Hæstiréttur íslands

Mál nr. 272/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                              

Föstudaginn 4. maí 2012.

Nr. 272/2012.

Ómar Antonsson

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun frá héraðsdómi.

Ó kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur Í var vísað frá dómi. Í málinu krafðist Ó viðurkenningar á tilteknum heimildum sér einum til handa í netlögum jarðarinnar H. Ó hafði áður borið málið undir dómstóla og hafði því máli jafnframt verið vísað frá á þeim grundvelli að kröfur Ó hefðu ekki beinst að lögmæti tiltekinna athafna eða ákvarðana hans, heldur miðuðu að því að dómstólar kvæðu almennt á um réttarstöðu þá sem fælist í eignarrétti að jörð hans. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Ó hefði að sönnu þrengt dómkröfur sínar og breytt orðalagi þeirra í þessu máli miðað við dómkröfur hans í fyrra málinu, en inntak kröfugerðar hans nú væri eigi að síður hið sama og í því máli. Í kröfugerð Ó nú yrði ekki fremur en í fyrra málinu, greindir þeir efnisþættir sem Ó gæti að öðrum kosti verið heimilt að bera undir dómstóla. Var málatilbúnaður Ó því í andstöðu við 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Sóknaraðili er eigandi jarðarinnar Horns I í Hornafirði sem land á að sjó og höfðar hann mál þetta til viðurkenningar á tilteknum heimildum sér einum til handa í netlögum jarðarinnar. Í aðalkröfu miðar sóknaraðili stærð netlaganna við svæði sjávar 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði og er kröfugerðin tvíþætt. Annars vegar krefst sóknaraðili viðurkenningar á því að sér sé heimilt að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni innan netlaga jarðarinnar án þess „að nota til þess skip sem fengið hefur almennt veiðileyfi, veiðiheimild og/eða sérstakt leyfi til grásleppuveiða“ þrátt fyrir nánar tilgreind lagaákvæði í stefnu til héraðsdóms. Hins vegar krefst hann viðurkenningar á því að varnaraðila sé óheimilt, án leyfis sóknaraðila, að veita almenn veiðileyfi, veiðiheimild og/eða sérstakt veiðileyfi til grásleppuveiða, til fiskveiða í atvinnuskyni innan netlaga jarðar hans þrátt fyrir nánar tilgreind lagaákvæði í stefnu. Fyrsta, önnur, þriðja og fjórða varakrafa sóknaraðila er samhljóða aðalkröfu að öðru leyti en því að netlög eru þar skilgreind með öðrum hætti en í aðalkröfu.

II

Á árinu 2006 höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila sem lauk með dómi Hæstaréttar 31. október 2007 í máli nr. 554/2007. Dómkröfur hans í því máli lutu að viðurkenningu á eignarráðum yfir netlögum jarðarinnar Horns I, á stærð þeirra mælt frá stórstraumsfjöruborði, á efnislegum heimildum sem í eignarráðum hans fælust og að honum væri heimilt að nýta auðlindir í netlögunum án þess að þurfa til þess almennt veiðileyfi og veiðiheimild samkvæmt lögum. Í dómi Hæstaréttar í ofangreindu máli kemur fram að ekki verði séð af gögnum málsins að tilefni þeirrar málsóknar sé sérstakur ágreiningur við varnaraðila. Kröfur hans beinist ekki að lögmæti tiltekinna athafna eða ákvarðana varnaraðila heldur miði þær að því að dómstólar kveði almennt á um réttarstöðu þá sem felist í eignarrétti að jörð sóknaraðila. Allt að einu kunni að felast efnisþættir í kröfugerð sóknaraðila sem honum geti verið heimilt að bera undir dómstóla. Kröfugerð sóknaraðila væri hins vegar þannig úr garði gerð að slíkir efnisþættir yrðu ekki greindir í kröfum hans og ekki væri það á verksviði dómstóla að lesa slík atriði úr kröfum á borð við þær sem sóknaraðili hefði gert. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms, sem vísað hafði máli sóknaraðila frá dómi.

III

Gögn máls þessa bera ekki með sér að tilefni málsóknar sóknaraðila nú sé sérstakur ágreiningur hans við varnaraðila um þau atriði sem dómkröfur hans í málinu lúta að. Tilgangur málsóknarinnar nú virðist, eins og í máli nr. 554/2007, aðallega vera að fá fram afstöðu dómstóla til þess hverjar efnislegar heimildir felist í eignarrétti að netlögum sjávarjarða, þar með talinni jörð sóknaraðila. Sóknaraðili hefur að sönnu þrengt dómkröfur sínar og breytt orðalagi þeirra í máli því sem hér er til úrlausnar miðað við dómkröfur hans í máli nr. 554/2007, en inntak kröfugerðar hans nú er eigi að síður hið sama og í því máli, og í kröfugerð sóknaraðila nú verða ekki, fremur en í máli nr. 554/2007, greindir þeir efnisþættir sem sóknaraðila gæti að öðrum kosti verið heimilt að bera undir dómstóla. Þá er þess og að geta að meðal gagna málsins er bréf sjávarútvegsráðuneytisins 21. september 2004 til sóknaraðila, þar sem fram kemur meðal annars sú afstaða ráðuneytisins að „[e]kkert í gildandi lögum eða reglum sviptir eiganda einkarétti til fiskveiða innan netlaga jarðar sinnar. Hins vegar er þess krafist að hann hafi tilskildar aflaheimildir hverju sinni.“

Samkvæmt framansögðu en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ómar Antonsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 9. febrúar sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Ómari Antonssyni, Horni í Nesjum, Hornafirði, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 29. júní 2011.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi að stefnanda sé heimilt að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni innan netlaga jarðarinnar Horns I í Hornafirði án þess að nota til þess skip sem fengið hefur almennt veiðileyfi, veiðiheimild og/eða sérstakt leyfi til grásleppuveiða, þrátt fyrir ákvæði 4. gr., 5. gr. og 2. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 og/eða ákvæði 4. og 7. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Teljist netlögin í þessu tilliti ná til hafsvæðisins 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði.

Einnig krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði með dómi að stefnda, íslenska ríkinu, sé óheimilt, án leyfis stefnanda, að veita almenn veiðileyfi, veiðiheimild og/eða sérstakt veiðileyfi til grásleppuveiða, til fiskveiða í atvinnuskyni innan netlaga jarðarinnar Horns I, þrátt fyrir ákvæði 2. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr. og 1. og 2. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 og/eða ákvæði 7. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Teljist netlögin í þessu tilliti ná til hafsvæðisins 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði.

Fyrsta varakrafa stefnanda er samhljóða aðalkröfu að öðru leyti en því að síðasti málsliður hvors kröfuliðar hljóðar svo: „Teljast netlögin í þessu tilliti ná til hafsvæðisins 60 faðma út frá stórstraumsfjöruborði.“

Önnur varakrafa stefnanda er samhljóða aðalkröfu að öðru leyti en því að síðasti málsliður hvors kröfuliðar hljóðar svo: „Teljast netlögin í þessu tilliti ná til hafsvæðisins út að dýpi, þar sem selnót stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó, þ.e. 6,85 metra dýpi miðað við stórstraumsfjörumál.“

Þriðja varakrafa stefnanda er samhljóða aðalkröfu að öðru leyti en því að síðasti málsliður hvors kröfuliðar hljóðar svo: „Teljast netlögin í þessu tilliti ná til hafsvæðisins út að dýpi, þar sem selnót stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó, þ.e. 5,7 metra dýpi miðað við stórstraumsfjörumál.“

Fjórða varakrafa stefnanda er samhljóða aðalkröfu að öðru leyti en því að síðasti málsliður hvors kröfuliðar hljóðar svo: „Teljast netlögin í þessu tilliti ná til hafsvæðisins út að dýpi, þar sem selnót stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó, þ.e. 2,9 metra dýpi miðað við stórstraumsfjörumál.“

Stefnandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda án tillits til þess hvernig málið fer, samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til virðisaukaskatts.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.

