Hæstiréttur íslands

Mál nr. 450/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Virðisaukaskattur
  • Stjórnvaldsúrskurður
  • Gjalddagi
  • Dráttarvextir


Þriðjudaginn 29

 

Þriðjudaginn 29. janúar 2002.

Nr. 450/2001.

Plastiðjan ehf.

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

sýslumanninum á Selfossi

(Ásta Stefánsdóttir fulltrúi)

 

Kærumál. Fjárnám. Virðisaukaskattur. Stjórnvaldsúrskurður. Gjalddagi. Dráttarvextir.

P ehf. framleiddi plastflöskur fyrir Ö ehf. Í tengslum við framleiðsluna voru fluttir inn til landsins merkimiðar úr plasti til að setja á flöskurnar. Heildarútgjöld vegna þessa innflutnings voru færð á viðskiptareikning Ö ehf. án þess að virðisaukaskattur væri lagður á þessi viðskipti. Af þessu tilefni áætlaði skattstjóri virðisaukaskattsskylda veltu P ehf. árin 1994, 1995 og 1996. Að fenginni kæru félagsins ásamt gögnum um fjárhæð viðskiptanna kvað skattstjóri upp úrskurð. Í úrskurðinum kvað skattstjóri á um að P ehf. væri skylt að gefa út reikninga fyrir vörum afhentum Ö ehf. og leggja 24,5% virðisaukaskatt á söluna. Í málinu krafðist P ehf. þess að fjárnám, sem var gert hjá félaginu til innheimtu á skattskuldinni ásamt dráttarvöxtum frá 4. desember 1996 og kostnaði, yrði ógilti. Hæstiréttar taldi að úrskurður skattstjóra fæli samkvæmt orðanna hljóðan ekki í sér endurákvörðun á virðisaukaskatti félagsins árin 1994, 1995 og 1996, heldur það eitt að skattstjóri hefði fellt skyldu á það til að gefa út reikninga með nánar tilteknu efni. Þótt engin stoð væri í ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt fyrir valdi skattstjóra til slíkrar ákvörðunar hefði P ehf. orðið við tilmælum hans og gefið út þrjá reikninga á hendur Ö ehf. 30. apríl 2000. Virðisaukaskattur samkvæmt þessum þremur reikningum hefði fallið í gjalddaga 5. júní 2000, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Engin heimild hefði staðið til að færa aftur í tímann gjalddaga þessa virðisaukaskatts eins og ef um endurákvörðun skattstjóra hefði verið að ræða, en engu gæti breytt í því efni hvað stjórnvöld kynnu síðar að hafa talið að vakað hefði fyrir skattstjóra. Í ljósi þessa hefði skuld P ehf. vegna virðisaukaskatts samkvæmt umræddum reikningum ekki getað borið dráttarvexti fyrr en frá 5. júlí 2000, sbr. 1. mgr. 28. gr. laganna. Var fjárnáminu því breytt til samræmis.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. nóvember 2001, þar sem fjárnám, sem varnaraðili gerði hjá sóknaraðila 7. desember 2000 fyrir kröfu sinni á hendur honum, var staðfest með nánar tiltekinni breytingu. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnám þetta verði ógilt. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að sóknaraðili átti á árunum 1994 til 1996 viðskipti við Ölgerðina Egil Skallagrímsson ehf., sem munu meðal annars hafa snúist um það að sóknaraðili framleiddi flöskur úr plasti undir drykkjarvörur frá ölgerðinni. Í tengslum við þetta voru fluttir inn til landsins merkimiðar úr plasti til að setja á flöskurnar. Virðist sóknaraðili hafa séð um þennan innflutning og greitt af honum aðflutningsgjöld, þar með talinn virðisaukaskatt, sem farið var með sem innskatt í bókhaldi hans. Heildarútgjöld vegna þessa innflutnings mun sóknaraðili hafa fært á viðskiptareikning ölgerðarinnar, sem endurgreiddi honum þau án þess að virðisaukaskattur yrði lagður á þessi viðskipti milli þeirra. Mun ölgerðin ekki hafa farið með neinn hluta af þessum greiðslum til sóknaraðila sem innskatt í bókhaldi sínu.

