Hæstiréttur íslands
Mál nr. 84/2000
Lykilorð
- Vátrygging
- Ómerking
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 14. desember 2000. |
|
Nr. 84/2000. |
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Jakob Möller hrl.) gegn Guðjóni Sverri Rafnssyni (Björgvin Þorsteinsson hrl.) og gagnsök |
Vátrygging. Ómerking. Frávísun frá héraðsdómi.
G höfðaði mál á hendur vátryggingafélaginu SA til heimtu vátryggingarbóta úr atvinnurekstrartryggingu, sem hann keypti hjá SA í júní 1998. Vátryggingin var tekin í þágu veitinga- eða skemmtistaðar, sem G rak í húsinu L, sem G hafði á leigu. L brann í júlí 1998 og var það síðan jafnað við jörðu og í nýju húsi á lóðinni var ekki gert ráð fyrir skemmtistað. G endurreisti ekki starfsemi sína í öðru húsnæði. Ekki varð samkomulag um greiðslu bóta vegna eldsvoðans. Hélt G því fram að eignatrygging lausafjármuna hefði verið verðsett fyrirfram í skilningi 2. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga og ætti hann því kröfu á vátryggingarfjárhæðum allra þátta eignatryggingarinnar óskertum að frádregnu verði muna, sem ekki fóru forgörðum. Lagði hann fram mjög takmörkuð gögn um umfang tjónsins. Ekki var talið að G hefði sannað að samið hefði verið um að tilgreind vátryggingarfjárhæð munanna skyldi jafnframt teljast vátryggingarverð þeirra, þegar tjón yrði. Þá var G ekki talinn hafa fært haldbær rök fyrir því, að vátrygging innréttinga og vörubirgða samkvæmt öðrum þáttum vátryggingarinnar hefði verið verðsett. Var því talið að ákvæðum 2. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1954 yrði ekki beitt í málinu, heldur færi um ákvörðun bóta eftir 550. gr. vátryggingarskilmála eignatryggingarinnar og almennum reglum um vátryggingarverð í lögunum, ásamt því sem ráða mætti af samningi aðila eftir almennum túlkunar- og sönnunarreglum. Voru kröfur G í málinu taldar svo vanreifaðar að ekki væri unnt að leggja dóm á málið. Var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi hefur skotið málinu til Hæstaréttar með stefnu 2. mars 2000. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda, en til vara þess, að kröfurnar verði stórlækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu með stefnu 17. maí 2000. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms með þeirri breytingu, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 22.477.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. ágúst 1998 til greiðsludags, allt að frádregnum 8.200.000 krónum, sem aðaláfrýjandi hafi greitt 13. nóvember 1998. Hann krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Mál þetta hefur gagnáfrýjandi höfðað til greiðslu vátryggingarbóta úr svonefndri atvinnurekstrartryggingu, sem hann keypti hjá aðaláfrýjanda samkvæmt vátryggingarskírteini útgefnu 19. júní 1998 að undangengnum viðræðum milli aðila. Var tryggingin tekin í þágu veitinga- eða skemmtistaðar, er gagnáfrýjandi rak sem einkafyrirtæki með sérstöku firmaheiti að Lækjargötu 2 (Austurstræti 22b) í Reykjavík. Húsnæði staðarins hafði hann tekið á leigu með samningi við húseiganda 26. febrúar 1998, og mun hann hafa fengið það til umráða 15. mars sama ár. Samningurinn náði einnig yfir ýmsan búnað, sem verið hafði á leigu til fyrri veitingastarfsemi í húsnæðinu, og keypti gagnáfrýjandi hluta af honum til eignar. Taldist húsaleigusamningurinn einnig vera kaupsamningur að því leyti, þannig að gagnáfrýjandi skuldbatt sig til að greiða húseiganda 5.000.000 krónur „vegna kaupa á skemmtistaðnum Tunglinu með ýmsum smærri búnaði til veitingareksturs.“
Gagnáfrýjandi mun hafa byrjað rekstur staðarins í maímánuði 1998 og leitað til aðaláfrýjanda um vátryggingu vegna hans ekki síðar en í byrjun næsta mánaðar, en fyrir liggur skrifleg beiðni hans um atvinnurekstrartryggingu frá 8. júní 1998, og kveðst gagnáfrýjandi jafnframt hafa litið á hana sem tilboð frá aðaláfrýjanda um trygginguna. Nánari atvikum að gerð vátryggingarsamningsins, sem á eftir fylgdi, er lýst í héraðsdómi. Þar er einnig lýst skiptum aðila í kjölfar tjónsatburðarins, sem málið er risið af, en hann varð hinn 29. júlí 1998, þegar húsið Lækjargata 2 brann í eldsvoða ásamt flestu innanhúss, sem brunnið gat, og var síðan jafnað við jörðu. Í nýju húsi á lóðinni var ekki gert ráð fyrir skemmtistað, og gagnáfrýjandi endurreisti ekki starfsemi sína í öðru húsnæði, heldur hvarf hann til óskyldra starfa.
II.
Hin umsamda atvinnurekstrartrygging gagnáfrýjanda var fjórþætt, og varðar málið tvo hluta hennar, annars vegar eignatryggingu á lausafé fyrir bruna og fleiri áhættum og tryggingu fyrir tjóni af rekstrarstöðvun hins vegar. Eignatryggingin var þríþætt og tók í fyrsta lagi til lausafjármuna samkvæmt lista, sem fylgdi vátryggingarskírteininu og rakinn er í héraðsdómi. Var þar um að ræða ýmis hljómflutningstæki, ljósabúnað og húsgögn, svo og þrenns konar tæki í eldhúsi. Á listanum voru munirnir taldir í 35 liðum, sem verðlagðir voru hver fyrir sig, en vátryggingarfjárhæðin nam samtölu liðanna, 8.877.000 krónum. Í öðru lagi laut tryggingin að innréttingum á staðnum, er tryggðar voru sem heildarsafn án sundurliðunar. Í áðurgreindri beiðni hafði vátryggingarfjárhæð þeirra verið tilgreind 15.000.000 krónur, en í vátryggingarskírteininu var hún lækkuð í 8.000.000 krónur að beiðni gagnáfrýjanda. Þriðji þáttur eignatryggingarinnar fjallaði svo um vín- og goslager, vátryggðan fyrir 800.000 krónur, og barvörur, sjóðvélar o.fl., vátryggt fyrir 200.000 krónur. Um alla þættina var það tekið fram í skírteininu, að litið væri á hvern lið í sundurliðun sem sjálfstætt vátryggðan.
