Hæstiréttur íslands

Mál nr. 189/2001


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Riftun
  • Skipaskrá


Þriðjudaginn 18

 

Þriðjudaginn 18. desember 2001.

Nr. 189/2001.

Útgerðarfélag Akureyringa hf.

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Reyni Sigurðssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Riftun. Skipaskrá.

Fallist var á, að taka skips af skipaskrá fæli í sér missi réttar til að sigla undir íslenskum fána í skilningi 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. og 5. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Fyrrnefnda ákvæðið felur þó ekki í sér sjálfkrafa riftun af hálfu útgerðarmanns heldur veitir það skipverja rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Um greiðslu á kaupi, ferðakostnaði og fæðispeningum fer þá sem segir í 25. gr. sjómannalaga. Litið var svo á, að skipverjinn R hefði rift skiprúmssamningi sínum við Ú hf. er hann neitaði að fylgja skipinu S til nýrra verkefna erlendis. Þar sem S hafði misst rétt til að sigla undir íslenskum fána var R heimil riftun og mátti hann þá vænta þess að halda óskertum ráðningarkjörum í þrjá mánuði í samræmi við 25. gr. sjómannalaga. Enda þótt R hefði tekið boði Ú hf. um skipsrúm á öðru skipi félagsins, var bótaréttur hans samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna ekki talinn hafa fallið niður, þar sem réttur þessi er háður lausn skipverja úr tilteknu skiprúmi af ástæðum, sem þar eru greindar. Við ákvörðun bóta var litið til meðallauna R næstu mánuðina fyrir starfslok.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. maí 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á dómkröfunni og verði málskostnaður þá felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Meðal nýrra gagna fyrir Hæstarétti er markaðs- og sölusamningur frá 1. mars 2000 milli annars vegar Nasco ehf. sem umboðsaðila og hins vegar áfrýjanda og UA Limited, Isle of Man, sem skipseiganda. Þar kemur meðal annars fram, að í umboði Vigomeras Co. Ltd. í Litháen útvegar Nasco ehf. skipseiganda gegn greiðslu þóknunar sóknardaga fyrir ms. Svalbak á Flæmingjagrunni og Barentshafi, nánar tiltekið 216 daga á Flæmska hattinum og 35 í Barentshafi á árinu 2000.

Hinn 3. mars 2000 sagði áfrýjandi allri áhöfn Svalbaks ÞH 6 upp störfum, þar á meðal stefnda, sem var vélstjóri á skipinu. Ástæða uppsagnanna var sögð sú, að ákveðið hefði verið að leigja skipið „í erlent verkefni næstu tvö til þrjú ár.“ Ákvörðunin hefði verið tekin í því skyni að styrkja rekstur félagsins í heild og myndi verða unnt að bjóða skipverjum um tíu störf í tengslum við hið nýja verkefni en þó aðallega yfirmönnum. Svalbakur var tekinn af skipaskrá 7. mars 2000 og lét úr höfn á Akureyri 2. apríl sama ár.

Stefndi þekktist ekki boð um að starfa áfram á skipinu. Hann tók hins vegar boði um skiprúm sem vélstjóri á öðru skipi áfrýjanda, Sléttbaki EA 4, og fór fyrstu veiðiferð sína með því 12. apríl 2000. Ekki mun hafa verið gerður skriflegur samningur milli hans og áfrýjanda um þetta skiprúm.

Lögmaður stefnda ritaði áfrýjanda bréf 11. apríl 2000, þar sem hann krafðist bóta með vísun til 1. mgr. 22. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á þeim forsendum, að áfrýjandi hefði rift skiprúmssamningi við hann með því að taka Svalbak af skipaskrá. Með bréfi lögmanns áfrýjanda 11. maí sama ár var kröfu stefnda hafnað.

Á það verður að fallast að taka skips af skipaskrá feli í sér missi réttar til að sigla undir íslenskum fána í skilningi 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga, sbr. og 5. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Fyrrnefnda ákvæðið felur þó ekki í sér sjálfkrafa riftun af hálfu útgerðarmanns heldur veitir það skipverja rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Um greiðslu á kaupi, ferðakostnaði og fæðispeningum fer þá sem segir í 25. gr. sjómannalaga.

