Hæstiréttur íslands

Mál nr. 733/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Ingvari Dór Birgissyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl., Styrmir Gunnarsson hdl. 1. prófmál),
(Stefán Ólafsson réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Hegningarauki
  • Skaðabætur

Reifun

I var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, er hún var 14 ára gömul, með því að hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni og haft við hana samræði og önnur kynferðismök. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var I gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem tillit var tekið til 1., 2. og 6. töluliða 1. mgr. 70. gr. og a. liðar 195. gr. sömu laga. Var refsing I ákveðin fangelsi í eitt ár og sex mánuði og honum gert að greiða A miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. október 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.  

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en refsingu ákærða.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var með dómi Hæstaréttar 1. október 2015 í máli nr. 170/2015 staðfestur héraðsdómur 19. janúar sama ár þar sem ákærði var dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði fyrir sambærileg brot og hann er nú sakfelldur fyrir, en þau brot voru framin á árinu 2010. Dómur hafði áður verið kveðinn upp í því máli 5. september 2013 og ákærða gerð sama refsing en sá dómur var ómerktur með dómi Hæstaréttar 12. júní 2014 í máli nr. 668/2013. Þegar ákærði framdi það brot sem hann er nú sakfelldur fyrir lá ekki fyrir framangreind niðurstaða Hæstaréttar um ómerkingu dómsins.

Í 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir að verði maður, sem búið er að dæma fyrir eitt brot eða fleiri, uppvís að því að hafa framið önnur brot, áður en hann var dæmdur, skuli dæma honum hegningarauka er samsvari þeirri þyngingu hegningarinnar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu. Þegar litið er til þess að dómurinn 5. september 2013 var ómerktur og ákærði sakfelldur með nýjum dómi 19. janúar 2015, sem eins og að framan greinir var staðfestur með dómi Hæstaréttar 1. október sama ár, verður við það að miða að brot ákærða nú hafi verið framið fyrir uppkvaðningu dóms í því máli. Ber því samkvæmt 78. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga, að dæma honum hegningarauka.

Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku og var brot hans alvarlegt og ófyrirleitið. Verður fallist á með héraðsdómi að við ákvörðun refsingar skuli líta til 1., 2. og 6. töluliða 1. mgr. 70. gr. og a. liðar 195. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu þessu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í eitt ár og sex mánuði.

Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða helming af áfrýjunarkostnaði málsins, þar á meðal af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, en hinn helmingurinn verður felldur á ríkissjóð.

Dómsorð:

Ákærði, Ingvar Dór Birgisson, sæti fangelsi í eitt ár og sex mánuði.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Helmingur af áfrýjunarkostnaði málsins, sem er samtals 1.034.668 krónur, þar á meðal málsvarnarlaun verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Ákærði greiði hinn helming áfrýjunarkostnaðarins, 517.334 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2016.

                Mál þetta, sem dómtekið var 28. september 2016, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 20. apríl sl., á hendur Ingvari Dór Birgissyni, kennitala [...], [...], Reykjavík, „fyrir kynferðisbrot gegn barni 11. mars 2014 með því að hafa á þáverandi dvalarstað ákærða að [...] í Kópavogi, þangað sem hann hafði fengið A, þá 14 ára gamla til að koma og hitta hann, meðal annars með því að segja henni að svo lengi sem hún kæmi og hitti hann myndi hann ekki birta af henni myndir á netinu sem sýndu líkama hennar naktan að hluta, nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs-, þroska- og aflsmunar og haft við hana samræði í leggöng, haldið henni niðri í rúminu þegar hún reyndi að fara í burtu og í framhaldinu látið stúlkuna hafa við sig munnmök.

                Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Einkaréttarkrafa:

             Af hálfu B, kt. [...], sem gerir kröfu fyrir hönd ólögráða dóttur hennar, A, kt. [...] er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola kr. 1.500.000 í miskabætur. Gerð er krafa um vexti af fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. mars 2014 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar til handa réttargæslumanni vegna réttargæslustarfa.“

                Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að hann verði dæmdur til vægustu viðurlaga sem lög leyfa. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

I.

                Málsatvik

                Fimmtudaginn 21. maí 2014 kom brotaþoli A á lögreglustöðina á [...] í fylgd móður sinnar. Lagði hún fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn sér þann 11. mars 2014 á dvalarstað hans í Kópavogi.

                Í skýrslu brotaþola hjá lögreglu greindi hún frá samskiptum við ákærða á netinu í gegnum Skype, Facebook, Snapchat og í síma. Hafi samtöl þeirra verið af kynferðislegum toga sem hafi þróast þannig að hann hafi þrýst á hana að senda sér „flassmyndir“, þ.e. myndir sem sýni nekt. Kvað hún hann hafa sent sér myndir líka, m.a. af kynfærum. Þá hafi hann þrýst á hana um að hitta sig á dvalarstað hans og kvaðst myndu setja myndirnar af henni á netið að öðrum kosti. Hafi hann áður en að því kom lýst því í samtölunum hvaða kynferðislegu athafnir hann hugðist framkvæma með henni en brotaþoli greindi honum frá því að hún hefði ekki haft samræði áður. Brotaþoli kvað ákærða hafa vitað að hún var 14 ára á þessum tíma en hann hafi verið 29 ára.

