Hæstiréttur íslands
Mál nr. 98/2000
Lykilorð
- Slysatrygging ökumanns
- Meðdómsmaður
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 14. september 2000. |
|
Nr. 98/2000. |
Hilmir Bjarki Auðunsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Slysatrygging ökumanns. Meðdómendur. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
H stöðvaði á umferðarljósum vélhjól sem hann ók. Þegar hann hélt af stað á ný kvaðst hann hafa misst stjórn á vélhjólinu þannig að hann ók með framhjólið á lofti í 100-140 metra, þar til vélhjólið skall á umferðareyju. H, sem slasaðist á handlegg við höggið, höfðaði mál á hendur vátryggingafélaginu T og krafðist bóta vegna líkamstjóns síns á grundvelli slysatryggingar ökumanns, sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Neitaði T greiðslu á grundvelli þess að H hefði vísvitandi ekið hjólinu á afturhjólinu einu og með því sýnt af sér stórfellt gáleysi. Talið var að við úrlausn málsins þyrfti að taka afstöðu til þess hvort T hefði sýnt nægilega fram á að ekki fengi staðist að ökumaður vélhjóls með sambærilega reynslu og H gæti af vangá misst stjórn á vélhjóli á þennan hátt. Var talið að dómara væri ófært að leysa úr málinu á grundvelli almennrar þekkingar sinnar, menntunar eða lagaþekkingar og hefði því héraðsdómara borið að kveðja til meðdómsmenn með sérkunnáttu á umræddu sviði, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem héraðsdómari lét það ógert var talið óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóminn og vísa málinu heim í hérað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. mars 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.809.242 krónur með 2% ársvöxtum frá 24. október 1997 til 25. febrúar 1999, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Málið á rætur að rekja til þess að áfrýjandi ók vélhjóli vestur Háaleitisbraut í Reykjavík 24. október 1997 um kl. 16. Við gatnamót Kringlumýrarbrautar nam hann staðar við umferðarljós, en hugðist fara þaðan í sömu átt eftir Háaleitisbraut upp brekku að Skipholti og beygja þar til hægri. Þegar áfrýjandi hélt af stað frá umferðarljósunum kveðst hann hafa tekið „kraftlega af stað“, eins og segir í héraðsdómsstefnu, og runnið við það aftur í sæti sínu með þeim afleiðingum að framhjól ökutækisins lyftist frá götu. Við þetta hafi hann misst tök á stjórntækjum vélhjólsins og ekkert annað getað en haldið sér í stýri þess. Hann hafi reynt að færa sig framar í sætinu, en ekki náð stjórn á vélhjólinu aftur. Í málinu hefur komið fram af hálfu áfrýjanda að vélhjólið hafi haldið áfram sem leið hans lá á afturhjólinu einu þar til hann var kominn nærri Skipholti. Hafi honum þá tekist að ná framhjólinu niður á ný, en vélhjólið þó allt að einu skollið á umferðareyju á miðju Skipholti við gatnamót Háaleitisbrautar. Hann hafi fengið við það högg á vinstri handlegg, sem olli úlnliðsbroti.
Fyrir liggur í málinu af hálfu áfrýjanda, sem er fæddur árið 1975, að hann hafði fyrir slysið reynslu af akstri vélhjóla um átta ára skeið. Vélhjólið, sem hann ók umrætt sinn, hafi hann keypt rúmum tveimur mánuðum áður, en ekki notað það um mánaðar skeið fyrir slysdag, þar sem hann hafi verið fjarverandi vegna starfa sinna sem sjómaður. Hafi hann því ekki haft teljandi reynslu af akstri þessa vélhjóls, sem var af gerðinni Suzuki, um 225 kg að þyngd og með 155 hestafla vél.
Í málinu leitar áfrýjandi greiðslu vegna líkamstjóns, sem hann hlaut af fyrrnefndi slysi, í skjóli slysatryggingar ökumanns, sem hann hafði aflað sér hjá stefnda vegna vélhjólsins samkvæmt ákvæði 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi reisir áfrýjandi kröfu sína á því að stefndi geti ekki vikið sér undan skyldu til að greiða bætur fyrir tjónið. Þótt slysið megi að einhverju leyti rekja til þess að áfrýjandi hafi ekki gætt fyllstu varúðar, geti það ekki varðað missi bótaréttar, enda hafi hann ekki við aksturinn sýnt af sér gáleysi, sem telja megi stórfellt. Stefndi byggir á hinn bóginn á því að áfrýjandi hafi í umrætt sinn vísvitandi ekið vélhjóli sínu á afturhjólinu einu, en með því hafi ökutækið orðið algerlega stjórnlaust, þar sem bæði stýri þess og hemlar voru óvirk. Þessa háttsemi áfrýjanda verði að telja stórfellt gáleysi, sem standi í vegi greiðsluskyldu úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt skilmálum þeirrar vátryggingar og ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.