II

Stefnandi er eigandi jarðarinnar Horns I í Hornafirði.  Kveður stefnandi jörðina vera eina þá stærstu í fyrrum Nesjahreppi og ríka af hlunnindum, svo sem trjáreka, selveiði og dún- og eggjatekju í eyjum, sem jörðinni fylgi.  Þá hafi verið útræði Nesjabænda úr Hornsvík suðaustur af bænum fram á nítjándu öld.  Hafi útræði verið stundað frá Horni til okkar daga.  Að austan ráði landamerkjum jarðarinnar hreppamörk Lóns og Nesja, en að vestan liggja mörkin milli Þinganess og Horns við Kambslæksmynni fyrir innan Almannaskarð.  Jörðin hafi orðið bændaeign árið 1903 er landshöfðingi hafi afsalað jörðinni til ábúanda hennar samkvæmt heimild í lögum nr. 54/1901 um sölu þjóðjarða.  Jörðin Horn (I og II) hafi verið í óskiptri sameign stefnanda og bæjarfélagsins Hafnar í hlutföllunum 2/3 á móti 1/3, en eigendur hafi skipt jörðinni með sér með eigendasamkomulagi hinn 19. janúar 1993 og hafi þá komið í hlut Hafnar m.a. Mikley, Hellir, Þinganessker, vestasti hluti Austurfjara, Hvanney og austasti hluti Suðurfjörutanga, en að öðru leyti hafi öll jörðin komið í hlut stefnanda. 

Stefnandi kveður eignarréttindi eigenda sjávarjarða yfir netlögum hafa, með lögunum um stjórn fiskveiða, verið skert andstætt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, án þess þó að réttindin hafi verið tekin eignarnámi.  Gerir stefnandi kröfu um, að viðurkennd verði þau réttindi, sem stefnandi telur sig eiga og fram koma í kröfugerð hans.

III

Stefnandi krefst þess í fyrri liða aðalkröfu sinnar og varakrafna að viðurkenndur verði réttur hans til þess að veiða í netlögum jarðar sinnar án þess að þurfa til þess sérstök eða almenn veiðileyfi frá stefnda.  Byggir stefnandi á því, að þar sem slík veiðileyfi séu bundin við skip, en ekki veitt einstaklingum eða útgerðunum sjálfum, sbr. 5. gr. laga nr. 116/2006, séu kröfur settar fram með þeim hætti að fiskveiðar stefnanda í atvinnuskyni séu ekki bundnar því skilyrði að hann noti til þess skip sem hafi slík veiðileyfi.

Síðari liður aðalkröfu og varakrafna lúti að þeirri aðstöðu að stefndi hafi gefið út veiðileyfi og úthlutað aflaheimildum á grundvelli laga nr. 116/2006 og laga nr. 79/1997 sem heimili leyfishöfum að stunda veiðar í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands eins og hún sé skilgreind í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 116/2006.  Innan þeirrar landhelgi falli netlög jarða, þar með talið jarðar stefnanda.  Á grundvelli ofangreindra laga hafi stefndi því veitt ótengdum aðilum heimild til þess að nýta sér réttindi sem stefnandi telji að hann njóti eignar- og einkaréttar að, nánar tiltekið einkarétt landeiganda til fiskveiða í netlögum jarðar sinnar.

Hvað varði stjórnarskrárvarinn veiðirétt stefnanda innan netlaga byggir stefnandi á því að svo langt sem íslenskar heimildir nái hafi það verið lög hér á landi, að hluti hverrar jarðar sem að sjó liggi skuli vera netlög, en það sé svæðið sem liggi í sjó frá stórstraumsfjöruborði og út í sjó með fram ströndinni.  Breidd svæðis þessa hafi ýmist tekið mið af tiltekinni fjarlægð frá stórstraumsfjöruborði eða tilekinni dýpt miðað við stórstreymi.  Þetta komi fram í Grágásarhandritunum Staðarhólsbók og Konungsbók, enn fremur í Jónsbók. Almenn sammæli séu um að telja netlög að fornu og nýju frá stórstraumsfjörumáli, enda hafi allt frá árinu 1849 verið miðað við stórstraumsfjörumál, en það ár hafi tekið gildi hér á landi tilskipun frá 20. júní 1849 um veiði á Íslandi.  Í tilskipuninni hafi verið tekin afstaða til breiddar netlaganna almennt og þar með til fiskveiða.  Af 21. gr. tilskipunarinnar leiði að ákvæði Jónsbókar um einkarétt landeiganda til að veiða fisk og hval í netlögum haldi gildi sínu og hafi ekki verið afnumin.

Af þessu leiði að allt frá því að framangreind tilskipun frá 1849 tók gildi og til þessa dags hafi netlög verið skilgreind sem svæði með fram landi sem nái 60 faðma út frá stórstraumsfjörumáli og síðar 115 metra.  Jafnframt sé kveðið á í lögum, að þetta svæði, netlögin, sé hluti jarðar og sé háð eignarrétti jarðareiganda, síðast í jarðalögum nr. 81/2004, lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Þar sem skilgreiningar netlaga og ákvæði um eignarrétt landeiganda að netlögum séu í sérlögum þá séu eignarheimildir yfirleitt skilgreindar í hverjum sérlögum fyrir sig í samræmi við viðfangsefni þeirra.  Getið sé um þessar heimildir landeiganda í netlögum í lögum um fiskveiði, (1281 og 1849), síldar- og ufsaveiði (1872), beitutekju (lög nr. 39/1914), fuglaveiðar (lög nr. 63/1954), allar auðlindir í, á eða undir hafsbotninum (lög nr. 73/1990), auðlindir í sjávarbotni innan netlaga (lög nr. 57/1998), efnistöku af eða úr hafsbotni (lög nr. 73/1997 og 44/1999), skeldýrarækt (lög nr. 201/2011) og að lokum öll venjuleg eignarráð (lög nr. 81/2004 og 61/2006).  Þannig kveði lög á um, að allar hugsanlegar auðlindir í sjónum, á hafsbotni og undir hafsbotni svo og í lofti yfir netlögum, að engri undanskilinni, séu í eignarráðum landeiganda.

Af þessu megi slá því föstu að eignarréttur eiganda sjávarjarðar nái til netlaga jarðarinnar, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 28. maí 2009 í máli nr. 125/2008.  Meðal þeirra eignarráða sem hann njóti sé eignarréttur að auðlindum og þar verði með að telja fiskveiði.  Megi því ljóst vera að einkaréttur til fiskveiða í netlögum jarðarinnar Horns I teljist hluti af eignarréttindum stefnanda í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.  Einnig hafi Mannréttindadómstóll Evrópu talið að veiðiréttur eigenda sjávarjarða innan netlaga njóti verndar 1. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóm 2. desember 2008 í máli nr. 40169/05, Björn Guðni Guðjónsson gegn Íslandi.  Þá sé að því vikið í hrd. 1996, bls. 2518 að eigandi sjávarjarðar eigi að lögum einkarétt á fiskveiðum í netlögum.

Varðandi stærð netlaga rekur stefnandi að í aðalkröfu sé miðað við að netlögin séu 115 metra breitt svæði út frá stórstraumsfjöru og sé þá haft í huga að í öllum settum lögum frá 1923 sé miðað við að netlög teljist 115 metrar.

Fyrsta varakrafa sé efnislega sú sama og aðalkrafan nema miðað er við að netlög séu 60 faðmar (112,98 metrar) út frá stórstraumsfjöruborði og sé þá tekið mið af veiðitilskipuninni frá 1849.

