Hæstiréttur íslands

Mál nr. 511/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Vöruflutningar
  • Evrópska efnahagssvæðið
  • Refsiheimild
  • Fordæmi


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. júní 2005.

Nr. 511/2004.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Steinar Þór Guðgeirsson hrl.)

 

Bifreiðir. Vöruflutningar. Evrópska efnahagssvæðið. Refsiheimild. Fordæmi.

X var sakaður um umferðarlagabrot í fjórum tilvikum. Með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar 28. október 2004 í máli nr. 251/2004, þar sem sakarefni var hliðstætt, var X sýknaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2004 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Með ákæru 21. maí 2004 var ákærði sakaður um umferðarlagabrot í fjórum tilvikum. Er ákæruefnum lýst í I. – IV. kafla ákæru, sem tekin er upp í hinum áfrýjaða dómi. Af hálfu ákæruvalds hafa við málflutning fyrir Hæstarétti verið gerðar lagfæringar á lagatilvísunum í ákærunni. Í I. og II. kafla eigi að vísa til 1. mgr. 1. töluliðar 6. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 136/1995 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins með síðari breytingum, sbr. og viðauka I, sbr. 6. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem í gildi var þegar ætluð brot eiga að hafa verið framin á árinu 2002. Í III. kafla eigi að vísa til 1. töluliðar 7. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 136/1995 með síðari breytingum, sbr. og viðauka I, sbr. þágildandi 6. mgr. 44. gr. umferðarlaga. Loks beri í IV. kafla að vísa til 3. gr. og 2. töluliðar 15. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3821/85, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 136/1995, sbr. og viðauka II, sbr. þágildandi 6. mgr. 44. gr. umferðarlaga. Þá vísar ákæruvaldið nú einnig til 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga um refsiheimild, en til ákvæðisins er ekki vísað í ákærunni. Ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt þá háttsemi sem í ákæru greinir.

Með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar 28. október 2004 í máli nr. 251/2004, þar sem sakarefni var hliðstætt verður ákærði sýknaður af kröfu ákæruvalds.

Eftir þessum úrslitum ber að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvalds.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Steinars Þórs Guðgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 22. október 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 18. október s.l., er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans á Húsavík, útgefnu 21. maí 2004 á hendur X [...]:

„fyrir eftirfarandi umferðarlagabrot:

I.

með því að hafa, sem starfsmaður [...], ekið vörubifreið með skráningarnúmerið [...], frá kl. 10:06 miðvikudaginn 8. maí 2002 til kl. 01:44 fimmtudaginn 9. maí 2002, sem er um 11:21 klukkustunda akstur milli tveggja sólarhringshvílda og meira en leyfilegur 10 klukkustunda aksturtími.

Telst þetta varða við 6. gr. reglugerðar (EBE) nr. 3820/1985, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 136/1995, með síðari breytingum, sbr. 6. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

II.

með því að hafa, mánudaginn 20. maí 2002, sem starfsmaður [...], ekið vörubifreið með skráningarnúmerið [...], frá kl. 05:49 til kl. 21:11, sem er um 10:56 klukkustunda akstur milli tveggja sólarhringshvílda og meira en leyfilegur 10 klukkustunda aksturstími.

Telst þetta varða við 6. gr. reglugerðar (EBE) nr. 3820/1985, sbr 2. gr. reglugerðar nr. 136/1995, með síðari breytingum, sbr 6. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

III.

með því að hafa, á tímabilinu frá 02.05.2002 kl. 12:54 til 19:43 sama dag ekið virkan aksturstíma í 6:06 klukkustundir án þess að taka lögboðið hlé frá akstri.

Telst þetta varða við 7. gr. reglugerðar (EBE) nr. 3820/1985, sbr 2. gr. reglugerðar nr. 136/1995, með síðari breytingum, sbr 6. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

IV.

með því að hafa, notað skráningarblað, dagsett 16.05.2002 lengur en einn sólarhring og þar með tvískráð skráningarblaðið.

Telst þetta varða við 3. gr. og IV. kafla reglugerðar (EBE) nr. 3821/1985, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 136/1995, með síðari breytingum, sbr. 6. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði einungis gerð vægasta refsing sem lög leyfa.  Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna til skipaðs verjanda ákærða, Einars Sigurjónssonar hdl.

I.

Samkvæmt gögnum máls þessa óskaði Vegagerðin í bréfi, sem dagsett er 12. júní 2002 eftir skráningarblöðum hjá fyrirtækinu [...] úr vöruflutningabifreiðinni [...] á tímabilinu frá 1.-31. maí 2002.  Með kærubréfi dagsettu 12. júlí sama ár sendi Vegagerðin lögreglustjóranum á Húsavík kæruerindi vegna ætlaðra brota ákærða í máli þessu á reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna.  Í erindinu eru tiltekin fjögur ætluð brot ákærða í maímánuði 2002 og eru þau í samræmi við sakarefni þessa máls.  Þann 8. ágúst 2002 framsendi lögreglustjórinn á Húsavík lögreglustjóranum á Akureyri áðurnefnd gögn Vegagerðarinnar, með vísan til þess að ákærði hefði fastan dvalarstað þar í bæ.

