Hæstiréttur íslands

Mál nr. 378/2009


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Slysatrygging
  • Fyrning
  • Bifreið


                                                        

Fimmtudaginn 18. mars 2010.

Nr. 378/2009.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og

dánarbú Guðmundar Páls

Þorvaldssonar

(Kristín Edwald hrl.)

gegn

Ástu Rún Pétursdóttur

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

og

Ásta Rún Pétursdóttir

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

dánarbúi Guðmundar Páls

Þorvaldssonar og

Þóru Dröfn Guðmundsdóttur

Líkamstjón. Slysatrygging. Fyrning. Bifreiðar.

Á krafðist skaðabóta úr hendi S hf. og G, en til vara Þ, vegna líkamstjóns sem hún var fyrir í umferðarslysi árið 2001. Deildu aðilar meðal annars um hvort skaðabótakrafa á hendur S hf. og G hefði verið fyrnd í skilningi 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en málið var höfðað árið 2008. Talið var að miða bæri upphaf fyrningarfrests við áslok árið 2006 en um mitt það ár hefði komið fram afleiðingar af slysinu sem A hefði ekki geta gert sér grein fyrir. Var krafa Á því talin ófyrnd og S hf. og G gert að greiða henni óskipt bætur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2009. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en til vara lækkunar á fjárhæð hennar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 17. desember 2009, að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjenda fyrir Hæstarétti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Til  vara krefst hún þess að stefnda Þóra Dröfn Guðmundsdóttir verði dæmd til að greiða henni 3.479.837 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 29. september 2004 til 6. desember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Þóra Dröfn Guðmundsdóttir krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti hvað hana varðar en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hún lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda. Hún krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er mælt fyrir um að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs ,,sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.“ Jafnframt er kveðið á um að kröfurnar fyrnist í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Samkvæmt þessu hefst hinn lögmælti fjögurra ára fyrningartími við lok þess almanaksárs er tjónþoli telst hafa fengið vitneskju um kröfuna, ef hann telst þá hafa átt þess kost að leita fullnustu hennar. Talið verður að til hins síðarnefnda skilyrðis heyri að tjónþola hafi mátt vera orðið ljóst umfang þess líkamstjóns sem bóta er krafist fyrir.

Í máli þessu er upplýst að gagnáfrýjandi var flutt á slysadeild vegna umferðarslyssins 20. maí 2001. Hún leitaði aftur til deildarinnar vegna einkenna frá slysinu 10. ágúst sama ár. Í læknisvottorði 27. janúar 2007, rituðu af sérfræðingi við slysadeildina, og byggt er á gögnum úr sjúkraskrá deildarinnar, segir meðal annars: ,,Um afdrif [sjúklings] er ekki vitað og því ekki unnt að spá fyrir um sjúkdómshorfur til skamms og langs tíma.“ Gagnáfrýjandi hefur sagst hafa leitað til sjúkraþjálfara haustið 2001 vegna afleiðinga slyssins og í byrjun árs 2002. Í skýrslu fyrir dómi sagðist hún alltaf finna fyrir bakinu, misjafnlega mikið eftir álagi, en hafa talið að það myndi lagast með tímanum. Hún kvaðst hafa orðið þunguð um mitt ár 2006 og ,,í ágúst, september er þetta orðið bara óbærilegt og ég ákvað þá að ég verði að leita mér læknis.“ Fær þetta stoð í gögnum málsins. Hún leitaði síðan til Stefáns Dalberg, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum. Í vottorði hans 4. janúar 2007 segir meðal annars svo: ,,Ásta virðist hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í slysinu í maí árið 2001. Hún hefur hlotið tognun á háls og brjóstbak. Hafa afleiðingar slyssins háð henni bæði í leik og starfi. Ástandið hefur verið óbreytt lengi og ekki að búast við að hún verði betri með tímanum. Tímabært er að meta afleiðingar slyssins.“ Gagnáfrýjandi leitaði einnig til heilsugæslu 15. janúar 2007 vegna einkenna sinna.

Samkvæmt framansögðu má leggja til grundvallar í málinu að ástand gagnáfrýjanda hafi verið nokkuð stöðugt allt frá árinu 2002 og til þess tíma er hún varð barnshafandi um mitt ár 2006. Þá hafi hins vegar komið fram afleiðingar af slysinu  sem gagnáfrýjandi hafi ekki fyrr getað gert sér grein fyrir. Af þessu leiðir að upphafsdagur fyrningarfrests fjögurra ára fyrningartíma samkvæmt 99. gr. umferðarlaga telst vera í árslok 2006. Krafa gagnáfrýjanda var því ekki fyrnd þegar stefna var birt 29. september 2008. Ekki eru efni til þess samkvæmt gögnum málsins að vefengja að líkamstjón gagnáfrýjanda stafi af slysinu 20. maí 2001. Samkvæmt þessu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur þar með talið um upphafstíma dráttarvaxta sem er einum mánuði eftir kröfubréf gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda Sjóvár-Almennra trygginga hf.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Aðaláfrýjendur verða dæmdir til að greiða óskipt í ríkissjóð málskostnað gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti samkvæmt því sem greinir í dómsorði.

Málskostnaður gagnvart Þóru Dröfn Guðmundsdóttur fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, Ástu Rúnar Pétursdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.

Aðaláfrýjendur, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og dánarbú Guðmundar Páls Þorvaldssonar, greiði óskipt 500.000 krónur í ríkissjóð vegna málskostnaðar gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti.

Málskostnaður gagnvart Þóru Dröfn Guðmundsdóttur fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. mars 2009, er höfðað 29. september 2008.

                Stefnandi er Ásta Rún Pétursdóttir, Vesturbraut 6, Keflavík.

Stefndu eru Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík og db. Guðmundar Páls Þorvaldssonar, Hlíðarbraut 2, Hafnarfirði.

