Hæstiréttur íslands
Mál nr. 254/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Óvígð sambúð
- Skipti
|
|
Miðvikudaginn 1. júní 2011. |
|
Nr. 254/2011. |
A (Guðmundur Ágústsson hrl.) gegn B (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Óvígð sambúð. Skipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A við opinber skipti til fjárslita um að viðurkennd yrði hlutdeild hennar í félaginu C ehf., sem var í eigu B, eða andvirði félagsins og kröfu hennar að því er varðar viðurkenningu á hlutdeild í verðmæti annarra eigna B vísað frá dómi. Í úrskurði héraðsdóms sagði að krafa A væri almenn og beindist ekki að tilgreindum eignum B heldur þeim öllum sameiginlega. Rökstyðja þyrfti kröfu um eignartilkall gagnvart hverri eign fyrir sig og kynnu ólík sjónarmið að ráða niðurstöðu í hverju tilviki til dæmis með hliðsjón af því hvernig eignarinnar hefði verið aflað og í hvaða skyni. Rökstuðningur A lyti nánast eingöngu að því hvernig hún hefði öðlast tilkall til hlutdeildar í félaginu C ehf. Var A ekki talin hafa tekist sönnun þess að henni bæri hlutdeild í C ehf. Hvað varðar hlutdeild í öðum eignum sem skráðar væru eign B var talið að krafa A þar að lútandi væri vanreifuð og því væri óhjákvæmilegt að vísa henni sjálfkrafa frá dómi. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Ný gögn bárust réttinum 30. maí 2011. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 8. apríl 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila við opinber skipti til fjárslita um að viðurkennd yrði hlutdeild hennar í C ehf. eða andvirði félagsins, sem er í eigu varnaraðila, og vísað frá dómi kröfu hennar um viðurkenningu á hlutdeild í verðmæti annarra eigna varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður „verði felldur úr gildi að því er varðar frávísunarþátt hans og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Að því marki sem efnislega var leyst úr kröfum sóknaraðila í hinum kærða úrskurði er þess krafist að úrskurðinum verið hnekkt og viðurkenndar þær kröfur sem gerðar voru í héraði en þær voru: Aðallega að viðurkennt verði við opinber skipti á búi hennar og varnaraðila til fjárslita á milli þeirra, réttur hennar til að fá úthlutað helmingi allra eigna og verðmæta sem mynduðust á sambúðartíma þeirra á árunum 1998-2010 eða samsvarandi hlutdeild í andvirði þeirra eigna. Varakrafa að viðurkennt verði við opinber skipti á búi hennar og varnaraðila, réttur hennar til að fá úthlutað lægra hlutfall en fram komi í aðalkröfu í eignum og verðmætum sem mynduðust á sambúðartíma hennar og varnaraðila á árunum 1998-2010 eða samsvarandi hlutdeild í andvirði þeirra eigna.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en til vara að öllum kröfum sóknaraðila er varða efnisþátt málsins verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 8. apríl 2011.
Með bréfi, dags. 20. desember 2010, sem barst dóminum 23. sama mánaðar, beindi skiptastjóri ágreiningi, sem risið hafði við opinber skipti til fjárslita á milli aðila, til héraðsdóms með vísan til 112. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl, sbr. 122. gr. sömu laga. Málið var þingfest 18. janúar 2011 og tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 11. mars sama ár.
Sóknaraðili er A, [...], [...].
Varnaraðili er B, [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði, við opinber skipti á búi hennar og varnaraðila til fjárslita milli þeirra, réttur hennar til að fá úthlutað helmingi allra eigna og verðmæta sem mynduðust á sambúðartíma hennar og varnaraðila á árunum 1998 til 2010 eða samsvarandi hlutdeild í andvirði þeirra eigna. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að viðmiðunardagur hinna opinberu skipta teljist 1. maí 2010.
Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði við opinber skipti á búi hennar og varnaraðila réttur hennar til að fá úthlutað lægra hlutfalli en fram komi í aðalkröfu í eignum og verðmætum sem mynduðust á sambúðartíma hennar og varnaraðila á árunum 1998 til 2010 eða samsvarandi hlutdeild í andvirði þeirra eigna.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega sýknu af öllum kröfum sóknaraðila.
Til vara krefst varnaraðili þess að félagið C, sem sé eign varnaraðila, falli utan fjárskipta aðila.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
Bú málsaðila var tekið til opinberra skipta með úrskurði 16. nóvember 2010 og var Jónas Þór Guðmundsson hrl. skipaður skiptastjóri.
Við aðalmeðferð málsins gáfu málsaðilar aðilaskýrslur, en auk þess gaf skýrslu D, endurskoðandi.
I
Í bréfi skiptastjóra til dómsins kemur fram að sammæli séu um við opinberu skiptin að miða tímamark eigna og skulda samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., við 1. maí 2010. Um verðmæti eigna séu aðilar sammála um að staða á bankareikningum þann dag skuli lögð til grundvallar, að viðbættum vöxtum. Verðmæti annarra eigna skuli miðað við þann tíma þegar frumvarp til skiptaloka sé gert eða samkomulag náist um skiptalok, eða, ef við á, þann tíma þegar mat óháðra manna sé gert. Hvað skuldastöðu varði sé sammæli um að miða stöðu tilgreinds láns hjá Íbúðalánasjóði við greiðslu á gjalddaga 15. júní 2010.
