Hæstiréttur íslands

Mál nr. 615/2006


Lykilorð

  • Birting
  • Áfrýjunarheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. mars 2007.

Nr. 615/2006.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Birting. Áfrýjunarheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

X var ákærð fyrir skjalafals og var dómur í málinu birtur henni 12. október 2006. Var strikað undir orðin ,,Ég uni dómi“ í texta sem hún undirritaði ásamt birtingarmanni og færður var með stimpli á endurrit dómsins. Af hálfu ríkissaksóknara var sama endurrit dómsins áritað viku síðar um að honum yrði ekki áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins. Nokkru síðar lýst verjandi X því yfir að hún hefði ákveðið að áfrýja dóminum og var tekið fram að hún hefði ekki tekið afstöðu til áfrýjunar málsins við móttöku dómsins. Ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu, en krafðist þess að málinu yrði vísað frá Hæstarétti sökum þess að X hefði áður lýst því með bindandi hætti að hún yndi hinum áfrýjaða dómi. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt áðurgreindum texta hefði X lýst því yfir við birtingarmann að hún yndi niðurstöðu dómsins. Samkvæmt 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991, sem talin var eiga við með lögjöfnun, teldist efni þessa birtingarvottorðs rétt þar til hið gagnstæða sannaðist. Var ekki talið að X hefði hnekkt því sem fram kæmi í vottorðinu og því lagt til grundvallar að hún hefði gefið umrædda yfirlýsingu og með því afsalað sér rétti til málskots svo bindandi væri. Áfrýjun héraðsdóms af hennar hendi, sem síðar var lýst yfir, var þessu ósamþýðanleg og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð. Þá krefst hún þess að ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar verði endurskoðað.

Hinn áfrýjaði dómur var uppkveðinn í þinghaldi 27. september 2006 og var ákærða þar ekki stödd. Dómurinn var birtur henni 12. október sama ár og eftirfarandi texti, sem hún undirritaði ásamt birtingarmanni, færður með stimpli á endurrit dómsins: „Framanskráður dómur er birtur mér í dag. Ég hef tekið við leiðbeiningum um rétt til áfrýjunar og áfrýjunarfrest og verið kynnt rækilega skilyrði frestunar refsingar og afleiðingar skilorðsrofa. Ég uni dómi / tek áfrýjunarfrest.“ Strikað var undir fyrri orðin þrjú í lokamálslið þessa texta og yfir tvö síðustu orðin. Af hálfu ríkissaksóknara var sama endurrit dómsins áritað 19. október 2006 um að honum yrði ekki áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins. Með bréfi til ríkissaksóknara 25. sama mánaðar tilkynnti verjandi ákærðu að hún hafi ákveðið að áfrýja dóminum. Því svaraði ríkissaksóknari með bréfi 27. sama mánaðar, þar sem vísað var til þess að ákærða hafi við birtingu dómsins lýst því að hún yndi honum og ríkissaksóknari í framhaldi af því ritað á endurrit hans að honum yrði ekki áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins. Með þessu hafi dómurinn orðið endanlegur og yrði áfrýjunarstefna því ekki gefin út vegna yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Verjandi ákærðu ítrekaði þessa yfirlýsingu hennar í bréfi til ríkissaksóknara 14. nóvember 2006, þar sem greint var frá því að hún hafi ekki verið kvödd fyrir dóm til að vera stödd við uppkvaðningu héraðsdóms. Í bréfinu sagði síðan: „Svo er það að aðili/stefnuvottur birtist á heimili X til að birta henni ofantilgreindan dóm og bað hana um að kvitta fyrir móttöku á dómnum. Þessi heimsókn kom mjög á X og áritaði hún að hún hefði móttekið dóminn. X segist alls enga afstöðu hafa tekið til áfrýjunar máls við móttöku dómsins en henni er með öllu ókunnugt um áfrýjunarmöguleika málsins – enginn hafði upplýst X um hennar réttarstöðu og möguleika á að bera málið undir Hæstarétt. ... Eins og málið liggur fyrir hefur X af hreinni vankunnáttu sett nafn sitt á rangan stað á hinu staðlaða birtingarvottorði – X hefur aðeins tekið eina ákvörðun vegna þessa dóms og er sú ákvörðun að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.“ Í framhaldi af þessu gaf ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu, en hann krefst þess af hálfu ákæruvaldsins að málinu verði vísað frá Hæstarétti sökum þess að ákærða hafi áður lýst því svo að bindandi sé að hún yndi hinum áfrýjaða dómi.

