Hæstiréttur íslands
Mál nr. 238/2013
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Lögskýring
|
|
Fimmtudaginn 24. október 2013. |
|
Nr. 238/2013.
|
Daníel Thor Skals Pedersen (sjálfur) gegn Landsbankanum hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) |
Lánssamningur. Gengistrygging. Lögskýring.
D höfðaði mál gegn L hf. og krafðist greiðslu fjárhæðar sem nam hækkun höfuðstóls láns á þeim tíma sem D var skuldari þess. Lánið var reist á leigusamningi vegna bifreiðar og hafði D yfirtekið samninginn og allar skuldbindingar fyrri skuldara vegna hans. Annar maður hafði síðan tekið yfir leigusamninginn og skuldbindingar D. Hækkun lánsins var til komin vegna ólöglegrar gengistryggingar og hafði L hf. viðurkennt að honum bæri að greiða D til baka þá fjárhæð sem D hafði ofgreitt meðan hann var skuldari lánsins. Krafa D miðaðist á hinn bóginn við hækkun höfuðstólsins á sama tímabili og var reist á 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að umrætt ákvæði yrði skýrt á þann veg að skuldari gæti því aðeins krafist greiðslu úr hendi kröfuhafa vegna hækkunar á höfuðstól skuldar að hann hefði af þeim sökum orðið fyrir tjóni. Þar sem D hafði ekki haldið því fram að hann hefði orðið fyrir fjártjóni af völdum gengistryggingar lánsins var L hf. sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2013. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 1.858.722 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. október 2008 til 29. mars 2011 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags en til vara sömu fjárhæðar með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. október 2008 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Með kaupleigusamningi 28. febrúar 2008 tók May Flor Perez Cajes bifreiðina UE 137 af tegundinni Jeep Grand Cherokee á leigu af SP-Fjármögnun hf. en það félag var síðar sameinað stefnda. Samningurinn var í íslenskum krónum og 100% gengistryggður, samningsverð 3.626.943 krónur og mánaðarleg leiga 55.416 krónur. Samkvæmt samningi þessum skyldi leigutaki eignast umrædda bifreið við greiðslu lokaverðs. Með yfirlýsingu 19. maí 2008 tók áfrýjandi yfir bílasamning þennan og þar með allar skuldbindingar fyrri skuldara gagnvart stefnda. Við yfirtökuna voru eftirstöðvar skuldarinnar 3.878.050 krónur. Áfrýjandi greiddi stefnda af samningnum frá yfirtökudegi til 24. október 2008 er Valdimar Númi Hjaltason yfirtók skuldbindingar áfrýjanda samkvæmt samningnum. Við yfirtöku Valdimars Núma voru eftirstöðvar skuldarinnar 5.538.861 króna. Greiðslur þær sem áfrýjandi innti af hendi á þeim tíma þegar hann var skuldari samkvæmt samningnum voru samtals 391.750 krónur, 197.911 krónur í afborgun og 161.396 krónur í vexti.
Í máli þessu er ágreiningslaust með aðilum að í umræddum samningi var ákvæði sem fól í sér ólögmæta gengistryggingu og hefur stefndi viðurkennt að honum beri að endurgreiða áfrýjanda ofgreiðslur vegna lánsins að fjárhæð 5.200 krónur. Áfrýjandi telur að stefnda beri enn fremur að greiða sér þá hækkun sem varð á höfuðstól skuldarinnar af völdum gengistryggingar á þeim tíma sem hann var skuldari samkvæmt lánssamningnum. Krefur hann stefnda um mismun á þeirri hækkun sem varð á höfuðstól lánsins frá því að hann tók það yfir þar til hann framseldi réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum, að teknu tilliti til innborgana á höfuðstól skuldarinnar. Ekki er tölulegur ágreiningur með málsaðilum.
II
Áfrýjandi reisir kröfu sína á 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 7. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Þar segir meðal annars að hafi einu sinni eða oftar orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi þar sem um er að ræða ólögmæta vexti eða verðtryggingu skuli hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og eins aðila skulu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings. Þá er kveðið á um að leiðrétting skuli ná bæði til greiðslna og höfuðstóls á því tímabili. Hvað snertir höfuðstólsleiðréttingu segir að „breytingar á höfuðstól vegna ólögmætrar verðtryggingar sem reiknaður hefur verið á höfuðstól láns meðan hver aðili var skuldari láns“ skuli koma til sérstaks uppgjörs sem miðist við dagsetningu aðilaskipta að lánssamningi og miðist réttur eða skylda hvers aðila til leiðréttingar við þann dag. Sé aðili ekki lengur skuldari láns skuli mismunur vegna greiðslna og leiðrétting höfuðstóls vegna ólögmætrar verðtryggingar koma til sérstaks uppgjörs.
Áfrýjandi telur að reglur 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 séu skýrar. Samkvæmt því þurfi hann ekki að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni, heldur eingöngu að höfuðstóll áðurgreinds láns hafi hækkað á þeim tíma sem hann var skuldari að því.
Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010 var meðal annars komist svo að orði að sérstök regla væri sett í 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 sem varðaði uppgjör lánssamninga þar sem fleiri en einn skuldari hafi verið að láni með ólögmætum vaxta- og verðtryggingarákvæðum. Væri við það miðað að sá skuldari sem orðið hefði fyrir tjóni fengi það bætt beint úr hendi viðkomandi lánveitanda. Með þeim hætti væri hagur fyrri skuldara tryggður eftir því sem unnt væri. Í athugasemdum með ákvæði því sem varð að 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 sagði meðal annars um fyrirkomulagið, sem lagt var til að kveðið væri þar á um, að gert yrði upp við þann sem hafi orðið fyrir tjóni með því að greiðslutilhögun söluverðs hlutar hafi tekið mið af rangri lánsfjárhæð. Önnur tilhögun gæti leitt til þess að kaupandi eignar nyti hvoru tveggja réttar til endurgreiðslu og í raun lægra kaupverðs. Miðaði reglan sem lögð væri til að því að leiðréttingar skiluðu sér á réttan stað í anda sanngirni og heilbrigðra viðskiptahátta. Þegar efnahags- og viðskiptaráðherra fylgdi úr hlaði frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010 sagði hann meðal annars um umrætt ákvæði að í þeim tilvikum þar sem eigendaskipti hefðu orðið og fleiri en einn lántakandi kæmi að málum væri miðað við að sá lántakandi sem hafi orðið fyrir tjóni fengi það bætt úr hendi viðkomandi lánveitanda.
Í 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 sem áður hefur verið gerð grein fyrir segir hvergi að skuldari sem ekki hefur beðið tjón sökum ólögmætrar verðtryggingar skuli fá greiðslu úr hendi kröfuhafa. Þegar það er virt sem fram kemur í fyrrgreindum lögskýringargögnum og litið er til hinnar almennu uppgjörsreglu í 5. mgr. sömu lagagreinar, þar sem segir að kröfuhafa beri að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur ranglega af honum haft vegna ólögmætrar verðtryggingar, verður að skýra 7. mgr. á þann veg að skuldari geti því aðeins krafist greiðslu úr hendi kröfuhafa vegna hækkunar á höfuðstól skuldar að hann hafi af þeim sökum orðið fyrir tjóni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 12. mars 2012 í máli nr. 113/2012.
Áfrýjandi hefur ekki haldið því fram að hann hafi orðið fyrir fjártjóni af völdum gengistryggingar lánsins sem hann var skuldari að. Samkvæmt framansögðu getur hann því ekki krafið stefnda um greiðslu á grundvelli 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og ber þar af leiðandi að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Daníel Thor Skals Pedersen, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2013.
I
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 8. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Daníel Thor Skals Pedersen, kt. 200483-7159, Klukkurima 12, Reykjavík, með stefnu, birtri 23. marz 2012, á hendur Landsbankanum hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.858.722, auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. október 2008 til 29. marz 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 1.858.722, auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. október 2008 til greiðsludags. Þá er krafizt málskostnaðar að mati dómsins í aðal- og varakröfu.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda auk þess sem krafiz er málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
II
Málavextir
Stefnandi kveður málavexti vera þá, að hann hafi, á árinu 2008, verið aðili að gengistryggðum fjármögnunarsamningi, sem SP fjármögnun hf. hafi borið að endurreikna í samræmi við 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Hann hafi fengið endurútreikninga frá SP fjármögnun, þar sem aðeins sé tekið mið af ofgreiðslu afborgana, en ekki höfuðstólshækkun þeirri, sem hafi orðið á samningstíma. Hann hafi ítrekað reynt að fá þetta leiðrétt án árangurs. SP fjármögnun hf. hafi verið sameinuð stefnda, Landsbankanum hf., sem hafi tekið við öllum réttindum og skyldum SP fjármögnunar.
Umræddur samningur sé númer SBB 100082 vegna fjármögnunar bifreiðar með skráningarnúmer UE 137, dags. 28. febrúar 2008. Stefnandi hafi verið aðili að þessum samningi frá 21. maí 2008 til 24. október s.á.
Samningurinn sé gengistryggður fjármögnunarsamningur, svokallað myntkörfulán, og hafi verið tengdur við myntkörfu, sem SP fjármögnun hafi gefið númerið SP5. Samningurinn sé staðlaður samningur, útbúinn af SP fjármögnun. Stefnandi hafi orðið aðili að samningnum við aðilaskipti hinn 19. maí 2008, en þeirri aðild hafi lokið við aðilaskipti hinn 24. október 2008. SP fjármögnun hf. hafi verið gagnaðili stefnanda.
Stefndi gerir athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda, sem hann telur ófullkomna og vanreifaða. Hann lýsir málavöxtum svo, að þann 21.02. 2008 hafi stefnandi og SP fjármögnun hf., kt. 620295-2219, sem síðan hafi verið sameinað stefnda, undirritað bílasamning nr. SBB 098401, vegna bifreiðarinnar GL-S14, Dodge Durango, árgerð 2007, sem ekinn hafi verið rétt um 23.000 km. Kaupverð bifreiðarinnar hafi verið kr. 4.490.000. Seljandi bifreiðarinnar hafi verið Jón Óskar Magnússon, en söluaðili Bílalind ehf. Á þessum tíma hafi verið gerðir 4 bílasamningar á 9 dögum um 4 bifreiðar, allar af gerðinni Dodge Durango árgerð 2008, þar sem kaupverðið hafi verið sagt kr. 4.490.000 og innborgunarverð 740.000. Einkenni þessara samninga sé, að þeir séu allir gerðir við unga einstaklinga á nánast sama tíma. Seljandi sé í öllum tilvikum Jón Óskar Magnússon og söluaðili Bílaland ehf. Kaupverðið og greiðslutilhögun samninga sé alls staðar eins. Þar komi fram, að kr. 740.000 séu greiddar við undirritun samnings og kaupverðið síðan greitt af stefnda, að fjárhæð kr. 3.750.000. Í framhaldi af því hafi verið undirritaður bílasamningur á milli stefnanda og stefnda, þar sem gert hafi verið ráð fyrir, að fyrsta greiðsla yrði innt af hendi þremur mánuðum eftir undirritun samningsins. Í þremur tilvikum hafi verið búið að óska eftir skuldskeytingu á bílasamningunum fyrir eða við fyrsta gjalddagi þeirra. Stefnandi hafi ekki orðið við áskorunum stefnda um að sýna fram á umrædda greiðslu á kr. 740.000, og hafi stefndi óskað eftir lögreglurannsókn á umræddum viðskiptum.