Samkvæmt gögnum málsins sendi lögreglustjórinn á Akureyri ákærða sektargerð þann 14. ágúst 2002 með heimild í 115. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 þar sem tiltekin voru þrjú umferðarlagabrot og var þar vísað til þeirra laga- og reglugerðarákvæða sem tilgreind eru í ákæruskjali.  Var ákærða boðið að ljúka málinu með tiltekinni sektargreiðslu til ríkissjóðs þann 22. ágúst 2002.

Með bréfi dagsettu 26. ágúst 2002 endursendi lögreglustjórinn á Akureyri ofangreind gögn „til ákvörðunar/afgreiðslu“ til lögreglustjórans á Húsavík, með vísan til þess að ákærði hefði ekki fallist á að ljúka málinu með sektargerð, en tiltók jafnframt að ákærði hyggðist setja sig í samband við embættið.  Lögreglustjórinn á Húsavík sendi ákærða þann 8. október 2002 sambærilega sektargerð og áður var getið og var ákærða þar enn boðið að ljúka málinu með greiðslu sektar, eigi síðar en 22. október 2002.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Húsavík kom ákærði á lögreglustöðina á Húsavík að eigin frumkvæði þann 15. október 2002 „til að koma á framfæri andmælum varðandi kæru Vegagerðarinnar á hendur honum vegna meintra brota á reglum um aksturs- og hvíldartíma, sem og reglum um ökurita“.  Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða af þessu tilefni tjáði hann sig um þær sakargiftir, sem síðar urðu sakarefni máls þessa.  Í niðurlagi skýrslunnar er bókað að ákærði hefði ekki verið sáttur við sakargiftir og að hann hefði farið fram á að þær yrðu teknar til endurskoðunar.

Af gögnum málsins verður ráðið að ekki hafi frekari gagnaöflun farið fram fyrir útgáfu ákæruskjals þann 21. maí 2004, en ákæran barst Héraðsdómi Norðurlands eystra 25. sama mánaðar.

Héraðsdómur Norðurlands eystra sendi ákærða ákæruna ásamt fyrirkalli þann 27. maí og var hún birt honum 16. júní sama ár.  Málið var þingfest 22. júní s.l. og var ákærða þá jafnframt skipaður verjandi, en málinu að öðru leyti frestað vegna forfalla ákærða.  Aðalmeðferð málsins fór fram 18. október s.l.

II.

Fyrir dómi, líkt og við framangreinda skýrslugjöf hjá lögreglu þann 15. október 2002, viðurkenndi ákærði þá háttsemi sem honum er að sök gefin í I.-IV. kafla ákæru.  Ákærði staðfesti áritanir á ökuritaskífum úr bifreiðinni [...] sem Vegagerðin lagði hald á við frumrannsókn málsins, en áréttaði jafnframt fyrri skýringar sínar hjá lögreglu varðandi sakarefni I. og II. kafla ákæru, þ.á.,m. um að þung umferð hefði tafið akstur hans 8. og 20. maí 2002.  Varðandi sakarefni III. kafla ákærunnar gaf ákærði þá skýringu að hann hefði mislesið á klukku og því einungis tekið 40 mínútna hlé frá akstri í stað 45 mínútna.  Og um sakarefni IV. kafla ákærunnar staðhæfði ákærði að hann hefði týnt lykli að ökurita bifreiðarinnar og því neyðst til að aka tvo daga með sömu ökuritaskífuna.

Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu Sveinn Ingi Lýðsson, umferðareftirlitsmaður hjá Vegagerðinni.  Hann staðfesti rannsóknargögn Vegagerðarinnar og útskýrði nánar áritanir á þeim ökuritaskífum sem fyrir liggja í málinu.

Niðurstaða.

Með játningu ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins, er að áliti dómsins nægjanlega sannað að hann hafi með þeirri háttsemi sem lýst er í I. til IV. kafla ákæru brotið skýr ákvæði þeirra laga og reglugerða sem upp eru talin í ákæru, sbr. og ákvæði breytingareglugerða nr. 658, 1998, 768, 2000 og 851, 2000. 

Samkvæmt efni nefndra ákvæða er það tilgangur þeirra að tryggja umferðaröryggi og að koma í veg fyrir að ökumenn aki þreyttir og stofni með því umferðaröryggi í hættu.

Brot ákærða eru framin á tímabilinu frá 2. til 20. maí 2002.  Líkt og áður var rakið var ákærða ítrekað boðið að ljúka málinu með sektargerð lögreglustjóra á árinu 2002.  Verður lagt til grundvallar að ákærði hafi af því tilefni farið að eigin frumkvæði til skýrslugjafar hjá lögreglu á Húsavík þann 15. október 2002.  Við skýrslugjöfina hafði ákærði réttarstöðu grunaðs manns og lítur dómurinn svo á að fyrningarfrestur hafi þá rofnað, sbr. ákvæði 4. mgr. 82. gr. laga nr. 19, 1940.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki gerst sekur um refsivert hátterni áður.

Við ákvörðun refsingar þykir mega taka tillit til hins langa tíma er leið frá brotum ákærða og þar til ákært var í málinu svo og því að brot hans voru um sumt smávægileg.  Þykir refsing ákærða að þessu virtu hæfilega ákveðin kr. 35.000 í sekt til ríkissjóðs og komi 5 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Einars Sigurjónssonar hdl. kr. 65.000.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X, greiði kr. 35.000 í sekt til ríkissjóðs og komi 5 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Einars Sigurjónssonar hdl. kr. 65.000.