Hæstiréttur íslands
Mál nr. 89/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
- Opinber skipti
- Séreign
|
Fimmtudaginn 5. mars 2015. |
|
|
Nr. 89/2015. |
M (sjálfur) gegn K (Katrín Theodórsdóttir hdl.) |
Kærumál. Fjárslit milli hjóna. Opinber skipti. Séreign.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem deilt var um að hvaða leyti nánar tilgreindar fasteignir ættu að koma til skipta milli M og K við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Í kaupmála M og K var m.a. mælt fyrir um að íbúð E væri séreign M. Það sama ætti að gilda um arð af séreign og einnig það sem kæmi í stað séreignar. Í hinum kærða úrskurði, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að fasteignin A hefði komið í stað íbúðarinnar að E og ætti hún því að falla utan skipta. Við kaup fasteignar B hefði lántaka aðila hins vegar aukist mikið og var svo áfram hvað varðaði aðrar fasteignir sem keyptar hefðu verið á árunum 2007-2011, þ.e. fasteignirnar C og D og sumarbústaðinn Þ. Taldi dómurinn að við kaup fasteignarinnar að B hefði orðið slík samblöndun séreignar og hjúskapareignar að ekki væri unnt að sérgreina þann hluta eigna sem talist gæti séreign M og að séreignafyrirkomulagi eigna hefði því lokið á þeim tíma þannig að réttur M til séreignar hefði fallið niður. Var talið að þau lán sem tekin höfðu verið til kaupa á áðurnefndum fasteignum hefðu verið greidd með eignum búsins og hefði þá verið svo komið að aðilar hefðu staðið sameiginlega að verðmætasköpun eigna þess. Var það því niðurstaða dómsins að fasteignirnar B, C og D og sumarbústaðurinn Þ væru hjúskapareignir og kæmu til skipta í samræmi við helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2015, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðilanna í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr búinu. Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða allan kostnað skiptastjóra vegna opinberra skipta til fjárslita milli aðila. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 9. febrúar 2015. Hún krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en séreignarrétt sóknaraðila að fasteigninni A í Reykjavík, fastanúmer [...]. Krefst hún þess aðallega að 72% þeirrar fasteignar komi til skipta við fjárslitin samkvæmt helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993. Til vara krefst hún viðurkenningar á því að hún eigi endurgjaldskröfu úr hendi sóknaraðila að því marki sem talið verður að hann „hafi ekki nýtt séreign sína til kaupanna framreiknað til verðlags í janúar 2015 kr. 8.594.306 að teknu tilliti til helmingaskiptareglu hjúskaparlaga, með dráttarvöxtum frá uppsögu dóms.“ Þá krefst hún kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að gagnkæru verði vísað frá Hæstarétti.
Krafa sóknaraðila um frávísun gagnkæru er reist á því að gagnkæran hafi borist að liðnum kærufresti. Kæra sóknaraðila barst héraðsdómi 26. janúar 2015, sem var síðasti dagur kærufrests, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 og 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæran barst Hæstarétti 2. febrúar sama ár og því rann út frestur til að skila greinargerð til Hæstaréttar 9. þess mánaðar, sbr. 1. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991. Gagnkæra varnaraðila barst samkvæmt gögnum málsins þann dag. Kom hún því tímanlega fram, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 3. mgr. 153. gr. sömu laga og verður kröfu sóknaraðila um frávísun gagnkærunnar því hafnað.
Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2015.
Mál þetta, sem barst dóminum með bréfi skiptastjóra mótteknu 11. apríl sl., var þingfest 20. júní sl. Sóknaraðili er K, kt. [...], [...]. Varnaraðili er M, kt. [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess aðallega að 72% fasteignarinnar við A í Reykjavík, (fastanúmer [...]), öll fasteignin B í Reykjavík, (fastanúmer [...]), öll fasteignin C í Reykjavík (fastanúmer [...]), öll fasteignin D í Reykjavík (fastanúmer [...]) og sumarhúsið Þ, [...] (fastanúmer [...]), eða andvirði sumarhússins, verði talin hjúskapareignir aðila og komi til skipta við opinber skipti til fjárslita milli þeirra í samræmi við helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Jafnframt er þess krafist að sóknaraðili fái að óskiptu í sinn hlut 763.177 krónur við skiptin. Til vara krefst sóknaraðili þess að öll fasteignin B í Reykjavík (fastanúmer [...]), C (fastanúmer [...]), D í Reykjavík (fastanúmer [...]) og sumarhúsið Þ [...] (fastanúmer [...]), eða andvirði sumarhússins, verði talin hjúskapareignir aðila og komi til skipta við opinber skipti til fjárslita milla þeirra í samræmi við helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Jafnframt er þess krafist að sóknaraðili fái að óskiptu í sinn hlut 31.363.177 krónur við skiptin. Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að hún fái að óskiptu í sinn hlut við skiptin 31.363.177 krónur eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins. Í öllum tilvikum krefst hún málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti að skaðlausu óháð úrslitum málsins.
Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr búinu um að allar eignir búsins renni til varnaraðila. Þá krefst hann þess að sóknaraðila verði þegar gert að yfirgefa eignina að D í Reykjavík og afhenda varnaraðila að viðlögðum 50.000 króna dagsektum. Til vara krefst varnaraðili þess að honum verði ákvarðaður meirihluti allra eigna, þ.e. 95% allra eigna, til þrautavara 90%, til þrautaþrautavara 85%, o.s.frv. lækkun eins og dómur geti fallist á sem réttmætt eignatilkall varnaraðila ásamt kröfu um afhendingu D í Reykjavík að viðlögðum 50.000 króna dagsektum. Í öllum tilvikum krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða allan kostnað skiptastjóra vegna opinberra skipta og málskostnað varnaraðila vegna reksturs þessa máls.
Með úrskurði upp kveðnum 7.júlí 2014 var fallist á kröfu sóknaraðila um frest til mánudagsins 14. júlí 2014 til að skila greinargerð í málinu. Með úrskurði upp kveðnum 29. október 2014 var fallist á kröfu varnaraðila um að leiða skiptastjóra búsins fyrir dóminn við aðalmeðferð þess. Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þess 21. nóvember sl. Málið var endurupptekið að ákvörðun dómara 15. desember sl. á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., og tekið til úrskurðar að nýju þann dag eftir að lögmenn höfðu átt þess kost að koma að athugasemdum til viðbótar við fyrri málflutning sinn í samræmi við áðurnefnda 104. gr. laga nr. 91/1991.
I
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins gengu sóknaraðili og varnaraðili í hjúskap [...]. Áður, eða þann [...]. júlí 1991, höfðu þau gert með sér kaupmála þar sem m.a. er kveðið á um að íbúð varnaraðila að E, ásamt bílskúr, skuli vera séreign hans, ásamt handhafaskuldabréfi að fjárhæð 565.000 krónur, peningum að fjárhæð 500.000 krónur og öllu innbúi sem þar er nánar tilgreint. Þá skyldu tvær bifreiðar einnig vera séreign varnaraðila. Þá sagði að séreign sóknaraðila skyldi engin vera enda ætti hún engar eignir fyrir hjúskap og kæmi því engin í hennar hlut samkvæmt kaupmálanum Einnig var mælt fyrir um að arður og það sem kæmi í stað séreignar skyldi verða sér eign þess sem séreignina ætti.
Aðilar slitu samvistir í júlí 2011 og þann [...]. ágúst 2011 sótti varnaraðili um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. nóvember 2012 var bú aðila tekið til opinberra skipta til fjárslita vegna hjúskaparslita. Benedikt Ólafsson hrl. var [...]. janúar 2013 skipaður til að fara með skiptastjórn í búinu.
Skiptastjóra samdi frumvarp, samkvæmt 77. gr., sbr. 3. mgr. 113. gr. laga nr. 20/1991, til úthlutunar vegna fjárslitanna, 4. febrúar 2014. Þar kemur fram að beiðni um skilnað að borði og sæng hafi verið tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík [...]. ágúst 2011 og samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991 miðist eigna- og skuldastaða búsins við þann dag. Þá er þar greint frá því að sóknaraðili hafi óskað eftir því að fá óskertan helming eigna búsins, þó að teknu tilliti til nettóverðmætis fimm herbergja íbúðar að E í Reykjavík sem varnaraðili hafi átt samkvæmt kaupmála. Hún hafi óskað eftir því að fá útlagða fasteign búsins að D í Reykjavík. og íbúð F og eftirstöðvar eigna sinna í búinu greiddar með peningum. Varnaraðili telji á hinn bóginn að allar eignir búsins tilheyri sér samkvæmt ákvæðum greinds kaupmála og hafi hann óskað eftir útlagningu allra eigna.
