Hæstiréttur íslands
Mál nr. 590/2014
Lykilorð
- Skaðabætur
- Vátrygging
- Hæfi dómara
- Meðdómsmaður
|
|
Fimmtudaginn 12. mars 2015. |
|
Nr. 590/2014.
|
Gámaþjónustan hf. (Óðinn Elísson hrl.) gegn Sigurði Hreini Jónassyni og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson hrl.) |
Skaðabætur. Vátrygging. Hæfi dómara. Meðdómsmaður.
G hf. krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda S vegna tjóns sem varð á timburkurlara í eigu G hf. er verið var að hífa hann upp á flutningavagn á plani á athafnasvæði G hf. Við verkið voru notaðir tveir kranar og brast jarðvegurinn undan stoðfæti annars þeirra með þeim afleiðingum að timburkurlarinn féll til jarðar og skemmdist verulega. Héraðsdómur sýknaði S og vísaði m.a. til þess að orsök þess að yfirborð plansins hefði brostið við hífingu timburkurlarans yrði ekki rakin til þess að S hefði vanrækt þær skyldur sem á honum hefðu hvílt sem sérfræðingi og yrði tjónið á kurlaranum því ekki rakið til sakar hans. Hæstiréttur féllst hvorki á með G hf. að annar meðdómsmanna í héraði hefði verið vanhæfur til setu í dóminum vegna matsstarfa fyrir hönd V hf., sem G hf. stefndi til réttargæslu í málinu, né að héraðsdómur hefði byggt niðurstöðu sína á málsástæðu sem ekki hefði verið haldið fram í héraði. Var kröfu G hf. um ómerkingu héraðsdóms því hafnað. Fyrir Hæstarétti lagði G hf. fram matsgerð sem hann aflaði eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að þótt niðurstöður matsgerðarinnar bentu til þess að stærri grunnflötur undir stoðfætur vörubifreiðarinnar kynni að hafa dregið úr fyrirvaralausu og hröðu broti jarðvegsins í og við þær væri matsgerðin engan veginn afdráttarlaus í þeim efnum. Fengi hún því ekki haggað þeirri niðurstöðu héraðsdóms að tjón það sem hefði orðið á trékurlaranum yrði ekki rakið til sakar S heldur óhappatilviks. Var héraðsdómur því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. september 2014. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en til vara að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna tjóns sem varð á timburkurlara í sinni eigu 13. október 2010 við Súðarvog 2 í Reykjavík. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að sök verði skipt milli hans og áfrýjanda og málskostnaður látinn falla niður.
Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Krafa áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms er í fyrsta lagi á því reist að annar hinna sérfróðu meðdómsmanna, Magnús Þór Jónsson vélaverkfræðingur, hafi verið vanhæfur til setu í dóminum. Við fyrirtekt málsins 4. september 2013 gerði dómari lögmönnum grein fyrir því að Snorri Konráðsson og Magnús Þór Jónsson hefðu fallist á að vera meðdómsmenn og tóku þeir sæti við aðalmeðferð málsins 11. apríl 2014. Áfrýjandi kveðst eftir uppkvaðningu héraðsdóms hafa fengið vitneskju um að meðdómsmaðurinn Magnús Þór hafi tekið að sér verkefni fyrir tryggingafélög í tengslum við slysa- og skaðabótamál. Með tölvubréfi 3. júlí 2014 óskaði áfrýjandi upplýsinga frá lögmanni stefnda um hvort umræddur meðdómsmaður hafi tekið að sér verkefni fyrir réttargæslustefnda og þar á meðal hvort hann hafi unnið álitsgerðir eða annast ráðgjöf fyrir félagið. Í svari lögmannsins kom fram að réttargæslustefndi hefðu á árunum 2007 til 2013 í níu skipti greitt meðdómsmanninum eða félagi í hans eigu vegna matsstarfa. Í tveimur skiptum hafi réttargæslustefndi leitað beint til Magnúsar Þórs og fengið hann til ráðgjafarstarfa við vinnslu álitsgerða en í sjö skipti hafi hann verið dómkvaddur sem matsmaður samkvæmt reglum IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar litið er til þess að á umræddu sex ára tímabili var Magnús Þór í sjö skipti dómkvaddur matsmaður og að réttargæslustefndi leitaði einungis til hans beint í tveimur tilvikum verður ekki talið að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem séu til þess fallin að draga með réttu óhlutdrægni hans í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Leiðir þetta því ekki til ómerkingar héraðsdóms.
Í öðru lagi er aðalkrafa áfrýjanda á því reist að héraðsdómur byggi niðurstöðu sína um sýknu stefnda á málsástæðu sem ekki hafi verið haldið fram í málinu. Vitnar áfrýjandi í því sambandi til þeirra ummæla í forsendum héraðsdóms að ósannað þyki „að stærra undirlag undir stoðfótinn, til dæmis svonefndur fleki, 60x60 cm, hefði getað komið í veg fyrir að yfirborðið brysti undan honum við mesta þyngdarálagið við hífingu kurlarans.“ Í greinargerð stefnda í héraði sagði meðal annars að meta yrði hvert tilvik fyrir sig og hefði áfrýjandi ekki sannað með neinum hætti að þörf hafi verið á í þessu tilviki að stækka stoðflötinn vegna meints eftirgefanlegs jarðvegs. Þá sagði þar einnig að áfrýjandi hefði engar sannanir fært fyrir því að jarðvegurinn hafi mátt virðast varasamur og stefndi hafi engar upplýsingar fengið um eftirgefanleika undirlagsins. Með vísan til þessa yrði það ekki metið stefnda til sakar að hafa ekki stækkað stoðflötinn umrætt sinn enda ekkert sem hafi gefið til kynna að þess væri þörf. Framangreindri málsástæðu var því skýrlega haldið fram af hálfu stefnda í héraði og getur þetta heldur ekki leitt til ómerkingar héraðsdóms. Verður ómerkingarkröfu áfrýjanda því hafnað.
II
Eftir uppkvaðningu héraðsdóms óskaði áfrýjandi þess að dómkvaddur yrði matsmaður til að svara þremur nánar tilgreindum spurningum. Var Guðjón Örn Björnsson jarðtæknisérfræðingur og byggingarverkfræðingur kvaddur til starfans og skilaði hann mati sínu 13. janúar 2015. Í fyrstu matsspurningunni var um það spurt hvort „svonefndir flekar, 60x60 cm, sem vörubifreið matsþola RF-417 var búin ... dragi úr álagi á undirlag séu þeir settir undir stoðfætur vörubifreiðarinnar við hífingu?“ Í svari matsmannsins sagði að enginn vafi væri á að fleki sem stækki grunnflöt þess svæðis sem krafturinn verki á dragi úr álagi á undirlag og eftir því sem flatarmál þess grunnflatar sem krafturinn verki á sé stærri því minna sé álagið á flatarmálseiningu. Í öðru lagi var um það spurt ef „svar við spurningu nr. 1 er já Hversu mikið (hlutfallslega) hefði dregið úr álaginu?“ Svar matsmannsins var sett fram með myndrænum hætti og í skýringu sagði að samkvæmt mælingum væri stoðfótur bifreiðarinnar 35x35 cm, flekinn væri 60x60 cm og reiknað væri með 10 tonna álagi en álag skipti í raun ekki máli ef bera ætti saman hlutfallslega breytingu. Reiknað væri með líkingu Boussinesq um hvernig álag dvínar með dýpi. Í þriðja lagi var um það spurt hvort líklegt væri að notkun flekanna hefði komið í veg fyrir að stoðfótur bifreiðarinnar hefði sokkið í jörðina. Í svari matsmannsins sagði að út frá aðstæðum væri ekki hægt að reikna nákvæmlega út hvort brot hefði verið í moldinni ef stoðfótur hefði verið notaður. Efniseiginleikar moldarinnar og þykkt malarlagsins séu þar helstu óvissuþættirnir. Einnig sé nákvæmt álag sem verkað hafi á stoðfótinn sem gaf eftir ekki þekkt. En það sé staðreynd að minna álag dragi úr líkum á broti og sé álagsminnkunin 35 til 55% á 20 til 40 cm dýpi. Um brot jarðvegsins sagði að á ensku kallist þetta „punch failure“ og sé það fáheyrt og ólíklegt. Þessi tegund á broti ásamt þeirri staðhæfingu að brotið hafi gerst fyrirvaralaust bendi til þess að ekki hafi verið hægt að sjá það fyrir og að aðstæður hafi verið í hæsta falli óvenjulegar. Þá sagði meðal annars í heildarniðurstöðum matsgerðarinnar að stærri grunnflötur undirstöðunnar hefði einnig dregið úr líkum á fyrirvaralausu og hröðu broti og hugsanlegt hefði verið að bregðast við yfirvofandi broti þar sem undirstöðurnar hefðu gefið sig með hægum formbreytingum jarðvegsins í og við undirstöðurnar.
