Hæstiréttur íslands
Mál nr. 228/2004
Lykilorð
- Víxill
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 18. nóvember 2004. |
|
Nr. 228/2004. |
Hjalti Jósefsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Kaupþingi Búnaðarbanka hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Víxilmál. Aðild.
Lánastofnunin K hf. krafðist þess að H yrði gert að greiða sér nánar tiltekna fjárhæð samkvæmt víxli sem var gefin út af E, samþykktur af F ehf. og ábektur af H. Taldi H meðal annars að K hf. hafi skort heimild til að fylla út víxileyðublaðið, að víxillinn sem áritaður var með orðunum án “afsagnar” hafi ekki verið sýndur innan setts frests og að víxillinn hafi ekki verið á fullnægjandi hátt samþykktur af H fyrir hönd F ehf. Talið var að K hf. hafi haft fulla heimild til að ljúka útfyllingu víxileyðublaðsins á grundvelli sérstakrar yfirlýsingar sem var áföstu víxlileyðublaðinu. Þá var H ekki talinn hafa sýnt fram á að víxillinn hafi ekki verið sýndur innan setts frests. Að því er snerti samþykki H fyrir hönd F hf. staðfesti H fyrir dómi undirritun sína. Samkvæmt þessu var fallist á kröfu K hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2004. Hann krefst þess krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Bú áfrýjanda var tekið til gjaldþrotaskipta 28. september 2004. Hefur áfrýjandi lagt fram yfirlýsingu skiptastjóra í þrotabúinu þar sem kemur fram að hvorki þrotabúið né lánardrottnar muni taka við aðild að málinu samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Áfrýjandi rekur því málið samkvæmt 2. mgr. 130. gr. sömu laga.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hjalti Jósefsson, greiði stefnda, Kaupþingi Búnaðarbanka hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 26. mars 2004.
Mál þetta höfðaði stefnandi, Kaupþing-Búnaðarbanki hf., Austurstræti 5, Reykjavík, gegn stefnda, Hjalta Jósefssyni, Melavegi 5, Hvammstanga, 8. desember 2003.
Kröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða bankanum 15.298.923 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 28. október 2003 til greiðsludags. Krefst stefnandi vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. nefndra laga er leggist við höfuðstól. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
I.
Mál þetta er til komið vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 0312-26-0151 í útibúi Búnaðarbanka Íslands hf. (nú Kaupþings-Búnaðarbanka hf.) í Búðardal. Til tryggingar yfirdrættinum undirritaði Erik Jensen, Lóni, Hörgárbyggð, víxileyðublað sem útgefandi, samþykkjandi var Ferskar Afurðir ehf. og þá ritaði stefndi nafn sitt sem ábekingur. Á víxileyðublaðið var rituð fjárhæðin 22.000.000 króna og þá voru orðin „án afsagnar“ í prentuðum texta þess.
Framangreindir aðilar undirrituðu einnig yfirlýsingu, dags. 30. maí 2002, en í henni sagði: „Viðfest víxileyðublað er hér með afhent Búnaðarbanka Íslands hf. til tryggingar á yfirdráttarskuld samþykkjanda á tékkareikningi hans nr. 151 við bankann. Víxileyðublaðið er útfyllt með fjárhæð kr. __________ og áritað af samþykkjanda og útgefanda (og ábekingum), en óútfyllt hvað varðar útgáfudag og gjalddaga. Verði vanskil á yfirdráttarskuldinni er Búnaðarbanka Íslands hf. heimilt að breyta skuldinni ásamt dráttarvöxtum og kostnaði í víxilskuld með útfyllingu þessa víxileyðublaðs að því er varðar útgáfudag og gjalddaga og gera það þannig að fullgildum víxli. Útfyllingarheimild þessi er óafturkallanleg og gildir til 3. júlí 2004.“
Yfirdráttarskuld á áðurnefndum tékkareikningi fór í vanskil og lauk stefnandi þá við að fylla út víxileyðublaðið með þeim hætti að útgáfudagur var ritaður 13. október og gjalddagi 21. október 2003.
Stefnda var ritað innheimtubréf þann 5. nóvember 2003 vegna skuldarinnar og skorað á hann að greiða hana. Það gerði stefndi ekki og höfðaði stefnandi því mál þetta.
