Hæstiréttur íslands

Mál nr. 237/2013


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Galli


                                     

Fimmtudaginn 7. nóvember 2013.

Nr. 237/2013.

Þrotabú TAP ehf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

gegn

Nýsköpunarmiðstöð Íslands

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Skaðabætur. Galli.

T ehf. krafði N um skaðabætur vegna galla í steypu sem félagið hafði fengið afhent frá steypustöðinni M ehf. og notað til byggingar á fasteign. Byggði T ehf. á því að starfsmönnum N hefði orðið á mistök við lögbundið gæðamat steypunnar sem hafi leitt til tjóns fyrir félagið. Talið var að fyrirsvarsmaður T ehf., sem jafnframt var byggingarstjóri framkvæmdanna, hefði gert starfsmönnum steypustöðvarinnar M ehf. grein fyrir því hvers konar steypu væri óskað eftir og hefði hann afhent þeim blað frá verkfræðistofu þar sem nánari fyrirmæli hefðu komið fram. Þá var jafnframt talið að það væri á ábyrgð steypuframleiðanda að steypa stæðist þær kröfur sem gerðar væru til hennar en að auki hafði T ehf. ekki sýnt fram á að í eftirlitshlutverki N hefði falist skylda til þess að fylgjast með daglegri steypuframleiðslu M ehf. Var N því sýknað af kröfu T ehf.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2013. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni sínu vegna galla á steypu sem keypt var af Steypustöðinni Mest ehf. á tímabilinu 12. júní 2007 til 30. maí 2008 og notuð var til byggingar á fasteigninni nr. 35 við Austurveg á Selfossi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Bú TAP ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 28. ágúst 2013 og hefur þrotabúið tekið við rekstri málsins.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, þrotabú TAP ehf., greiði stefnda, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 24. janúar 2013.

Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 29. nóvember sl., er höfðað með birtingu stefnu 7. og 11. nóvember 2011.

Stefnandi er TAP ehf., kt. 611298-6099, Eyravegi 55, Selfossi.

Stefndi er Nýsköpunarmiðstöð Íslands, kt. 580607-0710, Keldnaholti, Reykjavík. Upphaflega var sveitarfélaginu  Árborg, kt. 650598-2029, Austurvegi 2, Selfossi, einnig stefnt í máli þessu en undir rekstri málsins tókst samkomulag milli stefnanda og þessa stefnda um að fella málið milli þeirra niður án kostnaðar.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri  skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna galla á steypu sem keypt var af Steypustöðinni Mest ehf., á tímabilinu 12. júní 2007 – 30. maí 2008, og notuð var til byggingar á fasteigninni nr. 35 við Austurveg á Selfossi. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

             Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í  máli þessu og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

Málavextir.