Rekstrarstöðvunartryggingu gagnáfrýjanda var ætlað að bæta tímabundið rekstrartap, sem hann yrði fyrir vegna samdráttar eða stöðvunar á starfsemi skemmtistaðarins af völdum eldsvoða eða annars tjónsatburðar, sem eignatryggingin næði til, á allt að 12 mánaða bótatíma eftir atburðinn. Hæfist atvinnureksturinn ekki að nýju, skyldi bótafjárhæð miðast við þann tíma, sem eðlilegt mætti telja, að liðið hefði þar til reksturinn gæti hafa byrjað aftur. Jafnframt skyldu bætur takmarkast við óhjákvæmilegan kostnað, sem gagnáfrýjandi gæti sannað, að hann hefði lagt í. Sú takmörkun myndi þó ekki gilda, ef reksturinn hæfist ekki aftur af orsökum, sem gagnáfrýjandi yrði ekki talinn ráða við. Hámarksfjárhæð þessarar vátryggingar samkvæmt skírteininu var 8.938.500 krónur vegna rekstrar og 500.000 krónur vegna aukakostnaðar, eða samtals 9.438.500 krónur. Hafði fyrstnefnda fjárhæðin þar verið lækkuð frá því, sem tilgreint var í tryggingarbeiðninni.
III.
Ágreiningur málsaðila um bætur til gagnáfrýjanda vegna eldsvoðans 29. júlí 1998 er að miklu leyti af því sprottinn, að hann lítur svo á, að eignatrygging lausafjármuna á skemmtistaðnum samkvæmt skírteini aðaláfrýjanda hafi verið verðsett fyrirfram í þeim skilningi, sem um ræðir í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, þannig að kveðið hafi verið á um tiltekið verð munanna við tjón á þeim. Eigi hann því kröfu á vátryggingarfjárhæðum allra þátta eignatryggingarinnar óskertum að frádregnu verði þeirra muna, sem ekki hafi farið forgörðum. Sé hið tilgreinda verð hinna ýmsu muna og eigna skuldbindandi fyrir aðaláfrýjanda við greiðslu bóta vegna eldsvoðans, nema hann sanni, að bætur samkvæmt því myndu nema meiru en upphæð tjónsins.
Gagnáfrýjandi hefur mjög hagað málatilbúnaði sínum í samræmi við þessa afstöðu og aðeins gert takmarkaða grein fyrir því, hvað ætla megi um muni í húsinu, verð þeirra eða notagildi umfram það, er sjá megi á áðurgreindum lista. Í skýrslu hans fyrir héraðsdómi kom þó fram, að munirnir hefðu ekki allir verið nýkomnir í eigu hans, og hefði hann nýtt hluta af þeim við fyrri rekstur á öðrum stað. Jafnframt hefur gagnáfrýjandi aðeins gert fremur lauslega grein fyrir þeim innréttingum á staðnum, er fallið hafi undir annan þátt eignatryggingarinnar, og nær enga fyrir þeim varningi, sem tilheyrði þriðja þættinum. Hann telur ljóst, að tjón á vátryggðu lausafé hafi verið algjört, þar eð allt hafi eyðilagst, sem í húsinu var, með örfáum undantekningum, er hann hafi greint frá. Meðal annars hafi þar brunnið skrifstofuhúsgögn og fleiri munir, sem verið hafi óvátryggðir. Kröfu um bætur vegna rekstrarstöðvunar hefur hann hvorki stutt beinum né óbeinum gögnum.
Af hálfu aðaláfrýjanda er því eindregið mótmælt, að vátryggingarskírteinið hafi verið verðsett í áðurgreindum skilningi, enda sé það andstætt venjum á vátryggingamarkaði hér á landi að semja um lausafjártryggingar með þeim hætti. Hafi tilgreining verðmæta í skírteininu og fylgiskjali þess fyrst og fremst verið leiðbeinandi um vátryggingarverðmæti, sem iðgjöld yrðu reiknuð af, og eftir atvikum einnig um það, hvort munir gætu talist undir- eða yfirtryggðir, þegar tjón bæri að. Við ákvörðun bóta beri að fara eftir almennum skilmálum eignatryggingarinnar, er séu í samræmi við 1. og 2. mgr. 37. gr. laga nr. 20/1954 og einnig bundnir þeim fyrirvara í samræmi við 1. mgr. 39. gr. laganna, að félaginu sé óskylt að greiða meira en með þurfi til að bæta það tjón, sem gagnáfrýjandi hafi orðið fyrir, jafnvel þótt talið yrði, að samið hefði verið á annan veg. Bætur fyrir lausafé hans eigi þannig að miðast við núvirði glataðra muna eftir því verðlagi, sem síðast var á þeim áður en tjónið bar að höndum, að frádreginni hæfilegri fjárhæð vegna verðrýrnunar sökum minnkaðs notagildis eða annarra atvika. Samkvæmt skilmálunum og almennum reglum laganna hvíli það á gagnáfrýjanda að sanna tjón sitt af eldsvoðanum, og sé honum skylt að veita vátryggjanda sínum allar upplýsingar, er honum sé unnt að veita, um atvik, er máli kunna að skipta varðandi atburðinn og fjárhæð bóta, sbr. 22. gr. laga nr. 20/1954. Þeirri skyldu hafi hann ekki sinnt að neinu marki.