Í frumvarpi skiptastjóra kemur fram að ítrekað hafi verið reynt að ná samkomulagi um eignaskipti. Þann 26. september 2013 hafi sóknaraðili gert varnaraðila tilboð um að hún fengi í sinn hlut fasteignina að D í Reykjavík, íbúð F og 20.000.000 í peningum. Skyldi hún yfirtaka með skuldskeytingu skuld þeirra beggja við Dróma hf. sem áhvílandi væri á D. Varnaraðili hafi gengið að tilboði þessu en lýst því yfir að það væri þó án viðurkenningar á rétti konunnar til þessara eigna og umfram skyldu þar sem um skertan eignarhlut hans væri að ræða með vísan til kaupmála hjónanna. Í samræmi við þetta samkomulag og með vísan til 5. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991 hafi konan sótt um skuldskeytingu á láninu en síðan dregið umsókn sína til baka. Varnaraðili kveður að lánsloforð sem hann hafi fengið hjá viðskiptabanka sínum vegna 20.000.000 króna láns fengist ekki efnt fyrr en hann hefði verið leystur undan skuld á sameiginlegu láni þeirra hjá Dróma hf. Fyrr stæðist hann ekki greiðslumat. Vegna þessa hafi honum ekki tekist að efna greiðsluloforð samkvæmt samkomulaginu.
Í frumvarpi skiptastjóra voru eignir búsins talda vera: B, Reykjavík, fastanúmer [...], C, Reykjavík, fastanúmer [...], A, Reykjavík, fastanúmer [...], D, Reykjavík, fastanúmer[...], sumarbústaðurinn Þ, [...] og íbúð F.
Samkvæmt frumvarpi skiptastjóra var litið svo á að séreign varnaraðila samkvæmt kaupmálanum væri:
1. Andvirði bifreiða að frádregnum ávílandi veðskuldum á fasteigninni E ásamt vöxtum frá 12. júlí 1991.
2. Ígildi leigu af fasteigninni E frá 12. júlí 1991 ásamt vöxtum að frádregnum fasteignagjöldum og eðlilegum viðhaldskostnaði fasteignar. Vextir reiknuðust á greidda leigu að teknu tilliti til frádráttarliða, enda hafi leigutekjur verið nýttar til arðberandi fasteigna.
3. Ígildi andvirðis fasteignarinnar að E miðað við áætlað söluverðmæti á upphafsdegi skipta.
Samkvæmt frumvarpinu þótti eðlilegt að miða vaxtagreiðslur af leigu við almenna vexti óverðtryggðra lána samkvæmt útreikningi Seðlabanka Íslands. Til að fá nákvæman útreikning á þeim vöxtum þyrfti skiptastjóri að kaupa sérfræðiþjónustu. Við töku búsins til opinberra skipta hafi ekki verið lögð fram skiptatrygging og hvorugt hjóna væri reiðubúið að leggja fram fjármuni til að greiða slíkan kostnað. Engir peningar væru til í búinu. Við útreikning vaxta væri miðað við meðaltalsársvexti 10% og vextir reiknaðir af hreinni eign samkvæmt tölulið 1, þ.e. andvirði bifreiða að frádregnum eftirstöðvum áhvílandi veðskulda á E, að viðbættri árlegri húsaleigu fyrir hvert ár samkvæmt 2. tölulið. Vaxtareikningur þessi væri ekki nákvæmur en léti nærri lagi og sá mismunur sem kynni að vera á raunvöxtum og greindum útreikningi hafi ekki efnislega þýðingu miðað við niðurstöðu frumvarpsins.
Niðurstaða frumvarps skiptastjóra er sú að séreignarhluti varnaraðila samkvæmt kaupmála sé:
1. Andvirði bifreiða að frádregnum veðskuldum 1.018.572 krónur
2. Húsaleiga E frá 1991 til 2011 22.176.000 krónur
3. Ígildi andvirðis E í ágúst 2011 35.000 000 krónur
4. Vextir á andvirði bifreiða og húsaleigutekjur
frá 12.07.1991 til 29.08.2011 108.916.349 krónur
167.110.921 króna
Þar sem nettóverðmæti eigna búsins næmi mun lægri fjárhæð en séreignarhluti varnaraðila varð það niðurstaða skiptastjóra að allar eignir búsins rynnu til varnaraðila.
Frumvarpið var tekið til meðferðar á skiptafundi [...]. febrúar 2014 en það var sent aðilum í ábyrgðarpósti ásamt fundarboði 6. febrúar sama ár. Á fundinum lýsti varnaraðili sig samþykkan niðurstöðu frumvarpsins en af hálfu sóknaraðila var frumvarpinu mótmælt. Skiptastjóri vísaði ágreiningi til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi sem móttekið var 11. apríl sl. samkvæmt 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í beiðni hans kemur fram að á skiptafundi [...]. febrúar 2014 hafi hann, í samræmi við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 20/1991, óskað eftir afstöðu sóknaraðila til þess hvaða breytingar hún teldi að gera þyrfti á frumvarpinu. Kvað lögmaður hennar að margþættra breytinga væri krafist en óskaði eftir fresti til að útlista hverjar þær væru. Skiptafundi var þá frestað í því skyni til [...]. mars 2014. Á þeim fundi óskaði lögmaður sóknaraðila eftir frekari fresti og var skiptafundi þá frestað til [...]. mars 2014. Skiptafundi var enn á ný frestað til [...]. apríl 2014 og tilkynnti skiptastjóri lögmanni sóknaraðila að ef ekki kæmi fram í síðasta lagi á þeim fundi útlistun á þeim breytingum sem sóknaraðili teldi að þyrfti að gera á frumvarpinu yrði ágreiningnum skotið til héraðsdóms. Ekki var mætt af hálfu aðila á skiptafund [...]. apríl 2014.
Fram kemur í beiðni skiptastjóra að ljóst sé að ágreiningur sé um frumvarpið. Varnaraðili hafi samþykkt frumvarpið eins og það liggi fyrir en sóknaraðili hafi mótmælt því þrátt fyrir að af hennar hálfu hafi ekki verið skilgreint nánar í hverju mótmæli hennar væru fólgin. Ágreininginn hafi ekki reynst unnt að jafna og væri honum því vísað til héraðsdóms.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður aðalkröfu sína styðjast við meginreglur hjúskaparlaga nr. 31/1993 um fjármálafyrirkomulag hjóna. Málsaðilar hafi verið í hjúskap á árunum 1991-2012. Í 54. gr. hjúskaparlaga sé kveðið á um að eign maka verði hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars. Þetta eigi við um eignir sem maki flytur í búið við hjúskaparstofnun eða öðlast síðar og gegnir einu með hvaða hætti eignar sé aflað að lögum. Sóknaraðili kveður að við hjónaskilnað eigi hvort hjóna um sig tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins nema annað leiði af ákvæðum laga sbr. 103. gr. laga nr. 31/1993. Sá sem haldi því fram að eign skuli undanþegin skiptum beri sönnunarbyrðina fyrir því.
Sóknaraðili kveðst mótmæla frumvarpi skiptastjóra frá [...]. febrúar 2014 í heild sinni, þar sem gert sé ráð fyrir að allar eignir búsins renni til varnaraðila. Byggir sóknaraðili á því að skilyrði þess að eignum eða réttindum verði haldið utan skipta sé að sérgreining eignanna sé möguleg á tímamarki skipta, annaðhvort þannig að eignin sjálf sé til staðar eða ígildi hennar. Þannig verði að vera mögulegt að rekja verðmætin aftur til þess tíma er þeirra var aflað.
Frumvarp skiptastjóra beri ekki með sér að gerð hafi verið tilraun til að undirbyggja tillöguna um að allar eignir búsins skuli renna til varnaraðila. Ekki hafi verið kannað hvort rekja mætti eignir búsins til téðs kaupmála þar sem varnaraðili hafi ekki lagt fram sönnunargögn fyrir kröfu sinni og skiptastjóri hafi hafnað beiðni sóknaraðila um öflun nauðsynlegra gagna til að ganga úr skugga um uppruna núverandi eignasafns. Skiptastjóri hafi horft fram hjá því að aðilar hafi fest kaup á fasteign sem þau fjármögnuðu með hjúskapareign sinni og leigðu út. Þá hafi ekki verið að finna gögn í málinu sem sýni að séreign varnaraðila að E, Reykjavík hafi verið leigð út, en því mótmæli sóknaraðili. Þá hafi skiptastjóri aldrei kannað hvað orðið hafði af bifreiðum þeim sem skráðar voru í kaupmála aðila; önnur þeirra seldist fyrir mun minna verð en gefið var upp í kaupmála en engin gögn er að finna um sölu á hinni bifreiðinni sem hafi verið orðin 14 ára gömul.