            Stefnandi segist vera fyrirtæki sem sérhæfi sig í byggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Á árunum 2006-2008 hafi stefnandi m.a. byggt þrjár fasteignir á Selfossi úr steypu sem keypt hafi verið af Steypustöðinni Mest ehf., en það félag hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 30. júlí 2008. Stefnandi segir mál þetta einvörðungu varða fasteignina Austurveg 35, en hún hafi verið steypt á tímabilinu 1. júní 2007 – 30. maí 2008. Hafi steypan sem stefnandi keypti verið unnin úr efni sem tekið hefði verið úr Bíldfellsnámu á Selfossi, en Mest ehf. hefði á þessum tíma verið með rekstrarleyfi til efnistöku úr námunni útgefnu af byggingarnefnd sveitarfélagsins Árborgar. Fljótlega hafi komið í ljós að steypan hafi verið haldin umfangsmiklum göllum sem m.a. hafi lýst sér í því að plötur hafi farið að springa. Í framhaldi af þessu hafi stefnandi leitað til Línuhönnunar verkfræðistofu og óskað eftir rannsókn á því hver væri líkleg orsök steypuskemmdanna á fasteigninni Grafhólum 17-19. Hafi niðurstaða þeirrar rannsóknar legið fyrir 27. maí 2008 og hafi verið talið að steypan væri gölluð. Eftir að Mest ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota og því ljóst að stefnandi fengi ekki tjón sitt bætt frá þeim aðila hafi stefnandi sent sveitarfélaginu Árborg og stefnda Nýsköpunarmiðstöð Íslands bréf þann 12. janúar 2009 og krafist skýringa á tilteknum atriðum. Bréfinu til sveitarfélagsins hafi ekki verið svarað en þann 6. apríl sama ár hafi borist svarbréf frá stefnda, en um sé að ræða ríkisstofnun sem séð hafi um ytra eftirlit með Bíldfellsnámunni á grundvelli 131.10 gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Stefnandi taldi engin efnisleg svör felast í umræddu bréfi. Þann 29. mars 2010 sendi stefnandi sveitarfélaginu bréf þar sem óskað var eftir afstöðu til bótaskyldu og þá var skorað á sveitarfélagið leggja fram gögn til sönnunar á því að fyrir hafi legið jákvæð umsögn í skilningi framangreinds ákvæðis byggingarreglugerðar áður en Mest ehf. hafi verið veitt rekstrarleyfi á Selfossi. Sveitarfélagið hafi svarað 21. apríl sama ár og hafnað bótaskyldu, m.a. á grundvelli þess að í skýrslu stefnda væri getið um frostþolsprófanir sem gerðar hefðu verið á steypunni og hefði hún staðist prófanir. Þann 3. maí 2010 óskaði stefnandi eftir afstöðu sveitarfélagsins til bótaskyldu en með bréfi dagsettu 5. október sama ár var bótaskyldu enn hafnað en vísað til þess að stefndi hefði annast eftirlit og gert sjálfstæðar úttektir á steypu sem notuð hefði verið til steypugerðar og ættu niðurstöður að vera aðgengilegar þar.

            Með matsbeiðni dagsettri 22. desember 2010 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns til þess að skoða og meta ætlaða galla á steypu sem notuð hefði verið til að byggja fasteignina Austurveg 35 á Selfossi. Í fyrsta lagi var óskað eftir því að matsmaður léti uppi álit um það hvort steypan uppfylli þær gæðakröfur sem gerðar séu til hennar á grundvelli 131. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Í öðru lagi hvert sé hlutfall svokallaðs 3. flokks efnis í steypunni og hvort forsvaranlegt væri að nota svo hátt hlutfall 3. flokks efnis í steypu sem notuð sé til húsbygginga. Í þriðja lagi var spurt hvort matsbeiðandi hefði orðið fyrir tjóni ef steypan hefði ekki uppfyllt þær kröfur sem gera verði til hennar. Í fjórða lagi var spurt hvort matsbeiðandi hefði orðið fyrir tjóni ef niðurstaðan væri sú að ekki væri forsvaranlegt að nota svo hátt hlutfall 3. flokks efnis í steypuna. Þann 18. janúar 2011 var Sveinbjörn Sveinbjörnsson, byggingaverkfræðingur M.Sc. hjá Mannviti verkfræðistofu, dómkvaddur til starfans og er matsgerð hans dagsett 7. júlí 2011. Kemur fram í matsgerðinni að stefndi hafi skilað ársfjórðungsskýrslum þar sem sé að finna niðurstöður prófana sem gerðar hafi verið á steypunni úr Bíldfellsnámu. Matsmaður telur að steypan uppfylli ekki allar gæðakröfur sem gerðar séu til hennar á grundvelli 131. gr. áðurnefndrar byggingarreglugerðar og það sem helst skorti á sé að tegund sements og íblenda sé ekki getið í ársfjórðungsskýrslum og þá séu vottorð eða yfirlýsing um samræmi efnanna ekki í skýrslunum. Þá segir matsmaður að vottorð eða yfirlýsing um samræmi fylliefnis sé ekki í ársfjórðungsskýrslum og samsetning steypu (blöndunarhlutföll) séu óhagstæð m.t.t. rýrnunar og skriðs. Þá sé klóríðinnihald hlutefna og steypu ekki gefið upp og fjaðurstuðull steypu sé lægri en kröfur hönnuðar en það sé afleiðing af notkun óhæfs fylliefnis. Þá telur matsmaður samræmisprófunum og samræmismati ábótavant. Honum virðist framleiðandi ekki hafa gert allar þær prófanir á eiginleikum steypu sem nauðsynlegar hafi verið til að sýna fram á samræmi við tilgreindar kröfur. Matsmaður kvað 33-36% af fylliefninu í steypunni vera 3. flokks efni og standist slík steypa ekki kröfur hönnuðar um fjaðurstuðul. Matsmaður kvað megingallann á steypunni vera þann að fjaðurstuðull steypu í plötum sé mun lægri en tilgreint sé í tæknilýsingu hönnuðar, eða rétt um helmingur af því gildi sem tilgreint sé. Mikið vatnsmagn og hátt sementsefjuhlutfall í steypunni valdi m.a. meiri rýrnun og skriði steypunnar en ella. Afleiðingin sé að berandi plötur og bitar verði svagari fyrir bragðið og síga meira en ella, fleiri og víðari sprungur opnast. Meira sig á plötum og bitum valdi því að gólffletir sem vera áttu láréttir verði hallandi, útstandandi svalaplötur og loft verða sigin og fara e.t.v. yfir leyfilegar formbreytingar, sprungur opna leiðir fyrir tæringaröfl bæði að steypunni sjálfri og bendistál í henni, sigin loft og sprungur séu útlitsgallar og geti valdið ónotatilfinningu hjá fólki. Matsmaður taldi ekki forsvaranlegt að nota svo hátt hlutfall 3. flokks fylliefnis í steypu og taldi hann matsbeiðanda hafa orðið fyrir tjóni af þessum sökum.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

