesdóttur (Björn Jóhannesson hdl.) |
Viðurkenningardómur. Skaðabótaskylda. Líkamstjón. Eldsvoði. Sök. Orsakasamband. Sennileg afleiðing.
Deilt var um skaðabótaskyldu Í vegna líkamstjóns er H varð fyrir þegar æfing Slökkviliðs Í fór úr böndunum í desember 1993. Hafði slökkviliðið um tíma ekki ráðið við eldinn og eldtungur staðið að húsi H sem var í einungis 4 metra fjarlægð frá því húsi sem kveikt var í á æfingunni. H þjáðist í kjölfarið af þunglyndi og kvíðaröskun. Talið var að slökkviliðið hefði sýnt af sér gáleysi við undirbúning og framkvæmd æfingarinnar, m.a. með því að kveikja eld í íbúðahverfi án sérstakra verklegra ráðstafana, auk þess sem misbrestur hafði orðið á því að tilkynna H um æfinguna. Af læknisfræðilegum gögnum og framburði í málinu þótti ráðið með öruggri vissu að H hefði orðið fyrir áfallastreituröskun við eldsvoðann og hlotið varanlegt heilsutjón af. Var því sannað að orsakatengsl væru milli atburðarins og heilsutjóns H. Þá þótti umrætt heilsutjón einnig sennileg afleiðing eldsvoðans, þar sem H hefði haft réttmæta ástæðu til að telja sjálfa sig, heimili sitt og eigur í bráðri hættu er hún vaknaði við umræddar aðstæður. Engu máli var talið skipta í því sambandi, þótt svo kynni að verða metið eftir á að henni hafi ekki í raun verið búin raunveruleg hætta. Var Í dæmdur skaðabótaskyldur vegna þess heilsutjóns sem H varð fyrir við eldsvoðann.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2001. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst þess, að héraðsdómur verði staðfestur og þannig viðurkennd bótaskylda áfrýjanda vegna þess líkamstjóns, er hún varð fyrir 4. desember 1993, þegar eldur „læsti sig í íbúðarhús“ hennar að Norðurvegi 2 á Ísafirði við æfingu Slökkviliðs Ísafjarðar. Þá krefst hún jafnframt málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar tvær myndbandsspólur, er sýna umræddan eldsvoða á Ísafirði.
I.
Í héraðsdómi er lýst þeim atburðum að morgni laugardagsins 4. desember 1993, sem eru tilefni viðurkenningarkröfu stefndu á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og þar kemur fram efndi slökkviliðsstjórinn á Ísafirði til æfingar í mannlausu timburhúsi við Fjarðarstræti 21 að fengnu leyfi áfrýjanda, eiganda hússins, en veðurskilyrði voru þá talin hagstæð. Íbúar nærliggjandi húsa munu hafa verið látnir vita um fyrirhugaða æfingu daginn áður, en ekki hafði náðst til stefndu og vissi hún ekki, hvað fyrir dyrum stóð. Hún var ein í húsinu á þessum tíma, en sambúðarmaður hennar var á sjó. Eldurinn var tendraður um kl. 10.20 og fór fljótlega úr böndum. Réð slökkviliðið um tíma ekki við eldinn og stóðu eldtungur að húsi stefndu, þegar hún var vakin að boði slökkviliðsstjóra um tíu mínútum síðar og beðin að yfirgefa heimili sitt vegna þessa, en hann hafði þá fengið vitneskju um, að henni hefði ekki verið greint frá fyrirhugaðri æfingu.
Í skriflegri skýrslu slökkviliðsstjóra um atburði segir, að ætlunin hafi verið að hafa eld á takmörkuðu svæði í húsinu nr. 21 við Fjarðarstræti „og senda inn reykkafara og slökkva og kveikja eld aftur o.s.frv.“ Eldurinn hafi hins vegar magnast mjög á skömmum tíma og vindátt breyst, þannig að stefnt hafi í stórhættu fyrir hús stefndu. Vegna bilunar hafi ekki komið vatn frá slökkviliðsbíl nr. 3 í um það bil 15 til 20 mínútur. Á meðan hafi verið notast við vatn frá tankbíl og brunahönum, sem ekki reyndust gefa nóg vatn fyrir slökkviliðsbíl nr. 1, þótt dæla hafi verið sett á brunahanann, og æfingin hafi breyst í martröð fyrir slökkviliðsmenn. Af framburði slökkviliðsstjóra fyrir héraðsdómi verður ráðið, að vegna veðurlags hefði verið þægilegt og óhætt að brenna húsið niður, en „það hafði verið ítrekað við mig að fara að drífa í þessu því húsið var orðið fyrir.“ Stangast þessi framburður hans á við lýsingu skýrslunnar. Í öðru framlagðra myndbanda gefur að líta Fjarðarstræti 21 daginn fyrir brunann og því lýst af tökumanni, sem tengist hvorugum málsaðila svo að vitað sé, að þarna sé húsið, sem eigi að „brenna ... til grunna ...“ næsta dag. Gögn málsins veita þannig ekki óyggjandi vísbendingu um, að hverju hafi í raun verið stefnt með þessari slökkviliðsæfingu.
Í bréfi Hlyns Snorrasonar lögreglufulltrúa til lögreglustjórans á Ísafirði 15. desember 1993 kemur fram, að tæki slökkviliðsins hafi brugðist, þegar á reyndi, og vatnsöflun ekki verið sem skyldi auk þess sem vindáttin hefði breyst til hins verra Vegna þessa hafi eldurinn breiðst hratt um húsið, sem hafi verið gisið, og eldtungur teygt sig að húsi stefndu við Norðurveg 2, sem aðeins var í um það bil fjörgurra metra fjarlægð frá Fjarðarstræti 21.
Í vettvangsskýrslu Guðmundar Fylkissonar lögregluvarðstjóra segir, að mikið eldhaf hafi verið og eldtungur staðið að húsi nr. 2 við Norðurveg, þegar hann hafi komið á vettvang kl. 10.32, skömmu eftir að eldur var tendraður, og hafi hann þá þegar talið mikla hættu stafa af honum. Taldi hann, að eldtungur hefðu leikið um húsið í um það bil 20 mínútur. Í skýrslunni kemur fram, að slökkviliðið hafi náð tökum á eldinum skömmu fyrir kl. 11.00, en þá hafi húsið nr. 21 við Fjarðarstræti verið farið að hrynja. Fram kemur, að rúður hafi sprungið í bifreiðum og fasteignum í næsta nágrenni auk þess sem umtalsverðar skemmdir urðu á íbúðarhúsi stefndu. Loks er gerð grein fyrir breytingum á vindátt og vindstyrk, eins og nánar greinir í héraðsdómi.
Slökkviliðsstjóri lýsti því fyrir héraðsdómi, að slökkviliðsmenn hefðu oft áður æft reykköfun án reyks í Fjarðarstræti 21 og þekktu skipulag hússins. Þetta hefði verið gamalt og gisið timburhús, sem mjög vel hefði loftað í gegnum, og „þegar maður er farinn að skoða málið svona eftir á, þá má segja að þetta var bara mikill eldsmatur í þessu húsi.“
Í málinu er ekkert fram komið um það, að tæki slökkviliðsins hafi verið reynd fyrir hina fyrirhuguðu æfingu eða nokkur sérstakur viðbúnaður hafður í frammi gagnvart næsta nágrenni að því undanskildu, að gengið hafði verið í það verk að láta íbúa vita, þótt ekki hafi náðst til stefndu, en engin gögn eru í málinu um framkvæmd þessa mikilvæga atriðis. Þá hafði verið kallað út varalið slökkviliðsmanna, þannig að 15 voru tiltækir á slökkvistöðinni skammt frá auk þeirra tveggja, sem sendir voru til að kveikja í.
