Hæstiréttur íslands
Mál nr. 108/2013
Lykilorð
- Málsástæða
- Skuldamál
|
|
Fimmtudaginn 28. nóvember 2013. |
|
Nr. 108/2013. |
Lindarvatn ehf. (Pétur Þór Sigurðsson hrl.) gegn SPB hf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.) |
Málsástæða. Skuldamál.
SPB hf. krafði L ehf. um greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningi aðila. Í málinu krafðist L ehf. lækkunar á kröfu SPB hf. á þeirri forsendu að umræddur lánssamningur hefði verið til skemmri tíma en áskilið væri um verðtryggð lán samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001, sem settar voru með heimild í 15. gr. laga nr. 38/2001. Talið var að umræddar fullyrðingar L ehf. fælu í sér málsástæðu sem væri of seint fram komin en henni var fyrst hreyft við í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu L ehf. í héraði. Þar sem L ehf. hefði verið í lófa lagið að bera þessa málsástæðu fyrir sig þegar í greinargerð komst hún ekki að í málinu samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Var L ehf. því dæmt til að greiða SPB hf. umkrafða fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 21. desember 2012. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 6. febrúar 2013 og áfrýjaði hann öðru sinni 19. sama mánaðar. Áfrýjandi krefst þess að höfuðstóll kröfu stefnda verði lækkaður í 137.607.061 krónu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Til vara krefst hann þess að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 148.227.602 krónur, en að því frágengnu 143.153.375 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 10. febrúar 2010 til 10. júlí sama ár, en af framangreindum fjárhæðum frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um málskostnað og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ef vörnum er haldið uppi í einkamáli skal í greinargerð lýst á gagnorðan og skýran hátt málsástæðum stefnda og öðrum atvikum sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. sömu laga skulu málsástæður koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki það. Þeirri málsástæðu að efni 2. gr. lánssamnings forvera aðila frá 9. ágúst 2007 bæri að skýra svo að lánið væri til þriggja ára og verðtrygging þess væri því óheimil samkvæmt reglum nr. 492/2001, sem settar voru á grundvelli 15. gr. laga nr. 38/2001, var ekki haldið fram í greinargerð áfrýjanda sem lögð var fram í héraði 16. júní 2011. Var henni fyrst hreyft 17. apríl 2012 við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu áfrýjanda. Þar sem honum var í lófa lagið að bera þessa málsástæðu fyrir sig þegar í greinargerð kemst hún ekki að í málinu samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lindarvatn ehf., greiði stefnda, SPB hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 21. september 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 24. ágúst sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af SPB hf., Rauðarárstíg 27 í Reykjavík, á hendur Lindarvatni ehf. Borgartúni 31 í Reykjavík með stefnu birtri 26. apríl. 2011.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 197.591.084 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 10. júlí 2010 til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða síðar ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Stefndi krefst frávísunar málsins frá dómi. Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna er endanleg krafa stefnda sú að höfuðstólskrafa stefnanda verði lækkuð í 137.607.061 kr. Þá krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins.
Frávísunarkröfu stefnda var hafnað með úrskurði kveðnum upp 17. apríl sl.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum á þann veg að 9. ágúst 2007 hafi Sparisjóðabanki Íslands hf., nú SPB hf., og Símahúsið ehf., nú Lindarvatn ehf. gert með sér lánssamning nr. 1139-74-015461 þar sem Sparisjóðabankinn lofaði að lána Lindarvatni ehf. 142.213.170 kr. Sama dag hafi Lindarvatn ehf. fengið lánsfjárhæðina greidda út. Samkvæmt ákvæðum lánssamningsins skyldi Lindarvatn ehf. endurgreiða Sparisjóðabankanum lánið á þremur árum þannig að 1/252 hluti lánsfjárhæðarinnar yrði greiddur á hverjum gjalddaga, í fyrsta sinn 10. apríl 2010, og síðan á eins mánaðar fresti. Þá skyldi Lindarvatn ehf. endurgreiða eftirstöðvar lánsins, þ.e. 249/252 hluta þann 10. júlí 2010, en í lánasamningnum hafi verið heimild til að framlengja eftirstöðvar lánsins til þriggja ára með sama endurgreiðsluferli ef tiltekin skilyrði væru uppfyllt, m.a. það að lánið væri í fullum skilum. Umsamdir vextir, 8,8%, skyldu greiðast mánaðarlega á lánstímanum, í fyrsta skipti 10. september 2007. Vaxtaprósentan var lækkuð í 7,8% með viðauka við samninginn dags. 4. desember 2009. Áfallnir höfuðstólsfærðir vextir á gjalddaga nemi 7.310.175 kr. Lánið sé bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 273,0 stig. Á gjalddaga hafi vísitalan verið 365,3 stig og áfallnar verðbætur því 48.064.439 kr. Þá sé áfallinn bankakostnaður 3.300 kr.