Önnur, þriðja og fjórða varakrafa séu efnislega þær sömu og aðalkrafan nema miðað sé við að netlög teljist yst sjávarbotn frá stórstraumsfjöruborði út að dýpi, þar sem selnót standi grunn 20 möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó.  Hér sé tekið mið af skilgreiningu Jónsbókar á netlögum.  Skilgreining þessi sé frábrugðin skilgreiningunni frá 1849 og síðar sem ætíð taki mið af breidd netlaga án tillits til dýpis.  Skilgreining Jónsbókar taki hins vegar aðeins tillit til dýptar sjávar og ráði dýpt fyrir landi jarðar breidd netlaga.  Dregið hafi verið í efa að þessi skilgreining netlaga, að því er fiskveiðar varðar, hafi nokkurn tíma verið úr gildi felld.  Í annarri varakröfu sé miðað við útreikninga Páls Vídalín í ritinu Skýringar yfir fornyrði lögbókar, sem samið hafi verið á árunum 1700-1716.  Þar vitni Páll til fornra lögbókarhandrita þar sem fram komi m.a. að 20 möskva dýpt jafngildi 12 álna dýpt að fjöru.  Páll miði við hamborgaralin (57 cm) en samkvæmt því skuli miða mörk netlaga við 6,85 metra dýpi miðað við stórstraumsfjörumál.  Þriðja varakrafa sé efnislega sú sama og önnur varakrafa nema miðað sé við forna alin sem talin sé hafa verið 47,7 cm, en þá skuli miða við 5,7 metra dýpi við stórstraumsfjörumál.  Fjórða varakrafa sé efnislega sú sama og önnur varakrafa nema miðað sé við útreikninga Lúðvíks Kristjánssonar í ritinu Íslenzkir sjávarhættir I frá 1980.  Þar telji Lúðvík að miðað hafi verið við 6 þumlunga selmöskvalegg en samkvæmt því jafngildi 20 möskva selnót 6 fornum álnum (1 alin = 20 þumlungar).  Í samræmi við þetta sé miðað við að mörk netlaga liggi við 2,9 metra dýpi við stórstraumsfjörumál.

Í öllum ofangreindum kröfum stefnanda sé miðað við að netlögin liggi fyrir utan  stórstraumsfjörumál, enda sé almennt viðurkennt að þegar landareign liggur að sjó fylgi fjaran henni, þ.e. svæðið milli stórstraumsflóðmáls og stórstraumsfjörumáls.  Á þessu hafi verið byggt bæði í dómaframkvæmd og við lagasetningu hér á landi, sbr. alla síðari tíma löggjöf um netlög og 1. mgr. 1. gr. laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn nr. 41/1979.

Hvað varðar lög um fiskveiði og fiskveiðilandhelgi byggir stefnandi á því að í lögum nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og lögum nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, séu netlög innan fiskveiðilandhelginnar og landhelgin því að hluta í einkaeign.  Augljóst verði að telja að í fyrrgreindum lögum sé verið að skilgreina landhelgi út frá fullveldisréttarsjónarmiðum, en ekki eignarréttarsjónarmiðum.  Samkvæmt fullveldisrétti geti löggjafinn sett almennar reglur með lögum um meðferð náttúruauðlinda í netlögum.  Felist í þeim takmarkanir á réttindum manna þurfi að meta hvort um almennar takmarkanir sé að ræða sem ekki séu í andstöðu við mannréttindaákvæði stjórnarskrár.  Fari slíkar reglur hins vegar í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar, jafnræði og atvinnufrelsi verði þeim ekki beitt. Í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða sé við það miðað, að réttur til fiskveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands geti einungis fylgt skipum, sem uppfylli viss skilyrði.  Veiðiréttindin, svokallaðar aflaheimildir, hafi fylgt skipunum og síðar verið gerð framseljanleg og gangi nú kaupum og sölum á markaði, en kaupandi verði þó að vera eigandi fiskiskips.  Réttindi þessi hafi því nú einkenni eignarréttar og hafi fræðimenn haldið því fram, að handhafar þeirra verði ekki sviptir réttindunum án eignarnámsbóta.

Ef fallist yrði á að réttur landeigenda til fiskveiða hefði verið afnuminn með lögum um fiskveiðar og aflaheimildir yrði slíkt afnám að birtast með skýrum hætti í settum lögum, sem stæðust ákvæði stjórnarskrár, enda njóti réttur landeiganda til netlaga og þar með til fiskveiða í netlögum verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.  Stefndi geti ekki borið fyrir sig slíka eignarnámsheimild og ekki hafi verið boðnar fram bætur.  Réttur landeiganda sé því ótvírætt í höndum hans og hann hafi ekki verið sviptur þeim rétti.

Stefnandi byggir á því að þeir hagsmunir sem krafist sé viðurkenningar á í máli þessu séu eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.  Stefnandi geri sér grein fyrir því að eigendur allra eigna þurfi að sæta ákveðnum almennum takmörkunum á eignarráðum sínum, en slíkar takmarkanir þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði sem leiði af 1. mgr. 72. gr. stjskr. og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu.  Löggjafinn hafi farið út fyrir þessi mörk með því að binda veiðar stefnanda innan netlaga jarðar sinnar þeim skilyrðum að notað sé skip sem fengið hafi almennt veiðileyfi, veiðiheimild og/eða sérstakt leyfi til grásleppuveiða, sbr. ákvæði 4. gr., 5. gr. og 2. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 og/eða ákvæði 4. gr. og 7. gr. l. nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Varðandi yfirfærslu eignarréttar setji eignarnámsákvæði 1. mgr. 72. gr. stjskr. ákveðin skilyrði fyrir því að aðili verði skyldaður „til að láta af hendi eign sína”.  Um eignarnám sé að ræða þegar aðila sé gert skylt að láta eignarrétt sinn af hendi að öllu eða nokkru leyti og stofnist þá venjulega samsvarandi eignarréttur öðrum til handa.  Aðilaskipti að eignarréttindum bendi því til þess að um eignarnám sé að ræða.

Enda þótt stefndi líti svo á að stefnanda sé óheimilt að veiða í netlögum jarðar sinnar án þess að fá til þess almennt og sérstakt leyfi stjórnvalda og nota farkost af tiltekinni stærð, þá telji stefndi að öðrum en eigendum jarðarinnar sé heimilt að veiða í netlögum hennar.  Þannig gefi stefndi út leyfi til aðila sem uppfylli skilyrði fiskveiðistjórnunarlaga til þess að stunda fiskveiðar, m.a. í netlögum jarðar stefnanda.  Stefndi geti því ekki borið fyrir sig að það hafi verið markmið með hinni nýju fiskveiðilöggjöf að vernda fiskstofna og einkum uppeldisstöðvar þeirra við land, og að þetta markmið réttlæti skerðingu á mannréttindum stefnanda.  Eina breytingin, sem varði fiskveiðar í netlögum, sé sú að óviðkomandi komi í stað eigenda sjávarjarða og veiða innan merkja jarðanna.  Samkvæmt þessu ráðstafi stefndi í reynd umráða- og nýtingarétti sem svari til þeirrar skerðingar sem stefnandi þurfi að sæta á grundvelli 4. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006, 1. og 2. mgr. 8. gr. sömu laga og 4. og 7. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Slík yfirfærsla á eignarrétti hafi veigamikla þýðingu þegar metið sé hvort eignarskerðing teljist til eignarnáms eða almennra takmarkana á eignarrétti.  Rík ástæða sé talin til að láta bætur koma fyrir eignarskerðingar sem fái öðrum heimild til beinnar og jákvæðrar hagnýtingar eða ráðstöfunar á verðmætinu, en því síður þegar eiganda sé á neikvæðan hátt bönnuð viss hagnýting eða ráðstöfun, líkt og jafnan sé gert með almennum takmörkunum á eignarrétti.  Slík yfirfærsla á eignarrétti bendi eindregið til þess að löggjafinn hafi farið út fyrir þær heimildir sem hann hafi til að takmarka stjórnarskrárvarinn veiðirétt stefnanda.

Hvað varðar almenna takmörkun og jafnræði byggir stefnandi á því að þegar línan sé dregin milli eignarnáms og almennra takmarkana beri að líta til þess hvort eignarskerðing geti talist almenn, þ.e. hvort hún komi niður á öllum eignum er vissa samstöðu hafi, án tillits til þess hvernig skerðingin sé framkvæmd að öðru leyti.  Af þessu leiði að eignarskerðingin skuli koma jafnt niður á öllum eigendum eða tileknum hópi.  Eignir þær eða eigendur sem skerðingin bitnar á þurfi því að hafa einhverja slíka samstöðu, að réttlætanlegt sé að hún komi niður á þeim en ekki öðrum.  Í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar felist því óskrifuð jafnræðisregla sem jafnframt megi finna í 65. gr. stjskr., enda sé þeim oft beitt samhliða.

Samkvæmt síðari tíma löggjöf séu netlög jarða, sem land eigi að vötnum og ám, þau sömu og netlög sjávarjarða.  Eigendur fyrrgreindu jarðanna hafi hins vegar ekki verið sviptir réttindum sínum í netlögum og þeim sé ekki skylt að þola veiðar óviðkomandi í netlögum jarða sinna.  Í þessu felist brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár og samsvarandi ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu.