Samkvæmt áðurgreindum texta, sem færður var með stimpli á endurrit hins áfrýjaða dóms, hefur ákærða lýst því yfir við birtingarmann að hún yndi við niðurstöðu dómsins. Svo sem áður kom fram hefur ákærða borið því við að hún hafi enga slíka yfirlýsingu gefið. Samkvæmt 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem á hér við með lögjöfnun, telst efni þessa birtingarvottorðs rétt þar til það gagnstæða sannast. Ákærða hefur engar sönnur fært til að hnekkja því, sem fram kemur í vottorðinu. Verður af þessum sökum að leggja til grundvallar að hún hafi gefið þá yfirlýsingu, sem þar er greint frá, og með því afsalað sér rétti til málskots svo að bindandi sé. Áfrýjun héraðsdóms af hennar hendi, sem síðar var lýst yfir, var þessu ósamþýðanleg. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Ákærða, X, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 141.627 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 27. september 2006.

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri  20. janúar 2006, á hendur X, kt. [...], Reykjavík,

,,fyrir skjalafals, með því að hafa í mars 2005 selt KB banka hf., skuldabréf að fjárhæð kr. 535.000.- með skálfskuldarábyrgð, sem ákærða gaf út 8. mars 2005 og falsaði með því að rita nafn A, kt. [...], í reit fyrir samþykki sjálfskuldarábyrgðarmanns á láninu.

Ákæruvaldið telur háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæruvaldið krefst þess að ákærða verði dæmdur til refsingar. ”

Verjandi ákærðu krefst þess að hún verði sýknuð af kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærðu verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og verði refsing dæmd þá verði hún bundin skilorði. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málið var þingfest þann 17. mars s.l., en ákærða boðaði þá forföll og var málinu frestað til 28. mars.  Þann dag kom ákærða fyrir dóminn og óskaði eftir því að henni yrði skipaður verjandi í máli þessu. Var málinu frestað til 8. maí s.l. Aðalmeðferð fór fram þann 13. september s.l. og var málið dómtekið sama dag.

Málsatvik:

             Samkvæmt gögnum málsins kærði A þann 26. júlí 2005 til rannsóknardeildar lögreglunnar á Selfossi nafnritun sína sem sjálfskuldarábyrgðaraðila á skuldabréf sem ákærða gaf út þann 8. mars 2005. Skuldabréf þetta var að fjárhæð kr. 535.000.- og gefið út til KB banka til fimm ára með mánaðarlegri afborgun í fyrsta sinn 1. apríl 2005. Bar skuldabréfið samtals 14.95% vexti.  Auk A hafði B, kt. [...] einnig ritað á bréfið sem sjálfskuldaraðili. Sagðist A ekki hafa vitað um skuldabréf þetta fyrr en hún fékk tilkynningu um vanskil á því í pósti frá KB banka í júní s.l. Sagði A fyrir lögreglu að hún hefði einu sinni skrifað uppá skuldabréf fyrir ákærðu auk þess að vera í ábyrgð vegna yfirdráttar hennar. 