Áfrýjanda var unnt að afla matsgerðar um ofangreind atriði undir rekstri málsins í héraði en gerði ekki. Þótt niðurstöður matsgerðarinnar bendi til þess að stærri grunnflötur undir stoðfætur vörubifreiðarinnar kynni að hafa dregið úr fyrirvaralausu og hröðu broti jarðvegsins í og við þær er matsgerðin engan veginn afdráttarlaus í þeim efnum. Fær hún því ekki haggað þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómmönnum, að tjón það sem varð á trékurlaranum umrætt sinn verði ekki rakið til sakar stefnda heldur óhappatilviks. Með þessari athugasemd en með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um önnur atriði verður hann staðfestur.
Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði en málskostnaður fellur að öðru leyti niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Gámaþjónustan hf., greiði stefnda, Sigurði Hreini Jónassyni, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2014.
Þetta mál, sem var tekið til dóms 11. apríl 2014, er höfðað af Gámaþjónustunni hf., kt. [...], Súðarvogi 2, Reykjavík, á hendur Sigurði Hreini Jónassyni, kt. [...], Maríubaugi 55, Reykjavík og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu birtri 14. febrúar 2013.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, Sigurðar Hreins, vegna tjóns sem varð, 13. október 2010, að Súðavogi 2, Reykjavík, á timburkurlara í eigu stefnanda.
Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.
Stefnandi gerir ekki sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans.
Til vara krefst stefndi þess að sök verði skipt milli hans og stefnanda og málskostnaður látinn falla niður.
Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar dómkröfur um annað en málskostnað úr hendi stefnanda enda geri stefnandi engar kröfur á hendur félaginu, sérstaklega.
Málsatvik
Orsök þessa máls eru atvik sem urðu á malarborinni og malbikaðri lóð á athafnasvæði stefnanda, Gámaþjónustunnar, við Súðarvog 2, Reykjavík, 13. október 2010. Tveimur vörubifreiðum, báðum útbúnum hleðslukrönum, hafði verið stillt upp samsíða til þess að hífa upp 19 tonna timburkurlara sem átti að setja á flutningavagn. Þegar kurlarinn hafði verið hífður í örfárra metra hæð brast jarðvegurinn undan stoðfæti annars kranans. Hann og bifreiðin, sem hann var festur á, féllu nánast á hliðina og aftari endi kurlarans féll til jarðar. Við það skemmdist tækið verulega.
Gámaþjónustan tók við athafnasvæðinu við Súðarvog fyrir um það bil 20 árum af Rafmagnsveitum ríkisins. Elías Ólafsson, stjórnarmaður og einn af eigendum Gámaþjónustunnar, kvaðst ekki vita hvaða jarðvegur væri undir svæðinu. Þegar fyrirtækið hafi eignast lóðina hafi það látið bera möl í hana til þess að á henni allri væri malarpúði. Þar sem hún sé notuð fyrir gáma og þung tæki verði að vera á henni berandi lag. Hann kvaðst ekki vita hversu þykkt malarlagið væri en á svæðum fyrir sambærilega starfsemi væri það 20-30 cm og allt upp í 50 cm. Í þessu plani væri vatns-í-sogandi basalt.
Hús á svæðinu eru byggð í tíð Rarik. Umhverfis skemmu sem þar stendur er allbreitt malbikað belti. Að sögn Elíasar er malbikaði hluti plansins einkum, en þó ekki einvörðungu, notaður fyrir verk þar sem hætta er á að mengandi efni komist í jarðveginn, en fyrirtækið gæti mjög að umhverfinu.
Hann bar að planið hefði ekki verið þjöppumælt og minntist þess ekki að nokkur hluti þess hefði sigið en ójöfnur, sem komi annað slagið, væru jafnaðar með því að bæta efni í það. Hann taldi fráleitt að efnið í planinu væri eftirgefanlegt. Fyrirtækið myndi aldrei geyma öll þau þungu tæki sem þar séu, bæri undirlagið þau ekki.
Starfsmaður stefnanda, Magnús Guðbrandsson, bað stefnda, Sigurð Hrein Jónasson, að koma á athafnasvæði stefnanda og hífa kranann. Að mati stefnda er planið þar venjulegt malarplan. Hann kvaðst hafa unnið á því áður, fyrir stefnanda svo og fyrir Rarik, þegar það fyrirtæki nýtti svæðið. Að hans sögn merktu hjólbarðar þeirra bifreiða sem þar óku ekki yfirborðið á planinu, ruddu ekki frá sér hjólfari í yfirborðið. Ekkert hefði gefið til kynna að jarðvegurinn væri eftirgefanlegur. Hefði svo verið hefði hann ekki reynt að hífa kurlarann upp.
Þegar stefndi var beðinn að taka það að sér að hífa kurlarann hafði hann starfað við akstur vörubifreiða og hífingar í 36 ár og hafði réttindi til þess að stjórna krana eða vinnuvél í BH-flokki. Stefndi bar að Magnús hefði sagt honum að kurlarinn vægi 6-8 tonn. Magnús minntist þess að þeir hefðu rætt hugsanlega þyngd kurlarans en hann hafi ekki vitað hversu þungt tækið væri.
Kurlarinn, sem er af gerðinni TIM envipro, er um það bil tíu metrar á lengd, tveir og hálfur metri á breidd og tæpir þrír metrar á hæð. Við aðalmeðferð kom í ljós að hann er 19 tonn að þyngd. Hann var á hjólum og gat stefndi dregið hann úr stæði sem hann stóð í og á rýmra svæði, vestan við skemmuna. Stefndi kvaðst hafa fundið, þegar hann dró kurlarann, að hann væri þyngri en gefið hefði verið upp. Hann hafi þó ekki reiknað með að hann væri 19 tonn eins og síðar hafi komið á daginn. Stefndi bar að krani hans sé þannig búinn að hann stöðvist sé lagt meira á hann en hann ráði við. Stefndi hafi ekki haft neinar áhyggjur af því að kraninn réði ekki við kurlarann enda ráði hann við 80 tonnmetra. Það sé mesta leyfileg lyftigeta krana í tonnum, margfölduð með fjarlægð þyngdarpunkts byrðar frá snúningsás krana.