Til vara er stefnt Þóru Dröfn Guðmundsdóttur, Hlíðarbraut 2, Hafnarfirði

Dómkröfur  

Stefnandi gerir aðallega þá dómkröfu að aðalstefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og db. Guðmundur Páls Þorvaldssonar, verði in soldium dæmd til að greiða stefnanda 3.479.837 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 20. maí 2001 til 6. des 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Verði ekki orðið við aðalkröfu stefnanda gerir stefnandi þá dómkröfu til vara, að stefnda Þóra Dröfn Guðmundsdóttir verði dæmd til að greiða stefnanda 3.479.837 krónur með sama vaxtafæti og greinir í aðalkröfu.

Þá er í báðum tilvikum gerð krafa um málskostnað að skaðlausu, samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndu og varastefnda krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða þeim málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Stefndu og varastefnda krefjast þess til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Málavextir

Málsatvik eru þau að stefnandi slasaðist í umferðarslysi þann 20. maí 2001, er ökumaður bifreiðarinnar, NB-792, Þóra Dröfn Guðmundsdóttir, ók bifreiðinni, NB-792, aftan á bifreið stefnanda. Í lögregluskýrslu segir að tilkynnt hafi verið um harðan árekstur. Eigandi bifreiðarinnar NB-792 var Guðmundur Páll Þorvaldsson, sem nú er látinn, og var bifreiðin ábyrgðartryggð samkvæmt 1. mgr. 93. greinar umferðarlaga. Vátryggjandi var Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

Stefnandi kveðst í einu og öllu hafa farið að umferðarlögum. Hún hafi ekið vestur Lækjargötu í Hafnarfirði og ætlað að beygja til vinstri yfir gagnstæða akrein, inn á bensínstöð sem þar var. Það hafi hún gefið til kynna með stefnuljósum og bremsuljósum. Hafi hún hægt á bifreiðinni og næstum stöðvað, vegna umferðar á móti, er ekið var aftan á hana, þannig að af varð harður árekstur. Báðar bifreiðarnar skemmdust mikið. Flytja varð bifreiðina, sem ók aftan á bifreið stefnanda, á brott með dráttarbifreið.

Stefnandi var eftir áreksturinn flutt á slysa- og bráðadeild LSH, Fossvogi með sjúkrabifreið. Í vottorði Guðjóns Baldurssonar, læknis á slysadeild, segir meðal annars:

„Fór strax að finna fyrir verkjum í hálsi með leiðni fram í enni, höfuðverk, einnig leiðni út í báðar axlir.“

Stefnandi kom síðan aftur á slysadeildina þann 10. ágúst 2001 og var þá greind með hálstognun í kjölfar umferðaslyss. Fram kemur í vottorðinu að stefnandi hafi þá verið nemi í Flensborgarskóla, en stefnandi var þá 18 ára aldri.

Stefnandi kveðst, á þessum tíma, hafa verið sannfærð um að þessir áverkar myndu lagast með tímanum og hafi hún ekki fundið mikið fyrir þeim, nema þegar hún var í mikilli vinnu, sem aðeins var á sumrin, en á vetrum hafi hún verið í námi. Það hafi síðan verið árið 2006, er hún var orðin ófrísk af sínu fyrsta barni, og var einnig að vinna, sem þessir áverkar hafi farið að hrjá hana verulega og háð henni við vinnu. Hún hafi þá leitað til heimilislæknis síns í Hafnarfirði, Önnu M. Guðmundsdóttur, og síðan til Stefáns Dalberg, bæklunarlæknis, sem hafi greint hana með varanlega áverka, eftir umferðarslysið þann 20. maí 2001.

Á þessum tíma leitaði stefnandi til lögmanns, sem sendi hinu stefnda félagi bréf, hinn 26. janúar 2007. Varð að samkomulagi lögmannsins og félagsins að áverkarnir yrðu metnir og síðan myndi félagið taka ákvörðun um hvort félagið teldi kröfur stefnanda fyrndar.

Varð niðurstaða þeirri Björns Daníelssonar, lögfræðings, og Sigurðar Thorlacius, taugalæknis, sem stóðu að matinu, sem er dags. 5. nóvember 2007, að stöðugleikapunktur eftir áverkana væri 20. ágúst 2001 og að miski stefnanda vegna slyssins væri 10% og varanleg örorka einnig 10%.

Sendi lögmaðurinn félaginu kröfubréf, hinn 6. nóvember 2007, þar sem félagið var krafið um bætur samkvæmt matinu.

Var kröfum stefnanda hafnað á þeim grundvelli að krafan væri fyrnd. Má1 stefnanda á hendur stefndu var áður þingfest þann 11. janúar 2008, en síðar fellt niður með samþykki aðila málsins.

Stefnandi kveðst ekki geta unað þeim málalokum og telur sig knúna til að láta reyna á rétt sinn fyrir dómi.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að hún eigi skaðabótarkröfu á hendur stefndu Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og db. Guðmundar Páls á grundvelli 88. og 89. gr. og 1. mgr. 90. greinar umferðarlaga. Þá er á því byggt að stefnandi eigi skaðabótakröfu á hendur stefndu, Þóru Dröfn, á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, óháð hlutlægri ábyrgð 88.greinar umferðarlaga.

Stefnandi byggir kröfur sínar á framlagðri matsgerð Sigurðar Thorlcius læknis og Björns Daníelssonar lögfræðings og sundurliðast kröfur hennar þannig:        

1.  Miskabætur:  6.692.260 x 10 stig

kr.

669.226

2.  Varanlega örorka 1.546.252 x 18.071 x 10 stig.

kr.

2.794.231

3.  Þjáningabætur 700 x 5491/3282 x 14.

kr.

16.380

Samtals bætur:

kr.

3.479.837

1. Miskabætur eru grundvallaðar á 4. grein skbl. og 2. mgr. 15. greinar skbl. 4.000.000 x 5491/3282 = 6.692.260. Miðað er við þann mánuð er kröfunni var lýst á hendur hinu stefnda félagi, þ.e. nóvember 2007.