II.
Á það verður að fallast með héraðsdómi, að undirbúning og framkvæmd slökkviliðsæfingarinnar 4. desember 1993 beri að virða í því ljósi, að kveiktur var eldur í gömlu timburhúsi, sem ljóst mátti vera, að væri mikill eldsmatur. Við því varð að búast, að það gæti fuðrað upp, ef eitthvað brygði út af. Héraðsdómur hefur réttilega metið það svo, að ekki hafi verið sýnt fram á, að breytingar á vindátt og vindstyrk hafi verið umfram það, sem varlegt hefði verið að gera ráð fyrir við undirbúning æfingarinnar.
Gera verður ríkar kröfur um varúð til sérfróðra aðila eins og slökkviliðs, þegar jafn hættulegt afl og eldur er leystur úr læðingi af ásettu ráði. Hér verður að líta til þess, að eldur var kveiktur í timburhúsi í íbúðarhverfi án þess að gerðar væru sérstakar verklegar ráðstafanir gagnvart næsta nágrenni, svo sem að loka svæðinu, fjarlægja bifreiðar og aðra lausa muni og verja aðliggjandi hús. Af aðstæðum á vettvangi og gögnum málsins er ljóst, að full þörf hefði verið á því að byrgja glugga í húsi stefndu, sem aðeins var í um fjögurra metra fjarlægð frá eldstaðnum, og breiða yfir það eða norðurgafl þess blautan segldúk eða að minnsta kosti hafa hann til taks. Í áðurnefndri skýrslu slökkviliðsstjóra kemur fram, að ekki hafi tekist að setja segl yfir húsið, eftir að í óefni var komið. Þá liggur ekki fyrir, að sérstaklega hafi verið gengið úr skugga um það fyrir æfinguna, að tæki slökkviliðsins væru í lagi og til þess fallin að nýtast umsvifalaust í baráttu við mikinn eld, sem gera varð ráð fyrir, að þarna gæti orðið. Þegar á reyndi kom svo í ljós, að misbrestur var á því, sem mestu skipti, en það var að tryggja með óyggjandi hætti, að allt fólk í umhverfinu vissi um hina fyrirhuguðu slökkviliðsæfingu og gæti þannig haft varann á. Þegar allt þetta er virt verður að telja, að slökkviliðið á Ísafirði hafi sýnt af sér gáleysi við undirbúning og framkvæmd æfingarinnar og hljóti að axla ábyrgð á því að hafa ekki verið til þess búið að ráða niðurlögum eldsins hratt og örugglega, þegar í óefni stefndi.
Í málinu nýtur ítarlegra læknisfræðilegra gagna um andlega líðan stefndu á næstu sjö árum eftir brunann á Ísafirði og eru þau rakin í héraðsdómi. Er þar einkum að nefna álitsgerð örorkunefndar 4. ágúst 1998, matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna 29. september 1999 og yfirmatsgerð þriggja dómkvaddra matsmanna 26. september 2000. Af þessum gögnum og framburði annars undirmatsmannsins og eins yfirmatsmanna fyrir héraðsdómi verður ráðið með öruggri vissu, að stefnda hafi orðið fyrir áfallastreituröskun við eldsvoðann og viðvarandi og hamlandi kvíðaröskun og hlotið af þunglyndi án geðrofseinkenna. Af þessu hefur hún samkvæmt niðurstöðu yfirmatsmanna hlotið 20% varanlegan miska og 40% varanlega örorku. Er því sannað, að orsakatengsl séu milli atburðarins og heilsutjóns stefndu.
Stefnda var vakin af starfsmanni Slökkviliðsins á Ísafirði og beðin að yfirgefa heimili sitt, eftir að eldurinn í Fjarðarstræti 21 var kominn úr böndum og eldtungur léku um hús hennar og reykur kominn þar inn, en mikinn reykjarmökk lagði yfir það og nágrennið. Á þeirri stundu var eldhafið magnað og óvíst, hvort slökkviliðinu tækist að verja hús stefndu, en brotalamir voru á varnarviðbúnaði, eins og áður greinir. Er enginn vafi á því, að mikla hættu mátti telja þarna á ferðum, eins og lögregluvarðstjóri lýsti í skýrslu sinni sama dag. Stefnda klæddi sig í snatri og fór upp á efri hæð hússins og lokaði glugga, áður en hún fór út. Fyrir héraðsdómi lýsti hún því, að þá hefðu eldglæringar staðið yfir húsið og hún heyrt kallað í slökkviliðsmenn og þeir beðnir að sprauta vatni, þannig að hún kæmist út úr húsinu. Í framhaldi þessa flutti hún bifreið sína af vettvangi.
Það er ljóst, að stefnda vaknaði við óvæntar og ógnvekjandi aðstæður og við tók hröð og spennuþrungin atburðarás. Eins og þarna háttaði til hafði hún réttmæta ástæðu til að verða skelfingu lostin og telja sjálfa sig, heimili sitt og eigur í bráðri hættu. Engu skiptir í því sambandi, þótt svo kunni að verða metið eftir á, að henni hafi ekki í raun verið búinn lífsháski eða önnur raunveruleg hætta. Verður því að telja, að heilsutjón stefndu sé sennileg afleiðing eldsvoðans í skilningi skaðabótaréttar. Af læknisfræðilegum gögnum í málinu er ljóst, að stefnda bjó við nokkra kvíðaröskun frá fyrri árum og hefur hún þannig verið veikari fyrir áfallastreitu af völdum þessa atburðar en ella hefði verið.
Með hliðsjón af öllu framansögðu verður fallist á, að áfrýjandi sé skaðabótaskyldur vegna þess tjóns, er stefnda varð fyrir á heilsu sinni við brunann á Ísafirði 4. desember 1993. Af gögnum málsins verður ekki ráðið, að eldurinn hafi læst sig í íbúðarhús stefndu, eins og orðalag í kröfugerð hennar gefur til kynna. Það stendur því þó ekki í vegi að fallist verði á viðurkenningarkröfu hennar með breyttu orðalagi í samræmi við staðeyndir málsins.
Ákvörðun héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi skal greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Ísafjarðarbær, er skaðabótaskyldur gagnvart stefndu, Hildi Jóhannesdóttur, vegna þess heilsutjóns, er hún varð fyrir 4. desember 1993 við bruna á Fjarðarstræti 21 á Ísafirði, sem Slökkvilið Ísafjarðar efndi til í æfingaskyni.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Áfrýjandi skal greiða stefndu 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 28. maí 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var að undangengnum munnlegum málflutningi þann 23. febrúar sl., en endurupptekið, endurflutt og dómtekið á ný í dag, hefur Hildur Jóhannesdóttir, kt. 111053-4219, Hólabraut 18, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi með stefnu þann 7. janúar 1999 á hendur Ísafjarðarbæ og Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda Ísafjarðarbæjar vegna þess líkamstjóns er hún varð fyrir þann 4. desember 1993 er eldur læsti sig í íbúðarhús hennar að Norðurvegi 2 á Ísafirði við slökkviliðsæfingu Slökkviliðs Ísafjarðar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum reikningi.
Stefndi Ísafjarðarbær krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar að mati dómsins.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og það gerir engar
sjálfstæðar kröfur af sinni hálfu.