Á árinu 1997 mun skattstjóri Suðurlandsumdæmis hafa beint til sóknaraðila fyrirspurn varðandi stofna til útreiknings á virðisaukaskatti hans á árunum 1994 og 1995. Virðist skattstjóri hafa af þessu tilefni fengið munnlegar upplýsingar frá sóknaraðila snemma árs 1998 um hvernig hann og ölgerðin hefðu staðið að reikningsgerð og bókfærslu vegna framangreinds þáttar í viðskiptum sínum. Með bréfi 30. september 1998 mun skattstjóri hafa tilkynnt sóknaraðila að hann hygðist ákveða á ný virðisaukaskatt þess síðarnefnda á árunum 1994, 1995 og 1996 vegna þess að hann hafi ekki gefið út reikninga til ölgerðarinnar með virðisaukaskatti fyrir greiðslum hennar á innflutningsverði áðurnefndra merkimiða. Með því að sóknaraðili hafi ekki veitt skattstjóra áður umbeðnar upplýsingar um þessi viðskipti hygðist sá síðarnefndi áætla á nánar tilgreindan hátt virðisaukaskattskylda veltu þess fyrrnefnda á umræddum árum. Mun sóknaraðila hafa verið settur 30 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum af þessu tilefni, en engar gert. Skattstjóri mun hafa hrundið þessari ákvörðun í framkvæmd 17. desember 1999 og hækkað þannig virðisaukaskatt sóknaraðila á árunum 1994 til 1996 um samtals 11.760.000 krónur. Sóknaraðili mun hafa borið fram kæru til skattstjóra af þessu tilefni í janúar 2000 og afhent í framhaldi af því ýmis gögn um viðskipti sín við ölgerðina. Skattstjóri kvað upp úrskurð 23. maí 2000 um þessa kæru sóknaraðila. Á grundvelli úrskurðarins mun hafa verið lagt í hendur varnaraðila að innheimta hjá sóknaraðila virðisaukaskatt vegna áranna 1994 til 1996 að fjárhæð samtals 11.584.063 krónur.

Fyrir liggur í málinu að skattstjórinn í Reykjavík tók í tengslum við þetta virðisaukaskatt Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf. á árunum 1994 til 1996 til endurskoðunar. Tilkynnti skattstjóri ölgerðinni 1. desember 2000 um þá niðurstöðu að innskattur félagsins á umræddum árum hefði verið hækkaður um samtals 11.584.063 krónur og virðisaukaskattur þess þannig lækkaður um sömu fjárhæð. Mun ölgerðin hafa fengið þessa fjárhæð greidda úr ríkissjóði og framsent sóknaraðila, sem greiddi hana til varnaraðila 4. desember 2000. Þann dag fékk ölgerðin að auki greidda inneignarvexti úr ríkissjóði vegna ofgreidds virðisaukaskatts á áðurnefndum árum, samtals 2.223.414 krónur, sem hún framsendi einnig sóknaraðila. Hann greiddi varnaraðila þessa fjárhæð 29. desember 2000.

Áður en framangreindar greiðslur voru inntar af hendi hafði varnaraðili gert beiðni 3. nóvember 2000 um fjárnám hjá sóknaraðila fyrir ógreiddum virðisaukaskatti frá árunum 1994 til 1996, samtals 11.584.063 krónur, ásamt 80 krónum frá árinu 1999, svo og fyrir dráttarvöxtum af þessari skuld, samtals 9.827.207 krónur, og kostnaði, 11.500 krónur. Var sóknaraðila tilkynnt um þessa beiðni og hann kvaddur fyrir sýslumann vegna hennar. Sóknaraðili lét þetta ekki til sín taka og fór gerðin fram 7. desember 2000 að honum fjarstöddum. Fjárnám var gert í fasteign sóknaraðila að Gagnheiði 17 á Selfossi fyrir framangreindri skuld í heild, án þess að tillit væri tekið til áðurnefndra innborgana, sem höfðu verið inntar af hendi fyrir þennan dag.

Af gögnum málsins verður séð að varnaraðili fór með greiðslur sóknaraðila í desember 2000 sem innborganir á fyrrgreinda skuld vegna virðisaukaskatts frá árunum 1994 til 1996 ásamt áföllnum dráttarvöxtum. Taldi varnaraðili þannig heildarskuld sóknaraðila af þessu tilefni standa í 10.070.466 krónum eftir greiðsluna 4. desember 2000. Þegar sóknaraðili stóð varnaraðila skil 29. sama mánaðar á áðurnefndum 2.223.414 krónur, sem sóknaraðili hafði fengið frá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. vegna greiðslu inneignarvaxta úr ríkissjóði, fór varnaraðili eins að. Hafði skuldin þá enn hækkað vegna dráttarvaxta, en eftir þessa greiðslu taldi varnaraðili 7.999.229 krónur standa eftir af virðisaukaskatti áranna 1994, 1995 og 1996.