Vegna lögunar kurlarans hafi verið erfitt að koma á hann stroffum (böndum), þannig að þægilegt væri fyrir einn krana að hífa hann. Af þeim sökum hafi stefndi hringt í félaga sinn á vörubílastöðinni Þrótti, Stefán Jónsson, og beðið hann að koma sér til aðstoðar.
Til stóð að bakka flutningavagninum undir kurlarann þegar hann hefði verið hífður á loft. Kurlarinn átti þó að fara þannig á vagninn að beislið, fremri endinn, sneri aftur. Til þess að þetta mætti verða varð að snúa honum um 90 gráður í loftinu. Þar sem bíll stefnda hafði framfætur, stuðningsfætur sem ganga niður úr stýrishúsinu að framanverðu, varð að nota kranann á hans bíl til þess að hífa aftari endann á kurlaranum upp framan við stýrishúsið. Bíll stefnda stóð því vestan við kurlarann en bíll Stefáns austan við hann og á malbiksbeltinu sem er umhverfis skemmuna.
Stefndi bar jafnframt að ekki hefði verið úr mörgum stöðum á planinu að velja þar eð koma hefði þurft kurlaranum á flutningavagn sem þurfti að vera nálægur þar sem það átti að bakka honum undir kurlarann.
Stefán bar að Sigurður hefði hringt í sig og beðið sig að koma og taka undir annan endann á kurlaranum þar sem erfitt hefði verið að slá stroffum utan um hann þannig að vel færi fyrir einn krana. Hann taldi ekki marga staði á planinu hafa komið til greina fyrir verkið nema með miklu umstangi. Eins og aðstæður hafi horft við þeim hafi þeir ekki séð ástæðu til að vera annars staðar á planinu enda hafi planið litið út fyrir að vera hart og gott fyrir þungavinnuvélar. Hefði eitthvað gefið til kynna að jarðvegurinn væri eftirgefanlegur hefðu þeir gert ráðstafanir. Hefðu þeir talið nauðsynlegt að setja fleka undir stoðfætur krananna hefðu þeir gert það.
Stefndi notaði Scania-vörubifreið sína með skráningarnúmerið RF-417. Hún vegur 28 tonn tóm og var útbúin fullkomnum og öflugum hleðslukrana, BH 0235. Stefán notaði Man-vörubifreið sem er útbúin sams konar krana.
Áður en stefndi og Stefán byrjuðu að hífa höfðu þeir sett út stoðfætur bifreiða sinna, sem gegna því hlutverki að tryggja jafnvægi kranans en við hífingu hvílir ekki neinn þungi á hjólbörðum bifreiðanna. Stefndi setti niður úr stýrishúsinu framfætur, svo og stoðfætur beggja vegna við kranann sem er fyrir aftan stýrishúsið og síðan stoðfætur til beggja handa aftast á bifreiðinni. Þessum bílum fylgja svonefndir plattar, oft 30 x 30 cm á kant, úr stáli sem stoðfæturnir hvíla á þegar kraninn er notaður. Margir kranabílstjórar útvega sér einnig svonefnda fleka, oft 60 x 60 cm á kant, úr trefjaefni. Þeir munu ekki hvað síst notaðir til þess að hlífa viðkvæmu yfirborði, þar sem járnplattinn gæti skilið eftir sig ummerki en þeir nýtast jafnframt til þess að dreifa álagi.
Stefndi og Stefán brugðu stroffum (böndum) um kurlarann og hífðu upp. Bílarnir stóðu samsíða, með um það bil tíu metra millibili, sem nam rúmri lengd kurlarans. Bíll Stefáns stóð þó framar bíl stefnda þannig að álagið kom í upphafi þvert á bíl Stefáns en á framfætur bíls stefnda. Hann lét síðan kranann færa aftari enda kurlarans með fram vinstri hlið bílsins í því skyni að snúa honum 90 gráður þannig að að lokum héldu kranarnir honum í loftinu í sömu stefnu og vörubifreiðarnar og á milli þeirra. Í þeirri stöðu átti að bakka flutningavagninum undir kurlarann og láta hann síga.
Stefndi taldi að talsvert meiri þungi hefði verið í hans krana þar sem stroffunni, sem hann lyfti með, hefði verið brugðið innar á kurlarann, nær miðju, en gert var á framhluta tækisins sem Stefán lyfti, svo og vegna þess að hjólabúnaðurinn hefði verið þeim megin.
Magnús, starfsmaður stefnanda, fylgdist með hífingunni og kvaðst ekki hafa séð annað en að stefndi og Stefán ynnu verkið mjög rólega og yfirvegað og hefði hann ekki getað séð að neitt væri út á þeirra vinnu við hífinguna að setja.
Þegar krani stefnda hafði snúist þannig að aftari endi hans var nánast yfir stoðfætinum sem stóð beint út frá krananum vinstra megin við bifreiðina gerðist það, eins og fingri væri smellt, að jörðin brast undan þeim stoðfæti.
Magnús tók myndir af hífingunni, og þar á meðal nokkrar örfáum mínútum eða sekúndum áður en jarðvegurinn brast. Að hans sögn var, þegar þær voru teknar, komið að því að ljúka því að snúa tækinu í þá stöðu að flutningstækið gæti bakkað undir það. Það hafi þá gerst, eins og skotið væri af byssu, að stoðfóturinn hvarf niður í jörðina og bíllinn fór nánast á hliðina. Að þessu hafi ekki verið neinn aðdragandi, ekkert sig eða halli á jarðveginum.
Myndirnar sem Magnús tók sýna jafnframt að örskömmu áður hafði jarðvegurinn í planinu ekkert sigið, ekki undan neinum stoðfæti hvorki framan við, aftan við né til hliðar. Hvorug bifreiðin hallaðist og kurlarinn var kominn vel yfir fremri stoðfætur á bílunum.
Þegar yfirborðið brast keyrðist öll lengd stoðfótarins, nálægt tveimur metrum, á kaf í jörðina. Aftari endi kurlarans skall í jörðina framan við stoðfótinn en fremri endinn hékk í loftinu í krana Stefáns og snerti ekki bifreið hans.
Myndir, sem voru teknar strax eftir atvikið, sýna enn fremur mjög skýrt gat á yfirborðsefninu, með hvössum brúnum, þannig að efsta yfirborðslagið virðist mjög samanþjappað.
Magnús bar að svona lagað hefði aldrei gerst áður á þessu plani en um það aki alla daga þungar vinnuvélar og bílar, sem vegi allt að 30 tonnum, tómir. Þegar Rarik, forveri stefnanda á svæðinu, hafi haft það til afnota hafi einnig verið á því þungaflutningar og hafi hann aldrei heyrt að neitt þessu líkt hafi þá gerst.
Strax eftir þennan atburð hringdi stefndi í lögreglu, vinnueftirlitið og tryggingafélag sitt, eins og honum var skylt og allir sendu fulltrúa á vettvang.
Hann hringdi jafnframt í mann sem kom með bómukrana. Sá setti fleka undir stoðfætur kranans áður en hann rétti bíl stefnda af. Að því búnu lauk hann við, með aðstoð Stefáns, að hífa kurlarann á flutningavagninn.