Málavextir
Þann 4. desember 1993, um klukkan 10:00, kveikti Slökkvilið Ísafjarðar eld í húsinu nr. 21 við Fjarðarstræti á Ísafirði, með leyfi stefnda. Var ætlun slökkviliðsins að hafa eld á takmörkuðu svæði í húsinu og senda inn í það reykkafara til æfinga og slökkva eldinn og kveikja hann á víxl. Slökkviliðið missti tök á eldinum svo hann magnaðist mikið. Léku eldtungur um íbúðarhús stefnanda sem er tveggja hæða hús að Norðurvegi 2 á Ísafirði. Voru um fjórir metrar á milli húsanna. Eftir um klukkustundar baráttu vann slökkviliðið bug á eldinum. Töluverðar skemmdir urðu á fasteign stefnanda sökum elds, reyks og vatns.
Þegar eldurinn var kveiktur svaf stefnandi inni í húsinu nr. 2 við Norðurveg. Var henni ókunnugt um fyrirhugaða æfingu. Hún var vakin með símhringingu frá slökkviliðsmanni eftir að eldurinn braust út. Var þá kominn reykur inn í íbúð hennar. Stefnandi klæddist, fór upp á efri hæð hússins og lokaði stafnglugga og yfirgaf síðan húsið.
Stefnandi gat ekki dvalið í húsinu meðan unnið var að hreinsun og lagfæringum á því, en gisti hjá kunningjum næstu tvær vikur eftir brunann. Segir hún hafa komið strax í ljós eftir brunann að hún hafi orðið fyrir miklu andlegu áfalli vegna atviksins, sem hafi m.a. lýst sér þannig að hún hafi orðið mjög eirðarlaus og fundið fyrir verulegri andlegri vanlíðan. Kveðst hún hafa leitað til heimilislæknis síns á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði þann 8. desember 1993 og hafa verið frá vinnu sökum þessa frá 6. til 10. desember það ár. Hafi hún komið til starfa á ný í desember 1993, en líðan hennar hríðversnað og hún verið meira og minna óvinnufær fyrstu mánuði ársins 1994. Hafi hún leitað til heimilislæknis síns á Ísafirði, Einars Axelssonar, sem hafi vísað henni til Sigurlaugar Karlsdóttur geðlæknis, vegna kvíða- og þunglyndiseinkenna. Hafi vanlíðan hennar lýst sér meðal annars með mikilli hræðslu og hafi hún ekki getað dvalið í húsi sínu að Norðurvegi 2 vegna hræðslu, kvíða og ónota. Hafi hún einnig fengið martraðir og fundið fyrir líkamlegum einkennum tengdum kvíða, svo sem örum hjartslætti, höfuðverk, svima og uppköstum. Við álag hafi einkennin orðið meiri. Hafi henni verið gefin lyf til að draga úr þeim helstu. Hafi hún átt erfitt með að stunda vinnu frá því að bruninn varð og megi í raun segja að hún hafi nánast verið óvinnufær frá 4. desember 1993. Á síðari hluta árs 1995 hafi sér verið ráðlagt að skipta um umhverfi og hún þá ákveðið að flytja til Akureyrar. Hafi hún þá selt fasteignina að Norðurvegi 2 enda hafi henni verið farið að líða illa þar. Hún hafi hætt störfum hjá Hraðfrystihúsinu Norðurtanga hf. árið 1995 en þar hafi hún unnið í 21 ár og þar af sem verkstjóri í 15 ár. Hafi heilsa hennar verið orðin svo slæm að þegar álag hafi verið sem verst í vinnu hafi hún verið farin að kasta upp vegna kvíða. Eftir að hún hafi flutt til Akureyrar í júní 1996 hafi hún reynt að starfa við fiskvinnslu á ný og þá við pökkun og afgreiðslu, en orðið að gefast upp eftir 10 daga. Eftir það hafi hún nánast ekkert getað unnið.
Að beiðni stefnanda mat örorkunefnd varanlega örorku hennar og miskastig. Álit nefndarinnar er dagsett 4. ágúst 1998. Segir í niðurstöðu hennar að stefnandi hafi orðið fyrir andlegu áfalli þann 4. desember 1993 og hafi hún eftir það búið við vaxandi kvíða, sem smám saman hafi leitt til algjörar óvinnufærni í lok árs 1995. Þess beri að geta að hún hafi átt við kvíðavandamál að stríða fyrir tjónsatburðinn. Komi fram við könnun á heilsudagbók hennar við Heilsugæslu Ísafjarðar að hún hafi fengið lyfjameðferð við kvíðaköstum allt frá árinu 1983. Þó verði ráðið af sömu sjúkradagbók að hún hafi að minnsta kosti á tímabili verið tiltölulega einkennalítil og þrátt fyrir þennan kvíða verið lítið eða ekki frá vinnu vegna hans, fyrr en eftir brunann. Telur nefndin að kvíðaeinkenni hennar séu ekki einvörðungu að rekja til brunans, en þó beri að líta til þess að við hann hafi þau magnast svo, að hún hafi smám saman orðið óvinnufær af þeim sökum. Telur nefndin að eftir 1. desember 1996 hafi ekki verið að vænta frekari bata af afleiðingum tjónsatburðarins. Að öllum gögnum virtum taldi nefndin varanlegan miska hennar, sem einvörðungu yrði rakinn til brunans 4. desember 1993, hæfilega metinn 10 af hundraði. Þá taldi nefndin að afleiðingar tjónsatburðarins hafi skert getu stefnanda til öflunar vinnutekna í framtíðinni. Taldi nefndin varanlega örorku hennar, sem einvörðungu yrði rakin til þessa atburðar, hæfilega metna 15 af hundraði.
Eftir höfðun máls þessa voru dómkvaddir að kröfu stefnda og réttargæslustefnda þeir Halldór Kolbeinsson, sérfræðingur í geðlækningum og Stefán Yngvason sérfræðingur í endurhæfingalækningum, til að meta örorkutjón og miska stefnanda. Var lagt fyrir matsmennina að skoða og meta sjúkrasögu hennar og heilsufarslegt ástand og gefa skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:
1.Hvort stefnandi hafi við brunann þann 4. desember 1993 orðið fyrir andlegu áfalli sem leitt hafi til og valdið henni varanlegri örorku og varanlegum miska.
2.Ef svarið er jákvætt, hve mikla varanlega örorku og hve mikinn varanlegan miska stefnandi hafi þá hlotið, sem eingöngu verði rakinn til brunans þann 4. desember 1993, metið í hundraðshlutum og að hve miklu leyti önnur áföll, slys eða sjúkdómar eigi þátt í varanlegum miska og varanlegri örorku hennar, ef um er að ræða, metið í hundraðshlutum.
3.Ef svarið við fyrstu spurningu er neikvætt, hver sé þá sennilegust orsök heilsufarslegs ástands stefnanda, varanlegrar örorku hennar og varanlegs miska, ef um er að ræða.
Þess var einnig óskað að matsmenn könnuðu sérstaklega hvort stefnandi hefði orðið fyrir sjúkdómsáföllum eða öðrum áföllum fyrir og eftir brunann 4. desember 1993, sem hugsanlega kynnu að hafa valdið henni varanlegri örorku og miska.