Líta verður svo á, að stefndi hafi rift fyrri skiprúmssamningi sínum við áfrýjanda, þegar hann neitaði boði hans um að fylgja skipinu til nýrra verkefna erlendis. Þar sem Svalbakur hafði misst rétt til að sigla undir íslenskum fána var stefnda heimil riftun og mátti hann þá vænta þess að halda óskertum ráðningarkjörum í þrjá mánuði í samræmi við ákvæði 25. gr. sjómannalaga. Bótaréttur samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna er háður lausn skipverja úr tilteknu skiprúmi af ástæðum, sem þar eru greindar, og fellur ekki niður, þótt hann starfi áfram hjá sama útgerðarmanni á öðru skipi. Á stefndi því rétt á bótum eftir 25. gr. sjómannalaga.

Við ákvörðun bóta samkvæmt þessu lagaákvæði ber að líta til launa stefnda næstu mánuðina fyrir starfslok samkvæmt fyrri skiprúmssamningi, enda er viðmiðun við kjör hans á árunum 1998 og 1999 háð mikilli óvissu vegna mismunandi útgerðarhátta skipsins á þeim árum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2001 í máli nr. 197/2001. Verður þá að fallast á það með héraðsdómara, að ekki sé við annað að miða en þau meðallaun, sem stefndi krefur um og ekki hafa sætt tölulegum andmælum. Málinu var ekki gagnáfrýjað til endurskoðunar á ákvörðun héraðsdóms um tímabil greiðslu samkvæmt 25. gr. sjómannalaga og þarf þá ekki að taka afstöðu til upphafstíma hennar. Nemur bótafjárhæð vegna 86 daga því 2.530.464 krónum að meðtöldu orlofi. Frá þessari greiðslu dregur héraðsdómur kauptryggingu á uppsagnarfresti, 336.365 krónur, og hefur sú fjárhæð ekki verið dregin í efa. Þar sem stefndi tók í framhaldi riftunarinnar við öðru starfi á vegum áfrýjanda þykir rétt, að jafnframt komi til frádráttar þær launagreiðslur, sem hann naut á tímabilinu frá 12. apríl til loka uppsagnarfrests 3. júní 2000. Af gögnum málsins verður ráðið, að þær hafi numið að minnsta kosti 1.370.057 krónum, en áfrýjandi hefur þó ekki gert skýra grein fyrir þessum fjárhæðum til frádráttar. Samkvæmt því ber áfrýjanda að greiða stefnda 824.042 krónur með dráttarvöxtum frá 11. maí 2000, eins og nánar greinir í dómsorði.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem um er mælt í dómsorði. Við ákvörðun málskostnaðar er litið til þess, að mál þetta er eitt af þremur samkynja málum, sem lögmaður hans hefur flutt samhliða á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Útgerðarfélag Akureyringa hf., greiði stefnda, Reyni Sigurðssyni, 824.042 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. maí 2000 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. mars 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 2. febrúar s.l., hefur Reynir Sigurðsson, kt. 231065-4079, Sunnuhlíð 10, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Útgerðarfélagi Akureyringa hf., kt. 670269-4429, Fiskitanga, Akureyri, með stefnu birtri þann 21. ágúst 2000.

Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefnda verði dæmt til að greiða honum fjárhæð kr. 2.648.160,- auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá 11. maí 2000 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til þess að hann er ekki virðisaukaskattskyldur

Stefnda gerir þær dómkröfur aðallega, að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.  Þá krefst stefnda þess, að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.

 

Málsatvik samkvæmt gögnum málsins eru þau, að stefnandi réðst til starfa hjá stefnda, sem 1. vélstjóri á b.v. Svalbak EA, síðar Svalbakur ÞH-6, árið 1994. Á árunum 1997-1999 var sá háttur hafður á, að skipið var leigt að vori til Mecklenburger Hochseefischerei til veiða úr úthafskarfakvóta, sem það félag hafði yfir að ráða, en kom úr leigu að hausti.  Árið 1999 hóf Svalbakur veiðar að nýju á Íslandsmiðum þann 21. nóvember.  Það var síðan 3. mars 2000 sem allri áhöfn skipsins var sagt upp, þ.m.t. stefnanda.