             Þann 12. september 2005 mætti ákærða til lögreglunnar á Egilsstöðum í skýrslutöku. Sagði hún  þar í lögregluskýrslu að hún kannaðist við umrætt skuldabréf. Kveður hún skuldabréfið hafa komið til af því að yfirdráttarheimild hennar hjá KB banka hafi verið að renna úr gildi. Hún kvað yfirdráttarheimildina hafa verið kr. 440.000.- og hafi A verið ábyrgðarmaður vegna hennar. Segir hún að A hafi verið fulljóst að hún þurfti að taka umrætt lán. Segir hún að hún hafi ritað nafn A á skuldabréfið en hafi talið sig hafa samþykki hennar fyrir því, sérstaklega af því að þetta lán var í raun framlenging á yfirdrætti hennar. Kvað hún sig og A hafa verið góðar vinkonur á þessum tíma en hún kvaðst hafa notað sitt nafn til að fá yfirdrátt, en þær hafi báðar notið góðs af honum. Segir hún að síðan hafi slettst upp á vinskapinn og þær farið í sitt hvora áttina. Segir ákærða að um tíma hafi umrætt lán farið í vanskil sökum lítillar útborgunar hjá henni. Á sama tíma hafi A verið að reyna að fá lán í banka en verið synjað sökum vanskila á þessu láni sem hér er um rætt. Hún kveðst telja að það sé ástæðan fyrir því að þessi kæra hafi verið lögð fram. Hún segir aðspurð að hún hafi ritað nafn A á bréfið en aðrir hafi ritað nöfn sín sjálfir á bréfið. Segir ákærða að vitundarvottarnir hafi ekki verið viðstaddir undirritanir á skuldabréfið.  Segir ákærða að hún hafi fengið skuldabréfið í bankanum og hafi farið með það heim, þar hafi hún beðið eftir A, sem ætlaði að setja nafn sitt á bréfið. Þar hafi bréfið verið fyllt út. Hún kveður A hafa tafist og helgin verið að nálgast og því hafi hún freistast til að rita nafn A á bréfið, aðallega til að koma því í bankann fyrir helgina. Hún kveðst síðan hafa farið með það í bankann þar sem tekið var við bréfinu. Hún kveður andvirði skuldabréfsins hafa verið lagt inn á reikning nr. 191078 hjá KB banka á Selfossi sem sé í hennar eigu.  Ákærða hvað skuldabréfið vera í skilum þegar umrædd lögregluskýrsla var tekin. Ákærða segir í skýrslunni að hún hafi aldrei ætlað að láta þetta lán falla á einn eða neinn.

Í lögregluskýrslu sem tekin var af vitninu kemur fram að hann hafi skrifað nafn sitt á umrætt skuldabréf sem vottur að undirritun útgefanda og gert það í góðri trú um að allt væri rétt gert. Segir hann að ákærða hafi komið með skuldabréfið á vinnustað hans og D á Selfossi snemma þessa árs og fengið þá til að vera vitundarvotta á skuldabréfinu og kvaðst C hafa skrifað nafn sitt á það. Vitnið segist ekki hafa vitað um að nafn A hafi verið falsað. Kvaðst hann vita hver A og B væru en kvaðst þekkja ákærðu í gegnum D.

Í lögregluskýrslu kemur fram hjá vitninu D að hann þekki umrætt skuldabréf og kannast við undirskrift sína á bréfið. Hann skýrði frá því að í byrjun árs 2005 hafi ákærða hafi komið á vinnustað hans og C að [...] á Selfossi og beðið þá um að skrifa nöfn sín á skuldabréfið sem vitundarvottar. Kvaðst D hafa skrifað nafn sitt sem vottur að réttri dagsetningu og undirritun útgefanda. Hann kvað sjálfskuldarábyrgðarmenn ekki hafa verið á staðnum en nöfn þeirra A og B hafi verið komin á skjalið þegar ákærða kom með það til hans og því hafi hann ekki verið vitni að þeirri undirritun.  D kvað það líklega hafa verið í maí 2005 að A hafi hringt í hann og sagt honum frá því að hún hafi verið að fá tilkynningu um vanskil á skuldabréfi sem hún hafi ekki haft neina hugmynd um. D kvaðst þá hafa hringt í X og spurt hana út í skuldabréfið og fengið þau svör frá X að henni þætti allt í lagi að skrifa sjálf nafn A á skuldabréfið því hún hafi gert slíkt áður. Jafnframt kvað D X hafa sagt honum að ástæðan fyrir því að hún ritaði nafn A á skuldabréfið hafi verið þá að hún hafi þurft að koma bréfinu áfram með hraði og hún hafi verið að redda sér fyrir horn. 

Þann 17 október 2005 var aftur tekin skýrsla hjá lögreglunni á Selfossi af A.  Segir hún í þeirri skýrslu að hún hafi enga hugmynd haft um umrætt skuldabréf sem ákærða gaf út og skráði A sem sjálfskuldarábyrgðaraðila á. Hún kvaðst heldur ekki hafa gefið ákærðu neitt vilyrði fyrir því að vera í ábyrgð fyrir frekari skuldum. Fyrstu vitneskju sína af þessum skuldabréfi kvað hún hafa verið  í júní síðastliðnum  þegar hún fékk tilkynningu um vanskil skuldabréfins.