Sóknaraðili leitaði eftir því við fjármálaráðuneytið með bréfi 8. janúar 2001 að dráttarvextir af skuld sinni vegna umrædds virðisaukaskatts frá árunum 1994 til 1996 yrðu felldir niður eða lækkaðir. Var tekið fram að sóknaraðili vefengdi ekki að ranglega hafi verið staðið að skilum á virðisaukaskatti af hendi sinni og Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf. á þessu tímabili og að þeim hafi verið komið í rétt horf með þeim aðgerðum skattyfirvalda, sem áður er getið. Á það var hins vegar bent að ríkið hafi ekki farið á mis við virðisaukaskatt vegna þessara mistaka, því ölgerðin hafi ofgreitt í ríkissjóð sömu fjárhæð og sóknaraðili hafi vangreitt. Þá hafi sóknaraðili greitt í ríkissjóð sömu fjárhæð og ölgerðin hafi fengið greidda þaðan vegna inneignarvaxta. Þessu erindi hafnaði fjármálaráðuneytið með bréfi 21. febrúar 2001. Sóknaraðili ítrekaði beiðni sína með nýju bréfi til ráðuneytisins 22. mars 2001, en enn var henni hafnað af hendi þess 27. apríl sama árs.

Varnaraðili krafðist 27. mars 2001 að fasteign sóknaraðila að Gagnheiði 17 yrði seld nauðungarsölu á grundvelli áðurnefnds fjárnáms frá 7. desember 2000. Í beiðni varnaraðila um nauðungarsöluna var höfuðstóll skuldar sóknaraðila sagður vera 7.999.309 krónur, þar af 7.999.229 krónur vegna virðisaukaskatts frá árunum 1994 til 1996 og 80 krónur vegna ársins 1999. Við þá fjárhæð bættust 479.956 krónur í dráttarvexti og 35.000 krónur vegna kostnaðar af nauðungarsölunni.

Sóknaraðili beindi 28. maí 2001 kröfu til Héraðsdóms Suðurlands um að ógilt yrði fyrrgreint fjárnám, sem gert var hjá honum 7. desember 2000. Mál þetta var þingfest af því tilefni 13. júlí 2001, en þá hafði varnaraðili þegar stöðvað nauðungarsöluna á fasteign sóknaraðila vegna þess ágreinings, sem hér er til úrlausnar.

II.

Þegar sóknaraðili bar fram fyrrgreinda kröfu sína 28. maí 2001 um ógildingu á fjárnámi varnaraðila frá 7. desember 2000 var löngu liðinn sá frestur, sem sóknaraðili hafði til að krefjast úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989. Til þess verður hins vegar að líta að varnaraðili hefur látið málið til sín taka og haldið uppi vörnum um efni þess, en í engu borið því við að málið hafi verið lagt of seint fyrir dóm. Verður að virða þessa afstöðu varnaraðila þannig að hann hafi í verki lýst sig sáttan við að málið yrði borið undir dóm að liðnum almennum fresti í því skyni, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989. Eru því ekki efni til að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi af þessari ástæðu.

III.

Svo sem áður greinir á málið upphaf sitt að rekja til athugunar, sem skattstjóri Suðurlandsumdæmis hóf á virðisaukaskattskilum sóknaraðila á árinu 1997. Að undangenginni þeirri málsmeðferð, sem boðin er í 1.-3. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 149/1996, virðist skattstjóri 17. desember 1999 hafa endurákveðið virðisaukaskatt sóknaraðila vegna áranna frá 1994 til 1996 á grundvelli áætlunar og hækkað þannig skattinn um samtals 11.760.000 krónur. Eins og áður segir bar sóknaraðili fram kæru og tók skattstjóri afstöðu til hennar með úrskurði 23. maí 2000. Í forsendum þess úrskurðar var aðdragandi málsins rakinn, svo til eingöngu með því að tekið var orðrétt upp meginefni bréfa, sem fóru á milli skattstjóra og sóknaraðila á tímabilinu frá 15. júní 1998 til 3. mars 2000, en þar var að engu leyti tekin afstaða til kæru sóknaraðila eða efnisatriða varðandi skyldu hans til að standa skil á frekari virðisaukaskatti vegna áranna 1994 til 1996. Það var á hinn bóginn gert í lok úrskurðarins undir yfirskriftinni „úrskurðarorð“, en ummæli þar, sem lúta að deiluefni þessa máls, voru svohljóðandi:

„Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum og nær skattskyldan skv. 1. mgr. 2. gr. til allra var og verða.. (sic)

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993 skal seljandi gefa út reikning við sérhverja afhendingu vöru eða þjónustu.