                Brotaþoli kvaðst hafa hitt ákærða á heimili hans umræddan dag. Hann hefði leiðbeint henni hvernig hún kæmist til hans frá [...] og greitt fargjald hennar í strætisvagn með millifærslu í heimabanka. Hefði hún komið með strætisvagni í [...] að því hún taldi kl. 16:38. Hann hafi tekið á móti henni í húsi sem hún lýsti frekar og því sem fyrir augu bar í svefnaðstöðu ákærða á efri hæð. Brotaþoli lýsti því að ákærði hefði haft samræði við hana þar og jafnframt hefði hann beðið hana um að hafa við hann munnmök sem hún og gerði. Að þessu loknu hafi ákærði sótt skóna hennar á neðri hæðina, beðið hana að læðast út svo að leigusalinn heyrði ekki í þeim og labbað með henni á strætisvagnastoppistöð. Hafi hann þurft að mæta í vinnu kl. 18:00. Þá hafi hann gefið henni peninga fyrir farinu heim. Taldi hún sig hafa verið á dvalarstað ákærða frá kl. 17:00-17:30.

                Brotaþoli kvað samskipti á milli þeirra hafa haldið áfram á sömu nótum en ákærði hafi farið til Asíu 18. eða 19. mars 2014. Kvaðst brotaþoli hafa trúað vinkonum sínum fyrir því að hún hefði hitt ákærða sem væri mun eldri en hún. Hafi það orðið til þess að önnur þeirra hvatti hana til að segja frá því sem gerðist. Hafi hún ekki gert sér grein fyrir því fyrr en hún fór að ræða við hana að um nauðgun væri að ræða. Hafi það verið í apríl. Hún hafi hins vegar í fyrstu ekki þorað að segja neinum fullorðnum frá strax.

                Samkvæmt upplýsingum þjóðskrár var aðeins einn Ingvar Dór þar skráður. Reyndist það vera ákærði. Samkvæmt gögnum málsins dvaldi ákærði á þessum tíma í Taílandi eða á Cayman-eyjum og dróst skýrslutaka af honum af þeim sökum. Kom hann til landsins 4. desember 2014 og var fyrst yfirheyrður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu næsta dag. Yfirheyrslur yfir ákærða voru samtals fjórar.

                Ákærði neitaði því alfarið í fyrstu yfirheyrslunni 5. desember 2014 að hann hefði haft samræði við brotaþola. Kannaðist hann við að hafa hitt hana einu sinni stuttlega fyrir tilviljun í Hamraborg á leið sinni til vinnu. Skömmu áður hefði hann lánað henni peninga fyrir strætó með millifærslu á reikning hennar en hún hafi viljað komast í bæinn. Þegar hann framkvæmdi millifærsluna hafi hann séð að hún var fædd árið 1999 og því ekki 15 ára.

                Ákærði kvað þau hafa átt í samskiptum á Skype en hann myndi ekki nákvæmt innihald þeirra og lítið eftir einhverju kynlífstengdu. Þá hafi hún „addað“ honum á Snapchat. Einhverjar myndsendingar hafi átt sér stað, einkum á þeim miðli, en hann myndi ekki hvort það hefðu verið nektarmyndir. Hann hafi hins vegar aldrei sent henni nektarmyndir. Þá kvaðst hann ekki hafa átt í samskiptum á Facebook og kannaðist ekki við notandanafnið Ingvar Winchester. Samskipti hans og brotaþola hafi hætt eftir að hann kom til Taílands. Ákærði taldi líklegt að einhver hefði „hakkað“ sig inn á Skype-reikninginn hans.

                Ákærði var yfirheyrður á ný 9. desember 2014. Hélt hann við sinn fyrri framburð en viðurkenndi að hafa átt opinská kynferðisleg samtöl við brotaþola á Skype. Í þeirri yfirheyrslu kom fram að ákærði hygðist fara af landi brott og stóð því til að fara fram á farbann yfir honum þann 10. desember 2014. Hins vegar kom í ljós að ákærði hefði farið af landi brott snemma morguns þann dag til Amsterdam. Var því samdægurs farið fram á að Héraðsdómur Reykjavíkur gæfi út handtökuskipun á hendur honum. Féllst dómurin á að skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 væru uppfyllt og var hann handtekinn í kjölfarið við komu til Amsterdam og framseldur þaðan 16. júní 2015. Þann sama dag var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli b.-liðar 95. gr. laga nr. 88/2008. Á þeim tíma beið ákærði dóms Hæstaréttar í máli þar sem honum var gefið að sök kynferðisbrot gagnvart 14 ára stúlku á árinu 2010.

                Þriðja yfirheyrsla af ákærða fór fram 27. ágúst 2015 en þá voru honum m.a. kynnt símagögn sem aflað hafði verið. Í þeirri yfirheyrslu gerði ákærði athugasemdir um nákvæmni þeirra gagna, m.a. vegna þess að ekki hefðu allir sendar á tilteknu afmörkuðu svæði í Kópavoginum né öll símtöl úr og í síma brotaþola verið tilgreind. Þegar ákærða voru kynnt gögn sem fengin voru úr tölvu hans, m.a. af Skype-reikningi, taldi hann líklegt að einhver hefði hakkað sig inn á síðuna.