2. Bætur fyrir varanlega örorku reiknar stefnandi út frá lágmarkslaunum. 1.200.000 x 4229/3282 = 1.546.252, lánskjaravísitölu á stöðugleikapunkt. Stuðull er miðaður við aldur stefnanda á stöðugleikapunkti. Vísað er til 5. til 7. greinar skb1.

3. Kröfur um þjáningabætur byggir stefnandi á 3. grein skb1.                  

Stefnandi byggir kröfur sína enn fremur á því að hún hafi ekki átt þess kost að leita kröfu sinnar fyrr en hún hafði fengið álit Stefáns Dalberg, bæklunarlæknis, um að hún hefði hlotið varanlegt mein í umferðarslysinu, sem hafi ekki verið fyrr en í janúar 2007.

Byggir stefnandi á að útilokað sé í þessu máli, samkvæmt eðli máls og meginreglum laga, að miða upphaf fyrningarfrests samkvæmt 1. málsgreinar 99. greinar við stöðugleikapunkt samkvæmt skaðabótalögum þar sem ljóst sé að enginn tjónþoli sendi tryggingafélagi kröfur sínar um bætur eftir svo skamman tíma frá slysi, heldur verði að miða við hvenær stefnandi fyrst fékk vitneskju um að um varanlega áverka væri að ræða. Hafi hún fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar í nóvember 2007, er matsgerðin lá fyrir.

Byggir stefnandi á því að orðalag 99. gr. umferðarlaga á þessa leið: „fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar“ sé í samræmi við kröfugerð hennar í málinu og að með engu móti sé hægt að miða við stöðugleikapunkt sem ákvarðaður sé í nóvember 2007, aftur í tímann.

Þá verði einnig að miða við að hún var ekki nema 18 ára er hún slasaðist. Þá hafi hún enn verið í skóla og ekki verið farin að reyna á sinn líkamlega styrk við vinnu. Það hafi ekki verið fyrr en nokkrum árum seinna. Tryggingafélög hafi, í slíkum tilvikum, beðið um að áverkar verði ekki metnir fyrr en nokkuð er liðið frá tjónsatburði, sérstaklega ef um unga tjónþola er að ræða, en í þessu sambandi byggi stefnandi einnig á 11. grein skaðabótalaga um versnandi heilsufar, sem átt hafi sér stað eftir að stefnandi varð barnshafandi og varð jafnframt að sjá sér farborða með vinnu.

Á því er byggt að afstaða tryggingafélagsins stangist á við jafnræðisreglu stjórnarskrár og meginreglur laga um upphaf fyrningarfrests samkvæmt fyrningarlögum og fyrningarrétti. Ákvæði bótakafla umferðarlaga, svo sem ákvæði 99. greinar, eins og þau hafi verið túlkuð, og hið stefnda félag byggi á, skerði bótarétt stefnanda samkvæmt grundvallarreglum skaðabótaréttar, sé undantekningarregla og verði því að víkja fyrir dómkröfum stefnanda á grundvelli jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár, en þeir sem slasist, t.d. í vinnuslysum eða af hendi annars aðila, án þess að vera í bifreið, eigi áfram kröfur á tjónvaldinn eða vinnuveitandann í 10 ár frá tjónsatburði.

Það sé grundvallarregla skaðabótaréttar að sá sem valdi öðrum manni tjóni verði að bæta tjónið, ef um sök sé að ræða, og fyrnist slíkur bótaréttur ekki fyrr en eftir 10 ár frá tjónsatburði, í fyrsta lagi. Engin gild rök séu fyrir því að slík bótakrafa eigi að fyrnast á 4 árum frá stöðugleikapunkti á grundvelli 99. greinar umferðarlaga, enda sé það ekki inntak þeirrar reglu, samkvæmt orðanna hljóðan. Slíkt sé einfaldlega mismunun og brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Sem dæmi um hið gagnstæða, að ekki gildi 4 ára fyrningartími frá stöðugleikpunkti (eða batahvörfum), vísar stefnandi til eftirfarandi dóma Hæstaréttar Íslands: Dóms í málinu nr. 271/1998, frá 18. febrúar 1999. Dóms í málinu nr. 240/1998, frá 25. febrúar 1999, dóms í málinu nr. 177/2000 frá 2. nóvember 2000, dóms í málinu nr. 81/2004 frá 30. september 2004 og dóms í málinu nr. 254/2001 frá 29. janúar 2002.

Byggir stefnandi á því að það brjóti gegn jafnræðisreglum stjórnarskrár að stefnandi sé ekki jafnrétthá fyrir lögum og aðrir sem bíði líkamstjón og skipti í því efni ekki máli að kveðið sé á um hlutlæga bótaábyrgð í settum lögum, í tilfelli stefnanda. Byggir stefnandi á því að aðrir tjónþolar, sem h1jóti tjón á líkama sínum, fái tjón sitt bætt að fullu, enda þótt meira en 4 ár séu liðin frá upphafi fyrningarfrests, en stefnandi ekki. Stefnandi vísar kröfu sinni til grundvallar einnig til eignarverndarákvæða stjórnarskrár og til 1. greinar I. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 14. gr. og 18. gr. sáttmálans. Ekki sé tækt að svipta stefnanda bótarétti samkvæmt ofangreindum grundvallarreglum með stoð í 99. gr. umferðarlaga, en stefnandi eigi stjórnarskrárvarinn rétt til bóta fyrir líkamstjón og skerðingu á aflahæfi.

Ákvæði 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga séu nær samhljóða ákvæðum 29. gr. vátryggingasamningalaga nr. 20/1954, en sú lagagrein hafi í gegnum tíðina verið túlkuð með hliðsjón af almennum fyrningarreglum um upphaf fyrningarfrests. Byggir stefnandi einnig á 30. grein laga nr. 50/1954 og almennum reglum um upplýsingaskyldu tryggingafélaga og í því efni, að stefnandi hafi aldrei fengið nokkur skilaboð frá hinu stefnda félagi um rétt sinn eða að hann væri fallinn niður.