Skýrsla matsmannanna er dagsett 29. september 1999. Segir í henni að samkvæmt geðrænu mati, sögu, fyrra heilsufari, geðskoðun og matsskoðun hafi sjúkdómsgreiningar á stefnanda verið eftirfarandi:
1. „Alvarleg geðlægðarlota án geðrofseinkenna (Chronic major depressive disorder)
2. Áfallahugröskun (Post-traumatic stress disorder)
3. Fælnikvíðaraskanir (Phobic anxiety disorder)
3.1 Víðáttufælni (Agrophobia)
3.2 Félagsfælni (Social phobia)
4. Aðrar kvíðaraskanir (Life time condition)
4.1 Felmturröskun (Panic disorder limited symptoms attacks)
4.2 Almenn kvíðaröskun (Anxiety reaction).“
Í samantekt matsmanna um skoðunina segir svo: „Tjónsatburðurinn 4. desember 1993 markar tímamót í heilsufarssögu Hildar Jóhannesdóttur. Fyrir atburðinn var saga um kvíða og spennueinkenni, sem af og til þörfnuðust lyfjameðferðar, en voru aldrei það mögnuð, að hún yrði óstarfhæf um lengri tíma. Var félagslynd, í ábyrgðarmiklu starfi með mannaforráð og ekki hægt að fá fram neinar aðrar sjúkdómsgreiningar um geðröskun. Eftir tjónsatburðinn komu fram einkenni, sem hafa stigmagnazt og hafa verið þrálát og uppfylla greiningarskilmerki um djúpa geðlægð. Til staðar er einnig viðvarandi fælni, og félagsfælni. Einkenni eru til staðar um áfallahugröskun, sem kom í kjölfar tjónsatburðar, stigmagnaðist fyrstu misserin eftir atburðinn og er þekkt fyrir að leiða til annarra geðraskana svo sem kvíða, þunglyndis og fælni.“
Matsmenn segja um áhrif á vinnugetu stefnanda að við skoðun og mat í maímánuði 1999 hafi greinilega verið til staðar lækkað geðslag með kvíða og spennueinkennum, sem hafi haft veruleg áhrif á atferli hennar og vinnuhæfni. Reynd hafi verið ýmiss konar lyfjameðferð og viðtöl við heimilislækni, en hvorki verið reynd endurhæfing né hafin starfsþjálfun eða reynd minna krefjandi vinna. Kerfisbundin lyfja- og viðtalsmeðferð hjá geðlæknum á stofu og viðtöl hjá sálfræðingi hafi farið fram. Margs sé að gæta um stöðu stefnanda í atvinnulegu tilliti. Heimilisstörf séu henni miserfið, geðraskanir séu til staðar og nokkuð stöðug depurðartilfinnig, lítil sjálfsánægja eða gleði og framtak skert. Beri á verulegu áhugaleysi og verkkvíða og framtíðarsýn sé óljós og lítt björt. Aðrir atvinnumöguleikar hafi ekki verið reyndir, en hugsanlega gæti útivinna eða starf innandyra, svo sem póstburður eða tölvuvinna, komið til greina. Heilsufarsvandi hennar hafi marktæk áhrif á hæfni hennar í athöfnum daglegs lífs, talsverð áhrif á félagslega virkni hennar og það komi fram endurtekin uppgjöf við að takast á við streituvaldandi verkefni svo sem fyrri vinnu, en ekki hafi reynt á hæfileika hennar eða starfsgetu með kerfisbundinni endurhæfingu um lengri eða skemmri tíma.
Matsmenn segja í niðurstöðum sínum að eins og fram komi í niðurstöðu örorkunefndar frá 4. ágúst 1998 sé ljóst að stefnandi hafi upplifað tjónsatburðinn sem meiri háttar áfall. Hún hafi verið óviðbúin og upplifi þá reynslu sem ógn við líf sitt og heilsu. Eftir þennan atburð hafi borið á viðvarandi áfallahugröskun, þunglyndis- og kvíðaeinkennum, svo og fælni, sem hafi haft marktæk áhrif á heilsufar hennar með skerðingu á getu til öflunar atvinnutekna. Telji þeir sérfræðingar og heimilislæknar, sem hafi fylgst með heilsufari hennar og meðferð, að um þrálátt og langvinnt ástand ástand sé að ræða þar sem geðlyf, kvíðalyf og önnur hefðbundin meðferð hafi ekki dugað. Þá kemur fram í niðurstöðum matsmanna að stefnandi, sem áður hafi unnið við erfið störf í Norðurtanga á Ísafirði um árabil, eða alls 21 ár og þar af verkstjóri í 15 ár, hafi hætt þar störfum vegna áhrifa slyss og skerðingar á starfsgetu í lok árs 1995, flutt þá til Akureyrar og reynt vinnu stutt tímabil, eða í tvo mánuði 1998, sem hún hafi gefist upp við vegna afleiðinga einkenna þeirra sem hafi ágerst svo mjög í kjölfar brunans. Hún hafi því að mestu verið óvinnufær frá árslokum 1995. Beri að geta þess að hún hafi átt gott orðspor og velvild hjá vinnuveitanda sínum eftir langan starfsferil og notið mikils veikindaréttar, þannig að tekjur hennar vegna veikindaréttarins hafi ekki fallið niður fyrr en eftir árið 1995 eftir að hún hafi verið tekin af launaskrá. Eftir það hafi hún að mestu verið atvinnulaus og fengið einungis lífeyrisbætur fyrir utan stutt vinnutímabil 1996 og fyrir 1998.
Við mat á varanlegum miska taka matsmenn fram að í fyrirliggjandi gögnum komi fram að stefnandi hafi orðið fyrir áfalli sem hafi valdið henni geðröskun og gert undirliggjandi kvíðaröskun hennar verri en áður. Fyrir áfallið hafi verið saga um streitu og kvíðaeinkenni, sem ekki sé hægt að rekja til fyrrgreinds bruna en hann hafi magnað kvíðaástand hennar og valdið þunglyndi. Hafi hún smám saman orðið óvinnufær af þeim sökum og vegi þunglyndið þyngst í óvinnufærni hennar, enda hafi hún aldrei verið þunglynd fyrir tjónsatburðinn. Er það niðurstaða matsmanna að varanlegur miski sé til staðar hjá stefnanda, mismikill þó eftir því hvaða atriði séu skoðuð sérstaklega. Á sumum sviðum sé um að ræða vægan miska og á öðrum talsverðan, en hvergi mjög alvarlegan. Samantekið kveðast þeir telja varanlegan miska hennar hæfilega metinn 20%, þar af 15% vegna afleiðinga brunans 4. desember 1993 en 5% vegna hins fyrra heilsufars.