Kemur fram í bréfinu að skiptastjóra hafi ekki tekist að jafna ágreining aðila við fjárslitin um skiptingu eigna og skulda eða hlutdeild í eignamyndun. Af hálfu sóknaraðila sé byggt á því að allar eignir hennar og varnaraðila, skráðar og óskráðar, sem voru og urðu til í sambúð þeirra komi undir skiptin og að eignir skiptist jafnt á milli þeirra, óháð því hvort þeirra sé skráð fyrir viðkomandi eign. Af hálfu varnaraðila sé byggt á því að hvor aðili um sig eigi að fá í sinn hlut óskiptar þær eignir sem hann sé skráður fyrir, án greiðslu til gagnaðila. Í bréfi skiptastjóra er tekið fram að lögmenn aðila séu sammála um að ekki sé þörf á að fá verðmat á einstökum eignum, þótt ágreiningur sé um verðmæti sumra þeirra, áður en ágreiningur aðila um skiptingu eigna og skulda eða hlutdeild í eignamyndun sé borinn undir dómstóla.
Með vísan til framangreinds og 112. gr. laga nr. 20/1991 sé krafist úrlausnar héraðsdóms um þennan ágreining aðilanna samkvæmt 122. gr. sömu laga.
II
Í greinargerð sóknaraðila er málavöxtum lýst með þeim hætti að með beiðni til Héraðsdóms Austurlands 10. september 2010 hafi sóknaraðili óskað eftir opinberum skiptum til fjárslita milli hennar og varnaraðila. Hafi sóknaraðili m.a. vísað til þess, máli sínu til stuðnings, að aðilar hafi búið saman í óvígðri sambúð frá árinu 1998 og eigi tvö börn saman. Varnaraðili hafi engar athugasemdir gert við fram komna beiðni og hafi héraðsdómur því úrskurðað 16. nóvember 2010 að bú aðila skyldi tekið til opinberra skipta. Skiptastjóri hafi verið skipaður Jónas Þór Guðmundsson hrl. og hafi hann haldið fjóra skiptafundi með lögmönnum aðila. Meðal annars hafi hann óskað eftir að upplýst yrði um eignir aðila og kröfur aðila til þeirra eigna. Ekki hafi verið ágreiningur um eignir á sambúðarslitadegi sem aðilar hafi verið sammála um að hafi verið 1. maí 2010. Sóknaraðili hafi lagt fram kröfugerð sína á 2. skiptafundi hinn 2. desember 2010, sem efnislega séu þær sömu og gerðar séu í máli þessu. Samkvæmt greinargerð varnaraðila, sem hann hafi lagt fram á 3. skiptafundi og ítrekað á 4. skiptafundi, hafni hann því alfarið að félagið C falli undir fjárskiptin, þar sem hlutir í því félagi séu sín eign og eigi því ekki að falla undir skiptin. Hafi varnaraðili lagt til að sóknaraðili fengi í sinn hlut 60 milljónir króna, fasteignina að [...], [...], og bifreiðina [...] af gerðinni [...].
Sóknaraðili hafi lagt fyrir skiptastjóra mat félagsins E, sem sérhæfi sig í mati á fyrirtækjum í rekstri, en samkvæmt því mati sé verðmæti hlutafjár félagsins C talið vera á bilinu 625-680 milljónir króna. Inni í þeirri fjárhæð sé hvorki skuld félagsins við hluthafa að fjárhæð 248.362.106 krónur né eign félagsins á bankabók að fjárhæð 255.498.603 krónur, heldur hafi einungis verið um mat á verðmæti rekstursins að ræða.
Í minnisblaði frá Deloitte hf. um mat á upplausnarvirði C sem liggi fyrir í málinu sé komist að þeirri niðurstöðu að verðmæti einstakra eigna félagsins sé 55,2 milljónir króna. Sé þá gengið út frá því að einstakar eignir verði seldar sérstaklega og nánast á brunaútsölu. Í matinu sé gengið út frá því að leigusamningurinn um C sé ekki metinn og út frá því gengið að leigusamningurinn sé eign varnaraðila persónulega en ekki félagsins.
Skiptastjóri hafi reynt að ná sáttum milli aðila en án árangurs og því sé ágreiningnum vísað til héraðsdóms.
Í stuttu máli snúist ágreiningur aðila um tvennt. Annars vegar um það hvaða eignir eigi að koma undir skiptin og hins vegar um hlutdeild hvors aðila í þeim eignum sem falli undir skiptin. Krafa sóknaraðila sé sú að allar eignir sem myndast hafi á sambúðartímanum eigi að koma undir fjárskiptin og skipta eigi þeim til helminga á milli þeirra. Varnaraðili telji hins vegar að hvor aðili um sig eigi að halda þeim eignum sem hann sé skráður fyrir við sambúðarslitin 1. maí 2010 og hinn aðilinn eigi ekkert tilkall til hlutdeildar í þeim eignum.
Aðilar máls hafi flutt saman á árinu 1998 og sambúð þeirra staðið óslitið fram í maí 2010. Þau hafi eignast tvö börn á sambúðartímanum, en eldra barnið sé fætt [...] og hið yngra [...]. Fyrir liggi að fyrirtækið C hafi verið keypt eftir að sambúð þeirra hófst og þau hafi staðið sameiginlega að uppbyggingu félagins. Varnaraðili hafi verið skráður framkvæmdastjóri félagsins og komið fram fyrir hönd þess, auk þess að sjá til þess að bílar, bátar og annar búnaður væri í lagi og fullnægði þörfum félagsins. Sóknaraðili hafi annast alla skrifstofuvinnu, þ.m.t. séð um mannaráðningar, starfsmannamál, skjalagerð, utanumhald um bókhald félagsins og greiðslu reikninga. Þá hafi hún séð um öll tölvusamskipti við innlenda og erlenda viðskiptamenn félagsins, auk þess sem hún hafi gengið í önnur störf, svo sem farmiðasölu og afgreiðslu í veitingasölu. Endurskoðandi félagsins, D, hafi annast launaútreikning og stillt upp bókhaldi félagsins, en sóknaraðili hafi séð um að koma gögnum til hans og greiða út launin. Hluti vinnu hennar hafi farið fram á heimili þeirra á [...], þar sem netsamband hafi ekki verið við starfsstöðina við [...]. Bæði hafi þau þegið laun hjá félaginu allan sambúðartímann. Við ákvörðun launa hafi ekki verið stuðst við vinnuframlag heldur verið miðað við lágmarkslaun. Til þess hafi verið litið að félagið væri að byggjast upp og nauðsynlegt væri að sýna góða afkomu. Því hafi safnast fé inn í félagið, sem lán frá hluthöfum, en í nokkur ár hafi staðið til að ráðast í mikla uppbyggingu á svæðinu þ.m.t. að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn, m.a. með því að byggja upp þjónustuskála með veitingaaðstöðu og laga aðgengi.