 Á því er byggt að félagið hafi við slysið fært ákveðna upphæð í bótasjóð sinn til lúkningar umkröfðum bótum og komi það í veg fyrir að kröfur stefnanda hafi fyrnst, þar sem félaginu hafi borið að tilkynna stefnanda um þá færslu félagsins. Byggir stefnandi á því að félagið hafi geymt í bókhaldi sínu ákveðna vátryggingarskuld til að standa skil á tjóni stefnanda. Meðan svo hafi verið geti krafa stefnanda ekki verið fyrnd, samkvæmt grundvallarreglu fyrningarlaga. Skipti máli í því tilviki að tryggingafélagið hafi aldrei tilkynnt stefnanda um rétt sinn.

Varakrafa stefnanda á hendur Þóru Dröfn Guðmundsdóttur byggist á því að Þóra Dröfn eigi sök á tjóni stefnanda. Varastefnda hafi verið ökumaður bifreiðarinnar NB-792, og hafi hún ekið viðstöðulaust aftan á bifreið stefnanda og þannig brotið gegn grundvallarákvæðum umferðarlaga um varúðarskyldu ökumanna, svo sem 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga, 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 36. gr. og hafi þannig valdið tjóni stefnanda með verulegu gáleysi. Þannig beri stefnda Þóra Dröfn skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Sé henni því skylt að bæta tjón stefnanda samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Geti stefnda, Þóra Dröfn, ekki skorast undan ábyrgð, þótt hún hafi valdið stefnanda tjóni með akstri bifreiðar, sem í þessu tilviki hafi einungis verið hættulegt tæki, sem stefnda Þóra Dröfn hafi ekki gætt nægilegrar varúðar við að stjórna og þar af leiðandi valdið tjóni. Kröfu á hendur henni byggi stefnandi ekki á því bótahagræði sem felist í 88. gr. umferðarlaga, heldur einungis almennu skaðabótareglunni.

Samkvæmt málsforræðisreglu laga um meðferð einkamálalaga sé henni frjálst að byggja kröfu sína á þeim lagareglum sem henni eru hagstæðastar. Ekki sé í XIII. kafla umferðarlaga kveðið á um að tjónþoli, vegna umferðarslysa, verði að byggja alfarið 88. grein umferðarlaga og þeirri hlutlægu ábyrgðarreglu sem í þeirri lagagrein felist. Í umferðarlögum sé skýrlega kveðið á um að það sé eigandi bifreiðar sem beri ábyrgð á bifreiðinni, þótt ökumaður hennar valdi tjóni, sbr. efni 88. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 90. gr. Þá sé í 99. gr. umferðarlaga tekið fram að allar kröfur á hendur þeim sem ábyrgð beri samkvæmt XIII. kafla og tryggingafélagi fyrnist á 4 árum. Byggir stefnandi á að það eigi ekki við varðandi ábyrgð ökumanns bifreiðar. Byggir stefnandi á því að til þess að svo verði talið hefði þurft að taka það skýrt farm í XIII. kafla umferðarlaga. Það sé hins vegar ekki gert.

Krafa stefnanda á hendur Þóru Dröfn byggist einnig þeim jafnræðissjónarmiðum, sem rakin séu hér að framan, en þau eigi enn frekar við í varaaðild þessa máls, þar sem ekki sé byggt á hlutlægri bótaábyrgð 88. gr. umferðarlaga. Til að svipta stefnanda þeim rétti að krefja þann, sem hafi valdið henni tjóni, um bætur fyrir tjónið, þurfi skýrar reglur í settum lögum og sé því til grundvallar vísað til jafnræðisreglu 65. greinar stjórnarskrár og einnig meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.

Stefnandi skírskotar kröfum sínum til stuðnings til reglna fyrningarréttar um upphaf fyrningarfrests, svo sem til 5. gr. fyrningarlaga, til 29. gr. og 30. gr. um vátryggingasamninga nr. 20/1954. Þá vísar stefnandi til jafnræðisreglu stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, sem og til eignarverndarákvæða þessara grundvallarlaga og reglu stjórnskipunar um meðalhóf. Þá vísar stefnandi til reglna vátryggingasamningaréttar um upplýsingarskyldu tryggingafélaga. Hvað varðar kröfur stefnanda á Þóru Dröfn sem tjónvald, skírskotar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar, jafnræðisreglu stjórnarskrár og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og til þeirra reglu kröfuréttar og skaðabótaréttar, að skaðabótakröfur fyrnist á 10 árum, sbr. og fyrningarlög.

Málsástæður stefndu og lagarök

Aðalkrafa um sýknu

1.             Krafa stefnanda á hendur aðalstefndu.

Aðalkrafa aðalstefndu um sýknu er byggð á því að bótakrafa stefnanda vegna líkamstjóns, sem stefnandi telur að rekja megi til umferðarslyssins 20. maí 2001, hafi verið fyrnd þegar mál um hana var höfðað. Skipti þar engu hvort miðað sé við birtingu stefnu í hinu fyrra máli, hinn 20. desember 2007, eða vegna þess máls sem nú sé til meðferðar, hinn 29. september 2008. Bótakrafan sé reist á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, en um fyrningu slíkra krafna gildi sérákvæði 99. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu fyrnast bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna gagnvart þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.

Stefndu byggja á því að krafa stefnanda hafi verið fyrnd þegar stefnandi höfðaði mál um hana. Fram kemur í matsgerð þeirra Björns Daníelssonar lögfræðings og Sigurðar Thorlacius læknis að ekki hafi verið að vænta frekari bata á heilsufari stefnanda vegna afleiðinga umrædds umferðarslyss þremur mánuðum eftir slysdag og hafi því verið miðað við að stöðugleikatímapunktur, í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993, væri þann 20. ágúst 2001. Eigi þetta sér einnig stoð í öðrum læknisfræðilegum gögnum málsins þar sem fram komi að heilsa stefnanda hafi verið óbreytt um langt skeið, sbr. t.d. læknisvottorð Stefáns Dalberg, dags. 4. janúar 2007. Þá hafi stefnandi sjálf sagt á matsfundi að einkenni hennar hefðu verið að mestu óbreytt frá ágúst 2001. Í matsgerðinni hafi jafnframt verið tekin sérstök afstaða til þess hvenær stefnanda hafi mátt vera ljóst að einkenni hennar myndu ekki batna. Var talið að stefnanda hefði mátt vera þetta ljóst eigi síðar en einu ári eftir slysdag, þ.e. þann 20. maí 2002, en í því sambandi hafi meðal annars verið litið til fyrrgreindra ummæla stefnanda á matsfundi og til þess að hún hefði ekki leitað til lækna eða annarra meðferðaraðila frá þeim tíma, allt fram til ársins 2006.