                Ákærði var loks yfirheyrður 8. september 2015 og var þá spurður ítarlega út í niðurstöðu rannsóknar á tölvu hans, m.a. samtöl hans við C á Skype eftir að mál þetta kom upp. Hélt hann sig við sinn fyrri framburð um að hann væri ekki Ingvar Winchester á Facebook.

                Á meðal rannsóknargagna eru Skype-samtöl á milli ákærða og brotaþola sem afrituð voru úr tölvu hennar. Ná samskiptin yfir tímabilið 7. febrúar til 22. maí 2014 en notendanöfnin eru undir nafninu ingvardor og [...]. Bera samtölin merki um fjölmargar myndsendingar brotaþola. Í „Skype contact“ lista reiknings hennar fannst ingvardor sem fæddur var 3. mars 1985 sem er fæðingardagur ákærða. Þá var þar að finna farsímanúmer ákærða á þeim tíma og ljósmynd af honum.

                Jafnframt eru á meðal rannsóknargagna samtöl á milli brotaþola og Ingvars Winchester frá 3. til 24. apríl 2014 svo og frá 4. júní 2014.

                Þá var farsími brotaþola rannsakaður og fór fram greining á símagöngum hjá tæknideild lögreglunnar. Skoðuð voru símasamskipti á milli númera brotaþola og ákærða yfir tímabilið 1. janúar til 1. júní 2014 svo og samskipti á milli númers brotaþola og tveggja vinkvenna hennar. Leiddi rannsóknin í ljós fjölmargar tengingar, þ.e. símtöl og SMS, á milli númers brotaþola og ákærða frá 9. febrúar til 15. mars 2014 eða 543 sinnum frá númeri ákærða til brotaþola og 485 sinnum frá númeri brotaþola til ákærða.

                Þann 11. mars 2014, eða daginn sem brotaþoli kvaðst hafa hitt ákærða á heimili hans, voru brotaþoli og ákærði fimm sinnum í símasambandi. Á tímabilinu frá kl. 15:01 til 16:49 hringdi brotaþoli fjórum sinnum í ákærða. Klukkan 16:56 hafi ákærði hringt í brotaþola og kom símtæki brotaþola fram á sendi við Hamraborg. Þá sendi ákærði SMS-skilaboð til brotaþola kl. 17:03, þá hafi símtæki hennar komið fram á sendi við Kópavogsbraut en af korti þar sem staðsetning símtækisins er merkt má sjá að sendir á Kópavogsbraut er nær meintum brotavettvangi.

                Þá rannsakaði lögreglan Facebook-reikning Ingvars Winchester en aðgangi hafði verið lokað að hluta til frá því um sumarið 2014. Fundust myndir af ákærða þar sem hann var merktur inn með þessu nafni. Jafnframt fundust hreyfimyndaskeið á Facebook-síðunni „[...]“ þar sem ákærði sést. Á meðal þeirra sem tjáðu sig var aðili að nafni „C“ sem vekur athygli á þvi að vinur hans Ingvar Winchester hafi verið þáttakandi og megi því merkja hann inn á myndskeiðið. Einnig má finna hópmynd á þessari síðu þar sem ákærði sést og er hann merktur á myndinni sem Ingvar Winchester.

                Á heimasíðunni „hotornot“ fannst Ingvar Winchester einnig en þar mátti finna nokkrar ljósmyndir af ákærða og komu fram upplýsingar um að hann væri 29 ára.

                Við skoðun á afrituðum gögnum úr fartölvu ákærða sem var haldlögð þegar hann var handtekinn við komu til Hollands þann 10. desember 2014, kom í ljós að eigandi Skype-forritsins í tölvunni var ingvardor. Einn af „Skype contact“ aðilum hjá honum var [...]. Þá fundust Skype-samtöl á milli þessara aðila en þessi sömu samtöl var að finna í Skype-samtölum brotaþola, þó ekki sá hluti þeirra sem var af kynferðislegum toga. Einnig fannst nafnið Ingvar Winchester í Skype-samtali ingvardor við [C] frá 9. desember 2014 þar sem ákærði segir m.a.: „bara það að löggan er að reyna að klína einhverju öðru rugli á mig vegna þess að þeir eru svo að tapa hinu málinu og þar hef ég neitað því að ingvar winchester sé facebookið mitt og þeir gætu spurt þig um þá síðu hvort hún sé mín vantar bara að þú segir þeim að þú veist ekkert hver þetta er.“ Í skýrslu lögreglu er umfjöllun um frekari ummerki um Ingvar Winchester í tölvu ákærða.

                Meðal gagna málsins er samantekt sálfræðings frá 25. ágúst 2009 sem leitað var til vegna hegðunarerfiðleika brotaþola heima fyrir sem að mestu tengdust erfiðleikum við heimanám. Einkenni athyglisbrests og ofvirkni komu fram í greiningarviðtali og á matslista sem móðir fyllti út. Hins vegar voru hamlandi áhrif einkennanna utan heimilis ekki ljós og því ákveðið að bíða með lyfjagjöf. Mælt var með námsaðstoð fyrir brotaþola. Greindarpróf var lagt fyrir brotaþola á árinu 2012 og liggja niðurstöður fyrir í málinu. Í læknabréfi frá Heilbrigðisstofnun [...] frá 23. maí 2014 kemur fram að í maí 2012 hafi staða brotaþola verið endurmetin og lyf reynd sem ekki skiluðu tilætluðum árangri. Þá kemur fram að brotaþoli hafi margsinnis komið á heilbrigðisstofunina vegna meiðsla en í öllum tilvikum hafi þau verið skýrð sem íþróttameiðsl.