Jafnframt telji stefnandi þá skipan að honum sé gert að afla sér leyfa til nýtingar eignarréttinda sinna, á meðan aðrir geti nýtt sér sömu lagaheimild til þess að öðlast réttindi innan eignar stefnanda, brjóta í bága við 65. gr. stjskr.  Miðað við þá réttindaskerðingu sem í lögunum felist gagnvart stefnanda verði ekki talið að hann njóti jafnræðis við þá sem ekki eigi sjávarjarðir.

Þá telji stefnandi að honum sé mismunað gagnvart þeim aðilum sem í upphafi núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfis hafi verið úthlutað aflaheimildum endurgjaldslaust.  Öll rök stefnda um að stefnandi sé í sömu stöðu og allir aðrir til þess að afla sér veiðiheimilda og stunda fiskveiðar í atvinnuskyni í skjóli þeirra fái því ekki staðist.  Hér sé sérstaklega vísað til niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem starfi á grundvelli Alþjóðasamnings SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966, í áliti nefndarinnar 24. október 2007 í máli nr. 1306/2004.  Meginniðurstaða nefndarinnar hafi verið að sá aðstöðumunur sem sé á milli þeirra aðila sem upphaflega hafi fengið afhentar veiðiheimildir andstætt þeim sem séu í stöðu stefnanda og þurfa að kaupa eða leigja slíkar heimildir verði ekki réttlættar með hlutlægum hætti og teljist mismunun í andstöðu við ákvæði 26. gr. fyrrnefnds mannréttindasáttmála.

Aðstaða stefnanda sé sambærileg aðstöðu málshefjenda fyrir Mannréttindanefndinni, þar sem honum sé gert nauðsynlegt að kaupa eða leigja kvóta til þess að geta löglega stundað fiskveiðar í atvinnuskyni, hvað varði þær tegundir sem sæti takmörkunum á leyfilegum heildarafla.  Aðstaða stefnanda sé þó enn alvarlegri þar sem honum sé gert að kaupa eða leigja kvóta af ótengdum aðilum til þess að geta nýtt sér einkarétt sinn til fiskveiða innan landamerkja jarðar sinnar.  Í þessu sambandi beri að ítreka að stefndi hafi, með vísan í niðurstöðu Hæstaréttar í dómi 1996, 2518, viðurkennt tilvist eignar- og einkaréttar stefnanda til fiskveiða í netlögum.

Hvað varðar réttmæti eignarskerðingarinnar byggir stefnandi á því að almennt sé talið að ástæður eignarskerðingar verði að byggjast á almennum efnislegum ástæðum, eigi hún að teljast til almennra takmarkana á eignarrétti.  Af dómaframkvæmd sé ljóst að Hæstiréttur líti til þess hvaða ástæður liggi að baki eignarskerðingu og hvaða markmiði eða tilgangi henni sé ætlað að þjóna, þ.e.a.s. hvort takmörkuninni sé ætlað að þjóna málefnalegum tilgangi í þágu almannahagsmuna.

Til að skerðing eignarréttar standist kröfur stjórnarskrárinnar þurfi hagsmunirnir sem að sé stefnt að vega þyngra en hinir skertu hagsmunir.  Eigandinn þurfi ekki að una því að eignarréttur hans sé skertur til þess eins að þjóna hagsmunum annars aðila, heldur þurfi eignarskerðingin að þjóna málefnalegum tilgangi í þágu almannahagsmuna.  Við hagsmunamat þurfi því að gæta jafnvægis á milli þess hvernig eignarskerðingin bitni á eigandanum og þess markmiðs sem að sé stefnt með eignarskerðingunni.

Ljóst sé að sú tilhögun núverandi fiskveiðistjórnarkerfis að útiloka möguleika stefnanda til nýtingar á veiðirétti sínum hafi ekkert með yfirlýst markmið lagasetningarinnar að gera, enda hefði hæglega verið hægt að tryggja skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda án þess að haga málum þannig að eigendum sjávarjarða sé fyrirmunað að nýta veiðirétt sinn.  Af þeim sökum verði tilgangur lagasetningarinnar ekki talinn slíkur að hann réttlæti jafn íþyngjandi inngrip í veiðirétt eigenda sjávarjarða.

Hafi það verið ætlun löggjafans að afnema eignarráð landeiganda yfir netlögum að hluta eða öllu leyti hefði það viðhorf þurft að koma skýrt fram sem eignarnámsheimild með ákvæði um bætur.  Jafnframt takmarkist gildissvið laganna af rétthærri réttarreglum, svo sem 72. gr. stjskr.  Ekkert í hinni nýju löggjöf, undirbúningsgögnum hennar eða umræðum á Alþingi, gefi til kynna að markmið hinnar nýju löggjafar sé að svipta eigendur sjávarjarða lögmæltum einkarétti til fiskveiða í netlögum.  Umrædd skerðing á veiðirétti stefnanda geti því ekki talist málefnaleg þar sem ekki hafi verið stefnt að henni.

Stefndi geti ekki borið fyrir sig að hann gæti hagsmuna almennings eða sinni almenningsþörf með því að koma í veg fyrir að eigendur sjávarjarða fiski í netlögum jarða sinna.  Þvert á móti heimili stefndi hverjum þeim, sem hafi viðeigandi leyfi, að fiska í netlögum annarra.

Í ljósi þessa verði að telja að löggjöfin þjóni ekki málefnalegum tilgangi í þágu almannahagsmuna auk þess sem hún brjóti gegn hinni stjórnskipulegu meðalhófsreglu sem leiði af 72. gr. stjskr., og mæli m.a. fyrir um að ávallt beri að velja úrræði sem sé síður íþyngjandi fyrir eigandann.  Þessi þáttur hafi haft töluverð áhrif í íslenskri réttarframkvæmd þegar það sé metið hvort eignarskerðing standist skilyrði stjórnarskrár og falli innan þess svigrúms sem löggjafinn hafi til að skerða eignarrétt.  Þetta eigi einkum við þegar unnt sé að leggja hlutlægt mat á valkostina líkt og í máli stefnanda, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 12. október 2004 í máli nr. 60669/00, Kjartan Ásmundsson gegn Íslandi og hrd. 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008.

Hvað varðar lögmæti eignarskerðingarinnar byggir stefnandi á því, verði því haldið fram af stefnda að túlka megi lög á þann veg að í þeim felist takmarkanir eða afnám á réttindum eigenda sjávarjarða í netlögum, að slíkar íþyngjandi réttarheimildir verði að vera skýrar og standast skilyrði lögmætisreglunnar.  Stefnandi þurfi ekki að sæta skerðingum á stjórnarskrárvörðum réttindum sínum nema til þess standi skýr lagafyrirmæli þar sem fram komi takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar, sem talin er nauðsynleg, sbr. m.a. hrd. 2000, bls. 1621.

Telja verði að lagafyrirmæli þurfi að liggja til grundvallar hvers kyns eignarskerðingum, almennum takmörkunum á eignarrétti jafnt sem eignarnámi, og að þau verði að uppfylla hin skilyrðin um ákveðið lágmarks efnisinnihald.  Í íslenskum lögum sé hvergi að finna reglu sem afnemi veiðirétt stefnanda innan netlaga jarðar hans.  Stefnandi og aðrir eigendur sjávarjarða hefðu ekkert tilefni haft til að gera athugasemdir og mótmæla hinni nýju löggjöf, enda hafi ekki mátt af henni ráða að í henni fælist svipting réttinda og ráðstöfun sömu réttinda til annarra óviðkomandi, sem hefðu viðeigandi leyfi stjórnvalda.

Hvað varðar áhrif eignarskerðingar á stefnanda byggir stefnandi á því að þegar metið sé svigrúm löggjafans til að skerða eignarrétt manna, án þess að um eignarnám sé að ræða, þurfi að skoða hvort yfirfærsla á eignarrétti hafi átt sér stað, hvort takmörkunin sé almenn, hvort hún hvíli á almennum efnislegum ástæðum og hvert sé markmið eignarskerðingarinnar.  Þar að auki þurfi að kanna hversu umfangsmikil eða þungbær eignarskerðingin sé.  Talið hafi verið að almennar takmarkanir á eignarrétti geti verið svo þungbærar eða haft önnur slík einkenni eignarnáms að skylt sé að láta eignarnámsbætur koma fyrir.  Sem dæmi um slíka eignarskerðingu hafi fræðimenn t.d nefnt ef einkaréttur landeigenda til veiða á landi sínu væri afnuminn og almenningi veitt heimild til að veiða hvar sem væri.  Í máli þessu séu málsatvik sambærileg, þ.e. einkaréttur eigenda sjávarjarða til veiði innan netlaga hafi verið afnuminn og tilteknum hópi veitt heimild til að veiða hvar sem væri innan þeirra.

