Hæstiréttur íslands

Mál nr. 466/2016

A (Oddgeir Einarsson hrl.)
gegn
Kópavogsbæ (Þyrí H. Steingrímsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn

Reifun

K krafðist þess að A yrði svipt forsjá þriggja barna sinna á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í málinu lágu fyrir sérfræðileg gögn um heilsufar og forsjárhæfni A. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þriggja vottorða annars vegar læknis og hins vegar tveggja sálfræðinga og talið ráðið af þeim að A glímdi við óafturkræfar afleiðingar skaða á heila og svo skerta forsjárhæfni að hún væri ófær um að fara með forsjá barna sinna. Var krafa K því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2016. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og að málskostnaður verði felldur niður.

Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin þau sérfræðilegu gögn sem liggja fyrir um heilsufar og forsjárhæfni áfrýjanda en það eru meðal annars vottorð B læknis, 6. júlí 2015, taugasálfræðilegt mat C taugasálfræðings, 31. júlí 2015 og „sálfræðileg matsgerð“ D sálfræðings, 25. nóvember 2015. Af tilvitnuðum gögnum verður ráðið að áfrýjandi glími við óafturkræfar afleiðingar skaða á heila og svo skerta forsjárhæfni að hún sé ófær um að fara með forsjá barna sinna.

Að virtum þessum gögnum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 600.000 krónur.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 6. júní 2016

Mál þetta, sem var dómtekið 11. maí sl., var höfðað með stefnu þingfestri þann 9. febrúar 2016.

Stefnandi er Barnaverndarnefnd Kópavogs, kt. 700169-3759, Fannborg 2, Kópavogi.

Stefnda er A, kt. [...], [...], Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær stefnda, A, kt. [...], [...], Kópavogi, verði svipt forsjá barnanna E, kt. [...], F, kt. [...], og G, kt. [...].

Þann 27. júlí 2015 gekk úrskurður í Héraðsdómi Reykjaness þar sem fallist var á kröfu barnaverndarnefndar Kópavogs um að drengurinn E yrði vistaður utan heimilis í tíu mánuði frá 27. júlí 2015. Var sú niðurstaða staðfest í dómi Hæstaréttar í máli nr. 520/2015, sem kveðinn var upp 20. ágúst 2015.   

Stefnda krefst þess fyrir dómi að kröfum stefnanda um að stefnda verði svipt forsjá barna sinna verði hafnað. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað auk virðisaukaskatts eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Aðalmeðferð fór fram 11. maí sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.

Málavextir. 

Stefnda, A, er 38 ára gömul kona,  fædd í [...]. Flutti hún til Íslands með son sinn E, þá þriggja ára gamlan, í september 2009.  Hún giftist íslenskum manni á [...] en skildi eftir tveggja mánaða hjónaband.  Stefnda kynntist núverandi eiginmanni sínum, H, árið 2010 og hófu þau sambúð á heimili foreldra hans í Kópavogi.  Stefndu var vísað úr landi í febrúar 2011, en hún var þá ófrísk af F sem fæddist í [...] þann 15. október 2011. Þann 5. desember sama ár fékk stefnda heilablóðfall sem olli varanlegri hægri helftarlömun og heilaskaða. Barnsfaðir hennar, H, fór til [...] í desember 2011 og gekk þar að eiga stefndu í febrúar 2012. Stefnda kom ásamt börnunum tveim aftur til Íslands í byrjun nóvember 2012. Fjölskyldan bjó áfram hjá foreldrum H þar til þau fengu úthlutað félagslegri leiguíbúð sem þau fluttu í skömmu eftir fæðingu G í júní 2014.

                Samkvæmt gögnum málsins barst fyrsta tilkynning í máli barnanna til stefnanda þann 12. nóvember 2013 frá lögreglu. Stefnda hafði þá óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ágreinings sem hún átti í við eiginmann sinn og tengdamóður. Lögregla kom á vettvang, ásamt starfsmanni barnaverndar Kópavogs. Stefnda bað um að fara í Kvennaathvarfið ásamt dóttur sinni og syni. Hjónin sögðust ætla að slíta sambúð. Bað stefnda eiginmann sinn um vegabréfið fyrir dóttur þeirra en hann vildi ekki afhenda henni það af ótta við að hún færi með börnin til [...].

Starfsmenn stefnanda ræddu við E í [...] í framhaldi af útkalli lögreglu. E sagði frá því að stefnda væri leiðinleg við sig og að hún slái hann fast, sérstaklega í höfuðið og stundum klípi hún. E sagðist oftast fara út þegar stefnda byrjaði að slá hann. E sagði við starfsmann barnaverndar: „Vil ekki hafa mamma minn heima.“ Drengurinn hafði frumkvæði að umræðu um erfið samskipti við móður sína.

Liðveitandi hóf störf á heimili hjónanna í desember 2013 til að aðstoða stefndu með uppeldi barnanna, með hliðsjón af fötlun hennar og félagslegri einangrun. Liðveitandinn var frá [...] líkt og stefnda og vann fram í mars 2014, en þá sagði hann upp störfum vegna erfiðleika í samstarfi við stefndu. Að endingu skipti liðveitandinn um símanúmer því að sóknaraðili sendi honum þráhyggjukennd sms-skeyti með ýmsum aðdróttunum. Í lokaskýrslu liðveitandans kemur fram að stefnda hafi verið með þráhyggjukenndar hugsanir um að börnum hennar yrði stolið af henni, hún hafi verið margsaga um föður E og atriði er sneru að henni sjálfri og að hún hafi verið með ofsóknaræði. E sagði liðveitandanum frá því að móðir hans hefði beitt hann ofbeldi. Þegar liðveitandinn ræddi við stefndu um alvarleika þess að slá drenginn gaf stefnda þau svör að hún mætti gera það sem henni sýndist við drenginn þar sem hún væri móðir hans.

Næsta tilkynning barst barnaverndarnefnd þann 26. desember 2013, einnig frá lögreglu. Stefnda hafði þá hringt í lögreglu og sakað eiginmann sinn um að leggja á sig hendur. Bakvakt barnaverndar var kölluð út. Rætt var við E á staðnum sem sagði frá því að hann vildi ekki hafa móður sína á heimilinu. E sagði að móðir væri vond við sig og að hún lemdi sig í höfuðið.

Í greinargerð vegna könnunar máls skv. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga var niðurstaðan sú að miklar áhyggjur voru af stöðu fjölskyldunnar og líðan stefndu og talið að fjölskyldan þyrfti mikla aðstoð strax. Lögð var áhersla á að veita fjölskyldunni fjárhagslegan stuðning í formi leikskólagjalda, skólamáltíða og frístundaheimilis, stefnda var tengd inn í deild um málefni fatlaðra, tilsjónaraðili var fenginn til að aðstoða stefndu, E fékk persónulegan ráðgjafa og óskað var eftir forgangi í félagslegt leiguhúsnæði. 

Meðferðaráætlanir voru gerðar fyrir börnin með gildistíma 1. janúar 2014 – 31. ágúst 2014. Þriðja tilkynning barst einnig frá lögreglu. Þann 22. janúar 2014 óskaði stefnda eftir aðstoð lögreglu og tilkynnti um að eiginmaður hennar hefði lagt á hana hendur. Hjónunum kom þó ekki saman um hvað hefði átt sér stað þeirra á milli.

Fjórða tilkynning er frá 1. maí 2014. Þá óskaði stefnda eftir aðstoð lögreglu vegna ofbeldis af hendi tengdamóður sinnar. Þegar lögregla var á leið í útkall barst tilkynning til Neyðarlínu um að stefnda væri með krampa. Þegar lögregla kom á staðinn lá stefnda í gólfinu eftir heiftarlegt flogakast. Eiginmaður hennar sagði frá rifrildi milli stefndu og tengdamóður hennar skömmu fyrir flogakastið sem snerist um notuð föt sem E hafði verið gefið en stefnda klippti í sundur fyrir framan drenginn sem sat grátandi og fylgdist með.

Sálfræðingur barnaverndar skilaði greinargerð dags. 31. mars 2014 eftir viðtöl við drenginn. Þar lýsti drengurinn erfiðum heimilisaðstæðum og að hann vildi fá nýja mömmu og pabba. Þann 27. júní 2014 fæddist drengurinn G. Kvartað var undan framkomu og viðhorfi móður á sængurkvennadeild. Tilkynning barst frá deildinni vegna áhyggna af tengslamyndun og umönnun G. Stefnda fékk þjónustu frá velferðarsviði Kópavogsbæjar til þess að annast um ungbarnið, en hún gat sökum fötlunar sinnar ekki lyft barninu eða gefið því brjóst án aðstoðar.

Starfsmenn stefnanda gerðu í júlí 2014 nýja meðferðaráætlun skv. 23. gr. barnaverndarlaga til fjögurra mánaða. Í meðferðaráætluninni var E veittur stuðningur persónulegs ráðgjafa 20 klst. á mánuði, sveitardvöl í allt að fjórar vikur, samstarf var við skóla og greitt var fyrir hádegismat og dægradvöl. Jafnframt var veitt heimilishjálp og tilsjón allt að 60 klst. á mánuði. Ákveðið var að leita eftir samþykki foreldra fyrir stuðningsfjölskyldu fyrir drenginn og sótt um viðtöl fyrir hann hjá sálfræðingi barnaverndar. Foreldrum var einnig boðinn styrkur til fjölskylduviðtala.

Stefnda hafði samband við lögreglu vegna ágreinings í júlí 2014 og barst í kjölfarið fimmta tilkynning í málinu frá lögreglu, þann 10. júlí. Fjölskyldan stóð þá í flutningum yfir í félagslegt leiguhúsnæði. Ástæða beiðninnar er samkvæmt tilkynningunni að stefndu semdi illa við tengdamóður sína og hún vildi ekki vera hjá henni á meðan á flutningum stæði. Stefnda bað um að sér yrði ekið í Kvennaathvarfið af lögreglu á meðan á flutningum stæði. Lögregla fór af vettvangi án þess að grípa til nokkurra aðgerða.

Nýr liðveitandi hóf störf á heimilinu í júlí í samstarfi barnaverndar og deildar málefna fatlaðra þar sem stefnda gat ekki annast ein um nýbura. Liðveitandinn kom á heimili hjónanna daglega tvo tíma í senn til að byrja með svo að faðir kæmist út að sinna útréttingum fyrir heimilið. Liðveitandinn vann á heimilinu fram í desember 2014 og í skýrslu hans er getið um mikla samskiptaörðugleika á heimilinu. Þann 15. ágúst 2014 barst sjötta tilkynningin  frá lögreglu. Stefnda hafði óskað eftir aðstoð þar sem eiginmaður hennar hefði farið með G, þá eins mánaðar gamlan, gegn vilja hennar út af heimilinu. Þegar lögregla hafði samband við eiginmanninn kom í ljós að hann var staddur í afmæli hjá fjölskyldu sinni og að hann yrði kominn heim innan 30 mínútna.