Í ljósi þess, sem að framan greinir, verður við úrlausn málsins meðal annars að taka afstöðu til þess hvort stefndi hafi sýnt nægilega fram á að ekki fái staðist að ökumaður með reynslu áfrýjanda geti af vangá hafa misst þannig tök á stjórn vélhjóls þeirrar gerðar, sem hann ók umrætt sinn, að framhjól þess hæfist á loft gegn vilja hans og héldi áfram för í jafnvægi um 100 til 140 metra vegalengd upp brekku án þess að honum tækist að koma framhjólinu niður á götu á ný. Úr málsástæðum, sem að þessu lúta, er dómara ófært að leysa á grunni almennrar þekkingar sinnar, menntunar eða lagaþekkingar, heldur er þar þörf sérkunnáttu. Hefði héraðsdómara því borið að kveðja til meðdómsmenn, sem slíka kunnáttu hafa, til að eiga hlut að úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem héraðsdómari lét það ógert er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 9. febrúar, að loknum munnlegum flutningi, er höfðað fyrir dómþinginu af Hilmari Bjarka Auðunssyni, kt. 170275-3149, Höfðastíg 12, Bolungarvík á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, með stefnu þingfestri 11. mars 1999 .
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 2.809.242 krónur, ásamt 2% ársvöxtum frá 24. október 1997 til 25. febrúar 1999 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu, þar sem tekið verði mið af því að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og stefnda dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda, að mati dómsins.
II.
Hinn 24. október 1997 var stefnandi á bifhjóli sínu RF-497, á leið vestur Háaleitisbraut. Stefnandi stöðvaði hjólið á rauðu ljósi á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Er grænt ljós kom gaf stefnandi hjólinu vel inn eins og hann orðar það, og tók kraftlega af stað. Hjólið „prjónaði” og missti stefnandi stjórn á hjólinu með þeim afleiðingum að hjólið fór yfir umferðareyju við Skipholt og stefnandi féll af hjólinu. Bifhjól stefnanda er af Suzuki gerð og tryggt hjá stefnda.
Afleiðingar slyss þessa urðu þær, samkvæmt framlögðu læknisvottorði Gauta Laxdal, læknis, dagsett 9. desember 1998: „Við komu á Slysadeild kvartaði hann undan verkjum yfir vinstri úlnlið...Einungis var ástæða til þess að taka rtg. mynd af vinstri úlnlið og kom þá í ljós brot á fjærenda sveifar með lítilli styttingu en þó nokkurri baklægri sveigju. Á Slysadeild var kippt í brotið í deyfingu og þurfti tvær tilraunir til þess að fá góða legu á brotið. Fékk Hilmar viðeigandi spelku...” Stefnandi var síðan meðhöndlaður við brotinu næstu misseri á slysadeild.
Stefnandi krafði stefnda um bætur vegna umrædds slyss, en með bréfi stefnda, dagsettu 13. nóvember 1997, hafnaði stefndi bótaskyldu, þar sem félagið taldi stefnanda hafa valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi.
Hinn 12. mars 1998 var óskað eftir því af hálfu stefnanda, að tjónanefnd vátryggingafélaganna tæki málið til meðferðar. Niðurstaða nefndarinnar var að bótaskylda stefnda væri ekki fyrir hendi, þar sem um stórkostlegt gáleysi stefnanda væri um að kenna.
Hinn 20. október 1998 úrskurðaði Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, að beiðni stefnanda, að stefndi ætti ekki bótarétt á hendur stefnda vegna atviksins.
Hinn 18. febrúar 1999 mat Atli Ólason, læknir, örorku stefnanda, segir þar m.a.:„ Fyrir umferðarslysið 24.10.1997 var Hilmir Bjarki Auðunsson heilsuhraustur og hafði engin óþægindi frá úlnliðum.
Við slysið hlaut hann brot á fjarenda sveifarbeins með skekkju. Hilmir er örvhentur. Brotið greri í dálítilli rangstöðu. Í dag er sýnileg rangstaða á hendi, skert hreyfing og eymsli í liðnum og nokkur rýrnun á vinstri handlegg miðað við það sem búast mætti við af togarasjómanni. Varanlegur miski metinn 7% svo og hefðbundin læknisfræðileg örorka.
Við mat á varanlegri örorku er tekið mið af því að Hilmir er ómenntaður og hefur unnið erfiðisstörf fram til þessa. Hann hefur haft óþægindi við áreynslustörf á sjó en haldið út ennþá. Þó hyggur hann á að fara í land í léttari störf. Gera má ráð fyrir að vinnuúthald Hilmis til erfiðisstarfa, sérstaklega á sjó, sé skert. Varanleg örorka er metin hin sama og miski.