Aðalkrafa sóknaraðila um að 72% fasteignarinnar við A, Reykjavík verði talin hjúskapareign sem komi til skipta við opinber skipti milli aðila ásamt öllum öðrum fasteignum búsins er byggð á ákvæðum hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 103. gr. laganna. Samkvæmt íslenskum rétti sé hin almenna regla sú að eignir séu hjúskapareignir sem komi til skipta við skilnað, sbr. áðurnefnt ákvæði 103. gr. laganna, nema gerðar séu sérstakar ráðstafanir til að tryggja að svo verði ekki. Varnaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að eignir búsins skuli lúta séreignarfyrirkomulagi sem haldið verði utan skipta en allar slíkar sannanir skorti í frumvarpi skiptastjóra. Varnaraðili verði að sýna fram á að eignirnar hafi enn verið til staðar á viðmiðunardegi skipta, eða að minnsta kosti ígildi þeirra, og hann verður að geta rakið verðmæti eignanna til upphaflegu séreignarinnar. Þetta kveður sóknaraðili varnaraðila ekki geta gert því meirihluti eignasafnsins sé hjúskapareignir aðila.
Krafa sóknaraðila byggist í fyrsta lagi á því að 72% verðmætis fasteignarinnar við A, Reykjavík komi úr sameiginlegu búi aðila en aðeins megi rekja 28% eignarinnar til séreignar varnaraðila við E, Reykjavík samkvæmt kaupmála. Aðilar málsins hafi árið 1991 fest kaup á nýrri fasteign við G, Reykjavík fyrir 11.300.000 krónur en eignina höfðu þau átt um nokkurt skeið þegar séreign varnaraðila við E, Reykjavík var seld. Við sölu á eigninni þann 6. apríl 1992 höfðu aðilar þegar greitt 7.100.000 krónur af kaupverði eignarinnar við G, Reykjavík eða um 63% af verðmæti hennar. Söluverði séreignarinnar að E, Reykjavík varði varnaraðili til kaupa á fasteign við H, Reykjavík. Þá megi gera ráð fyrir að varnaraðili hafi varið um 4.280.295 krónum til greiðslu inn á skuldir vegna kaupa á G, Reykjavík en sóknaraðli kveður það vera þá fjárhæð sem nemi lækkun heildarskulda aðila samkvæmt skattframtali 1993 og sé sú greiðsla 37,8% af kaupverði eignarinnar. Sóknaraðili heldur því fram að í lok árs 1992 hafi aðilar átt fasteignirnar G, Reykjavík sem hafi verið hjúskapareign aðila og H, Reykjavík sem hafi verið séreign varnaraðila. Til viðbótar við séreign sína átti varnaraðili 37,8% hlut í fasteigninni við G, Reykjavík sem var séreign hans í samræmi við 75. gr. sbr. 74. gr. hjúskaparlaga.
Sóknaraðili kveður 63% eignarinnar við G, Reykjavík hafa haldið áfram að vera hjúskapareign aðila og breyti engu þar um þótt fasteignin hafi verið fjármögnuð að miklu leyti með fasteignaveðbréfi enda hafi Hæstiréttur margoft komist að þeirri niðurstöðu að greiðsla með láni sem tryggt sé með veði í hinni keyptu eign skapi einstaklingi eignaréttarstöðu að fasteigninni. Greiðsla varnaraðila á hluta kaupverðs löngu eftir að búið var að fjármagna 63% eignarinnar gat hins vegar ekki breytt hjúskapareign aðila í séreign enda sé aðeins unnt að rekja minni hluta kaupverðsins til séreignar varnaraðila eins og áskilið er þegar gert sé tilkall til viðurkenningar á séreign.
Í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993 komi fram að forsenda þess að verðmæti eða ígildi þeirra verði haldið utan skipta sé að þau séu enn við lýði á viðmiðunardegi skipta og verði sérgreind. Samkvæmt því verði að vera unnt að rekja ígildið til upphaflegrar séreignar. Hins vegar sé ekkert sem bendi til þess að séreignarhafi eigi að öðlast meiri rétt á grundvelli séreignar sinnar en sem nemur verðmæti hennar og umfangi. Skuld aðila samkvæmt fasteignaveðbréfi hafi síðan verið greidd af fjármunum búsins á næstu árum eða þar til eignin var seld að nýju. Engum blöðum sé um það að fletta að fasteignin við H í Reykjavík sem varnaraðili keypti á árinu 1992 hafi verið séreign hans enda var eignin keypt fyrir andvirði E, Reykjavík.
Þá kveðst sóknaraðili mótmæla því sem röngu sem fram komi í frumvarpi skiptastjóra um að eignin við E, Reykjavík hafi verið í útleigu. Hið rétta sé að eignin mun aldrei hafa verið leigð út en íbúð í húsi aðila við G, Reykjavík hafi hins vegar verið í útleigu allt til þess er hún var seld.
Sóknaraðili kveður að þegar aðilar hafi keypt I, Reykjavík, sem var ódýrari eign, hafi séreignarhlutfall varnaraðila lækkað í 28%. Kaupverðið 9.500.000 krónur hafi þau greitt með 6.762.492 krónum sem komu út úr sölunni á G, Reykjavík, fasteignaveðbréfi að fjárhæð 2.700.000 krónur og með 37.508 krónum í peningum. Það gefi augaleið að séreignarhlutur varnaraðila gat aldrei verið meiri en sem nam 37,8% af þeim fjármunum sem komu úr sölunni á G, eða 2.637.372 krónum sem séu aðeins 28% af heildarverði I.
Þá kveður sóknaraðili kaupverð A, Reykjavík, 16.000.000 króna, hafa verið greitt með eftirfarandi hætti: 1) Með 5.796.838 krónum sem komu úr sölu I, Reykjavík 2) með 2.840.000 krónum sem komu úr sölu H, Reykjavík, 3) með 1.537.162 krónum sem komu úr búinu og 4) með yfirtöku áhvílandi veðskulda að fjárhæð 5.826.000 krónur. Sá hluti kaupverðs sem rekja megi til séreignar varnaraðila hafi verið 2.840.000 krónur auk 28% af söluandvirði I, Reykjavík eða 1.623.115 krónur. Samtals hafi séreignarhluti varnaraðila því orðið 4.463.115 krónur eða 28% af heildarkaupverði A, Reykjavík. Aðilar höfðu leigutekjur af fasteigninni en sóknaraðili sá um að finna leigjendur, gera við þá leigusamning og þrífa húsnæðið. Krafa sóknaraðila er reist á því að 72% eignarhlutdeild í verðmæti A, Reykjavík sem hafi verið til staðar við skiptin sé hjúskapareign varnaraðila sem koma skuli til skipta milli málsaðila.
Í öðru lagi sé byggt á því að fasteignin B, Reykjavík sem aðilar keyptu á árinu 2004, sé hjúskapareign varnaraðila sem koma eigi til skipta við opinber skipti milli þeirra. Kaupverð parhússins við B, Reykjavík, 27.500.000 krónur, hafi verið þann 8. september 2004 greitt með láni frá Landsbanka Íslands sem tryggt var með veði í A, Reykjavík. Þá hafi aðilar fest kaup á tveimur eignarhlutum til viðbótar í sama húsi fyrir samtals 22.500.000 krónur. Eins og sjáist á skattframtali aðila hafi þau velt skuldum vegna íbúðarkaupanna fram á næsta ár en þá fengu þau nýtt lán frá Landsbanka Íslands í erlendri mynt að fjárhæð 30.000.000 króna sem tryggt var með veði í fasteigninni við B, Reykjavík. Þess er krafist að eignin við B, Reykjavík verði talin hjúskapareign varnaraðila sem komi til skipta milli málsaðila.
Sóknaraðili kveður fasteignina við C, Reykjavík hafa verið fjármagnaða með andvirði láns að fjárhæð 36.400.000 krónur sem aðilar hafi fengið frá Landsbanka Íslands, tryggt var með veði í hinni keyptu eign, en skömmu áður höfðu þau þegið annað lán frá sömu fjármálastofnun fyrir 32.500.000 krónur sem tryggt var með veði í fasteigninni við A, Reykjavík. Fasteignin við D, Reykjavík hafi verið fjármögnuð með láni í erlendri mynt frá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., upphaflega að fjárhæð 48.000.000 króna. Þess er krafist að fasteignin við D, Reykjavík verði talin hjúskapareign sóknaraðila sem komi til skipta milli málsaðila.