Nýjar meðferðaráætlanir voru undirritaðar af báðum foreldrum þann 3. janúar 2015 með gildistímann 2. janúar 2015 til 2. maí 2015. Markmið þeirra var að efla foreldra í uppeldishlutverki og aðstoða þau við að vinna úr ágreiningi sínum. Hlutverk forsjáraðila var að vinna markvisst að því að bæta stöðu E, vera í samstarfi við barnaverndarnefnd, taka á móti heimilishjálp, þiggja ráðgjöf frá ráðgjafa- og íbúðadeild og þiggja fjármálaráðgjöf. Áfram var veittur stuðningur með greiðslum á skólamáltíð og dægradvöl, stuðningsfjölskyldu fyrir E, persónulegur ráðgjafi var fenginn og viðtöl við félagsráðgjafa. Stuðningur við stefndu í formi liðveitanda var veittur af þjónustudeild fatlaðra.

Snemma árs 2015 leituðu foreldrar bekkjarfélaga E til barnaverndar Kópavogs og óskuðu eftir því að gerast stuðningsforeldrar hans. Úttekt samkvæmt barnaverndarlögum lauk í apríl 2015 og fyrsta helgi drengsins í stuðningi hjá þeim var 1. til 3. maí 2015. Í viðtali við hjónin í úttektarferlinu komu fram upplýsingar um að drengurinn hefði verið nær öllum stundum á heimili þeirra hjóna undanfarið ár. Drengurinn var mættur heim til hjónanna eftir dægradvöl alla virka daga og var fram að kvöldmatartíma. Um helgar var hann gjarnan mættur heim til þeirra upp úr kl. 8 á morgnana og var hjá þeim fram að kvöldmatartíma. Hjónin höfðu aldrei hitt foreldra drengsins né talað við þau í síma fyrr en starfsmaður barnaverndar fundaði sameiginlega með báðum hjónunum í apríl sl. Stuðningsforeldrarnir höfðu að eigin frumkvæði tekið heimanám drengsins föstum tökum og sinnt samskiptum við HK þar sem hann iðkar fótbolta.

Tilkynning barst frá lögreglu í sjöunda sinn þann 21. apríl 2015. Stefnda sakaði þá eiginmann sinn um að hafa slegið sig með flötum lófa í andlitið, sem hann neitaði. Stefnda hafði verið ósátt við að tengdaforeldrar hennar komu of seint heim með yngri börnin af leikskólanum og úr daggæslu. Bakvakt barnaverndar var kölluð út. Drengurinn var sofnaður en tvö yngri börnin voru vakandi þegar starfsmaður barnaverndar kom á staðinn. Heimilisofbeldisteymi velferðarsviðs Kópavogs hefur unnið málið samhliða félagsráðgjafa í barnavernd vegna ítrekaðra tilkynninga stefndu um ofbeldi í sinn garð. Brugðist hefur verið við tilkynningunum en stefnda hefur dregið staðhæfingar sínar um ofbeldi til baka að mestu leyti að undanskildu einu skipti. Lögreglan hóf rannsókn á þessu atviki þann 21. apríl 2015 en hætti rannsókn.

Þann  15. maí 2015 höfðu starfsmenn N1 við[...] samband við lögreglu vegna stúlkubarns sem viðskiptavinir höfðu fundið á vergangi við Nýbýlaveg. Barnið var sótt af lögreglu sem hafði samband við starfsmann barnaverndar Kópavogs sem fór á lögreglustöðina. Stúlkan gat ekki sagt frá nöfnum foreldra sinna eða hvar hún ætti heima. Lögreglumaður á vakt sem hafði farið í útkall á heimili fjölskyldunnar ári áður fann út að hér væri F, dóttir stefndu. Starfsmaður barnaverndar fór á lögreglustöð og í framhaldi af því á heimili stefndu. Stefnda sagði stúlkuna hafa laumað sér út á meðan hún var sjálf að klæða sig. Stúlkan leitaði í samskipti við föður sinn en vildi ekki vera hjá stefndu. Eiginmaður stefndu flutti út af heimilinu með yngri börnin tvö í kjölfar þessa atburðar og elsti drengurinn var vistaður hjá stuðningsfjölskyldu.

Níunda tilkynning frá lögreglu barst 15. maí 2015. Lögregla hafði verið kölluð til á heimili tengdamóður stefndu, eftir látlausar hringingar hennar á dyrasíma. Stefnda gaf lögreglu þær skýringar að hún vildi nálgast börn sín. Haft var samband við bakvakt barnaverndar Kópavogs sem útskýrði málavexti fyrir lögreglu.

Nýjar meðferðaráætlanir fyrir öll börnin þrjú voru undirritaðar af starfsmanni barnaverndar og föður barnanna þann 27. maí 2015. Samþykkis var leitað hjá stefndu sem valdi að skrifa ekki undir fleiri pappíra fram að fundi barnaverndarnefndar 11. júní 2015. Á fundinum lögðu starfsmenn til vistun E til 12 mánaða. Stefnda samþykkti ekki vistunina og varð barnaverndarnefnd Kópavogs því að úrskurða í málinu. Stefnda kærði þann úrskurð til héraðsdóms Reykjaness. Úrskurður var kveðinn upp 27. júlí 2015 þess efnis að E skyldi vistaður utan heimilis í 10 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins. Stefnda kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

E hefur dvalið utan heimilis stefndu frá 18. maí 2015. Barnaverndarnefnd Kópavogs hefur þrívegis tekið málið fyrir eftir 11. júní 2015 þar sem ómögulegt hefur verið að ná samkomulagi við stefndu um umgengni eða aðra hluti sem lúta að vistun drengsins. Þann 25. júní 2015 úrskurðaði nefndin um umgengni stefndu við drenginn, hálfsmánaðarlega í tvær klukkustundir í senn. Stefnda vísaði þeirri ákvörðun til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti úrskurð nefndarinnar. Á fundi þann 24. september 2015 ákvað barnaverndarnefnd að óheimilt væri að fara með drenginn úr landi. Stefnda vísaði þeirri ákvörðun til kærunefndar sem staðfesti ákvörðun nefndarinnar. Þann 10. desember var mál barnanna þriggja síðan lagt fyrir nefndina þar sem niðurstaða forsjárhæfnismats sem stefnda undirgekkst lá fyrir.

Lokaskýrsla um forsjárhæfni stefndu, sem unnin var af D sálfræðingi, barst barnaverndarnefnd Kópavogs þann 25. nóvember 2015. Niðurstaða þess er að stefnda sé með öllu ófær um að fara með forsjá barna sinna vegna afleiðinga heilaskaða sem bæði eru alvarlegar og óafturkræfar. Þá kom fram að geðtengslum stefndu við börnin væri ábótavant. Matsmaður taldi mikilvægt að lagðar væru línur varðandi umgengni barnanna við stefndu út frá því að hún hefði engar forsendur til að vera ein með ábyrgð á þeim eina einustu stund.

Áður en niðurstaða forsjármatsins lá fyrir hafði stefnda sótt dóttur sína á leikskóla á hverjum degi þrátt fyrir tilmæli um að gera það ekki. Í fyrstu sótti hún hana upp úr hádegi en í október 2015 náðist samkomulag við stefndu um að sækja hana síðar þar sem uppi voru áhyggjur af þroskaframvindu stúlkunnar. Faðirinn var ávallt látinn vita þegar stúlkan var sótt og fór hann samstundis úr vinnu og sótti stúlkuna heim til stefndu. Stefnda tók yngsta barnið ekki með sér þar sem hún gat ekki sökum fötlunar haldið á því út í bifreið og starfsfólk neitaði að aðstoða hana. Stefnda ferðast með ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem hefur ekki yfir að ráða nauðsynlegum öryggisbúnaði fyrir börn. Starfsfólk leikskólans hafði tilkynnt barnaverndarefnd um þá hættu sem stúlkan var sett í. Starfsfólki stefnanda reyndist erfitt að stöðva stefndu í því að sækja barnið á leikskóla þar sem hún hefur forsjá þess og lögheimili. Að mati stefnanda var niðurstaða forsjárhæfnismatsins það afdráttarlaus um að börnunum gæti beinlínis verið hætta búin einum í umsjá stefndu að ákveðið var að börnin yrðu kyrrsett á heimili föður ef stefnda héldi áfram að sækja þau úr leikskóla. Til þess kom ekki þar sem stefnda samþykkti að sækja ekki börnin nema þá daga sem liðveitandi hennar fylgdi henni en aðeins fram að fundi stefnanda sem var 10. desember sl.

Á fundi barnaverndarnefndar var ákveðið að kyrrsetja börnin á grundvelli a-liðar 27. gr. barnaverndarlaga til tveggja mánaða og að höfða skyldi mál á hendur stefndu þar sem þess yrði krafist að stefnda væri svipt forsjá barnanna þriggja. Þá var ákveðið að umgengni við börnin skyldi vera undir eftirliti, aðra hverja viku við E en einu sinni í viku við F og G.

Sálfræðileg matsgerð.

Þann 25. nóvember 2015 skilaði D sálfræðingur sálfræðilegri matsgerð vegna stefndu. Kemur fram í matsgerðinni að matsmaður hafi átt viðtöl við stefndu 28. október 2015, 2. nóvember, þar sem einnig fór fram persónuleikapróf, 4. nóvember, þar sem matsmaður hitti stefndu og E í umgengni, 6. nóvember, þar sem matsmaður hitti stefndu ásamt yngri börnunum á leikskóla barnanna og stefndu og F á heimili þeirra stuttu síðar og 20. nóvember 2015 þar sem matsmaður hitti eiginmann stefndu. Þá lá fyrir við matið taugasálfræðilegt mat sem hafði verið gert á stefndu á Landspítalanum í júlí 2015. Niðurstöðurnar hafi staðfest alvarlega skerðingu á hugrænum þáttum stefndu. Áður höfðu niðurstöður myndgreiningar á stefndu sýnt vefjadauða af völdum blóðleysis með miklu frumvefstapi í ennis- og gagnaugablaði, en þegar mikið vefjatap verður á þessum heilastöðvum megi búast við innsæisleysi og hömluleysi ásamt tengslaröskun. Segir að þegar niðurstöður taugasálfræðimats lágu fyrir hafi verið ljóst að um mjög alvarlegar skerðingar á hugrænni starfsemi í framheila væri að ræða hjá stefndu. Ljóst sé að stefnda hafi, af líffræðilegum ástæðum, ekki forsendur til tengslamyndunar og því væri ástæðulaust að leggja mat á tengslamyndun barnanna. Því hafi ekki þótt ástæða til að framfylgja upphaflegri vinnuáætlun um að hitta E með fósturforeldum sínum og yngri börnin með föður sínum til að gera samanburð á hegðun barnanna hjá móður annars vegar og fósturforeldrum og föður hins vegar.

