Hæstiréttur íslands

Mál nr. 123/2016


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. mars 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2016.

                Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram allt til mánudagsins 14. mars 2016 kl. 16.

Í greinargerð kemur fram að Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur X, 29. janúar sl., fyrir tvær tilraunir til nauðgana, aðfaranótt sunnudagsins 13. desember 2015 í miðbæ Reykjavíkur. Málin hafi borist héraðssaksóknara til ákærumeðferðar þann 15. janúar sl. að lokinni rannsókn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Í fyrri lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa veist með ofbeldi að A, fæddri [...], í því skyni að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök, en ákærði hafi veitti A eftirför, þar sem hún hafi gengið einsömul eftir Tjarnargötu til suðurs um Vonarstræti og áfram eftir Tjarnargötu, og er A hafi stansað hafi hann gengið fram fyrir hana og til hægri inn á lóð húss nr. [...] og beiðið uns A gekk þar hjá og stöðvað þá för hennar, gripið í hana, skipað henni að láta hann hafa farsíma, sem hún hafi verið að tala í en kastaði frá sér, hent henni í götuna, tekið í hár hennar og setti hönd fyrir munn hennar, skipað henni að hrópa ekki, ýtt henni upp að mannlausri bifreið og andliti hennar upp að vegg, rifið hægri skálm buxna hennar frá klofi niður að hné, reynt að setja trefil sem hún hafi verið með um hálsinn fyrir munn hennar, þrengt treflinum að hálsi hennar með því að strekkja á endum hans, og ekki látið af háttseminni fyrr en hann hafi orðið var við mannaferðir í kjölfar þess að A hafi tekist að hrópa á hjálp, en þá hafi ákærði hlaupið af vettvangi. Af árásinni hafi A hlotið skrapsár á enni vinstra megin og fyrir ofan hægra auga og mar undir augað, tvö skrapsár á vinstri hendi og bólgu og þrota á löngutöng hægri handar.

Í seinni lið ákærunnar sé ákærða gefið að sök að hann hafi veist með ofbeldi að B, fæddri [...], í því skyni að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök, en ákærði hafi veitt B eftirför austur Austurstræti frá Pósthússtræti, um Lækjargötu og austur Bankastræti og gripið um axlir B aftan frá er hún hafi gengið fram hjá Þingholtsstræti, ýtt henni ákveðið inn Þingholtsstrætið með því að halda með báðum höndum um hana aftan frá, tekið um andlit hennar er hún hafi reynt að hrópa á hjálp, skellt henni utan í mannlausa bifreið þannig að höfuð hennar hafi lent á bifreiðinni og hún fallið á hnén, togað í hana og ýtt henni niður á bakið á götuna og staðið klofvega yfir henni, og ekki látið af háttseminni fyrr en bifreið hafi komið akandi norður Þingholtsstrætið, en þá hafi ákærði hlaupið af vettvangi. Af árásinni hafi B hlotið klórför undir vinstra auga og framan á nefbrodd hægra megin, bólgur á hnjám, eymsli og bólgu á hægri framhandlegg, eymsli þvert yfir enni, aftan á hnakka og niður eftir hálshrygg, á herðasvæði, í mjóbaki og löngutöng hægri handar.

Séu brot ákærða samkvæmt báðum ákæruliðum talin varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Sakamálið hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 10. febrúar sl. Ákærði neitaði sök og ákveðið hafi verið að aðalmeðferð málsins muni fara fram miðvikudaginn 30. mars nk., eins og fram komi í þingbók máls nr. S-[...]/2016.

Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 18. desember sl. Fyrst hafi hann sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, þ. e. a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli R-[...]/2015 og dóm Hæstaréttar í máli nr. 848/2015. Frá 23. desember sl. hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, þ. e. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málum R-[...]/2015 og R-[...]/2016, sem báðir hafi verið staðfestir af Hæstarétti, sbr. dóma í málum nr. 854/2015 og 52/2016.

Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins, sem ákæran byggist á, er ákærði að mati héraðssaksóknara undir sterkum grun um að hafa framið ofangreind brot, með því að hafa ráðist fyrirvaralaust með ofbeldi á tvær konur í miðborg Reykjavíkur, með nokkurra mínútna millibili umrædda nótt, og gert tilraunir til að nauðga þeim. Samkvæmt framburðum brotaþola og vitna hafi það orðið brotaþolunum til bjargar í bæði skiptin að ákærði hafi orðið fyrir utanaðkomandi truflun. Refsing fyrir brot gegn ákvæðinu sem ákærði sé ákærður fyrir að hafa brotið varði fangelsi frá 1 ári og allt að 16 árum. Sakarefni málsins sé alvarlegt og standi ríkir almannahagsmunir til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á. Að mati héraðssaksóknara séu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt og hafi dómstólar í tvígang komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðunum sé fullnægt í máli þessu.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Skilyrði þess að gæsluvarðhaldi verði beitt samkvæmt ákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, er að sterkur grunur sé um að viðkomandi hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Með vísan til þess sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins þykir vera kominn fram sterkur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðar allt að 16 ára fangelsi. Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 18. desember sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en frá 23. desember á grundvelli almannahagsmuna. Með dómum Hæstaréttar Íslands í máli nr. 854/2015 og 52/2016, er lagt til grundvallar að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að ákærði sæti gæsluvarðhaldi, þar á meðal því að brot sé þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Að mati dómsins er ekkert komið fram sem breytir þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar í dómum Hæstaréttar.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður fallist á með Héraðssaksóknara að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 séu uppfyllt og ekki eru því efni til að fallast á kröfur verjanda. Er krafa um áframhaldandi gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

                X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæslu­varð­haldi allt til mánudagsins 14. mars 2016 kl. 16.