Sagði vitnið að hún væri ábyrgðarmaður á öðru skuldabréfi fyrir ákærðu en það sé algjörlega ótengt þessu skuldabréfi sem nafn hennar hafi verið falsað á.  Í þessari lögregluskýrslu er það borið undir vitnið að ákærða hafi borið að hún hefði verið að bíða eftir vitninu til að skrifa undir skuldabréfið þar sem hún hafi ætlað sér að gera það. Vitnið kvað þetta ekki rétt, hún hafi aldrei gefið ákærðu vilyrði fyrir því að skrifa undir skuldabréf og ákærða aldrei nefnt þetta skuldabréf við hana.

Þann 18. október 2005 gaf B kt. [...], Selfossi skýrslu hjá lögreglunni á Selfossi og segir í þeirri skýrslu að hún hafi undirritað umrætt skuldabréf sem sjálfskuldarmaður. Hafi hún verið stödd heima hjá ákærðu að [...] á Selfossi í byrjun marsmánaðar 2005 þegar ákærða bað hana um að vera annar ábyrgðarmaður á skuldabréfi þessu. Vitnið kvað ákærðu hafa sjálfa skrifað nafn A sem fyrsta ábyrgðarmann, hún hafi séð það með eigin augum. Sagði vitnið að ákærða hefði sagt við hana að hún hefði leyfi A til að skrifa nafn hennar á skuldabréfið.

Segir B í skýrslunni að fyrr þennan sama dag hafi ákærða verið heima hjá henni, en íbúðir þeirra væru á sama stigagangi á móti hvor annari að [...] og [...]. Þar kvað hún ákærðu hafa verið að skrifa nafn A oft á blað. Vitnið kvaðs hafa spurt ákærðu að því af hverju hún væri að skrifa nafn A svo oft. Vitnið sagði að ákærða hefði sagt henni að hún ætlaði að fá lán og hún þyrfti ábyrgðarmenn. Sagði ákærða vitninu að hún hefði fengið leyfi hjá A til að nota nafn hennar á skuldabréfið.  Segir vitnið í umræddri lögregluskýrslu að hún hafi hringt í A um kvöldið þennan dag sem ákærða hafi skrifað nafn hennar á skuldabréfið og spurt hana í símann hvort hún hafi gefið ákærðu leyfi til að nota nafn hennar sem ábyrgðarmann á skuldabréfið. Kvað vitnið að A hafi neitað því og ekki viljað trúa henni. Það hafi svo ekki verið fyrr en í vor að  A hafi hringt í hana og spurt frekar út í skuldabréfið enda hafi hún þá verið að fá tilkynningu frá bankanum um vanskil.

Vitnaskýrslur fyrir dómi.

Við aðalmeðferð máls þessa gaf ákærða skýrslu, einnig vitnin A, B, D og C.

Ákærða játti því aðspurð fyrir dóminum að hún hefði skrifað nafn A sem sjálfskuldaraðila á skuldabréfið. Hún hafi tekið skuldabréfið hjá KB banka til að greiða niður yfirdrátt sem hún hefði verið með hjá bankanum. Sagði hún að hún hafi fengið leyfi A til að skrifa nafn hennar á bréfið. Hún sagðist hafa talað við A í síma og fengið heimild hennar til að rita nafn hennar á þann hátt. A hafi ekki komist til hennar í tæka tíð til að undirrita bréfið sjálf og því hafi þessi ákvörðun verið tekið til að koma skuldabréfinu til bankans þar sem yfirdráttarheimild hennar hafi verið að falla niður. Ákærða neitaði því að hafa æft sig í að skrifa nafn A heima hjá vitninu B. Sagði hún að D og C hefðu vottað bréfið sama dag og hún undirritaði það. Ákærða staðfesti fyrir dómi að A hefði verið ábyrgðarmaður á yfirdráttarskuld hennar hjá KB banka en hún hefði breytt þeirri skuld yfir í skuldabréfalán. Sagði hún að í hvert sinn sem yfirdráttur hennar hefði hækkað,  “ yfirdrátturinn hafi orðið til í mörgum bitum”, þá hafi A komið með henni í bankann til að undirrita með eigin hendi ábyrgð sína.  Sagði ákærða að yfirdrátturinn hafi orðið til vegna þess að ákærða og A hafi notað reikning ákærðu til neyslu fyrir þær báðar. Yfirdrátturinn hafi verið kominn í um 500.000.- krónur eða meira.  Sagði hún að yfirdrátturinn hefði átt að falla úr gildi 1. mars og bankinn hefði ekki viljað framlengja hann þar sem hún hafi ekki haft neinar tekjur. Ákærða sagði að A hafi ekki heldur haft neinar tekjur og því hafi verið samkomulag þeirra á milli að taka lán til að greiða upp yfirdráttarskuldina.  Ákærða fullyrðir að hún hafi talið sig hafa heimild frá A til að skrifa hennar nafn á skuldabréfið, öðruvísi hefði hún ekki gert þetta.   Sagði ákærða að þegar bankinn hafi verið búinn að kaupa skuldabréfið þá hafi vantað rúmlega þrjú þúsund krónur uppá að yfirdrátturinn hafi verið fullgreiddur. Ákærða segist fyrst hafa fengið vitneskju um að A hafi kært undirritun hennar þegar lögreglan kallaði hana til yfirheyrslu í september 2005.  Ákærða sagði að bréf þetta hefði aldrei verið rætt neitt sérstaklega á milli ákærðu,  A eða B eftir að það hafi verið keypt af bankanum. Ákærða sagði að bréfið hefði farið í vanskil sumarið 2005 en hún hafi náð að koma því aftur í skil.