                Í niðurstöðum vottorðsins segir að sálfræðimat þetta hafi verið gert til að meta forsjárhæfni stefndu vegna uppeldis hennar á börnum hennar, E níu ára, F fjögurra ára og G tæplega eins og hálfs árs.         Þá segir einnig í niðurstöðum að stefnda hafi hlotið heilaskaða og vinstri helftarlömun af völdum heilablóðfalls skömmu eftir að F fæddist. Er síðan vottorð B læknis rakið og vottorð C taugasálfræðings.

                Um niðurstöður persónuleikaprófsins segir að það endurspegli erfiðleika með líkamlegt heilsufar stefndu og mikla streitu í kringumstæðum hennar og gefi vísbendingar um erfiðleika í félagslegum samskiptum. Tilgáta sé sett fram um jaðarpersónuleikaröskun, sem feli í sér mikla tengslaerfiðleika. Þessar niðurstöður séu trúverðug lýsing á stefndu og sýni þá um leið nokkuð góða færni hennar á svokölluðum munnlegum sviðum greindarþátta. Þá sé mikilvægt að setja niðurstöður af því tagi sem fram komi í segulómskoðuninni og taugasálfræðimatinu í samhengi við frammistöðu viðkomandi einstaklings varðandi ýmsar athafnir í daglegu lífi, samskipti og tengsl við annað fólk og atvik sem athugasemdir hafi verið gerðar við. Þá sé rétt að undirstrika að það þurfi bæði innsæi og hömlur til þess að geta brugðist við þörfum barna á viðunandi hátt og þess vegna sé einstaklingi með alvarlegan heilaskaða af þessu tagi alls ekki treystandi til að bera nokkra ábyrgð á börnum. Til að undirstrika alvarleika málsins megi nefna að þess séu dæmi að fólk með heilaskaða af þessu tagi hafi ráðist á börn sín með alvarlegum afleiðingum þegar álag og streita sé í aðstæðum, sterkar tilfinningar fari í gang og hvorki innsæi, skilningur á aðstæðum né hömlur á tilfinningar og viðbrögð séu fyrir hendi. Í slíkum tilvikum sé ekki viðeigandi að tala um mannvonsku eða illmennsku, heldur hafi viðkomandi einstaklingur vegna skerts ástands síns ekki haft getu til að meta aðstæður og setja hegðun sinni eðlilegar og nauðsynlegar hömlur.

                Þá segir í matsgerðinni að samtal matsmanns við stefndu á heimili hennar hafi sýnt vel hversu alvarlega hana skorti skilning á þörfum barnanna. Hún hafi nefnt mikilvægi þess að vera kurteis og bursta tennurnar, sem séu góð og gild atriði í sjálfu sér og hafi að öllum líkindum verið lögð áhersla á í hennar uppeldi. Síðan hafi stefnda nefnt á sjálfmiðaðan hátt að það væri mikilvægt að börnin hennar kenndu henni íslensku. Telur matsmaður að þessi atriði sýni skýrt að sjónarhornið sé á stefndu sjálfa en ekki á börnin. Þá liggi fyrir á skýran hátt í gögnum málsins að stefnda hafi lítið sinnt börnunum og ekki verið fær um að mæta þörfum þeirra síðan hún varð fyrir heilaskaðanum. Einstök atvik sýni þetta skýrt eins og það að þegar G virtist hafa dottið og meitt sig hafi stefnda brugðist við gráti hans með því að kalla á föður hans og ætla honum að sinna drengnum en hún sjálf haldið áfram að senda smáskilaboð og ekkert gefið sig að drengnum. Ef til vill byggist viðbrögð hennar þegar hún kallaði á H á því að gráturinn hafi verið óþægilegur fyrir hana og þess vegna hafi hún viljað að H gripi inn í og stöðvaði grátinn fremur en að hún læsi þarfir drengsins sem slíkar og teldi mikilvægt að bregðast við þeim svo að drengnum liði betur. Um það sé þó ekki hægt að fullyrða. Stefnda hafi heldur ekki kunnað að lesa í aðstæður þegar F, þá þriggja og hálfs árs gömul, hvarf af heimilinu í maí síðastliðnum. Ekki sé vitað hver aðdragandinn hafi verið, þar sem telpan hafi ekki tjáð sig neitt um það. Ef til vill hafi henni leiðst og þess vegna yfirgefið íbúðina, sem sé á áttundu hæð í lyftublokk og sé með nokkuð þungri útihurð. Ef til vill hafi móðir hennar verið á einhvern hátt ógnandi við hana, sem ekki sé útilokað í ljósi þess að E hafi ítrekað og staðfastlega sagt frá ofbeldi af hálfu móður sinnar. Hver svo sem hvatinn að þessari hegðun telpunnar hafi verið, hefðu nauðsynleg og eðlileg viðbrögð fullorðins einstaklings sem átti að bera ábyrgð á barninu verið að kalla eftir aðstoð. Stefnda hafi margsinnis leitað til lögreglu eftir aðstoð fyrir sjálfa sig þannig að henni hafi verið fullkunnugt um hvernig farið sé að því. Þetta atvik sýni, svo ekki verið um villst, að stefnda sé ekki fær um að bera ábyrgð á börnum sínum.

                Þá segir að stefnda segist eiga góð tengsl við E, en hann hafi mætt svo alvarlegri vanrækslu og ofbeldi af hennar hálfu að hann hafi bjargað sér undan því með því að finna sér fólk sem hafi verið velviljað í hans garð og hann dvalið meira og minna á heimili þess áður en þau urðu síðan fósturforeldrar hans.

                Enn fremur segir að þegar rætt hafi verið við stefndu um náin tengsl milli hennar og barnanna hafi hún greinilega ekki skilið um hvað umræðuefnið snerist. Reynt hafi verið að nálgast það aftur og aftur á mismunandi hátt og með mismunandi orðalagi en það hafi engan árangur borið. Stefnda sé alltaf með myndavél í vasanum og eftir að hafa fylgst með henni og börnunum dragi matsmaður þá ályktun að myndatökurnar séu fyrir henni einhvers konar tákn fyrir nánd og það sama gildi um það að skoða myndirnar. Á myndunum geti hún skoðað börnin brosandi og falleg en þau geri þar engar kröfur til hennar.

                Matsmaður dregur þær ályktanir af öllum gögnum málsins, framangreindum niðurstöðum, segulómskoðun, taugasálfræðimati, skriflegum gögnum og eigin athugnum að vegna heilaskaða stefndu sé hún með öllu ófær um að tengjast börnum sínum á náinn hátt og rækta með þeim þau nánu tengsl sem börn þurfi á að halda. Einnig sé hún með öllu ófær um að bera ábyrgð á börnunum og bregðast við þörfum þeirra. Það sé hafið yfir allan vafa að hana skorti ýmsa greindarfarslega þætti sem séu nauðsynleg forsenda til að geta haft innsæi í þarfir þeirra og uppfyllt þær, annast um börnin, veitt þeim nauðsynlega athygli og örvun og tengst þeim á þann hátt sem börnum sé nauðsynlegt. Skaði sá sem orðinn sé á heilastarfsemi hennar sé óafturkræfur og engin þjálfun eða kennsla sé til sem geti bætt hann upp. Þá þurfi ábyrgðaraðili að vera til staðar þegar hún sé með börnum sínum. Þá telur matsmaður mikilvægt að lagðar séu línur varðandi umgengni barnanna þriggja við móður sína út frá því að hún hafi engar forsendur til að vera ein með ábyrgðina á þeim eina einustu stund. Hún sé hins vegar móðir þeirra og mikilvægt að börnin haldi áfram að þekkja hana. Stuðla þurfi að samvistum þeirra, sem fari fram af virðingu við hana sem þá alvarlega fötluðu konu sem hún sé og taki tillit til þess að börnin séu glaðleg og kraftmikil. Samvistirnar megi alls ekki gera meiri kröfur til hennar en hún geti mætt og þær þurfi að standa nægilega stutt í einu til að börnin geti verið ánægð og verði ekki leið. Það væri beinlínis vanvirðing við hana ef reynt væri að gera til hennar kröfur um stærra hlutverk í uppeldi þeirra.     Að lokum segir að það sé mat matsmanns að stefnda sé með öllu ófær um að fara með forsjá barna sinna vegna afleiðinga af heilaskaða þeim sem hún hafi orðið fyrir og eigi hér við d-liður 29. gr. barnaverndarlaga.

Læknisvottorð B.

Í vottorði B, læknis á heilsugæslunni [...], frá 6. júlí 2015 segir m.a. „Fengið síðan, í desember 2011, stroke eða blóðtappa í heila, sennilega tengt hormónastaf sem hún fékk. „Hún er með spastiska lömun vinstra megin eftir þetta og flogaveik ...“ Fram kemur að hún sé talin létt „frontal“ skert eftir „stroke“ og sennilega vitsmunaskert. Samkvæmt eiginmanni, sem fylgi með henni í heimsókn núna, séu miklar skapsveiflur og skapofsaköst, oftast upp úr þurru. Hún hafi verið skapstór fyrir heilablóðfallið en sé hálfu verri núna. Eftir heilablóðfallið sé hún ekki rökvís eins og áður, tímavillt og stundum bara með bull, skv. honum. Samkvæmt eiginmanni hennar hafi einnig borið mikið á þráhyggju og ofsóknarhugmyndum sem tengist börnum og hún sé hrædd um að allir ætli að taka börnin frá henni. Hún endurtaki sig mjög mikið, sé mjög sveiflukennd andlega en oft þung andlega. Niðurstaðan er að konan sé [...] með tungumálaerfiðleika. Hún sé með vinstri spastíska lömun eftir heilablóðfall 2011. Spurning sé hvort hún sé tilkomin eftir framheilaskerðingu sem lýsi sér m.a. í hömluleysi og þá einnig jafnvel í vitsmunaskerðingu eftir heilablóðfall. Einnig sé spurning um þráhyggju og þunglyndi. Segulómun hafi verið pöntuð af heila sem ekki hafi verið gerð hér og henni vísað áfram á göngudeild geðdeildar í nánara mat m.t.t. hennar geðheilsu.

                Þá segir að segulómskoðun af heila 10.04.2015 sýni stórt lágþéttnisvæði „temporalt“ og svolítið „frontalt“ hægra megin og virðist vera næringarsvæði bæði „arteria cerebri media“ æðarinnar og einnig „cerebri anterior“ að hluta til. Það sé greinilegt „parenchymalt“ tap með svolítilli víkkun á hægri hlið „venticle“ og töluverð „gliosa“. Það sé heilavefur á milli þessara lágþéttnisvæða sem virðist vera í lagi og gæti hugsanlega bent til þess að lokunin hafi ekki verið í meginstofni heldur meira í útæðum á þessum svæðum.