Varnaraðili sé einn skráður fyrir öllu hlutafé í félaginu C og sé aðalmaður í stjórn þess. Sóknaraðili sé í varastjórn og sitji einnig í varastjórn dótturfélags C, þ.e. félaginu F, sem keypt hafi verið á árinu 2007 til að bæta aðstöðu starfsfólks og til að geyma vélar og tæki. Aðaltilgangur kaupanna hafi samt verið sá að tryggja C rétt til aðstöðunnar við [...], því með í kaupum hafi fylgt um 10% eignarhlutur í landi [...] og [...] sé í landi þeirrar jarðar. Auk þeirra starfa sem tengdust C hafi sóknaraðili starfað tvö haust í sláturhúsinu á [...], að loknum ferðamannatímanum við C. Hafi það tengst áhugamáli hennar, frístundabúskap, en hún eigi nokkrar [...] sem hún hafi haft á [...] hjá foreldrum sínum á [...].
Heimilishaldið hafi að mest öllu leyti lent á sóknaraðila, auk þess sem hún hafi borið hitann og þungan af uppeldi og umönnun barna þeirra tveggja.
Fyrir sambúðina hafi varnaraðili átt fasteign að [...], [...]. Andvirði hennar að frádregnum skuldum, alls 3.608.268 krónur, hafi gengið upp í núverandi fasteign þeirra að [...], [...], sem þau hafi keypt saman á árinu 2002 fyrir 14,2 milljónir króna. Það sem upp á kaupverðið hafi vantað hafi þau greitt með peningum á árinu 2002 og 2003, auk þess sem þau hafi tekið lán hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 6 milljónir króna. Það lán hvíli enn á eigninni. Varnaraðili hafi einnig átt [...] áður en þau kynntust sem hann hafi selt á árinu 2000. Hafi andvirði [...] m.a. verið notað sem innborgun þegar hlutir hafi verið keyptir í C. Það sem upp á hafi vantað hafi verið greitt með lánum, sem síðan hafi verið greidd upp með hagnaði af starfsemi félagsins. Fyrir árslok 2009 hafi foreldrar sóknaraðila ráðstafað eign sinni, [...], til barna sinna. Við þann gjörning hafi þriðjungur eignarinnar komið í hlut sóknaraðila.
Á sambúðartímanum hafi átt sér stað mikil eignaaukning. Félagið C hafi vaxið og dafnað, hagnaður hafi verið á hverju ári og félagið margfaldast í verði. Í félaginu hafi jafnframt verið myndaður sjóður með lánum frá hluthöfum. Hafi það gerst með þeim hætti að arðgreiðslur til hluthafa hafi verið lánaðar félaginu. Þessa eignaaukningu megi rekja til vinnu þeirra beggja fyrir félagið. Þó svo að varnaraðili sé einn skráður fyrir hlutum í félaginu hafi það legið fyrir frá upphafi að aðilar hafi í sameiningu verið að byggja upp félagið með vinnuframlagi sínu, þeim sjálfum og börnum þeirra til hagsbóta.
Þær fullyrðingar varnaraðila í greinargerð hans að fyrirkomulag sambúðarinnar hafi verið með sérstökum hætti og ólík öðrum sambúðum telji sóknaraðili ekki eiga við rök að styðjast. Telji varnaraðili að engin fjárhagsleg tengsl hafi myndast á milli þeirra á sambúðartímanum. Því til staðfestu vísi varnaraðili til þess að þau hafi ekki skilað inn sameiginlegum skattframtölum til skattyfirvalda og þau hafi haft sitt hvorn bankareikninginn. Sóknaraðili kveður það vera rétt að þau hafi ekki skilað inn sameiginlegu skattframtali og henni hafi verið greiddar barnabætur. Ástæða þess hafi hins vegar ekki verið sú að sérstakt samkomulag hafi verið gert á milli málsaðila um aðskilinn fjárhag, heldur hafi varnaraðili og endurskoðandi þeirra ákveðið þetta og hagkvæmnisástæður legið þar að baki. Með sama hætti hafi Íbúðalánasjóðslánið sem sé áhvílandi á húsi þeirra verið sett á nafn hennar þó svo að legið hafi fyrir að þau bæði væru skuldarar þess. Kveðst sóknaraðili ekki hafa gert þessi framtöl eða tekið ákvörðun um hvernig þau skyldu útfyllt. Sóknaraðili kveður sambúð hennar og varnaraðila hafa verið með líkum hætti og hjá öðru fólki í sambúð. Þau hafi búið undir sama þaki, þjónustað hvort annað til borðs og sængur, greitt útgjöld sameiginlega og tekið sameiginlega á málefnum fjölskyldunnar. Sátt hafi verið um það að sóknaraðili notaði laun sín og þá peninga sem hún aflaði til reksturs heimilisins og barnanna, en peningar varnaraðila væru lagðir til hliðar. Varnaraðili hafi greitt afborganir af láni Íbúðalánasjóðs og rafmagnsreikninga. Tekjur sóknaraðila hafi því verið notaðir til að framfleyta fjölskyldunni en tekjur varnaraðila til annarra hluta. Þannig hafi bifreið aðila af gerðinni [...]verið keypt af varnaraðila og skráð á hann, en fyrir sóknaraðila, sem notað hafi bifreiðina fram að sambúðarslitum.