            Stefnandi byggir á því að lögbundnu eftirliti stefnda hafi verið ábótavant og hafi það leitt til tjóns fyrir hann. Hefði stefndi fylgt settum eftirlitsreglum hefði verið hægt að koma í veg fyrir tjónið. Stefnandi byggir á gr. 131.2 byggingarreglugerðar nr. 441/1998 en þar segi að gæðamat sements, steypuefnis og steinsteypu skuli unnið af óháðri rannsóknastofu sem hafi sérþekkingu á viðkomandi sviði og hafi hlotið viðurkenningu umhverfisráðuneytisins. Fyrir liggi að stefnda hafi verið falið þetta verk og hafi stofnunin skilað skýrslum sínum til byggingafulltrúa Árborgar. Í matsgerðinni sé staðfest að prófanir stefnda hafi verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu á grundvelli framangreindra ákvæða. Þá segi að ekki væri unnt að sjá að tölfræðileg úrvinnsla væri í samræmi við steypustaðalinn um samræmismat og ekki hafi verið að finna í skýrslunum hvert væri áætlað staðalfrávik þrýstistyrks fyrir framleiðsluna en það sé lykilstærð sem nota eigi til að meta samræmi. Engar upplýsingar hafi verið um klóríðinnihald hlutefna steypunnar eða steypunnar sjálfrar í ársfjórðungsskýrslum og engar upplýsingar um fjaðurstuðul steypu í fimm ársfjórðungsskýrslum sem matsmaður hafi skoðað og nái yfir byggingartíma hússins. Segi matsmaður að samræmismat hefði átt að ná yfir fjaðurstuðul eins og aðra tilgreinda eiginleika steypu. Meðalgildi mælds fjaðurstuðuls sé því aðeins um 54% af því sem tilgreint sé í tæknilýsingunni og megi telja víst að meginorsök fyrir svo lágum fjaðurstuðli sé fylliefnið. Um 30-40% fylliefnisins sé 3. flokks efni auk þess sem 10-20% korna í því flokkist sem mjög blöðrótt efni, meira en 25% blöðrótt. Hafi því augljóslega verið notað efni sem ekki hæfði fyrirhugaðri notkun. Í skýrslunum séu engar upplýsingar um prófanir eða mælingar á loftdreifingu í steypu. Loftmagn, fjarlægðarstuðull og virkt yfirborð í sýnunum sé í samræmi við skilyrði í tæknilýsingu hönnuðar að einu sýni undanskildu þar sem virkt yfirborð sé undir mörkum. Þá segir í matsgerð að tegund sements og íblenda sé ekki getið í ársfjórðungsskýrslum og þá sé vottorð eða yfirlýsing um samræmi fylliefnis ekki í þeim.

