Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 5. janúar 2010. |
|
Nr. 1/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Haukur Örn Birgisson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. janúar 2010 klukkan 16 og að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að hann verði ekki látinn sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Það athugast að kæra og gögn málsins bárust Hæstarétti seinna en rétt hefði verið.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], [...], Reykjavík verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. janúar 2010 kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar meint fíkniefnamisferli kærða og í þágu rannsóknar málsins hafi í gærkvöldi verið framkvæmd húsleit á dvalarstað hans að [...] í Reykjavík. Við leitina hafi fundist um 800 grömm af kókaíni. Hafi kærði og meðkærða Y, sem stödd hafi verið í íbúð hans, í kjölfarið handtekin.
Þá framkvæmdi lögreglan í dag einnig húsleit að [...] í Reykjavík, íbúð Z, en kærði X sást við eftirlit lögreglu í gær afhenda Z poka, sem lögreglan taldi hafa að geyma fíkniefni. Um leitina og það sem þar fannst og framburð Z nú fyrr í dag vísast til meðfylgjandi lögregluskýrslna.
Við yfirheyrslu nú fyrr í dag kannaðist kærði við að hafa flutt umrædd fíkniefni inn til landsins. Hann kvaðst hafa flutt efnin inn að beiðni og undir hótunum nafngreinds aðila, Þ, og nefndi kærði í því sambandi að hafa farið a.m.k. þrjár ferðir með fíkniefni hingað til lands.
Kærði, X, kvað meðkærðu Y eiga engan þátt í fíkniefnainnflutningnum. Sé sá framburður algjörlega á skjön við framburð Y. Nánar um ósamræmi í framburðum þeirra sé vísað til meðfylgjandi lögregluskýrslna.
Rannsókn málsins sé á frumstigi, en hér sé um að ræða allmikið magn hættulegra fíkniefna og af dómaframkvæmd megi ráða að innflutningur á því magni sem hér um ræði varði ekki skemmri fangelsisrefsingu en 18 mánuðum, sannist sök kærða, sjá t.d. dóm Hæstaréttar Íslands nr. 668/2006, dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-941/2005 og héraðsdóms Reykjaness nr. S-1199/2004.
Ljóst sé að taka þurfi frekari skýrslur af kærða, meðkærðu Y og hugsanlegum vitnum málsins og öðrum sem kunni að tengjast málinu. Þá sé nauðsynlegt í þágu rannsóknar að hafa upp á nefndum Þ og yfirheyra. Mál þetta sé nokkuð umfangsmikið og hafi lögregla í dag og í gærkvöld handtekið og yfirheyrt sjö aðila vegna málsins.
Í ljósi þess að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi sé afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina, þannig að kærði fái ekki tækifæri til að torvelda rannsóknina, svo sem með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði hefur viðurkennt fyrir lögreglu og dómi að hafa flutt innvortis fíkniefni til landsins 27. desember sl., 800 g af kókaíni að eigin sögn. Með vísan til þess og rannsóknargagna málsins er rökstuddur grunur að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Fyrir liggur að rannsókn máls þessa, sem er umfangsmikil, er skammt á veg komin, auk þess sem verulegs ósamræmis gætir í framburðum kærða og meðkærðu Y sem kom til landsins með sama flugi og kærði 27. desember sl. Telja verður að hætta sé á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna. Eru því uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi kærða, eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki eru efni til að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er. Fallist er á að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. janúar 2010 kl. 16.00. Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.