Fyrir liggi að varnaraðili hafi haft hærri tekjur á sambúðartímanum. Jafnhliða launuðum störfum sóknaraðila hafi sóknaraðili lagt fram mun meira vinnuframlag á sameiginlegu heimili þeirra, þ.e.a.s. við heimilisstörf og barnauppeldi. Þrátt fyrir þá titla sem menn hafi borið innan félagsins hafi það í raun verið sóknaraðili sem hafi verið heili þess og haldið fyrirtækinu gangandi og átt mestan þátt í velgengni þess. Það hafi verið sóknaraðili sem hafi séð um mannaráðningar, haldið utan um bókhald félagsins, samið vaktaplön og séð um innlend og erlend samskipti ásamt því að ganga í tilfallandi störf.
Samkvæmt fyrirliggjandi fundargerðum skiptastjóra liggi fyrir hvaða eignum aðilar séu skráðir fyrir. Verðmat þeirra eigna liggi ekki nákvæmlega fyrir enda hafi það verið mat aðila og skiptastjóra að fyrst þyrfti að fá úr því skorið hvaða eignir skuli falla undir skiptin og hvernig þær skildu skiptast, áður en óskað yrði eftir mati á þeim eignum.
Sóknaraðili kveðst, með vísan til þess sem hún hafi hér að framan rakið, byggja á því að hún eigi rétt til helmings eigna þeirra sem orðið hafi til í langri sambúð hennar og varnaraðila með vinnuframlagi þeirra beggja. Í upphafi hafi eignir ekki verið miklar og því eignirnar allar orðnar til fyrir sameiginlegan tilverknað þeirra. Engu máli skipti þó eignirnar séu skráðar á nafn varnaraðila þar sem fjárhagsleg samstaða hafi myndast á milli þeirra á svo löngum sambúðartíma sem í raun jafngildi hjúskap. Á milli þeirra hafi verið ákveðin verka- og ábyrgðarskipting við rekstur heimilisins og eins við rekstur félagsins sem þau bæði hafi unnið við og byggt upp sameiginlega. Sóknaraðili hafi lagt laun sín til reksturs heimilisins, auk þess sem varnaraðili hafi látið af höndum rakna til reksturs þess. Telji sóknaraðili réttast, þegar litið sé til lengdar sambúðarinnar, fjölda barna og aldurs þeirra, starfa hvors um sig innan og utan heimilis, að hlutdeild hvors um sig í eignum hins verði skipt í jöfnum hlutföllum.
III
Varnaraðili kveðst í greinargerð sinni gera athugasemdir við málavaxtalýsingu í greinargerð sóknaraðila, einkum að því er varði sambúð aðila. Það sé rétt sem fram komi í greinargerð sóknaraðila að aðilar hafi eignast [...] í [...] [...] og [...] í [...] [...]. Samband aðila hafi þó hvorki verið í föstum skorðum né formlegt á þeim tíma. Þannig hafi [...] þeirra einungis verið kenndur við móður sína fyrstu mánuðina eftir fæðingu. Í júní 2000 hafi sóknaraðili flutt lögheimili sitt til varnaraðila að [...] á [...]. Síðla árs 2002 hafi aðilar saman keypt fasteignina [...], [...], þannig að sóknaraðili hafi keypt helming eignarinnar á móti varnaraðila.
Töluverður aðstöðumunur hafi verið með aðilum í upphafi sambands þeirra, hvort heldur sem miðað sé við fæðingu [...] þeirra eða flutning lögheimilis sóknaraðila til varnaraðila og upphaf sambúðar. Sóknaraðili, sem sé [...] árum yngri en varnaraðili, hafi verið eignalaus og með litla sem enga starfsreynslu. Varnaraðili hafi hins vegar stundað [...] í mörg ár. Hann hafi selt [...] sinn í lok árs 1997. Tekjur varnaraðila af sölunni hafi numið 29.220.713 krónum, sem varnaraðili haf ávaxtað næstu tvö árin. Hinn 5. ágúst 1999 hafi varnaraðili gert tilboð í rekstur [...] [...], [...], sem hafi verið með rekstur [...] á [...]. Kaupin hafi átt sér langan aðdraganda en varnaraðili hafi í nokkur ár rætt hugsanleg kaup við hlutaðeigendur þótt það hafi ekki orðið fyrr en árið 1999 sem vinna hafi verið lögð í málið. Kaupsamningar um reksturinn, þar á meðal um öll hlutabréf í einkahlutafélaginu C, hafi verið undirritaðir 29. desember sama ár og 29. maí 2000. Hafi varnaraðili greitt fyrir reksturinn með andvirði sölu á nefndri [...], sem nægt hafi til greiðslu ríflega 2/3 hluta kaupverðs. Eftirstöðvarnar hafi varnaraðili greitt með skammtímalánum sem hann hafi verið persónulega í ábyrgð fyrir og hafi verið greidd upp að fullu á skömmum tíma, eins og fram komi í greinargerð bókhaldara félagsins sem liggi fyrir í málinu.