Við mat á því, hvenær fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga byrjar að líða, hafi skapast skýr dómaframkvæmd fyrir því að miða við lok þess árs þegar stöðugleikatímapunktur hafi verið ákveðinn af matsmönnum eða það tímamark þegar tjónþola mátti fyrst vera ljóst að hann hefði hlotið varanleg mein af slysinu og þar með átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 58/2006, 615/2007 og 661/2007. Þó að ætla megi tjónþola einhvern tíma til að afla mats um afleiðingar slyss frá þessum tímapunkti séu ekki efni til að meta þann tíma lengri en nokkra mánuði, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 353/2007.

Samkvæmt framangreindu og með vísan til þess að stöðugleikatímapunktur stefnanda var 1. ágúst 2001 telja stefndu að fyrningarfrestur vegna kröfu stefnanda hafi byrjað að líða 1. janúar 2002 og krafan því verið fyrnd 1. janúar 2006, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á nokkuð sem staðið hafi því í vegi að hún gæti látið meta tjón sitt og leitað fullnustu kröfu sinnar frá þessu tímamarki. Verði ekki fallist á þetta telja stefndu einsýnt að fyrningarfrestur hafi í síðasta lagi byrjað að líða 1. janúar 2003. Vísa stefndu í því sambandi til niðurstöðu fyrrgreindrar matsgerðar um að matsmenn telji að stefnanda hafi mátt vera ljóst eigi síðar en einu ári eftir slysdag, þ.e. þann 20. maí 2002, að einkenni hennar myndu ekki batna svo neinu máli skipti og að þau teldust varanleg. Jafnframt sé vísað til framburðar stefnanda á matsfundi um að einkenni hennar hefðu verið að mestu óbreytt frá ágúst 2001.

Með vísan til þessa telja stefndu að fyrir liggi sönnun þess að stefnanda hafi í síðasta lagi mátt vera ljóst að hún hafi hlotið varanlegt mein af slysinu þann 20. maí 2002 og frá því tímamarki átt þess kost að gera viðeigandi ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Tekið skuli fram að stefnandi hafi ekki bent á nokkuð haldbært sem hafi staðið því í vegi að hún gæti hafist handa við að láta meta það tjón, sem hún telji að rekja megi til slyssins, og leitað fullnustu bótakröfu sinnar frá þessu tímamarki. Fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga byrjaði því í síðasta lagi að líða við árslok 2002 og hafi runnið út í árslok 2006.

Fullyrðingar í stefnu um að miða eigi upphaf fyrningarfrests við það tímamark þegar stefnandi hafi fengið álit Stefáns Dalberg, bæklunarlæknis, um að hún hafi hlotið varanlega áverka fái ekki staðist. Miða verði við að stefnanda hafi verið, eða a.m.k. hafi mátt vera, kunnugt um kröfu sína mun fyrr og vísist í því sambandi til fyrrnefndrar matsgerðar sem ekki hafi verið hnekkt að þessu leyti.

Stefndu mótmæla því að aldur stefnanda geti einhver áhrif haft á upphaf fyrningarfrests. Engin skilyrði séu til þess í málinu að seinka upphafsdegi fyrningar vegna þess að stefnandi hafi enn verið í námi þegar hún slasaðist eða að hún hafi einungis verið 18 ára gömul á slysdegi. Fyrir slíku skorti einfaldlega lagaskilyrði og sé túlkun stefnanda í andstöðu við 99. gr. umferðarlaga, sem geri engan greinarmun á fyrningu bótakrafna eftir aldri tjónþola. Tekið skuli fram að stefnandi hafi verið orðin fullorðin og þannig fullfær um að gera sér grein fyrir afleiðingum slyssins áður en fjögurra ára fyrningarfresti samkvæmt 99. gr. umferðarlaga lauk.

Stefndu geri athugasemd við tilvísun stefnanda til þess að tryggingafélög hafi beðið um að áverkar verði ekki metnir fyrr en nokkuð er liðið frá tjónsatburði þegar tjónþolar séu ungir að árum. Óljóst sé af hvaða ástæðu stefnandi vísi til þessa, en tekið skuli fram að stefndu hafi aldrei farið fram á að beðið yrði með að meta áverka stefnanda og verði sú töf sem varð á því að tjón stefnanda yrði metið því ekki með nokkru móti rakin til stefndu.

Stefndu mótmæla þeirri málsástæðu stefnanda að afstaða stefndu til bótakröfu hennar brjóti með einhverjum hætti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglum laga um upphaf fyrningarfrests. Hæstiréttur hafi í fjöldamörgum dómum staðfest framangreinda túlkun á 99. gr. umferðarlaga og blasi því við að ákvæðið sé í fullu samræmi við bæði ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttinda­sáttmála Evrópu. Þá feli ákvæðið ekki í sér nokkurs konar mismunun á milli stefnanda og annarra í sömu stöðu, enda gildi ákvæðið jafnt um alla þá sem sækja bætur á grundvelli XIII. kafla umferðarlaga. Tekið sé fram að þeir dómar sem vísað sé til í stefnu styðji ekki með nokkrum hætti þessa málsástæðu stefnanda, en þeir varði ekki bótakröfur á grundvelli umferðarlaga. Þá fái það ekki staðist að halda því fram að sérákvæði um fyrningarfrest vegna bótakrafna á grundvelli umferðarlaga brjóti sem slík í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Hvað varðar tilvísun stefnanda til eignarverndarákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu skuli tekið fram að fyrningarreglur hafi ekki verið taldar brjóta gegn þessum ákvæðum, en rökstuðning fyrir þessari málsástæðu skorti í stefnu og sé því ekki ljóst með hvaða hætti stefnandi telji hafa verið brotið gegn eignarrétti hennar.