Þann 7. mars 2000 var Svalbakur tekinn af aðalskipaskrá vegna leigu skipsins til litháenskrar útgerðar.  Kveður stefnda að það hafi samið við hina erlendu útgerð um samvinnu við útgerð Svalbaks og í samstarfi aðila hafi m.a. falist, að stefnda legði til yfirmenn á skipið og annaðist um greiðslu launa þeirra.

Var stefnanda boðin áframhaldandi staða á skipinu, en hann hafnaði því boði.  Kaus stefnandi frekar að taka boði um skiprúm á öðru skipi stefnda, Sléttbaki EA-4, og fór hann sína fyrstu veiðiferð með skipinu þann 12. apríl 2000.

Stefnandi krafði stefnda um bætur vegna riftunar skiprúmssamnings með bréfi dags. 11. apríl 2000, en stefnda hafnaði kröfum stefnanda með svarbréfi dags. 11. maí 2000.  Stefnandi höfðaði því mál þetta.

 

Af hálfu stefnanda er byggt á því, að stefndi hafi rift við hann ráðningu.  Honum beri þ.a.l. réttur til meðalbóta í þriggja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985.

Stefnandi kveður að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga teljist ráðningarsamningi rift þegar skip missi rétt til að sigla undir íslenskum fána.  Um greiðslu á kaupi í þessum  tilvikum fari samkvæmt 25. gr. sjómannalaga, en í henni sé vísað til 9. gr. laganna þar sem mælt sé fyrir um þriggja mánaða uppsagnarfrest yfirmanna.  Ekki skipti máli hvort skipverji hafi tekjur á riftunartímanum eða ekki.  Þá skipti ekki heldur máli hvar hann ráði sig til starfa eftir riftun, hvort heldur það sé á sama skip hjá óskyldum útgerðaraðila eða annars staðar.

Hvað upphafstíma riftunar varði þá kveður stefnandi rétt að miða við þann dag, sem riftun hafi átt sér stað.  Í þessu tilviki þegar skipið hafi misst rétt til að sigla undir íslenskum fána er skipið hafi verið tekið af íslenskri skipaskrá þann 7. mars 2000.  Stefnandi kveður engu breyta um upphafstíma riftunar að skipverja hafi áður verið sagt upp störfum með löglegum fyrirvara, eða eftir atvikum skipverjinn sjálfur sagt upp störfum.  Undanfarandi uppsögn ráðningarsamnings breyti engu um réttaráhrif riftunar, en það þyrfti að koma skýrt fram í lögum, fræðikenningum eða dómum, ef svo ætti að vera.  Upphaf riftunartímans eigi því ávallt að miðast við riftunina sjálfa.

Stefnandi kveðst gera kröfu um meðalbætur frá riftunardegi miðað við 7. mars 2000 og í þrjá mánuði þaðan í frá í samræmi við áðurnefndan þriggja mánaða uppsagnarfrest, sbr. 25. gr. sjómannalaga.  Tímabil riftunar sé því 7. mars til 7. júní 2000.

Kveðst stefnandi eiga rétt til óskertra launa í samræmi  við meðalbótaregluna í þrjá mánuði,  án tillits til hugsanlegra frítúra.  Hann eigi rétt á aflahlut er miðist við eigin aflareynslu, en ekki þá aflareynslu sem myndast hafi hjá hinum nýja útgerðaraðila skipsins eftir að riftunin átti sér stað.  Riftunarkrafa skipverja sé skaðabótakrafa og greiða beri á hana orlof og af henni dráttarvexti frá 6. maí 2000, sbr. 15. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987.

Varðandi útreikning meðalbóta þá kveðst stefnandi styðjast við meðallaun undanfarinna mánaða á b.v. Svalbaki ÞH-6 út frá aflareynslu skipsins tímabilið frá 21. nóvember 1999, er skipið hafi hafið veiðar aftur á Íslandsmiðum og til 7. mars 2000, er skipið hafi verið tekið af skipaskrá.  Kveðst stefnandi ítreka að viðmiðun við útreikning bóta vegna riftunar skuli byggjast á því hvað viðkomandi sjómaður hafi haft í laun fyrir riftun.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á 22. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985, sbr. 25. og 9. gr. laganna.  Um réttaráhrif riftunar sé vísað til almennra reglna samningaréttar.  Þá vísist til dóma Hæstaréttar frá; 1976 bls. 578, 1990 bls. 1246, 1989 bls. 174, 1988 bls. 518, 1998 bls. 656 og 1996 bls. 4060.