                Í vottorði D, sérfræðings í klínískri barnasálfræði, kemur fram að brotaþoli hafi sótt tólf meðferðarviðtöl á tímabilinu 4. júlí 2014 til 7. apríl 2015. Lagt hafi verið mat á líðan í viðtölum við hana og móður og lagðir fyrir brotaþola sjálfsmatslistar. Hafi svör hennar gefið til kynna talsverð einkenni áfallastreitu sem uppfylltu ekki greiningarviðmið áfallastreituröskunar. Í kjölfarið hafi farið fram meðferðarviðtöl sem er þar nánar lýst. Hafi komið glöggt í ljós að brotaþoli glímdi við verulegan kvíða vegna meints kynferðisbrots, ágengar minningar, sjálfsásökun og sektarkennd. Um miðja meðferð hafi brotaþoli byrjað á lyfjum við kvíða sem hafi slegið á einkenni hans og hafi sjálfsöryggi aukist. Við lok meðferðar í apríl 2015 var dagleg líðan og virkni brotaþola mun betri en við upphaf hennar. Tilefni sé þó til þess að vera vakandi yfir líðan hennar og hvernig hún þróist og nefndi sálfræðingurinn sérstaklega sjálfsáskanir brotaþola sem hún hafi átt erfitt með að losna við.

II.

                Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

                Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

                Ákærði kannaðist við Skype-samskipti á milli hans og brotaþola, m.a. vídeósamtöl og hafi notandanafn hans verið ingvardor. Hann kvaðst hins vegar ekki muna eftir þeim sérstaklega eða hvað þau ræddu. Þegar borið er undir hann það sem fram kemur í lögregluskýrslu 9. desember 2014 um að þau samskipti hafi verið kynferðisleg kvaðst hann ekki muna eftir því sem hann hefði sagt í lögregluskýrslum. Þá bar hann einnig fyrir sig minnisleysi þegar borin voru undir hann brot úr Skype-samskiptunum. Kvað hann allt eins líklegt að einhver annar hefði átt í þessum samskiptum við brotaþola. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir neinum myndsendingum og samtölum í síma. Hann hafi átt vídeósamtöl við brotaþola og taldi það skýra hvers vegna hún gæti lýst vistarverum hans innanhúss. Ákærði kvaðst hafa hitt brotaþola í eitt skipti en þá hafi þau ákveðið að hittast í Hamraborg. Brotaþoli hafi komið með strætó en ákærði hafi lánað henni fyrir farinu með millifærslu á reikning hennar. Aðspurður kvaðst hann ekkert sérstaklega hafa hugað að aldri hennar en séð að hún átti afmæli í [...] 1999, hún hefði logið til um aldur og kveðist vera 15 ára. Hann kvað rétt að hann hefði dregið úr samskiptum við hana eftir þetta enda fundist verra ef hún væri enn yngri. Hann hefði fengið „einhverja tilfinningu“. Nánar spurður um samskipti við svo unga stúlku kvaðst hann aðeins hafa viljað eignast vini en þó hafi í reynd ekki verið neitt sérstakt sem tengdi hann og brotaþola. Hann hafi vitað að hún spilaði [...].

                Ákærði kvaðst aðspurður ekki kannast við notandanafnið Ingvar Winchester á Facebook eða þau samskipti sem borin voru undir hann. Hann kannaðist við samskipti við C á Skype 9. desember 2014 en taldi þau styðja að hann væri ekki Ingvar Winchester á Facebook. Spurður að því hvers vegna þar komi fram að hann hefði „straujað“ tölvuna sína í sumar kvað hann það vera því hún „hrundi“ hjá honum og hann misst allt sem hann átti.