Aðaláfrýjandi hefur ítrekað skorað á gagnáfrýjanda að leggja fram gögn úr bókhaldi fyrirtækis síns til skýringar um umfang tjónsins, en gagnáfrýjandi kveður þau hafa verið varðveitt í herbergi á 3. hæð hússins og öll farist í eldsvoðanum. Jafnframt bendir gagnáfrýjandi á, að gögnin séu ekki ómissandi að því leyti, að vátryggingarbætur fyrir tjónið eigi ekki að miðast við kostnaðarverð.
Í skilmálum vátryggingarinnar eru ákvæði þess efnis, að bæði vátryggður og félagið hafi rétt til þess að óvilhallir matsmenn séu kvaddir til þess að ákvarða umfang tjóns og fjárhæð vátryggingarbóta, og velji hvor aðili sinn matsmann. Hvorugur málsaðila hefur þó reynt að nýta þennan rétt sinn.
IV.
Þótt vátrygging samkvæmt fyrsta þætti eignatryggingarinnar á lausafé samkvæmt lista hafi verið byggð á nær tæmandi sundurliðun tryggðra muna hefur gagnáfrýjandi ekki sannað, að svo hafi í raun verið um samið, að hin tilgreinda vátryggingarfjárhæð munanna skyldi jafnframt teljast vera vátryggingarverð þeirra, þegar tjón yrði. Meðal annars verður ekki séð af gögnum málsins, að fulltrúar aðaláfrýjanda við samningsgerð um vátrygginguna hafi hagað skoðun á mununum og aðstæðum á staðnum með tilliti til þessa eða annars gefið til kynna, að samið yrði á þessum grundvelli. Jafnframt hefur gagnáfrýjandi engin haldbær rök fært fyrir því, að vátrygging innréttinga og vörubirgða samkvæmt hinum þáttum tryggingarinnar hafi verið verðsett. Af þessum sökum verður ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1954 ekki beitt í málinu, heldur fer um ákvörðun bóta eftir 550. gr. vátryggingarskilmála eignatryggingarinnar og almennum reglum um vátryggingarverð í lögunum, ásamt því, sem ráða má af samningi aðila eftir almennum túlkunar- og sönnunarreglum.
Kröfur gagnáfrýjanda í málinu eru því mjög vanreifaðar, þótt flest virðist hafa farið forgörðum, sem á skemmtistaðnum var, og áðurgreindur lausafjárlisti sé ekki þýðingarlaus. Aðrar upplýsingar frá honum um hinar vátryggðu eignir, ástand þeirra og verðmæti, eru af skornum skammti, sem fyrr segir, og mati kunnáttumanna er ekki til að dreifa. Á kröfugerðinni eru því þeir annmarkar, að ekki er unnt að leggja dóm á málið.
Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að fella hinn áfrýjaða dóm úr gildi og vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Eftir atvikum er rétt, að hvor aðili beri kostnað sinn af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur, og er máli þessu vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 31. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Guðjóni Sverri Rafnssyni, kt. 220567-3709, Miðtúni 42, Reykjavík, f.h. einkafirma síns, Smart, kt. 521089-1219, með stefnu birtri 17. maí 1999 á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf, kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða honum vátryggingabætur, að fjárhæð kr. 24.877.000, auk hæstu lögleyfðra dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. ágúst 1998 til greiðsludags auk málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð kr. 8.200.000, sem greidd var inn á skuldina þann 13. nóvember 1998. Til vara er krafizt annarrar, lægri fjárhæðar að mati dómsins, auk málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og dæmdur málskostaður úr hendi hans að mati dómsins, en til vara, að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II.
Málavextir:
Þann 19. júní 1998 keypti stefnandi atvinnurekstrartryggingu hjá stefnda, þ.m.t. eignatryggingu vegna fasteignarinnar Lækjargötu 2 (Austurstræti 22 b), sem hann hafði á leigu hjá eiganda hennar, Fjallkonunni ehf., en hann hafði þá lokið við að standsetja húsnæðið fyrir veitingarekstur. Samkvæmt tryggingasamningi var lausafé tryggt fyrir samtals kr. 17.877.000, sem skiptist þannig:
|
Lausafé samkvæmt lista |
kr. 8.877.000 |
|
Innréttingar |
kr. 8.000.000 |
|
Vín- og goslager |
kr. 800.000 |
|
Barvörur, sjóðsvélar o.fl. |
kr. 200.000 |
Enn fremur keypti stefnandi rekstrarstöðvunartryggingu en vátryggingarfjárhæð hennar var kr. 9.438.500. Skilmálar þeir, sem giltu um vátryggingarnar voru nr. 200-500 fyrir eignatrygginguna og nr. 680 fyrir rekstrarstöðvunartrygginguna. Vátryggingartímabilið var frá 19. júní 1998 til 31. desember s.á.
Þann 29. júlí 1998 brann fasteignin að Lækjargötu 2 (Austurstræti 22b), og var húsið jafnað við jörðu eftir brunann. Eyðilagðist allt innanhúss. Stefndi greiddi stefnanda í bætur úr eignatryggingu þann 13. nóvember 1998 vegna lausafjár, kr. 4.000.000, og kr. 4.200.000 vegna innréttinga, þar af runnu kr. 2.200.000 til Fjallkonunnar hf., sem var eigandi hluta innréttinganna. Stefnandi tók við greiðslum með fyrirvara um fjárhæð þeirra. Kröfu stefnanda um bætur vegna vín- og goslagers var hafnað, sem og vegna barvara og sjóðsvéla. Ennfremur hefur stefndi hafnað greiðslum vegna kröfu stefnanda um bætur vegna rekstrarstöðvunar, þ.e. tapaðs hagnaðar og launa í 12 mánuði.