Um dráttarvexti vísist til III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, sbr. 15. gr. laganna.  Um málskostnað vísist til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 og um virðisaukaskatt til laga nr. 50, 1988.

 

Stefnda kveðst byggja á því, að með gerð nýs skiprúmssamnings um stöðu á skipi stefnda, Sléttbaki EA-4, hafi fallið niður réttur stefnanda til launa og annarra greiðslna samkvæmt uppsagnarbréfi stefnda dags. 3. mars 2000.  Framsetning stefnanda þess efnis, að hann geti annars vegar samþykkt nýjan skiprúmssamning og hins vegar rift honum, og þannig komist í einhverskonar tvöfalda réttarstöðu gagnvart stefnda, gangi ekki upp.

Kveðst stefnda hafa greitt stefnanda, auk launa samkvæmt nýjum skiprúmssamningi á Sléttbaki EA-4, kauptryggingu og orlof til 3. júní 2000 með sama hætti og greitt hafi verið til þeirra yfirmanna sem vildu losna úr skiprúmi.  Þetta hafi stefnda gert án skyldu eða samkomulags við stefnanda í því skyni að tryggja að stefnandi og aðrir yfirmenn, sem endurnýjuðu skiprúmssamninga sína, fengju ekki minna greitt en þeir sem fóru úr skiprúmi til starfa annars staðar.  Í þessum aukagreiðslum hafi ekki falist viðurkenning á því af hálfu stefnda, að stefnandi ætti rétt til frekari launa en samkvæmt hinum nýja ráðningarsamningi.

Þá kveðst stefnda hafna þeim forsendum, sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á, þ.e. að stefnda hafi rift ráðningu stefnanda.  Riftun samninga geti ekki átt sér stað nema með ákvöð, þ.e. tilkynningu þess sem vilji rifta.  Tilkynning um riftun verði að eiga sér stað með sannanlegum hætti, oftast skriflega en stundum munnlega eða jafnvel með afgerandi háttsemi sem jafnað verði til tilkynningar um riftun.  Stefnda kveðst hafna því að hafa á einhverjum tímapunkti rift samningi stefnanda heldur hafi þvert á móti verið gilt vinnuréttarsamband milli aðila allt til loka uppsagnarfrests þann 3. júní 2000, en þá hafi vinnuréttarsambandi aðila lokið fyrir uppsögn, sbr. bréf lögmanns stefnanda dags. 19. apríl 2000 og 1. maí 2000.

Í 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 sé hvorki kveðið á um slíka sjálfkrafa riftun á skiprúmssamningi, sem stefnandi byggi á, né sé þar að finna heimild til handa stefnda til að rifta skiprúmssamningi vegna þeirra tilvika sem þar séu greind.

Þá kveðst stefnda byggja á því, að sú megin röksemd stefnanda, að hann geti átt rétt til skaðabóta eftir ákvæðum 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985, standist ekki, enda taki greinin ekki til þess tilviks sem um ræði í málinu.  Í 1. mgr. 22. gr. sé fjallað um rétt sjómanns til að losna úr skiprúmi í þeim tilfellum er skip missi rétt til að sigla undir íslenskum fána.  Skip stefnda Svalbakur ÞH-6 hafi ekki misst rétt til að sigla undir íslenskum fána og verði þeirri ákvörðun stefnda, að taka skipið af skipaskrá vegna leigu þess erlendis, hvorki komið undir orðalag 1. mgr. 22. gr. né verði ætlað að greininni hafi verið ætlað að taka til slíkra tilfella.