                Brotaþoli kvaðst hafa verið í samskiptum við ákærða á netinu en mest hafi það verið á Skype. Þau hafi vitað um aldur hvort annars. Samskiptin hafi verið á kynferðislegum nótum og þau hafi talað um að hittast í kynferðislegum tilgangi. Þá hafi þau sent hvort öðru nektarmyndir. Brotaþoli kvaðst hafa hitt ákærða í eitt skipti í Kópavogi en hann hafi sagt við hana að annars færu myndirnar af henni á netið. Hafi hann greitt rútufarið frá [...] með millifærslu inn á reikning hennar. Þá hafi hún verið í sambandi við ákærða þegar hún kom með strætisvagni upp í Mjódd og síðan í Kópavog en hann hafi vísað henni til vegar. Brotaþoli kvaðst hafa rætt við vinkonur sínar á leið sinni til ákærða og hafi verið í símanum þegar ákærði kom til dyra. Hún hafi heyrt í mönnum í eldhúsinu þegar hún kom inn. Þá lýsti brotaþoli húsinu að utan, aðkomu að herbergi eða svefnaðstöðu ákærða uppi á lofti og því helsta sem fyrir augu bar þar inni. Brotaþoli lýsti því sem gerðist í herberginu, hvernig ákærði hefði afklætt hana, látið hana hafa við sig munnmök og fengið sáðlát í munn hennar. Aðspurð kvaðst hún líka hafa klætt sig úr einhverju því hann hefði beðið hana um það. Hann hafi síðan haft við hana samræði á rúminu og haldið henni niðri með því að halda í axlir hennar. Þegar borinn var undir hana framburður hennar hjá lögreglu um röð kynferðismaka kvað hún þeim rétt lýst þar, þ.e. að hún hafi framkvæmt munnmök eftir að hún hafði samræði við hann. Brotaþoli kvaðst sér hafa liðið ömurlega eftir þetta. Hún hafi talið að þau væru að hittast til þess að kynnast betur en þegar þangað var komið hafi þetta þróast á annan veg. Aðspurð kvaðst hún hafa kallað á hjálp nokkrum sinnum en þó mjög lágt og þegar þessu lauk hafi hún klætt sig og hlaupið út. Ákærði hafi komið í humátt á eftir henni og þau hafi farið hvort sína leið í strætisvagni en ákærði hafði áður látið hana fá peninga fyrir farinu. Aðspurð kvaðst hún hafa ætlað að fara inn í eldhúsið þar sem hún heyrði mannamál en ekki gert það því ákærði hefði verið að koma. Hún hefði hringt í vinkonur sínar og sagt þeim að hún hefði hitt 29 ára mann sem hefði misnotað hana. Önnur þeirra hefði þó vitað um fyrirætlanir hennar. Seinna hafi hún rætt við námsráðgjafa. Brotaþoli kvað það rétt eftir henni haft í lögregluskýrslu að hún hefði áttað sig betur á því að ákærði hefði í raun nauðgað henni eftir að hún fór að ræða það sem gerðist. Hafi hún ekki viljað hafa kynferðismök við ákærða umrætt sinn og hafi skilið hann sem svo að það myndi gerast seinna. Spurð um efni Skype-samtala og á Facebook kvaðst hún ekki muna vel eftir efni þeirra í dag. Brotaþoli kvað sér hafa liðið hræðilega eftir þetta í sex til átta mánuði en allir hafi lagst á eitt við að aðstoða hana og liði henni betur í dag.

                B, móðir brotaþola, lýsti samskiptum hennar og brotaþola í gegnum tíðina. Kvað hún að á ýmsu hefði gengið og brotaþoli ögrað henni á ýmsan hátt. Hún hafi ekki verið sterkur námsmaður og því hafi borið á vanlíðan í skóla og hún upplifað sig sem minni máttar. Þá hafi komið upp vandamál í tengslum við netsamskipti hennar og hafi komið til rannsóknar annað mál sem var fylgt eftir. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt henni frá þessu máli en ekki gefið nákvæmar lýsingar. Vitnið kvað rétt eftir henni haft hjá lögreglu, að hún hefði skilið sem svo að brotaþoli hefði haft kynmök við eldri mann.

                E, faðir brotaþola, kvað brotaþola hafa komið ásamt F vinkonu sinni og sagt honum frá því að hún hefði hitt mann sem hún var í samskiptum við á netinu. Þau hafi hist og hann hafi ekki viljað hleypa henni burt, hótað myndbirtingu og hafi hún þá gefið eftir. Vitnið kvað F hafa verið stoð brotaþola í þessu máli og stutt hana í að segja frá því sem gerðist. Aðspurður kvaðst vitnið hafa tekið eftir því hversu heimakær brotaþoli var eftir þetta en fram að því hefði hún verið mjög virk. Þá hafi borið á vandamálum í tengslum við skóla og vini.

                Vitnið F kvaðst hafa vitað af samskiptum brotaþola og ákærða. Hún hafi fengið að sjá hluta skilaboða hans á skjáskotum og hafi hann verið góður við hana. Þau hafi talað um að hittast og hafi brotaþoli sagt sér að hún ætlaði í bæinn til þess. Vitnið kvaðst hafa vitað að ákærði var um þrítugt og varað við því en hún taldi brotaþola vera ánægða og vildi ekki skipta sér af. Þær hafi þagað yfir því að hún hefði farið að hitta hann þennan dag. Brotaþoli hafi hringt í hana strax á eftir en ekki lýst nákvæmlega því sem hafði gerst. Brotaþoli hafi sagt henni að ákærði hefði „sofið hjá henni“ og það hafi ekki verið 100% á hennar forsendum því hún hafi ekki ætlað að hafa við hann samræði. Eftir þetta hafi þær rætt mikið saman og hafi brotaþoli þá sagt henni að ákærði hefði látið hana á rúmið og „gert sína hluti“. Einnig hafi hún sagt henni síðar að þetta hefði verið nauðgun. Vitnið vissi ekki til þess að brotaþoli hefði rætt við ákærða eftir það. Hún kvað brotaþola hafa tekið mjög nærri sér þegar þetta fór að fréttast í skólanum og hafa orðið þunglynda á tímabili.

                Vitnið G kvaðst hafa heyrt í brotaþola sem hafi verið að fara til Reykjavíkur. Hún hafi ekki viljað hafa vitnið með. Það hafi verið fyrst næsta dag sem hún sagði henni frá því sem gerðist. Hún kvaðst hafa hitt mann sem væri eldri en hún og hefði gert við hana það sem hún vildi ekki. Hún hafi ekki viljað ræða þetta frekar fyrst en kvað hann hafa haldið sér niðri en hún komist í burtu og hlaupið út. Nokkrum dögum seinna hafi vitnið fengið ítarlegri lýsingu.