Stefndu mótmæli því að ákvæði eldri laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga hafi þýðingu við túlkun á 99. gr. umferðarlaga, enda eigi fyrrnefnd ákvæði eingöngu við um slit á fyrningu krafna sem rísa af vátryggingarsamningi og sé krafa stefnanda ekki reist á slíkum samningi heldur á sérákvæðum XIII. kafla umferðarlaga. Því sé jafnframt sérstaklega mótmælt að einhvers konar skylda hvíli á stefnda að tilkynna stefnanda um rétt sinn til bóta samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga eða fyrningarreglur sama kafla. Þá fari því fjarri að háttsemi stefnda eða meint upplýsingaskylda félagsins geti valdið því að réttur stefnanda til skaðabóta framlengist umfram þann fyrningarfrest sem 99. gr. umferðarlaga kveði á um.

Stefndu mótmæli því að það, að stefndi hafi fært ákveðna fjárhæð í bótasjóð sinn til lúkningar á kröfu stefnanda, komi í veg fyrir að kröfur stefnanda hafi fyrnst eða að þessi háttsemi hafi með einhverjum hætti rofið fyrningu. Með þessum færslum hafi stefndi eingöngu verið að sinna lögboðinni sky1du sinni til að áætla kostnað fyrir tjónum sem á hann kunna að falla, án þess að nokkur vissa hafi þá legið fyrir um hvort slíkar kröfur kæmu fram eða teldust réttmætar. Slíkar færslur séu óviðkomandi réttarstöðu stefnanda gagnvart stefnda og hvíldi engin skylda á honum til að tilkynna stefnanda um þær, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 58/2006. Fullyrðing stefnanda í þessa veru sé því að öllu leyti úr lausu lofti gripin og málinu óviðkomandi.

Að lokum byggja stefndu á því, hvað sem framangreindu líði, að krafa stefnanda sé fallin niður vegna tómlætis. Tæp sex ár hafi liðið frá því að stefnandi slasaðist og þar til hún beindi kröfum vegna tjóns síns að stefndu. Með vísan til framangreinds sé ljóst að stefnandi hafi enga tilraun gert til þess að innheimta kröfu sína eða fá tjón sitt metið fyrr en tæpum sex árum eftir slysið, jafnvel þótt einkenni stefnanda hefðu að eigin sögn verið að mestu óbreytt frá ágúst 2001. Stefnandi hafi því sýnt af sér algjört tómlæti við innheimtu á meintri kröfu sinni og verði það að leiða til sýknu stefndu.

2.             Krafa stefnanda á hendur varastefndu Þóru Dröfn.

Varastefnda reisir sýknukröfu sína, líkt og aðalstefndu, á því að bótakrafa stefnanda vegna umferðarslyssins hafi verið fyrnd þegar mál um hana var höfðað. Eins og að framan hafi verið rakið þá fyrnist allar kröfu samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Stefnda byggir á því að framangreind fyrningarregla taki til allra skaðabótakrafna sem rekja megi til áreksturs tveggja vélknúinna, skráningarskyldra ökutækja og skipti þá engu máli hvort meint bótaskylda sé reist á 89. gr. umferðarlaga, 3. mgr. 90. gr. laganna eða á öðrum bótagrundvelli sem stefnandi kunni að reisa kröfu sína á. Gildi þetta hvort sem bótakröfu er beint að eiganda, umráðamanni eða ökumanni bifreiðar. Í máli þessu sé byggt á því að tjón stefnanda verði rakið til fyrrgreinds áreksturs 20. maí 2001. Með vísan til þess sem að framan greini hafi bótakrafa stefnanda verið fyrnd þegar mál vegna hennar var höfðað.

Varastefnda byggir á því að hún geti ekki borið skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á öðrum lagagrundvelli en fjallað sé um í XIII. kafla umferðarlaga, sbr. 88.-90. gr. laganna. Með umferðarlögum hafi löggjafinn sett þær leikreglur sem skulu gilda um tjón af völdum vélknúinna ökutækja og verði ekki vikið frá þeim, enda um að ræða sérákvæði sem gangi framar almennum ákvæðum skaðabótaréttar. Engin lagaheimild sé til þess í íslenskum rétti að fella bótaábyrgð á stefndu á grundvelli almennu skaðabótareglunnar eingöngu, án tilvísunar til 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga, enda sé um að ræða kröfu sem eigi rætur að rekja til umferðarslyss. Slík beiting almennu skaðabótareglunnar myndi brjóta freklega gegn tilgangi XIII. kafla umferðarlaga, enda feli 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga í sér bótaábyrgð eiganda, umráðamanns eða ökumanns bifreiðar á sakargrundvelli.

Þar sem byggt sé á því í málinu að tjón stefnanda megi rekja til árekstursins 20. maí 2001 fari um meinta bótaábyrgð samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga. Stefnandi geti vissulega byggt á almennum skaðabótareglum, sbr. 3. mgr. 90. gr. laganna, en þar sem um mál vegna tjóns af völdum vélknúins ökutækis er að ræða gildi viðkomandi ákvæði XIII. kafla laganna um kröfuna, þar með talið fyrningarákvæði 99. gr. laganna. Stefnda mótmælir því sérstaklega að stefnandi geti, með því að haga grundvelli málsins með þessum hætti, farið á svig við fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga sem ætlað sé að ná til allra krafna sem eiga rætur að rekja til tjóns af völdum vélknúinna ökutækja.