Sóknaraðili telur að af því sem að framan er rakið megi ráða að allar eignir sem aðilar festu kaup á eftir kaupin á fasteigninni við A, Reykjavík hafi verið fjármagnaðar með lánum, enda hækkuðu skuldir búsins úr 6.339.759 krónum eins og þær voru í lok árs 2003 í 271.429.628 krónur í lok árs 2011. Þegar kaupverð eignanna frá þessum tíma sé tekið saman og það borið saman við skuldir sem mynduðust á sama tíma sést að verðmæti eignasafnsins nam samtals 157.000.000 króna en upphafleg fjárhæð lána sem tekin voru til að fjármagna kaupin nam samtals 171.631.252 krónum. Af lánunum hafi verið greitt með eignum búsins. Sóknaraðili hafi ein séð um umsýslu eignanna og útleigu, s.s. endurnýjun, gerð leigusamninga og þrif svo eitthvað sé nefnt, en húsaleigutekjur stóðu framan af undir rekstri eignanna. Eftir hrun hafi þetta breyst en eignirnar hafi að mestu staðið auðar eftir að sóknaraðili yfirgaf heimilið.
Sóknaraðili kveður óljóst hvort sumarhúsið Þ, [...] sé enn þá til staðar. Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að sumarhúsið Þ sé eða hafi verið hjúskapareign varnaraðila og beri í samræmi við 1. mgr. 101. gr. laga nr. 31/1993 að koma til skipta við uppgjör milli þeirra sbr. 99. og 100. gr. þeirra laga. Því miður hafi skiptastjóri látið hjá líða að afla gagna um fasteign þessa á viðmiðunardegi þrátt fyrir margítrekaða beiðni þar um og því er skorað á varnaraðila að leggja fram gögn sem staðfesta hvort eignin hafi verið til staðar í búinu þann 5. ágúst 2011, að öðrum kosti verði miðað við verðmæti eignarinnar. Sóknaraðili gerir kröfu um að eignin eða andvirði hennar verði talin hjúskapareign og komi til skipta milli aðila.
Kröfuna um greiðslu 763.177 króna byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi aukið verðmæti séreignar sinnar í bifreiðinni sem skráð er sem J í kaupmála, sem nemi upphaflega 600.000 krónum. Á árinu 1993 hafi varnaraðili fest kaup á bifreiðinni K árg. 86 fyrir 800.000 krónur. Kaupverðið greiddi hann með því að setja bifreiðina L upp í kaupin en hún hafði árinu áður verið tekin upp í sölu á kaupmálabifreiðinni M. Af gögnum málsins megi ráða að bifreiðin sem skráð hafi verið að verðmæti 700.000 krónur í kaupmála hafi verið seld á árinu 1992 fyrir 500.000 krónur þegar hún hafi verið sett upp í bifreiðina L fyrir sama verð. Bifreiðin L sem var ígildi kaupmálabifreiðarinnar hafi hins vegar farið á 200.000 krónur við kaupin á bifreiðinni J og þurfti varnaraðili að fjármagna kaupin á nýju bifreiðinni með bílaláni að fjárhæð 600.000 krónur sem greitt var upp með fjármunum úr sameiginlegu búi hjónanna en lánið hafi staðið í 538.942 krónum í árslok 1993. Fjárhæðin sé upp reiknuð miðað við júní 2014 og nemi 1.526.354 krónum. Sóknaraðili vísar um þetta til 1. og 3. mgr. 107. gr. 31/1993.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að fasteignin við A, Reykjavík verði talin séreign varnaraðila er þess krafist til vara að fasteignirnar B, Reykjavík, C, Reykjavík, D, Reykjavík og sumarhúsið Þ, [...], eða andvirði þess, verði talin hjúskapareignir aðila og komi til skipta við opinber skipti milli þeirra. Byggt er á því að fasteignin við B, Reykjavík hafi verið fjármögnuð með láni frá Landsbanka Íslands í erlendri mynt að fjárhæð 32.500.000 krónur sem tryggt var með veði í fasteigninni við A, Reykjavík og að hluta til með láni frá sama aðila í erlendri mynt að fjárhæð 30.000.000 króna sem var með veði í hinni keyptu eign. Verði talið að fasteignin við A, Reykjavík lúti reglum um séreignir og standi því utan skipta hafi það ekki áhrif á fjármögnun þeirra eigna sem koma á eftir, þrátt fyrir að eignin hafi verið sett til tryggingar lánum sem varið var til kaupanna. Lánin sem aflað var til kaupa á B, Reykjavík eða annarra eigna séu þá skuldir vegna kaupa á hjúskapareignum og koma því til lækkunar á þeim við skipti milli aðila. Lánin munu því ekki rýra séreignarhlut varnaraðila. Varðandi kröfu um að fasteignirnar við C, Reykjavík, D, Reykjavík og Þ, eða andvirði hennar verði taldar hjúskapareignir og komið til skipta milli aðila vísar sóknaraðili til málsástæðna og lagaraka með aðalkröfu sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila um greiðslu 31.363.177 króna er byggð á því að varnaraðili hafi aukið verðmæti séreignar sinnar að A, Reykjavík með hjúskapareignum sínum. Miðað er við að verðmæti eignarinnar sé 85.000.000 króna, sem sé ásett verð eignarinnar sem er í sölumeðferð um þessar mundir. Reiknað er með að 72% eignarinnar megi rekja til hjúskapareignar aðila sem er 61.200.000 krónur. Að teknu tilliti til reglna hjúskaparlaga, einkum 103 gr. þeirra, nemi fjárhæð kröfunnar helmingi verðaukans eða 30.600.000 krónum. Aukið virði séreignar vegna bifreiðar, 763.177 krónur, byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi aukið verðmæti séreignar sinnar í bifreiðinni sem skráð er sem J í kaupmála. Vísað er að öðru leyti til þess sem áður hefur komið fram varðandi þennan lið kröfunnar. Sóknaraðili vísar til 1. og 3. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að allar eignir í búi aðila skuli sæta séreignarfyrirkomulagi krefst sóknaraðili greiðslu sem nemi 31.363.177 krónum eða annarrar lægri fjárhæðar að mati réttarins. Varðandi rökstuðning vísar sóknaraðili til málsástæðna og lagaraka sem færð hafa verið fyrir varakröfunni.
Um lagarök vísar sóknaraðili til reglna hjúskaparlaga nr. 31/1993 og laga nr. 21/1993 um skipti á dánarbúum o.fl. Þá er vísað til dómaframkvæmdar eftir því sem við á. Krafa um málflutningsþóknun styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, en krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988. Þar sem sóknaraðili er ekki virðisaukaskattskyld er nauðsynlegt við ákvörðun um málskostnað að taka tillit til skyldu hennar til að greiða virðisaukaskatt.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveðst hafna öllum kröfum sóknaraðila og taka undir rökstuðning skiptastjóra sem fram komi í frumvarpi hans og beiðni til dómsins. Niðurstaða skiptastjóra sé sú að andvirði séreignarhluta varnaraðila samkvæmt upphaflegum kaupmála sé á viðmiðunardegi skipta 167.110.921 króna. Nettóverðmæti eigna búsins nemi mun lægri fjárhæð en séreignarhluti mannsins og renna því allar eignir búsins til mannsins.
Varnaraðili kveðst taka undir þær forsendur sem liggi til grundvallar útreikningi ávöxtunar í fylgiskjali með frumvarpi skiptastjóra sem sé í samræmi við húsaleigutekjur samkvæmt skattframtölum. Þá hafnar varnaraðili lýsingu sóknaraðila á fasteignaviðskiptum varnaraðila. Málatilbúnaður sóknaraðila sanni að sóknaraðili kom ekkert að þessum viðskiptum og lagði ekkert fé til þeirra. Þá minnist sóknaraðili ekkert á um 93.000.000 króna leigutekjur af eignunum sem séu séreign.
Varnaraðili kveður að við úrlausn málsins beri að leggja til grundvallar að sóknaraðili mótmælir ekki gildi kaupmálans eins og fram komi m.a í sérstakri bókun skiptastjóra þess efnis á skiptafundi 11. júlí 2013 og einnig í greinargerð sóknaraðila.
Varnaraðili kveður tímamark eigna- og skuldastöðu vera [...]. ágúst 2011 og vísar þar um til 104. gr. laga nr. 20/1991. Á þeim tíma hafi allar eignir verið yfirveðsettar. Eftir þetta hafi varnaraðili einn verið í stöðugu sambandi við viðkomandi lánastofnanir og náð að sannfæra banka um lækkanir vegna ólögmætissjónarmiða og fleira. Sóknaraðili hafi ekkert komið að þessum viðræðum við bankana og veit ekkert af hverju varnaraðili hefur náð fram lækkun lánanna.
Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili njóti ekki að neinu leyti þessara lækkana þar sem þær hafi eingöngu festi fram fyrir framgöngu varnaraðila eftir skiptin. Sóknaraðili eigi því ekkert tilkall til eignaraukningar varnaraðila á séreignum sínum sem hækki sem lækkun lána nemi. Þá hafi verðmæti séreigna hækkað frá skilnaði [...]. ágúst 2011 og eigi sóknaraðili ekkert tilkall til þeirra hækkana séreigna mannsins. Þegar af þessum ástæðum einum saman eigi sóknaraðili ekki tilkall til neinna eigna og af þessum ástæðum beri að fallast á kröfur varnaraðila í málinu.
Þar sem málatilbúnaður sóknaraðila virðist ekki taka mið að réttum viðmiðunardegi skiptanna þykir varnaraðila rétt að rekja málið frekar fari svo að dómurinn fallist ekki á framangreindan rökstuðning. Svo virðist sem sóknaraðili hafi leitt skiptastjóra af réttri viðmiðun og gerir varnaraðili kröfu til þess hér fyrir dómi að dómur taki mið af framangreindum upphafsdegi skiptanna [...]. ágúst 2011.
Við upphaf sambands aðila hafi fjárhagslegar aðstæður þeirra verið mjög ólíkar. Varnaraðili hafi verið ríkur miðaldra eignamaður en sóknaraðili fátæk, ómenntuð og algjörlega eignalaus. Hún hafi ekki kunnað íslensku og enga reynslu haft af viðskiptum.
Samkomulag varð með aðilum um að gera með sér kaupmála [...]. júlí 1991 og hafi hann verið gerður fyrir hjúskap aðila. Í kaupmálanum hafi það verið áréttað að sóknaraðili átti engar eignir og enga peninga og kom því ekki til neinnar séreignar hennar. Á hinn bóginn hafi eignir varnaraðila verið umtalsverðar og voru þær tilgreindar sem séreignir hans í kaupmálanum.
Varnaraðili kveður séreign samkvæmt kaupmála vera eign varnaraðila, og að hann taki hana óskipt. Í búi aðila séu aðeins séreignir varnaraðila sem leiða megi af upphaflegum kaupmála, arði séreigna og því sem komið hafi í stað séreignar þeirra og verðmæta sem tilgreind voru í kaupmálanum.
Ljóst sé að kaupmálinn kveði á um algert séreignarskipulag með aðilum. Telji sóknaraðili sig eiga tilkall til eigna þurfi hún að hafa lagt fjármuni til kaupa á eignunum eða hafa borgað af lánum en það hafi sóknaraðili aldrei gert. Þær litlu tekjur sem hún hafi aflað hafi hún eingöngu haldið fyrir sjálfa sig en ekkert greitt af lánum eða lagt fjármuni til eignakaupa. Þessu hafi sóknaraðili ekki andmælt. Varnaraðili hafi eftir skilnað viljað fá afrit af bankareikningum hennar til að sjá hvert hennar peningar runnu en hún hafi ekki orðið við þeirri kröfu.
Varnaraðili kveður tekjur aðila hafa verið ólíkar og auk þess hafi hann haft leigutekjur af séreignum. Þar sem sóknaraðili hafi lagt fram skattframtöl en tekið út tekjuhliðina sé rétt að upplýsa um tekjur aðila frá kynnum þeirra, sbr. meðfylgjandi staðfestingu frá ríkisskattstjóra. Samkvæmt meðfylgjandi yfirliti á árunum 1991 til 2011 séu niðurstöðutölur að tekjur mannsins fyrir þessi ár hafi verið tæpar 90.000.000 króna, en tekjur sóknaraðila tæpar 22.000.000. Varnaraðili hafi því haft fimmfalt hærri tekjur en sóknaraðili sem hafi yfirleitt verið nokkuð undir 100.000 krónum í mánaðartekjur. Leigutekjur á þessu sama tímabili hafi numið 93.500.000 krónum.
Varnaraðili hafi notað tekjur sínar til að standa straum af rekstri heimilisins og tómstundum en látið séreignir halda áfram að vaxa eins og hann hafði tamið sér frá upphafi viðskipta sinna. Hjúskapareignir hans runnu þannig til reksturs heimilisins en aldrei hafi verið gengið á séreignir. Varnaraðili hafði frá unga aldri mikinn metnað til að verða ríkur og var aðhaldssamur við sjálfan sig svo þetta gæti gengið eftir. Varnaraðili eigi við líkamleg veikindi að stríða þannig að hann muni þurfa meiri ummönnun eftir því sem árin færist yfir og því hafi hann viljað tryggja sig með eignum.
Fyrir liggi að sóknaraðili hafi ekkert lagt til kaupa á fasteignum en notað tekjur sínar í eigin þágu. Sóknaraðili hafi ekkert fé lagt til kaupanna og geti því ekki byggt málatilbúnað sinn á því. Eignir geti því ekki verið annað er séreignir varnaraðila sem hann eigi óskiptar.
Varnaraðili rekur séreignarsögu sína, hvernig séreignir hans hafi vaxið með viðskiptum með séreignir og arði af séreignum á eftirfarandi hátt:
1. Árið 1976 hafi hann, [...] að aldri, keypt sína fyrstu fasteign, fjögurra herbergja íbúð við [...]. Þar hafi hann búið í einu herbergi en leigt út aukaherbergin með sameiginlegri stofu, eldhúsi og baði.
2. Árið 1979 hafi hann keypt aðra íbúð í sama húsi og leigt hana alla út. Hann hafi svo selt báðar þessar eignir með hagnaði í ársbyrjun 1981.
3. Seinna á árinu 1981 hafi hann keypt fjögurra herbergja íbúð við [...] þar sem hann hafi búið í einu herbergi en leigt önnur herbergi út. Hann hafi selt íbúðina með hagnaði árið 1983.
4. Árið 1983 hafi hann keypt fjögurra herbergja íbúð með bílskúr við [...] í Reykjavík. Þar hafi hann búið í einu herbergi en leigt önnur herbergi út og bílskúrinn. Hann hafi selt íbúðina skuldlausa árið 1988 með hagnaði
5. Árið 1988 keypti hann fjögurra herbergja íbúð með bílskúr við E. Þar hafi hann búið í einu herbergi en leigt aukaherbergi með sama hætti og áður. Sóknaraðili hafi komið til landsins í apríl 1991 en öll íbúðin hafi verið laus undan leigjendum síðar það sama ár. Íbúðin hafi verið nánast skuldlaus. Hún hafi verið seld árið 1991 og fasteignin að G keypt.
Varnaraðili kveður það sem komi í stað séreignar vera séreign samkvæmt kaupmála og þá sé arður af séreign einnig séreign samkvæmt kaupmálanum. Kaupmálinn hafi verið gerður um séreignina E.
Varnaraðili rekur áframhaldandi fasteignaviðskipti með eftirfarandi hætti:
A. Þann 31. október 1991 hafi hann keypt einbýlishús að G í Reykjavík. Í því hafi verið aukaíbúð sem varnaraðili leigði út. Þessi kaup voru fjármögnuð með séreignum og að hluta með söluandvirði íbúðarinnar við E. Einhver lán voru tekin en leigutekjur af aukaíbúð hafi staðið undir þeim.
B. Árið 1992 hafi hann selt íbúðina við E í makaskiptum fyrir fjögurra herbergja íbúð við [...] og milligjöf sem nam rúmum 5.000.000 króna í peningum.
C. Seinna á árinu 1992, hafi hann selt íbúðina að [...] í makaskiptum fyrir tveggja herbergja íbúð við H og góða milligjöf. Þessi íbúð hafi verið í útleigu þar til hún var seld 1997 og andvirðið fór til kaupa á A.
D. Árið 1994 hafi G verið seldur í skiptum fyrir I og fór andvirðið upp í A. Hagstæð makaskipti varnaraðila.
E. Árið 1997 hafi hann keypt A í Reykjavík með uppítöku á I og H. Þá hafi hann lagt til peninga af séreign og tekið lán. Eign hafi verið leigð út og leigutekjur staðið undir greiðslu af lánum.
F. Árið 2004 hafi hann keypt þríbýlishús við B. Hann hafi lagt til peninga af séreign og tekið lán. Eign hafi verið leigð út og leigutekjur staðið undir greiðslu af lánum.