Því er ljóst að yður ber að gefa út reikninga fyrir vörum afhentum Agli Skallagrímssyni og leggja virðisaukaskatt 24,5% á söluna sem var skv. bréfi frá 18. feb. 2000 v/1994 kr. 17.522.825, vsk. því kr. 4.293.092. V/1995 kr. 13.881.944, vsk. því kr. 3.401.076 og v/1996 kr. 15.877.123, vsk. því kr. 3.899.895.

Álag reiknast skv. 2. mgr. 27. gr. ofangr. laga þar sem ekkert hefur komið fram um að utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik hafa valdið um mistök þessi.

Samkvæmt ofanrituðu ákvarðast skattar yðar eins og fram kemur á meðfylgjandi skattbreytingaseðlum. (Uppgjörsaðilar eru innheimtumaður ríkissjóðs (sýsluskrifstofa) og/eða skrifstofa viðkomandi sveitarfélags).“

Í málinu liggja ekki fyrir skattbreytingarseðlar, sem vísað var til í framangreindu niðurlagi úrskurðarorðanna. Efni þeirra gæti þó engu breytt um úrlausn málsins að því leyti, sem það gengi lengra en ótvíræð stoð væri fyrir í rökstuddum forsendum úrskurðarins.

Samkvæmt orðanna hljóðan fól framangreindur úrskurður skattstjóra ekki í sér endurákvörðun á virðisaukaskatti sóknaraðila vegna áranna 1994, 1995 og 1996, heldur það eitt að skattstjóri felldi skyldu á hann til að gefa út reikninga með nánar tilteknu efni. Þótt engin stoð sé í ákvæðum laga nr. 50/1988 fyrir valdi skattstjóra til slíkrar ákvörðunar, varð sóknaraðili við tilmælum hans og gaf út þrjá reikninga á hendur Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf., sem dagsettir voru 30. apríl 2000. Í hverjum þeirra var fært kaupverð svokallaðra slífa á nánar tilgreindu ári, við kaupverðið var lagður virðisaukaskattur og samtalan fundin, en frá henni dregnar fyrri greiðslur ölgerðarinnar á því ári, þannig að útkoman varð sömu fjárhæðar og virðisaukaskatturinn. Í þessum reikningum fylgdi sóknaraðili í einu og öllu því, sem skattstjóri hafði lagt fyrir hann eftir hljóðan úrskurðarins, að gættu því að augljós villa var í úrskurðinum varðandi útreikning virðisaukaskatts vegna ársins 1996, sem sýnilega átti að nema 3.889.895 krónum, eins og sóknaraðili tilgreindi réttilega í reikningi sínum út af því ári. Virðisaukaskatturinn samkvæmt þessum þremur reikningum féll miðað við dagsetningu þeirra í gjalddaga 5. júní 2000, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Engin heimild stóð til að færa aftur í tímann gjalddaga þessa virðisaukaskatts eins og ef um endurákvörðun hans hefði verið að ræða, en engu getur breytt í því efni hvað stjórnvöld kunni síðar að hafa talið að vakað hafi fyrir skattstjóra með úrskurði hans 23. maí 2000.