Við mat á tímabundnu atvinnutjóni er miðað við upplýsingar Hilmis sjálfs og stuðst við læknisvottorð Gauta Laxdal um að hann hafi verið um það bil þrjá mánuði frá vinnu. Þjáningartími er miðaður við sama tíma. Hann var ekki til meðferðar á sjúkrastofnun.
NIÐURSTAÐA:
Við umferðarslysið þann 14.10.1997 varð Hilmir Bjarki Auðunsson fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:
|
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein: |
Þrír mánuðir......100% |
|
Þjáningabætur skv. 3. grein: |
Rúmliggjandi, ekkert. Batnandi, með fótaferð, þrír mánuðir. |
|
Varanlegur miski skv. 4. grein: |
7% |
|
Varanleg örorka skv. 5. grein: |
7% |
|
Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: |
7%” |
Stefnandi kvaðst ekki hafa öðlast mikla reynslu sem togarasjómaður, en þó unnið sem togarasjómaður hálft árið 1996 og árið 1997 fram að því er slysið varð. Stefnandi kvaðst og hafa verið á sjó árið 1998 og haft af því góðar tekjur. Hann hafi þó þurft að leggja mjög hart að sér við störf sín vegna slæmsku í hendinni. Vegna máttleysis og þreytuóþæginda í hendi hafi hann hins vegar orðið að hætta til sjós og starfi nú tímabundið sem sölumaður.
III.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að samkvæmt skilgreiningum 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sé bifhjól hans vélknúið ökutæki. Er slysið varð hafi stefnandi verið við stjórn þess ökutækis.
Stefnandi hafi gert samning við hið stefnda félag um ábyrgðartryggingu samkvæmt 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og einnig sérstaka slysatryggingu ökumanns, ökutækisins RF-497, samkvæmt 92. gr. umferðarlaga. Þessar tryggingar hafi verið í fullu gildi er slysið varð.
Stefnandi byggir kröfu sína á því, að hann hafi orðið fyrir líkamlegum áverkum við slysið, sem ökumaður bifhjólsins, RF-497.
Stefnandi byggir á því að hann hafi gætt fyllsta öryggis við aksturinn. Hann hafi bæði verið með hjálm og í leðurgalla, sem varið hafi hann gegn frekari áverkum. Stefnandi kveðst ekki hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þó svo hann hafi tekið af stað á hjólinu af miklum krafti umrætt sinn, og hjólið „prjónað”. Þá hafi leðurgalli hans ekki loðað nægjanlega vel við sætið. Stefnandi hafi ekki skapað hættu fyrir aðra vegfarendur með akstri sínum, þar sem vegur hafi verið auður.
Samkvæmt grundvallarreglum bótakafla umferðarlaga geti það ekki skipt máli þó að hann hafi verið svo óheppinn að hjólið „prjónaði”, sem stafað hafi af því hversu aftarlega hann hafi setið í sæti bifhjólsins og hann hafi runnið aftur í sætinu er hann tók af stað. Við þetta hafi hann misst af fótstiginu og þar með misst stjórn á hjólinu.
Stefnandi heldur því fram að þó svo að orsök slyssins sé ef til vill að einhverju leyti því að kenna að stefnandi hafi ekki gætt fyllstu varúðar, geti það ekki varðað hann missi bóta. Slysatrygging ökumanns eigi einmitt við í slíkum tilvikum, en stefnandi hafi ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi vátryggingaréttar.
Stefnandi bendir og á og fullyrðir, að ökumenn bifreiða hafi hingað til fengið bætur samkvæmt 92. gr. umferðarlaga, er þeir hafi ekið aftan á aðra bifreið eða ekið útaf og í öðrum tilvikum, þar sem ökumenn hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.
Stefnandi byggir og á því, að stefnda beri að greiða honum bætur samkvæmt 92. gr. umferðarlaga jafnvel þó að hann hafi sýnt af sér sök. Sú regla gildi í vátryggingarétti, að félagið hafi sönnunarbyrði um það hvort stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Engin sönnunarfærsla eða könnun, hvorki á hjóli stefnanda né búningi hans, hafi farið fram af hálfu hins stefnda félags. Þá beri einnig að líta til þess að stórkostlegt gáleysi samkvæmt vátryggingarétti sé nánast lægsta stig ásetnings.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína með eftirfarandi hætti í stefnu:
|
Þjáningabætur, 700 x3649/3282 x 90 Er bótaliður þessi byggður á að stefnanda fór batnandi með fótaferð í 90 daga |
70.045 |
|
Miskabætur, 4.000.000 x 3649/3282 x 7% |
311.310 |
|
Bætur fyrir varanlega örorku: 3.210.213 x 106% |
3.402.825, frl. atvr. í iðgjöldum |
|
3.402.285 x 3649/3580, vísitöluhækkun =3.468.410 x 10 x 7% |
2.427.887 |
Stefnandi kveðst miða árslaun við heildarlaun sín árið 1997, er hann hafi verið á Hrafnseyrinni IS-10. Seinni hluta ársins 1996 hafi hann verið á skipi í eigu Bakka hf. Bolungarvík, en ekki fengið launamiða frá því fyrirtæki, svo ekki hafi verið unnt að reikna nákvæmlega út laun hans frá 24. október 1997 aftur til 24. október 1996.