            Stefnandi telur ljóst að af matsgerð megi ráða að 3. flokks efni í steypunni sé allt of hátt eða að meðaltali á bilinu 33-36%. Matsmaður telji ekki forsvaranlegt að nota þetta fylliefni og megi almennt segja að að sé ekki forsvaranlegt að nota svo hátt hlutfall 3. flokks efnis í steypu til húsbygginga að það valdi því að steypan standist ekki kröfur sem til hennar verði að gera, bæði hvað varði eiginleika alla og endingu. Stefnandi vísar til ársfjórðungsskýrslu stefnda frá 15. september 2008 en þar segi að nokkrar berggreiningar úr Bíldfellsnámunni hafi verið gerðar á þessu tímabili og eins og áður flokkist hátt hlutfall efnisins sem 3. flokks og sé því mjög æskilegt að gera fleiri frostþolspróf á steypu með þessum fylliefnum. Telur stefnandi því ljóst að þessi steypa hefði aldrei átt að standast gæðamat stefnda og hefði stefndi átt að leggja til við byggingafulltrúa að hann bannaði notkun hennar uns úr hefði verið bætt. Þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem stefndi hafi mælt allt of hátt hlutfall 3. flokks efnis úr námunni, af ársfjórðungsskýrslu fyrir 1. ársfjórðung 2008 megi ráða að hlutfallið hafi að meðaltali verið um 33%. Stefnandi byggir á því að á stefndi hvíla óumdeilanlega lagaskylda til að gæðaprófa steinsteypuna úr Bíldfellsnámunni og rannsaka hvort skilyrði reglugerðarinnar væru uppfyllt. Stefndi geti ekki samið sig undan þessari lagaskyldu með samningi við tiltekinn steypuframleiðanda. Í gæðaprófun felist m.a. að prófa öll þau atriði sem matsmaðurinn hafi fjallað um og byggist skyldan annars vegar á texta reglugerðarinnar sjálfrar og hins vegar á beinni tilvísun 131.1. gr. reglugerðarinnar til staðalsins ÍST EN 206. Verði því að telja að jafnframt felist í hinu lögbundna gæðamati stefnda að rannsaka þau atriði sem staðallinn sjálfur tilteki að skuli prófa. Stefnandi vísar til ársfjórðungsskýrslna stefnda þar sem í mörgum tilvikum sé vísað beint í staðalinn varðandi kröfur sem prófanir þurfi að uppfylla og því sé ljóst að starfsmenn stefnda hafi sjálfir litið svo á að gæðamatið þyrfti að taka mið af staðlinum.

            Stefnandi telur matsgerð staðfesta að steypan hafi ekki staðist framangreindar kröfur og að prófunum stefnda hafi verið ábótavant. Þá sé staðfest með matsgerð að steypa með 3. flokks efni að 33-36% sé ónothæf. Fyrir liggi að stefndi hafi fengið mun hærra gildi eða allt að 40,1% út úr gæðamati á þeim tíma sem stefnandi byggði Austurveg 35 úr steypu sem fengin hefði verið úr Bíldfellsnámunni. Þá hefði áður mælst allt of hátt hlutfall úr námunni. Það eitt leiði til þess að steypan hefði í engum tilvikum átt að geta staðist umrætt gæðamat, enda um ónýta steypu að ræða og hefði stefndi átt að leggja til við byggingafulltrúa að hann bannaði notkun hennar uns úr hefði verið bætt, sbr. 131.10 gr. reglugerðarinnar. Þá beri að líta til þess að svo hátt hlutfall 3. flokks efnis í steypu sé almennt talið til galla en samkvæmt almennum viðmiðum sé ekki talið æskilegt að þetta hlutfall fari yfir 10%.