Þá kveðst stefnda telja, að úrlausn þess álitaefnis, hvort stefnandi hafi eftir 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga átt rétt til að losna undan skiprúmssamningi sínum, geti ekki skipt máli fyrir niðurstöðu máls þessa þar sem ekki hafi komið til ágreinings um heimild stefnanda til að losna undan skiprúmssamningi sínum, heldur hafi aðilar samið sérstaklega um að svo skyldi vera og að stefnandi tæki stöðu á öðru skipi stefnda.  Á engum tíma hafi það staðið til af hálfu stefnda, að þvinga stefnanda til áframhaldandi starfa um borð í Svalbaki eða reyna að halda upp á hann skiprúmssamningi.  Stefnda hafi látið það í hendur stefnanda og annarra yfirmanna um borð, að velja hvort þeir kysu fremur að vera áfram í skiprúmi eða losna vegna þeirra breytinga, sem til stóð að gera á úthaldi skipsins.  Á þennan hátt hafi stefnanda, með samningi við stefnda, verið boðið að taka afstöðu til þess hvort hann vildi losna úr skiprúmi eða ekki og því hafi ekki reynt á það hvort stefnandi hefði einhliða rétt til að losna úr skiprúmi.  Ekki sé um það deilt, að stefnandi hafi kosið að losna úr skiprúmi á Svalbak ÞH-6 og jafnframt samið við stefnda um að fá skiprúm á Sléttbak EA-4.  Stefnda telji sig því hafa efnt að fullu skyldur sínar gagnvart stefnanda í samræmi við skiprúmssamning hans á hverjum tíma og því eigi stefnandi engar frekari kröfur á stefnda.

Verði talið að leysa þurfi úr því, hvort stefnandi hafi átt einhliða rétt til að losna úr skiprúmi, kveðst stefnda byggja á því að svo hafi ekki verið.  Sú breyting sem átt hafi sér stað á útgerðarháttum Svalbaks ÞH-6 með leigu skipsins og samvinnu stefnda við erlendan útgerðaraðila hafi ekki haft þær breytingar á réttarstöðu stefnanda, eða annarra skipverja, sem heimilað hefði þeim riftun skiprúmssamnings.  Hafa verði í huga, að veiðar í samvinnu við erlendan aðila með þessum hætti hafi verið orðið reglubundinn háttur á útgerð skipsins, sem stefnandi hafi tekið þátt í og samþykkt með áralangri ráðningu sinni.  Hafi stefnandi talið eða viljað byggja á því gagnvart stefnda að það hafi verið forsenda fyrir skiprúmssamningi hans, að ekki kæmi til þess að skipið yrði tekið af íslenskri skipaskrá, þá hafi honum borið að hætta þegar á árinu 1997, er skipið hafi verið tekið af íslenskri skipaskrá.  Skipið hafi aftur verið tekið af íslenskri skipaskrá árin 1998 og 1999 án þess að stefnandi héldi því fram, að slík afskráning bryti gegn forsendum hans fyrir ráðningu eða gerði stefnda með öðrum hætti kunnugt um að hann teldi slíkt fela í sér riftun skiprúmssamnings hans.  Það hafi ekki verið fyrr en í apríl 2000, sem því hafi verið haldið fram af hálfu stefnanda, að það varðaði riftun ráðningu hans í skiprúm á Svalbak ÞH-6 að taka skipið af íslenskri skipaskrá.  Slík málsmeðferð fái ekki staðist.  Stefnandi hafi í verki samþykkt framangreint fyrirkomulag á skiprúmssamningi sínum og með þögn sinni skapað stefnda trú um að samkomulag ríkti um þetta fyrirkomulag, sbr. einnig 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga.

Stefnda kveðst einnig byggja á því, að þrátt fyrir að talið verði að stefnandi eigi rétt til bóta eftir ákvæðum 22. gr. sjómannalaga þá beri að sýkna stefnda þar sem hann hafi greitt stefnanda full laun í uppsagnarfresti, enda geti hugsanlegar bætur skv. 25. gr. ekki numið annarri fjárhæð en fullum launum í uppsagnarfresti.  Í þessu sambandi kveðst stefnda vísa sérstaklega til 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga.  Þá áréttar stefnda að stefnandi hafi ekki haldið því fram, að launagreiðslur í uppsagnarfresti hafi vantað.

Verði talið að stefnandi eigi bótakröfu á hendur stefnda vegna riftunar á skiprúmssamningi hans og sú krafa talin hærri en sem nemi þeim launum sem stefnda hafi greitt honum, kveðst stefnda byggja á því að krafa stefnanda sé allt of há og hana beri að lækka.