Aðstöðumunur aðila hafi líka komið í ljós er þau hafi keypt saman fasteignina að [...] á [...]. Varnaraðili hafi greitt sinn hluta með reiðufé og notað til þess meðal annars andvirði fasteignarinnar að [...], [...], sem hann hafi selt á sama tíma. Sóknaraðili hafi fjármagnað kaupin á sínum hlut í fasteigninni með láni frá Íbúðalánasjóði gegn veði í fasteigninni [...]. Umfram alla skyldu hafi varnaraðili greitt afborganir af umræddu láni allt frá fyrsta degi og greiði reyndar enn í dag. Sóknaraðili hafi aldrei lagt fé til nefndra fasteignakaupa.
Hvað heimilishaldið varði þá hafi aðilar sameiginlega axlað ábyrgð á því öllu að svo miklu leyti sem þau hafi haldið heimili saman. Fram til ársins 2007 hafi varnaraðili dvalið á sumrin að mestu við [...]. Hin síðari ár hafi varnaraðili gjarnan dvalið á sumrin á [...] og [...] aðila þá gjarnan með honum þar eða hjá foreldrum sóknaraðila að [...]. Sóknaraðili hafi sinnt áhugamáli sínu, [...], eins og hana lysti. Sé fráleit fullyrðing sóknaraðila í greinargerð um að hitinn og þunginn af umönnun og uppeldi barnanna hafi hvílt á sóknaraðila. Verkaskipting, sem óhjákvæmilega verði alltaf með einhverjum hætti í samskiptum sambúðaraðila, hafi vissulega verið með aðilum. Þá hafi nánast öll fjárútlát vegna heimilishaldsins verið á herðum varnaraðila. Í greinargerð sóknaraðila sé staðhæft að sátt hafi verið með aðilum um að sóknaraðili notaði tekjur sínar til reksturs heimilisins og barnanna en að fé varnaraðila hafi verið lagt til hliðar. Stangist þetta á við þá lýsingu sem einnig komi fram í greinargerð um að tekjur varnaraðila hafi verið notaðar til annarra hluta, svo sem að kaupa bíl fyrir sóknaraðila. Hljóti bifreiðakaup að falla undir rekstur heimilis og séu nefnd bifreiðakaup eitt dæmi af mörgum um ríflegt framlag sóknaraðila til heimilisins.
Sambúð aðila hafi ekki verið skráð sem óvígð sambúð hjá þjóðskrá. Aðilar hafi ekki haft sameiginlegan fjárhag og aldrei talið fram til skatts saman. Þvert á móti hafi aðilar gætt þess að hafa fjárhag sinn aðskilinn, svo sem fasteignakaup þeirra beri vitni um, og á sambúðartímanum hafi hvorugur aðili gert tilkall til eigna hins. Sóknaraðili hafi ein þegið barnabætur á tímabilinu. Aðilar séu sammála um að miða sambúðarslit við 1. maí 2010.
Varnaraðili hafi hafið rekstur C á árinu 1999 með því að kaupa allt hlutafé í félaginu árið 1999 eins og áður sé rakið. Reksturinn, sem lúti að [...] með [...] um C, hafi verið hugarfóstur varnaraðila og hafi alfarið byggst á vinnuframlagi hans. Varnaraðili sé eini stjórnarmaður einkahlutafélagsins og jafnframt framkvæmdastjóri þess. Sóknaraðili sé varamaður í stjórn en aldrei hafi komið til þess að hún sæti stjórnarfundi og aldrei hafi hún tekið ákvörðun er varðaði félagið.
Sóknaraðili hafi óskað eftir vinnu hjá félaginu árið 2002. Sóknaraðili hafi starfað hjá félaginu þá mánuði á ári sem reksturinn hafi staðið yfir, sem hafi verið yfir sumarmánuðina. Sóknaraðili hafi hins vegar þegið laun allt árið. Fráleit sé sú fullyrðing í greinargerð sóknaraðila að sóknaraðili hafi verið heili félagsins og sá aðili sem hafi haldið félaginu gangandi og átt mestan þátt í velgengni þess. Þá sé lýsing í greinargerð sóknaraðila á störfum hennar hjá félaginu orðum aukin. Sú lýsing á skrifstofuvinnu sem sóknaraðili telji sig hafa unnið taki til nokkurra klukkutíma vinnu á mánuði. Staðreyndin sé sú að sóknaraðili hafi verið launaður starfsmaður hjá félaginu eins og margir aðrir. Sóknaraðili hafi séð um að auglýsa eftir starfsfólki, séð um tölvupóstsamskipti og leyst af í miðasölu en afar sjaldan í veitingasölu. Reikningar hafi borist félaginu að lögheimili aðila og hafi sóknaraðili séð um að koma þeim áfram til bókhaldsþjónustu félagsins. Varnaraðili mótmæli sérstaklega fullyrðingum í greinargerð sóknaraðila um að sóknaraðili hafi annast alla skrifstofuvinnu og haldið utan um bókhald félagsins. Bókhaldsþjónustan [...] hafi annast bókhald C frá stofnun þess. Öll skráning og tölvuvinnsla bókhalds, launaútreikningar, ársuppgjör og skattframtalsgerð hafi farið fram á vegum [...]. Sóknaraðili hafi séð um að koma til bókhaldsþjónustunnar upplýsingum um vinnutíma starfsfólks á hverju launatímabili og greitt tilfallandi reikninga.
Rekstur C sé háður ýmsum opinberum leyfum og einkaréttarlegum samningum við landeigendur í kringum [...]. Varnaraðili hafi haft frumkvæði að og staðið sjálfur að nauðsynlegum samningum við landeigendur í upphafi og í aðdraganda að kaupum á rekstrinum á [...]. Það sama megi segja um kaup C á einkahlutafélaginu F sem félagið hafi keypt árið 2007, sem og öðrum viðskiptum sem félagið hafi átt í fram til þessa.