II.
Stefnandi segir mál þetta rekið sam
kvæmt XVII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Tekur bankinn sérstaklega fram að hann heimili ekki aðrar varnir í málinu en heimilar séu samkvæmt ákvæðum nefnds kafla laganna.
Stefnandi kveður kröfur sínar byggja á einum víxli sem útgefinn hafi verið af Erik Jensen, 13. október 2003, til tryggingar á yfirdráttarheimild á tékkareikningi. Víxillinn sé að fjárhæð 22.000.000 króna og hafi hann verið samþykktur til greiðslu af Ferskum Afurðum ehf., sem nú sé orðið gjaldþrota, og ábektur af stefnda. Eftirstöðvar til innheimtu 28. október 2003 hafi numið 15.298.923 krónum.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til víxillaga nr. 93/1933, einkum VII. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls.
Þá tekur stefnandi fram að bankinn sé ekki virðisaukaskattskyldur en til þess verði að líta sem og skyldu hans til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, sbr. ákvæði laga nr. 50/1988, við ákvörðun málskostnaðar bankanum til handa.
III.
Stefndi heldur því fram að skjal það sem stefnandi segi víxil, fullnægi ekki formskilyrðum víxillaga. Í 1. - 8. tl. 1. gr. víxillaga nr. 93/1933 sé tæmandi talið hvað í víxli skuli greina. Tilvitnað skjal hafi hins vegar fleiri yfirlýsingar að geyma svo sem „yfirlýsingu um heimild til útfyllingar“. Skjal þetta sé því ekki víxill heldur samkomulag um hvernig ákveðið víxileyðublað eigi að fylla út ef til vanskila komi. Þá segi í yfirlýsingunni að víxileyðublaðið sé útfyllt með krónu, sbr. bókstafina kr. Með vísan til þessa segir stefndi umrætt skjal ekki hafa víxilgildi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 93/1933, og því séu ekki skilyrði til að höfða málið sem víxilmál samkvæmt 117. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi vísar til þess að í „yfirlýsingu um heimild til útfyllingar“ sé ekki veitt heimild til að fylla víxilinn út með fjárhæðinni 22.000.000 króna. Með því að rita nefnda fjárhæð á víxilinn hafi stefnandi farið út fyrir þá heimild sem stefndi hafi veitt honum. Fullyrðir stefndi að málsástæða þessi komist að þar sem yfirlýsing sú sem mótmælin byggi á sé lögð fram í málinu með víxileyðublaðinu. Í þessu sambandi vísar stefndi jafnframt til grundvallarreglu viðskiptabréfaréttarins um að beri viðskiptabréf mótbáru með sér þá sé hún tæk sem varnir í málinu af hálfu skuldara bréfsins.
Þá byggir stefndi á því að um greiðslu víxla og fullnustu vegna greiðslufalls gildi strangar reglur, sbr. VI. og VII. kafla víxillaga. Þegar þeim ákvæðum sleppi taki við reglur kröfuréttarins um viðskiptabréf. Stefndi segir að þó útgefandi víxilsins hafi gefið hann út með því að skrifa undir áritunina „án afsagnar“ hafi hann átt rétt á að fá tilkynningu um hvenær og hvar greiða ætti víxilinn og bendir stefndi sérstaklega á í þessu sambandi að um sé að ræða svokallaðan eyðuvíxil. Þessa tilkynningu hafi stefndi aldrei fengið. Þá verði að hafa í huga að um tryggingarvíxil sé að ræða sem ekki hafi haft neinn gjalddaga er stefndi ritaði nafn sitt á víxileyðublaðið. Af þessum sökum hafi stefndi ekki fengið vitneskju um að skjalið hafði verið sett í innheimtu og þá hafi hann ekki fengið tilkynningu um að greiða ætti víxilinn 21. október 2003 í útibúi stefnanda í Búðardal.