Sparisjóðabankinn sendi út innheimtubréf á Lindarvatn ehf. þann 21. júní 2010 og bauð félaginu að koma láninu í skil með greiðslu þeirra gjalddaga sem þá voru í vanskilum, alls að fjárhæð 8.580.302 kr. innan 10 daga. Engar greiðslur hafi borist. Lánið hafi því ekki verið í skilum á lokagjalddaga þann 10. júlí 2010 og hafi skilyrðum framlengingar því ekki verið fullnægt.
Þá hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá Lindarvatni ehf. af þriðja aðila þann 19. október 2010. Í kjölfarið hafi Sparisjóðabankinn gert kröfu um gjaldþrotaskipti á Lindarvatni ehf., dags. 16. desember 2010, vegna kröfu að fjárhæð 208.904.080 kr., auk dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Lindarvatn ehf. hafi látið bóka mótmæli við kröfunni við fyrstu fyrirtöku og var ágreiningsmál þingfest samdægurs. Sökum varna Lindarvatns ehf. hafi stefnandi dregið til baka kröfu um gjaldþrotaskipti.
Stefndi telur ofangreinda málsatvikalýsingu stefnanda ófullnægjandi. Í lánssamningi aðila sé þess hvergi getið að samið hafi verið eða gerður áskilnaður um að greiðslur samkvæmt samningnum skuli verðtryggðar. Þá sé þess ekki getið í atvikalýsingu að ástæða þess að stefnandi féll frá kröfu sinni um gjaldþrotaskipti á búi stefnda hafi verið sú að fjárkrafa hans var að fullu tryggð í fasteignum stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefnda á grundvelli lánssamnings stefnanda og stefnda frá 9. ágúst 2007 þar sem stefnandi lánar stefnda 142.213.170 kr. með 8,8% vöxtum, sem síðar voru lækkaðir í 7,8% með viðauka dags. 4. desember 2009, sem stefnanda bar að endurgreiða að fullu þann 10. júlí 2010.
Lánið hafi fallið í gjalddaga þann 10. júlí 2010, á þeim degi hafi höfuðstóll lánsins numið 142.213.170 kr., vextir verið 7.310.175 kr., verðbætur 48.064.439 kr. og bankakostnaður 3.300 kr. Stefnufjárhæðin sé því samtala þessa, eða 197.591.084 krónur.
Við munnlegan málflutning, bæði um frávísunarkröfu stefnda og við aðalmeðferð málsins, mótmælti stefnandi málatilbúnaði stefnda sem hann taldi byggja á nýrri málsástæðu, sem fyrst hefði verið hreyft í málflutningi um frávísunarkröfuna þann 17. apríl sl. Fyrr hafi því ekki komið fram af hálfu stefnda að hann teldi lánasamning aðila vera lán til skemmri tíma en lög áskilja lágmarkstíma verðtryggðra lána. Engin atvik eða breytingar á aðstæðum réttlæti það að þessarar málsástæðu hafi ekki verið getið í greinargerð stefnda. Hún sé því of seint fram komin og beri að vísa henni frá dómi með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.