Við ákvörðun bóta eftir ákvæði 25. gr. sjómannalaga verði að líta til kjarasamnings aðila auk dómafordæma.  Krafan um svokölluð meðallaun eigi hvorki stoð í kjarasamningi aðila né sjómannalögum.  Geti bætur vegna riftunar á skiprúmssamningi, að áliti stefnda, aldrei orðið hærri en sem nemur þeim launum, er stöðunni fylgdu. 

Samkvæmt upplýsingum stefnda hafi verið farnar tvær veiðiferðir á skipinu innan uppsagnartíma stefnanda, sú fyrri hafi staðið frá 10. apríl til 16. maí 2000 en sú síðari frá 17. maí til 19. júní 2000.  Ef stefnandi hefði farið báðar þessar veiðiferðir hefði hlutur hans (brúttó laun), miðað við útreikninga stefnda, orðið kr. 765.962,- fyrir fyrri veiðiferðina en kr. 504.626,- fyrir þá síðari.  Síðari veiðiferðin hafi staðið í 34 daga.  Ef hún sé reiknuð hlutfallslega miðað við starfslok stefnanda þann 3. júní 2000 verði hlutur stefnanda í þeirri ferð kr. 267.155,-.  Sú aflahlutdeild sem stefnandi hafi misst af á uppsagnarfrestinum nemi því kr. 1.033.117,-.

Tekur stefnda fram, að á Svalbaki ÞH-6 hafi verið tekið upp skiptakerfi sem falið hafi í sér að hver skipverji hafi farið í eina ferð en verið aðra í fríi.

Þá eigi frá ofangreindum launum að draga greidda kauptryggingu fyrir tímabilið 10. apríl til 3. júní 2000 samtals kr. 207.295,-.  Samkvæmt þessu séu ógreidd staðgengilslaun stefnanda að hámarki kr. 825.822,-.

Stefnda kveðst einnig mótmæla sérstaklega meðallaunaútreikningi stefnanda sem sé augljóslega rangur og ekki í samræmi við framlagða launaseðla.  Mikið misræmi sé á milli framlagðra gagna, útreiknings og málsástæðna í stefnu.  Þannig sé því ranglega haldið fram í stefnu, að kröfugerð stefnanda byggist á þeim launum sem hann hafi haft fyrir riftunina.  Þá sé aðfinnsluvert að stefnandi skuli ekki gera grein fyrir þeim launagreiðslum sem hann hafi fengið frá stefnda og draga þær frá kröfunni.

Stefnandi hafi lagt fram afrit af launaseðlum sínum fyrir nefnt viðmiðunartímabil 21. nóvember 1999 til 7. mars 2000 og séu heildarlaun stefnanda fyrir það tímabil kr. 1.678.449,- eða kr. 15.686,- á dag miðað við 107 daga.  Mótmæli stefndi því að stefnandi geti átt rétt til launa fyrir lengra tímabil en sem nemi fyrirhuguðum ráðningartíma eða til 3. júní 2000.

Verði að einhverju leyti fallist á kröfur stefnanda um bætur kveðst stefndi krefjast þess að laun stefnanda hjá stefnda á uppsagnarfrestinum komi ávallt til frádráttar kröfum stefnanda, en samtals hafi stefnandi fengið greiddar kr. 336.365,- frá stefnda á þeim hluta uppsagnarfrests, sem um sé deilt í málinu, þ.e. frá 6. mars til 3. júní 2000.

Stefnda kveðst mótmæla kröfu stefnanda um dráttarvexti og telur að ekki séu forsendur til að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppkvaðningu, verði fallist á einhverjar kröfur stefnanda.

Um málskostnaðarkröfu kveðst stefnda vísa til XXI. kafla laga nr. 91, 1991.

 

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 á skipverji rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi, missi skip rétt til að sigla undir íslenskum fána, nema um annað hafi sérstaklega verið samið.  Þá segir jafnframt í 1. mgr., að um greiðslu á kaupi, ferðakostnaði og fæðispeningum fari þá sem segi í 25. gr. laganna.