                Vitnið H, námsráðgjafi í [...], kvaðst hafa heyrt fyrst af þessu 20. maí 2014 þegar faðir brotaþola hringdi í hana. Hún hafi hitt brotaþola næsta dag. Brotaþoli hafi sagt henni að hún hefði hitt eldri mann í Kópavogi og hún hefði ekkert þorað að bregðast við. Vitnið kvaðst ekki hafa farið nánar út í það. Aðspurð kvaðst vitnið hafa munað samtöl þeirra betur þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu og vísaði til hennar. Vitnið kvað brotaþola hafa verið hjá henni í samtals 12 skipti vegna námsörðugleika en sérstakt teymi hafi verið sett á fót til þess að veita henni sértæka námsaðstoð. Vitninu kvað sér hafa fundist eins og sjálfsmynd brotaþola hefði versnað eftir atvikið.

                Vitnið I kvaðst hafa skotið yfir ákærða skjólshúsi á heimili sínu á árinu 2014 og hefði hann verið hjá honum í þrjá mánuði. Það hafi ekki verið gestkvæmt hjá ákærða. Kvaðst vitnið ekki muna eftir 11. mars 2014. Hann kvaðst oftast sitja í eldhúsinu sem snýr út að bílaplaninu og yrði því var við gesti væri hann heima. Hann kvað mjög hljóðbært í húsinu.

                Vitnið J kvaðst vera vinur I og væri oft á heimili hans en hann myndi ekkert eftir 11. mars 2014.

                Vitnið K kvaðst hafa kynnst ákærða í Taílandi 2013 eða 2014 en þeir hafi m.a. farið saman í svokallað „[...]“. Hann kannaðist við að hafa verið í samskiptum við ákærða á Skype og hafi notandanafn hans verið C. Kvað vitnið ákærða hafa notað nafnið Ingvar Winchester á Facebook og útskýrði vitnið skírskotunina til Winchester sérstaklega. Vitnið kvaðst ekki muna eftir samtali þeirra á Skype í dag en kvað ljóst að ákærði hefði viljað fara huldu höfði á Facebook vegna þess máls sem þá var í gangi.

                D barnasálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt um meðferð brotaþola. Gerði hún grein fyrir uppbyggingu meðferðarinnar og viðtölum sínum við brotaþola. Kvaðst vitnið hafa skilið brotaþola svo að hún hefði farið að hitta ákærða vegna þess að hann hefði undir höndum nektarmyndir af henni sem hún óttaðist að færu í dreifingu. Þá hafi hún skilið hana sem svo að hún hafi ætlað að tala um fyrir honum en ekki ráðið við aðstæðurnar sem hún stóð frammi fyrir. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa skoðað sérstaklega önnur atvik úr lífi hennar heldur miðaðist greiningin við þetta einangraða tilvik, þ.e. meint kynferðisbrot gegn henni. Var vanlíðan hennar sérstaklega rakin til þess og bar hún ákveðin einkenni áfallastreituröskunar en uppfyllti ekki greiningarviðmið. 

                L, fulltrúi frá barnaverndarnefnd [...], kvaðst hafa haft aðkomu að þessu máli þegar hún var viðstödd skýrslutöku af brotaþola hjá lögreglunni á [...]. Hún hefði hitt hana reglulega áður en þetta mál kom upp en tilgangur þess hafi verið að ræða ofbeldi og hvað flokkaðist undir ofbeldi. Hafi það komið til vegna athugunar á því hvort hún hefði orðið fyrir ofbeldi á heimili sínu.

                M rannsóknarlögreglumaður gerði stuttlega grein fyrir aðkomu sinni að málinu. Hann kvaðst hafa ekið með brotaþola í leit að meintum brotavettvangi og hafi hún að endingu bent á [...]. Málið hafi síðan verið sent til Reykjavíkur til frekari meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

                N rannsóknarlögreglumaður gerði grein fyrir aðkomu sinni að málinu, verkaskiptingu á milli hans og tæknideildar og úrvinnslu gagna.

                O, sérfræðingur hjá tölvurannsóknardeild, fór yfir aðkomu sína að málinu sem hafi einkum lotið að því að taka afrit af tölvugögnum. Notaði hann til þess ákveðin rannsóknartól til þess að draga fram samskiptasögu viðkomandi tölvu.

                P, starfsmaður upplýsinga- og áætlunardeildar lögreglunnar, staðfesti skýrslu sína um símagögn og gerði grein fyrir því hvernig hún var unnin. Fyrst hafi hann fengið það verkefni að gera grein fyrir samskiptum á milli símanúmera en síðar að gera grein fyrir staðsetningum. Þá hefði verið skoðað hvaða númer tengdust hvaða sendum og út frá staðsetningu þeirra væri hægt að merkja hnit inn á kort. Á þessum tíma sem um ræðir hafi hins vegar ekki verið unnt að fá upplýsingar frá öllum símafyrirtækjum og því væru ákveðnar eyður hvað varðar staðsetningar.

III.