Fulltrúi vinnueftirlitsins, Georg Árnason, bannaði notkun kranans en rannsakaði ekki sérstaklega hvernig var staðið að verkinu. Að hans sögn ber eftirlitinu einvörðungu að athuga hvort tækin, sem eru notuð, séu skemmd svo taka megi afstöðu til þess hvort banna þurfi notkun þeirra. Þrátt fyrir að hluti kranans, stoðfóturinn, hafi gengið fyrirvaralaust niður í jörðina sé það hvorki hlutverk eftirlitsins að gera grein fyrir því hvaða efni séu í undirstöðunni né hvað í henni brást.
Að sögn stefnda var í holunni, sem myndaðist þegar stoðfóturinn gekk niður í jörðina, blaut mold, hálfgerð „soffa“ eða þunnt moldardeig. Hvorki Stefán né Magnús höfðu litið ofan í holuna áður en bifreið stefnda var rétt við og stoðfóturinn þar með dreginn upp úr jörðinni. Þeir gátu því ekki borið um hvaða efni hefði verið undir yfirborðinu.
Stefndi hafði samband við félaga sinn hjá vörubílastöðinni Þrótti, Davíð Ágúst Sveinsson, sem hafði krana með krabba (tveimur skóflum sem eru samhverfar um einn ás og grípa um efnið hvor á móti annarri) og bað hann að grafa fyrir sig eftir stálplattanum sem varð eftir í holunni þegar bíllinn hafði verið réttur af. Davíð kom síðar þennan dag en þá hafði holan fyllst af jarðvegi, þannig að ummerkin voru ekki skýr.
Davíð bar að staðurinn þar sem stoðfóturinn stakkst niður í jörðina hefði ekki verið augljós þar sem nærliggjandi möl hefði fallið niður í holuna. Hann kvaðst hafa þurft að grafa djúpt eftir plattanum, 1½ til 2 metra. Honum hafi sýnst planið vera dæmigert malarplan fyrir þungaflutninga. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hversu þykkt malarlagið hafi verið en undir því hafi bara verið mold.
Magnús, starfsmaður stefnda, kvaðst hafa fylgst með þegar Davíð kom og gróf eftir plattanum. Hafi hann þá séð að það væri frekar mjúkur jarðvegur undir malarlaginu.
Stefndi var tryggður frjálsri ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda og hann tilkynnti tjónið, eins og áður segir, um leið og það varð. Stefnandi, sem á timburkurlarann sem skemmdist, krafði tryggingafélagið um bætur úr tryggingu stefnda. Hann átti í kjölfar atviksins samskipti við tjónafulltrúa félagsins, Guðjón Ólafsson, um fjárhæð bóta vegna tjónsins. Trékurlarinn hafði meðal annars verið fluttur til Kraftvéla ehf. í Kópavogi til mats á skemmdum og viðgerðarkostnaði í samráði við réttargæslustefnda. Stefnanda var í aprílmánuði 2012 sagt að lögfræðideild tryggingafélagsins hefði málið til skoðunar og var gefið í skyn að réttargæslustefndi hygðist hafna bótaskyldu sem félagið gerði með bréfi 18. apríl 2012. Afstaða félagsins byggðist á því að vátryggingartaki hefði gert allt sem ætlast mætti til af honum við undirbúning verksins og sýnt væri að tjónið hefði ekki orðið vegna háttsemi hans. Það var mat réttargæslustefnda að stefndi hefði ekki sýnt af sér saknæma háttsemi heldur væri atvikið óhappatilvik.
Bifreiðin RF-417 var einnig tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækja, samkvæmt ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, hjá réttargæslustefnda á tjónsdegi. Stefnandi óskaði eftir afstöðu tryggingafélagsins til bótaskyldu úr tryggingunni á grundvelli notkunarhugtaks 88. gr. laga nr. 50/1987, með bréfi, 19. júní 2012. Með bréfi, 4. júlí 2012, var bótaskyldu úr lögboðinni ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar einnig hafnað.
Stefnandi lagði málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Niðurstaða hennar var annars vegar sú að tjónið yrði ekki rakið til hinnar sérstöku notkunar bifreiðar, sem 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987 tæki til, og því væri tjónið ekki bótaskylt úr ábyrgðartryggingu ökutækisins RF-417.
Það var einnig mat nefndarinnar að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar lægi ekki fyrir að tilefni hefði verið til þess að stefndi kannaði sérstaklega hvernig undirlagið væri eða notaði sérstakan búnað, svo sem fleka undir stoðfætur, áður en hífing færi fram. Ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hefði farið gegn venjulegum verklagsreglum við hífinguna í tilvikum eins og þeim sem um ræðir í málinu eða sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiddi til bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu hans hjá réttargæslustefnda. Nefndin hafi því talið að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda.
Stefnandi unir ekki þeirri niðurstöðu að stefndi beri ekki ábyrgð á því tjóni sem varð á timburkurlaranum umrætt sinn og höfðar því mál á hendur honum til viðurkenningar á kröfu sinni.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem varð á timburkurlara í eigu stefnanda, 13. október 2010, og að tjónið sé bótaskylt úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda sem var í gildi hjá réttargæslustefnda á tjónsdegi. Stefnandi hafi fengið stefnda sem sérfræðing til þess að sjá um að hífa timburkurlarann upp á tengivagn vöruflutningabifreiðar gegn greiðslu og hafi hann borið ábyrgð á verkinu og því tjóni sem hann olli á trékurlara stefnanda.
Stefndi hafi alfarið séð um það hvernig verkið væri unnið og hvaða aðferðum væri beitt við það. Stefndi hafi þannig séð að öllu leyti um framkvæmd verksins og hafi stefnandi eða starfsmenn hans hvergi komið þar nærri. Stefndi hafi aldrei ráðfært sig við starfsmenn stefnanda um atriði varðandi hífinguna.
Stefnandi telur stefnda hafa borið að kynna sér sérstaklega aðstæður á vettvangi, þar með talið undirlag undir vörubifreiðinni, þar sem bæði timburkurlarinn og vörubifreiðin séu mjög þung vinnutæki, en samkvæmt ökutækjaskrá sé vörubifreið stefnda rúm 26 tonn. Eins og myndir af vettvangi sýni hafi undirlagið á tjónsstað að hluta til verið möl/sandur og eftirgefanlegt, auk þess sem undirlagið hafi verið rakt og veður vott þegar verkið var unnið. Því hafi stefndi haft ríkar ástæður til að tryggja að hvíluflötur stoðfóta vörubifreiðarinnar væri nægjanlega stór til þess að koma í veg fyrir að stoðfóturinn gengi niður í jörðina enda skapist þá mikil veltihætta.
Stefnandi telur að við þær aðstæður, sem voru á tjónstað, hafi stefnda borið að setja fleka undir stoðfætur vörubifreiðarinnar til að dreifa álagi á jarðveginn á stærri flöt og koma í veg fyrir að stoðfæturnir sykkju niður í jarðveginn, eins og raunin varð. Stefnda, sem sérfræðingi, hafi mátt vera það ljóst enda grundvallaratriði við hífingu með krana á vörubifreið. Stefnandi bendir á í þessu samhengi að myndir sem teknar voru af tjónsstað sýni að slíkir flekar hafi verið settir undir stoðfætur annarra farartækja. Telur stefnandi að með því að nota einungis staðalplatta undir stoðfótinn hafi stefndi ekki fullnægt varúðarskyldu sinni heldur þvert á móti sýni það að stefndi hafi ekki metið aðstæður rétt.