Umfram alla skyldu og án viðurkenningar á rétti sóknaraðila, en í viðleitni varnaraðila til að ná fram sáttum við sóknaraðila, hafi varnaraðili látið verðmeta C. Hafi endurskoðunarskrifstofan Deloitte komist að þeirri niðurstöðu að svokallað upplausnarvirði félagsins væri 55,2 milljónir króna. Eins og fram komi í greinargerð sóknaraðila sé ágreiningur með aðilum um verðmæti félagsins. Varnaraðili mótmæli harðlega því verðmati sem sóknaraðili hafi lagt fram í máli þessu. Aðilar hafi þó fallist á að fá úr því skorið með hvaða hætti fjárskipti milli þeirra skyldu vera áður en ráðist yrði í frekara verðmat á félaginu.
Kröfu sína um sýknu af kröfum sóknaraðila kveðst varnaraðili styðja við þá málsástæðu aðallega að aðilar hafi ekki verið hjón heldur einungis sambúðaraðilar. Aðilar hafi ekki verið skráðir í sambúð og aldrei samsköttuð á sambúðartímanum. Fjármál þeirra hafi aldrei verið sameiginleg og engin fjárhagsleg samstaða milli þeirra sem réttlætt gæti kröfu sóknaraðila um hlutdeild í eignamyndun varnaraðila á sambúðartímanum og alls ekki helmingaskipti í þeim efnum. Þá hafi sóknaraðili komið eignalaus inn í sambúðina en varnaraðili átt bæði fasteign og mikið fé er sambúð hófst.
Sóknaraðili hafi snúið óskráðum meginreglum um óvígða sambúð á hvolf með því að lýsa ástæðu þess að um aðskilinn fjárhag hafi verið að ræða þannig að hún sé „ekki sú“ að sérstakt samkomulag hafi verið gert milli þeirra um aðskilinn fjárhag, heldur hafi það verið af hagkvæmnisástæðum. Reglur hjúskaparlaga um formbundna samninga um fjármál hjóna, eins og kaupmála, eigi hins vegar alls ekki við um fjárskipti aðila. Dómhelguð sé sú meginregla að í óvígðri sambúð beri hvor aðili ábyrgð á sínum fjárhag. Byggi varnaraðili kröfu sína um sýknu á þessari meginreglu.
Þá kveðst varnaraðili byggja á því að sambúð aðila hafi hvorki verið svo löng sem sóknaraðili haldi fram og fráleitt svo löng að jafngildi hjúskap eins og sóknaraðili byggi kröfur sínar á. Óvígðri sambúð verði aldrei jafnað til hjúskapar en kæmi það til greina þá yrði það ekki í tilviki aðila, en sambúð þeirra hafi verið slitrótt og ekki löng.
Varnaraðili kveðst mótmæla sérstaklega þeirri málsástæðu sóknaraðila að fjöldi barna og aldur þeirra hafi þau áhrif að hlutdeild aðila í eignum hvors um sig verði skipt í jöfnum hlutföllum.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili eigi rétt til eignamyndunar sem orðið hafi hjá varnaraðila á sambúðartímanum geri varnaraðili þá kröfu að hlutafé varnaraðila í einkahlutafélaginu C falli utan fjárskipta. Byggi varnaraðili þessa kröfu sína á þeirri málsástæðu að sóknaraðili hafi hvorki komið að stofnun félagsins né rekstri þess. Varnaraðili hafi keypt félagið á árunum 1999-2000 með eigin fé og án alls fjárframlags frá sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki flutt lögheimili sitt til varnaraðila fyrr en eftir að varnaraðili hafi lokið kaupum sínum á félaginu. Sóknaraðili hafi aldrei komið að nokkrum samningum vegna reksturs C og ýmsir samningar félagsins og starfsleyfi séu algerlega háð persónu varnaraðila. Sóknaraðili hafi unnið hjá félaginu og þáð fyrir samningsbundin laun sem hafi verið rífleg miðað við vinnuframlag. Sú verðmætaaukning sem kunni að hafa orðið á félaginu á sambúðartíma aðila sé eingöngu til komin vegna vinnu varnaraðila við félagið og þróunar hans á þeirri viðskiptahugmynd sem félagið byggi á. Vinnuframlag sóknaraðila hafi á engan hátt verið meira eða annað en framlag þeirra tuga starfsmanna sem komið hafi að félaginu á hverjum tíma og þegið laun fyrir.
Í ljósi allra aðstæðna aðila, fjárhags þeirra við upphaf sambandsins, framlags þeirra til C og rekstrargrundvallar félagsins, krefjist varnaraðili þess að C komi ekki til skipta við slit sambúðar aðila.
Um lagarök vegna sýknukröfu sé vísað til óskráðra meginreglna um óvígða sambúð og meginreglna um fjárskipti vegna óvígðrar sambúðar. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Krafa sóknaraðila um að viðmiðunardagur opinberra skipta til fjárslita á milli aðila verði 1. maí 2010 er ekki meðal þeirra ágreiningsefna sem skiptastjóri vísaði til dómsins, enda ekki ágreiningur um þetta atriði með aðilum. Eru því ekki efni til að fjalla sérstaklega um kröfuna í úrskurði þessum.