Þá segir í lokin að framheilaskaði geti valdið hömluleysi og skorti á framtakssemi og skapsveiflum. Geti einnig valdið erfiðleikum við að leysa vandamál, tilhneiging sé til endurtekningar og stundum óeðlilegrar hegðunar. Lömunin tengist sennilega einnig hennar framheilaskaða og væri heilaskaðinn vinstra megin hefði þetta sennilega einnig áhrif á tal. „Temporal“ eða gagnaugaskemmdin geti hins vegar haft töluverð áhrif á minni og valdið erfiðleikum við að finna orð yfir hluti. Það geti einnig leitt til reiðikasta og hótandi hegðunar eða jafnvel valdbeitingar. Geti það líka leitt til alveg öfugra áhrifa; áhugaleysis og meðfærileika. Tímaskyn sé oft truflað. Þá geti það haft áhrif á heyrn og aðra skynjun og ekki sé óalgengt að það valdi flogaveiki eins og stefnda sé með.

Vottorð C taugasálfræðings.

Vottorð C taugasálfræðings frá 31. júlí 2015 liggur fyrir í málinu.

Segir í kaflanum „Niðurstaða og ráðleggingar“:

„Fyrstra mat. A kom í taugasálfræðilegt mat 30. júlí 2015. Hún er 37 ára gömul og er ættuð frá [...]. Hún er gift og á 3 börn. Hún fékk slag árið 2011, þá búsett í [...]. Hún segir að ástæðan fyrir slaginu hafi verið Norplant getnaðarvörnin. Hún hafði alltaf verið mjög heilsugóð þar til hún fékk slag. A er [...] að mennt, hún útskrifaðist frá [...] 2005. Hún vann hjá [...] í [...] þar til hún veiktist. Eftir að hún kom til Íslands vann hún um tíma við fiskverkun á [...]. Aðspurð um áhugamál sagði hún að þau væru að sinna [...] og að vera með börnum sínum. Hún neitar þunglyndi og kvíða. Áfengisneysla hefur aldrei verið vandamál og hún hefur aldrei reykt. Hún segist ekki finna fyrir minnis- eða máltruflunum og finnur ekki breytingu á hegðun. A kom vel fyrir í viðtali og lagði sig fram við úrlausn verkefna. Hún er mjög hægvirk. Hún er lömuð í vinstri hendi og dregur vinstri fót. Prófun fór fram á ensku.“

                Um helstu niðurstöður taugasálfræðilegs mats segir m.a.: Óyrt rökhugsun mælist skert. Tafarlaust minni á flókna mynd mælist skert. Seinkað kennslaminni mælist einnig skert. Tafarlaust kennslaminni á andlit mælist í lágu meðallagi og seinkað kennslaminni einnig. Tafarlaust minni á talnaraðir mælist í lágu meðallagi, hún mundi mest 5 tölur áfram og 4 aftur á bak. Tafarlaust minni á röð bendingar mælist í lágu meðallagi, hún mundi mest 5 bendingar áfram og 3 aftur á bak. Tafarlaust minni á röð mismunandi handhreyfinga mælist skert, hún mundi mest 3 handhreyfingar. Lestrar- og nefnihraði er skertur. Flokkaorðfimi mælist skert, hún nefndi 9 dýrategundir á einni mínútu. Bókstafaorðfimi er skert, hún nefndi 8 orð, sem byrja á ákveðnum bókstöfum á þremur mínútum. Reiknifærni er góð, hún reiknaði rétt 11 af 12 léttum reikningsdæmum en var fremur lengi að því (9 mínútur). Færni við að teikna flókna mynd eftir fyrirmynd er skert. Hún var lengi að teikna myndina. Færni við að greina flóknar myndir er skert. Færni við að greina stefnu lína er skert. Hún teiknaði klukku og setti vísa á réttan stað án vandkvæða. Hugrænn úrvinnsluhraði er skertur samkvæmt Slóðaprófi A og Coding prófinu. Tvískipt athygli og sveigjanleiki hugans mælist skert. Færni við að halda aftur af ósjálfráðum viðbrögðum mælist í meðallagi. Fínhreyfingar hægri handar mælast skertar. Í kaflanum „Niðurstaða og álit“ segir: „A greinist með heilabilun, sem að öllum líkindum er afleiðing slags, sem hún fékk 2011, sem að hennar sögn stafaði af notkun Norplant getnaðarvarnarinnar. Mælt er með viðeigandi endurhæfingu“.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi höfðar mál þetta samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og krefst þess að stefnda verði svipt forsjá barna sinna þriggja, E, kt. [...], F og G, og vísar til þess að öll skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Gögn málsins sýni að fullljóst sé að líkamlegri- og andlegri heilsu barnanna sem og þroska þeirra sé hætta búin þar sem stefnda sé vanhæf til að fara með forsjá þeirra vegna afleiðinga heilablóðfalls sem hún varð fyrir 2011. Þá telur stefnandi líklegt að breytni stefndu geti valdið börnunum skaða. Það sé mat stefnanda að til þess að tryggja hagsmuni barnanna og viðunandi uppeldisskilyrði til framtíðar sé ekki sé unnt að beita vægari úrræðum en að stefnda verði svipt forsjá þeirra. Verði fallist á kröfu stefnanda verður elsta syni stefndu komið í varanlegt fóstur til núverandi fósturforeldra en yngri börnin tvö munu búa áfram hjá föður sínum. Skýrsla talsmanns sýnir að vel sé hugsað um börnin á núverandi heimilum þeirra.

Stefnandi vísar kröfu sinni til stuðnings fyrst og fremst til þess að samkvæmt forsjárhæfnismati sem D sálfræðingur hafi skilað þann 25. nóvember 2015 sé stefnda með öllu ófær um að fara með forsjá barna sinna vegna afleiðinga af heilaskaða sem hún varð fyrir eftir fæðingu dóttur sinnar. Niðurstaða matsmannsins sé byggð á eigin athugunum, gögnum málsins og niðurstöðu segulómskoðunar og taugasálfræðimats. Stefnda sé sökum fötlunar ófær um að tengjast börnum sínum á náinn hátt og rækta með þeim þau nánu tengsl sem börn þarfnist til að þroskast með eðlilegum hætti. Stefnda sé jafnframt með öllu ófær um að bera ábyrgð á börnunum og bregðast við þörfum þeirra. Stefnandi telur hafið yfir allan vafa að stefndu skorti ýmsa greindarfarslega þætti sem sé nauðsynleg forsenda til að geta haft innsæi í þarfir barna, uppfyllt þær, annast um börnin og veitt þeim nauðsynlega örvun og tengst þeim tilfinningaböndum. Sá skaði sem orðið hafi á heilastarfsemi stefndu sé óafturkræfur og engin þjálfun eða kennsla getur bætt hana upp.

Í læknisvottorði B dags. 6. júlí sl. 2015 sé rakin niðurstaða segulómunar er sóknaraðili undirgekkst í apríl 2015 og afleiðingar þess skaða sem heilablóðfall sóknaraðila hafi valdið. Auk þess komi fram í vottorði læknisins að hann hafi ákveðnar efasemdir um hverju geðlæknismeðferð myndi skila fyrir sóknaraðila m.t.t. vinnufærni hennar eða getu til að hugsa um börn þar sem hún virðist hingað til hafa meðtekið allar upplýsingar illa og ekki farið að leiðbeiningum.

Stefnandi hafi reynt önnur úrræði til þess að tryggja hagsmuni barnanna, án árangurs. E, elsti sonur stefndu, hafi verið vistaður utan heimilis frá 18. maí 2015. Í niðurlagi úrskurðar héraðsdóms segi að fullsannað sé að öll þau úrræði sem stutt gátu stefndu í að ala önn fyrir E hafi verið veitt af hálfu barnaverndaryfirvalda. Þrátt fyrir það hafi þau ekki nýst stefndu til að sinna drengnum á þann hátt sem honum beri og hann eigi rétt til samkvæmt barnaverndarlögum og stjórnarskrá Íslands. Drengurinn hafi þrátt fyrir alla aðstoð inni á heimili, verið beittur ofbeldi á niðurlægjandi hátt með þeim afleiðingum að hann vill ekki umgangast móður sína nema að litlu leyti.

Frá því að úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp í máli E hafi stefnda undirgengist  taugasálfræðilegt mat og mat á forsjárhæfni sem staðfesta að engin þjálfun eða kennsla getur bætt möguleika hennar á að annast um börn sín. Þá hafi reynst ómögulegt að komast að samkomulagi við stefndu um umgengni við börnin og stefnda ekki hlýtt þeim úrskurðum sem stefnandi hafi kveðið upp varðandi umgengni. Eiginmanni stefndu hafi reynst erfitt að fá hana til að samþykkja skilnað og sé svo komið að hann þurfi að höfða mál fyrir dómi til hjónaskilnaðar þar sem málinu hafi verið vísað frá sýslumanni. Við skilnað þeirra færist forsjá E alfarið yfir til stefndu.

Stefnandi vísar til þess að stefnda hafi ekkert tengslanet hér á landi og eigi ekki aðra stuðningsaðila en starfsfólk á vegum þjónustudeildar fatlaðra hjá Kópavogsbæ. Í matsgerð sálfræðingsins sé undirstrikað að ábyrgur aðili þurfi alltaf að vera til staðar þegar stefnda sé með börn sín og að hún hafi engar forsendur til þess að vera ein með börnunum eina einustu stund. Til að undirstrika alvarleika málsins vitnar stefnandi til þess sem kemur fram í matsgerð að til séu dæmi þess að fólk með heilaskaða af sama tagi og stefnda hafi ráðist á börn sín með alvarlegum afleiðingum. Við erfiðar aðstæður og streitu geti sterkar tilfinningar vaknað og ef ekki sé fyrir hendi skilningur á aðstæðum eða hömlur á tilfinningum geta alvarlegir hlutir átt sér stað. Nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að bregðast fljótt við og tryggja öryggi barnanna sem talið sé að geti verið í raunverulegri hættu í umsjá stefndu eins og dæmi sýni er F hvarf af heimili stefndu í maí 2015, þá þriggja og hálfs árs gömul. Stúlkan hafi fundist á bensínstöð í nágrenninu. Stefnda hafði ekki kallað eftir aðstoð og ekki sé vitað um ástæðu þess að svo ungt barn ákvað að strjúka frá móður sinni niður þrjár hæðir í blokk og út að bensínstöð. Eðlileg viðbrögð fullorðins einstaklings hefðu verið að kalla eftir aðstoð. Stefnandi bendir á að stefnda hafi margoft kallað á lögreglu til aðstoðar fyrir sjálfa sig. Þetta atvik sýni, að mati stefnanda, svo ekki verður um villst að stefnda sé ekki fær um að bera ábyrgð á börnum sínum.