                Niðurstaða

                Ákærði neitar sök. Hann kveðst muna eftir því að hafa verið í samskiptum við brotaþola í gegnum Skype og í síma. Þá hafi hann aðeins hitt hana í eitt skipti, þann 11. mars 2014, en það hafi verið á strætisvagnastoppistöð í Hamraborg. Ákærði kvaðst hafa séð að brotaþoli var fædd í [...] árið 1999 þegar hann millifærði á reikning hennar fyrir fargjaldi frá [...] til Reykjavíkur til þess að hitta hann þennan dag.

                Ákærði neitar því hins vegar að hafa haft nokkurt kynferðislegt samneyti við brotaþola. Þá hafi hann hvorki beðið brotaþola um að senda sér nektarmyndir né verið í samskiptum við hana á Facebook undir notandanafninu Ingvar Winchester. Að öðru leyti ber ákærði fyrir sig minnisleysi um nánast allt, m.a. um efnislegt innihald samtala hans og brotaþola á Skype og um framburð sinn í skýrslutökum hjá lögreglu.

                Brotaþoli hefur á hinn bóginn borið að hún og ákærði hafi átt í kynferðislegum samskiptum á netinu, m.a. með myndsendingum. Þá hafi hann haft við hana kynferðismök gegn vilja hennar á dvalarstað hans í Kópavogi.

                Dómurinn telur sannað, með vísan til rannsóknar lögreglu á tölvu ákærða og með stoð af framburði K, að ákærði gekk undir notandanafninu Ingvar Winchester á Facebook og átti m.a. í samskiptum við brotaþola undir því notandanafni.

                Eins og áður greinir voru Skype-samskipti brotaþola við ingvardor afrituð af lögreglu af tölvu brotaþola. Þessi samskipti brotaþola sem ná yfir langt tímabil voru svo til öll á kynferðislegum nótum. Af þeim verður ráðið að brotaþoli sendi ákærða fjölda mynda af sér fáklæddri eða nakinni. Telur dómurinn fullsannað að þessi samskipti voru á milli ákærða og brotaþola eins og hún hefur borið um en um þetta ber ákærði fyrir sig minnisleysi eins og áður greinir. Dómurinn telur ótrúverðugt að ákærði muni ekki eftir samskiptum sínum við brotaþola ekki síst í ljósi þess að hann gat vel gert grein fyrir öðrum samtölum sem hann átti um líkt leyti, m.a. við vitnið K.

                Samskipti þessi bera glöggt með sér að fullorðinn maður talar við reynslulitla unglingsstúlku. Hið kynferðislega tal er einhliða af hans hálfu og hann stýrir því alfarið. Hann þrýstir á brotaþola með vaxandi þunga og er tilgangurinn sá að sannfæra hana um að hún eigi að koma og eiga sín fyrstu kynferðismök með honum. Ljóst er að brotaþoli upplifir þessa athygli hans fyrst á jákvæðan hátt en er þó óörugg og nokkuð á varðbergi. Þegar ákærði verður ágengari og grófari fer brotaþoli undan í flæmingi og lætur ákærði þá óánægju sína í ljós. Kom að því að hann benti henni ítrekað á þann 4. mars 2014 að hann hefði í fórum sínum nektarmyndir af henni sem færu ekki á netið svo lengi sem hún hitti hann. Kom þá fram hjá brotaþola að hann hefði ekki hugmynd um hvað henni liði illa en ákærði sannfærði hana um að þau myndu vera saman þótt þau hefðu samræði í fyrsta skiptið sem hann hitti hana. Þann 10. mars 2014 kemur fram í spjalli þeirra að þau muni hittast næsta dag. Þá spyr brotaþoli hann nánar um hvað hann vilji gera. Hann svarar: „setja eh kósý mynd á sem þú færð að velja, spjalla, kúra, kyssa og svo það gerist sem gerist.“ Kvaðst hún vilja það sama. Þá kemur fram hjá ákærða að ef henni finnist óþægilegt það sem gert verði þá lofi hann að stoppa. Biður brotaþoli hann þá sérstaklega um að gera ekki eitthvað sem hún ekki vilji. Svarar hann því til að hún verði að vera jákvæð, ef eitthvað gerist þá eigi hún að leyfa því að gerast en ekkert slæmt geti gerst. Sendir brotaþoli þá lyndiskarl (emoji) sem túlkaður hefur verið sem sá sem sýnir engin tilfinningaleg viðbrögð.

                Dómurinn telur fullsannað að brotaþoli hafi komið á dvalarstað ákærða þennan umrædda dag. Framburður brotaþola um það er trúverðugur og í samræmi við ofangreind gögn málsins. Símagögn styðja að hún hafi verið í Kópavogi á þeim tíma sem hún hefur borið um og kemur tímatafla strætisvagna heim og saman við það. Hafa verður í huga að hún var ókunnug á þessum slóðum og varð að fá leiðbeiningar til þess að rata á dvalarstað ákærða. Gögn málsins bera einnig með sér símasamskipti á milli hennar og ákærða. Þá vísaði hún lögreglu á [...] og lýsti vistarverum ákærða með fullnægjandi hætti. Þá greindi hún vinkonum sínum F og G frá því að hún hefði hitt ákærða umrætt sinn.