Bifreiðin hafi verið skráð á nafn stefnda við kaupin, en samtímis hafi verið gerður samningur við stefnanda um afnot hennar með kaupleigusamningi. Með samningnum hafi stefnandi skuldbundið sig til þess að greiða stefnda kr. 3.898.984 með 84 jöfnum greiðslum, í fyrsta skipti hinn 21.05. 2008. Samkvæmt yfirlýsingu, dagsettri 09.06. 2008, hafi May Flor Perez Cajez tekið yfir allar skuldbindingar stefnanda frá og með 19. maí 2008. Staða samningsins hafi þá verið kr. 4.518.448. May Flor Perez Cajes hafi, þann 28.02. 2008, undirritað bílasamning nr. SBB 100082 við stefnda, vegna bifreiðarinnar UE-137, Jeep Grand Cherokee, árgerð 2006, ekinn 35.000 km. Kaupverð bifreiðarinnar hafi verið kr. 4.390.000. Kaupverðið hafi verið staðgreitt með því að May Flor hafi greitt seljanda kr. 890.000 með greiðslu og notaðri bifreið, en eftirstöðvar kaupverðsins hafi verið greiddar af stefnda til seljanda og bifreiðin skráð á nafn stefnda við kaupin. Stefndi hafi samtímis gert samning við May Flor um afnot hennar, jafnframt því sem hún hafi skuldbundið sig til þess að greiða stefnda samningsfjárhæðina, kr. 3.626.943, með 84 jöfnum greiðslum, í fyrsta skipti 01.04. 2008. Samkvæmt yfirlýsingu, dagsettri 19.05. 2008, hafi stefnandi tekið yfir allar skuldbindingar May Flor Perez Cajez frá og með 19.05. 2008. Staða samningsins þann dag hafi verið kr. 3.877.995, en May Flor hafi greitt upp vanskil á samningnum, að fjárhæð kr. 63.540.
Við yfirtökuna þann 19.05. 2008 hafi yfirtökuverðið verið greitt með skiptum á bifreiðum. Yfirtökuverð á bifreiðinni GL-S14 sé nánast óbreytt frá því í febrúar, en yfirtökuverðið á UE-137 sé hins vegar miklu lægra. Samkomulag hafi verið um, að hvor aðili um sig tæki yfir þær skuldir, sem hvíldu á bifreiðunum. Stefnandi hafi tekið yfir skuld, að fjárhæð kr. 3.877.995, við kaup á bifreiðinni UE-137, en kaupandinn, May Flor Perez Cajez, skuld, að fjárhæð kr. 4.518.448, vegna kaupa á bifreiðinni GL-S14. Ekkert liggi fyrir um, hvort, og þá með hvaða hætti, umræddur mismunur á kaupverðinu hafi verið greiddur.
Samkvæmt endurútreikningi nemi skuld á bifreiðinni GL-S14 ekki krónum 4.518.448 þann 19.05. 2008, heldur krónum 4.045.825. Sú fjárhæð skiptist í höfuðstólsgreiðslur, kr. 3.898.964, og vaxtagreiðslu, kr. 146.861. Hafi yfirtökuverð May Flor Perez Cajez verið lækkað um þá fjárhæð. Stefnandi hafi greitt stefnda kr. 119.877 vegna afnota bifreiðarinnar á tímabilinu frá 28.02. 2008 til 19.05. 2008. Með stefnu, útgefinni þann 27. júní 2011, sem þingfest hafi verið 30 júní 2011 hafi stefnandi höfðað mál nr. E-2826/2011 á hendur fyrirrennara stefnda, SP-Fjármögnun hf., og gert kröfu um, að stefndi greiddi, á grundvelli endurútreiknings, kr. 2.840.284 vegna tveggja bílasamninga, annars vegar vegna samnings nr. SBB 098401 varðandi bifreiðina GL-S14 og hins vegar vegna samnings nr. SBB 100082 varðandi bifreiðina UE-137. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. nóvember 2011 hafi kröfum stefnanda verið vísað frá dómi. Úrskurðurinn hafi verið kærður til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 629/2011, og hafi niðurstaða héraðsdóms verið staðfest. Í því máli, sem hér sé til umfjöllunar, sé einungis krafizt útreikninga vegna samnings nr. SBB 100082.