Telji stefndi þá kröfu fiskveiðistjórnunarlaganna að fiskveiðar í atvinnuskyni verði aðeins stundaðar af ákveðnum skipum með almenn og sérstök veiðileyfi, og eftir atvikum nauðsynlegar aflaheimildir, ekki vera inngrip í eignarrétt stefnanda kveðst stefnandi taka fram að í netlögum þurfi ekki báta eða skip, sem uppfylla skilyrði laga nr. 116/2006, til fiskveiða.

Skilyrði um opinber leyfi sé takmörkun á eignarréttindum landeiganda, sér í lagi í þessu tilviki þar sem það ferli að afla nauðsynlegra tækja (skipa), leyfa og aflaheimilda sé gríðarlega kostnaðarsamt.  Það sé því ljóst að umrædd skilyrði séu mjög alvarleg inngrip í eignarrétt stefnanda sem hafi að óbreyttu í för með sér að stefnanda sé gert ómögulegt að njóta mannréttinda sinna.  Eftir því sem slíkt inngrip teljist þungbærara sé rétt að gera strangari kröfur til lagaheimildar þeirrar sem liggi skerðingunni til grundvallar.

Í ljósi þess að unnt sé að beita vægara úrræði en útilokun á möguleikum stefnanda til nýtingar á veiðirétti sínum og í ljósi þess hve þungbær skerðingin sé, verði að telja að ekki sé óhjákvæmileg nauðsyn fyrir eignarskerðingunni, en Hæstiréttur hafi gert slíkar kröfur til laga sem skerði stjórnarskrárvarin réttindi, sbr. hrd. 2006, bls. 1776.

Þá hafi dómstólar gert kröfu um að vægara úrræði sé valið ef fleiri en ein leið standa til boða að sama markmiði og þær teljist allar fýsilegar, sbr. hrd. 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008 og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 12. október 2004 í máli nr. 60669/00.

Fyrir liggi að áskilnaður fiskveiðilöggjafarinnar um veiðileyfi taki til allra.  Þannig þurfi allir sem hyggist stunda fiskveiðar í atvinnuskyni að uppfylla sömu skilyrði til úthlutunar veiðileyfa, hvort sem þeir hyggist stunda nefndar veiðar í netlögum eða annars staðar, þ.e. innan eigna annarra eða utan netlaga í fiskveiðilögsögunni.  Með þessum hætti sé stefnanda gert að afla sér leyfa til þess að nýta sér eign sína, sams konar leyfa og aðrir geti aflað sér til þess að nýta sér þessa sömu eign stefnanda.  Þar með sé ljóst að löggjöf þessi bitni með sérstökum hætti á eignarréttindum stefnanda umfram þá sem ekki eiga jarðir sambærilega við jörð stefnanda.

Ekki verði séð hvernig það vald sem stefndi hafi tekið sér til þess að heimila öðrum aðilum notkun eignar stefnanda geti talist til almennra takmarkana á eignarrétti.

Stefnandi bendi á að eignarrétti í netlögum jarða fylgi ýmsir hagsmunir jarðareiganda aðrir en réttur hans til veiða í netlögum jarðar sinnar og réttur hans til að hindra aðra í að stunda veiðar innan netlaga.  Þannig geti jarðareigandi haft hagsmuni af nýtingu jarðefna innan netlaga, s.s. kalkþörungavinnslu.  Þá kynni eigandi jarðar að vilja stunda fiskeldi, kræklingarækt eða þangskurð innan netlaga jarðar sinnar.  Óheftar veiðar annarra aðila geti farið í bága við þessa hagsmuni jarðareiganda, þar sem veiðar óviðkomandi aðila séu ósamrýmanlegar annarri nýtingu landeiganda innan þess svæðis er falli undir netlög jarðar hans.  Að lokum megi nefna að veiðar óviðkomandi aðila í netlögum jarðar geta jafnframt raskað hagsmunum landeiganda sem felast í nýtingu jarðarinnar sjálfrar, s.s. í tengslum við ferðaþjónustu og náttúruvernd, en hávaði og sjónmengun vegna veiða í netlögum kynni að raska slíkri starfsemi landeiganda.

Stefnandi segir að fyrri kröfuliður aðalkröfu varakrafna stefnanda lúti að því að stefnandi geti stundað grásleppuveiðar í netlögum jarðar sinnar án sérstaks leyfis til grásleppuveiða samkvæmt 7. gr. l. nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.  Takmarkanir á veiði grásleppu séu ekki á því byggðar að vernda þurfi stofninn fyrir ofveiði.  Þær skorður sem eignarrétti og atvinnufrelsi stefnanda séu settar séu í athugasemdum með 7. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 79/1997 réttlættar með vísan til hagsmuna markaðarins.

Ljóst sé að þær takmarkanir á eignarrétti stefnanda sem felist í skilyrðum laga um sérstakt veiðileyfi vegna grásleppuveiða verði ekki réttlættar með vísan til nauðsynjar eða almannahagsmuna.  Sömu sögu sé að segja um atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjskr.  Það sé hlutverk stefnda að sýna fram á að takmarkanir á veiði grásleppu byggist á sjónarmiðum sem geti talist til almannahagsmuna.  Þá verði að telja að með því að ofangreind mannréttindi stefnanda séu takmörkuð til hagsbóta fyrir þá aðila sem eigi hagsmuna að gæta vegna markaðsverðs grásleppuhrogna sé brotið gegn 65. gr. stjskr.

Að lokum byggir stefnandi á því að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum og fyrir dómi.  Þegar handhafar eignarréttar séu sviptir eignum sínum skuli setja annaðhvort almenna eða sérstaka lagaheimild til eignarnáms tiltekinna eignarréttinda.  Viðkomandi stjórnvald taki síðan ákvörðun um hvort nota skuli heimildina.  Sé slík ákvörðun tekin gefist eignarnámsþola kostur á að gæta réttar síns fyrir stjórnvöldum og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Stjórnvaldið kveði síðan upp rökstuddan úrskurð, sem eignarnámsþoli geti leitað ógildingar á fyrir dómi.  Stefnandi njóti ekki þessara réttinda, þar sem farið hafi verið aftan að honum með löggjöf þar sem ekki sé minnst á netlög, hvorki í lagatexta né undirbúningsgögnum löggjafarinnar.  Ekkert mat hafi farið fram á vegum löggjafans á því hvort almenningsþörf krefðist þess, að greind réttindi eigenda sjávarjarða yrðu af þeim tekin.  Það sé ekki hlutverk dómstóla að framkvæma þetta mat á fyrsta stigi, enda þótt dómstólum beri að gæta þess að slíkt mat hafi farið fram og við það hafi verið gætt réttra sjónamiða.  Þetta brjóti gegn ákvæði 70. gr. stjskr. um réttláta málsmeðferð og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sama efni.