Varastefnda byggir jafnframt á því að krafa stefnanda sé fallin niður vegna tómlætis og vísast til framanritaðs um röksemdir þessu til stuðnings. Áréttað sé að sjónarmið um tómlæti eigi enn frekar við hvað kröfu á hendur varastefndu varðar, enda hafi hún ekki fengið vitneskju um kröfu stefnanda fyrr en mál gegn henni var höfðað í fyrra skiptið hinn 20. desember 2007, þ.e. meira en sex og hálfu ári eftir slysdag.

Varastefnda reisir kröfu sína um sýknu enn fremur á því að ekki hafi verið sýnt fram á það grundvallarskilyrði skaðabótaábyrgðar að um saknæma háttsemi af hennar hálfu hafi verið að ræða, en fyrir því beri stefnandi sönnunarbyrði. Varastefnda telur ekki liggja fyrir sönnun þess að tjón stefnanda verði rakið til ásetnings eða gáleysis af hennar hálfu og verði því að sýkna hana af kröfu stefnanda.

Varakrafa aðalstefndu og varastefndu um verulega lækkun á kröfum stefnanda

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu og varastefndu er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Í fyrsta lagi er því mótmælt að sýnt hafi verið fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til varanlegra afleiðinga slyssins. Stefndu og varastefnda byggja á því að ósannað sé að tjón stefnanda vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku megi rekja til umferðarslyssins 20. maí 2001 og því geti þau ekki borið skaðabótaábyrgð á tjóninu að lögum. Fyrirliggjandi matsgerð feli ekki í sér sönnun fyrir orsakatengslum á milli slyssins og varanlegs tjóns stefnanda, enda hafi matsmönnum ekki verið falið að meta þetta atriði. Þvert á móti hafi verið gengið út frá því að um orsakatengsl væri að ræða í matsbeiðni og eingöngu farið fram á tölulegt mat á tjóni stefnanda. Í samræmi við þetta sé engan rökstuðning fyrir orsakatengslum að finna í matsgerðinni og liggi því ekki fyrir sönnun þess að tjón stefnanda megi rekja til umferðarslyssins. Þá liggi nánast engin samtímagögn fyrir um áhrif þessa slyss á heilsu stefnanda en samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns. Stefndu og varastefnda mótmæla því að skilyrði séu til að víkja frá þessari meginreglu og leggja sönnunarbyrðina á stefndu.

Byggja stefndu og varastefnda á því að orsök tjóns stefnanda megi alfarið rekja til annarra atvika en umferðarslyssins 20. maí 2001. Eins og að framan greini þá leitaði stefnandi ekki til læknis vegna meintra varanlegra afleiðinga slyssins fyrr en í janúar 2007 en þá voru tæp sex ár liðin frá slysinu. Ótal atriði geti haft áhrif á heilsu stefnanda á þessu tímabili og sé með öllu ósannað í málinu að þær heilsufarslegu afleiðingar sem stefnandi glími við í dag megi rekja til umferðarslyssins. Stefndu og varastefnda bendi á að hvergi í læknisfræðilegum gögnum málsins sé að finna sönnun um bein tengsl á milli slyssins og varanlegra afleiðinga en stefnandi verði að bera allan halla af sönnunarskorti um þetta atriði. Með vísan til þessa verði að hafna kröfu stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku og varanlegs miska, enda sé það grundvallarskilyrði bótaábyrgðar að sýnt sé fram á orsakatengsl. Þá sé mati matsmanna á varanlegum afleiðingum slyssins sérstaklega mótmælt, en niðurstaða þeirra sé nánast með öllu órökstudd.

Í öðru lagi er kröfu stefnanda um vexti og dráttarvexti mótmælt. Varastefnda geri athugasemd við það að í kröfugerð í stefnu vegna varaaðildar segi eingöngu að þess sé krafist að hún greiði umkrafða fjárhæð „með sama vaxtafæti og greinir í aðalkröfu“. Sé þannig ekki tilgreint hvers konar vexti gerð sé krafa um eða tímamörk vaxtakröfu og kunni það að varða frávísun vaxtakröfunnar.

Stefndu og varastefnda mótmæla kröfu stefnanda um vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu getur krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku ekki borið vexti fyrr en frá upphafsdegi metinnar örorku, sem er 20. ágúst 2001 samkvæmt niðurstöðu matsgerðar. Þá sé kröfu stefnanda um greiðslu vaxta, sem eru eldri en fjögurra ára frá málshöfðunardegi, sérstaklega mótmælt sem fyrndri, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Þá mótmæla stefndu og varastefnda dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Um lagarök vísa stefndu og varastefnda til umferðarlaga nr. 50/1987, laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns. Þá er vísað til meginreglna einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Jafnframt er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

                Eftir bílslysið 20. maí 2001 var stefnandi flutt með sjúkrabíl á slysa- og bráðadeild Landspítalans. Samkvæmt vottorði Guðjóns Baldurssonar læknis, dags. 27. janúar 2007, greindist stefnandi með hálstognun. Fékk hún almennar ráðleggingar um hreyfiæfingar og skrifað var upp á bólgueyðandi lyf. Þá segir í lok vottorðsins að um afdrif sjúklings sé ekki vitað og því ekki unnt að segja fyrir um sjúkdómshorfur til skamms og langs tíma. Stefnandi kom aftur á slysa- og bráðadeildina 10. ágúst 2001. Niðurstaða Guðjóns Baldurssonar læknis er sú sama og fyrr. Kemur fram í vottorðinu að stefnandi hafi verið frá vinnu í eina til tvær vikur eftir slysið.

Fyrir dómi bar stefnandi að henni hefði verið sagt á slysadeildinni að hún væri ekki brotin og að þetta myndi lagast með tímanum. Á árunum 2002-2005 kvaðst stefnandi alltaf hafa fundið til í bakinu en mismikið eftir álagi. Hún hafi hins vegar alltaf talið að þetta myndi lagast með tímanum. Í júní 2006 varð stefnandi ófrísk og bar hún að ástandið hefði á þeim tíma verið óbærilegt. Hún hafi verið að vinna á leikskóla á þeim tíma en í því starfi hafi mikið reynt á bakið.