Engin meðferðarúrræði geti bætt forsjárhæfni stefndu en stefnandi hafi og muni áfram tryggja að stefnda og börn hennar geti átt samverustund í öruggu umhverfi þar sem það sé þeim mikilvægt að þekkja móður sína. Í matsgerð segir að slíkar samvistir megi alls ekki gera meiri kröfur til stefndu en hún geti mætt og þurfi að standa nægilega stutt í einu til að börnin verði ánægð og ekki leið. Það sé beinlínis vanvirðing við stefndu ef reynt væri að gera til hennar kröfur um stærra hlutverk í uppeldi þeirra. Stefnandi hafi haft þessi ummæli að leiðarljósi við skipulag umgengni og sé umgengni nú þannig háttað að stefnda hitti E aðra hverja viku í klukkustund í senn en yngri börnin tvö á heimili sínu einu sinni í viku í tvær klukkustundir. Öll umgengni sé undir eftirliti. Stefnda hafi kært þetta umgengnisskipulag til velferðarráðuneytisins. Ítrekað hafi verið við stefndu að henni sé óheimilt að vera í símasambandi við E. Ástæða hafi þótt til að stöðva þau samskipti vegna ónæðis sem stefnda olli drengnum með óhóflegum smáskilaboðum og símhringingum. Samkvæmt skýrslum eftirlitsaðila virðast samskipti E og stefndu ekki hlý og samræður takmarkaðar. Umgengni stefndu við yngri börnin tvö virðast ganga vel og þau geta átt gæðastund saman.

Markmið barnaverndarlaga sé að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð. Í þeirri aðstöðu sem börnin eru sé nauðsynlegt að barnaverndaryfirvöld stígi inn og beiti þeim úrræðum sem þau hafi yfir að ráða. Stefnandi vísar til málavaxta og gagna máls sem sýni að börnin hafi um langt skeið búið við óviðunandi heimilisaðstæður þar sem hömlulaus hegðun og geðræð einkenni stefndu hafi litað allt heimilislíf. Lögregla hafi ítrekað verið kölluð til vegna uppnáms sem stefnda hafi valdið á heimilinu og sýni hversu alvarlegt geðrænt ástand hennar sé og hvernig öll hennar hegðun einkennist af tortryggni og þráhyggju. Stefnda þverneiti að semja við barnsföður sinn um umgengni, lögheimili eða forsjá barnanna og að fenginni reynslu sé ekki hægt að treysta því að stefnda muni virða slíkt samkomulag og hægt verði að hafa eftirlit með umgengni hennar við börnin.

Stefnanda beri samkvæmt barnaverndarlögum að tryggja börnum stöðugleika og öryggi í uppeldi og ávallt hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Réttur barna til þess að njóta viðunandi uppeldis og umönnunarskilyrða skuli vega þyngra en forsjárréttur foreldra. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og endurspeglist í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé skylt að veita börnum þá vernd sem mælt sé fyrir um í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands, barnaverndarlögum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Um lagastoð er vísað til a-, og d-liðar 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ekki sé krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefnda mótmælir öllum málsástæðum stefnanda og telur sig vera færa um að sinna forsjárskyldum sínum gagnvart börnunum. Stefnda telur að botninum sé náð og að leiðin liggi aðeins upp á við hér eftir. Hún sé í góðum bataferli og því alls ekki tímabært að svipta hana forsjá yfir börnum sínum. Stefnda vísar til 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 en þar komi fram að barn eigi rétt á forsjá foreldra sinna þar til það sé orðið átján ára en í forsjárskyldum foreldra felist m.a. að ráða persónulegum högum barns, annast það og sýna því umhyggju og virðingu. Stefnda sé fær um það en er sammála um að það geti hún ekki ein. Stefnda þurfi verulegan stuðning inn á heimili sitt vegna fötlunar og veikinda sinna. Stefnda ætli sér á Reykjalund til endurhæfingar auk þess sem það standi til að frænka hennar komi til landsins frá heimalandi hennar og verði henni til stuðnings með heimilisstörf og börnin.

                Stefnda telur að þó svo að lögheimili yngri barnanna verði hjá föður þeirra þá hafi hún ákvörðunarrétt um daglegt líf barnanna. Telur stefnda það andstætt hagsmunum barna hennar ef hún verði svipt forsjá þeirra. Réttara væri að veita henni hjálparhönd til þess að bæta tengsl hennar við börnin og veita henni hjálp til að geta annast þau. Það sé börnunum fyrir bestu að alast upp með móður sinni. Stefnda mótmælir því að afleiðingar heilablóðfalls sem hún varð fyrir 2011 skerði forsjárhæfni hennar og sé ekkert sem bendi til að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna sem og þroska þeirra sé ógnað verði forsjáin hjá stefndu. Stefnda kveðst sammála því að hún þurfi að bæta forsjárhæfni sína en hún lýsi sig reiðubúna til að vinna í sjálfri sér eins og þurfi með það að leiðarljósi að geta annast börn sín. Stefnda mótmælir því að niðurstaða matsgerðar sem liggur fyrir í málinu geti haft sama gildi og hefði matsmaður verið dómkvaddur, enda sé það mat sem gert hafi verið á vegum stefnanda.

                Stefnda byggir á því að unnt sé að beita vægari úrræðum en að svipta hana forsjá barna sinna og vísar til 2. mgr. 29. gr. barnalaga og 12. gr. stjórnsýslulaga. Telur stefnda að þau úrræði sem fyrir hendi séu hafi ekki verið fullreynd auk þess sem hægt sé að tryggja velferð barnanna með vægari hætti. Þá hafi yngri börnin ekki verið vistuð utan heimilis, sem sé vægara úrræði en forsjársvipting, og því vægari úrræði ekki verið fullreynd. Stefnda vill að lokum koma því á framfæri að hún telji nauðsynlegt að litið sé til hagsmuna barnanna áður en tekin sé ákvörðun um sviptingu forsjár. Stefnda krefst þess að leitað verði annarra og vægari leiða áður og lýsir sig tilbúna til að mæta þeim kröfum sem gerðar verði til hennar í samvinnu við barnaverndarnefnd, skóla- og félagsþjónustu, ef fallið verður frá kröfu um sviptingu forsjá.

Skýrslur fyrir dómi.

Stefnda kom fyrir dóminn og kvaðst mótmæla kröfum stefnanda en hún elskaði börnin sín. Þrátt fyrir líkamlegt áfall sé andleg líðan hennar góð. Stefnda kvað samband sitt og barnanna allra vera mjög náið. Aðspurð hvort hún telji ástand sitt hamla umönnun E kvað stefnda fötlun sína engin áhrif hafa á getu hennar, E sé orðinn tíu ára gamall, rétthentur og sjálfstæður ungur maður. Þá sé stefnda rétthent og geti því séð sjálf um sig og börnin. Stefnda eldi sjálf fyrir þau og þrífi íbúðina. Stefnda sé heilbrigð hægra megin og hafi lömun vinstri handleggs ekki áhrif á það. Aðspurð um umgengni hennar og E undanfarið og hvernig hún hafi gengið kvaðst stefnda sjá E á tveggja vikna fresti og í hvert sinn spyrji hann hana hvers vegna hann sé ekki heima. Aðspurð um umgengni við yngri börnin kvað stefnda að komið sé með börnin heim til hennar og í hvert sinn sem þau fari gráti þau. Aðspurð um það hvort stefnda upplifi skerta andlega getu eftir heilablóðfallið neitaði stefnda því. Þá kvaðst hún aðspurð ekki hafa farið í endurhæfingu þar sem biðlisti sé mjög langur en hún ætli í endurhæfingu á Reykjalund í Mosfellsbæ. Spurð um það, ef hún fengi eitthvert barna sinna heim aftur, hvort hún myndi þiggja stuðning barnaverndaryfirvalda kvaðst hún myndu gera það, aðallega við að sækja börnin í skóla og leikskóla og einnig við þrif á heimilinu. Stefnda kvaðst ekki þiggja neina aðstoð inn á heimilið í dag.

                Stefnda kvaðst hafa notið aðhlynningar bestu sérfræðinga sem fáanlegir voru frá Bandaríkjunum eftir heilablóðfallið. Hún eigi læknisvottorð frá þeim sérfræðingum sem sýna að ákveðnar heilastöðvar hafi ekki orðið fyrir tjóni þegar hún fékk áfallið. Aðalskaðinn sé þar sem samskipti og boð frá heila til vinstri handleggs fara fram. Skýrt komi fram í læknisvottorðum að andleg geta hennar hafi ekki skerst og hún viti að hún geti annast börnin sín. Tjónið hafi orðið vinstra megin á líkama hennar en hún geti séð um börnin sín þar sem hún sé rétthent.

                Aðspurð kvað stefnda rétt að hún hafi fengið liðveislu frá félagsmálayfirvöldum en hún fái ekki aðstoð inn á heimilið við að elda eða þrífa. Þá sé hún í félagslegu leiguhúsnæði og þiggi fjárhagsaðstoð. Aðspurð kvaðst stefnda ekki hafa sýnt neinum á Íslandi þær læknaskýrslur sem hún hafi undir höndum, enda hafi hún ekki verið beðin um að framvísa þeim. Stefnda kvaðst hafa um 161.000 krónur á mánuði í dag í opinbera framfærslu. Fengi hún börnin myndi hún hafa um 261.000 krónur á mánuði frá Tryggingastofnun.

                Aðspurð um það hvort stefnda hafi ekki talið þörf á því að börnin væru vistuð utan heimilis, kvaðst stefnda ekki telja að þörf hafi verið á því. Spurð um atvikið þegar F fannst á Nýbýlavegi og hvort henni hafi ekki fundist rétt að barnaverndaryfirvöld kæmu að málinu eftir það, svaraði stefnda þessari spurningu þannig að hún vildi gjarnan að drengurinn kæmi fyrir dóminn og svaraði því sjálfur hvort hún hafi beitt hann ofbeldi. Hafi stefnda lagt á hann hendur myndi hann segja frá því. Spurð hvort stefnda hafi skýringar á því hvers vegna E leitaði út af heimilinu og til annarrar fjölskyldu eftir skóla og um helgar, kvaðst stefnda ekki enn hafa skilið það. Spurð hvort það gæti stafað af því að E hafi ekki liðið vel hjá henni, kvað hún það ekki mögulegt. Aðspurð um framtíð sína, kvað stefnda að sig langaði til að fara í menntaskóla en hún væri menntaður [...]. Stefnda kvaðst aðspurð treysta sér til að vinna störf þar sem aðeins þyrfti að nota aðra höndina. Stefnda kvað aðspurð, að ef börnin ælust ekki upp hjá henni mundi það fara illa með hana heilsufarslega, bara við tilhugsunina eina. Aðspurð um það hvort stefnda fyndi fyrir breytingu á sér andlega eftir áfallið 2011, kvað hún svo ekki vera. Stefnda kvaðst hafa fengið upplýsingar um það að um leið og hún fari í sjúkraþjálfun þá muni hún fá kraft í vinstri handlegginn aftur. Ítrekað spurð um andlega líðan sína kvaðst stefnda vera alveg í lagi. Stefnda kvaðst hringja í H, sem væri með yngri börnin, og fái hún fréttir af þeim þannig. Stefnda kvaðst eiga marga vini hér á Íslandi og hefði gott tengslanet. Hún væri í góðu sambandi við fjölskyldu sína og hún eigi jafnframt góð samskipti við samlanda sína hér á landi.