Aðilar máls þessa voru í óvígðri sambúð og eignuðust tvö börn á sambúðatíma, hið eldra í [...] [...] og hið yngra í [...] [...]. Eins og að framan er nánar rakið greinir þau á um hvenær sambúðin hafi hafist. Hefur sóknaraðili haldið því fram að þetta hafi verið í maí mánuði árið 1998 en varnaraðili hefur viljað miða við síðara tímamark. Fyrir dómi bar varnaraðili um það að hann teldi að sambúðin hefði hafist við fæðingu eldra barns þeirra. Þykir ekki varhugavert að leggja þessa frásögn varnaraðila til grundvallar og miða við að sóknaraðili hafi flutt á heimili varnaraðila í ágústmánuði 1998. Eins og framan greinir slitu málsaðilar sambúð sinni á árinu 2010 og hafa orðið ásátt um að miða í því sambandi við 1. maí það ár. Sambúð þeirra stóð því í um 12 ár.
Fyrir liggur að skömmu áður en sambúð aðila hófst seldi varnaraðili [...] sem hann átti og rak og mun hafa fengið tæpar 30 milljónir króna fyrir. Þá átti hann fasteignina að [...] á [...]. Sóknaraðili virðist ekki hafa átt teljandi eignir við upphaf sambúðarinnar.
Enginn ágreiningur er um það að fasteignin að [...] á [...] er skráð sameign málsaðila að jöfnu og er því lýst í málatilbúnaði þeirra að þau hafi saman fest kaup á eigninni í októbermánuði 2002. Fram kemur í kaupsamningi um eignina að hluti kaupverðs sé greiddur með 3.608.268 króna eignarhlut varnaraðila í fyrrnefndri fasteign að [...] á [...], 2.300.000 krónur séu greiddar í peningum við undirritun kaupsamnings en eftirstöðvar að fjárhæð 2.302.069 krónur í tveimur greiðslum á árinu 2003. Þá kemur fram að kaupandi yfirtaki húsbréfalán að eftirstöðvum 6.289.663 krónur. Ekki liggja fyrir gögn um hver hafi lagt fram fé til kaupa á fasteigninni, en varnaraðili hefur haldið því fram að sóknaraðili hafi greitt sinn hluta með því að yfirtaka fyrrnefnt áhvílandi lán sem enn hvíli á fasteigninni, en hann hafi greitt kaupverðið að öðru leyti.
Aðrar eignir aðila eiga þau ekki í sameign. Liggur fyrir í málinu í fundargerðum skiptafunda nokkuð nákvæm tilgreining þeirra. Helstu eignir sem skráðar eru á sóknaraðila eru, auk fyrrgreinds helmingshlutar í fasteigninni að [...], 1/3 hluti jarðarinnar [...], auk útihúsa og ræktunar og innistæður á bankareikningum að fjárhæð tæplega 2.2 milljónir króna og einnig einstaklingsrekstur þar sem skráð er hrein eign að fjárhæð 361.000 krónur. Fyrrnefnt Íbúðalánasjóðslán er skráð á skattframtöl sóknaraðila sem skuld hennar einnar vegna kaupa á 50% eignarhlut í [...]. Framangreindar tölur og upplýsingar eru miðaðar við stöðu samkvæmt skattframtali við áramót 2009/2010.
Helstu eignir skráðar á varnaraðila eru allt hlutafé í C og hluti jarðarinnar [...] en í landi þeirrar jarðar fer starfsemi félagsins fram. Þá er hann skráður fyrir bifreið sem sögð er ríflega 6 milljónir króna að verðmæti. Innistæður á bankareikningum hans nema ríflega 11,6 milljónum króna. Þá á hann fjárkröfu á hendur C að fjárhæð rúmar 248 milljónir króna. Einnig er hann skráður fyrir einstaklingsrekstri þar sem hrein eign nemur rösklega 22 milljónum króna. Varnaraðili er ekki skráður fyrir skuldum. Tölur og upplýsingar eru miðaðar við stöðu samkvæmt skattframtali við áramót 2009/2010.
Fyrir liggur að aðilar skráðu aldrei sambúð sína og töldu því ekki saman fram til skatts. Þá kom fram að þau hafi aldrei haft sameiginlegan bankareikning. Lýstu þau hvort með sínum hætti hvernig þau hefðu skipt á milli sín útgjöldum heimilisins, en ekki þykir ástæða til að fjalla ítarlega um það hér. Fyrir liggur að varnaraðili keypti bifreið sem sóknaraðili hafði til afnota.
Krafa sú sem sóknaraðili hefur uppi í máli þessu lýtur að því aðallega að henni verði játaður réttur til að fá úthlutað helmingi allra eigna og verðmæta sem myndast hafi á sambúðartíma hennar og varnaraðila á árunum 1998 til 2010 eða samsvarandi hlutdeild í andvirði þeirra eigna og til vara að hlutdeild hennar verði ákveðið lægra hlutfall. Varnaraðili gerir engar kröfur til hlutdeildar í eignum sem skráðar eru eign sóknaraðila.
Engar lögfestar reglur eru um skipti eigna og skulda við slit óvígðrar sambúðar. Hefur verið litið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga í þessu tilliti og því meginregla við fjárskipti vegna slita á óvígðri sambúð að hvor aðili taki sínar eignir og beri ábyrgð á sínum skuldum. Er almennt litið svo á að opinber skráning og þinglýsing eignarheimilda gefi sterka vísbendingu um raunveruleg eignarráð og að sá sem halda vilji fram eignarráðum sem ekki samræmist slíkri skráningu beri sönnunarbyrði fyrir réttmæti slíkra fullyrðinga. Hefur þessum sjónarmiðum verið lýst með almennum hætti sem meginreglum á þessu sviði í nokkrum dómum Hæstaréttar um fjárslit vegna óvígðrar sambúðar, t.d. í máli nr. 302/2008.