Stefndi hafi borið ábyrgð á því að vörubifreiðin væri nægjanlega stöðug svo að hægt væri að hífa trékurlarann, bæði með tilliti til aðstæðna á vettvangi, þar með talið undirlags, og þyngdar kurlarans. Stefndi hafi ákveðið að fá aðra kranabifreið sér til aðstoðar við verkið og telur stefnandi að við framkvæmd hífingarinnar hafi stefndi misreiknað stöðugleikastuðul og veltivægi bifreiðar sinnar þar sem bifreiðin valt við hífinguna. Á því beri stefndi ábyrgð sem stjórnandi verksins.
Stefnandi byggi á því að ekkert í gögnum málsins styðji það að hann eigi sjálfur að bera hluta tjóns síns enda hafi starfsmenn hans hvergi komið nærri framkvæmd verksins. Þá byggi stefnandi jafnframt á því að atvikið sé ekki óhappatilvik sem engum verði um kennt, enda hefði stefndi á einfaldan hátt getað komið í veg fyrir tjónið.
Að öllu virtu telur stefnandi ljóst að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem varð á timburkurlara stefnanda, 13. október 2010.
Stefnandi tekur fram að ekki hafi enn verið gert við þær skemmdir sem urðu á kurlaranum. Eftir atvikið, 13. október 2010, hafi hann verið fluttur, í samráði við réttargæslustefnda, á verkstæði Kraftvéla ehf. í Kópavogi þar skemmdir hafi verið metnar og viðgerðarkostnaður áætlaður. Vinnuvélin hafi skollið í jörðina úr um 3 metra hæð og við það hafi meðal annars skekkst festingar við færiband vélarinnar, færibandið sjálft sé mjög illa farið, rafmagnsbúnaður hennar hafi skemmst mikið, bretti festingar og hlífar við færibandið skekkst, mótor brotnað af vélinni og matarfæriband hennar bognað. Að mati Kraftvéla ehf. nemi viðgerðarkostnaður rúmum tíu milljónum króna.
Stefnandi kveðst styðja viðurkenningarkröfu sína við heimild í 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og í samræmi við d-lið 1. töluliðar 80. gr. sömu laga. Tjón stefnanda sé töluvert eins og að framan sé greint. Stefnandi telji sig með fram lögðum gögnum hafa, á fullnægjandi hátt, sýnt fram á lögvarða hagsmuni sína af því að höfða þetta mál.
Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. og d-liðar 1. töluliðar 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 vegna viðurkenningarkröfunnar. Stefnandi byggir kröfu sína á meginreglu skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni. Einnig vísar hann til umferðarlaga nr. 50/1987, laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og reglna um skuldbindingargildi samninga. Þá vísar hann til reglugerðar um notkun tækja nr. 367/2006. Val á varnarþingi styðst við 35. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en aðild og fyrirsvar við 16. og 17. gr. sömu laga og krafa um málskostnað byggist á ákvæðum XXI. kafla sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Sýknukrafa stefnda byggist á því að með öllu sé ósannað að umrætt slys verði rakið til atriða sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Atvik málsins sýni að tjónið verði rakið til eigin sakar stefnanda og/eða óhappatilviks.
Meint saknæm háttsemi stefnda
Stefndi áréttar að skaðabótaábyrgð í þessu máli ráðist af sakarreglunni. Af henni leiði að maður verði ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni annars nema það verði rakið til saknæmrar háttsemi hans eða einhverra sem hann beri ábyrgð á. Sönnunarbyrðin um meinta sök stefnda hvíli óskipt á stefnanda enda hafi ekkert komið fram í málinu sem styðji það að víkja beri frá meginreglunni og leggja sönnunarbyrðina að einhverju leyti á stefnda.
Af málatilbúnaði stefnanda megi ráða að hann telji tjónið verða rakið til saknæmrar háttsemi stefnda sem felist í því;
a) að hafa ekki kynnt sér sérstaklega undirlag vörubifreiðarinnar,
b) að hafa ekki sett fleka undir stoðfætur vörubifreiðarinnar og
c) að hafa misreiknað stöðugleikastuðul og veltijafnvægi bifreiðarinnar.
Stefndi hafni alfarið málatilbúnaði stefnanda og byggi á því að sök stefnda sé ósönnuð og þar með sé ósannað að bótaskylda hafi stofnast úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda.
a) Stefndi byggir á því að þar sem verkið hafi verið unnið á venjulegan og eðlilegan hátt, eins og áður sé lýst, sé ekki við hann að sakast hvernig fór.
Stefnandi byggi á því að stefndi hafi verið fenginn sem sérfræðingur til þess að sjá um umrætt verk og hafi því borið ábyrgð á verkinu og því tjóni sem hann olli. Í þessu sambandi áréttar stefndi að sérfræðiþekking hans sé bundin við og nái ekki út fyrir stjórnun viðkomandi bifreiðar og krana og að stefndi beri einungis ábyrgð á tjóninu teljist sannað að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við það verk.
Stefndi leggur áherslu á að verkið hafi verið unnið á starfsstöð stefnanda og hann eigi timburkurlarann. Það standi honum því nær að þekkja allar aðstæður á slysstað og það tæki sem verið var að ferma.
Stefnandi hafi ekkert lagt fram sem sanni að jarðvegur hafi mátt virðast varasamur þannig að stefnda hafi borið að treysta stöðugleika bifreiðarinnar umfram það sem gert var, en sönnunarbyrðin fyrir því hvíli alfarið á stefnanda.
Í því sambandi bendi stefndi á að fram lagðar ljósmyndir sýni að ýmis þung tæki og gámar séu á umræddu plani sem sé ekki malbikað. Þá sé óumdeilt að þungar vinnuvélar hafi farið um þetta plan í mörg ár án nokkurra vandkvæða. Þetta leiði til þess að utanaðkomandi aðili megi gera ráð fyrir að jarðvegurinn sé nægilega öruggur fyrir umferð og notkun þungra tækja.
Stefndi hafnar því að hægt sé að meta það af ljósmyndum af tjónsvettvangi eingöngu hvort jarðvegur hafi mátt teljast eftirgefanlegur. Þar að auki sýni þessar myndir miklu fremur að jarðvegur hafi, á tjónsdegi, litið út fyrir að vera samanrekinn og þéttur og ekki gefið stefnda tilefni til frekari varúðarráðstafana.
Þá nægi sú staðreynd ein, að planið sé malarplan, alls ekki til þess að fella ábyrgð á tjóninu á stefnda. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á neinar verklagsreglur sem kveði á um að á malarplani beri að stækka stoðflötinn. Ekkert bendi heldur til þess að malarplan sé yfirleitt varhugarverðara og eftirgefanlegra en malbikað plan. Þvert á móti geti það verið betri undirstaða. Meta verði hvert tilvik fyrir sig og hafi stefnandi ekki sannað á neinn hátt að þörf hafi verið á því, í þessu tilviki, að stækka stoðflötinn vegna meints eftirgefanlegs jarðvegs.
Nauðsynlegt sé að hafa það í huga að þetta tilvik sé algerlega einstakt. Hefði atvikið orðið við dæmigert jarðsig hefði jarðvegur gefið eftir og byrjað að síga um leið og byrjað hefði verið hífa kurlarann. Á fram lögðum myndum megi hins vegar sjá að svo hafi ekki verið í þessu tilviki. Myndirnar sýni að kurlarinn hafi þegar verið kominn í talsverða hæð án þess að nokkuð gæfi til kynna að undirlag undir stóðfótum bifreiðar stefnda væri farið að síga undan þunga tækjanna. Ekkert sig hafi orðið fyrr en jarðvegurinn gaf sig í einni andrá. Af myndunum sé ekki annað að sjá en að hola hafi skyndilega opnast, þar sem annar stoðfóturinn hvíldi, með þeim afleiðingum að hann fór á augabragði allur niður í jörðina. Af þessu megi leiða að aðstæður á tjónsstað hafi ekki á neinn hátt gefið tilefni til að ætla að jarðvegur væri varhugaverður og að borið hefði að bregðast við því á þann hátt sem stefnandi haldi fram.