                Stefnda kvaðst aðspurð hafa dvalarleyfi hér á landi vegna hjúskapar hennar en hún væri enn gift barnsföður sínum, H. Hann krefðist nú skilnaðar og hefði hún verið boðuð til sýslumanns þess vegna.

                Vitnið D sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sem liggur fyrir í málinu. Vitnið kvað að í upphafi hafi legið fyrir að konan hafi verið með framheilaskaða. Röntgenrannsóknir og taugasálfræðimat hafi legið fyrir við gerð matsins og staðfest fötlun konunnar. Því hafi ekki þurft að fara í þá vinnu. Það sé svo skýrt að framheilaskaðað fólk missi færni sína við tengslamyndun, innsæi í aðstæður, dómgreind og hömlur og sé þetta óafturkræfur skaði. Það sé enginn vafi af hálfu vitnisins að þessar skemmdir séu staðreynd og öll önnur gögn í málinu staðfesti það. Vitnið kvaðst hafa farið á heimili konunnar. Það hafi verið einfalt en ekkert hafi bent til þess að þangað kæmu börn, engin leikföng eða bækur. Vitnið kvaðst hafa hitt E í umgengni sem hafi farið fram undir eftirliti. Stefnda hafi komið með mat handa E sem hann hefði borðað. Engin snerting hafi farið á milli þeirra. Stefnda hafi gefið honum fyrirmæli um að þvo sér um hendurnar og þau hafi rætt aðeins saman um atriði sem E hafði áður sagt vitninu og eftirlitsaðilanum. Þegar E hafði klárað matinn sinn hafi hann viljað fara út að leika sér í fótbolta. Eftirlitsaðilinn og stefnda hafi staðið hjá og spjallað saman og hafi vitnið séð að stefnda hafi ekki fylgst með drengnum né kvatt hann, ekki frekar en að drengurinn hafi ekki verið þarna. Síðan hafi þau farið inn og drengurinn farið á salerni og dvalið þar í nokkurn tíma. Engin samskipti hafi verið á milli þeirra sem mátti vænta á milli móður og barns.

                Stefnda hafi farið á leikskólann til að hitta yngri börnin og vitnið hafi farið með. Stúlkan hafi ekki hlýtt móður sinni með að klæða sig í byrjun en hafi síðan hlýtt. Næst fór stefnda á deildina þar sem drengurinn var og var stefndu réttur drengurinn. Hún hafi sett drenginn niður og tekið af honum nokkrar myndir. Stefnda hafi síðan farið inn og rætt við starfsmann og sagst vera að sækja bæði börnin. Hafi það ekki verið samkvæmt reglum og hafi drengurinn farið sínu fram á meðan og stefnda ekkert skipt sér af honum. Þegar í ljós kom að stefnda mátti ekki taka drenginn með sér hafi stefnda farið burt án þess að kveðja drenginn eða aðra. Hún hafi tekið stúlkuna og farið með hana heim til sín og gefið henni djús og kex á meðan telpan var að horfa á tölvuskjá. Engin merkingarbær samskipti hafi farið fram á milli þeirra á meðan. Telpan hafi klifrað niður af stól og farið inn í stofu. Vitnið hafi náð sér í bók á meðan það fylgdist með háttsemi mæðgnanna. Stúlkan hafi þá líka sótt bók og þóst vera að lesa á meðan. Stuttu seinna tilkynnti stefnda að pabbi hennar væri kominn og hún þyrfti að fara. Kvað vitnið vanta tengsl á milli móður og barnanna og samskipti þeirra hafa verið fáskiptin. Vitnið minntist þess ekki að stefnda hafi spurt E nokkuð um skólagöngu hans. Aðspurð um myndatökur af börnunum kvaðst vitnið helst halda að þær væru stefndu til ánægju en þær sköpuðu grunna tengslamyndun við börnin.

                Aðspurt hvort stefnda gæti verið ein með börnin í umgengni kvað vitnið svo ekki vera. Einstaklingur með framheilaskaða eins og stefnda sé með og skort á stýrifærni, sem af því leiði, geti ekki verið ábyrgur fyrir hegðun sinni gagnvart barni og ekki heldur til að tryggja öryggi barns. Það vanti skilning á því hvaða aðstæður séu við hæfi og einnig vanti hömlur ef leikar æsast, t.d. ef barn fer að gráta eða verður æst eða reitt. Þá sé ekki hægt að treysta því að einstaklingur með slíkan skaða geti brugðist við á vitrænan hátt. Vitnið hafði, við vinnslu matsins, samband við taugasálfræðing sem staðfesti skoðun og mat vitnisins á skaða og afleiðingum stefndu. Alvarleg atvik hafi orðið við þær aðstæður þegar framheilasköðuð manneskja eigi að bera ábyrgð á aðstæðum, hún geti ekki stjórnað sjálfri sér og geti því í hamsleysi valdið barni tjóni.

                Vitnið kvað aðspurt E hafa marglýst ofbeldi af hálfu móður sinnar auk þess sem hún sinnti ekki námi hans. Þá taldi vitnið, um það atvik þegar F fór að heiman, að móðirin hafi ekki borið fullnægjandi ábyrgð á barninu. Vitnið kvað stefndu bæði hafa sagt í gögnum málsins að faðir E væri látinn og að hún ætlaði að senda föður E þær myndir sem hún hafi verið að taka af honum. Sú frásögn hennar sé því ekki trúverðug en vitnið hafi ekki endilega verið að leggja mat á trúverðugleika stefndu. Vitnið kvað sér hafa fundist það sérstakt að H hafi sagt vitninu að þegar hann fór út til [...] þá hafi hann aldrei hitt föður stefndu en þau hafi gift sig úti en síðar hafi hann séð ljósmynd af fyrra barni þeirra, sem fæddist í [...], með manni sem hún hafi sagt vera föður sinn.

                Vitnið kvað að manneskja með slíkan heilaskaða og stefnda væri ekki fær um að annast barn eina einustu stund. Þetta sé skaði sem sé vel staðfestur og hann sé algjörlega óafturkræfur. Engin þjálfun eða æfingar gætu minnkað hann. Aðspurt kvað vitnið mikilvægt að börnin hittu móður sína, aðallega til þess að þau vissu hver hún væri en það þurfi að vera innihaldsríkar stundir, stuttar og undir eftirliti. Vitnið taldi ekki endilega skaðlegt fyrir börnin þótt móðir þeirra færi úr lífi þeirra, en það færi auðvitað eftir því hvernig það væri skýrt út fyrir börnunum. Það væri varla mikið öðruvísi en að E vissi ekki hvort hann ætti föður í [...] eða ekki en hann virðist lifa ágætislífi þrátt fyrir það. E viti vel að stefnda sé móðir hans en hann leiti ekki til hennar utan að hún segi að E vilji að hún komi með mat handa sér. Þá reyni E að segja henni frá því skemmtilega sem sé að gerast í lífi hans þá stundina en það sé ekki svo að það teljist það innihald sem þurfi að vera í samskiptum foreldris og barns . Þá sé það sérstakt að E fann sér sjálfur nýja fjölskyldu sem hann leitaði til og var hjá meira og minna. E hafi verið á því heimili frá skólalokum fram að kvöldmat og allar helgar. Það fólk hafi farið að hjálpa honum með heimanámið, þvo föt af honum og fleira og sýni það vel hvað stefnda var lítið í foreldrahlutverkinu. Aðspurt kvað vitnið einhverju máli skipta fyrir E að hann sé frá öðrum menningarheimi en stefnda sé sú eina sem geti upplýst hann um forfeður hans en ljóst sé að drengurinn hafi aldrei hitt föður sinn og að á litlu sé að byggja af hálfu stefndu. Vitnið kvaðst engan efa hafa um niðurstöðu mats síns né um þær niðurstöður sem séu í læknisvottorðum og hún byggi á. Vitnið kvað að í framheila, þar sem skaðinn hafi orðið, sé færni til að stýra okkur sem manneskjur. Þær prófanir sem C hafi gert sýni og staðfesti hversu mikil áhrif skaðinn hafi haft á stefndu. Í gögnum megi sjá að engin tengslahæfni sé hjá stefndu og ábyrgð sem þurfi að vera í gangi til að foreldri geti sinnt sínu hlutverki. Aðspurt um það hvort einhver merki séu um að stefnda sé börnunum hættuleg, kvað vitnið það ofbeldi sem hún hafi beitt E, og sé ekki vefengt, bendi til þess að hún hafi ekki stjórn á sér auk þess sem það atvik að F fór út frá heimili sínu og fannst við fjölfarna götu sýni að stefnda hafi ekki ábyrgðartilfinningu en ljóst sé að barnið gat varla opnað dyrnar á fjölbýlishúsinu sjálft. Stefnda búi á áttundu hæð í stóru lyftuhúsi og útidyrnar séu mjög þungar og jafnvel fullorðnum erfitt að opna þær. Barn á fjórða ári hafi farið út í umhverfi sem sé óheppilegt barninu. Vitnið kvaðst ekki hafa metið tengslahæfni barnanna því að málið hafi ekki snúist um það. Aðspurt hvort stefnda sé börnunum hættuleg þótt hún sé sinnulaus og framtakslítil, kvað vitnið hana vera algjörlega afskiptalausa í umgengni við börnin, hún sitji með myndavél sína og skipti sér ekki af þeim, það geti skapað hættu fyrir yngstu börnin, hún hafi ekki farið á eftir yngri börnunum fram í stofu til að fylgjast með þeim og hafi vitnið aldrei séð svo skýra mynd af sinnuleysi. Hún útbúi heimili sitt ekki við hæfi barna og sé heimili hennar gjörsneytt öllu sem kalli á þarfir barna. Aðspurt kvað vitnið stefndu ekki vera færa til að bera ábyrgð á börnunum utan að vera til staðar til að börnin viti hver hún sé og að leggja fyrir þau eitthvað að borða. Hún hafi ekkert framlag í uppeldi þeirra sem skipti máli, hún sé ekki fær um það. Vitnið kvað ekkert vera til sem heiti endurhæfing við heilaskaða af þessu tagi en vitnið viti ekki hvort það skrifist á Landspítalann eða stefndu þegar skráð var að hún hafi ekki verið til samvinnu í endurhæfingu en vitnið taldi það ekki hafa verið í þess valdi að meta það. Það breyti hins vegar engu um forsjárhæfni stefndu. Einn fylgifiskur framheilaskaða af þeim toga sem stefnda varð fyrir sé skortur á innsæi á eigin vanda. 