G. Síðar árið 2007 hafi hann keypt fasteignina C. Hún hafi verið veðsett, af A komu peningar af séreign og lán tekið. Eign hafi verið leigð út og leigutekjur staðið undir greiðslu af lánum.
H. Síðar sama ár hafi varnaraðili keypt D. Hann hafi lagt til peninga af séreign og tekið lán. Eign hafi verið leigð út og leigutekjur staðið undir greiðslu af lánum.
I. Árið 2011 hafi hann keypt sumarbústaðinn Þ, hús nr.[...], með séreignarbílum sem voru veðsettir en sem varnaraðili hafi selt á yfirverði.
J. Þá lagði varnaraðili til fé af séreign til kaupa á fasteign F.
Varnaraðili ítrekar að leigutekjur hafi staðið undir greiðslu af lánum og öðrum kostnaði við rekstur eigna og að svo hafi verið allt frá 1976, eins og rakið hefur verið. Varnaraðili kveður sóknaraðila leigja D en gefi ekki upp leigutekjur til skatts heldur stingi hún leigutekjum í eigin vasa og fjármagni m.a. málaferlin með þessum tekjum af séreign hans. Hún greiði ekkert af veðlánum og því séu allar eignir í uppboðsmeðferð. Þegar skiptum ljúki muni varnaraðili halda áfram fasteignaumsýslu sinni eins og hann hafi gert fyrir skilnað.
Eins og málið liggi fyrir hafi sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því að eignir séu ekki séreignir varnaraðila. Hún hafi einnig sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi eignast eitthvað af eignum varnaraðila þrátt fyrir að hún hafi aldrei lagt neitt til kaupanna. Hún hafi ekki látið neitt af hjúskapareignum sínum renna til kaupanna og aldrei borgað af lánum. Sóknaraðli hefur í verki viðurkennt að hafa ekkert lagt til kaupanna og því eigi hún ekkert tilkall til eigna á þeim grundvelli. Þá hafi sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því að eitthvað af eignum sé hjúskapareign varnaraðila en ekki séreign hans. Sóknaraðila hafi ekki tekist þessi sönnunarfærsla og telur varnaraðili einsýnt að á kröfur hans verði fallist.
Varnaraðili skorar á sækjanda að hann upplýsi nú þegar fyrir dómi um leigutekjur af D frá skilnaði og skili þeim tekjum til varnaraðila. Jafnframt er ítrekuð áskorun varnaraðila til sóknaraðila um að leggja fram bankareikninga um tekjur sínar og ráðstöfun þeirra eins og sóknaraðili átti réttilega að gera í greinargerð sinni og fara yfir ráðstöfun hjúskapareignar sóknaraðila. Auðvelt er fyrir sóknaraðila að sýna ef eitthvað af tekjum hefur runnið í fasteignakaup eða afborgun lána vegna þeirra.
Þá sé það klár rangfærsla og ósannindi í greinargerð sóknaraðila að halda því fram að hún hafi frá stofnun hjúskapar haft atvinnu af eignarhaldi á fasteignum og útleigu þeirra. Sannleikurinn sé sá að varnaraðili hafi staðið einn að þessum rekstri með séreignum sínum og sóknaraðili ekkert haft með það að gera. Sóknaraðili hafi ekkert komið að þessum viðskiptum og ekkert lagt til þeirra. Hún hafi ekki haft kunnáttu, peninga, sambönd eða ríkisfang til að standa í fasteignaviðskiptum. Arður af séreign séu séreign og eigi sóknaraðili ekkert tilkall til þeirra verðmæta.
Varnaraðili kveður aðalkröfu sóknaraðila um að 72% íbúðar við A teljist hjúskapareign vera ranga og ekki studda neinum gögnum. Þá eigi varakrafa sóknaraðila ekki við nein rök að styðjast og engin leið sé að fallast á að hún eigi tilkall til greiðslu 31.363.177 króna. Heildartekjur sóknaraðila allan hjúskapartímann hafi numið tæpum 22.000.000. Þeim hafi hún haldið utan skipta. Þá sé þrautavarakrafa sóknaraðila lögfræðilega röng. Algjört séreignarskipulag með hjónum þar sem varnaraðili á allar eignirnar veitir sóknaraðila engan rétt til verðaukninga séreigna. Tilvísun til 107 gr. hjúskaparlaga styðjist ekki við nein gögn og því sé ekki hægt að fallast á endurgjaldskröfur. Enn fremur eigi lagagreinin eingöngu við um hjúskapareignir en ekki séreignir eins og mál þetta snúist um.
Varnaraðili kveður aðstæður einfaldar í þessu máli. Allar eignir eigi rætur að rekja til kaupmálans. Eins og málið er vaxið hafi sóknaraðili sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum og kröfugerð og algjört lágmark sé að sóknaraðili reki afdrif hjúskapareigna hennar sjálfrar eins og ítrekað hefur verið haldið fram.
Að lokum áskilur varnaraðili sér rétt til að heimta 50% af hjúskapareignum konu sinnar komi þeir peningar í ljós m.a. við framlagningu bankareikninga.
Um lagarök kveðst varnaraðili vísa til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993 um kaupmála og séreign og kveður ljóst að séreign komi ekki til skipta. Þá vísar varnaraðili til ákvæði laga nr. 91/1991 og tilvísana skiptastjóra um lagarök.
IV
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita vegna hjúskaparslita þeirra. Bú aðila var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms [...]. nóvember 2012. Var Benedikt Ólafsson hrl. skipaður skiptastjóri búsins 22. janúar 2013. Skiptastjóri hefur nú, með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl., vísað ágreiningi um eignaskiptin til úrlausnar dómsins með bréfi sem móttekið var af dóminum 11. apríl sl. Fram kemur í bréfi skiptastjóra að reynt hafi verið til þrautar að ná samkomulagi með aðilum um eignaskipti en án árangurs. Ljóst hefur verið af meðferð málsins fyrir dóminum að sættir voru ekki mögulegar með aðilum.
Mál þetta er rekið á grundvelli laga nr. 20/1991. Almennar reglur um meðferð einkamála í héraði gilda um mál samkvæmt þeim lögum eftir því sem við getur átt, sbr. 2. mgr. 131. gr. þeirra. Er þannig í málum af þessu tagi stuðst við reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, t.d. varðandi gagnaöflun og sönnunarfærslu. Í máli þessu liggur fyrir mikill fjöldi gagna. Þá eru greinargerðir beggja aðila nokkuð ítarlegar. Þrátt fyrir það er málatilbúnaður aðila á köflum ekki mjög skýr og framsetning ruglingsleg. Kallaði dómari því eftir nánar tilteknum gögnum í því skyni að freista þess að bæta úr óskýrleika málsins.
Með vísan til 3. mgr. 113. gr. laga nr. 20/1991 gerði skiptastjóri frumvarp til úthlutunar vegna fjárslitanna 4. febrúar 2014. Voru fasteignir búsins þar tilgreindar A, Reykjavík, fastanúmer [...], B, Reykjavík, fastanúmer [...], C, Reykjavík, fastanúmer [...], D, Reykjavík, fastanúmer [...], sumarbústaðurinn Þ, [...], fastanúmer [...] og íbúð F.
Á skiptafundi [...]. febrúar 2014 lýsti varnaraðili sig samþykkan niðurstöðu frumvarpsins en af hálfu sóknaraðila var frumvarpinu mótmælt. Ekki kom nánar fram af hálfu sóknaraðila í hverju mótmælin væru fólgin annað en að margþættra breytinga væri krafist. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að sóknaraðili hafi í framhaldinu lagt fram nein gögn eða rökstutt nánar í hverju þær breytingar væru fólgnar sem hún taldi að gera þyrfti á frumvarpinu. Gat skiptastjóri því ekki tekið afstöðu til sjónarmiða sóknaraðila þar sem þau lágu ekki fyrir að öðru leyti en því að frumvarpinu var mótmælt. Eru samskipti lögmanns sóknaraðila við skiptastjóra ítarlega rakin hér framar og liggja afrit þeirra samskipta fyrir í gögnum málsins. Eins og atvikum er háttað í málinu verður að telja að þrautreynt hafi verið af hálfu skiptastjóra að fá fram sjónarmið sóknaraðila með skýrum hætti og að málinu hafi verið réttilega beint til dómsins til úrlausnar.