            Stefnandi bendir á þau ummæli stefnda að skýrslur stefnda séu ekki gæðavottorð eða liður í vottunarstarfsemi sem geti leyst stefnanda undan því að ganga úr skugga um með prófunum hvort steypan standist kröfur byggingarreglugerðar og mótmælir þeim harðlega. Um sé að ræða lögbundið gæðamat og hvíli skylda á stefnda að ganga úr skugga um að steypan standist byggingarreglugerð og þ.á m. öll þau atriði sem fram komi í 131. gr., sem og þá staðla sem ákvæðið vísi til. Tilgangur gæðamatsins sé að sjálfsögðu sá að framleiðendur sem og kaupendur geti reitt sig á það sem vottun fyrir því að steypan standist byggingarreglugerð og viðkomandi staðla. Um sé að ræða gríðarlega flókið mat sem kaupendur steypu geti að sjálfsögðu ekki framkvæmt sjálfir í einstökum tilvikum og verði því að reiða sig á mat stefnda.

            Stefnandi byggir á því að starfsmönnum stefnda hafi orðið á mistök við gæðamat steypunnar og hafi þau í fyrsta lagi falist í því að gæðamat hafi ekki verið framkvæmt að öllu leyti í samræmi við byggingarreglugerð og viðeigandi staðla. Í öðru lagi  hafi mistökin falist í því að stefndi hafi ekki beitt því úrræði sem stofnuninni sé fengið í 131. 10. gr. reglugerðarinnar, þ.e. að leggja til við byggingarfulltrúa að hann bannaði notkun steypunnar eftir að gæðamat hefði sýnt fram á að steypan væri ónothæf, einkum vegna hlutfalls 3. flokks efnis. Verði því að telja ljóst að um sé að ræða saknæma og ólögmæta háttsemi eða athafnaleysi starfsmanna stefnda sem stofnunin beri ábyrgð á á grundvelli ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar, þ.m.t. sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Staðfest hafi verið með matsgerð að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og beri því að viðurkenna bótabyrgð stefnda.

             Krafa stefnanda um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefnda.

            Stefndi byggir á því að hann og forveri hans, Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, hafi sinnt ytra eftirliti með framleiðslu Mest ehf., áður Steypustöðin ehf. Hafi stefndi tekið að sér að annast óháð eftirlit með steypuframleiðslu Mest ehf. í Reykjavík, Hafnarfirði og á Selfossi. Stefndi hafi hins vegar ekki tekið að sér að votta gæði steinefna þeirra sem Mest ehf. hafi notað við steypuframleiðslu sína á grundvelli gr. 131.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Hafi eftirlitið falist í því að yfirfara niðurstöður eiginprófana Mest ehf. á steypuframleiðslu sinni og taka stikkprufur af steypuframleiðslu á ofangreindum stöðum. Starfsmenn stefnda og Mest ehf. skyldu taka sýni fjórum sinnum á ári til að bera saman hugsanlegan mun á geymsluaðstæðum, sýnatökum, brotþolspressum og til athugunar á loftkerfum. Jafnoft hafi stefndi átt að fá sendar niðurstöður mælinga Mest ehf. á steinsteypu og fylliefnum sem félagið hefði sjálft gert á ofangreindum stöðum. Hafi átt að yfirfara þessi gögn m.t.t. krafna í staðli ÍST EN 200 og byggingarreglugerðar. Þá hafi stefndi átt að senda yfirlitsskýrslu til byggingarfulltrúa á ofangreindum stöðum. Þá hafi stefndi átt að taka 60 sýni  á ári af steypuframleiðslu Mest ehf. á byggingarstað, fimm þeirra á Selfossi.