                Vitnið kvað sína skoðun á aðkomu barnaverndar í máli stefndu vera að hún væri mjög góð og mikill stuðningur hafi verið veittur. Aðspurt hvort stefnda hefði það innsæi að geta með aðstoð og leiðsögn verið fær um að sinna börnum sínum sem þeim væri nauðsynlegt, kvað vitnið svo ekki vera.

                Vitnið I félagsráðgjafi kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að málinu í janúar 2015. Áður hefði málið verið til vinnslu í rúmt ár hjá barnaverndaryfirvöldum. Samskipti stefndu og starfsmanna barnaverndar hafi verið mikil fyrir maí 2015. Hún hafi hringt mikið og verið með margar spurningar. Þegar F hafi fundist ein á Nýbýlavegi hafi samskipti við stefndu verið erfið. Hún hafi ekki verið til samvinnu en hún hafi farið eftir ákvörðun úrskurða. Stefnda hafi ítrekað verið ókurteis við vitnið, kallað það ljótum orðum, sagt vitnið ljúga, sagt vitnið vera í samstarfi við H og vinni gegn stefndu. Vitnið hafi þurft að slíta fundi með stefndu og lögmanni hennar vegna hegðunar og framkomu stefndu. Þá hafi vitnið ítrekað upplifað hömluleysi af hálfu stefndu.

Fram til maí 2015 hafi verið mikill kostnaður vegna vistunar barnanna þriggja, stefnda og H hafi fengið tilsjónarmann vegna uppeldis barnanna og við ýmis verkefni sem falla til á heimilinu. Það hafi gengið illa og stefnda hafi verið með þráhyggju gagnvart starfsmanni. Stefnda hafi ítrekað hringt í starfsmenn og samlanda hennar og lýst áhyggjum af því að verið sé að taka börnin af henni og hafi verið með afdráttarlausar yfirlýsingar um að starfsmaðurinn sé að vinna gegn stefndu. Stefnda hafi breytt mikið tímaáætlun starfsmanna þannig að erfitt hafi verið að halda utan um málin. Hún hafi ætlast til að tilsjónaraðilar keyrðu sig á Stjörnutorg og færu með henni út að borða og ýmislegt sem hafi alls ekki verið í hlutverki tilsjónaraðila. Tiljónaraðilar hafi aðallega átt að styðja stefndu í uppeldishlutverkinu og samskiptum inni á heimilinu auk þess að upplýsa og hjálpa stefndu með almenna og praktíska hluti varðandi það opinbera o.fl.

                Þegar fyrsta tilkynning hafi komið til lögreglu vegna fjölskyldunnar hafi barnavernd ekki vitað mikið um fjölskylduna en fjölskyldan hafi búið á heimili foreldra H í einu herbergi en H hafi sofið á sófa, stefnda deilt herbergi með F og E hafi sofið á dýnu til fóta hjá foreldrum H. H hafi haft atvinnu en stefnda ekki. Hafi móðir H aðallega komið að uppeldi barnanna heima fyrir. Fjölskyldunni hafi í framhaldi verið útveguð félagsleg íbúð rétt hjá foreldrum H. Á þessum tíma hafi lítið verið vitað um skerðingu stefndu og hagi fjölskyldunnar en E hafi frá upphafi sagt frá ítrekuðu ofbeldi af hálfu móður. Því hafi könnun máls hafist. Ítrekað hafi verið reynt að hjálpa og liðsinna stefndu vegna hennar skerðingar og hafi starfsmenn farið með henni á geðdeild Landspítalans. Þar hafi stefndu verið boðin innlögn en hún afþakkað. Hún hafi einnig afþakkað frekari sérfræðiaðstoð þar sem hún taldi sig ekki þurfa á henni að halda. Heimilislæknir hafi verið fenginn til að taka við málefnum stefndu snemma á árinu 2015. Einnig hafi heimilislæknirinn sent beiðni til geðdeildar Landspítalans um mat á ástandi stefndu en geðdeild vísað þeirri beiðni frá þar sem geðdeildin taldi barnavernd eiga að sjá um slíka greiningu. Stefnda hafi ekki verið til samstarfs um þá greiningu. Stefnda hafi farið í segulómun á vegum heimilislæknisins og hún hafi einnig farið í taugasálfræðilegt mat. Máli stefndu á Grensásdeild hafi verið lokað þar sem stefnda hafi ekki verið til samstarfs þar.

                Aðspurt kvað vitnið vistforeldra E hafa leitað til barnaverndarnefndar að fyrra bragði í mars/apríl á árinu 2015 og óskað eftir því að gerast stuðningsforeldrar E. Í ljós hafi komið að E hafi dvalið þar nær alla virka daga frá lokum dægradvalar í skólanum og nær allar helgar fram að kvöldmat. Hann hafi verið kominn til þeirra upp úr klukkan átta á morgnana um helgar. Þau höfðu séð að heimanám hans var vanrækt og hann hafi verið svangur og óhreinn. E hafi því í raun fundið sér samastað hjá þeim og hafi það ástand varað frá skólabyrjun haustið 2014. E hafi sagt vitninu sjálfur frá ofbeldi af hálfu móður sinnar, móðir hans hafi lamið hann og það hafi verið vont, hún hafi klipið hann og barið í höfuðið. E geti vel rætt þetta í dag. E hafi skýrt öðrum starfsmönnum stefnanda frá sömu tilvikum og fósturföður sínum. E sé trúverðugur í sínum lýsingum og staðfastur í framburði sínum. Aðspurt kvað vitnið að umgengni hafi gengið ágætlega frá því að úrskurður gekk. Vitnið kvað að úrskurða hafi þurft um umgengni við börnin. Stefnda hafi fylgt úrskurðum varðandi F og G en þar er umgengni einu sinni í viku ásamt liðveitanda. Stefnda hafi þverbrotið skilyrði úrskurðar um umgengni við E margsinnis. Henni hafi verið óheimilt að hafa samband við hann utan að hafa umgengni aðra hverja viku á miðvikudögum en stefnda hafi síðastliðið sumar hringt í hann allt að fjörutíu sinnum á dag og hafi það valdið honum miklum kvíða. Skipta hafi þurft ítrekað um símanúmer hjá honum til að koma í veg fyrir þetta. Stefnda hafi nokkrum sinnum stofnað Facebook-síður til að hún geti verið í samskiptum við E í gegnum þann miðil. Um það hafi stefnda rætt við E í umgengni og síðast í gær hafi enn tvær síður verið opnar þrátt fyrir að stefnda hafi verið beðin um að loka þeim. Vitnið kvað fyrsta úrskurð um umgengni hafa verið tvisvar í mánuði tvo tíma í senn og undir eftirliti. Það hafi byrjað fyrir um ári en gengið mjög brösuglega. Þessir tveir tímar hafi greinilega verið E þungbærir, mjög mikil þögn, ekki líkamleg snerting, mikill skortur á tilfinningalegum tengslum þeirra á milli og E yfirleitt leitað með samtöl til eftirlitsaðilans og ef stefnda hafði eitthvað að segja við E hafi það verið mjög snubbótt og samskipti dottið niður. E hafi verið farinn að halda sig inni á salerni allt upp í fjörutíu mínútur, haldið sig í tölvu eða farið út í fótbolta. Samskipti við móðurina hafi því verið af skornum skammti. Umgengni hafi því verið stytt í einn klukkutíma tvisvar í mánuði og hafi það gengið betur. Móðirin hafi verið hvött til að koma með einhver verkefni og hafi hún komið með reiknibók og enst í um tíu mínútur með honum. Slæm breyting hafi orðið frá því í mars sl. þar sem stefnda segir E frá ættingjum í [...] og meintum föður E sem stundum hafi verið sagður látinn eða annar en hún hafi sagt frá. Þá hafi hún búið til væntingar hjá honum um að fara með stefndu til [...] og heimsækja ættingja. Stefnda hafi neitað að tjá sig um föður E og fari það í bága við að hann sé látinn. Þá sagði stefnda E að faðir hans hefði komið til Íslands sl. jól en hafi ekki fengið að hitta E. Í byrjun hafi E verið mjög kvíðinn fyrir umgengni og þurft mikla hlýju og ástúð eftir umgengni. Nú eftir að stefnda fór að tala um ættingja í [...] hefur E farið að tala á þann máta að hann vorkenni henni, hann muni halda á töskunni fyrir móður sína þegar þau fari til [...] og hann hafi sagt að hann sakni hennar. Þá hafi hann farið í eitt skipti í heimsókn til móður sinnar utan umgengni. Vitnið taldi ekki rétt að auka umgengni að svo stöddu. Vitnið kvaðst hafa rætt persónulega við drenginn, starfsfólk skóla og vistforeldra og upplýst sé að E sé óöruggur eftir þessar nýju upplýsingar um hugsanlegan föður og hugsanlega ættingja í [...]. Þá sé hjá honum löngun til að vita meira um þessa ættingja sína og líðan hans út frá þessum upplýsingum sem séu misvísandi frá móður hafi ekki góð áhrif á hann. E hafi sjálfur farið að kalla vistforeldra sína mömmu og pabba en eftir að stefnda sagði honum að hann ætti pabba í [...] hafi hann orðið vandræðalegur þegar hann kalli fósturföður sinn pabba. E hafi ítrekað sagt að hann óski eftir því að búa annars staðar en hjá móður sinni og hafi hann undanfarið búið við ótrygga framtíðarsýn sem sé mjög slæmt fyrir hann.

                Vitnið kvað að allt frá maí 2015 hafi ítrekað verið reynt að fá vegabréf E afhent en stefnda hafi neitað að hafa vegabréfið undir höndum en nýverið hafi hún sagt að faðir drengsins í [...] sé með það. Auk þess hafi hún haldið því fram að H hafi stolið því. Fósturforeldra E hafi langað til að taka drenginn með sér í frí til Spánar og móðir hans hafi virst gleðjast yfir því með E en hins vegar vinni hún gegn því að drengurinn fái vegabréf. Erfitt sé að fá nýtt vegabréf fyrir hann en næsta ráðuneyti sé í Stokkhólmi þar sem hægt sé að sækja um nýtt vegabréf fyrir hann verði það ekki sent frá [...]. Enga samvinnu sé að fá frá stefndu varðandi þetta.