Dómurinn lítur svo á að ekki sé ágreiningur með aðilum um gildi kaupmála aðila frá [...]. júlí 1991. Þá verður ekki séð að raunverulegur ágreiningur sé um viðmiðunardag skipta sem samkvæmt frumvarpi skiptastjóra er [...]. ágúst 2011 en þá var beiðni um skilnað að borði og sæng fyrst tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík, sbr. 104 gr. laga nr. 20/1991 enda var það ekki meðal þeirra ágreiningsefna er skiptastjóri vísaði til úrlausnar dómsins. Miðast eigna- og skuldastaða búsins því við áðurnefndan dag. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fjárskipti þeirra við skilnað skuli ráðast af helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 eða hvort eignirnar skuli lúta séreignarfyrirkomulagi vegna kaupmála sem aðilar gerðu með sér 12. júlí 1991.
Samkvæmt frumvarpi skiptastjóra var séreignarhluti varnaraðila samkvæmt kaupmála talinn nema 167.110.921 krónu. Þar sem nettóverðmæti eigna búsins nam mun lægri fjárhæð en séreignarhluti varnaraðila runnu allar eignir búsins til hans. Sóknaraðili mótmælti frumvarpinu eins og áður sagði án þess að það væri rökstutt nánar í hverju þau mótmæli væri fólgin.
Sóknaraðili hefur í málinu krafist þess að eignir búsins komi til skipta á grundvelli helmingaskiptareglu hjúskaparlaga, eins nánar greinir í aðal-, vara- og þrautavarakröfu hennar, auk þess sem hún telur sig eiga rétt til endurgjalds á grundvelli 1. mgr. 107. gr. sömu laga. Varnaraðili hefur í málinu byggt á því að allar eignir búsins skuli lúta séreignarfyrirkomulagi á grundvelli kaupmála sem aðilar gerðu með sér [...]. júlí 1991 áður en þau gengu í hjúskap. Samkvæmt kaupmálanum skyldi séreign mannsins vera, auk bifreiða, lausafjár og handhafaskuldabréfs, íbúð í E í Reykjavík. Byggir varnaraðili á því að rekja megi allar eignir búsins til þessara séreigna hans samkvæmt kaupmála og því beri að halda þeim utan skipta.
Fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili hafi um margra ára skeið staðið í umfangsmiklum fasteignaviðskiptum og aukið eignir sínar í gegnum árin með slíkum viðskiptum. Þá mun hann einnig hafa haft umtalsverðar leigutekjur af eignunum og einnig aukið eignir sínar jafnt og þétt með þeim hætti. Þegar aðilar gengu í hjúskap [...]. júlí 1991 átti varnaraðili áðurnefnda íbúð að E í Reykjavík og samkvæmt kaupmálanum skyldi hún vera séreign varnaraðila. Þá skyldi arður af séreign einnig vera séreign samkvæmt kaupmálanum og einnig það sem kæmi í stað séreignar. Varnaraðili hefur haldið því fram að umrædd íbúð hafi ávallt verið í útleigu og hann hafi þannig haft af henni leigutekjur eins og af öðrum eignum sem hann hafði átt fram að því og svo síðar. Þessu hefur sóknaraðili mótmælt. Telur sóknaraðili ósannað að varnaraðili hafi haft leigutekjur af þessari eign og bendir á að hann hafi engar leigutekjur haft á þessum tíma samkvæmt skattframtölum. Dómurinn telur ekki ástæðu til að draga í efa fullyrðingar varnaraðila um að íbúðina að E hafi verið í útleigu og að hann haft haft af henni einhverjar leigutekjur enda hafði hann haft þann háttinn á varðandi allar eignir sínar þótt óljóst sé af framlögðum gögnum hversu háar þessar leigutekjur voru á þeim tíma er kaupmálinn var gerður og aðilar gengu í hjúskap. Dómurinn telur af þessum sökum þá aðferð skiptastjóra að framreikna leigutekjur af E til dagsins í dag til að meta arð af þessari séreign varnaraðila eðlilega miðað við það hvernig málið lá fyrir honum.
Helmingaskiptareglan er meginreglan við fjárslit hjóna, 6. gr. og 103. gr. laga nr. 31/1993. Kjarni hennar er sá að hvort hjóna eigi tilkall til helmings skírrar hjúskapareignar hins. Þessari reglu er fyrst og fremst ætlað að veita mökum fjárhagslega vernd við skilnað og byggist á því að hjón standi saman að verðmætasköpun og að í hjúskap sé að jafnaði efnahagsleg, félagsleg og persónuleg samstaða. Reglan stuðlar því að jafnstöðu maka við hjúskaparlok. Þegar fjárhagur hjóna er mjög samofinn er erfitt eða ómögulegt að rekja kaup, tekjur og framlög aftur í tímann við fjárskipti. Meginreglan er sú að eign einstaklings í hjúskap telst hjúskapareign hans sbr. 54. gr. laga nr. 31/1991. Sá sem heldur því fram að eign sé annað en hjúskapareign ber sönnunarbyrði fyrir því. Takist sú sönnun ekki verður eign talin hjúskapareign en ekki séreign.
Fasteignaviðskipti varnaraðila eru ítarlega rakin í greinargerð hans og þá er gerð grein fyrir kaupum og sölu á eignum í greinargerð sóknaraðila. Dómurinn telur ljóst að varnaraðili keypti aðrar fasteignir með andvirði séreignar sinnar að E og leigutekjum af þeirri íbúð og fær það stoð í gögnum málsins. Varnaraðili hefur haldið því fram að allar fasteignir búsins til dagsins í dag skuli lúta séreignarfyrirkomulagi og haldið utan skipta þar sem þær megi rekja til upphaflegu séreignarinnar.
Um séreignir samkvæmt 55. gr. laga nr. 31/1993 gildir svokölluð ígildisregla sbr. 75. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um að verðmæti, sem komi í stað séreignar, verði einnig séreign, svo og arður af þessum verðmætum, nema annars sé getið í kaupmála eða í fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda þar sem það á við. Skilyrði ígildisreglunnar er að hægt sé að rekja verðmætin sem halda á utan skipta til upprunalegrar séreignar. Reglan hefur ekki verið túlkuð svo þröngt að söluverð seldrar eignar þurfi að vera handbært og beinlínis sé greitt fyrir nýju séreignina með því. Ekki eru því efni til að skýra 75. gr. hjúskaparlaga á þann veg að annað hjóna, sem selur fasteign úr séreign sinni, þurfi að hafa handbært söluverð hennar til að standa skil á kaupverði annarrar fasteignar svo að sú síðarnefnda geti talist séreign í skjóli þessa ákvæðis, enda megi rekja tengsl milli kaupanna og eftir atvikum tímabundinna ráðstafana við öflun fjár vegna þeirra, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 15. nóvember 2006 í máli nr. 547/2006 og dóm réttarins frá 19. september 2007 í máli nr. 460/2007. Skiptir þá ekki meginmáli í þessu samhengi þótt hin nýja eign sé keypt áður en upphaflega séreignin er seld að því gættu að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Auk ígildisreglunnar gildir sú meginregla að arður og hagnaður sem kemur til vegna séreignar annars hjóna skuli einnig teljast séreign þess sbr. áðurnefnda 75. gr. laga nr. 31/1991.
Til þess að unnt sé að fallast á áðurnefnd sjónarmið varnaraðila verður sérgreining eignanna, samkvæmt framansögðu, því að vera möguleg á tímamarki skipta, annaðhvort þannig að eignin sjálf sé til staðar eða ígildi hennar, þ.e. það sem komið hefur í stað hennar.
Ljóst er gögnum málsins að fasteignaviðskipti varnaraðila hafa verið umfangsmikil þar sem um kaup og sölu margra eigna er að ræða á löngum tíma. Þá hafa makaskipti orðið um sumar eignirnar og aðrar eignir verið teknar upp í við kaup á nýjum eignum. Um flókinn eignaferil er því að ræða.
Eins og fram er komið gerðu aðilar með sér kaupmála [...]. júlí 1991 og gengu í hjúskap [...]. júlí sama ár. Á þeim tíma átti varnaraðili fasteignina að E. Áður er fram komið að dómurinn telur ekki ástæðu til að draga í efa að varnaraðili hafi á þessum tíma haft leigutekjur af fasteigninni. Þá var samkvæmt kaupmálanum kveðið á um að séreign hans væri bifreiðar, lausafé og handhafaskuldabréf. Síðar á árinu 1991 var fasteignin að G í Reykjavík keypt. Verður ekki annað séð en að þau kaup hafi verið fjármögnuð með séreignum hans og síðar með sölu á E og fær það stoð í gögnum málsins. Þá verður að telja að gögn málsins leiði nægilega í ljós að tengsl eru milli þessara kaupa og fjármögnunar þeirra til þess að G verði talinn séreign varnaraðila sem rakin verði til séreignarinnar E. Við sölu síðarnefndu fasteignarinnar á árinu 1992 urðu makaskipti með íbúð að [...] auk þess sem varnaraðili fékk milligjöf að fjárhæð 5.000.000 króna. Seinna á árinu seldi hann þá fasteign í makaskiptum fyrir íbúð á [...]. Er það niðurstaða dómsins að á þessum tíma megi enn greina og rekja séreign varnaraðila til upphaflegrar séreignar að E. Séreign varnaraðila að G, var seld á árinu 1994 í skiptum fyrir íbúð að I og telst hún því einnig séreign varnaraðila. Fasteignin að A var keypt árið 1997 og voru íbúðirnar að I og H settar upp í við þau kaup. Verður því að telja að fasteignin að A sé séreign varnaraðila sem komið hafi í stað upphaflegrar séreignar hans að E samkvæmt kaupmála aðila.