            Stefndi byggir á því að hann hafi staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart Mest ehf. Öll sýni sem tekin hafi verið hafi staðist kröfur byggingarreglugerðar um gæði steinsteypu en stefndi segist ekki hafa haft eftirlit með svokallaðri Bíldfellsnámu á grundvelli gr. 131.10 í byggingarreglugerð. Stefndi bendir á að í matsgerðinni komi fram að þrýstistyrkur þeirrar steypu sem Mest ehf. hafi afhent stefnanda sé að fullu í samræmi við hönnunargögn Línuhönnunar varðandi burðarþol og sé steypan því ekki gölluð að þessu leyti. Þá komi fram í matsgerðinni að loftinnihald og vatns/sements hlutfall í steypunni sé bæði í samræmi við byggingarreglugerð og kröfur hönnuðar. Sérstaklega sé tekið fram að loftmagn steypu hafi verið í samræmi við tæknilýsingu hönnuðar fyrir steypu í Austurveg 35. Þá komi fram í matsgerð að vigtað sementsmagn í steypu sé vel yfir kröfum hönnuðar og byggingarreglugerðar. Einnig komi fram í matsgerð að veðrunarþol steypunnar sé innan þeirra marka sem hönnuður hafi sett. Þá staðfesti matsmaður að loftmagn, fjarlægðarstuðull, virkt yfirborð og loftinnihald steypunnar hafi verið innan þeirra marka sem hönnuður hafi fyrirskrifað.

            Stefndi segir umfjöllun matsmanns um þrýstistyrk máli þessu óviðkomandi í ljósi þess að steypa sem Mest ehf. hafi afhent stefnanda hafi haft þá kosti sem hönnuður hefði gert kröfu um. Hlutverk matsmanns hafi einungis verið að skoða og meta ætlaða galla á steypu sem notuð hafi verið að Austurvegi 35 en með umfjöllun sinni um þrýstistyrk sé matsmaður kominn langt út fyrir það verkefni sem honum hafi verið falið í matsbeiðni.

            Stefndi segist hvorki hafa vottað steypu framleidda af Mest ehf. né einstök efni til steypuframleiðslunnar, svo sem íblendi, íauka eða fylliefni. Stefndi bendir á að evrópski staðallinn fyrir steinsteypu, EN 206, hafi ekki verið samhæfður og því sé ekki heimilt að votta steypu með CE-merkinu. Þá kveðst stefndi ekki geta borið ábyrgð á því hafi einhver fylliefni, sem Mest ehf. hafi notað til steypuframleiðslu, ekki verið CE-vottuð.

            Stefndi byggir á því að ekkert samningssamband hafi verið milli stefnda og stefnanda. Stefndi hafi engin afskipti haft af framleiðslu steypu þeirrar sem notuð hafi verið í Austurveg 35 á tímabilinu 12. júní 2007 til 30. maí 2008. Stefndi beri því ekki ábyrgð á því hvort steypan hafi fullnægt sérkröfum hönnuðar um fjaðurstuðul, en hvergi sé vikið að fjaðurstuðli steypu í 131. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

            Stefndi segir Verkfræðistofuna Línuhönnun hafa unnið burðarþolsteikningar og mælt fyrir um steypuflokk hvers byggingarhluta og samsetningu steypunnar. Steypan sem steypustöðin hafi selt stefnanda hafi að mestu fullnægt þeim kröfum sem hönnuður burðarvirkisins hefði gert. Þá staðfesti matsmaður að fylliefni steypunnar hafi verið í samræmi við byggingarreglugerð að því er varði alkalívirkni og saltinnihald. Stefndi bendir á að í allar inniplötur hafi verið notuð loftblendin steypa sem leiði af sér lægri fjaðurstuðul. Hafi stefnandi ætlað sér að fá plötusteypu í samræmi við hönnunarkröfur um fjaðurstuðul hefði átt að panta hefðbundna innisteypu (steypu án loftblendis).