Stefndi heldur því fram að hið umdeilda skjal hafi fyrir gjalddagann, 21. október 2003, verið sent Kristni Hallgrímssyni hrl., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, til innheimtu á yfirdráttarskuld Ferskra Afurða ehf. Víxillinn hafi því ekki verið á greiðslustað á greiðslutíma og af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, sbr. ákvæði 1. mgr. 53. gr. víxillaga. Um þetta atriði kveður stefndi stefnanda hafa sönnunarbyrði samkvæmt grunnreglum viðskiptabréfa en víxillinn og yfirlýsingin beri það ekki með sér að hafa verið til staðar í útibúi stefnanda þann 21. október 2003. Stefnandi verði að leggja fram fullgilda sönnun þess að víxillinn hafi verið í útibúinu á greindum degi. Sú staðreynd að víxillinn hafi verið án afsagnar leysi stefnanda ekki undan þeirri skyldu heldur auki hún þvert á móti þýðingu skyldunnar, sbr. ákvæði 2. mgr. 46. gr. víxillaga, sbr. 53. gr. laganna.
Stefndi kveðst einnig reisa sýknukröfu sína á því að víxillinn hafi engan útgáfudag. Fram komi á skjalinu að útgáfudagur sé 13. október en ártal skorti. Verði það hins vegar niðurstaða dómsins að skjalið hafi útgáfudag þá verði að telja hann 30. maí 2002. Þar sem víxileyðublaðið hafi verið afhent 30. maí 2002 sé sá dagur hinn raunverulegi útgáfudagur og ekki sé heimilt að semja um annað, sbr. ákvæði 34. gr. víxillaga. Frá síðastnefndum degi til 21. október 2003 sé meira en eitt ár og því hafi skjalið ekki víxilgildi.
Af hálfu stefnda er jafnframt á því byggt að víxillinn hafi ekki verið samþykktur. Aðeins hafi verið stimplað á víxilinn með prentstöfum „pr. pr. Ferskar Afurðir ehf.“. Víxileyðublaðið sé því ekki undirritað af greiðanda víxilsins. Þrátt fyrir að stefndi hafi skrifað á víxileyðublaðið sem ábekingur felist ekki í þeirri áritun samþykki víxilsins fyrir hönd Ferskra Afurða ehf. eða að stefndi eða útgefandi hafi undirritað víxilinn fyrir greiðanda hans.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi auk þess sem þegar hefur verið rakið til meginreglna kröfuréttarins um viðskiptabréf, svo sem þeirrar meginreglu að greiðslustaður sé á heimili kröfuhafa viðskiptabréfs sem staðfesti mikilvægi þess að skuldari sé látinn vita á gjalddaga um hvar bréfið sé varðveitt svo hægt sé að koma greiðslu til kröfuhafa með sannanlegum hætti og helst árita bréfið um greiðsluna.
IV.
Í málinu er upplýst að 13. október 2003 lauk Stefán Jónsson, útibústjóri stefnanda í Búðardal, við að fylla út víxileyðublað það sem bankanum var afhent 30. maí 2002, til tryggingar á yfirdrætti á tékkareikningi nr. 151 í bankanum, með því að rita á eyðublaðið útgáfudag, 13. október, og gjalddaga, 21. sama mánaðar. Það gerði útibústjórinn á grundvelli yfirlýsingar, dags. 30. maí 2002, sem áföst er hinum umdeilda víxli en efni yfirlýsingarinnar er rakið orðrétt í kafla I hér að framan.
Stefnandi hafði samkvæmt efni ofangreindrar yfirlýsingar heimild til að ljúka við útfyllingu víxileyðublaðsins. Með því að rita útgáfudag og gjalddaga á skjalið gerði útibústjóri bankans það að fullgildum víxli enda skjalið að útfyllingu lokinni í fullu samræmi við kröfur þær sem gerðar eru til víxla í 1. gr. víxillaga nr. 93/1933.
Í greinargerð er á því byggt af hálfu stefnda að stefnandi hafi ekki haft heimild til þess að fylla víxilinn út með fjárhæðinni 22.000.000 króna. Þar sem stefndi upplýsti sjálfur fyrir dómi að búið hefði verið að rita nefnda fjárhæð á víxileyðublaðið þegar hann ritaði á það sem ábekingur er ekki byggjandi á umræddri málsástæðu í málinu.
