Hæstiréttur íslands

Mál nr. 283/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 20

Þriðjudaginn 20. júlí 1999.

Nr. 283/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                                             

Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hjörtur Torfason.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júlí 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. júlí 1999 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdóms verði breytt þannig að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi allt til 6. ágúst nk. kl. 16.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraaðsdóms Reykjavíkur 16. júlí 1999.

Ár 1999, föstudaginn 16. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

 Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. ágúst nk., kl. 16.

Málavextir eru þeir að þann 7. júlí sl. lagði tollgæslan í Reykjavík hald á sendingu með 969 MDMA töflum, svokölluðum e-töflum, sem send hafði verið til [...].

[...]

Svo sem að framan greinir liggur fyrir framburður tveggja aðila, sem grunaðir eru um aðild að málinu, þess efnis að kærði, X, sé bendlaður við málið. Ljóst er að framburður þessara kærðu er gefinn meðan þeir sæta gæsluvarðhaldi. Eru þeir í þágu rannsóknarinnar látnir sæta ítrustu takmörkunum, svo sem einangrun. Einsýnt þykir því að um sjálfstæðan framburð hvors aðila um sig sé að ræða. Þegar framanritað er virt er það mat dómsins að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði kunni að hafa orðið uppvís að broti er varðað gæti hann fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ef sannaðist. Ljóst er af gögnum málsins að rannsóknin er enn á frumstigi. Þegar litið er til alls framanritaðs telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald yfir kærða. Verður krafan því tekin til greina, þó þannig að kærða verður ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi lengur en til miðvikudagsins 28. júlí nk., kl. 16.

Úrskurðarorð:

 Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 28. júlí nk., kl. 16.