Ágreiningur aðila snýst um tjón stefnanda og bótafjárhæðir.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi kveðst hafa tekið á leigu húsnæði og búnað veitingahússins Tunglsins að Austurstræti 22, Reykjavík, með samningi, dags. 26. febrúar 1998. Samkvæmt leigusamningnum, sem jafnframt hafi verið kaupsamningur, hafi stefnandi greitt kr. 5.000.000 vegna kaupanna og skyldi síðan greiða húsaleigu, kr. 650.000,00 á mánuði, og skyldu greiðslur vísitölubundnar miðað við byggingarvísitölu með grunnvísitölu 225,9 stig. Stefnandi hafi tekið við húsnæðinu þann 15. mars 1998 og hafið þegar í stað endurbætur á staðnum til þess að koma honum í það horf, að veitingarekstur gæti farið þar fram. Hafi stefnandi látið skipta um salernis- og hreinlætistæki, teppaleggja, mála, yfirfara raflagnir, smíða nýja skápa við vínstúkur og útbúa fatahengi og klefa fyrir plötusnúð. Þá hafi hann látið smíða palla á gólf, setja veggklæðningar og hækka dansgólf. Hafi stefnandi lagt í mikinn kostnað við þessar lagfæringar.
Eftir að stefnandi fékk fyrra tilboð frá stefnda um vátryggingasamning, þar sem gert var ráð fyrir, að vátryggingarfjárhæð eignatryggingar yrði kr. 24.877.000 og að fjárhæð rekstrarstöðvunartryggingar yrði kr. 12.938.500, hafi starfsmaður stefnda komið á starfsstöð stefnanda og skoðað og metið það, sem vátryggja átti. Hafi sú skoðun leitt til þess, að vátryggingafjárhæðum var breytt á þann veg, sem síðan var gerður samningur um.
Til grundvallar eignatryggingunni hafi verið skrá yfir það lausafé í eigu stefnda, sem tryggt var, og hafi verið tilgreint verð fyrir hvern einstakan hlut. Hafi verið samkomulag milli stefnanda og stefnda um verðmætamat hvers einstaks hlutar og hafi heildarverðmæti lausafjár numið kr. 8.877.000, auk þess sem gert hafi verið ráð fyrir því, að vín- og gosdrykkjalager væri hverju sinni að verðmæti kr. 800.000, barvörur, sjóðsvélar o.fl að verðmæti kr. 200.000 og að innréttingar í eigu stefnanda væru að verðmæti kr. 8.000.000. Hafi verðmætamat innréttinganna lækkað frá fyrra vátryggingatilboði stefnda úr kr. 15.000.000 í kr. 8.000.000, en að öðru leyti hafi eignatryggingin verið í samræmi við fyrra tilboð.
Samkvæmt eignaskránni hafi eftirtaldir munir verið tryggðir og matsverð þeirra verið sem hér segi:
|
l. 8 Electrovoice hátalarar á kr. 41.000 stk. |
kr. 328.000 |
|
2. 2 12" bassabox á kr. 42.000 |
kr. 84.000 |
|
3. 2 London Mega hátalarar á 48.000 |
kr. 96.000 |
|
4. 1 400W QSC magnari á kr. 180.000 |
kr. 180.000 |
|
5. 3 Geislaspilarar á kr. 26.000 |
kr. 78.000 |
|
6. 6 Community hátalarar á kr. 50.000 |
kr. 300.000 |
|
7. 4 Community botnar á kr. 150.000 |
kr. 600.000 |
|
8. 2 JBL box á kr. 60.000 |
kr. 120.000 |
|
9. 2 Community hátalarar á kr. 150.000 |
kr. 300.000 |
|
10.2 400W Crest magnarar á kr. 200.000 |
kr. 400.000 |
|
11.1 1000W QSC magnari á kr. 250.000 |
kr. 250.000 |
|
12. 2 JBL magnarar á kr. 150.000 |
kr. 300.000 |
|
13. 2 Crossover á kr. 16.000 |
kr. 32.000 |
|
14.2 SL 1200 Technics á kr. 40.000 |
kr. 80.000 |
|
15. 2 Trackmaster hljóðdósir á kr. 12.000 |
kr. 24.000 |
|
16. 1 Mixer á kr. 26.000 |
kr. 26.000 |
|
17. 2 ljósaróbótar á kr. 350.000 |
kr. 700.000 |
|
18. 1 stýribúnaður á kr. 150.000 |
kr. 150.000 |
|
19. 2 speglakúlur á kr. 15.000 |
kr. 30.000 |
|
20. 2 snúningsljós á kr. 30.000 |
kr. 60.000 |
|
21. 2 þyrlur á kr. 80.000 |
kr. 160.000 |
|
22. 8 spotljós á kr. 12.000 |
kr. 96.000 |
|
23. 1 Stroba á kr. 23.000 |
kr.23.000 |
|
24. 40 Arne Jakobsen stólar á kr. 22.000 |
kr.880.000 |
|
25. 4 Klippan sófar á kr. 50.000 |
kr.200.000 |
|
26. 1 Chersterfield leðursófasett á kr. 350.000 |
kr.350.000 |
|
27. 32 leðurstólar á kr. 35.000 |
kr. 1.120.000 |
|
28.20 álkollar á kr. 20.000 |
kr.400.000 |
|
29. 30 kollar á kr. 8.000 |
kr.240.000 |
|
30. 25 borð há og lág á kr. 23.000 |
kr.575.000 |
|
31. 3 barstólar úr leðri á kr. 35.000 |
kr.105.000 |
|
32. 3 sófasett á kr. 50.000 |
kr.150.000 |
|
33. 1 klakavél á kr. 100.000 |
kr.100.000 |
|
34. 1 uppþvottavél á kr. 120.000 |
kr.120.000 |
|
35. 1 eldhústæki á kr. 220.000 |
kr.220.000 |
Alls hafi munir þessir verið metnir á kr. 8.877.000, sem hafi verið vátryggingaverð þeirra.