Í ljósi framangreinds gat skuld sóknaraðila vegna virðisaukaskatts samkvæmt umræddum reikningum hans á hendur Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. ekki borið dráttarvexti fyrr en frá 5. júlí 2000 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988. Eins og áður er getið greiddi sóknaraðili varnaraðila 4. desember 2000 fjárhæð, sem svaraði höfuðstól þessarar skuldar, eða 11.584.063 krónur. Því til viðbótar greiddi sóknaraðili varnaraðila áðurgreindar 2.223.414 krónur 29. desember 2000. Ljóst er að sú fjárhæð var hærri en þurfti til að greiða að fullu áfallna dráttarvexti af 11.584.063 krónum frá 5. júlí 2000 til 4. desember sama árs. Greiðsla þessi var á hinn bóginn ekki innt af hendi fyrr en eftir að varnaraðili hafði gert hjá sóknaraðila fjárnámið 7. desember 2000, sem deilt er um í málinu. Getur greiðslan því ekki haft áhrif á það hvort fjárnámið var gilt á þeim degi, sem það var gert. Því til samræmis verður að breyta fjárnáminu á þann hátt, sem í dómsorði greinir, en þar er tekið tillit til þess að fjárnám var einnig gert fyrir áðurnefndri skuld vegna virðisaukaskatts frá árinu 1999 að fjárhæð 80 krónur.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Fjárnámi, sem gert var 7. desember 2000 hjá sóknaraðila, Plastiðjunni ehf., fyrir skuld við varnaraðila, sýslumanninn á Selfossi, er breytt á þann veg að það taki til skuldar að fjárhæð 11.584.143 krónur með dráttarvöxtum frá 5. júlí 2000 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun á 11.584.063 krónum 4. desember sama árs.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður  Héraðsdóms Suðurlands 29. nóvember 2001.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 6. nóvember 2001 að loknum munnlegum málflutningi aðilja.

Sóknaraðili er Plastiðjan ehf., kt. 680573-0269, Gagnheiði 17, Selfossi.

Varnaraðili er Sýslumaðurinn á Selfossi, kt. 461278-0279, Hörðuvöllum 1, Selfossi.

Endanleg kröfugerð sóknaraðila er að aðfarargerð Sýslumannsins á Selfossi, sem fram fór 7. desember 2000  verði ógilt að öllu leyti hvað varði höfuðstól, dráttarvexti og kostnað. Til vara að gerðin taki einungis til dráttarvaxta af 11.584.143 krónum frá 23. maí 2000 til 4. desember s.á.  Fyrri þrautavarakrafa er að gerðin taki einungis til dráttarvaxta frá 30. apríl 2000. Seinni þrautavarakrafa sóknaraðila er að gerðin taki einungis til dráttarvaxta af 11.584.143 krónum frá 4. desember 1996 til 4. desember 2000. Í öllum tilvikum komi greiðsla sóknaraðila 29. desember 2000, 2.223.414 krónur, til frádráttar dráttarvaxtakröfu varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og aðfarargerð Sýslumannsins á Selfossi frá 7. desember 2000 verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins.

Málsatvik.

Með úrskurði skattstjóra Suðurlandsumdæmis frá 23. maí 2000 var sóknaraðila gert að gefa út reikninga fyrir vörum afhentum Ölgerð Egils Skallagrímssonar hf. og leggja virðisaukaskatt á söluna. Vangreiddur virðisaukaskattur vegna viðskipta sóknaraðila og ölgerðarinnar nam 4.293.092 krónum vegna ársins 1994, 3.401.076 krónum vegna ársins 1995 og 3.899.895 krónum vegna ársins 1996, samtals 11.594.063 krónum. Í úrskurðarorði er þess getið að álag reiknist samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þar sem ekkert hafi komið fram um að utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik hafi leitt til þess að virðisaukaskattur var ekki greiddur. Skattstjórinn í Reykjavík kvað upp úrskurð 1. desember 2000 þess efnis að Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. hefði ofgreitt virðisaukaskatt fyrir sama tímabil um 11.584.063 krónur. Ölgerðin fékk þann virðisaukaskatt endurgreiddan og greiddi hann til sóknaraðila, sem aftur greiddi varnaraðila þá fjárhæð 4. desember 2000.  Jafnframt fékk ölgerðin endurgreidda innheimtuvexti alls 2.223.414 krónur sem hún greiddi sóknaraðila. Sóknaraðili greiddi þá  fjárhæð til innheimtumanns ríkissjóðs 29. desember 2000.

Aðför var gerð 7. desember 2000 í eign sóknaraðila, að Gagnheiði 17, Selfossi vegna vangreidds virðisaukaskatts. Í endurriti úr gerðarbók sýslumanns kemur fram að gerðarbeiðandi hafi krafist fjárnáms fyrir kröfu að fjárhæð 21.422.850 krónur. Höfuðstóll er tilgreindur 11.584.143 krónur, dráttarvextir reiknaðir til 3. nóvember 2000, 9.827.207 krónur og aðfarargjald í ríkissjóð 11.500 krónur. Af hálfu gerðarþola var ekki mætt. Í málinu liggur frammi endurrit boðunar í fjárnám, dags. 20. nóvember 2000,  þar sem varnaraðila er tilkynnt um fyrirtöku fjárnámsins. Með tilkynningunni fylgdi endurrit aðfararbeiðni, dags. 3. nóvember 2000, ásamt sundurliðun skuldarinnar.