            Stefndi byggir á því að um byggingu Austurvegar 35 hafi gilt lög nr. 731997 og áðurgreind byggingarreglugerð. Séu burðarþolsteikningar Línuhönnunar hluti af hönnunargögnum hússins í skilningi 46. gr. laganna. Samkvæmt 51. gr. laganna hafi verið skylt að tilkynna byggingaryfirvöldum á Selfossi um byggingarstjóra vegna framkvæmdanna. Byggingarstjóri hafi verið Agnar Pétursson, en hann sé aðaleigandi stefnanda. Á honum hafi hvílt sú skylda að sjá til þess að húsið að Austurvegi 35 væri byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Þá hafi hvílt á honum sú skylda að velja steypu sem stæðist kröfur hönnuðar og fylgja því eftir gagnvart steypuframleiðandanum að afhent steypa hefði þá eiginleika sem hönnuður hefði mælt fyrir um, sbr. m.a. 31. gr. laga nr. 50/2000. Hafi matsmaður staðfest þetta hlutverk er hann segi að notendur þurfi að tilgreina þá eiginleika sem þeir óski eftir og framleiðendum beri að sýna fram á hvaða eiginleika framleiðsla þeirra hafi, s.k. samræmisyfirlýsing. Stefndi byggir á því að engin gögn hafi verið lögð fram um að byggingarstjóri hafi látið rannsaka þá steypu sem Mest ehf. hafi afhent. Hins vegar liggi fyrir að Línuhönnun hafi rannsakað gæði steypunnar í maí 2008 og virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að fjaðurstuðull afhentrar steypu hafi ekki fullnægt hönnunarkröfum. Stefndi byggir á því að hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sökum þess að steypan hafi ekki staðist kröfur hönnuða verði stefnandi að beina spjótum sínum að byggingarstjóra en hlutverk hans sé að sjá til þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Byggingarstjóri eigi að hafa ábyrgðartryggingu sem gildi í a.m.k. í fimm ár frá lokum þeirrar framkvæmdar sem hann stýrði, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga nr. 73/1997 og 3. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 um tilkynningar vegna galla í byggingarefnum. Í þessum ákvæðum byggingarlöggjafar og kaupalaga felist vernd hinna einstaklingsbundnu hagsmuna stefnanda.

            Stefndi bendir á að Línuhönnun hafi ekki krafist þess við hönnun burðarvirkis Austurvegar 35 að viðurkenndur vottunaraðili vottaði gæði steypunnar, en slíka kröfu hafi hönnuðurinn getað haft uppi, sbr. 10. gr. steypustaðalsins ÍST EN 206.

            Stefndi byggir á því að hvorki í stefnu né öðrum framlögðum skjölum sé sú staðhæfing studd með vísan til lagaákvæða að stefndi hafi sem ríkisstofnun átt að hafa með höndum lögbundið eftirlit með starfsemi Mest ehf., ef frá er talin tilvísun til 131. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Í því ákvæði sé ekki mælt fyrir um lögboðið eftirlit stefnda með steypuframleiðslu í landinu. Þá telur stefndi tjón það sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir falla utan verndartilgangs þess eftirlits sem mælt sé fyrir um í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sbr. og gr. 131.10  í byggingarreglugerð nr. 441/1998 um rekstrarleyfi steypustöðva og gæðamat óháðra rannsóknaraðila samkvæmt greinum 131.2. og 131.5. Geti stefnandi því ekki byggt kröfur sínar í  máli þessu á hendur stefnda á ákvæðum byggingarlöggjafarinnar um eftirlit með byggingarstarfsemi, gæðamati steinsteypu eða prófana á því hvort steinefni til steypuframleiðslu séu virk eða óvirk. Stefnandi hafi ekki sannað að stefndi hafi vanefnt samning sinn við Mest ehf., hvað þá að orsakasamband sé milli ætlaðs tjóns hans og vinnu stefnda í þágu Mest ehf. Matsgerðin staðfesti að steypan sem Mest ehf. hafi afhent stefnanda hafi haft alla þá eiginleika sem steypa eigi almennt að hafa. Staðfesti matsgerðin því í raun niðurstöður rannsókna stefnda á steypuframleiðslu Mest ehf.

            Stefndi segir stefnanda byggja kröfur sínar á almennum skaðabótareglum, þ.e. sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Samkvæmt þessum reglum beri aðili ábyrgð á tjóni sem hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun hans og raski hagsmunum sem verndaðir séu af skaðabótareglum. Stefnandi beri sönnunarbyrðina um sök stefnda og að tjón stefnanda sé sennileg afleiðing hennar. Hvorki í stefnu né í öðrum framlögðum gögnum sé að finna sönnun fyrir saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda sem orsakað hafi tjón stefnanda. Matsgerðin staðfesti hið gagnstæða, þ.e. að steypa framleidd af Mest ehf. hafi staðist almennar kröfur byggingarreglugerðar en að einhverju leyti ekki sérkröfur hönnuðar. Stefndi hafi ekki haft eftirlit með daglegri steypuframleiðslu Mest ehf. og geti því ekki borið ábyrgð á tjóni sem talið er að megi regkja til þess að afhent steypa fullnægi ekki sérkröfum hönnuðar. Hvíli ábyrgð á slíkri vanefnd væntanlega á steypuframleiðandanum og byggingarstjóra.