Við mat á varanlegri örorku, þ.e. skerðingu á tekjuaflahæfi stefnanda til framtíðar vegna tjónsatburðarins, telja matsmenn að byggja megi það á spá um tvenns konar framvindu, annars vegar þeirri atburðarás, sem að líkindum hefði orðið, ef stefnandi hefði ekki orðið fyrir því tjóni, sem hún varð fyrir 4. desember 1993, en hins vegar þeirri, sem orðið hafi eftir tjónsatburðinn og leiða megi líkur að, að muni verða, allt þar til starfsaldri hennar ljúki við 67 ára aldur. Telja matsmenn eðlilegt að leggja til grundvallar að stefnandi hefði haldið áfram í starfi sínu sem verkstjóri í frystihúsi Norðurtanga eða öðru sambærilegu starfi mestan hluta starfsævinnar án nokkurra teljandi frátafa. Þegar hún hafi lent í því slysi eða atburði sem um sé að ræða hafi hún átt eftir um það bil 30 ár af starfsævi sinni. Þegar matsgerð sé rituð séu liðin tæp 6 ár frá atburðinum og hafi stefnandi verið óvinnufær þar af í tæp fjögur. Matsmenn fallast á það álit sem fram kemur í álitsgerð örorkunefndar að afleiðingar tjónsatburðar 4. desember 1993 hafi haft í för með sér skerðingu á getu stefnanda til öflunar atvinnutekna í framtíðinni. Telja þeir, með vísan til 5. gr. skaðabótalaga, að við mat á varanlegri örorku sé verið að taka tillit til mun fleiri atriða en einungis líkamlegra afleiðinga. Verði þannig að leggja mat á það hvort slysið, áfallið og önnur atriði sem teljast afleiðingar þess, til dæmis hin geðrænu áhrif, leiði til skerðingar á getu til þess að vinna eða verða sér úti um vinnu. Þá verði að leggja mat á það hvaða störf sé sanngjarnt að ætlast til að stefnandi vinni í framtíðinni og hvaða ráðstafanir megi gera kröfu um að hún viðhafi til að afla sér tekna eða auka möguleika á öflun vinnutekna í framtíðinni. Þegar litið sé til þessara þátta megi fullyrða að bruninn hafi haft stórfelld áhrif á geðræna heilsu stefnanda. Telja matsmenn að við mat á varanlegri örorku verði að taka tillit til þess og telja að þau eigi að hafa áhrif á mat á varanlegri örorku að því leyti að ætla verði stefnanda nokkurn tíma til að komast yfir þessa erfiðleika. Á hinn bóginn telja þeir að hún geti ekki í skjóli þeirra látið hjá líða að leita sér aðstoðar eða atvinnu til frambúðar. Álíta þeir að hún geti unnið störf sem feli ekki í sér verulegt líkamlegt eða andlegt álag, svo sem létta vinnu þar sem ekki reyni á streitu og kvíðaástand. Sé ljóst að slíka vinnu sé ekki auðvelt að fá, enda hafi stefnandi ekki þannig menntun. Telja þeir að gera megi ríkar kröfur til hennar um að leita sér vinnu utan þess atvinnusvæðis sem hún þekki, en þrátt fyrir það sé óvíst um möguleika hennar til þess að verða sér úti um atvinnu og ekki vafi á því að hinar geðrænu afleiðingar slyssins geri það að verkum að hún geti ekki talist eins fýsilegur kostur fyrir vinnuveitanda við ráðningu í starf og ella væri. Telja matsmenn því að þrátt fyrir jafn ríkar kröfur og hér hefur verið lýst séu möguleikar stefnanda til tekjuöflunar í framtíðinni verulega skertar af þessum ástæðum. Þegar litið sé til hinna geðrænu afleiðinga áfallsins dragi þær mjög úr getu stefnanda til að afla tekna og sé sú skerðing nokkru meiri en samanlagður miski hennar. Telja þeir að séu þær metnar einar og sér, megi ætla að geta hennar til að afla tekna skerðist um 25%. Telja matsmenn einnig að það hafi áhrif á varanlega örorku að stefnandi hafi verið frá vinnu í liðlega 3 ár og verði að rekja það til áfallsins. Þessi 3 ár séu nálægt 10 % af því sem eftir hafi verið af væntanlegri starfsævi hennar er tjón varð. Þótt matsmenn telji rétt að gera þær kröfur til stefnanda að hún leiti sér vinnu utan þess atvinnusvæðis sem hún sé búsett á, sé einsýnt að óvissa sé um atvinnumöguleika hennar. Telja matsmenn að þessum atriðum virtum og með tilliti til eðlilegrar óvissu að þau svari til 5% skerðingar á framtíðaraflahæfi stefnandia. Er það niðurstaða þeirra þegar ofangreindir þættir eru vegnir saman, að tjónsatburðurinn og afleiðingar hans leiði til þess að möguleiki stefnanda til afla sér launatekna í framtíðinni hafi skerst um 40% og sé það því hin varanlega ororka hennar.
Niðurstaða matsmanna er sú að stefnandi hafi við brunann 4. desember 1993 orðið fyrir geðrænu áfalli sem hafi átt þátt í og leitt til þrálátrar geðröskunar og valdið henni varanlegri örorku og varanlegum miska. Varanlegur miski hennar teljist 20%, þar af varanlegur miski vegna tjónsatburðarins 4. desember 1993 15% og miski hennar vegna fyrra heilsufars 5%. Varanleg örorka hennar vegna slyssins 4. desember 1993 teljist hæfilega metin 40%.
Þann 7. febrúar 2000 voru að beiðni stefnda og réttargæslustefnda dómkvaddir til yfirmats þeir Stefán Carlsson, sérfræðingur í bæklunarlækningum, Kristinn Tómasson, sérfræðingur í geð- og embættislækningum og Aron Björnsson, sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum, til að skoða og meta í yfirmati sjúkrasögu stefnanda og heilsufarslegt ástand hennar og gefa skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi spurningar:
„1. Hvort Hildur Jóhannesdóttir hafi við brunann þann 4. desember 1993 orðið fyrir andlegu áfalli, sem leitt hafi til og valdið henni varanlegri örorku og varanlegum miska?
2. Ef svarið er jákvætt, hve mikla varanlega örorku og hve mikinn varanlegan miska Hildur hafi hlotið, sem eingöngu verði rakinn til brunans þann 4. desember 1993, metið í hundraðshlutum, og að hve miklu leyti önnur áföll, slys eða sjúkdómar eigi þátt í varanlegum miska og varanlegri örorku Hildar, ef um er að ræða, metið í hundraðshlutum.
3. Ef svarið við 1. spurningu er neikvætt, hver sé þá sennilegust orsök heilsufarslegs ástands Hildar, varanlegrar örorku hennar og varanlegs miska, ef um er að ræða.“
Yfirmatsgerð er dagsett 26. september 2000. Kemur í henni fram m.a. að stefnandi hafi ráðið sig í vinnu árið 1998 á Suðureyri og unnið sem verkstjóri í 10 vikur, verið mjög spennt og kvíðin og með höfuðverk, haft uppköst, verið þunglynd og orðið að hætta. Árið 1999 hafi hún reynt að fá vinnu hjá Íslandspósti en ekki treyst sér til að byrja. Sinni hún nú léttum þrifum tvo daga í mánuði á einkaheimili á Akureyri. Sé hún mannfælin og vilji lítið skipta sér af öðrum, verði verulega trufluð af umferð slökkvibifreiða og öllu sem minni á eld og eldsvoða, til dæmis á gamlárskvöldi. Sé einbeiting hennar slök og minni lélegt, hún sofi sæmilega en töluverð þreyta sé til staðar.