Stefndi hafi ítrekað farið fram á við stefnanda, að hann legði fram kvittanir eða gögn, sem sýni fram á greiðslu hans á kr. 740.000 við undirritun samningsins þann 21.02. 2008 um bifreiðina GL-S14. Stefndi telji yfirgnæfandi líkur á því, að engin slík greiðsla hafi átt sér stað. Sú staðreynd, að stefnandi ákveði að breyta grundvelli málsins og falla frá endurkröfum vegna þessa samnings, styrki þessar grunsemdir enn frekar. Einu greiðslur stefnanda vegna þessara viðskipta hafi verið kr. 119.877 vegna vaxta á þessu tímabili. Samkvæmt endurútreikningi nemi þessar vaxtagreiðslur hins vegar kr. 146.861. Ofgreiðsla stefnanda vegna þessara viðskipta sé því engin, heldur hafi hann þvert á móti vangreitt kr. 26.984, sé miðað er við vexti samkvæmt 4. gr. vaxtalaga.
Stefnandi hafi verið greiðandi á samningi nr. SBB 100082 á tímabilinu frá 19.05. 2008 til 24.10. 2008 og hafi haft afnot af bifreiðinni UE-137 á sama tíma. Á þessu tímabili hafi stefnandi greitt samtals kr. 391.750, og sé vaxtahluti þeirrar greiðslu kr. 193.839, en afborganir samtals kr. 197.911. Frekari greiðslur hafi ekki borizt inn á samninginn frá stefnanda. Stefndi hafi samþykkt að endurgreiða afborganir vegna þessara innborgana, að fjárhæð kr. 5.200.
Með yfirlýsingu, dagsettri 24.10.2008, hafi Valdimar Númi Hjaltason tekið yfir allar skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningi nr. SBB 100082. Staða samningsins þann dag hafi verið kr. 5.538.861. Engar frekari greiðslur hafi borizt inn á samninginn, og hafi bifreiðin verið tekin úr vörzlu Valdimars þann 06.03. 2009. Við ástandsskoðun hafi komið í ljós, að bifreiðin UE-137, sem þá hafi verið keyrð tæplega 75.000 kílómetra, hafi þarfnazt lagfæringa, sem metnar hafi verið á tæpar 400.000 krónur. Verðmæti bifreiðarinnar hafi verið metið á kr. 1.950.000 og hafi bifreiðin verið seld til Bílasölu Akureyrar á því verði þann 25. marz 2009. Stefndi hafi alfarið hafnað öllum endurgreiðslum vegna þessa. Við endurútreikning hafi markaðsverð bifreiðarinnar þann 24.10. 2008, miðað við sömu fjárhæð og niðurstöðu endurútreiknings, verið kr. 3.540.067.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að samkvæmt 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 hafi SP fjármögnun verið skylt að endurreikna gengistryggða lánasamninga, sem aðilaskipti hafi orðið að, og greiða þeim, sem aðilar hafi verið að samningunum í samræmi við niðurstöður þeirra endurútreikninga. Við þá endurútreikninga hafi SP fjármögnun verið skylt að taka tillit til bæði þróunar höfuðstóls og afborgana. Þannig eigi samkvæmt lögunum hver samningsaðili fjármögnunarsamnings sjálfstæðan rétt til endurgreiðslu höfuðstólshækkunar, að teknu tilliti til ofgreiðslu eða vangreiðslu afborgana fyrir það tímabil, sem viðkomandi hafi verið aðili að samningnum. Þetta telji stefnandi leiða beint af orðum ofangreinds lagaákvæðis, sem sé skýrt og ótvírætt.
Stefnandi telji ljóst, að SP fjármögnun hafi ekki orðið við þessari lögbundnu skyldu sinni, og megi sjá það á bls 2 í endurútreikningum SP fjármögnunar, dskj. nr. 5, en þar sé að finna svokallaðan veltureikning endurútreikninganna. Þar hefði SP fjármögnun átt að færa inn annars vegar stöðu höfuðstóls samningsins við upphaf aðildartíma stefnanda og hins vegar við lok hans, og hefði mismunurinn þannig myndað höfuðstólshækkunina. Þess í stað hafi SP fjármögnun fært tvisvar inn sömu fjárhæð og komið sér þannig, í andstöðu við 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, hjá því að taka tillit til þeirrar höfuðstólshækkunar, sem hafi orðið á samningstíma stefnanda.
Stefnandi telji, að löggjafinn hafi, þegar lögum um vexti og verðtryggingu var breytt með lögum nr. 151/2010, lagt ákveðna greiðsluskyldu á fjármögnunarfélög. Af þeirri skyldu leiði réttur stefnanda til greiðslu úr hendi stefnda. Þó að 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu geri ráð fyrir, að fjármögnunarfélög skuli hafa frumkvæði að þessari greiðslu, sé stefnanda, vegna vanefnda SP fjármögnunar á þessari skyldu, nauðsynlegt að krefjast greiðslu.
Stefnandi hafi sent SP fjármögnun rökstudda beiðni um leiðréttingu endurútreikninga, með tölvupósti þann 27. maí 2011, dskj. nr. 6, auk beiðni um rökstuðning fyrir synjun hinnar fyrrnefndu beiðni, væri henni synjað. Í svarbréfi, dags. 20. júní 2011, dskj.nr. 7, sé beiðni stefnanda um leiðréttingu synjað og vísað til 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, þar sem fram komi, að endurgreiða skuli skuldara það, sem ranglega hafi verið af honum haft. Stefnandi telji ljóst, að sú grein eigi ekki við, þar sem hún gildi aðeins um fjármögnunarsamninga, sem ekki hafi orðið aðilaskipti að. Í þeim tilfellum, þegar engin aðilaskipti hafi orðið, beri að leiðrétta höfuðstól skuldara og endurgreiða það, sem ranglega hafi verið af honum haft. Þegar aðilaskipti hafi orðið sé þessi aðferð augljóslega ómöguleg. Því gildi 7. mgr. sömu greinar um yfirtekna samninga, þar sem komi skýrt fram, að hver skuldari eigi sjálfstæðan rétt til endurgreiðslu höfuðstólshækkunar, sem hafi orðið á hans aðildartíma, að teknu tilliti til ofgreiddra eða vangreiddra afborgana.