Við aðstæður sem þessar sé ekki hægt að gera þá kröfu að utanaðkomandi stjórnandi vinnutækis beri ábyrgð á því að undirlag hafi, eins og raun bar vitni, verið eftirgefanlegt. Eðlilegra sé að leggja slíka ábyrgð á verkbeiðanda, sem þekki aðstæður á staðnum.
Að mati stefnda verði stefnandi að bera hallann af því að hafa ekki gengið þannig frá kurlaranum á starfsstöð sinni að örugglega hafi mátt ferma hann á pall vörubifreiðarinnar og að hafa ekki skýrt frá því að undirlag á þessum tiltekna stað myndi ekki þola þann þunga sem ætti að lyfta og gera þyrfti ráðstafanir vegna þess.
Þessu til stuðnings megi benda á ákvæði 1. og 2. mgr. 25. gr. landflutningalaga nr. 40/2010, sem hafa megi til hliðsjónar við úrlausn þessa máls, en þar segi:
Sendanda ber að sjá til þess að ástand, frágangur og pökkun vörunnar sé með þeim hætti að hún þoli umsaminn flutning og að flytjandi geti auðveldlega og örugglega fermt hana um borð í ökutæki, vagn eða gám, flutt hana og affermt.
Sendanda ber að skýra sérstaklega frá því og merkja vöruna ef hún þarfnast sérstakrar umönnunar eða gætilegrar meðferðar.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um landflutninga segi að eðlilegt þyki að leggja þessa ábyrgð á sendanda, enda standi þessi atriði honum nær, og að hann beri hallann af því að ganga ekki nægilega vel frá vörunni og/eða skýra frá því þurfi að beita einhverjum öðrum aðferðum en almennt sé gert við vörslu og meðferð hennar á meðan á flutningi standi.
Ríkar skyldur séu einnig lagðar á sendanda í 2. mgr. 40. gr. siglingalaga nr. 34/1985 þegar komi að fermingu skips, en þar segi að vöru skuli afhenda farmflytjanda á þann hátt sem haganlegast sé fyrir flutning hennar á skip, þ.e. fermingu hennar um borð í skip. Þá segi í 43. gr. siglingalaga að séu sendir munir sem þarfnist sérstakrar umönnunar eða gætilegrar meðferðar skuli skýrt frá því og munirnir merktir á þann hátt, ef unnt er.
Af ofangreindu megi leiða að víðtæk skylda sé lögð á sendanda vöru þegar komi að því að ferma hana á farartæki farmflytjanda. Undir það falli að sjálfsögðu að veita upplýsingar um aðstæður á starfsstöð sendanda fari ferming vöru fram þar, enda standi það honum nær að þekkja allar aðstæður á sinni eigin starfsstöð og einnig vöruna sjálfa, þar með talið þyngd hennar og þar af leiðandi þær hættur sem þurfi að varast vegna hennar.
Ekkert sé því til fyrirstöðu að hafa þessar reglur til hliðsjónar við úrlausn málsins, enda séu þær almennar verklagsreglur við flutning á vöru og þar af leiðandi vísbending um þær skyldur sem hvíli á aðilum við fermingu farartækja.
Það sé óumdeilt að einungis hafi verið unnt að vinna verkið á þeim stað sem timburkurlarinn var. Það hafi krafist þess að aðra vörubifreiðina þurfti að staðsetja á malarhluta plans stefnanda vegna þyngdar hans. Stefndi hafi ekki notið neins sjálfstæðis um ákvörðun í þessu efni og hafi bifreiðinni verið komið fyrir á malarplani án nokkurra athugasemda frá starfsmönnum stefnanda.
Þar fyrir utan hafi upplýsingar um þyngd kurlarans verið óljósar og hafi stefndi brugðist við því með því að fá með sér aðra bifreið sem aðstoðaði við verkið og létti á þunganum. Það sé alfarið á ábyrgð stefnanda að réttar upplýsingar um þyngd kurlarans hafi ekki legið fyrir áður en hafist var handa við hífinguna, en eins og gefi að skilja hljóti það að hafa haft áhrif á að slysið varð.
b) Stefnandi staðhæfi að stefnda sem sérfræðingi hafi átt að vera það ljóst að honum hafi borið að setja fleka undir stoðfætur vörubifreiðarinnar við þær aðstæður sem voru á tjónsstað. Vegna þessa bendi stefndi á að reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja og upplýsingar úr gögnum vinnueftirlitsins geri einungis ráð fyrir því að við notkun kranans skuli stöðugleiki tryggður með því meðal annars að taka mið af því hvernig undirlagið er og sé jörð eftirgefanleg skuli stækka hvíluflötinn til að hindra að stoðplatan sökkvi niður. Þannig sé aðeins farið fram á það að tekið sé tillit til undirlags við skorðun á bifreiðinni og sé það eftirgefanlegt skuli stækka stoðflötinn.
Stefndi leggi áherslu á að Vinnueftirlitinu hafi verið tilkynnt um atvikið. Í lögregluskýrslu segi að starfsmaður Vinnueftirlitsins hafi komið á vettvang og tekið myndir af honum. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um að Vinnueftirlitið hafi gert athugasemd við framkvæmd verksins, þar með talið hvernig stoðfætur bifreiðarinnar voru útbúnir. Þvert á móti beri skýrsla Vinnueftirlitsins, sem gerð var á slysdegi, ekkert slíkt með sér. Af þeim sökum verði að leggja til grundvallar að Vinnueftirlitið telji að framangreindar reglur hafi ekki verið brotnar og framkvæmd verksins hafi verið eðlileg.
Þar sem stefnandi hafi ekki fært neinar sönnur á að jarðvegur hafi mátt virðast varasamur og stefndi hafi ekki fengið neinar upplýsingar um það að undirlagið væri eftirgefanlegt, verði það, með vísan til ofangreinds, ekki metið til sakar stefnda að hafa ekki stækkað stoðflötinn í umrætt sinn, enda hafi ekkert bent til að þess væri þörf.
Stefnandi bendi á það og vísi til fram lagðra mynda að flekar hafi verið settir undir stoðfætur annarra bifreiða og gefi stefnandi þannig í skyn að það hafi átt að benda til þess að jarðvegur væri varasamur og stefnda hefði borið að gera slíkt hið sama. Þessu hafnar stefndi alfarið og bendir á það að myndirnar sýni stoðfætur blárrar bifreiðar sem hafi verið fengin til þess að rétta við bifreið stefnda eftir að slysið varð. Þessi bifreið hafi ekki komið nálægt verkinu og hafi flekarnir, eðlilega, verið settir undir eftir að tjónið hafði orðið, í ljósi þess sem þegar hafði gerst.
c) Staðhæfingar um það að stefndi hafi misreiknað stöðugleikastuðul og veltijafnvægi bifreiðarinnar séu ekki á rökum reistar en eina ástæða þess að bifreiðin valt á hliðina hafi verið það ófyrirsjáanlega atvik að jarðvegurinn gaf sig. Ekkert hafi bent til, áður en þetta gerðist, að hætta væri á að bifreiðin ylti. Þvert á móti megi á myndum sjá að verkið hafi gengið vel og áfallalaust fyrir sig áður en tjónið varð og með tilliti til ofangreinds verði að telja að réttilega hafi verið að því staðið að öllu leyti.