Í niðurstöðum yfirmatsmanna kemur fram að það sé álit þeirra að stefnandi hafi í slysinu 4. desember 1993 orðið fyrir áfallsstreituröskun og í framhaldi af því almennri kvíðaröskun, sem í stað þess að hafa verið mjög væg og með köflum, hafi orðið viðvarandi og hamlandi. Í þriðja lagi hafi hún orðið fyrir þunglyndi án geðrofseinkenna. Verði að telja ljóst að hún hafi orðið fyrir áfallsstreituröskun og það gert hana veika fyrir, þannig að hún hafi jafnframt veikst af alvarlegu þunglyndi. Fælnieinkenni tengist án vafa beint áfallsstreituröskun og séu því ekki skráð sem sérstök greining hér. Það sé ljóst að áfallsstreituröskun geti valdið verulegri eða fullri örorku og einnig ljóst að enginn fái slíkan sjúkdóm nema hafa verið útsettur fyrir verulegri vá eða hættu. Það sé vel þekkt að einstaklingar sem verði fyrir slíku reyni endurtekið að halda sér á vinnumarkaði, en einkennin séu mjög hamlandi með viðbrigðni fælni, þreytu, svefnröskun og óöryggi með umhverfi sitt auk sállíkamlegra einkenna. Einnig geti endurteknar upprifjanir um atburðinn átt sinn þátt í að viðhalda einkennum og gera þau enn meira fatlandi. Allt þetta hafi stefnandi þurft að þola í veikindum sínum. Sé umrætt slys, sem hafi átt sér stað 4. desember 1993, þannig vá af því tagi sem gera megi ráð fyrir að geti valdið áfallsstreituröskun hjá mörgum sem yrðu fyrir slíku óhappi. Þá segir í niðurstöðum yfirmatsmanna að almenn kvíðaröskun sé sjaldnast ein og sér orsök örorku, hvort sem hún er að hluta eða öllu, þó hún valdi þeim sem hana hafi oft verulegum óþægindum. Það verði stefnanda þó greinilega erfiðara að glíma við þessi einkenni eftir að hún er komin með áfallsstreituröskunina. „Ættarsaga“ hjá föður hennar um kvíðaröskun hafi enga þýðingu fyrir núverandi örorkumat, auk þess sem sú röskun hafi ekki hamlað föður hennar frá því að ala önn fyrir 12 manna fjölskyldu. Stefnandi hafi leitað sér meðferðar hjá heimilislæknum, auk þess sem hún hafi fengið sérfræðiráðgjöf frá geðlæknum og sálfræðingi. Hún hafi hins vegar ekki farið í sérhæfða geðendurhæfingu. Hún hafi fengið þunglyndi í framhaldi af því að hún veiktist af áfallstreituröskun og sé það vel þekkt á meðal þeirra sem veikjast af þeim sjúkdómi og ná ekki bata. Þetta hafi aukið enn á örorku hennar vegna áfallsstreitunnar. Það sé ljóst að hún sé í dag óvinnufær til reglubundinna daglegra starfa. Brýnt sé að ljúka allri óvissu í þessu máli sem fyrst, þannig að ekki þurfi að minna sjúkling á óhappið frekar í slíku samhengi, en það sé mjög slæmt fyrir heilsu hennar, auk þess að vera til þess fallið að hamla meðferð og draga úr árangri hennar. Ef umrætt slys hefði ekki orðið væri hún án efa full vinnufær í dag. Almenna kvíðaröskunin hafi gert hana viðkvæmari fyrir því að þróa með sér áfallstreituröskun, sem nú hafi gert hana að öryrkja frá slysdegi. Telja verði þunglyndi beinan fylgifisk áfallstreituröskunar og eigi það í dag sinn þátt í að gera ástand sjúklings verra.
Yfirmatsmennirnir telja að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegum miska, 20%, vegna tjónsatburðarins 4. desember 1993. Telja þeir að tjónsatburðurinn og afleiðingar hans hafi leitt til að möguleikar hennar til að afla sér launatekna í framtíðinni séu verulega skertar og varanlega örorka hennar sé hæfilega metin 40%.
Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af stefnanda, Kristni Tómassyni, sérfræðingi í geð- og embættislækningum, Guðmundi Fylkissyni, lögreglumanni og Hlyni Snorrasyni lögreglufulltrúa, Valþóri Stefánssyni lækni, Halldóri Kolbeinssyni, geðlækni, Þorbirni Sveinssyni slökkviliðsstjóra, Sigurlaugu Karlsdóttur, geðlækni, Fylki Ágústssyni, fyrrverandi slökkviliðsmanni og Rúnari Guðmundssyni, verkstjóra.
Við aðalmeðferð málsins voru sýndar í réttinum tvær myndbandsupptökur af brunanum.
Málsástæður stefnanda
Málsástæður stefnanda eru þær að slökkvilið Ísafjarðar hafi fengið heimild stefnda til að kveikja í húsinu númer 21 við Fjarðarstræti á Ísafirði þann 4. desember 1993. Hafi ekki verið gerðar viðhlítandi ráðstafanir af hálfu slökkviliðsins til að verja fasteign stefnanda. Þá hafi stefnandi ekki verið látin vita um brunaæfinguna fyrr en eftir að kveikt var í Fjarðarstræti 21 og eftir að slökkviliðið hafði misst tök á eldinum. Verði að telja að slökkviliðið hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að láta stefnanda ekki vita af fyrirhugaðri æfingu, svo og að gera ekki viðhlítandi ráðstafanir þegar í upphafi áður en eldur var kveiktur til að rýma nærliggjandi hús og verja þau sem voru einungis í 4 metra fjarlægð frá brunastað.
Samkvæmt læknisvottorðum, álitsgerð örorkunefndar og matsgerðunum báðum verði að telja fullsannað að orsakasamband sé milli brunans og kvíðaeinkenna stefnanda. Þótt fyrir liggi að hún hafi átt við ákveðin kvíðavandamál að stríða fyrir brunann sé það niðurstaða allra þeirra sérfræðinga sem hafi annast hana að hann hafi gert það að verkum að þessi einkenni hafi magnast mjög, enda slíkt ekki óeðlilegt í ljósi tjónsatburðarins. Við mat á sennilegri afleiðingu verði að taka tillit til þess hvort hin saknæma hegðun sé almennt fallin til þess að valda tjóni, eða hvort hún hafi almennt séð verið til þess fallin að auka hættuna á því tjóni sem varð. Sé viðurkennt í skaðabótarétti að það eitt nægi til skaðabótaskyldu að hættueiginleikar hinna saknæmu hegðunar eigi þátt í því að tjón verði. Sé það ekki skilyrði fyrir bótaskyldu að tjónvaldur hafi einnig mátt sjá fyrir það tjón sem verður. Verði það að teljast sennileg afleiðing í ljósi atvika að stefnandi fékk andlegt áfall af því að vakna upp við það að eldtungur stóðu upp með gafli hússins auk þess sem mikill reykur hafi verið kominn inn í húsið og stefnanda verið gert að yfirgefa það hið fyrsta vegna brunans. Telur stefnandi að öll skilyrði hinnar almennu sakarreglu séu fyrir hendi og að stefndi beri því skaðabótaábyrgð á því tjóni hennar. Vísar hún jafnframt til meginreglu skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð, en samkvæmt henni beri stefndi Ísafjarðarbær ábyrgð á störfum og verkum slökkviliðsstarfsmanna sinna.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki sé sannað að slökkvilið hans hafi sýnt af sér gáleysi við framkvæmd brunaæfingarinnar 4. desember 1993. Eins og veðurspá, vindátt og vindstyrk hafi verið háttað hafi átt að vera hættulaust að hafa slökkviliðsæfinguna með þeim hætti sem gert var án sérstakra forvarna til að verja nálæg hús fyrir bruna. Hafi ekki átt að brenna Fjarðarstræti 21, heldur aðeins að æfa reykköfun þar inni og að slökkva eld sem aðeins hafi átt að vera á takmörkuðu svæði inni í húsinu. Að sama skapi hafi ekki borið nauðsyn til að tilkynna íbúum nálægra húsa um slökkviliðsæfinguna fyrirfram. Hafi það heldur ekki verið hægt, þar sem ekki hafi verið vitað fyrr en að morgni laugardagsins hvort veðurskilyrði yrðu nægilega hagstæð. Hafi verið ósaknæmt að brunaverja hús stefnanda ekki fyrirfram og láta ekki rýma það áður eða tilkynna stefnanda ekki um æfinguna fyrr en um það leyti sem hún hófst, eins og gert hafi verið. Þá sé ekki við slökkviliðið að sakast að vindátt og vindstyrkur hafi breyst snögglega skömmu eftir að kveikt var í húsinu að Fjarðarstræti 21, með þeim afleiðingum að eldurinn hafi magnast upp. Verði slökkviliðinu ekki heldur um það kennt að ekki gafst nægilegt vatn úr brunahönum og að slökkvibíll gaf ekki vatn í 15 til 20 mínútur vegna skyndibilunar, en þess vegna hafi eldurinn breiðst hratt um húsið. Sé það þannig röð óhappatilviljana og óvæntra aðstæðna, sem hafi valdið brunanum.