Við brunann hafi allt brunnið, sem brunnið gat, og hafi húsið verið jafnað við jörðu eftir brunann og komi ekki til þess, að stefnandi hefji rekstur sinn á ný. Hafi rekstrarstöðvun því orðið algjör.
Við brunann hafi allar innréttingar eyðilagzt, sem stefnandi hafði vátryggt að verðmæti kr. 8.000.000, barvörur og sjóðsvélar alls að verðmæti kr. 1.000.000 og jafnframt allir munir samkvæmt munaskrá, að undanskyldum 2 stk. Community botnum (nr. 7 á lista), samtals að verðmæti kr. 300.000, 2 stk Community hátölurum (nr. 9 á lista), samtals að verðmæti kr. 300.000 og 2 stk. JBL mögnurum (nr. 12 á lista), samtals að verðmæti kr. 300.000. Þá hafi Vífilfell ehf. lýst því yfir, að ekki yrði gerð krafa á hendur stefnanda vegna klakavélar í eigu Vífilfells ehf., alls að verðmæti kr. 100.000 (nr. 33 á lista). Tjón vegna brunninna muna stefnanda sé því að fjárhæð kr. 7.877.000 og eignatjónið því alls að fjárhæð kr. 16.877.000.
Tjón stefnanda vegna rekstrarstöðvunar sé mikið. Hann hafi haft í laun kr. 400.000 á mánuði, eða alls kr. 4.800.000 yfir 12 mánaða tímabil. Þá missi hann væntanlegan hagnað af starfseminni, auk þess sem verulegur kostnaður hafi fallið og falli á hann vegna rekstrarstöðvunarinnar. Þyki stefnanda hæfilegt að áætla þetta tjón kr. 3.200.000. Stefnandi geti ekki sannað tjón sitt með gögnum um reksturinn, þar sem þau muni öll hafa brunnið þann 29. júlí 1998. Hann telji hins vegar eðlilegt og sanngjarnt að áætla tjónið í heild kr. 8.000.000 vegna rekstrarstöðvunarinnar.
Þann 24. september 1998 hafi stefnandi fyrst krafið stefnda um greiðslu vátryggingabóta með skriflegum hætti, en áður hafi hann krafizt uppgjörs munnlega. Í bréfi þessu hafi verið gerð krafa um greiðslu vátryggingabóta vegna eignatryggingar að fjárhæð kr. 16.877.000. Stefndi hafi hafnað kröfum stefnanda og talið verðmæti þeirra muna, er brunnu, ekki jafn mikið og stefnandi hélt fram.
Tekið hafi verið á móti greiðslum stefnda vegna tjónsins með fyrirvara um fjárhæð bóta.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að í gildi hafi verið vátryggingasamningur milli hans og stefnda, þar sem stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða stefnanda bætur fyrir tjón, er hann kynni að verða fyrir, m.a. við bruna. Þar sem þeir hagsmunir, sem vátryggðir voru, hafi farið forgörðum í brunanum, þá beri stefnda að bæta stefnanda tjónið að fullu.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að verðmæti allra munanna og innréttinganna hafi verið metið af starfsmanni stefnda skömmu fyrir brunann, og vátryggingaverðmætið hafi verið ákveðið í samráði við stefnda, og iðgjald hafi verið greitt í samræmi við verðmæti þeirra hagsmuna, er tryggðir voru. Stefndi geti því ekki nú borið fyrir sig, að verðmæti innréttinga og tækja hafi verið minna en vátryggingaverðið.
Samkvæmt vátryggingaskilmálum skuli vátryggingaverðmæti miðast við nývirði muna, sbr. ákvæði skilmálanna nr. 550.11, og hafi þetta verðmæti komið fram á munaskrá, en auk þess muni stefnandi leggja fram gögn, er sýni, að verðmætamat á skránni sé rétt. Verðmæti innréttinga, er stefnandi átti, hafi verið metið skömmu fyrir brunann af starfsmanni stefnda. Hafi stefndi ekki sýnt fram á, að hann hafi verið blekktur við það mat, og ekki hafi hann fært fram nein rök fyrir því, að verðmæti innréttinganna hafi verið minna, en matið kvað á um. Beri honum því að greiða bætur, sem nemi vátryggingafjárhæðinni.
Vísar stefnandi til ákvæða vátryggingaskilmálanna nr. 550.10, 550.11, 550.12, svo og til ákvæða 35-39. gr. laga nr. 20/1954 kröfum sínum til stuðnings. Sérstaklega vísar hann til 2. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1954 og bendir á, að samkvæmt því lagaákvæði verði stefndi að sanna, að bæturnar muni nema meiru en upphæð tjónsins, ef greitt yrði miðað við verð hinna vátryggðu muna í vátryggingasamningnum. Þá vísar stefnandi jafnframt til 9. gr. laga nr. 20/1954 og 24. gr. s.l.
Vegna hinnar varanlegu rekstrarstöðvunar hafi stefnandi orðið fyrir verulegu tjóni. Bótatími samkvæmt ákvæðum skilmála nr. 680 sé 12 mánuðir. Hann geri þó einungis kröfu til að fá bætur vegna launataps í 12 mánuði, alls kr. 4.800.000, en laun hans sjálfs hafi verið kr. 400.000 á mánuði, sbr. lista yfir vátryggða hagsmuni, og vegna taps á hagnaði kr. 3.200.000. Þar sem bókhaldsgögn stefnanda hafi brunnið þann 29. júlí, geti hann ekki með nokkrum hætti sannað með óyggjandi hætti, hvert tjón hans varð, en telji, að hann setji fram sanngjarna kröfu, sem sé vel innan þeirrar fjárhæðar, sem vátryggt hafi verið fyrir og greitt iðgjald af. Vísar stefnandi til skilmála um vátrygginguna nr. 680, sérstaklega ákvæðis 685.12, kröfum sínum til stuðnings, svo og til þeirra ákvæða laga nr. 20/1954, sem áður sé vísað til.
