Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-197

A og B (Oddgeir Einarsson lögmaður)
gegn
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Ebba Schram lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Meðdómsmaður
  • Lögskýring
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 5. október 2018 leita A og B leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. september sama ár í málinu nr. 442/2018: A og B gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að leyfisbeiðendur verði svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á að skilyrði greinarinnar væru uppfyllt og tók til greina kröfu nefndarinnar um að svipta leyfisbeiðendur forsjá stúlkunnar. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu.

Leyfisbeiðendur rökstyðja beiðni sína einkum með vísan til þess að meðferð málsins á fyrri dómstigum hafi verið ábótavant. Telja leyfisbeiðendur að Landsrétti hafi borið að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til dómsálagningar á ný. Byggja leyfisbeiðendur annars vegar á því að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991, eins og henni hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 49/2016, hafi verið óheimilt að kveðja til tvo sérfróða meðdómendur á sama sviði til að skipa dóm í málinu, en í héraði sátu tveir sálfræðingar í dómi ásamt einum embættisdómara. Landsréttur hafi á hinn bóginn komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir nefnt ákvæði laga nr. 91/1991, skuli tveir sérfróðir meðdómendur sitja í dómi í málum af þessum toga á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 80/2002. Fái það ekki staðist að mati leyfisbeiðenda. Hins vegar byggja leyfisbeiðendur á því að ómerkja hafi átt héraðsdóm á þeim grundvelli að skipuðum talsmanni stúlkunnar hafi ekki verið veitt tækifæri til að vera viðstaddur þinghöld í málinu, en slíkt gangi gegn 2. mgr. 55. gr. laga nr. 80/2002. Verði ekki á þetta fallist byggja leyfisbeiðendur á að ómerkja beri dóm Landsréttar með vísan til þess að fjöldi sérfróðra meðdómsmanna hafi þá ekki verið í samræmi við áðurgreindar kröfur 1. mgr. 54. gr. laga nr. 80/2002, þar sem aðeins einn sérfróður meðdómsmaður hafi tekið sæti í Landsrétti. Að lokum telja leyfisbeiðendur að skilyrði 29. gr. laga nr. 80/2002 til að svipta þau forsjá dóttur sinnar hafi ekki verið uppfyllt. Í þeim efnum vísa leyfisbeiðendur meðal annars til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að uppeldi og umönnun dóttur þeirra hafi verið ábótavant eða að heilsu hennar og þroska hafi verið hætta búin sökum skorts þeirra á hæfni til að fara með forsjá hennar.

Fallast má á að úrlausn þess hvort réttilega hafi verið staðið að skipan dóms í málinu með tilliti til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 54. gr. laga nr. 80/2002 myndi hafa fordæmisgildi. Eru því efni til að verða við beiðni leyfisbeiðenda til þess að flytja megi mál þetta um formhlið þess fyrir Hæstarétti með tilliti til þessa. Er því beiðnin tekin til greina að þessu leyti.