Þá telur stefndi ósannað að kvíðaástand stefnanda, varanleg örorka hennar og miski séu afleiðing slökkviliðsæfingarinnar og brunans að Fjarðarstræti 21. Hafi hún þjáðst af kvíðaköstum og öðrum þunglyndiseinkennum allt frá árinu 1983, sem þjái hana og valdi miska hennar og örorku. Hún hafi verið greind á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði með „neurosis depressiva“ og skorti fullnægjandi sönnur þess að bruninn að Fjarðarstræti 21 hafi bætt þar nokkru við eða skipt sköpum. Kveðst stefndi benda á að samkvæmt vottorði Einars Axelssonar heilsugæslulæknis á Ísafirði, 31. október 1994, hafi ástand hennar eftir marslok 1994 verið orðið svipað og fyrir brunann. Einnig komi fram í vottorðum Sigurlaugar Karlsdóttur, geðlæknis, að einkenni stefnanda hafi verið mismikil og aukist við ný áföll, eins og til dæmis snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri. Telur stefndi matsgerðirnar ekki sanna með viðhlítandi hætti að sjúkdómur stefnanda hefði ekki þróast eins og raun hefur orðið á þrátt fyrir að eldsvoðinn hefði ekki orðið.
Í þriðja lagi telur stefndi ekki vera fyrir hendi það meginskilyrði skaðabótaskyldu að tjón sé sennileg afleiðing meints saknæms atferlis. Sé það óþekkt að það geti valdið hættu á andlegu áfalli, varanlegri örorku og miska að verða vitni að bruna í nálægu húsi eða vera vakin upp með símhringingu til aðvörunar um slökkviæfingu eða lausan eld í nágrannaeign. Hafi stefnandi aldrei verið í neinni lífshættu vegna brunans að Fjarðarstræti 21. Ekki hafi kviknað í húsi hennar og hún hafi haft nægan tíma til að klæða sig, loka gluggum og fara út og ennfremur til að færa bifreið sína frá húsinu. Hafi skemmdir á húsi hennar orðið óverulegar. Sé það reglan samkvæmt dómvenju og kenningum fræðimanna þegar um svokallaðan „sjokkskaða“ eða andleg áföll og afleiðingar þeirra sé að ræða, að þau teljist ekki sennileg eða vávæn afleiðing hegðunar eða atferlis annarra, nema hegðunin hafi sett tjónþola í lífshættu eða lima. Ekki standi svo á hér. Hafi stefnandi ekki komist í slíka hættu af völdum slökkviliðsæfingarinnar og brunans að Fjarðarstræti 21. Sé varanleg örorka og miski af því einu að verða vitni að bruna í næsta húsi svo fjarlæg og ófyrisjáanleg afleiðing slökkviæfingar þar og síðbúinnar tilkynningar um æfinguna, þó að eldurinn færi úr böndum, að ekki verði litið á það sem sennilega eða vávæna afleiðingu í skilningi skaðabótaréttar.
Forsendur og niðurstaða
Í lögregluskýrslu um brunann segir að slökkviliðsstjóri hafi hringt til lögreglustöðvar klukkan 10.10 að morgni laugardagsins 4. desember 1993 og tilkynnt að hann væri að fara að kveikja í Fjarðarstræti 21. Hafi hann aðspurður sagst myndu gera íbúa að Norðurvegi 2, þ.e. stefnanda, aðvart. Í ódagsettri skýrslu slökkviliðsstjóra segir að hann hafi beðið tvo menn um það klukkan 10.20 að fara og kveikja eld í Fjarðarstræti 21. Kveiktu þeir í svampsessum („pullum“) og notuðu 1 lítra af steinolíu til uppkveikju. Samkvæmt skýrslu slökkviliðsstjóra hér fyrir dómi sneru þeir síðan frá, en slökkviliðsmenn fylgdust með húsinu frá slökkvistöðinni skammt frá.
Samkvæmt lögregluskýrslunni hringdi íbúi í grennd við Fjarðarstræti 21 til lögreglu klukkan 10.27 og spurði hvort það væri með ráðum gert að kveikja í húsinu. Fylgdi spurningunni frásögn af miklu neistaflugi og reyk frá eldstað. Lögreglumaður fór á vettvang klukkan 10.32. Var þá mikið eldhaf og stóðu eldtungur að húsi stefnanda. Segir í lögregluskýrslu að slökkviliðið hafi náð tökum á eldinum skömmu fyrir klukkan 11:00, en þá hafi húsið að Fjarðarstræti 21 verið farið að hrynja.
Samkvæmt upplýsingum úr sjálfvirkri veðurstöð á Breiðadalsheiði sem liggja frammi í málinu, var vindhraði þar klukkan 10:00 þennan dag 6,29 m/s og vindstefna 55°. Á sama tíma var vindstyrkur á Ísafjarðarflugvelli 7-8 hnútar, sem mun samsvara 4 m/s og vindstefna 110°. Klukkan 10:20 var vindhraði 6,22 m/s á Breiðadalsheiði með vindstefnu 57°, en á Ísafjarðarflugvelli var vindhraði þá 11-16 hnútar, sem mun samsvara 6-8 m/s og vindstefna 70°. Klukkan 10.25 var vindstyrkur á flugvellinum 12-17 hnútar (6-9 m/s) í stefnu 80°-100°. Klukkan 10.30 var vindstyrkur á flugvellinum 10-15 hnútar (5-8 m/s) í stefnu 70°-90°. Á sama tíma var vindstyrkur á Breiðadalsheiði 7,07 m/s í stefnu 51°.
Ofangreindar tölur um veður á Ísafjarðarflugvelli eru sóttar í skýrslu lögreglunnar á Ísafirði. Segir þar að þær séu unnar úr útprentun úr sírita sem skrái upplýsingar á 30 sekúndna millibili frá veðurmælum á báðum endum flugbrautarinnar. Samkvæmt þessum upplýsingum hafi vindstyrkur verið minnstur klukkan 10.01.30, eða 6-8 hnútar. Hann hafi farið í 13-20 hnúta klukkan 10.33-10.34. Vindátt hafi verið 100°-120° klukkan 10.18.01, 70° klukkan 10.20.01 og 40°-60° klukkan 10.39. Megi af þessu sjá að veður hafi breyst skyndilega og það haft mikil áhrif á það hvernig fór.
