Hæstiréttur íslands
Mál nr. 714/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Miðvikudaginn 27. nóvember 2013. |
|
Nr. 714/2013. |
Fríða Margrét Friðriksdóttir (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Verði tryggingum hf. og Ragnari Heiðari Jónssyni (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu F um að héraðsdómara og tveimur sérfróðum meðdómsmönnum yrði gert að víkja sæti í málinu.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari og sérfróðu meðdómsmennirnir Ríkarður Sigfússon og Björn Pétur Sigurðsson vikju sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind krafa hennar tekin til greina. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2013.
Hinn 23. september sl. lagði stefnandi fram þá kröfu að dómari málsins viki sæti svo og þeir meðdómendur sem dómarinn hafði valið í dóminn með sér.
Forsaga málsins er sú að dómarinn fékk málinu úthlutað 11. febrúar 2011. Sem sérfróða meðdómendur kvaddi dómari til þá Guðna Arinbjarnar og Ríkarð Sigfússon. Stefnandi krafðist þess að þeir vikju sæti í málinu sökum vanhæfis og vísaði til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012 var kröfunni hafnað og var hinn kærði úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 20. ágúst 2012 í málinu nr. 479/2012.
Aðalmeðferð fór síðan fram og var dómur kveðinn upp 10. október 2012. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 8. maí sl. var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Ástæða ómerkingarinnar var sú að Guðni Arinbjarnar hafði margoft verið tilnefndur af stefnda sem matsmaður til trúnaðarstarfa við örorkumöt og þegið greiðslur fyrir. Stefnandi eigi því ekki að þurfa að sæta því að hann taki sæti sem meðdómsmaður í málinu, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.
Dómari tók málið fyrir að nýju 20. júní sl. Í þinghaldinu upplýsti dómari að sérfróðir meðdómendur yrðu þeir Ríkarður Sigfússon og Björn Pétur Sigurðsson. Engar athugasemdir voru hafðar uppi af hálfu lögmanna. Í þinghaldinu varð hins vegar ágreiningur um framlagningu yfirmatsgerðar frá 12. október 2012 í máli stefnanda gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., eins og vikið verður að hér síðar.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um að dómari, þar á meðal meðdómsmaður, sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallin séu til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
Í fyrsta lagi telur stefnandi að með fyrri afskiptum dómara af málinu, þ.e. málsmeðferð sem fram fór, samanber dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli stefnanda frá 10. október 2012, séu fyrir hendi atvik og aðstæður sem leiddu til þess, eða væru til þess fallnar, að draga óhlutdrægi dómarans með réttu í efa.
Í dómi Hæstaréttar frá 8. maí sl. er ekki fundið að hæfi dómsformanns né Ríkarðs Sigfússonar. Í samræmi við fjölmörg dómafordæmi Hæstaréttar Íslands veldur það ekki vanhæfi dómara, þótt dómarar sem hafi kveðið upp dóm sem ómerktur er í Hæstarétti, fjalli um málið að nýju fyrir héraðsdómi.
Í öðru lagi byggir stefnandi vanhæfi dómara málsins á því að sitja ætti í dóminum einstaklingur með sérfræðikunnáttu í höggfræði.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur dómari kvatt til tvo meðdómsmenn með sérkunnáttu, sé deilt um staðreyndir sem séu bornar fram sem málsástæður og dómari telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr. Dómari taldi þurfa meðdómendur sem væru læknar og kvaddi því, eins og áður segir, þá Guðna og Ríkarð með sér til setu dómnum. Stefnandi gerði ekki athugasemd um menntun þeirra, en í dómi Hæstaréttar frá 20. ágúst 2012 í málinu nr. 479/2012 segir: „Einnig kveðst sóknaraðili hafa gert athugasemd við það þegar málið var flutt í héraði að ekki væri þörf á að kveðja tvo læknisfróða menn til setu í héraðsdómi ásamt hinum löglærða héraðsdómara, heldur gæfi það, sem fram er komið í málinu, tilefni til að kveðja eðlisfræðing eða vélaverkfræðing sem meðdómanda í stað annars læknanna. Af gögnum málsins verður ekki séð að umrædd athugasemd hafi komið fram af hálfu sóknaraðila, þar á meðal er ekkert vikið að henni í hinum kærða úrskurði. Kemur hún því ekki til úrlausnar hér fyrir dómi.“
Ekki er að sjá að stefnandi hafi haldið þessari málsástæðu uppi fyrir Hæstarétti samanber dóm Hæstaréttar frá 8. maí sl. í málinu nr. 14/2013.
Í þinghaldi 20. júní sl. var lögmönnum tilkynnt, og það bókað í þingbók, að þeir Ríkarður Sigfússon og Björn Pétur Sigurðsson myndu sitja með dómsformanni í dóminum. Stefnandi hreyfði ekki athugasemdum. Það er rangt sem segir í kröfu stefnanda, að stefnandi hafi farið þess á leit við dómarann að annar matsmanna verði eðlisfræðingur eða vélaverkfræðingur sem hafi kunnáttu til að taka afstöðu til niðurstöðu matsgerðar Magnúsar Þórs Jónssonar.
Í þriðja lagi tekur stefnandi fram að dómari hafi hafnað frestun málsins haustið 2012 er stefnandi hafi viljað leggja fram yfirmatsgerð, sem ekki var tilbúin. Þetta hafi dómari gert þótt lögmaður stefnda hafi ekki sett sig á móti því. Síðan hafi stefnandi viljað leggja nefnda yfirmatsgerð fram eftir að málið var ómerkt og kom aftur til héraðsdóms. Dómarinn hafi hins vegar hafnað því með ákvörðun, en ekki úrskurði sem hægt hefði verið að skjóta til Hæstaréttar. Af málatilbúnaði stefnanda verði ekki annað ráðið en að dómsformaður sé einnig vanhæfur vegna þessa.
Vegna þessara athugasemda lögmannsins er rétt að gera grein fyrir gangi málsins hvað þetta varðar. Samkvæmt þingbók málsins var Magnús Þór Sigurðsson vélaverkfræðingur dómkvaddur til matsstarfa hinn 20. desember 2011. Matsgerð hans var ekki lögð fram fyrr en 1. júní 2012 og lýstu lögmenn gagnaöflun lokið og var aðalmeðferð ákveðin í september 2012. Hinn 14. júní 2012 tilkynnir dómari um sérfróða meðdómendur og, eins og að framan greinir, taldi stefnandi þá vanhæfa, samanber umfjöllun hér að framan og dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr.479/2012. Hins vegar kemur ekkert fram í þingbók um að lögmaður stefnanda hafi óskað eftir fresti til framlagningar yfirmatsgerðar, heldur þvert á móti lýsti hann gagnaöflun lokið 1. júní 2012.
Er málið var tekið fyrir að nýju 20. júní sl. óskaði lögmaður stefnanda eftir að leggja fram yfirmatsgerð, dags. 12. október 2012. Lögmaður stefnda mótmælti framlagningunni. Lögmaður stefnanda krafðist úrskurðar um framlagningu skjalsins. Dómari frestaði málinu til 17. september sl. svo lögmenn gætu tjáð sig um ágreiningsefnið. Þann dag tók dómari þá ákvörðun að hafna beiðni um framlagningu yfirmatsgerðarinnar og frestaði málinu til 23. september sl.
Framangreindar hugleiðingar stefnanda um að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómara í efa eiga ekki við nein rök að styðjast. Kröfu stefnanda um að dómsformaður og sérfróðir meðdómendur víki sæti er því hafnað.
Úrskurðinn kveður upp Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu stefnanda um að dómarar víki sæti er hafnað.