Stefnandi bar fyrir dómi að hún hefði frétt af Stefáni Dalberg lækni og hafi farið til hans þar sem hún gat ekki hugsað sér að vera svona áfram. Kvaðst hún hafa sagt honum frá slysinu. Hann hafi skoðað hana og tjáð henni að þeir áverkar sem hún hefði hlotið í slysinu væru varanlegir.

Í vottorði Stefáns Dalberg bæklunarlæknis kemur m.a. fram að stefnandi hafi ári eftir slysið leitað til læknis þar sem hún var ekki að lagast af verkjum frá hálsi og baki og hafi verið með dofa niður í handleggi, aðallega í vinstri handlegg. Í framhaldi af því hafi hún farið í sjúkraþjálfun og í líkamsrækt. Um líðan stefnanda á þeim tíma sem hún leitaði til Stefáns segir að hún finni fyrir verkjum daglega frá hálsi og baki eftir slysið. Hún hafi ekki fundið fyrir bata lengi. Finni fyrir máttleysi og dofa í höndum, aðallega vinstri hendi. Þetta hafi háð henni við vinnu. Hún hafi hætt í starfi sínu hjá Morgunblaðinu, þar sem hún vann við pökkun, þar sem það starf hafi verið of erfitt fyrir hana. Starfi nú á leikskóla í 60% starfi. Finni hún fyrir stirðleika á morgnanna frá hálsi og baki.

Í áliti Stefáns Dalberg segir að stefnandi virðist hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í maí árið 2001. Hún hafi hlotið tognun á háls og brjóstbak. Hafi afleiðingar slyssins háð henni bæði í leik og starfi. Ástandið hafi verið óbreytt lengi og ekki að búast við að hún verði betri með tímanum. Tímabært sé að meta afleiðingar slyssins.

Í matsgerð sinni, dags. 5. nóvember 2007, eru matsmennirnir Sigurður Thorlacius læknir og Björn Daníelsson lögfræðingur sammála um að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegri örorku vegna afleiðinga umferðarslyssins 20. maí 2001. Segir í matsgerð þeirra að miða verði við að geta hennar til að vinna líkamlega krefjandi störf sé ekki sú sama og hún hefði orðið ef líkamstjónið hefði ekki komið til, en hún teljist hafa verði heilsuhraust fyrir tjónsdag. Þá verði einnig að gera ráð fyrir því að geta hennar til að vinna langa vinnudaga sé skert og geta hennar til aukavinnu og yfirvinnu.

Niðurstaða matsgerðar er sú að matsmenn telja tímabil tímabundins atvinnutjóns vera 20. maí 2001 til 4. júní s.á. (100% óvinnufærni). Stöðugleikapunktur er ákveðinn 20. ágúst 2001. Tímabil þjáningabóta er 20. maí 2001 til 4. júní s.á. (án rúmlegu). Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga er metinn 10% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. sömu laga er metin 10%.

Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Segir jafnframt í ákvæðinu að kröfur þessar fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda sé fyrnd, sbr. framangreint ákvæði.

Eins og að framan er rakið hlaut stefnandi hálstognun við slysið. Matsmenn leggja til grundvallar í matsgerð sinni að ekki hafi verið að vænta frekari bata á heilsufari stefnanda vegna afleiðinga slyssins eftir 20. ágúst 2001 en þá voru liðnir þrír mánuðir frá slysinu.  Um það gat stefnandi ekki vitað, en eins og segir í vottorði Guðjóns Baldurssonar læknis, var ekki unnt að segja fyrir um sjúkdómshorfur til skamms og langs tíma. Þá var stefnanda tjáð, samkvæmt framburði hennar fyrir dómi, að þau einkenni sem hún hlaut við slysið myndu ganga til baka með tímanum og trúði hún því. Telja verður að henni hafi fyrst orðið það ljóst, að svo yrði ekki, þegar hún leitaði til Stefáns Dalberg bæklunarlæknis, í janúar 2007, en hann komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði við slysið hlotið varanlegt tjón. Í mars 2007 var aflað matsgerðar sem lá fyrir 5. nóvember 2007. Gat stefnandi fyrst leitað fullnustu kröfu sinnar eftir að matið lá fyrir. Ber því að miða upphaf fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. umferðarlaga við það tímamark. Af því leiðir að krafa stefnanda var ófyrnd er mál þetta var höfðað 29. september 2008.

Eins og fram er komið trúði stefnandi því lengi vel að afleiðingar slyssins gengju til baka og heilsufar hennar myndi batna. Þó að nokkuð langur tími hafi liðið þar til annað kom í ljós er ekki fallist á að um tómlæti af hennar hálfu hafi verið að ræða, sbr. það sem áður segir.

Ekkert hefur komið fram í málinu er sýnir fram á að þau einkenni er stefnandi glímir við í dag verði rakin til annars er bifreiðaslyssins í maí 2001.

                Í ljósi framangreinds ber því að fallast á að aðalstefndu beri að greiða stefnanda skaðabætur.

                Stefnandi byggir kröfur sínar á framlagðri matsgerð sem ekki hefur verið hnekkt. Verður stefnukrafa því tekin til greina. Fallist er á með stefndu að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 séu vextir eldri en fjögurra ára frá málshöfðunardegi fyrndir. Vextir dæmast því þannig: Frá 29. september 2004 dæmast 4,5% ársvextir af 3.479.837 krónum til 6. desember 2007 en frá þeim degi dæmast dráttarvextir af sömu fjárhæð til greiðsludags.

                Eftir þessari niðurstöðu ber aðalstefndu að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 450.000 krónur og greiðist hann í ríkissjóð.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., 450.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Reikningar fyrir útlögðum kostnaði hafa ekki verið lagðir fram í málinu. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

                Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og db. Guðmundar Páls Þorvaldssonar, greiði in solidum stefnanda, Ástu Rún Pétursdóttur, 3.479.837 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 29. september 2004 til 6. desember 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 450.000 krónur í málskostnað sem greiðist í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., 450.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.