Stefnandi styður vaxtakröfu sína við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. og 3. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954.
Stefnandi styður málskostnaðarkröfu sína við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda:
Málavextir horfa svo við stefnanda:
Stefndi kveður stefnanda hafa mælt sér mót við starfsmann stefnda á starfsstöð sinni, áður en gengið var frá vátryggingasamningi. Stefnandi hafi ekki verið á staðnum, eins og um hafi verið talað, þegar skoðunarmaður kom, og hafi skoðun því ekki farið fram.
Stefndi kveður skrifstofuhúsnæði stefnanda í norðausturhluta þriðju hæðar ekki munu hafa farið mjög illa út úr brunanum, sbr. dskj. nr. 31 bls. 13.
Þann 23. september 1998 hafi verið haldinn fundur vegna bótauppgjörs, en viðstaddir hafi verið, auk stefnanda, Gísli Gíslason hdl., Guðný Björnsdóttir og Geirarður Geirarðsson. Starfsmenn stefnda hafi þá m.a. óskað eftir staðfestingum á verðmæti lausafjárins, sem krafizt var, að bætt yrði, og staðfestingum á síðustu vínkaupum fyrir brunann. Einnig hafi verið óskað eftir, að nánari grein yrði gerð fyrir þeim innréttingum, sem krafizt var, að bættar yrðu, dómskjal nr. 20. Á fundinum hafi enn fremur komið fram, að bókhald Smart væri hjá endurskoðanda einkafirmans, en þar sem hann væri erlendis, væri ekki unnt að leggja það fram að svo stöddu, en það yrði gert um leið og endurskoðandinn kæmi til landsins.
Með bréfi dagsettu 24. september 1998 hafi stefnandi krafið stefnda um greiðslu bóta vegna eignatjóns, samtals að fjárhæð kr. 16.877.000, að frádregnum kr. 2.200.000, en þeirri fjárhæð hafði hann ávísað á Fjallkonuna ehf., dómskjal nr. 25.
Þann 21. október 1998 hafi lögmaður stefnanda ritað stefnda bréf, þar sem nánari grein hafi verið gerð fyrir bótakröfu stefnanda vegna eignatryggingar, samtals að fjárhæð kr. 16.799.610, auk innheimtukostnaðar, dómskjal nr. 21.
Stefndi hafi svarað því bréfi þann 29. október 1998 og ítrekað ósk sína um frekari gögn til stuðnings kröfum stefnanda, dómskjal nr. 22.
Þann 13. nóvember 1998 hafi stefnanda verið greiddar bætur, að fjárhæð kr. 4.200.000 vegna skemmda á innréttingum. Þar af hafi kr. 2.200.000 verið greiddar Fjallkonunni ehf., samkvæmt yfirlýsingu stefnanda, dómskjal nr. 25. Sama dag hafi stefnanda verið greiddar bætur að fjárhæð kr. 4.000.000 vegna tjóns á lausafé. Bæturnar hafi verið mótteknar með fyrirvara um fjárhæð þeirra, dómskjöl nr. 27 og 28.
Aðalkrafa:
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að með þegar greiddum bótum sé tjón stefnanda að fullu bætt, og eigi hann ekki rétt til greiðslu frekari bóta. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir umfangi tjóns síns, enda séu ríkari kröfur gerðar til bókhaldsskyldra aðila, en annarra í þeim efnum. Þá sé tjón umfram það, sem bætt hafi verið, með öllu ósannað. Sé öllum kröfum stefnanda um frekari greiðslu bóta mótmælt.
A.Lausafé.
Stefnandi geri kröfu um bætur, samtals að fjárhæð kr. 7.877.000, vegna tjóns á lausafé. Stefnandi hafi fengið greiddar bætur vegna lausafjár að fjárhæð kr. 4.000.000 þann 13. nóvember 1998. Stefndi telji, að frekara tjón sé ósannað. Haldi stefnandi því fram, að um hafi verið að tefla verðsett skírteini, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954, beri hann sönnunarbyrði um, að svo hafi verið umsamið.
B.Innréttingar.
Stefnandi krefjist bóta, að fjárhæð kr. 8.000.000, vegna tjóns á innréttingum. Stefndi hafi þegar greitt kr. 4.200.000 vegna tjónsins. Stefndi telji frekara tjón ósannað. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjónið, t.d. með bókhaldsgögnum, sem sýni fram á bókfært verð innréttinganna í reikningum einkafirmans. Verðlistar séu ekki sönnun um keypt verðmæti. Haldi stefnandi því fram, að um hafi verið að tefla verðsett skírteini, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954, beri hann sönnunarbyrði um, að svo hafi verið um samið.
C.Vín- og goslager, barvörur og sjóðsvélar.
Stefnandi telji, að vín- og goslager hafi verið að verðmæti kr. 800.000, en barvörur og sjóðsvélar kr. 200.000, þegar bruninn varð. Stefndi mótmæli því sem ósönnuðu. Stefnandi beri sönnunarbyrðina um tjón sitt, og beri stefnda ekki að bæta frekara tjón, en orðið hafi. Stefnanda væri í lófa lagið að leggja fram reikninga fyrir kaupum á áfengi og gosi, en það hafi hann ekki gert, þrátt fyrir ítrekaðar óskir af hálfu stefnda. Séu kröfur stefnanda því órökstuddar og ósannaðar.
D.Rekstrarstöðvun.