            Stefndi byggir á almennum reglum skaðabótaréttar utan samninga, ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og lögum um faggildingu nr. 24/2006. Krafa um málskostnað er byggð á 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

            Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna gallaðrar steypu sem stefnandi fékk afhenta frá steypustöðinni Mest ehf. á tímabilinu 12. júní 2007 – 30. maí 2008, og notuð var til byggingar á fasteigninni nr. 35 við Austurveg á Selfossi. Með samningi dagsettum 1. febrúar 2006 tók forveri stefnda, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, að sér ytra eftirlit með steypuframleiðslu Mest ehf. í Reykjavík, Hafnarfirði og á Selfossi með nánar tilteknum hætti. Ekkert samningssamband var á milli aðila máls þessa en stefnandi byggir málatilbúnað sinn á hendur stefnda á þeim grundvelli að lögbundnu eftirliti stefnda hafi verið ábótavant og hafi það leitt til tjóns fyrir hann. Hefði stefndi fylgt settum eftirlitsreglum hefði verið hægt að koma í veg fyrir tjónið. Steypustöðin Mest ehf. var úrskurðuð gjaldþrota 30. júlí 2008 og varð stefnanda þá ljóst að hann fengi tjón sitt ekki bætt frá þeim aðila. Sveitarfélaginu Árborg var upphaflega stefnt í máli þessu en samkomulag varð með stefnanda og þeim stefnda að fella málið milli þeirra niður án kostnaðar.

            Stefnandi hefur aflað matsgerðar í máli þessu og staðfestir dómkvaddur matsmaður að steypan sem notuð var við byggingu fasteignarinnar Austurveg 35 á Selfossi hafi ekki uppfyllt þær gæðakröfur sem gerðar séu til hennar á grundvelli 131. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Hafi hlutfall svokallaðs 3. flokks efnis í steypunni verið 33-36% og væri ekki forsvaranlegt að nota svo hátt hlutfall efnis í steypu til húsbygginga og taldi matsmaður stefnanda hafa orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Matsmaður hefur komið fyrir dóm og staðfest matsgerð sína og henni hefur ekki verið hnekkt með yfirmati. Verður því litið svo á að ekki sé ágreiningur um að umrædd steypa hafi verið haldin þeim göllum sem lýst er í matsgerðinni.

            Kemur þá til skoðunar hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á því að hin gallaða steypa var notuð við umrædda húsbyggingu. Agnar Pétursson, fyrirsvarsmaður stefnanda og byggingarstjóri vegna framkvæmdanna, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði gert starfsmönnum steypustöðvarinnar Mest ehf. grein fyrir  því hvers konar steypu væri óskað eftir og hefði hann í því skyni afhent þeim blað frá verkfræðistofunni Línuhönnun þar sem nánari fyrirmæli hefðu komið fram. Matsmaður staðfesti fyrir dómi að steypustöðin hefði verið í stakk búin til þess að afhenda þá tegund steypu sem óskað hefði verið eftir. Telja verður að það sé á ábyrgð steypuframleiðanda að steypa standist þær kröfur sem gerðar eru til hennar og uppfylli því áskilda kosti. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að í eftirlitshlutverki stefnda hafi falist skylda til þess að fylgjast með daglegri steypuframleiðslu Mest ehf. Með hliðsjón af framangreindum framburði fyrirsvarsmanns stefnda og matsmanns fyrir dómi og þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að stefndi hefði með nokkrum hætti getað komið í veg fyrir það tjón sem stefnandi varð fyrir, verður þegar af þessum ástæðum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli  þessu.

            Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 1.000.000 krónur í málskostnað.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

DÓMSORÐ:

            Stefndi, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, TAP ehf. í máli þessu.

            Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 krónur í málskostnað.