Af ofangreindu sé ljóst að umrætt verk hafi á allan hátt verið unnið á venjulegan og eðlilegan hátt. Ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi hafi farið gegn verklagsreglum eða sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiða eigi til bótaskyldu hans. Tjónið hafi orðið á þann hátt að stefnda var ómögulegt að sjá það fyrir. Því beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.
Eigin sök stefnanda og/eða óhappatilviljun
Þá byggi stefndi á því að jafnvel þótt litið verði svo á að hann beri sök eigi stefnandi samt ekki bótarétt þar sem umrætt atvik verði fyrst og fremst rakið til eigin sakar stefnanda sjálfs og/eða óhappatilviljunar sem enginn beri ábyrgð á. Í slíkum tilvikum verði tjónþoli að bera tjón sitt sjálfur en það byggi á dómvenju.
Starfsmenn stefnanda starfi á planinu á hverjum degi og séu, eins og þegar hafi verið rakið í umfjöllun um sakarábyrgð, best til þess fallnir að þekkja þar aðstæður. Þá kröfu verði að gera til þeirra að þeir geri þeim, sem komi tímabundið inn á svæðið til að vinna á því, grein fyrir því hvernig aðstæður séu hverju sinni.
Hafi eitthvað gefið það til kynna að jarðvegur væri eftirgefanlegur hafi starfsmönnum stefnanda borið að greina stefnda frá því, sérstaklega með tilliti til staðsetningar timburkurlarans, vitneskju starfsmanna um þyngd hans og þess að ekki hafi verið færar aðrar leiðir en sú að leggja bifreiðinni á malarhluta plansins. Þá hefðu starfsmenn stefnda einnig getað fengið tækið dregið á annan og öruggari stað áður en byrjað væri að hífa það upp.
Að öðru leyti vísar stefndi til framangreindrar umfjöllunar um saknæmi eftir því sem við á, um eigin sök stefnanda.
Allt eins megi líta svo á að slysið verði eingöngu rakið til óhappatilviljunar. Eins og rakið hafi verið hafi aðferðin við verkið verið venjuleg. Hafi starfsmenn stefnanda ekki haft vitneskju um ástand undirlagsins og gert sér grein fyrir að beita þyrfti sérstökum aðferðum við verkið sé ekki á neinn hátt hægt að krefjast þess að stefndi hefði mátt gera sér grein fyrir því að farið gæti sem fór.
Atvikið sé því augljóslega óhappatilviljun sem ekki verði rakin til þess að vinnubrögð stefnda hafi verið óforsvaranleg.
Bótaréttur úr lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækisins
Af gefnu tilefni, með vísan til forsögu málsins og til þess að stefnandi vísar í lagarökum sínum til umferðarlaga nr. 50/1987, bendi stefndi á að þegar óhappið varð hafi vörubifreiðin verið í notkun sem undirstaða kranans sem hífði timburkurlarann upp og þá sem fastskorðuð vinnuvél, sem ekki yrði hreyfð úr þeim stað er hún var á vegna verksins.
Óhappið hafi því ekki verið í neinu sambandi við notkun bifreiðarinnar sem ökutækis. Af þessu leiði að skaðabótaábyrgð á hendur eiganda bifreiðarinnar verði ekki reist á 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr., laga nr. 50/1987 og eigi stefnandi því ekki rétt á greiðslu bóta úr lögboðinni ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar.
Varakrafa um skiptingu sakar
Sé ekki fallist á aðalkröfu stefnda krefst hann þess að sök verði skipt í málinu.
Eigin sök stefnanda
Verði ekki fallist á sýknu byggir stefndi á því til vara að skipta beri sök í málinu og leggja stærsta hluta ábyrgðar á tjóninu á stefnanda sjálfan vegna eigin sakar. Bótaskylda stefnda og bótaréttur stefnanda úr tryggingunni hjá réttargæslustefnda verði þá aðeins viðurkennd að hluta í samræmi við það.
Sömu sjónarmið og að framan eru rakin eigi við vegna eigin sakar, eftir því sem við á, og vísar stefndi til þess sem þar segir.
Um meint tjón stefnanda.
Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar hvíli sönnunarbyrðin um umfang meints tjóns alfarið á stefnanda.
Stefnandi vísi til þess að viðgerðarkostnaður sé metinn rúmar 10 milljónir króna án virðisaukaskatts og byggi það á samantekt á áætluðum varahlutum og vinnu. Stefndu mótmæla alfarið niðurstöðu þessarar samantektar.
Réttargæslustefndi hafi metið tjónið, 12. apríl 2012, þar sem heildarkostnaður við það með virðisaukaskatti sé talinn rúmar 6 milljónir, en rökstuðningur fyrir þessari niðurstöðu sé rakinn í nefndu tjónamati. Það sýni að áætlun stefnanda standist ekki. Matsmenn geri jafnframt athugasemdir við það að stefnandi hafi látið kurlarann „drabbast niður“. Það sé á ábyrgð tjónþola að koma í veg fyrir frekara tjón. Komi til þess að stefndi verði dæmdur bótaskyldur áskilji stefndi og réttargæslustefndi sér allan rétt, varðandi fjárhæð bóta og skyldu stefnanda, til að takmarka tjón sitt.
Til stuðnings kröfum sínum vísa stefndu einkum til almennra reglna skaðabóta- og flutningaréttar, landflutningalaga nr. 40/2010, siglingalaga nr. 34/1985, umferðarlaga nr. 50/1987, reglugerðar um notkun tækja nr. 367/2006 og laga um meðferð einkamála, eftir því sem við á. Krafa stefnda um málskostnað er byggð á 129.-130. gr. laganna. Krafa réttargæslustefnda um málskostnað er byggð á 2. mgr. 21. gr. sömu laga, sbr. 129.-130. gr. laganna.
Niðurstaða
Timburkurlari, sem stefnandi á, skemmdist þegar verið var að hífa hann á flutningavagn. Atvikið varð á plani á athafnasvæði stefnanda. Hluti þess er malbikaður en stærstur hluti lagður samanþjappaðri möl. Stefndi, sem á vörubifreið búna krana, var fenginn til verksins. Vegna lögunar kurlarans taldi stefndi erfitt að bregða um hann stroffum (böndum) þannig að vel færi fyrir einn krana að hífa hann. Stefndi kallaði sér því til aðstoðar félaga sinn, Stefán, sem einnig átti vörubifreið búna krana. Önnur bifreiðin stóð á malbikuðum hluta plansins en vegna staðsetningar kurlarans stóð hin á malarundirlagi. Á báðum bifreiðunum höfðu allir stoðfætur verið settir út til þess að koma í veg fyrir að kranarnir yltu. Timburkurlarinn hafði verið hífður í nokkurra metra hæð en skall til jarðar þegar jarðvegur gaf sig undan stoðfæti bifreiðar stefnda og bifreiðin valt nánast á hliðina. Kurlarinn skemmdist verulega.
Stefndi hafði tvær tryggingar hjá réttargæslustefnda. Annars vegar frjálsa ábyrgðartryggingu og hins vegar lögbundna ökutækjatryggingu. Í þessu máli lætur stefnandi reyna á það hvort hann eigi rétt til þess að fá tjónið á kurlaranum bætt úr ábyrgðartryggingu stefnda þar sem stefndi hafi sýnt gáleysi við að hífa kranann.