Í fyrrnefndu bréfi sé á því byggt, að aðeins geti komið til greiðslu af hálfu stefnda, hafi viðsemjandi orðið fyrir tjóni vegna þess að of há fjárhæð hafi verið innt af hendi. Stefnandi telji ljóst, að sá skilningur sé beinlínis í andstöðu við 7. mgr. 18. gr. vaxtalaga, en sú grein sé svo skýr, að engum vafa ætti að vera undirorpið, hvert efni hennar sé. Greinin kveði á um skýra greiðsluskyldu en ekki skaðabótaskyldu, og sé því engin krafa gerð um sönnun tjóns.
Krafa stefnanda sé fundin með eftirfarandi hætti:
Höfuðstóll við upphaf aðildar stefnanda kr. 3.878.050
Afborganir á aðildartíma stefnanda kr. 197.911
Höfuðstóll að frádregnum afborgunum kr. 3.680.139
Höfuðstóll við lok aðildar stefnanda kr. 5.538.861
Höfuðstólshækkun vegna gengistryggingar kr. 1.858.722
Í framangreindum útreikningum sé tekið mið af því, hver höfuðstóll samningsins hefði verið við lok aðildartíma stefnanda, ef gengistryggingin hefði ekki verið til staðar. Þannig sé afborgunarhluti en ekki vaxtahluti (dskj. nr. 8) þeirra greiðslna, sem stefnandi innti af hendi á samningstíma, dreginn frá fjárhæð höfuðstóls við upphaf aðildartíma stefnanda. Síðan sé reiknaður mismunurinn á þeirri fjárhæð annars vegar og raunhöfuðstól við lok aðildartíma stefnanda hins vegar. Með þessu móti fáist, hver höfuðstólshækkunin hafi verið að teknu tilliti til afborgana.
Ekki sé tekið mið af ofgreiddum eða vangreiddum vöxtum á samningstíma í ofangreindum útreikningum, enda hafi Hæstiréttur Íslands slegið því föstu í dómi í máli nr. 600/2011, að fyrirvaralaus móttaka lánveitenda á greiðslum jafngildi útgáfu fullnaðarkvittunar, hvers gildi verði ekki ógilt m eð afturvirkum hætti með almennum lögum. Stefnandi byggi þess vegna á því, að hafi vextir á samningstíma samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu átt að vera hærri en raunin varð, geti stefndi ekki dregið þá frá kröfufjárhæð stefnanda, þar sem slík afturvirkni laganna myndi brjóta gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Í aðalkröfu stefnanda sé krafizt annars vegar vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. október til 29. marz 2011, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Skýrist kröfugerð þessi af því, að SP fjármögnun hafi samkvæmt X. bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/2001 borið að hafa frumkvæði að greiðslu vegna endurútreikninga og greiða eigi síðar en 90 dögum eftir gildistöku ákvæðisins. Því sé á því byggt, að þann 29. marz 2011 hafi verið kominn lögbundinn gjalddagi kröfu stefnanda. Með því að verða ekki við skýrri lögbundinni skyldu sinni, hafi SP fjármögnun orðið sekt um slíka vanefnd að dæma beri stefnda til greiðslu dráttarvaxta.
Í varakröfu stefnanda sé þess krafizt, að verði ekki fallizt á að dæma stefnda til greiðslu dráttarvaxta, verði stefndi eftir sem áður dæmdur til greiðslu almennra vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. október 2008 til greiðsludags, svo sem gert sé ráð fyrir í 1. mgr. 18. gr. laganna. Þá sé einnig á því byggt, að hin ólögmæta höfuðstólshækkun, sem stefnandi krefji stefnda um greiðslu á, hafi leitt af samningsákvæði, sem SP fjármögnun, sem sérfróður aðili á þessu sviði, hafi sett í staðlaða samningsskilmála sína. Vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar hafi höfuðstóllinn því verið við lok aðildar stefnanda mun hærri en lög hafi gert ráð fyrir, og hafi SP fjármögnun og stefndi því staðið í skuld við stefnanda í hátt á fjórða ár og beri því samkvæmt meginreglum laga um vexti og verðtryggingu að greiða vexti af þeirri skuld. Þá hafi réttmæti kröfu um vexti þegar verið viðurkennt af hálfu stefnda, enda sé í endurútreikningum stefnda, dskj. nr. 5, gert ráð fyrir greiðslu vaxta. Rökstuðningur þessi eigi einnig við um vaxtahluta aðalkröfu eftir atvikum, þ.e. fyrir tímabilið 24. október 2008 til 29. marz 2011.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi ekki innt af hendi of háa fjárhæð vegna umræddra samninga umfram það, sem stefndi hafi boðizt til að endurgreiða. Hann hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni, en það sé forsenda þess, að hann geti átt rétt á endurgreiðslu.