Þá heldur stefnandi því fram að, jafnvel þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að málsástæða þessi komist að fyrir dómi sé það rangt að samningur aðila hafi falið í sér lán til þriggja ára. Hið rétta sé, með hliðsjón af eðlilegri túlkun lánaskilmálanna í heild að lánið sé í raun til 23 ára. Sú niðurstaða leiði af eðlilegri túlkun samningsins, sé hann skoðaður í heild, með hliðsjón af fyrirætlan samningsaðila.
Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 10. júlí 2010 til greiðsludags, en 10. júlí 2010 er lokagjalddagi lánssamningsins og stefnanda heimilt að krefjast dráttarvaxta frá þeim degi samkvæmt 12. gr. lánssamningsins um vanskilavexti.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um að samninga beri að halda og um greiðslu skulda. Krafa stefnanda um dráttarvexti er reist á III. og IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sérstaklega 1. mgr. 6. gr. laganna.
Stefnandi gerir kröfu um greiðslu málskostnaðar með vísan til XXI. kafla laga um einkamál nr. 91/1991 auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun með vísan til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Við aðalmeðferð málsins gerði stefnandi kröfu um greiðslu álags á málflutningsþóknun. Til stuðnings þeirri kröfu vísar stefnandi til þess að stefndi hafi valið að halda uppi vörnum í málinu án þess þó að leggja fram nein gögn sem styðji aðalkröfu hans. Stefndi hafi síðan fallið frá aðalkröfu sinni við upphaf aðalmeðferðar og svo sem áður er lýst ekki gert grein fyrir ástæðum þess eða lagt fram nein gögn sem styðji breytta kröfugerð. Þá hafi frávísunarkrafa stefnda augljóslega verið sett fram til að tefja málið. Með þessu hafi stefndi valdið töfum og haldið uppi kröfum sem hann vissi eða mátti vita að væru augljóslega haldlausar sbr. b- og c-lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Um varnarþing vísast til 33. gr. og 3. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í greinargerð stefnda er sýknukrafa á því byggð að stefnandi hafi valdið honum fjártjóni og miska með kröfu sinni um gjaldþrotaskipti sem stefnanda hafi mátt vera ljóst að ekki væru skilyrði til að halda uppi. Með þessari fráleitu kröfu hafi stefnandi valdið honum fjártjóni og miska sem stefndi meti að jöfnu við kröfu stefnanda. Því hafi hann uppi í máli þessu kröfu til skuldajafnaðar.
Um lagarök að baki skaðabótakröfu sinni vísar stefndi til 3. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 og heimild til að hafa uppi þessa kröfu til skuldajafnaðar í málinu er reist á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.
Svo sem rakið er framar féll stefndi frá framangreindri skaðabótakröfu í upphafi aðalmeðferðar og gerir þess í stað kröfu um að höfuðstóll kröfu stefnanda verði lækkaður um 59.984.023 kr., þ.e. verði 137.607.061 kr. Byggir hann þannig breytta kröfu á þeim rökum að lánasamningur aðila feli í sér ákvæði um verðtryggingu sem stangist á við reglur Seðlabanka Íslands, nr.492/2001, sem settar eru með heimild í 15. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Lánstími lánsins sem stefndi tók hjá stefnanda hafi verið til þriggja ára og samkvæmt tilvitnuðu ákvæði reglna Seðlabanka Íslands sé óheimilt að verðtryggja lán sem veitt eru til skemmri tíma en fimm ára. Af þeim sökum sé ákvæðið ólögmætt og stefnanda sé óheimilt að reikna verðbætur á afborganir lána. Fjárhæð kröfu stefnanda beri því að lækka sem nemi ofgreiðslum stefnda vegna hins ólögmæta ákvæðis um verðtryggingu.
Svo sem að framan er rakið þá mótmælti stefnandi þessum röksemdum stefnda sem of seint fram kominni málsástæðu. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að málsástæðu þessarar sé getið með nægilega skýrum hætti þegar í greinargerð og að í málflutningi hans fyrir dómi felist einvörðungu nánari umfjöllun um lagarök, sem dómara sé heimilt að byggja á, hvað sem líði umfjöllun aðila máls.