Í samræmi við framangreint liggur fyrir að sóknaraðili sem krefst hlutdeildar í eignum sem skráðar eru eign varnaraðila ber sönnunarbyrði fyrir að skilyrði séu uppfyllt til þess, þar á meðal það meginskilyrði að hún hafi lagt eitthvað það til eignamyndunarinnar sem réttlæti eignatilkall hennar. Nægir í þessu sambandi ekki að vísa til fjárhagslegrar samstöðu sem myndast hafi á löngum sambúðartíma og að það leiði til helmingaskipta á eignum ósundurgreint eins og sóknaraðili gerir. Krafa hennar er almenn og beinist ekki að tilgreindum eignum varnaraðila heldur þeim öllum sameiginlega. Rökstuðningur hennar fyrir kröfunni lýtur hins vegar nánast eingöngu að því hvernig hún hafi öðlast tilkall til hlutdeildar í C. Þykir krafan nægilega skýrt sett fram og rökstudd varðandi þá eign en um kröfuna varðandi aðrar eignir verðu fjallað sérstaklega hér síðar.
Hvað sem líður ágreiningi aðila um hvenær sambúð þeirra hófst liggur að mati dómsins fyrir að sóknaraðili lagði ekki fram fé til kaupa C eða annarra eigna sem keyptar voru samhliða og tilheyra rekstri þess félags. Liggur ekki fyrir að hún hafi tekið á sig skuldbindingar í tengslum við kaupin. Kom hún heldur ekki að samningagerð eða undirbúningi kaupanna eins og fram kom í aðilaskýrslu hennar fyrir dómi. Er og upplýst með framburði endurskoðanda sem og með framburði varnaraðila að fé sem til þurfti til kaupanna kom frá honum og átti rætur að rekja til hagnaðar af sölu [...] sem hann átti fyrir sambúðina, auk fjármögnunar með skammtímalánum. Þá hafa að mati dómsins ekki verið leiddar að því nægilegar líkur að sóknaraðili hafi í upphafi eða síðar komið að undirbúningi eða stefnumótun fyrir umrætt félag þannig að orðið gæti grundvöllur eignarréttartilkalls. Varnaraðili er einn eigandi C og er einn stjórnarmaður og framkvæmdastjóri. Sóknaraðili hefur borið um að hún hafi gegnt störfum í þágu félagsins, haft fyrir félagið prókúru, greitt reikninga komið að ráðningu starfsmanna, auk þess að hafa séð um samskipti við bókhaldsþjónustu og einnig ferðaskrifstofur. Í gögnum málsins má sjá að sóknaraðili hefur allt frá því að varnaraðili tók yfir umræddan rekstur á árinu 2000 verið á launaskrá félagsins. Eins og áður segir ber sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi lagt eitthvað það til rekstrar C sem réttlætt gæti að henni yrði játaður eignarhlutur í félaginu í andstöðu við skráðar heimildir. Hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á annað framlag sitt en það vinnuframlag sem að framan er lýst. Þá liggur fyrir að sóknaraðili fékk ávallt greitt fyrir það vinnuframlag og er það mat dómsins að henni hafi ekki tekist sönnun þess að þær greiðslur hafi verið minni en því framlagi nam, þannig að henni bæri af þeim sökum hlutdeild í þeirri verðmætisaukningu félagsins sem hugsanlega hafi átt sér stað á sambúðartíma aðila. Breytir engu um sönnuarstöðuna að þessu leyti þó að í ljós sé leitt að greiðslur hafi verið jafnar allt árið þó vinnuframlag hafi verið mun minna að vetri en yfir ferðamannatíma að sumri. Þá er það mat dómsins að sjónarmið um fjárhagslega samstöðu milli málsaðila um rekstur heimilis og uppeldi barna, sem kunni að hafa myndast í 12 ára sambúð þeirra geti ekki eins og hér stendur á haft áhrif á niðurstöðuna að því er umræddan rekstur varnaraðila varðar. Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að sóknaraðila hafi ekki tekist sönnun þess að henni beri hlutdeild í C skráðri eign varnaraðila.
Krafa sóknaraðila er ósundurgreind og tekur samkvæmt efni sínu til allra eigna varnaraðila. Rökstuðningur fyrir kröfunni hefur hins vegar að mestu lotið að C og ætlaðri hlutdeild sóknaraðila í verðmætisaukningu þess félags á sambúðartíma aðila. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn ekki rökstutt nægilega hér fyrir dómi hvers vegna henni beri hlutdeild í öðrum þeim eignum sem skráðar eru eign varnaraðila og taldar eru lauslega upp hér að framan. Er áður komið fram að það er mat dómsins að rökstyðja þurfi kröfu um eignartilkall gagnvart hverri eign fyrir sig og kunna ólík sjónarmið að ráða niðurstöðu í hverju tilviki til dæmis með hliðsjón af því hvernig eignarinnar var aflað og í hverju skyni. Kunna sjónarmið um sameiginlega eignamyndun á sambúðartíma að fléttast þar inn í, sem og sjónarmið um framlög hvors aðila um sig til sameiginlegs heimilis. Með vísan til framangreinds er það mat dómsins að krafa sóknaraðila sé vanreifuð að því er varðar tilkall hennar til hlutdeildar í þessum eignum og því óhjákvæmilegt að vísa henni sjálfkrafa frá dómi.
Þrátt fyrir framangreind málsúrslit þykir rétt, eins og hér stendur á, að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að viðurkennd verði hlutdeild hennar í C, eða andvirði félagsins, sem er í eigu varnaraðila, B.
Kröfu sóknaraðila að því er varðar viðurkenningu á hlutdeild í verðmæti annarra eigna varnaraðila er vísað frá dómi.
Hvor aðili skal bera sinn kostnað af málinu.