Í stefnu segi, að stefnandi hafi fengið frá stefnda endurútreikning, þar sem aðeins sé tekið mið af ofgreiðslu afborgana, en ekki höfuðstólshækkun. Af hálfu stefnda sé á því byggt, að umræddur endurútreikningur hafi falið í sér fullnaðaruppgjör gagnvart stefnanda á grundvelli laga nr. 151/2010 og þeirra sjónarmiða, sem eðlilegt sé að leggja til grundvallar við endurgreiðslu. Umræddur endurútreikningur hafi falið í sér of háa fjárhæð til handa stefnanda. Ágreiningslaust sé hins vegar, að stefndi hafi boðið fram greiðslur vegna endurútreiknings á afborgunum. Því sé hins vegar mótmælt, að stefnandi eigi rétt á greiðslum vegna höfuðstólshækkana, þar sem hann hafi ekki sýnt fram á neitt tjón vegna þeirra.
Krafa stefnanda lúti að því, að hann eigi samkvæmt 7. mgr. laga nr. 151/2010 sjálfstæðan rétt til endurgreiðslu höfuðstólshækkunar, burt séð frá því hvort höfuðstólshækkunin hafi valdið honum tjóni. Því sé mótmælt, að stefnandi eigi þannig hlutlægan rétt til endurgreiðslu höfuðstólshækkunar. Slíkt verði ekki ráðið af orðanna hljóðan. Í 7. mgr. 18. gr. sé talað um „rétt til leiðréttingar“ og, að „sérstakt uppgjör“ þurfi að fara fram, en ekki fortakslausa greiðsluskyldu. Slíkar leiðréttingar á eftirstöðvum lánssamningsins verði að taka mið af aðstæðum hverju sinni, svo sem verðmæti bílsins og raunverulegu tjóni, sem sérstakt uppgjör ákvæðisins grundvallist á.
Stefndi byggi sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi, með sviksamlegum hætti, komizt fram hjá viðmiðunarreglum stefnda um fjármögnun með því að halda því fram, að hann hafi greitt kr. 740.000 við undirritun samningsins, dags. 19.02. 2008, nr. SBB 098401. Stefnandi hafi aldrei viljað leggja fram nein gögn, sem sýni fram á þessa greiðslu. Stefndi leggur fram þrjá bílasamninga á dskj. nr. 11, 12 og 13. Þessir samningar varði allir sömu bifreiðartegund og samningur stefnanda og stefnda á dskj. nr. 19. Seljandi bifreiðarinnar sé sá sami í öllum tilvikum. Kaupverðið sé alls staðar það sama og innborganir nákvæmlega þær sömu. Stefndi byggi á því, að umræddir samningar hafi allir verið málamyndasamningar, þar sem umrædd greiðsla, að fjárhæð kr. 740.000, hafi aldrei verið innt af hendi. Samningarnir hafi verið útbúnir til þess að fjármagna umræddan bílainnflutning og af hálfu stefnanda og annarra þeirra einstaklinga, sem undirrituðu samningana, hafi þrír þeirra ákveðið að losa sig undan samningsskyldunni fyrir fyrsta gjalddaga þeirra. Raunverulegt verðmæti bifreiðanna hafi ekki verið hærra en 3.750.000. Stefndi vísi til þess, að þrátt fyrir að samningsfjárhæðin sé töluverð, séu þrír þessara einstaklinga 25 ára eða yngri og einn þeirra innan við þrítugt.
Stefndi byggi á því, að stefnandi hafi gefið upp rangt verð í þessum viðskiptum og með þeim hætti náð að fjármagna fyrri bifreiðakaupin hjá stefnda. Þessi fyrri samningur hafi jafnframt verið forsenda fyrir yfirtöku hans á bílasamningi nr. SBB 100082, enda hafi hann verið notaður sem endurgjald í þeim viðskiptum. Stefnandi hafi hins vegar einungis greitt sjálfur kr. 391.750 vegna þessara seinni bílaviðskipta, en ekki kr. 1.131.750, sem lagt hafi verið til grundvallar við endurgjald hans í seinni bílaviðskiptunum. Stefndi byggi á því, að með málshöfðun þessari sé stefnandi með saknæmum og ólögmætum hætti að gera kröfu um endurgreiðslu á fjármunum, sem hann hafi aldrei innt af hendi. Stefndi vísi til þess, að stefnandi geti ekki átt fjárkröfu á grundvelli viðskipta, sem stofnað sé til með sviksamlegum hætti af hans hálfu. Stefndi hafi, samhliða greinargerð þessari, óskað eftir lögreglurannsókn á umræddum viðskiptum.
Þá byggi stefndi á því, að stefnandi geti ekki krafizt hærri fjárhæðar en svari því tjóni, sem hann hafi orðið fyrir. Stefnandi hafi innt af hendi kr. 391.750 vegna seinni bílasamningsins og kr. 197.911 hafi verið afborgunarhluti þeirrar fjárhæðar, en mismunurinn, hafi verið vaxtagreiðslur. Stefnukrafan feli í sér, að stefnandi fái greiddar kr. 1.858.722, að frádregnum 391.750, eða samtals kr. 1.466.972, og auk þess, án endurgjalds, ótakmörkuð afnot tveggja bifreiða í rúmlega 8 mánuði, sem hvor um sig sé upphaflega að verðmæti um kr. 4.000.000. Slík niðurstaða, sem hafi það að markmiði, með vísan til 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, að leiðréttingar skili sér á réttan stað í anda sanngirni og heilbrigðra viðskiptahátta, eins og segi orðrétt í greinargerð, fái augljóslega ekki staðizt.