Sönnun þess að víxill, sem áritaður er með orðunum „án afsagnar“, hafi ekki verið sýndur innan setts frests hvílir á þeim er bera vill það fyrir sig gagnvart víxilhafa, sbr. lokamálslið 2. mgr. 46. gr. víxillaga nr. 93/1933.
Í málinu hefur stefnandi lagt fram afrit bréfs útibús bankans í Búðardal til Fulltingis ehf., lögfræðiþjónustu, dags. 28. október 2003. Samkvæmt móttökustimpli var bréfið móttekið af Fulltingi ehf. 31. sama mánaðar, en af efni bréfsins má ráða að því hafi fylgt frumrit hins umdeilda víxils. Þá hefur stefnandi einnig lagt fram afrit tilkynningar sem ber með sér að víxillinn hafi verið sendur í lögfræðiinnheimtu 29. október 2003.
Stefndi hefur hvorki leitt vitni né lagt fram gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu að frumrit víxilsins hafi ekki verið í útibúi stefnanda í Búðardal á gjaldaga, en samkvæmt áritun á víxilinn var útibúið greiðslustaður víxilsins. Stefán Jónsson útibústjóri fullyrti hins vegar fyrir dómi að víxillinn hefði verið í útibúinu á gjalddaga. Þá benda áðurnefnd afrit til þess að víxillinn hafi verið sendur frá útibúi stefnanda 28. eða 29. október 2003. Fullyrðing stefnda um að víxillinn hafi ekki verið á greiðslustað á gjalddaga er því ósönnuð.
Frumrit víxilsins ber með sér að útgáfudagur hans var 13. október 2003. Fyrir dómi lýsti Stefán Jónsson útibústjóri því yfir að hann hefði lokið við að fylla víxileyðublaðið út þennan dag og meðal annars ritað útgáfudag víxilsins. Að þessu virtu, og þar sem fullyrðing stefnda um að ártalið 2003 hafi verið ritað síðar á víxilinn er engum gögnum studd, þykir við úrlausn málsins verða að miða við að víxillinn hafi verið gefinn út 13. október 2003 eins og frumrit hans ber skýrlega með sér.
Á víxlinum og hinni viðfestu yfirlýsingu gefur að líta stimpil með árituninni „pr.pr. Ferskar Afurðir ehf. kt. 590500-2590“. Stefndi staðfesti fyrir dómi að hann hefði ritað stafina „H Jós“ ofan í þennan stimpil og má greinilega sjá þá stafi á umræddum skjölum. Samkvæmt þessu liggur fyrir í málinu að víxillinn var á fullnægjandi hátt samþykktur af stefnda fyrir hönd Ferskra Afurða ehf. en óumdeilt er í málinu að til þess hafði hann fulla heimild.
Í málinu liggur ekki fyrir sönnun þess að stefnda hafi borist vitneskja um gjalddaga og greiðslufall víxilsins fyrr en með innheimtubréfi Fulltingis ehf., dags. 5. nóvember 2003, en stefndi staðfesti fyrir dómi að hann hefði fengið bréf þetta í hendur, en óljóst er hvenær það var nákvæmlega. Að því virtu og með vísan til 3. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 þykir rétt að miða upphafsdag dráttarvaxta við málshöfðunardag, þ.e. 8. desember 2003.
Í 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er kveðið á um að ef vaxtatímabil er lengra en tólf mánuðir án þess að vextir séu greiddir skal leggja þá við höfuðstól og reikna nýja vexti af samanlagðri fjárhæð. Því er óþarft að kveða á um höfuðstólsfærslu vaxta á tólf mánaða fresti í dómsorði.
Samkvæmt öllu því sem rakið hefur verið dæmist stefndi til að greiða stefnanda stefnufjárhæð málsins, 15.298.923 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. desember 2003 til greiðsludags.
Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar þykir rétt að taka mið af því að samhliða máli þessu var rekið mál á hendur útgefanda hins umdeilda víxils, mál nr. E-9/2004, stefnandi gegn Erik Jensen. Að því virtu þykir málskostnaður til handa stefnanda úr hendi stefnda hæfilega ákvarðaður 250.000 krónur.
Benedikt Bogason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Hjalti Jósefsson, greiði stefnanda, Kaupþingi-Búnaðarbanka hf., 15.298.923 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 8. desember 2003 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.