Forsendur og niðurstaða
Svo sem mál þetta er vaxið, eftir breytta kröfugerð stefnda við upphaf aðalmeðferðar, er ekki ágreiningur milli aðila um að stefndi skuldar stefnanda ógreiddar eftirstöðvar af láni sem stefndi tók hjá stefnanda þann 9. ágúst 2007. Það athugast að í umræddum lánssamningi er lánveitandi sagður vera Icebank hf., í stefnu er stefnandi nefndur Sparisjóðabanki Íslands hf. eða Sparisjóðabankinn. Kennitala félaganna er sú sama og óumdeilt er að heiti Sparisjóðabankans hefur verið breytt í SPB hf. Ágreiningur aðila sem eftir stendur lýtur efnislega að því hvort ákvæði lánasamningsins feli í sér ólögmæta verðtryggingu með vísan til 1. mgr. 4. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001, sem settar eru með heimild í 15. gr. laga nr. 38/2001. Þá er uppi ágreiningur um það hvort málsástæða þessi sé of seint fram komin og verði því ekki tekin til greina gegn mótmælum stefnanda.
Í greinargerð stefnda segir í heild um málsástæður og lagarök eftirfarandi:
„Krafan um frávísun byggir á því að ákvæði lánssamningsins uppfylli ekki strangar kröfur 1. málsliðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ákvæðið verður ekki skilið öðruvísi en svo samkvæmt beinni textaskýringu en að fram verði að koma í lánssamningi ,,umsamið eða áskilið” að hið lánaða fé á grundvelli lánssamningsins skuli verðtryggt. Svo sem vikið var að í málsatvikalýsingu er þess alls ekki getið í lánssamningnum að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Kröfugerðin í stefnu er því ekki í neinu samræmi við framlögð gögn og því ber að vísa málinu frá.
Sýknukrafan byggir á því að stefnanda er skylt að bæta stefnda fjártjón hans og miska samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 vegna hinnar fráleitu kröfu um gjaldþrotaskipti. Stefndi byggir á því að skilyrði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 séu fyrir hendi til að hafa kröfuna uppi til skuldajafnaðar. Stefndi metur kröfu sína vegna fjártjóns og miska á hendur stefnanda að jöfnu við stefnukröfu stefnanda.
Að öðru leyti er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um málatilbúnaðar af hálfu stefnanda máls svo og meginreglna kröfuréttarins um skuldajöfnuð.
Málskostnaðarkrafan byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991“.
Að mati dómsins liggur ljóst fyrir að í greinargerð er hvorki frávísunarkrafan né sýknukrafa stefnda á því byggð að umræddur lánasamningur sé til skemmri tíma en lög áskilja um verðtryggð lán. Fullyrðingar stefnda um efni lánasamnings aðila beri að túlka þannig að lánstími sé þrjú ár, en ekki 23 ár eins og stefnandi heldur fram, fela í sér málsástæðu sem fyrst var hreyft í þinghaldi 17. apríl sl. í málflutningi um frávísunarkröfu hans og ítrekuð og gerð nánari grein fyrir við aðalmeðferð málsins. Hér er um að ræða fullyrðingu um tilekna staðreynd eða atvik en ekki lagarök. Lagarökin fyrir því að umrædd staðreynd eigi að leiða til þess að ákvæði þetta sé ógilt, er að finna í áðurnefndum reglum Seðlabanka Íslands sem settar voru með heimild í 15. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi hefur ekki haldið því fram að hann hafi ekki haft tækifæri eða tilefni til að koma fram með þessa málsástæðu fyrr en raunin varð. Gegn mótmælum stefnanda verður því ekki á henni byggt í málinu.
Stefndi hefur ekki uppi aðrar varnir í málinu og verða því kröfur stefnanda teknar til greina óbreytt.
Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða málskostnað stefnanda. Þótt fallast megi á það með stefnanda að málsvörn stefnda sé haldin nokkrum annmörkum er ekki fallist á það að skilyrði 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um greiðslu álags á málskostnað, séu fyrir hendi. Þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, settur héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi, Lindarvatn ehf., skal greiða stefnanda, SPB hf., 197.591.084 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 10. júlí 2010 til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Stefndi greiði stefnanda 700.00 kr. í málskostnað.