                Vitnið kvað allt frá fæðingu G hafa komið tilkynningar um vanrækslu vegna hans. Eftir maímánuð 2015 hafi faðir yngri barnanna farið með þau út af heimilinu. Þau hafi verið áfram á sínum leikskóla en stefnda hafi farið að sækja F daglega á leikskólann eftir hádegi með bíl ferðaþjónustu fatlaðra en þar hafi ekki verið öryggisbúnaður fyrir hana og F hafi því verið laus í bílnum. Leikskólinn hafi haft áhyggjur af þessu auk þess sem stúlkan hafi þá farið á mis við eðlilega þroskaþjálfun en hún hafi átt pláss á leikskólanum til klukkan fimm á daginn. Stefnda hafi ekki farið eftir leiðsögn starfsmanna leikskólans og sótt stelpuna of snemma þrátt fyrir leiðbeiningar. Eftir að stúlkan fór í vistun utan heimilis hafi þroska hennar farið mikið fram og greinilega séu góð tengsl sjáanleg milli barnanna og liðveitanda.

                Aðspurt kvaðst vitnið hafa farið í útkall þegar F fannst við bensínstöð. Vitnið hafi farið á lögreglustöðina þar sem F var. H, faðir hennar, hafi komið á lögreglustöðina í sömu andrá. F hafi tekið föður sínum fagnandi en barnið hafi ekki getað sagt hver faðir hennar var vegna ungs aldurs hennar. Vitnið hafi síðan farið á heimili þeirra þar sem stefnda var fyrir. Stefnda hafi sagt mjög óljóst frá málavöxtum, stefnda hafi verið heima með F en farið inn í herbergi til að skipta um föt. F hafi farið út um útidyrnar á íbúðinni, farið með lyftu niður og síðan út um útidyr. Stefnda hafi ekki hringt í lögreglu þegar barnið hvarf. Barnið hafi verið á vergangi úti í um klukkustund en stefnda hafi sagt H þegar hann hringdi fyrr um daginn í hana að hún væri að leita að stelpunni í blokkinni. Stefnda hafi ekki sýnt nein viðbrögð þegar barnið kom heim og stelpan ekki leitað til móður sinnar. Stefnda hafi ekki sýnt neinn létti eða feginleik við að sjá barnið. Kvað vitnið að [...] væri stór blokk, stefnda byggi á áttundu hæð og útidyrnar væru mjög þungar. H hafi í framhaldi óskað eftir skilnaði. Tímabilið á undan hafi verið búið að vera mjög erfitt og vitnið oft hlustað á stefndu bölva í H garð, lýsa því hversu vondur maður hann væri, haft þráhyggjuhugmyndir um að börnin yrðu tekin af henni, sent óteljandi smáskilaboð til H, m.a. um það hversu vondur maður hann væri. Samskipti H og stefndu séu lítil í dag nema í gegnum smáskilaboð. Liðveislan sjái um það í dag að sækja börnin á leikskóla svo að börnin verði ekki vitni að erfiðum samskiptum foreldranna. Taldi vitnið útilokað að H og stefnda gætu verið með sameiginlega forsjá.

                Vitnið kvað E ganga vel í vistuninni. Hreinlæti, læknisheimsóknum, heimanámi og fleiru sé mjög vel sinnt. Það hafi verið haldið upp á afmæli hans nú í fyrsta sinn á ævi hans. Hann leiti til fósturforeldra ef eitthvað bjáti á en hann setur einnig út á að þurfa að fara eftir reglum hjá þeim. Aðspurt kvað vitnið börnin hafa þörf fyrir að þekkja móður sína en áríðandi sé að þeim samskiptum sé stýrt.

                Vitnið kvað aðspurt viðbrögð stefndu vera almennt öðruvísi þar sem mjög mikill skortur væri á tengslum stefndu við börn sín, margt í hennar máli snúist um H, í umræðunni um hegðun hennar gangist hún ekki við henni og komi ekki inn í það samtal. Varðandi samvinnu þá sé mun erfiðara að fá stefndu í samstarf en almennt gerist í sambærilegum málum, þráhyggjukennt tal sé hjá henni, um tíma hafi hún hringt í barnaverndarnefnd oft á dag til að ræða mál sín, umræðuefnið hafi stundum snúist um hrísgrjón á Stjörnutorgi og að H ætlaði að stela börnunum af henni. Vitnið kvaðst aðspurt ekki merkja neitt tengslanet sem stefnda hafi hér á landi eftir að barnaverndarnefnd kom að málum hennar og stefnda hafi ekki verið í samskiptum við samlanda sína hér á landi. Þó hafi verið upplýsingar um að hún væri í sambandi við móður sína í gegnum Skype. H hafi upplýst að hún hafi ekki verið í samskiptum við neina utan heimilis en vitnið kvaðst ekki vita til þess að hún ætti nokkra vini hér. Vitnið kvað H hafa orðið vitni að harkalegri framkomu stefndu gagnvart E en ekki séð hana slá hann. Vitnið kvað, á meðan H bjó einnig á heimilinu, hann hafa unnið utan heimilis og foreldra hans hafa sótt börnin á leikskólann og sinnt þeim þar til H kom heim úr vinnu um klukkan hálfsjö seinnipartinn. H hafi lýst miklum áhyggjum af ástandinu við barnavernd en hann hafi gert sér grein fyrir samskiptaerfiðleikum þeirra. Vitnið kvað rétt að H hafi ekki gripið inn í þegar ljóst var að E hafi fundið sér aðra fjölskyldu til að fara til eftir skóla og um helgar.

Forsendur og niðurstaða.

Afskipti barnaverndar Kópavogs af heimili og börnum stefndu hafa staðið yfir frá árinu 2011. Í gögnum málsins liggur fyrir, eins og rakið hefur verið að framan, að stefnda hefur ekki þegið eða farið að fyrirmælum barnaverndar varðandi umgengi, uppeldi, öryggi og aðbúnað barnanna. Hefur hún ítrekað fengið liðveislu inn á heimilið og aðstoð með börnin en hún ætíð komið því þannig fyrir að starfsmenn barnaverndar eða félagsþjónustunnar hafa hætt störfum. Í niðurstöðum vottorðs B læknis segir að segulómskoðun hafi verið gerð á heila 10. apríl 2015 sem sýni framheilaskaða. Sem svar við þeirri spurningu hvaða möguleg áhrif skemmdirnar geti haft á geðslag, viðbrögð, tímaskyn, skap og annað kemur fram að framheilaskaði geti valdið hömluleysi og skorti á framtakssemi og skapsveiflum. Hann geti einnig valdið erfiðleikum við að leysa vandamál, tilhneiging sé til endurtekninga og stundum óeðlilegrar hegðunar. „Temporal“ eða gagnaugaskemmdin geti hins vegar haft tölvuverð áhrif á minni og valdið erfiðleikum við að finna orð yfir hluti. Það geti einnig leitt til reiðikasta og hótandi hegðunar eða jafnvel valdbeitingar. Það geti líka leitt til alveg þveröfugs atferlis; áhugaleysis og meðfærileika. Tímaskyn sé oft truflað. Svar við þeirri spurningu af hvaða ástæðum læknirinn hafi óskað eftir geðmati hjá geðdeild LSH er á þann hátt að það hafi fyrst og fremst verið mat með tilliti til þráhyggju og þunglyndis og sömuleiðis vitsmunaskerðingar. Í vottorði C, taugasálfræðings hjá LSH, sem ekki hefur verið mótmælt, segir m.a. að helstu niðurstöður taugasálfræðilegs mats séu að óyrt rökhugsun mælist skert. Tafarlaust minni á flókna mynd mælist skert. Seinkað kennslaminni mælist skert. Tafarlaust kennslaminni á talnaraðir mælist í lágu meðallagi. Tafarlaust minni á röð bendinga mælist í lágu meðallagi og tafarlaust minni á röð mismunandi handhreyfinga mælist skert. Lestrar- og nefnihraði sé skertur, flokkaorðfimi mælist skert, bókstafaorðfimi sé skert, reiknifærni sé góð en hún sé lengi að reikna. Færni við að teikna flókna mynd sé skert, færni við að greina flóknar myndir sé skert, færni við að greina stefnu lína sé skert. Hugrænn úrvinnsluhraði sé skertur. Tvískipt athygli og sveigjanleiki hugans mælist skert og færni við að halda aftur af ósjálfráðum viðbrögðum mælist í meðallagi og fínhreyfingar hægri handar mælist skertar. Í niðurstöðum segir að stefnda greinist með heilabilun, sem að öllum líkindum sé afleiðing slags sem hún hafi fengið árið 2011. D sálfræðingur staðfesti það mat sitt fyrir dóminum að það gæti verið börnunum hættulegt að vera án eftirlits í umsjá stefndu og hún sé með öllu ófær um að fara með forsjá barna sinna vegna afleiðinga af heilaskaða þeim sem hún hefur orðið fyrir.

Í 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 segir að börn eigi rétt á vernd og umönnun og að þau skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Í 2. mgr. segir að allir sem hafi uppeldi og umönnun barna með höndum skuli sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Þá segir enn fremur að foreldrum beri að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best henti hag og þörfum þeirra. Þeim beri að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Í 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt sé að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Þá segir enn fremur í 2. mgr. að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess og í 3. mgr. segir að barn eigi rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varði og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Af málavöxtum þessa máls telur dómurinn að mikið vanti upp á hjá stefndu svo að hún teljist geta uppfyllt skilyrði til að framfylgja þessum lögbundnu grundvallarréttindum barnanna.

Stefnda byggir á því að meðalhófs hafi ekki verið gætt í máli þessu og vægari úrræðum hafi mátt beita áður en kom til þess að vista börnin utan heimilis og svipta hana forsjá þeirra. Af því sem að framan er rakið telur dómurinn að stefndu hafi verið veittur allur sá stuðningur sem hægt var að veita að því marki sem hún þáði sjálf en slíkur stuðningur er ávallt háður því að gagnaðilinn vilji nýta sér hann og sé samstarfsfús. Svo var ekki af hálfu stefndu og var því fullreynt áður en börnin voru tekin úr umsjá hennar. Er þessari málsástæðu stefndu því hafnað.

                Metur dómurinn það svo, með vísan til allra gagna málsins, ferils málsins og framburðar vitna fyrir dóminum, að stefnda uppfylli ekki, þrátt fyrir allan þann stuðning sem tækur er, þær lágmarkskröfur sem gera verði til hennar sem uppalanda og foreldris, þannig að hún geti veitt börnum sínum þau uppeldisskilyrði sem þeim eru nauðsynleg. Telur dómurinn skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vera uppfyllt.

Að öllu ofangreindu virtu verður að telja að hagsmunum barnanna sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá þeirra. Verður krafa stefnanda því tekin til greina.

Stefnandi krefst ekki málskostnaðar. Stefnda krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Skal kostnaður stefndu, sem eru málsvarnarlaun lögmanns hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., samtals 838.860 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiddur úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveða upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, Oddi Erlingsson sálfræðingur og Þorgeir Magnússon sálfræðingur.

Dómsorð.

Stefnda, A er svipt forsjá barnanna E, F og G.

                Málskostnaður fellur niður.

                Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., 838.860 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.