Vitnið B kom fyrir dóminn og staðfesti að hún hefði sjálf áritað nafn sitt á umrætt skuldabréf sem sjálfskuldaraðili. Sagði hún að ákærða hefði hins vegar verið að æfa sig á því að skrifa nafn a heima hjá vitninu. Hún sagðist hafa hringt í A og spurt hana hvort hún hafi vitað um nafnritun hennar á skuldabréfið. Sagði hún að A hafi brugðist þannig við að hún hafi ekki sagst trúa henni.  Vitnið sagðist hafa hringt í A sama kvöld og hún undirritaði skuldabréfið sjálf. Sagðist hún hafa talið að skuldabréfið hafi átt að fara til greiðslu á skuldum ákærðu. Taldi vitnið að hér væri um nýtt lán að ræða hjá ákærðu.  Vitnið sagðist ekki vita til þess að umrætt bréf hafi verið rætt sérstaklega eða skuldir ákærðu þegar þær, vitnið, ákærða og A hittust eftir útgáfu skuldabréfsins. Ítrekaði vitnið að hún hafi talið að ákærða hafi verið að taka lán til að bjarga skuldunum sínum.  Vitnið segist ekki hafa heyrt ákærðu hringja í A til að fá heimild til að undirrita skuldabréfið.

Vitnir A kom fyrir dóminn. Sagðist hún aðspurð fyrst hafa fengið vitneskju um bréfið í apríl 2005 hélt hún. Hún hafði fengið tilkynningu frá bankanum um að hún hafi skrifað undir þetta bréf en hafði ekki áttað sig á því að umrædd tilkynning hafi verið vegna þessa bréfs sem ákært er fyrir heldur vegna yfirdráttar sem hún var í ábyrgð fyrir fyrir ákærðu. Vitnið neitar því að B hafi hringt í sig og sagt henni frá því að ákærða hafi skrifað nafn hennar á skuldabréf. Neitar hún að yfirdráttur ákærðu hafi verið notaður til sameiginlegrar framfærslu þeirra þegar vitnið var statt hjá ákærðu. Vitnið neitar því að hafa gefið samþykki sitt fyrir því að vera í sjálfskuldarábyrgð fyrir nýju láni hjá ákærðu í þeim tilgangi að gera upp yfirdrátt ákærðu, ákærða hafi aldrei nefnt það við hana.  Vitnið neitar aðspurð af verjanda að hún hafi verið á framfærslu ákærðu þegar hún var í heimsókn hjá henni. Vitnið segir varðandi yfirdráttinn að ákærða hafi sagt henni að hún ætti um milljón í peningum í banka sem myndi losna um haustið sem ætti að fara í að greiða upp yfirdráttinn. Því hafi yfirdráttarskuldin átt að vera tímabundin. Sagði vitnið að þegar hún fékk tilkynninguna frá bankanum í apríl þá hafi hún dregið þá ályktun að um tilkynningu hafi verið að ræða sem tilheyrði yfirdráttarskuldinni. Vitnið var staðfast í framburði sínum um að hún hafi litið á tilkynninguna, sem hún fékk í apríl 2005 tilheyrandi þeirri ábyrgð sem hún var í vegna  yfirdráttar ákærðu. Hún hafi ekki sett það í samhengi við nýtt skuldabréf. Það hafi ekki verið fyrr en hún hafi fengið tilkynningu í júní  2005 frá bankanum um vanskil á umræddu skuldabréfi sem hún hafi gert sér grein fyrir því að um aðra skuld væri að ræða en yfirdráttarskuld ákærðu. Í framhaldi hafi hún haft samband við bankann sem hafi upplýst hana um skuldabréfið og leiðbeint henni um það að kæra til lögreglu áritun hennar. Þá bera bæði vitnin B og D að A hafi hringt í þau þegar hún fékk tilkynninguna um vanskilin og rætt við þau að ákærða hafi notað nafn hennar á skuldabréfið.