Þá gerir stefnandi kröfu um að við ákvörðun málskostnaðar honum til handa verði tekið tillit til útlagðs kostnaðar 54.200 krónur vegna örorkumats og 15.930 krónur vegna læknisvottorðs.
Um lagarök vísar stefnandi til 92. gr. laga nr. 50/1987, hvað varði fébótaskyldu hins stefnda félags. Einnig vísar stefnandi til reglna vátryggingaréttar um sönnunarbyrði fyrir sök tjónþola og einnig til 18. og 20. greina vátryggingasamningalaga og ákvæða laganna um slysatryggingar.
Stefnandi vísar og til vátryggingaskilmála hins stefnda félags og reglugerðar nr. 307/1988.
Um fjárhæð bótakröfu og útreikning hennar vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum.
IV.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að aka bifhjóli sínu aðeins á afturhjólinu á einni fjölförnustu akbraut borgarinnar á annatíma. Ökutækið sé algerlega stjórnlaust með þess konar akstri, þar sem þýðingarmestu öryggistæki þess, hemlar og stýri, verði óvirk þegar framhjólið sé á lofti. Stefnandi hafi með aksturslagi sínu ekki einungis sett sjálfan sig í hættu heldur einnig aðra vegfarendur og hafi auðna ein ráðið að ekki hafi farið verr umrætt sinn.
Stefndi kveðst ekki fallast á þær skýringar stefnanda, að hjólið hafi „prjónað” vegna einhverrar óheppni. Telur stefndi að stefnandi hafi vísvitandi ekið eins og raun bar vitni og verði því að bera sjálfur ábyrgð á tjóni sínu. Hafa verði og í huga að stefnandi hafi ekið hjólinu tugi metra á afturhjólinu einu, sem styðji það mat stefnda að stefnandi hafi af ásetningi ekið með áðurgreindum hætti.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta, verði dæmt áfelli, og krefst þess að upphafstími dráttarvaxta verði frá dómsuppsögudegi.
V.
Óumdeilt er að stefnandi var vátryggður samkvæmt 92. gr. laga nr. 50/1987, er umrætt atvik átti sér stað. Ágreiningur aðila snýst um það hvort stefnandi hafi með aksturslagi sínu firrt sig bótarétti.
Samkvæmt framburði stefnanda er hann vanur ökumaður bifhjóls, en hafði þó ekki öðlast langa reynslu í að aka áðurgreindu bifhjóli. Kvaðst stefnandi hafa, skömmu fyrir umrætt atvik, borið á búning sinn feiti og því hafi búningurinn verið hálli en ella. Stefnandi hefur og fullyrt að bifhjól þeirrar tegundar, sem bifhjól stefnanda var, hafi verið hönnuð þannig að ökumenn renni auðveldlega aftarlega í sæti. Þessu til stuðnings hefur stefnandi lagt fram ljósmyndir af bifhjólum fyrrgreindrar tegundar og jafnframt myndir af fyrirhugaðri hönnunarbreytingu þessara bifhjóla, af fyrrgreindum sökum.
Viðurkennt er af stefnanda að hann hafi gefið hjólinu vel inn er grænt ljós tók að loga á götuvitanum við gatnamót Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar. Hlaut honum að vera það ljóst að með því átti hann á hættu að hjólið „prjónaði” og hann gæti misst stjórn á hjólinu. Þó svo að hjól stefnanda hafi verið þannig útbúið að hætta var á að ökumaður rynni aftarlega í sæti við þetta og lengri tíma tæki fyrir ökumann að ná aftur stjórn á ökutækinu, ber að fallast á það mat stefnda, að aksturslag stefnanda, eins og hann lýsir því, hafi verið háskalegt og til þess fallið að valda honum tjóni. Verður að telja að stefnanda hafi átt að vera það kunnugt og gera sér ljósar afleiðingar slíks aksturs. Samkvæmt framansögðu sýndi stefnandi af sér stórkostlegt gáleysi og hefur með því fyrirgert rétti sínum til bóta úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. laga nr. 50/1987 sbr. vátryggingaskilmála stefnda og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1954.
Ber því að fallast á sýknukröfu stefnda.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Hilmis Bjarka Auðunssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.