Með bréfi, dags. 27. mars 2001, fór Sýslumaðurinn á Selfossi þess á leit að eign varnaraðila að Gagnheiði 17, Selfossi yrði boðin upp og seld til lúkningar umræddri skuld. Í beiðninni er höfuðstóll kröfunnar tilgreindur 7.999.309 krónur, dráttarvextir til 27. mars 2001, 479.956 krónur og gjöld vegna nauðungarsölubeiðni 35.000 krónur. Samtals nemur krafan samkvæmt beiðni þessari 8.514.265 krónum. Í greiðslustöðuyfirliti sem fylgdi með beiðninni kemur fram að um er að ræða virðisaukaskatt fyrir tímabil sem auðkennt er 1994-48 auk vaxta og kostnaðar, samtals 3.323.644 krónur, virðisaukaskatt fyrir tímabil sem auðkennt er 1995-48, auk vaxta og kostnaðar 2.706.241 krónur, virðisaukaskatt fyrir tímabil sem auðkennt er 1996-48 auk vaxta og kostnaðar 2.484.292 krónur og virðisaukaskatt  fyrir tímabil sem auðkennt er 1999-40 auk vaxta, 88 krónur.  

Með bréfi, dags. 28. maí 2001, mótteknu í dóminum 30. sama mánaðar, fór sóknaraðili þess á leit að framangreind aðfarargerð frá 7. desember 2000 yrði ógilt. Í bréfi sem hann sendi dóminum 31. sama mánaðar komu fram lagarök hans. Þar vísaði sóknaraðili til 2. mgr. 92. gr. og 93. gr. laga um aðför nr. 90/1989 sbr. og 74. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Í bréfi Sýslumannsins á Selfossi, dags. 10. september 2001 er staðfest að stöðvuð hafi verið nauðungarsala á fasteigninni Gagnheiði 17, Selfossi, að beiðni lögmanns sóknaraðila, sem hafi lýst því yfir við fyrirtöku uppboðsbeiðnar 12. júní 2001 að hann hygðist krefjast ógildingar á aðfarargerðinni.

 Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir á því að virðisaukaskatti hafi í raun verið skilað á réttum tíma til ríkissjóðs, en vegna mistaka í bókhaldi hans og Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf. hafi skattinum verið skilað af röngu félagi. Þegar úrskurður skattstjóra Reykjavíkur hafi legið fyrir í máli ölgerðarinnar, hafi félagið fengið endurgreiddan ofgreiddan virðisaukaskatt og greitt hann til sóknaraðila, sem hafi staðið skil á skattinum til varnaraðila 4. desember 2000. Jafnframt hafi ölgerðin fengið endurgreidda innheimtuvexti að fjárhæð 2.223.414 krónur og endurgreitt þá sóknaraðila sem einnig hafi staðið skil á þeim til varnaraðila 29. desember 2000. Ríkissjóður hafi því verið eins settur og ef hinn umræddi virðisaukaskattur hefði verið greiddur af sóknaraðila á réttum tíma.

Sóknaraðili kveður að í 28. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sé ákvæði um hvernig með skuli fara, sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma, en þar segi: ,,Sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga sbr. 24. gr. skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er.” Í máli þessu liggi fyrir að umræddur skattur hafi verið greiddur á réttum tíma. Verði að telja vafasamt að sú villa sem sóknaraðila varð á við færslu í bókhaldi leiði til þess að hann sé krafinn um dráttarvexti af skattgreiðslum sem í raun hafi skilað sér í ríkissjóð á réttum tíma. Sóknaraðili hafi gert ítrekaðar tilraunir til að leiða starfsmönnum fjármálaráðuneytisins fyrir sjónir hvernig mistök þessi hafi átt sér stað, en án árangurs.

Þá sé ekki vikið að því í úrskurði skattstjóra frá 23. maí 2000 að skatturinn beri dráttarvexti og þaðan af síður af hvaða fjárhæð eða frá hvaða tíma.