Dómurinn fellst á það með stefnanda að hann hafi fengið stefnda að verkinu sem sérfræðing í því að hífa búnað og tæki með færanlegum krana. Stefndi bar fyrir dómi að hann hefði stýrt verkinu og hafi starfsmenn stefnanda hvergi komið þar nærri. Þeirri málsástæðu stefnda er hafnað að sérfræðiþekking hans sé bundin við og nái ekki út fyrir stjórnun viðkomandi bifreiðar og krana svo og að hann beri einungis ábyrgð á tjóninu teljist sannað að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við það verk.
Að mati dómsins ber stjórnandi krana einnig ábyrgð á því að finna hagstæðan stað fyrir það verk, sem hann tekur að sér, svo framarlega sem kraninn er færanlegur, eins og sá sem stefndi á, og meta hvort aðstæður henti til að hífa það sem hífa á. Það er jafnframt á hans ábyrgð að kraninn sé nægjanlega stöðugur við hvert það verk sem hann tekur að sér, að teknu tilliti til aðstæðna á vettvangi og þyngdar þess sem þarf að hífa.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi borið að kynna sér undirlag bifreiðar sinnar sérstaklega. Að mati dómsins er nægjanlega leitt í ljós að hvorir tveggja, stefndi og Stefán sem stýrðu krönunum, og starfsmenn og eigendur stefnanda, töldu planið öruggt. Það væri ætlað fyrir þungaflutninga og um það ækju daglega bifreiðar og vélar sem vægju tugi tonna. Þar væru einnig geymd þung tæki og búnaður og þungir hlutir dregnir og hífðir.
Jafnframt þykir fyllilega leitt í ljós að yfirborð jarðvegarins á planinu var ekki eftirgefanlegt. Um það báru bæði stefndi og vitni sem hann leiddi, svo og vitni stefnanda. Þrátt fyrir að aftari endi kurlarans hefði í upphafi verið hífður upp framan við bíl stefnda sigu framfætur bílsins ekki í jörðina.
Miðað við stöðuga þungaflutninga á planinu hljóta þeir bílstjórar sem aka inn á það, hvort sem það eru starfsmenn stefnanda eða aðrir, að gera ráð fyrir að það sé svo traust að þeir þurfi ekki að spyrjast fyrir um það sérstaklega hversu mikinn þunga það beri eða óttast að einhver blettur þess sé varasamur, verði það ekki séð af yfirborði plansins.
Öllum vitnum, sem á horfðu, ber saman um að yfirborðslag plansins hafi brostið skyndilega, eins og skoti væri hleypt af byssu. Fram lagðar myndir sýna að örskömmu áður var allt slétt og fellt á planinu, jörð ekki sigin undan neinum stoðfæti. Myndir sýna einnig mjög skýrt að stoðfóturinn gekk niður í holu með hvössum brúnum en seig ekki niður í grunna dæld þar sem jarðvegur þrýstist saman. Af þessum lýsingum vitna og fram lögðum myndum verður ekki annað ráðið en einhver veila, hugsanlega blaut mold, hafi verið í jarðveginum undir stoðfæti krana stefnda. Þessi veila var öllum hulin.
Að mati dómsins skiptir ekki máli hvort yfirlagið er gróf möl eða malbik. Þegar undirlagið undir yfirborðslaginu er ekki þéttpakkað malar- eða fyllingarefni getur malbik ekki frekar haldið því álagi sem kom á þennan stað á planinu við hífinguna heldur en malaryfirborð. Að mati dómsins skiptir ekki heldur máli hvort veður var vott þennan dag. Sá veikleiki sem þarna hafði grafið um sig gerði það ekki á einum degi.
Þegar allt sem álykta má út frá, svo sem yfirborð plansins svo og að um það aka þungar vinnuvélar og bifreiðar alla daga, bendir til þess að vinnusvæðið sé traust, er ekki hægt, þrátt fyrir að stefndi sé sérfræðingur í sínu fagi, að gera þá kröfu til hans að hann rannsaki undirlag kranans sérstaklega áður en hífingin hefst.
Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að nokkuð hafi gefið stefnda tilefni til að álykta að planið væri ekki jafn traust og það virtist vera og þar með að honum bæri að gera frekari varúðarráðstafanir en hann gerði. Stefnandi hefur ekki heldur leitt í ljós að það sé föst venja að setja ætíð fleka undir stoðfætur krana eigi að láta þá hífa verulegan þunga. Þvert á móti báru stefndi og vitni að flekar séu einkum, en þó ekki eingöngu, notaðir þegar þarf að verja undirlag stoðfótarins, svo sem hellulögn.
Timburkurlarinn reyndist vera 19 tonn en upplýsingar um það lágu ekki fyrir fyrr en við aðalmeðferð málsins. Stefndi kvaðst hafa fundið, þegar hann dró kurlarann til á planinu, að hann væri þyngri en gefið hefði verið upp. Hann hafi þó ekki reiknað með að kurlarinn væri 19 tonn eins og síðar hafi komið á daginn. Stefndi bar jafnframt að krani hans sé þannig búinn að hann stöðvist sé lagt meira á hann en hann ráði við. Stefndi hafi ekki haft neinar áhyggjur af því að kraninn réði ekki við kurlarann enda ráði hann við 80 tonnmetra.
Hinum sérfróðu meðdómsmönnum reiknast til að jafnhliða því sem bóma kranans á bifreið stefnda færðist nær hornréttri stöðu út frá hlið bifreiðarinnar hafi meiri þyngd lagst á stoðfótinn en almennt má gera ráð fyrir að rétt frágengið malarplan með þjöppuðu viðurkenndu burðarefni, bögglabergi, sé prófað til að bera.
Sú vangá stefnda að vanmeta þyngd kurlarans og leggja þar með meiri þunga á stoðfótinn, þegar kurlarinn hékk beint yfir honum eða nálægt honum, en rétt frágengnu malarplani er ætlað að bera hefði þó aldrei valdið alvarlegri afleiðingum en þeim að stoðfóturinn hefði sigið hefði planið verið jafn tryggt og útlit þess og áralangir þungaflutningar gáfu tilefni til að ætla. Hefði verið hald í undirlagi plansins á þessum stað hefði töluvert meiri þungi þurft að hvíla á stoðfætinum til þess að yfirborð plansins rofnaði eins og það gerði.
Af þessum sökum þykir ósannað að stærra undirlag undir stoðfótinn, til dæmis svonefndur fleki, 60 x 60 cm, hefði getað komið í veg fyrir að yfirborðið brysti undan honum við mesta þyngdarálagið við hífingu kurlarans.
Orsök þess að yfirborð plansins brast þegar timburkurlarinn var hífður verður því ekki rakin til þess að stefndi hafi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu sem sérfræðingi í sínu fagi. Tjónið á kurlaranum verður því ekki rakið til sakar hans. Hann verður því sýknaður af kröfum stefnanda.
Þegar litið er til atvika þessa máls og forsögu málshöfðunarinnar, þar með talið samskipta stefnanda við tryggingarfélag stefnda, þykir réttast að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af málinu, svo og réttargæslustefndi.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, og meðdómsmennirnir Magnús Þór Jónsson vélaverkfræðingur og Snorri Sævar Konráðsson, bifvélavirkjameistari og sérfræðingur í bíltækni, kveða upp þennan dóm.
D Ó M s o r ð
Stefndi, Sigurður Hreinn Jónasson, er sýkn af kröfum stefnanda, Gámaþjónustunnar ehf.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Réttargæslustefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., beri sinn kostnað af málinu.