1.Tjón vegna tapaðs hagnaðar og annars kostnaðar:
Stefndi krefjist bóta, að fjárhæð kr. 3.200.000, vegna tapaðs hagnaðar og annars kostnaðar, sem á hann hafi fallið og falla muni á hann vegna rekstrarstöðvunarinnar. Stefnandi hafi ekki fært fram nein gögn kröfum sínum til stuðnings. Á fundi aðila þann 23. október 1998 hafi stefnandi sagt, að bókhald einkafirmans væri hjá endurskoðanda þess, og yrði það lagt fram um leið og endurskoðandinn kæmi til landsins. Í málavaxtalýsingu í stefnu á bls. 3 sé því hins vegar haldið fram, að öll bókhaldsgögn firmans hafi brunnið í brunanum. Hafi stefnandi geymt bókhald sitt á skrifstofu sinni í húsinu, sé augljóst af bls. 13 á dómskjali 31, að þessi fullyrðing sé röng. Stefnandi hafi heldur ekki lagt fram önnur gögn til stuðnings kröfum sínum, svo sem skattframtal eða annað.
2.Laun.
Stefnandi geri kröfu um greiðslu kr. 4.800.000 vegna launa á 12 mánaða tímabili. Sé tjón stefnanda ósannað. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn að baki útreikningum á tjóni sínu, hvorki skattframtal, staðgreiðsluskýrslur né annað. Þá beri stefnanda að takmarka tjón sitt, m.a. með því að afla sér tekna með öðrum hætti.
Varakrafa:
Verði ekki á sýknukröfu fallizt, sé gerð varakrafa um lækkun á stefnukröfum, með vísan til þeirra raka, sem sett séu fram til stuðnings sýknukröfu, eftir því sem við eigi. Þá geri stefnandi ekki grein fyrir, hvernig stefnufjárhæð sé fundin.
Vaxtakröfum stefnanda sé andmælt, sérstaklega upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Stefndi vísar einkum máli sínu til stuðnings til laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, auk almennra reglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, svo og til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar stefnandi, Guðjón Sverrir Rafnsson; Geirarður Geirarðsson, deildarstjóri hjá stefnda; Leó E. Löve lögfræðingur og eigandi Fjallkonunnar hf.; Hallgrímur Óli Halldórsson, verzlunarstjóri í Japis; Víðir Snær Björnsson benzínafgreiðslumaður; Pétur Þ. Jóhannesson, starfsmaður markaðsdeildar stefnda; og Hilmar Kristján Jakobsen Viktorsson viðskiptafræðingur.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að með þegar greiddum bótum sé tjón stefnanda að fullu bætt, og beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir umfangi tjónsins, en ríkari kröfur séu gerðar í þeim efnum til bókhaldsskyldra aðila.
Stefnandi hefur haldið því fram, að allt bókhald hans hafi farið forgörðum í brunanum. Af hálfu stefnda er því haldið fram, að stefnandi hafi skýrt svo frá á fundi hjá stefnda, að bókhaldið væri hjá endurskoðanda sínum, sem staddur væri erlendis.
Vitnið, Geirarður Geirarðsson, deildarstjóri hjá stefnda, skýrði m.a. svo frá fyrir dómi, að stefnandi hafi komið á fund hjá stefnda ásamt lögmanni sínum, Gísla Gíslasyni, vitninu og Guðnýju Björnsdóttur lögfræðingi. Hafi Gísli, á þeim fundi, m.a. gert kröfu um bætur vegna rekstrarstöðvunar, og hafi jafnframt komið fram, að bókhaldið væri hjá endurskoðanda stefnanda, sem væri erlendis. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt fyrr en við málshöfðun, að bókhaldið hefði brunnið.
Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi, að hann minntist þess ekki að hafa sagt, að gögnin væru hjá endurskoðanda, en hann hafi kannski sagt, að það ætti eftir að skoða málið, þegar endurskoðandinn kæmi til landsins. Gögnin hefðu verið geymd á skrifstofu stefnanda í suðausturhluta 3. hæðar, í herbergi, sem sýnt sé á ljósmynd nr. 68, bls. 9 á dskj. nr. 31, en hins vegar sé rangt, að gögnin hafi verið í herbergi, sem sjáist á mynd á bls. 13.
Vitnið, Hilmar Kristján Jakobsen Viktorsson viðskiptafræðingur, skýrði svo frá, að hann hefði aðstoðað stefnanda undanfarin ár við framtalsgerð. Hann hafi ekki aðstoðað við bókhald fyrir árið 1998 og ekki haft bókhaldsgögn vegna þess árs. Yfirleitt komi menn með gögnin í lok ársins eða byrjun næsta árs. Bókhaldsgögn stefnanda vegna ársins 1998 hefðu öll brunnið.
Telja verður framburð stefnanda, sem studdur er framburði vitnisins Hilmars, trúverðugan um afdrif bókhaldsgagna. Þá er ósannað með öllu, að bókhaldgögnin hafi verið geymd í herbergi, sem sést á ljósmynd á bls. 13 á dskj. nr. 31, svo sem stefndi hefur haldið fram, en sú fullyrðing er engum rökum studd. Herbergi það kom minna skemmt úr brunanum en herbergi á mynd nr. 68, en þar sýnist allt hafa brunnið, sem brunnið gat. Stefnanda verður því ekki gert að sanna tjón sitt með bókhaldsgögnum.
Stefnandi byggir kröfur sínar á vátryggingasamningi þeim, sem í gildi var milli aðila, þegar tjónið varð og liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 3. Samkvæmt skírteininu keypti stefnandi eignatryggingu, þar sem lausafé er tryggt fyrir kr. 17.877.000, rekstrarstöðvunartryggingu að vátryggingafjárhæð kr. 9.438.500 og að auki frjálsa ábyrgðartryggingu, en ágreiningur aðila snýst um tvo fyrstu liðina. Verður fyrst vikið að lausafjártryggingunni. Greinir aðila m.a. á um það, hvort um sé að ræða svokallað verðsett skírteini, sbr. 2. mgr. 39. gr. l. nr. 20/1954.
