Hæstiréttur íslands
Mál nr. 242/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 9. júní 2004. |
|
Nr. 242/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júní 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að í stað gæsluvarðhalds verði varnaraðili látinn sæta farbanni. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Fram er komið að enn stendur yfir rannsókn lögreglu á fjárhagslegum umsvifum varnaraðila erlendis. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram frekari gögn er styrkja þann grun. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2004.
Ár 2004, föstudaginn 4. júní, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur, háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigríði Ingvarsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 18. júní 2004, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að þrír menn af erlendum uppruna sæti nú gæsluvarðhaldi á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 vegna rannsóknar á brotum gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og II. og III. kafla laga um útlendinga nr. 96/2002. Kærði sé grunaður um aðild að meintum brotum gegn f-lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga og einnig 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
Með úrskurði héraðsdóms föstudaginn 28. f.m. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 4. júní, kl. 16:00. Kærði hafi skotið málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 2004 og með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 225/2004 hafi úrskurður héraðsdóms verið staðfestur.
[...]
Verið sé að rannsaka meint brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og meint brot gegn lögum um útlendinga nr. 96, 2002, einkum f-lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laganna. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar 2. júní sl. er staðfest að fyrir liggi rökstuddur grunur um að kærði eigi aðild að brotum þriggja erlendra manna sem hafi verið handteknir 25. maí sl. og eru grunaðir um brot gegn almennum hegningarlögum og II. og III. kafla laga nr. 96/2002 um útlendinga. Einnig er staðfest með dóminum að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi skipulagt í hagnaðarskyni ólöglega komu þessara mann hingað til landsins og að brotin sem hann er grunaður um að hafa framið geti varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 1. gr. 155. gr. almennra hegningarlaga og f. lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002. Rannsókn málsins er enn ólokið og brýnt er að upplýsa frekar um aðild kærða að hinum meintu brotum sem kærði hefur neitað allri aðild að. Verður að ætla að kærði muni torvelda rannsókn málsins verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram. Með vísan til þess sem að framan greinir verður að telja að skilyrði séu fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ber samkvæmt þessu að fallast á framkomna kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 18. júní 2004 kl. 16.00.
Úrskurðarorð
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júní 2004 kl. 16.00.