             Vitnið D, kom fyrir dóminn. Kannaðist hann við undirritun sína á skuldabréfið sem vottur. Sagði hann að búið hefði verið að undirrita skuldabréfið, af ákærðu, A og B þegar ákærða kom með bréfið til sín.  Hann hafi á þeim tímapunkti ekki hafa vitað annað en að í lagi væri með allar undirskriftir. Hann sagðist ekkert hafa vitað um tilurð nafnritunar A fyrr en hún hafi hringt í sig um sumarið, júní eða júlí 2005 og sagt honum að ákærða hafi notað nafn hennar án leyfis hennar. Sagði hann að ákærða hefði sagt sér að A hafi leyft henni að nota nafn hennar á skuldabréfið, hún hafi gert það áður og það hafi alltaf verið í lagi. Aðspurður sagði vitnið að þau hafi kannski hist í eitt skipti heima hjá ákærðu eftir útgáfu skuldabréfsins en fjármál ákærðu hafi ekki verið rædd. Sagðist hann lítillega vita um fjármál ákærðu en ekki að A hafi verið í ábyrgðum fyrir ákærðu fyrr en eftir að A hafði haft samband við sig þegar hún fékk vitneskju um tilurð skuldabréfsins. Vitnið neitaði að A hefði nefnt það við sig að skuldabréfið hafi verið til greiðslu á yfirdráttarskuld ákærðu, það hafi verið ákærða sem hefði sagt vitninu að skuldabréfið hafi verið til greiðslu á yfirdrætti hennar.

             Vitnið C, kt. [...], Selfossi kom fyrir dóminn. Kannaðist vitnið við undiritun sína sem vitundarvottur á skuldabréfið en man ekki eftir því hverjir voru búnir að undirrita bréfið þegar hann vottaði undirskriftir.

 Niðurstöður:

             Samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal sá sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum sæta fangelsi allt að 8 árum. Þá segir í 2. málslið 1. mgr. að það skuli einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.

             Viðurkennt er af hálfu ákærðu að hún ritaði nafn A á skuldabréf nr. 063007 útgefið 8. mars 2005 sem sjálfskuldarábyrgðarmann. Auk þess liggur fyrir, bæði með játningu ákærðu og yfirlýsingu frá KB banka að umrætt skuldabréf var keypt af bankanum þann 17. mars 2005 og að  sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingin hafi verið felld niður 13. maí 2005.  Því eru skilyrði 1. mgr. 155. gr. laga nr. 19/1940 uppfyllt, þ.e. að nafnritunin átti sér stað og skuldabréfið var notað í lögskiptum ákærðu og KB banka.  Þá ber að skoða hvort ákærða var í góðri trú um að henni hafi verið heimilt að skrifa nafn A á skuldabréfið án þess að hafa til þess skriflegt umboð.  Í viðskiptabréfareglum er gert ráð fyrir því að þeir sem taka á sig skuldbindingar undirriti með eigin hendi nafn sitt nema til þess sé veitt sérstakt umboð. Er einnig gert ráð fyrir því að vitundarvottar votti réttar dagsetningar, undirskriftir og fjárræði aðila. Í þessu tilviki voru ábyrgðarmenn búnir að undirrita skuldabréfið þegar vottun fór fram. Ákærða upplýsti vitundarvottana ekki um það að hún hefði sjálf ritað nafn A á skuldabréfið.  Hefur vottunin því lítið gildi við sönnun í máli þessu nema þá að hún styðji ásetning ákærðu um að misnota nafnritun A. Öll framkvæmd ákærðu í máli þessu ber með sér, sérstaklega með það fyrir augum sem vitnið B bar fyrir lögreglu og dóminum að ákærða hafi verið að æfa sig í að skrifa nafn A á blað fyrr um daginn, að ásetningur hafi verið hjá ákærðu um að notfæra sér nafn A á skuldabréfið til hagsbóta fyrir sig í viðskiptum við KB banka.