Undir eignatryggingu samkvæmt vátryggingaskírteini fellur allt tryggt lausafé, en í skírteini er það greint í 3 flokka, þ.e. lausafé samkvæmt lista, heildarvátryggingafjárhæð kr. 8.877.000, innréttingar kr. 8.000.000 og vín og goslager kr. 800.000 ásamt barvörum, sjóðsvélum o.fl., kr. 200.000. Í skírteininu segir enn fremur svo við hvern framangreindra flokka: “Ath. litið er á hvern lið í sundurliðun sem sjálfstætt vátryggðan.” Listi sá, sem vísað er til í skírteini, liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 8. Er þar nákvæm sundurgreining ásamt verði sérhvers tryggðs lausafjármunar, samtals kr. 8.877.000. Á annarri síðu skjalsins eru hinir tveir flokkarnir tilgreindir, án frekari sundurliðunar en fram kemur í skírteini.
Tilvitnað ákvæði 2. mgr. 39. gr. l. nr. 20/1954 hljóðar svo:
“Sé kveðið á um ákveðið verð hinna vátryggðu muna í vátryggingarsamningum eða samið um tiltekna aðferð við mat á tjóninu, þá eru þau ákvæði skuldbindandi fyrir félagið, nema það sanni, að bæturnar mundu þá nema meiru en upphæð tjónsins.”
Lögin gefa engin fyrirmæli um form “verðsettra skírteina”. Í samningi aðila er vísað til sérstaks lista, sem skoðast sem hluti samningsins, og er tekið sérstaklega fram, að litið sé á hvern lið í sundurliðum sem sjálfstætt vátryggðan.
Geirarður Geirarðsson, deildarstjóri hjá stefnda skýrði m.a. svo frá fyrir dómi, að ekki sé vanalegt að selja svokölluð “verðsett skírteini”. Hann kvað framangreinda áritun í tryggingarskírteini fyrst og fremst gerða til að auðvelda mönnum að gera sér grein fyrir verðmætinu, bæði við útgáfu skírteinis og endurnýjun.
Samkvæmt því, sem fram hefur komið í málinu af hálfu stefnda, þykir hann ekki hafa sýnt fram á eða gert sennilegt, að sérstakar formkröfur eða aðrar og ríkari kröfur, en fram kemur í skírteini stefnanda, séu gerðar til þess, hvernig verðtilgreining skuli gerð í vátryggingaskírteini, svo það geti talizt vera “verðsett skírteini”. Verður því að fallast á með stefnanda, að tilvísun til lista og athugasemd í skírteini um, að skoða beri sérhvern hlut sem sjálfstætt vátryggðan, fullnægi skilyrðum 2. mgr. 39. gr. l. nr. 20/1954 um ákveðið verð hinna vátryggðu muna, en skýring vitnisins Geirarðs um umdeilda áritun í tryggingarskírteini þykir ekki varpa ljósi á tilgang hennar. Stefndi ber því sönnunarbyrðina um það, að tjón stefnanda, sem óumdeilt er, að hafi verið altjón, sé minna, en vátryggingafjárhæðir segja til um. Með því að stefndi hefur ekki sýnt fram á eða gert sennilegt, að svo sé, ber að taka kröfur stefnanda til greina, hvað varðar liðina þrjá, sem falla undir eignatryggingu.
Verður þá vikið að kröfu stefnanda um bætur vegna rekstrarstöðvunartryggingar.
Svo sem að framan er rakið, þykir sannað, að bókhald stefnanda hafi farið forgörðum í brunanum. Stefnanda verður því ekki gert að sanna kröfur sínar með bókhaldsgögnum, sem er eina málsástæða stefnda varðandi sýknukröfu vegna tapaðs hagnaðar og annars kostnaðar, sem á stefnanda hafi fallið og falla muni vegna rekstrarstöðvunarinnar, en bótakrafa stefnanda vegna þessa þáttar nemur kr. 3.200.000.
Um altjón var að ræða og liggur fyrir, að reksturinn mun ekki hefjast að nýju, án þess að stefnandi geti um það ráðið. Fer því um bætur til handa stefnanda skv. lið 685.12 í skilmálum, sem giltu um rekstrarstöðvunartryggingu, þegar tjónið varð. Felur það í sér, að bætur greiðast án tillits til þess, hvort stefnandi geti sannað þann kostnað, sem hann hefur lagt í. Þá liggur fyrir, að stefnandi getur ekki sýnt fram á hagnað af rekstri sínum með eldri skattframtölum, þar sem rekstur hans var nýhafinn, þegar tjónið varð, og ekkert fyrirliggjandi uppgjör. Þá reiknar stefnandi sér í laun kr. 400.000 á mánuði, sbr. áðurnefndan lista. Þykir sú fjárhæð ekki ósanngjörn. Til þess ber að líta, að stefndi gerði ekki athugasemdir við þessa viðmiðun, þegar tryggingasamningurinn var gerður, og tóku iðgjaldagreiðslur stefnanda m.a. mið af henni. Stefnandi hefur ekki kost á að staðreyna þessa fjárhæð með bókhaldsgögnum, svo sem fram er komið. Hins vegar bar stefnandi fyrir dómi, að hann hefði hafið störf að nýju í janúar 1999. Ekkert liggur fyrir um tekjur hans eftir það. Þykir því rétt að miða bætur til hans vegna tekjumissis við 6 mánuði í stað 12 mánaða, svo sem hann gerir kröfu um.
Stefndi hefur mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda, einkum upphafstíma dráttarvaxta. Eftir atvikum þykir rétt að dæma dráttarvexti frá stefnubirtingardegi 17. maí 1999, en fram til þess dags dæmast vextir samkvæmt 7. gr. l. nr. 25/1987 frá þeim tíma, sem krafizt er í stefnu.
Með hliðsjón af úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 750.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Guðjóni Sverri Rafnssyni, kr. 14.277.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. l. nr. 25/1987 af kr. 22.477.000 frá 14. ágúst 1998 til 13. nóvember s.á., en af kr. 14.277.000 frá þeim degi til 17. maí 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 750.000 í málskostnað.