Í áðurnefndri skýrslu slökkviliðsstjóra segir að eftir að hafa horft á veðurspá kvöldið áður „þar sem spáð var norðanátt seinnipart“, hafi hann talið óhætt að hafa æfingu í Fjarðarstræti 21. Þegar hann hafi mætt á slökkvistöð klukkan 10:00 hafi hann talið veður mjög hagstætt. Ætlunin hafi verið að hafa eld á takmörkuðu svæði í húsinu og senda inn reykkafara og slökkva og kveikja eld aftur, en eldurinn hafi magnast mjög á skömmum tíma og vindátt breyst þannig að stefnt hafi í stórhættu fyrir húsið að Norðurvegi 2. Hafi verið lögð áhersla á að verja það fyrir tjóni, sem hafi tekist að mestu leyti. Ekki hafi komið vatn frá bíl nr. 3 þar sem hann stóð við Pollgötu, vegna bilunar og hafi hann orðið virkur eftir u.þ.b. 15-20 mínútur. Þessi bíll hefði verið í góðu lagi viku fyrr. Á meðan hafi verið notast við vatn frá tankbíl og brunahönum við slökkvistöðina, sem hafi ekki reynst gefa nóg vatn fyrir bíl nr. 1, þótt sett væri dæla á brunahana. Hafi æfingin breyst í martröð fyrir slökkviliðsmenn.
Í skýrslu slökkviliðsstjóra hér fyrir dómi kom fram að íbúar í nágrenni Fjarðarstrætis 21 hefðu kvöldið áður verið látnir vita um fyrirhugaða æfingu. Hefði uppgötvast eftir að eldurinn hafði verið kveiktur að ekki hefði náðst í stefnanda. Þá kom einnig fram í skýrslu hans að húsið að Fjarðarstræti 21, sem var múrhúðað (forskalað) timburhús hafi verið mjög góður eldsmatur.
Undirbúning slökkviliðs stefnda fyrir æfingu sína og framkvæmd hennar verður að virða í því ljósi að í henni fólst að kveiktur var eldur inni í timburhúsi, sem slökkviliðsmönnum átti að vera ljóst að væri góður eldsmatur. Húsið var tvær hæðir með risi og stóð í aðeins um fjögurra metra fjarlægð frá húsi stefnanda. Bar slökkviliðinu að gera ríkar ráðstafanir til að tryggja að ekkert færi úrskeiðis við æfinguna.
Jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að lítilsháttar skekkjur geta verið í tímasetningu einstakra atvika í ofangreindum skýrslum, verður ályktað af þeim að húsið að Fjarðarstræti 21 hafi orðið alelda á skömmum tíma eftir að eldur var kveiktur. Er þá einkum haft í huga að samkvæmt skýrslu lögreglu tilkynnti slökkviliðsstjóri klukkan 10.10 að kveikja ætti í húsinu og segir í skýrslu hans um atvik að hann hafi beðið tvo menn að fara og kveikja eldinn um klukkan 10.20. Klukkan 10.27 hringdi íbúi í nágrenninu til lögreglu og verður ráðið af lögregluskýrslunni að umfang eldsins hafi þá þegar verið komið langt út fyrir þau mörk sem slökkviliðið hugðist halda honum við.
Eins og rakið hefur verið hér að framan úr gögnum um vindátt og vindstyrk frá klukkan 10:00 til rúmlega kl. 10:30, breyttist vindátt á Ísafjarðarflugvelli úr um 110°, þ.e. austsuðaustur, í um 40-60°, þ.e. norðaustur, sem er í skýrslu slökkviliðsstjóra sögð hafa verið óhagstæðust átt fyrir slökkvistarfið. Vindstyrkur breyttist úr um 7-8 hnútum (um 4 m/s) í allt að 18-20 hnúta (um 10 m/s). Ekki er vitað hvort ætla megi að verulegur munur hafi verið á veðri á Ísafjarðarflugvelli og við Fjarðarstræti á Ísafirði, en stutt er á milli þessara staða. Dómurinn telur ekki hafa verið sýnt fram á að þessar breytingar á vindátt og vindstyrk hafi verið umfram það sem varlegt hefði verið að gera ráð fyrir við undirbúning æfingarinnar.
Bilun í slökkvibifreið kom slökkviliðsmönnum að óvörum, en ekki er upplýst í hverju hún var fólgin. Í skriflegri skýrslu slökkviliðsstjóra er vísað til þess að bifreiðin hafi verið í lagi viku fyrr, en ekki kemur þar fram að hún hafi verið reynd í upphafi æfingarinnar. Þá verður af skýrslunni ráðið að það hafi komið slökkviliðinu á óvart að ekki var nægilegt vatn að fá úr brunahana við slökkvistöð.
Í ljósi þess að slökkvilið stefnda kveikti eld í húsi sem var góður eldsmatur og stóð rétt hjá öðru, telur dómurinn að slökkviliðið hafi sýnt af sér aðgæsluleysi með því að gæta hans ekki vandlega og vera reiðubúið að ráða niðurlögum hans umsvifalaust áður en hann næði að magnast, m.a. við hugsanleg breytt veðurskilyrði. Þá sýndi slökkviliðið af sér vanrækslu með því að gæta þess ekki tryggilega, sem auðvelt hefði verið, að gera stefnanda aðvart um æfinguna áður en eldur var tendraður.
Dómurinn telur sannað með ítarlegum matsgerðum sem að framan eru raktar, að stefnandi hafi orðið fyrir andlegu áfalli við eldsvoðann, sem hafi valdið henni varanlegri örorku og miska. Í skýrslu eins yfirmatsmanna, Kristins Tómassonar, hér fyrir dómi kom fram að yfirmatsmenn töldu allan miska hennar vera að rekja til þess áfalls, þrátt fyrir sjúkrasögu um fyrri kvíðaeinkenni. Vísaði hann til þess að þau einkenni hefðu ekki valdið henni neinum miska svo séð yrði, áður en stefnda varð fyrir áfalli við brunann. Þykir niðurstöðu undirmatsmanna að þessu leyti hafa verið hnekkt með yfirmatinu.
Leggja verður til grundvallar að yfirvofandi hætta hafi verið á því að hús stefnanda yrði eldinum að bráð meðan hún var ennþá sofandi þar inni. Einnig verður að leggja til grundvallar framburð stefnanda um að íbúð hennar hafi verið orðin full af reyk er hún var vakin. Dómurinn telur því að lífi og heilbrigði stefnanda hafi verið stefnt í hættu með eldinum, sem kveiktur var af starfsmönnum stefnda og magnaðist vegna vangæslu þeirra. Áfall stefnanda og afleiðingar þess er að rekja til skynjunar hennar á þeirri hættu. Þegar þessi atvik eru virt, verður ekki fallist á það með stefnda að tjón stefnanda sé svo ófyrirsjáanleg og ósennileg afleiðing af mistökum starfsmanna stefnda að bótaskylda verði ekki lögð á stefnda.
Samkvæmt þessu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina. Málskostnaður ákveðst 850.000 krónur.
Dóm þennan kveða upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri og meðdómsmennirnir Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari og Tómas Zoëga geðlæknir.
Málið var upphaflega dómtekið þann 23. febrúar sl., en vegna annríkis dómsformanns dróst dómsuppsaga. Málið var endurupptekið og endurflutt í dag og dómtekið á ný að því búnu.
Dómsorð:
Stefndi, Ísafjarðarbær, er bótaskyldur gagnvart stefnanda, Hildi Jóhannesdóttur, vegna þess líkamstjóns er hún varð fyrir þann 4. desember 1993, er eldur læsti sig í íbúðarhús hennar að Norðurvegi 2 á Ísafirði við slökkviliðsæfingu Slökkviliðs Ísafjarðar.
Stefndi greiði stefnanda 850.000 kr. í málskostnað.