Varðandi lagarök vísar stefnandi m.a. til jafnræðisákvæðis 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, ákvæðis 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð, eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar, laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ákvæða Jónsbókar 1281 um netlög, tilskipun um veiði á Íslandi 20. júní 1849, tilskipun fyrir Ísland 12. febrúar 1872 um síldar- og upsaveiði með nót, laga nr. 39/1914 um beitutekju, vatnalaga nr. 15/1923, laga nr. 63/1954 um fuglaveiðar og fuglafriðun, laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiðar, laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum á hafsbotni, laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, skipulags- og byggingalög nr. 73/1997, laga 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis og jarðalaga nr. 81/2004, vatnalaga nr. 20/2006, laga nr. 58/2006 um fiskrækt, laga nr. 57/2006 um eldi vatnsfiska og laga nr. 61/2006 um lax- og silungaveiðar.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Stefnandi byggir kröfu sína um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

IV

Stefndi byggir á því að vísa beri kröfum stefnanda sjálfkrafa frá dómi án kröfu.  Stefndi vísar til þess að með dómi Hæstaréttar 31. október 2007 í máli nr. 554/2007 hafi fyrra máli stefnanda gegn stefnda verið vísað frá héraðsdómi.  Ekki verði betur séð en að forsendur í dómi Hæstaréttar eigi enn við.  Kröfugerð stefnanda varði ekki lögmæti tiltekinnar ákvörðunar stefnda gagnvart stefnanda.  Grundvöllur allra krafna stefnanda í máli þessu séu fiskveiðar í atvinnuskyni, en kröfugerðin taki ekki til annars konar veiða eða nýtingar á eign stefnanda.  Ekki liggi fyrir að stefnandi hafi stundað fiskveiðar í atvinnuskyni eða hafi áform um slíkar veiðar.  Kröfugerðin hljóti við þessar aðstæður að vera beiðni um lögfræðilega álitsgerð, andstætt 25. gr. laga nr. 91/1991.  Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á hvaða lögvarða hagsmuni hann eigi til að afla sér viðurkenningardóms um kröfur þær sem hann heldur uppi.

Annar liður aðalkröfu og tilbrigði við hana í einstökum varakröfum sé ótvírætt beiðni um lögfræðilega álitsgerð.  Þótt stefndi veiti almenn veiðileyfi og úthluti aflaheimildum, séu þau almenn og aflaheimildir miðaðar við tilteknar veiðar.  Leyfin og heimildirnar séu ekki sérstaklega veittar til veiða í netlögum, þótt þau séu innan fiskveiðilögsögunnar.

Þótt netlög séu innan fiskveiðilögsögunnar í skilningi laga nr. 116/2006, þar sem leyfi og aflaheimildir þurfi til veiða, geti veiðar annarra verið háðar leyfi landeiganda einnig.  Verði talið að stefnandi eigi einkarétt til veiða innan netlaga verði ágreiningur um veiðar annarra ekki bornar undir dóm nema á það reyni eða einhver deila sé uppi, svo sem 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geri ráð fyrir.  Óvíst sé um hvers konar ágreiningur yrði þá uppi og jafnframt óvíst um hvort eða undir hvaða kringumstæðum stefndi gæti átt aðild að slíku máli.  Ekki sé getið um nokkur tilvik í stefnu eða gögnum málsins þar sem reynt hafi á veiðar annarra í netlögum stefnanda.  Stefnandi eigi enga lögvarða hagsmuni af því að afla dóms þess efnis að stefnda sé óheimilt að veita leyfi og heimildir til veiða enda reyni ekki á hugsanlegan ágreining um réttarstöðu í netlögum við það eitt að ákvörðun sé tekin um veiðileyfi eða aflaheimildum úthlutað, veiðar bundnar við svæði eða aðrar takmarkanir, sbr. 24. gr. og 26. gr. laga nr. 91/1991 varðandi þennan kröfulið stefnanda.

Þá sé kröfugerð stefnanda mjög óljós þar sem aðeins sé vísað í tiltekin lagaákvæði sem hann telji sig vera óbundinn af.  Ekki sé t.d. vísað í 6. gr. a laga nr. 116/2006 þar sem mælt sé fyrir um heimildir til strandveiða, en til þeirra þurfi sérstakt leyfi.  Þá geri kröfugerðin engan greinarmun á veiðum sem háðar séu leyfum og aflaheimildum og þeim veiðum sem gætu verið heimilar án leyfa.  Kröfugerðin geri heldur ekki ráð fyrir að munur kunni að vera á eftir því hvaða veiðiaðferðum sé beitt og jafnframt um hvaða tegundir nytjastofna væri um að ræða.  Kröfugerðin sé því of víðtæk og endurspegli ekki endilega málatilbúnað stefnanda að öðru leyti.  Vegna þess hve reglur laga um veiðar almennt geta verið margbrotnar vanti einnig að kröfugerðin afmarki hvað átt sé við með fiskveiðum í atvinnuskyni.

Stefndi byggir kröfu um sýknu á því að fullveldisréttur íslenska ríkisins á grundvelli stjórnarskrárinnar sé nánar afmarkaður sem svæði í lögum nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.  Þar sé fullveldisrétti ríkisins lýst í efnahagslögsögunni, lögsögu þar og öðrum réttindum og skyldum samkvæmt alþjóðalögum.  Lögin gangi því lengra en svo að lýsa einvörðungu fullveldi ríkisins, enda sé þar að finna ýmis ákvæði um lögsögu og tilkall þess til hagsmuna.  Í lögum nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins komi fram að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nái samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki.  Nái hugtakið auðlind til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera.

Netlög að íslenskum rétti séu ekki hin sömu þegar borið sé niður í einstökum réttarreglum sem lýsi t.d. heimildum eiganda lands sem liggur að sjó.  Enn séu talin í gildi ákvæði úr íslenskum fornlögum, einkanlega um fiskveiðar.  Í seinni tíma löggjöf, lögum nr. 73/1990, jarðalögum nr. 81/2004, lögum nr. 64/1994 um vernd friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og öðrum lagaákvæðum sem nefnd séu í stefnu, hafi netlög oft verið talin 115 metrar, en þá einskorðuð við tilteknar heimildir sem þar sé mælt fyrir um.  Veiðitilskipun frá 1849 mæli á hinn bóginn fyrir um netlög í 60 faðma frá stórstraumsfjöruborði.

Dómar Hæstaréttar 1996, bls. 2518 og 2005 hafi slegið því föstu að miða beri netlög til fiskveiða í sjó við þá reglu 2. kapítula rekabálks Jónsbókar að netlög teljist „utast er selnet stendr grunn XX möskva djúpt at fjöru ok koma þá urr ór sjá.”  Talið hafi verið að rök standi hér til að miða við stórstraumsflóðmál.  Þannig verði að miða almennt við dýptarreglu Jónsbókar þegar að fiskveiðum kemur og nytjastofnum sjávar til veiða eftir fiskveiðistjórnarlögum eins og þeir séu skilgreindir þar í 2. gr.  Jörð stefnanda hljóti því að fylgja einkaréttur til fiskveiða í samræmi við þetta, nema um tilteknar tegundir, sem sérlög gildi um.  Gildi þá einkarétturinn í samræmi við framangreinda reglu Jónsbókar vegna fiskveiða og nýtingar stofna eftir fiskveiðistjórnarlögum sem og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997 með þeim skilyrðum sem lög setji að öðru leyti, t.d. um veiðileyfi og veiðiheimildir.

Kröfu stefnanda um að netlög teljist til hafsvæðisins 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði sé mótmælt þar sem ekki séu lagaskilyrði til þess.  Að sama skapi séu eignarheimildir stefnanda takmarkaðar.  Ugglaust verði að telja netlögin heyra til jarðarinnar en mismunandi horfi við um stærð þeirra og umfang eftir því hvar borið sé niður eða um hvaða heimildir sé að ræða.

Stefndi byggir á því að ekki sé unnt að játa stefnanda einkarétt til nýtingar náttúruauðlinda eins og krafist sé til fiskveiða í atvinnuskyni þar sem verulegar lögbundnar takmarkanir séu á heimildum til nýtingar.

Stefndi telji að stefnandi eigi í sjálfu sér einkarétt til fiskveiða í netlögum sínum svo lengi sem hann hafi tilskildar heimildir að lögum.  Þannig verði stefnandi að sæta sömu takmörkunum og aðrir við veiðar.  Hafi það verið viðtekin túlkun að landeigandi eigi einn veiði í eða á vatni sem landi tilheyri, þ. á m. í netlögum, og að hið sama gildi um veiði í og á sjó með þeim takmörkunum sem gildi um veiðar í atvinnuskyni.  Stefndi hafi litið svo á að lögvarin réttindi annarra og/eða aðrir lögvarðir hagsmunir gætu leitt til þess að mönnum væri óheimilt að stunda veiðar á ákveðnum svæðum innan fiskveiði­landhelginnar þótt þeir hefðu tilskilin veiðileyfi og veiðiheimildir.  Stefnandi verði að afla veiðileyfis og veiðiheimilda fiski hann í netlögum í atvinnuskyni.  Þá sé óhjákvæmilegt að binda einkarétt til veiða þeim skorðum sem leiða af hrd. 1996, bls. 2518 og hrd. 28. apríl 2004 í máli nr. 455/2004.