Sóknaraðili bendir á að hann hafi greitt höfuðstól kröfunnar 11.584.063 krónur 4. desember 2000. Þrátt fyrir það hafi verið gert fjárnám hjá sóknaraðila 7. desember 2000 fyrir 21.422.850 krónum auk dráttarvaxta og áfallins kostnaðar frá 7. nóvember 2000. Í aðfararbeiðni frá 3. nóvember 2000 sé höfuðstóll kröfunnar tilgreindur 11.584.143 krónur og dráttarvextir 9.827.207 krónur. Engin grein sé gerð fyrir útreikningi dráttarvaxta og þrátt fyrir framlagða nýlega útskrift úr tölvukerfi varnaraðila, sé engin leið að gera sér grein fyrir útreikningi dráttarvaxta. Ljóst sé að jafnvel þótt litið verði svo á að heimilt sé að krefja sóknaraðila um dráttarvexti, séu dráttarvextir eldri en fjögurra ára fyrndir samkvæmt ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda o.fl. nr. 14/1905.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili bendir á að í úrskurði skattstjóra Suðurlands komi fram að skattstjóri hafi upphaflega sent sóknaraðila bréf 8. júlí og 13. október 1997, þar sem m.a  hafi verið óskað eftir skýringum á útreikningum á virðisaukaskatti vegna áranna 1994, 1995 og 1996. Ítrekað hafi verið óskað eftir fullnægjandi skýringum á umræddum virðisaukaskatti. Í ljósi upplýsinga frá sóknaraðila um  innflutning á vörum sóknaraðila fyrir Ölgerðina Egil Skallagrímsson hf., hafi sóknaraðila verið tilkynnt með bréfi dags. 30. september 1998, um þá fyrirætlan skattsjóra að hækka skattskylda veltu virðisaukaskatts vegna áranna 1994, 1995 og 1996. Boðaðar breytingar skattstjóra hafi verið framkvæmdar 17. desember 1999. Sóknaraðili hafi kært ákvörðun skattstjóra 17. janúar 2000. Hafi skattstjóra borist í kjölfar þess ítarlegri skýringar á umræddum viðskiptum sóknaraðila og Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf.,  ásamt hreyfingarlistum yfir viðskiptareikning félagsins, viðskiptayfirliti varðandi ofangreind viðskipti og lista yfir innskatt vegna umræddra ára. Enn hafi skattstjóri óskað eftir skýringum á því að ekki hafi verið gefnir út reikningar vegna umræddrar sölu. Þær skýringar hafi fengist 3. mars 2000, að kunnáttuleysi aðila hafi leitt til umræddra bókhaldsmistaka.

Sýslumaðurinn á Selfossi hafi gert fjárnám 7. desember 2000 í eign sóknaraðila vegna virðisaukaskattsins, álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Við þinglýsingu aðfarargerðarinnar 13. desember 2000 hafi verið tekið tillit til innborgunar sóknaraðila á kröfuna 4. desember 2000.

Varnaraðili bendir á að þar sem sóknaraðili hafi lýst því yfir að hann sé sáttur við endurákvörðun skattstjóra frá 23. maí 2000 sé í fyrsta lagi ljóst að hafna beri kröfu sóknaraðila um að gerðin verði felld úr gildi hvað varði höfuðstól umræddrar kröfu.

Varnaraðili bendir á að með lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt hvíli sú skylda á sóknaraðila við vörusölu að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti og einnig að gefa út sölureikninga vegna viðskiptanna, sbr. reglugerð nr. 50/1993 um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattskyldra aðila. Telja verði því að sóknaraðili sjálfur beri hallann af þeim bókhaldsmistökum sem leitt hafi til endurákvörðunar skattstjóra. Þá sé ljóst að lagaheimild skorti til niðurfellingar dráttarvaxta í tilvikum sem þessum, þar sem lög um virðisaukaskatt geri ráð fyrir því að skyldur sérhvers skattskylds aðila séu metnar aðgreindar frá skattskyldum annarra aðila sem viðkomandi geti hafa átt viðskipti við. 