Allt til þess tíma að fasteignin að B var keypt í þremur áföngum árið 2004 telur dómurinn unnt að rekja séreign varnaraðila til upphaflegu séreignarinnar samkvæmt kaupmála aðila og fær sú niðurstaða stoð í gögnum málsins. Verður að telja ljóst leitt að varnaraðili nýtti fé sem hann fékk við sölu séreigna og arð af séreignum til kaupa nýrri séreign. Var svo um kaup hans á fasteignunum [...], I, G og [...]. Með kaupsamningi 8. september það ár var keypt íbúð í húsinu auk bílskúrs og eignarhluta sem skráð var skrifstofa. Var kaupverðið, 27.500.000 krónur, allt greitt með peningum. Með kaupsamningi 10. sama mánaðar var keypt önnur íbúð í húsinu og kaupverðið, 10.200.000 krónur, allt greitt með peningum. Með kaupsamningi 23. sama mánaðar var keypt íbúð í húsinu ásamt bílskúr á 12.300.000 krónur. Hluti kaupverðsins, 6.667.867 krónur, var greitt með peningum og 5.632.133 krónur með yfirtöku húsbréfa. Húsaleigutekjur á árinu 2004 námu 1.261.100 krónum.Við kaup á þeirri fasteign jókst lántaka aðila mikið og var svo áfram hvað varðar þær fasteignir sem keyptar voru á árunum 2007-2011, þ.e. C, D og sumarbústaðinn Þ. Af skattframtölum má sjá að skuldir búsins hækkuðu á þessum tíma úr 6.379.759 krónum í lok árs 2003 í 274.429.628 krónur í lok árs 2011. Verður að telja að lán að fjárhæð 35.500.000 krónur með veði í A og lán að fjárhæð 30.000.000 króna með veði í fasteigninni B hafi verið tekið til að standa straum af kaupum á B enda skyldi hluti kaupverðs eignanna greiðast á árinu 2005. Við kaup fasteignarinnar B telur dómurinn því að orðið hafi slík samblöndun séreignar og hjúskapareignar að ekki sé lengur unnt að sérgreina þann hluta eigna sem talist getur séreign varnaraðila og séreignafyrirkomulagi eigna ljúki á þeim tíma þannig að réttur varnaraðila til séreignar sé þá niður fallinn. Verður að telja að af áðurnefndum lánum hafi verið greitt með eignum búsins og þá hafi verið svo komið að aðilar hafi staðið sameiginlega að verðmætasköpun eigna búsins. Skiptir þá ekki máli þótt annað þeirra hafi verið tekjuhærra en hitt eins og varnaraðili hefur haldið fram.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að fasteignirnar B í Reykjavík, fastanúmer [...], C í Reykjavík, fastanúmer [...], D, fastanúmer [...] og [...], sumarbústaðurinn Þ, fastanúmer 226-3588, eða verðmæti hans teljist hjúskapareignir og komi til skipta í samræmi við helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1991. Verður ekki talið að veðsetning séreignar varnaraðila að A vegna kaupa á eignarhluta í B breyti þessari niðurstöðu eða að sú ráðstöfun hafi orðið til þess að rýra verðmæti séreignar varnaraðila. Þá verður ekki heldur talið að þinglýsing áðurnefndra eigna, sem flestar eru á nafni varnaraðila, nema D sem skráð er á sóknaraðila, nafn lántaka á þeim lánum sem tekin hafa verið í hjúskap aðila vegna kaupa á áðurnefndum fasteignum búinu til hagsbóta, ráði úrslitum um hvort eign verði talin séreign eður ei og breytir þetta því ekki þessari niðurstöðu. Í samræmi við ofangreint verður aðalkröfu sóknaraðila hafnað en fallist á varakröfu hennar að öðru leyti en því að ekki verður talið að sóknaraðili eigi rétt til greiðslu 31.363.177 króna á grundvelli 1. mgr. 107. gr. laganna. Er þessi krafa ekki nægilega rökstudd og engin leið að átta sig á grundvelli hennar samkvæmt framlögðum gögnum. Verður því ekki talið að sóknaraðili hafi leitt neinar sönnur að því að séreignir varnaraðila hafi verið bættar með hjúskapareign aðila sem skapi henni rétt á endurgjaldskröfu samkvæmt áðurnefndu ákvæði. Er þessum hluta varakröfu sóknaraðila því hafnað. Sama á við um þrautavarakröfu sóknaraðila og verður henni einnig hafnað. Að lokum verður að skilja málatilbúnað varnaraðila svo að hann krefjist þess að íbúð F teljist séreign hans. Engin gögn liggja fyrir um hvernig kaupum eða fjármögnun þeirrar fasteignar var háttað. Sú fullyrðing varnaraðila að hann hafi fjármagnað íbúðina með séreign sinni fær ekki stoð í gögnum málsins og verður því talin ósönnuð. Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ráðið að hún telji íbúðina séreign sína, sem halda beri utan skipta, enda hafi hún átt hana áður en til hjúskapar aðila kom. Engin gögn liggja þó fyrir um kaupin eða fjármögnun íbúðarinnar og hún er ekki tiltekin sem séreign hennar í kaupmála aðila. Telst því ósannað að hún sé séreign sóknaraðila. Verður því umrædd eign talin hjúskapareign aðila sem lýtur helmingaskiptareglu hjúskaparlaga við fjárslit milli þeirra.
Mál þetta hefur skiptastjóri lagt til dómsins á grundvelli 122. gr. laga nr. 20/1991 á grundvelli beiðni hans sem móttekin var í héraðsdómi 11. apríl sl. Eingöngu er til úrlausnar fyrir dóminum ágreiningur aðila um eignaskipti sem gerð er grein fyrir í bréfi skiptastjóra og varðar frumvarp hans til úthlutunar og hvort um séreigna- eða hjúskapareignafyrirkomulag sé að ræða við fjárslit milli aðila. Af þessum sökum kemur sá hluti kröfugerðar varnaraðila, að sóknaraðila verði gert að rýma húsnæðið að D í Reykjavík gegn 50.000 króna dagsektum, ekki til álita í máli þessu sem rekið er eftir ákvæðum laga nr. 20/1991 og ber því að vísa henni frá dómi. Þá féll varnaraðili undir rekstri málsins frá kröfu sinni gagnvart sóknaraðila um endurgreiðslu leigugreiðslna vegna D.
Eins og atvikum í máli þessu er háttað, málatilbúnaði aðila og málalokum þykir rétt, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Að mati dómsins eru engin efni til þess að fallast á þann hluta kröfugerðar varnaraðila að sóknaraðili skuli beri allan kostnað skiptastjóra vegna skiptanna enda er krafa hans að þessu leyti órökstudd með öllu auk þess sem ekki verður séð að fyrir henni sé nokkur grundvöllur.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 28. ágúst sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Aðal- og þrautavarakröfu sóknaraðila, K, er hafnað.
Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila, M, skulu fasteignirnar B í Reykjavík, (fastanúmer [...]), C í Reykjavík, (fastanúmer [...]) D í Reykjavík, (fastanúmer [...]), sumarhúsið Þ, [...], (fastanúmer [...]) eða andvirði þess, og íbúð F, taldar hjúskapareignir aðila og koma til skipta í samræmi við helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Hafnað er þeim hluta varakröfu sóknaraðila að hún fái að óskiptu 31.363.177 krónur við skiptin.
Kröfu varnaraðila, samkvæmt aðal- og varakröfu, um að sóknaraðila verði gert að yfirgefa húsnæðið að D í Reykjavík, að viðlögðum 50.000 króna dagsektum, er vísað frá dómi.
Hafnað er þeim hluta kröfugerðar varnaraðila að sóknaraðili beri ein kostnað skiptastjóra vegna skiptanna.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.