Skip stefnda, Svalbakur ÞH-6, var þann 7. mars 2000 tekið af íslenskri skipaskrá vegna fyrirhugaðra veiða skipsins undir litháenskum fána utan íslenskrar efnahagslögsögu.  Í ljósi þessa og með vísan til 1., 2. og 15. gr. laga nr. 115, 1985 um skráningu skipa er það álit dómsins, að Svalbakur ÞH-6 hafi þann 7. mars 2000, er skipið var tekið af skipaskrá, misst rétt til að sigla undir íslenskum fána í skilningi 1. mgr. 22. gr. laga nr. 35, 1985.

Með bréfi dags. 11. apríl 2000 setti stefnandi fram kröfur á hendur stefnda vegna töku Svalbaks ÞH-6 af hérlendri skipaskrá, með vísan til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 35, 1985.  Er það álit dómsins, að með bréfi þessu hafi stefnandi krafist lausnar úr skiprúmi sínu á Svalbak, enda koma ástæður kröfugerðarinnar skýrlega fram í bréfinu sem og tilvísun stefnanda til 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga.

Fyrir liggur að stefnanda var boðið að fylgja skipinu yfir til hins litháenska leigutaka, en hann hafnaði því boði. 

Ekkert hefur komið fram í málinu sem styður þær fullyrðingar stefnda, að stefnandi hafi með samningi eða á annan hátt afsalað eða glatað áðurgreindum rétti til að krefjast lausnar úr skiprúmi, en fyrri ákvarðanir stefnanda, um að fylgja skipinu til erlends leigutaka án þess að setja jafnhliða fram kröfur um greiðslu kaups með vísan til 1. mgr. 22. gr., sbr. 25. gr. sjómannalaga, geta ekki talist bindandi fyrir stefnanda í því tilfelli, sem hér er til úrlausnar.  Þá hefur stefnda ekki tekist að sanna gegn andmælum stefnanda, að stefnandi hafi, er hann tók boði stefnda um stöðu á Sléttbaki EA-4, afsalað umræddum rétti samkvæmt 1. mgr. 22. gr., sbr. 25. gr, en sú staðreynd að stefnandi fór sína fyrstu veiðiferð á Sléttbaki þann 12. apríl 2000, degi eftir að kröfubréf hans var skrifað, þykir þvert á móti benda til hins gagnstæða.

Samkvæmt 25. gr. laga nr. 35, 1985, sem títtnefnd 1. mgr. 22. gr. laganna vísar beint til, á skipverji, sem ákvæðið tekur til, rétt á kaupi í þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. laganna.  Samkvæmt 2. mgr. 9. gr., sem á við um stefnanda, skal uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi yfirmanns vera þrír mánuðir nema um annað hafi sérstaklega verið samið.

Fyrir liggur að stefnanda, líkt og öðrum skipverjum Svalbaks ÞH-6, var sagt upp störfum þann 3. mars 2000.  Ráðningarsambandi hans og stefnda, vegna starfa stefnanda sem 1. vélstjóra á Svalbaki ÞH-6, lauk því að liðnum 3 mánaða uppsagnarfresti stefnanda þann 3. júní s.á.  Stefnandi á hins vegar rétt á kaupi samkvæmt 25. gr. laga nr. 35, 1985 í 86 daga af þeim 90, sem féllu innan uppsagnarfrests hans, sbr. það sem að framan hefur verið rakið og 28. gr. sjómannalaga, en rétt þykir að upphafstími kaupgreiðslna samkvæmt 25. gr. miðist við 7. mars 2000, þ.e. afskráningardag Svalbaks ÞH-6.

Í 25. gr. sjómannalaga er kveðið á um greiðslu kaups til skipverja sem vikið er úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. laganna.  Þá segir í 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga, að í þeim tilvikum, sem greinin taki til, fari um greiðslu kaups samkvæmt 25. gr. laganna.  Þar sem í 25. gr. er fjallað um greiðslu kaups vegna heimildarlausrar brottvikningar skipverja úr skiprúmi og í 1. mgr. 22. gr. um missi réttar skips til að sigla undir íslenskum fána, sem leitt getur til mikilla breytinga á útgerðarstað skipsins og útgerðarháttum að öðru leyti, er það álit dómsins, að kaupgreiðslur til skipverja samkvæmt 25. gr. verði að leiða til þess að hann missi í engu af launum sínum, sbr. hér til hliðsjónar almennar reglur vinnuréttar.