Varðandi dráttarvexti af höfuðstól kröfunnar bendir varnaraðili á að ófrávíkjanlegt sé að greiða skuli ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er, sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga, sbr. 28. gr. virðisaukaskattslaga. Sé því ekki gert ráð fyrir því að skattstjóri fjalli sérstaklega um dráttarvexti við endurákvörðun á virðisaukaskatti. Þá segi í 4. mgr. 29. gr. virðisaukaskattslaga að áfrýjun eða deila um skattskyldu fresti ekki gjalddaga skattsins né að það leysi undan neinum þeim viðurlögum sem lögð séu við vangreiðslu hans. Varnaraðili kveður sömu sjónarmið eiga við þegar virðisaukaskattur sé endurákvarðaður vegna bókhaldsmistaka skattskylds aðila. Gjalddagar umrædds virðisaukaskatts hafi verið 5. febrúar 1995, 1996 og 1997. Eins og segi í úrskurði skattstjóra hafi álag verið reiknað í samræmi við 2. mgr. 27. gr. virðisaukaksattslaga, þar sem ekkert hafi komið fram um að utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik hafi valdið mistökum sóknaraðila. Styðji þessi ummæli skattstjóra það að sóknaraðili hafi mátt gera ráð fyrir því að skatturinn yrði einnig dráttarvaxtareiknaður, en dráttarvextir vegna hvers tímabils hafi verið reiknaðir frá 1. mars hvert ár. Megi greina útreikninga þessa af framlögðum yfirlitum yfir hreyfingar á virðisaukaskatti sóknaraðila á umræddum tímabilum. Þá mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila að eldri dráttarvextir en fjögurra séu fyrndir og vísar um það til 5. mgr. 26. gr. virðisaukaskattslaga. Þar segi að heimild til endurákvörðunar nái til síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram.

Niðurstaða.

Samkvæmt aðfararlögum nr. 90/1989 er sóknaraðila heimilt að byggja kröfur sínar um dómsúrlausn á hvaða atriði aðfarargerðar sem er, eða efnislegu réttmæti kröfu varnaraðila. Um aðfararheimild vísaði varnaraðili til 9. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, en höfuðstóll þeirra gjalda sem fjárnám var gert fyrir, var álagður með úrskurði skattstjórans á Suðurlandi frá 23. maí 2000.

Samkvæmt úrskurði þessum skyldi sóknaraðili gefa út reikninga fyrir vangreiddum virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð 11.594.063 krónur. Í greinargerð sóknaraðila er að því vikið að sóknaraðili sé sáttur við endurákvörðun skattstjórans, enda greiddi hann 11.584.063 krónur til varnaraðila 4. desember 2000. Sóknaraðili kærði ekki ákvörðun skattstjóra Suðurlands til yfirskattanefndar. Verður því ágreiningur um skattskyldu sóknaraðila eða fjárhæð skattsins  ekki borinn undir dómstóla, samkvæmt 5. mgr. 29. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Öðru máli gegnir um réttmæti dráttarvaxta þeirra sem varnaraðili hefur lagt á höfuðstól kröfunnar.

 Aðför fyrir vangreiddum virðisaukaskatti, auk dráttarvaxta til 3. nóvember 2000 að fjárhæð 9.827.207 og kostnaðar að fjárhæð 11.500 krónur var gerð hjá sóknaraðila 7. desember 2000. Gerðinni var þinglýst 13. desember 2000 og ber þinglýst afrit gerðarinnar með sér stöðu skuldarinnar þann dag, 10.070.466 krónur. Skjöl málsins bera með sér að frá skuldinni hefur verið dregin ofangreind innborgun sóknaraðila 4. desember 2000. Í endurritinu sjálfu eða fylgigögnum með því kemur hins vegar ekki fram frá hvaða tíma dráttarvextir eru reiknaðir eða af hvaða fjárhæð.

Samkvæmt 28. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er, sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga. Í máli þessu er deilt um réttmæti kröfu varnaraðila vegna vanskila opinberra gjalda sóknaraðila allt frá árinu 1994.  Samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, fyrnast kröfur um vexti á fjórum árum. Sóknaraðili rauf fyrningu kröfu varnaraðila með innborgun sinni 4. desember 2000. Samkvæmt ofangreindu eru dráttarvextir eldri en frá 4. desember 1996 fyrndir.

Að öllu framangreindu virtu ber að staðfesta aðfarargerð Sýslumannsins á Selfossi með þeirri breytingu að dráttarvextir reiknist af höfuðstól kröfunnar, 11.584.143 króna, frá 4. desember 1996 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun sóknaraðila 4. desember 2000 að fjárhæð 11.584.063 krónur, en innborganir sóknaraðila á kröfuna eftir að aðfarargerð lauk koma hér ekki til skoðunar.

Með hliðsjón af þessum úrslitum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o rð:

Aðfarargerð Sýslumannsins á Selfossi nr. 033-2000-01279, frá 7. desember 2000 er staðfest með þeirri breytingu að dráttarvextir reiknist af höfuðstól kröfunnar, 11.584.143 króna, frá 4. desember 1996 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun sóknaraðila 4. desember 2000 að fjárhæð 11.584.063 krónur .

Hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.