Samkvæmt lögum nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, sé uppgjör og framkvæmd endurútreiknings lögbundin. Stefndi byggi sýknukröfu sína á því, að horfa verði til ákvæðis 18. gr. í heild sinni, orðlags þess, þeirra markmiða, sem að sé stefnt, og þeirra grundvallarsjónarmiða, sem ákvæðið byggist á. Í 5. mgr. 18. gr. komi fram sú grundvallarregla, að endurgreiðslur miðist við það, sem ranglega hafi verið haft af skuldara vegna ólögmætra vaxta/eða verðtryggingar. Eigi skuldari að loknum útreikningi kröfu á lánveitanda, skuli lánveitandi, samkvæmt 6. mgr., endurgreiða þá fjárhæð, sem upp á vanti. Í 7. mgr. sé fjallað um uppgjör vegna lánssamninga, þar sem orðið hafi aðila- eða skuldaraskipti, og með hvaða hætti leiðréttingar skuli skila sér til einstakra skuldara. Stefndi byggi á því, að ef ekki hafi verið haft neitt ranglega af skuldara, komi hvorki til endurgreiðslna samkvæmt 6. mgr. né til skoðunar, með hvaða hætti endurgreiðslur eigi að skiptast á milli skuldara samkvæmt 7. mgr. Önnur niðurstaða myndi leiða til ólögmætrar auðgunar, sem sé í andstöðu við þau grundvallarsjónarmið, sem ákvæðið byggist á.
Af hálfu stefnda sé á því byggt að skýra verði lög nr. 151/2010 þröngri lögskýringu. Þá vísi stefndi til þess, að lögin hafi með afturvirkum hætti áhrif á lögskipti samkvæmt einkaréttarlegum samningum, sem undirritaðir hafi verið fyrir gildistöku laganna. Ef túlka eigi þessi lög með þeim hætti, að þau geti leitt til endurgreiðslu, án þess að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru tjóni, þá byggir stefndi á því, að slík niðurstaða gangi gegn stjórnarskrárvörðum eignarréttindum stefnda samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Einnig styðji stefndi sýknukröfu sína, að því er varði samninga um bifreiðina UE-137, við þau rök, að stefnandi hafi hvorki orðið fyrir tjóni við yfirtökuna þann 24.10. 2008 né hafi stefndi ranglega haft af honum greiðslur vegna þeirrar yfirtöku. Stefndi vísi til þess, að yfirtökuverðið þann 24.10. 2008 sé greinilega langt umfram verðmæti bílsins. Þannig muni kr. 1.660.866 á yfirtökuverði stefnanda þann 19.05. 2008 og yfirtökuverði þann 24.10. 2008, þrátt fyrir það að á þessum tíma hafi ríkt fullkomin ringulreið á bílamarkaði eins og á öðrum mörkuðum á þessum tíma, sem hafi leitt til þess, að verð á bifreiðum, eins og öðrum verðmætum, hafi verið mjög lágt. Samkvæmt endurútreikningi kröfunnar þann 24.10. 2008 hafi staða lánsins verið kr. 3.540.067. Verðmæti bifreiðarinnar við yfirtöku stefnanda 19. maí 2008 sé kr. 3.877.995. Við sölu bifreiðarinnar í marz 2009, einungis fimm mánuðum eftir yfirtökuna 24.10. 2008, hafi verðmæti bifreiðarinnar verið kr. 1.950.000.
Stefndi byggi á því, að yfirtakan þann 24.10. 2008 hafi forðað stefnanda frá verulegu tjóni með því að stefndi hafi samþykkt að losa hann undan skuldbindingum, sem hafi, þrátt fyrir endurútreikning, verið umtalsvert hærri en verðmæti bifreiðarinnar. Stefnandi geti ekki notið hvors tveggja í senn, réttar til endurgreiðslu og réttar til að losna undan persónulegum skuldbindingum, sem séu langt umfram undirliggjandi verðmæti bifreiðarinnar. Slík niðurstaða sé í fullkomnu ósamræmi við þann tilgang og þau grundvallarsjónarmið, sem 18. gr. laga nr. 38/2001 byggist á.
Stefndi vísi til þess, að hann hafi ekki móttekið neinar ofgreiðslur vegna yfirtökunnar þann 24.10. 2008. Yfirtökuaðilinn hafi ekkert greitt inn á bílasamninginn og virðist hvorki hafa haft vilja né getu til að standa við samninginn. Fjárhæð samningsins skipti hann því engu máli. Það hafi verið stefnandi sjálfur, sem hafi átt frumkvæði að umræddri yfirtöku, gert samning við yfirtökuaðilann og óskað síðan sérstaklega eftir samþykki stefnda fyrir yfirtökunni. Niðurstaða þeirrar yfirtöku hafi verið sú, að stefnandi hafi losnað undan verulegri fjárhagslegri skuldbindingu, sem hafi verið langt umfram raunverulegt verðmæti bifreiðarinnar. Yfirtakan hafi hins vegar engum greiðslum skilað til stefnda. Greiðslugeta og greiðsluvilji yfirtökuaðilans hafi enginn verið og því ekki um það að ræða, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni við yfirfærsluna, sem geti stofnað til endurkröfu af hans hálfu.