Með útgáfu veiðileyfa og veitingu aflaheimilda séu veiðar í netlögum ekki sérstaklega viðurkenndar nema að því leyti sem felist í stjórnsýslu þeirri sem undir stefnda heyri á grundvelli laga.  Landeigandi gæti því bannað veiðar þótt fyrir hendi væru almenn veiðileyfi og aflaheimildir.  Stefndi hafi á engan hátt brotið gegn eignarréttindum eða öðrum réttindum stefnanda með útgáfu leyfa og úthlutun heimilda.

Hvað varðar heimildir til veiða í atvinnuskyni telur stefndi, varðandi fyrri lið aðalkröfu stefnanda, að stefnandi telji sig sérstaklega óbundinn af þeim skilyrðum og fyrirmælum sem fram komi í greindum lagaákvæðum, en miði í reynd ekki að annars konar veiðum.

Stefndi vísar til þess að með lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða séu nytjastofnar á Íslandsmiðum lýstir sameign þjóðarinnar og sé markmið laganna að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.  Nytjastofnar á Íslandsmiðum séu hreyfanlegir og engir stofnar haldi sig einvörðungu innan netlaga.  Það sé mat löggjafans að vernda þurfi fiskimiðin og löggjafinn leggi einnig mat á efnahagslegt mikilvægi þess að hafa stjórn á veiðum, sbr. hrd. 2000, bls. 1534.  Nytjastofnar á Íslandsmiðum, sem lýstir séu sameign þjóðarinnar, séu því ekki eign stefnanda eða hluti af gæðum jarðar hans þótt unnt væri að veiða úr þeim í netlögum.

Lög nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands lýsi þeim tilgangi að stuðla að viðgangi og hagkvæmri nýtingu nytjastofna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.  Lögin mæli fyrir um að til fiskveiðilandhelgi Íslands teljist hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún sé skilgreind í lögum nr. 41/1979 og að aðeins þeim skipum sem leyfi hafi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða með síðari breytingum sé heimilt að stunda veiðar í fiskveiðilandhelginni.  Þá sé áskilið að sérstakt leyfi Fiskistofu þurfi til grásleppuveiða.  Heimilt sé að binda grásleppuveiðar og aðrar veiðar skilyrðum, sbr. og ákvæði reglugerða sem mæli sérstaklega fyrir um veiðar á tilteknum tegundum.  Málefnaleg sjónarmið liggi að baki takmörkunum á grásleppuveiðum, hvort heldur verndarsjónarmið eða vernd markaða.

Stefndi bendir á að stefnanda sé frjálst á grundvelli 6. gr. fiskveiðistjórnunarlaga að veiða í tómstundum til eigin neyslu.  Þótt fiskveiðar í atvinnuskyni sæti takmörkunum verði ekki séð í ljósi þessa að stefnandi hafi verið sviptur eignarréttindum sínum eða notum af jörð sinni.  Almennt séu atvinnuréttindi háð leyfum ýmiss konar hvort sem starfsemi fari fram á eignarlandi eða ekki.  Sérstök sjónarmið gildi um fiskveiðar í efnahags­lögsögunni á grundvelli laga nr. 116/2006 og nr. 79/1997.  Sama gildi um veiðar á öðrum tegundum.  Þá hafi Alþingi samþykkt 11. júní 2011 lög um skeldýrarækt.  Þar séu eignarlönd skilgreind með almennum hætti og netlög sérstaklega fyrir slíka starfsemi, þ.e. ræktunarleyfi og veiðar.  Kröfugerð stefnanda taki ekki til þessara laga.

Vegna grásleppuveiða hafi nauðsyn leyfa og heimilda sem og réttmæti laga sem þær varði gagnvart stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu verið viðurkennd með dómi Hæstaréttar sem fyrr sé vísað til og úrlausnar Mannréttindadómstóls Evrópu, sem sprottið hafi af því sama máli.

Stefndi vísar til þess að allt frá 19. öld hafi fiskveiðar verið takmarkaðar með lögum.  Á árinu 1984 hafi verið tekið upp nýtt fyrirkomulag við fiskveiðistjórn sem byggst hafi á úthlutun aflakvóta til einstakra skipa á grundvelli aflareynslu.  Kerfið hafi í upphafi verið lögleitt til eins árs fyrir árið 1984 með lögum nr. 82/1983.  Þau lög hafi verið framlengd þrívegis með nokkrum breytingum, allt þar til lög um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 hafi tekið gildi.  Þau lög hafi síðar verið endurútgefin með áorðnum breytingum sem lög nr. 116/2006.  Fyrir gildistöku laga nr. 82/1983 hafi því verið löng hefð fyrir því að takmarka aðgang að fiskimiðum og fiskistofnum og bönn og takmarkanir hafi ævinlega gilt innan netlaga sem utan.

Ljóst sé að um sé að ræða almennar takmarkanir á heimildum til fiskveiða, sem almennt gildi hafi og uppfylli jafnræðiskröfur, auk þess sem stefnandi hafi í engu verið sviptur réttindum.  Samkvæmt framlögðu þinglýsingarvottorði sé heimildarbréf stefnanda fyrir jörðinni frá nóvember 1984 og febrúar 1987.  Þá þegar hafi takmarkanir á atvinnuveiðum verið komnar til.  Þá segi í stefnu að fyrst árið 1993 hafi stefnandi orðið eigandi hluta jarðar sinnar, sem áður hafi verið í óskiptri sameign hans og sveitarfélagsins.  Almenn lög setji eignarrétti skorður á hverjum tíma sem stefnandi verði að sæta.  Engin grein sé gerð fyrir því í stefnu hvort eða hvaða atvinnu stefnandi hafi haft af nýtingu auðlinda í netlögum.  Þannig sé ósannað að eignarréttur, einkaréttur eða atvinnuréttur hans hafi verið skertur með lögum eða öðrum fyrirmælum.  Þá hafi engin yfirfærsla eignarréttar átt sér stað gagnvart stefnanda.

Kröfugerð stefnanda feli það í sér að hann telji sér heimilt að stunda veiðar og auðlindanýtingu án þess að hafa veiðileyfi og ótruflaður af lögboðnum aflaheimildum.  Stefndi telur að með dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2005 í málinu nr. 455/2004 hafi því verið slegið föstu að óhjákvæmilegt sé að hafa veiðileyfi og tilskildar aflaheimildir þótt veitt sé innan netlaga, hvort sem er af eiganda sjálfum eða í skjóli heimildar hans.  Þessi dómur, og aðrir sem þar sé vísað til, séu fordæmi fyrir því að ekki sé um skerðingu á eignarrétti að ræða.  Þá hafi verið um það dæmt að ákvæði laganna um veiðileyfi og úthlutun aflaheimilda fer ekki gegn jafnræðisreglu eða atvinnufrelsisákvæði stjórnar­skrárinnar.  Ekki dugi að vísa til mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafi þrengra gildissvið en stjórnarskráin.  Þá hafi úrskurður nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna ekki lagagildi eða gildi framar dómum Hæstaréttar.  Þá séu ótaldar ýmsar takmarkanir á veiðum sem stefnandi yrði að sæta t.d. um veiðarfæri, möskvastærð, veiðitímabil og ákvæði laga nr. 57/1996 um umgengni við nytjastofna sjávar.  Hæstiréttur hafi slegið því föstu að stjórn fiskveiða og úthlutun aflaheimilda á þann hátt sem gert sé helgist af málefnalegum sjónarmiðum, sem stríði ekki gegn þeim ákvæðum stjórnarskrár eða alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem stefnandi hafi vísað til.

Hvað varðar ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála sem stefnandi vísar til byggir stefndi á því að 72. gr. stjskr. verndi ekki meiri eignarrétt en þann sem leiði af réttarreglum.  Eigi það einnig við í tilviki stefnanda, að eignarréttur hans nái til ákveðinna heimilda eftir atvikum í netlögum, en sé að öðru leyti takmarkaður frá öndverðu eða í ljósi almennra réttarreglna hvers tíma.