Ákærða upplýsti í dóminum að yfirdráttur hennar á reikningi 191078 hafi verið að fara í lögfræðiinnheimtu og hafi verið yfir 500.000 þúsund krónur.  Nýja skuldabréfið var hins vegar til 5 ára með mánaðarlegri afborgun. Skipti skuldabréf þetta ákærðu því miklu máli fjárhagslega og því var um fjárhaglegan ávinning að ræða hvað hana varðar. Ákærða hélt því fram fyrir dóminum að A hafi haft fjárhagslegan ávinning af útgáfu þessa skuldabréfs og hafi það því verið henni í hag að það hafi verið selt bankanum. Að öðrum kosti væri hún sennilega að fá á sig fleiri hundruð þúsund króna kröfur frá bankanum sem ábyrgðarmaður fyrir yfirdráttarskuldinni.  Slíkt er með öllu ósannað í máli þessu og hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

Framburður vitnisins A fyrir dóminum var í fullu samræmi við skýrslu hennar hjá lögreglu. Þrátt fyrir að verjandi hafi ítrekað reynt að rugla vitnið með því að halda því fram að umrætt skuldabréf og yfirdráttarskuld ákærðu hafi í raun verið ein og sama skuldin og þess vegna bæri vitnið líka ábyrgð á skuldabréfinu, þá var vitnið stöðugt í þeim framburði sínum að þegar hún fékk fyrsta bréfið frá bankanum um að hún hefði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á umræddu skuldabréfi þar sem fjárhæð bréfsins kom fram, þá hafi hún talið að sú tilkynning tengdist yfirdráttarskuldinni og því hafi hún ekki aðhafst neitt í framhaldi af því bréfi. Hún hafi verið alls grunlaus um að um nýja skuld gæti verið að ræða. Það hafi ekki verið fyrr en hún hafi fengið tilkynningu um vanskil bréfsins að hún hafði samband við bankann til að fá skýringar á vanskilunum að henni hafi verið ljóst um hvað málið snerist.  Er sá framburður hennar trúverðugur, meðal annars með hliðsjón af því að fjárhæð yfirdráttarins var þá orðinn rúmlega fimm hundruð þúsund krónur en fjárhæð skuldabréfsins 535.000.- krónur og dugði rétt tæplega upp yfirdráttarskuldina samkvæmt framburði ákærðu. Einnig styður það framburð vitnisins að hún hafði samband bæði við B og D í framhaldi af því að hún fékk tilkynninguna frá bankanum um vanskilin um sumarið 2005 og sagði þeim að hún hefði ekki haft vitneskju um að ákærða hefði notað nafn hennar.

Vitnið B hélt því fram, bæði hjá lögreglu og fyrir dóminum að hún hefði orðið vitni að því að ákærða æfði sig í því að rita nafn A á blað. Bendir það eindregið til að ákærða hafi ætlað sér að kaupandi bréfsins sem var KB banki, gerði ekki athugasemdir við þá undirritun, tilgangurinn hefur augljóslega verið sá að blekkja í þeim lögskiptum. Er  því um augljósan ásetning að ræða og brotið fullframið. Ákærða hefur ekki sýnt fram á að samþykki A hafi legið fyrir þegar ákærða ritaði nafn hennar á skuldabréfið né að hún hafi veitt samþykki sitt síðar fyrir því og þykir því sannað í málinu að öllu framansögðu virtu, að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og því unnið til refsingar skv. 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði var ákærða dæmd  þann 24. september 2001 í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og í mars 2002 gerði ákærða sátt hjá lögreglustjóranum í Reykjavík vegna brota gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umfl. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og var svipt ökurétti í 2 mánuði auk þess að greiða 55 þúsund króna sekt í ríkissjóð. Hafa brot þessi ekki áhrif á ákvörðun refsingar nú.

Þegar allt það er virt sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, skal ákærða greiða málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns sem ákvarðast kr. 74.700.- Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Enginn annar sakarkostnaður hefur hlotist af máli þessu.

             Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærða, X skal sæta fangelsi í tvo mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða greiði málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns Jóns Egilssonar hdl   kr. 74.700.-