Við ákvörðun kaups til handa stefnanda er, að mati dómsins, ótækt að miða við meðallaun á árinu 1999 út frá lögskráningardögum, líkt og stefnda hefur krafist, þar sem fyrir liggur að stóran hluta úr árinu var skipið í leigu hjá erlendri útgerð.

Er í mörgu óljóst um stöðu stefnda eftir leigu skipsins til hins litháenska aðila.  Þar sem stefnda hefur ekki hirt um að leggja fram leigusamning félagsins við hinn erlenda leigutaka þykir það verða að bera hallan af nefndri óvissu.  Er það því álit dómsins, að líkur standi til þess, að á umræddum tíma hafi skipið ekki verið gert út af stefnda, sbr. að stefnda sagði allri áhöfn Svalbaks ÞH-6 upp með bréfi dags. 3. mars 2000 og að skipið var tekið af íslenskri skipaskrá þann 7. mars s.á.  Þykir því við ákvörðun kaups stefnanda ekki heldur verða miðað við meðallaun út frá aflareynslu eftir leigu skipsins.  Að öllu framangreindu athuguðu er því ekki við annað að miða en þau meðallaun, sem stefnandi krefur um.

Stefnandi kveðst við útreikninga sína miða við þrjár veiðiferðir sem farnar hafi verið tímabilið 21. nóvember 1999 til 7. mars 2000, samtals 107 daga.

Veiðiferð 21. nóvember til 23. desember 1999.  Hásetahlutur kr. 607.962,-.

Veiðiferð 2. til 30. janúar 2000.  Hásetahlutur kr. 552.944,-.

Veiðiferð 4. febrúar til 7. mars 2000.  Hásetahlutur kr. 833.430,-.

Samtals hásetahlutur sé því kr. 1.994.336,- og hlutur 1. vélstjóra 1,33 hásetahlutur eða kr. 2.652.466,-.  Þá reiknist auk þess eftirtaldir launaliðir til 1. vélstjóra umrædda 107 daga:  Fatapeningar kr. 8.624,-, föst laun kr. 9.184,- starfsaldursálag kr. 15.194,-, fæðispeningar kr. 86.349,- og aukagreiðslur 1. vélstjóra samkvæmt úrskurði frá 10. maí 1999 kr. 86.000,-.

Samtals hafi greiðslur til 1. vélstjóra á umræddu 107 daga tímabili átt að nema kr. 2.857.817,- auk orlofs 10,17 %, samtals kr. 3.148.456,-.  Meðallaun á dag hafi því samkvæmt framangreindu numið kr. 29.424,-.

Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið, þykir í málinu mega miða við framangreindan útreikning stefnanda við ákvörðun kaups hans, skv. 25. gr. sjómannalaga, enda hefur stefnda ekki sýnt fram á að forsendur hans séu tölulega rangar.

Frá kaupi stefnanda ber hins vegar að draga greidda kauptryggingu, en óumdeilt er að stefnandi hafi fengið greidda kauptryggingu út uppsagnarfrestinn.  Greiðslur kauptryggingar og orlofs á umræddu tímabili námu samkvæmt framlögðum launaseðlum kr. 336.365,-.  Kaup stefnanda sætir hins vegar ekki frekari frádrætti.

Með vísan til alls þess, sem rakið hefur verið, dæmist stefnda því til að greiða stefnanda kr. 29.424 x 86 = kr. 2.530.464 – 336.365, eða samtals kr. 2.194.099,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 11. maí 2000 til greiðsludags, sbr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987.

Mál þetta var eitt 3 mála sem lögmaður stefnanda flutti þann 2. febrúar s.l. gegn stefnda, vegna þeirra atvika er að framan hefur verið lýst.  Rétt þykir með vísan til þessa og úrslita málsins, að stefnda greiði stefnanda kr. 250.000,- í málskostnað og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Útgerðarfélag Akureyringa h.f., greiði stefnanda, Reyni Sigurðssyni, kr. 2.194.099,- auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, af þeirri fjárhæð frá 11. maí 2000 til greiðsludags og kr. 250.000,- í málskostnað.