Stefndi mótmæli þeirri lögskýringu stefnanda sem rangri, að engin krafa sé gerð um sönnun tjóns, og að hver skuldari eigi einhvers konar hlutlægan rétt til endurkröfu, sem nemi mismun á endurreiknuðum höfuðstól og t.d. skráðum höfuðstól í yfirlýsingu um yfirtöku. Óhjákvæmilegt sé að skoða hvert tilvik og leggja til grundvallar, hvort, og þá hve mikið, hafi verið greitt inn á samninginn í upphafi, og hvernig afborgunum hafi verið háttað. Stefndi geri ekki ágreining um það, að stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu vegna afborgana og innborgana á samninginn, sem hann hafi sjálfur innt af hendi.
Stefndi byggi á því að færa þurfi yfirteknar eftirstöðvar samningsins niður til samræmis við raunverulegt markaðsverð bifreiðarinnar. Slíkt geti átt við í ýmsum tilvikum, svo sem þegar ábyrgðarmaður leysi til sín bifreið á grundvelli eftirstöðva samnings en ekki markaðsverðs, foreldri eða aðrir nákomnir taki yfir skuld barns eða annars nátengds á yfirtökuverði, einkahlutafélag taki yfir skuld eiganda á grundvelli eftirstöðva og fleira, eða verulegt ósamræmi sé á milli markaðsverðs og yfirtökuverðs, þannig að bersýnilegt sé, að viðskiptin fari ekki fram á venjulegum viðskiptagrundvelli. Eitt af því, sem komi augljóslega til skoðunar, sé þegar skuld sé yfirtekin af aðila, sem hafi aldrei í hyggju að endurgreiða skuldina og enga möguleika á að standa í skilum. Stefndi vísi til þessara sjónarmiða til stuðnings sýknukröfu sinni.
Stefndi vísi til 18 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 5., 6 .og 7. mgr. Þá vísi stefndi til meginreglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár og mats á tjóni. Krafa um málskostnað styðjist við XXI kafla laga nr. 91/1991.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að samkvæmt 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 beri honum endurgreiðsla frá stefnda vegna þeirrar höfuðstólshækkunar, sem varð á samningsfjárhæð vegna fjármögnunar bifreiðarinnar UE 137, á þeim tíma sem stefnandi var aðili að samningnum.
Stefnandi kveður kröfu sína vera endurgreiðslukröfu, en í því felst, samkvæmt almennum málskilningi, að hann krefjist endurgreiðslu fjármuna, sem hann hefur áður innt af hendi til stefnda. Að öðrum kosti væri ekki um endurgreiðslu að ræða. Í málatilbúnaði sínum færir stefnandi hins vegar hvorki rök að því, að hann hafi innt umdeilda fjárhæð af hendi né heldur hann slíku fram, og kemur reyndar fram í stefnu, að hann hafi einungis greitt kr. 197.911 upp í höfuðstól lánsins á samningstímanum. Stefnandi byggir hins vegar á því, að hann eigi skilyrðislausan kröfurétt á hendur stefnda, óháð því, hvort hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna höfuðstólshækkunarinnar. Stefndi mótmælir þessum skilningi stefnanda.
Ákvæði 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, verður ekki skýrt sjálfstætt, án þess að líta jafnframt til annarra ákvæða greinarinnar, sem og tilgangs lagaákvæðisins.
Í greinargerð með frumvarpi að hinni umdeildu 7. mgr. 18. gr. segir, að reglan varði uppgjör lánssamninga, þar sem fleiri en einn skuldari hafi verið aðilar að láni með ólögmætum vaxta- og verðtryggingarákvæðum. Þá segir svo: „Er miðað við að sá skuldari sem orðið hefur fyrir tjóni fái það bætt beint úr hendi viðkomandi lánveitanda.“ Einnig segir m.a. svo í athugasemdum um einstakar greinar frumvarpsins, þar sem fjallað er um 7. mgr. 18. gr. (þá 8. mgr.): „Í þeim tilvikum sem kaupandi eignar hefur yfirtekið skuld með ólögmætum skilmálum um verðtryggingu eða vexti er ljóst, að fyrri skuldari getur hafa orðið fyrir tjóni, sökum þess að gert er ráð fyrir, að lán hafi verið hærri fjárhæðar en raun varð á. Í slíkum tilvikum er uppgjör flóknara en hin almenna regla 5. mgr. gerir ráð fyrir. Þarf því lánveitandi að gera upp við hvern skuldara, bæði afborganaþátt og höfuðstólsbreytingar, sem miðar við það tímabil, þegar viðkomandi var skuldari að láni.“ Er ljóst af þessu, að tilgangur löggjafans var sá, að bæta skuldara tjón, sem hann hefur orðið fyrir vegna ólögmætrar gengistryggingar láns. Er það enda í andstöðu við anda laganna, að skuldari eigi beinlínis að hagnast á kostnað lánveitanda, svo sem stefnandi virðist byggja kröfur sínar á. Eins og stefnandi túlkar ákvæði 7. mgr. 18. gr., á aðili, sem ekki er lengur skuldari vegna aðilaskipta, að njóta betri réttar en skuldari, sem fellur undir uppgjörsreglur 5. mgr. 18. gr. Fær þessi niðurstaða ekki staðizt markmið laganna.
Með því að stefnandi hefur hvorki fært að því rök né haldið því fram, að honum hafi með óréttmætum hætti vegna ólögmætrar gengistryggingar lánsins, verið gert að greiða þá fjárhæð, sem hann nú krefur stefnda um og hafi þannig orðið fyrir tjóni vegna höfuðstólshækkunar lánsins, ber, með vísan til alls framangreinds, að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 350.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Daníels Thors Skals Pedersen.
Stefnandi greiði stefnda kr. 350.000 í málskostnað.