Fallist dómurinn ekki á það byggi stefndi á því að um sé að ræða almennar takmarkanir á eignarrétti sem þola verði bótalaust.  Framangreindir dómar, auk hrd. 1998, bls. 4076, haggi ekki mati löggjafans um að nauðsyn beri til að takmarka veiðar og binda þær skilyrðum og leyfum.  Löggjöfin hafi ekki afnumið eignarréttindi eða einkarétt til veiða í netlögum stefnanda, þótt honum sé nauðsyn á að afla veiðileyfis, og veiðiheimilda og sæta takmörkunum eins og um aðrar veiðar dýra eða nýtingu auðlinda.

Enginn vafi sé á því að lög sem mæli fyrir um takmörkun veiða hafi verið talin samrýmanleg stjórnarskrá, hvort sem sé almennt eða á eignarlandi.  Þannig séu veiðar bæði takmarkaðar vegna þess að löggjafinn metur það svo að vernda þurfi tiltekna stofna eða friða með ýmiss konar fyrirmælum um veiðiaðferðir eða öryggissjónarmiða.  Þá er við að styðjast efnahagslegt mat löggjafans á tilhögun veiða á Íslandsmiðum.  Á sama hátt og almennt þyrfti veiðikort til dýraveiða á eignarlandi, eftir atvikum skotvopnaleyfi, og að veiði tiltekinnar tegundar væri heimil, gildi það einnig um veiðar í netlögum, þótt eigandi jarðar eigi í hlut.

Stefndi vísar til þess að í dómi Mannréttinda­dómstóls Evrópu 2. desember 2008 í máli nr. 40169/05 hafi ekki verið fallist á að krafa um veiðileyfi og aflaheimildir feli í sér sviptingu eignar í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmálann.  Dómstóllinn hafi í öllum atriðum fallist á að íslenskar dómsúrlausnir sem legið hafi til grundvallar kærunni, beint og óbeint, stæðust ákvæði sáttmálans og hafi kæran verið metin ótæk til frekari meðferðar.

Stefndi hafnar því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjskr., þar sem ekki sé um öldungis sambærileg tilvik að ræða, sbr. hrd. 3. desember 2009 í málinu nr. 121/2009.  Samanburður við heimildir þeirra sem eigi lönd að ám eða vötnum sé ekki marktækur.  Ýmist sé um hliðstæða aðstöðu að ræða þegar kemur að veiðileyfum eða takmörkunum veiða eða aðstæður eru ósambærilegar gagnvart jafnræðisreglum.  Að mati stefnda sé órökstutt á hvern hátt stefnandi telji á sér brotna jafnræðisreglu eða hvernig þær reglur megi verða kröfum hans til fulltingis.  Sama gildi um tilvísun stefnanda til 70. gr. stjórnarskrár eða 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.  Sú löggjöf sem takmarki eignarráð og nýtingarmöguleika stefnanda sé í fullu samræmi við 75. gr. stjórnarskrárinnar.  Stefnandi hafi enga grein gert fyrir því hvaða eða hvers konar atvinnumöguleikar hafi verið skertir.  Allar takmarkanir á veiðum og annarri nýtingu í löggjöf uppfylli skilyrði ákvæðisins um að lagaboð komi til og almannaþörf krefji.  Þá hafni stefndi því að á nokkurn hátt hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu.

Hvað varðar varakröfur stefnanda byggir stefndi mótmæli sín við þeim á sömu málsástæðum og gegn aðalkröfum stefnanda.  Engin rök standi til þess að miða við 60 faðma samkvæmt veiðitilskipuninni frá 1849, svo misjafnt sem netlög séu skilgreind.  Þá sé mótmælt að miða megi við stórstraumsfjöruborð, heldur beri að túlka reglu Jónsbókar þannig að miðað sé við stórstraumsflóðmál.  Ekki séu efni til að reikna út sérstaklega í metrum hver séu netlög eftir greindri reglu Jónsbókar enda gildi hún án frekari útlistana.  Varakröfur stefnanda sem ráðgeri útreikninga á reglunni séu því beiðni um lögfræðilega álitsgerð.  Telur stefndi þó að rök standi til þess að miða við sjónarmið að baki fjórðu varakröfu, en raunar sé þá miðað við 2,862 metra dýpi.

Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til 21. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Í máli þessu krefst stefnandi viðurkenningar á að honum sé heimilt að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni innan netlaga jarðarinnar Horns I í Hornafirði án þess að nota til þess skip sem fengið hefur almennt veiðileyfi, veiðiheimild og/eða sérstakt leyfi til grásleppuveiða, þrátt fyrir ákvæði 4. gr., 5. gr. og 2. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 og/eða ákvæði 4. og 7. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.  Einnig krefst hann viðurkenningar á því, að stefnda, íslenska ríkinu, sé óheimilt, án leyfis stefnanda, að veita almenn veiðileyfi, veiðiheimild og/eða sérstakt veiðileyfi til grásleppuveiða, til fiskveiða í atvinnuskyni innan netlaga jarðarinnar Horns I, þrátt fyrir ákvæði 2. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr. og 1. og 2. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 og/eða ákvæði 7. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Í báðum kröfuliðum er miðað við það aðallega að netlögin í þessu tilliti nái til hafsvæðisins 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði. Varakröfur stefnanda eru sama efnis og aðalkrafa hans, fyrir utan aðra viðmiðun á netlögum.

Eins og áður greinir hefur stefnandi áður höfðað mál á hendur stefnda til viðurkenningar á eignarráðum yfir netlögum jarðarinnar, á stærð þeirra mælt frá stórstraumsfjöruborði, á efnislegum heimildum sem í greindum eignarráðum felist og á því að honum sé heimilt að nýta auðlindirnar í netlögum án þess að þurfa til þess almennt veiðileyfi og veiðiheimild samkvæmt lögum.  Því máli var vísað frá dómi með dómi Hæstaréttar Íslands 31. október 2007.

Með málssókn þessari hefur stefnandi nú einskorðað kröfu sína við heimild til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni í netlögum jarðar sinnar og að stefnda sé jafnframt óheimilt, án hans leyfis, að veita veiðileyfi, veiðiheimild „og/eða“ sérstakt veiðileyfi til grásleppuveiða til fiskveiða í atvinnuskyni inna netlaga jarðarinnar. Þá eru dómkröfur stefnanda nú settar fram sem aðalkrafa, og I., II:, III., og IV. varakrafa, þar sem krafist er viðurkenningar á stærð netlaga jarðarinnar mælt frá stórstraumsfjöruborði.

Ekki verður séð að tilefni málssóknarinnar sé sérstakur ágreiningur við stefnda, heldur frekar að fá fram afstöðu dómstóla til þess hvort að lagareglur fiskveiðistjórnunarlaga um nauðsyn veiðileyfa og veiðiheimilda til handa landeigendum sjávarjarða séu í andstöðu við eignar- og einkarétt stefnanda til fiskveiða í netlögum. Eins og í hinu fyrra máli virðist því tilgangur málssóknar stefnanda aðallega vera að fá fram afstöðu dómstóla til þess hverjar séu efnislegar heimildir sem felist í eignarrétti að netlögum jarða sem liggja að sjó, þar á meðal stefnanda. 

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, getur sá sem hefur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum.  Þá segir í 1. mgr. sömu lagagreinar, að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli.

Kröfur stefnanda í máli þessu beinast ekki að lögmæti tiltekinna athafna stefnda eða ákvarðana hans, heldur miða þær að því að dómstólar gefi álit sitt á því hvað felist í eignarrétti hans, þrátt fyrir nánar tilgreind lög, sem stefnandi vísar valkvætt til í dómkröfum sínum, og hann virðist telja að takmarki þessi eignarráð hans. Þessi málatilbúnaður stefnanda er því í andstöðu við 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Þá eru dómkröfur stefnanda, eins og þær eru fram settar því marki brenndar að þær verða ekki teknar orðrétt upp í dómsorði, þar sem krafist er viðurkenningar á tilteknum réttindum þrátt fyrir tiltekin ákvæði laga nr. 116/2006 „og/eða“ tiltekin ákvæði laga nr. 79/1997, og dómnum þar með falið að velja hvað úr kröfugerð aðila hann taki til greina.  Er krafa stefnanda því svo óljós og óskýr að samræmist ekki 80. gr. laga nr. 91/1991, um skýra og glögga kröfugerð. 

Af þessum ástæðum verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi ex officio.

Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R S O R Ð :

Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.