                Ofangreind Skype-samskipti eru einnig í samræmi við framburð brotaþola um að ákærði hafi haft samræði við hana og að hún hafi haft munnmök við hann. Koma þessar fyrirætlanir ákærða margítrekað fram í samskiptunum. Þá taka samskipti ákærða og brotaþola eftir atvikið af allan vafa um að þessi kynferðismök fóru fram og má sem dæmi nefna ummæli ákærða á Skype þann 28. mars 2014. Einnig í samskiptum þeirra á milli á Facebook 6. apríl 2014. Þykir framburður brotaþola um þessi kynferðismök trúverðugur og verður hann lagður til grundvallar. Brotaþoli bar um sömu kynferðismök í skýrslu sinni hjá lögreglu. Hins vegar var lýsing hennar á einstökum atriðum í atburðarásinni frá því hún kom á dvalarstað ákærða og þar til hún fór út nokkuð á annan veg fyrir dómi en hjá lögreglu. Að mati dómsins hefur það þó ekki, eins og hér er ástatt og í ljósi lýsingar á hinni saknæmu háttsemi ákærða í ákæru, áhrif á mat á trúverðugleika framburðar brotaþola um þau kynferðismök sem þar eru tilgreind.

                Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn framburð ákærða um að hann hafi ekki haft ofangreind kynferðismök við brotaþola, afar ótrúverðugan enda í hróplegu ósamræmi við gögn málsins.

                Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn sannað að ákærði hafi haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola umrætt sinn að [...]. Ákærða var kunnugt um fæðingardag og ár brotaþola. Breytir hér engu að brotaþoli hafi sagt við hann að hún væri 15 ára í Skype-samtali þeirra. Viðurkenndi hann að hafa vitað aldur hennar í yfirheyrslu hjá lögreglu en hér fyrir dómi kvaðst hann ekki muna eftir því. Þá má geta þess að í títtnefndum Skype-samskiptum áður en brotaþoli hitti ákærða var ítrekað minnst á fæðingarár ákærða og brotaþola, aldursmun þeirra og það í ýmsu samhengi. Þá gekk hann frá millifærslu inn á reikning brotaþola og hafði þá kennitölu hennar. Þá standast skýringar ákærða um að hann hafi millifært á hana fjárhæð aðeins til þess eins að hitta hana í mýflugumynd í Hamraborg ekki skoðun. Heldur ekki sú skýring að hann hafi verið í vinaleit. Ákærði mátti vita að það að vingast við unglingsstúlkur var fráleitt ekki síst í ljósi þess að á þessum tíma var fallinn dómur í héraði þar sem hann var sakfelldur fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn 14 ára gamalli stúlku. Er engum vafa undirorpið að ákærða mátti vera ljóst að brotaþoli var aðeins 14 ára og undir kynferðislegum lögaldri þegar þau hittust. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákæruvaldið byggir á því að ákærði hafi jafnframt gerst sekur um nauðgun umrætt sinn en hann hafi bæði beitt brotaþola ólögmætri nauðung og ofbeldi til þess að hafa við hana samræði eins og nánar er lýst í ákæru.

                Fram kom í málflutningi verjanda ákærða fyrir dómi að þrátt fyrir að dómurinn teldi sannað að kynferðismökin hafi átt sér stað hafi þau verið með vilja brotaþola og vísar í því sambandi til samskipta þeirra á Skype en þau hafi haldið áfram á jákvæðum nótum eftir hina meintu nauðgun. Vísar hann sérstaklega til ummæla brotaþola næsta dag þar sem fram kemur að hún sé enn hrifnari af honum og ekkert stressuð eða feimin lengur.

                Þessu hafnar dómurinn alfarið og vísar í þessu sambandi til þess sem rakið hefur verið um efnisinnihald Skype-samtals ákærða og brotaþola. Ákærði misnotaði gróflega aðstöðu sína og nýtti sér yfirburði sína í aldri, reynslu og þroska í því skyni að þrýsta á brotaþola til að hafa við sig kynferðismök. Til merkis um styrk ásetnings hans til að ná markmiði sínu beitti hann hana sérstökum þrýstingi þegar hann tefldi því fram að nektarmyndir af henni gætu farið á netið ef hún léti ekki undan vilja hans og hitti hann.

                Í frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 67/2007 kom fram í nefndaráliti allsherjarnefndar, tillaga um breytingu á verknaðarlýsingu 2. gr. frumvarpsins, sem samsvarar núgildandi 1. mgr. 194. gr. laganna. Fól breytingin í sér að í verknaðarlýsinguna bættist til viðbótar við ofbeldi og hótun, verknaðaraðferðin ólögmæt nauðung. Segir í nefndarálitinu: „Undir 195. gr. laganna fellur aðferðin ólögmæt nauðung, þ.e. ef beitt sé hótunum um eitthvað annað en ofbeldi til þess að koma fram kynmökum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sú háttsemi sem falli undir 195. gr. sem ólögmæt kynferðisnauðung muni eftir samþykkt þess falla undir 194. gr. sem nauðgun. Í stað orðalagsins „ofbeldi eða hótun um ofbeldi“ í núgildandi 194. gr. komi „ofbeldi eða hótunum“ skv. 2. gr. frumvarpsins og þar undir falla allar hótanir. Þau tilvik sem hingað til hafi verið dæmd sem brot gegn 195. gr. mætti kalla að notfæra sér aðstöðumun. Þó hefur alltaf orðið að felast einhvers konar hótun í því ella hefðu brotin ekki verið felld undir 195. gr.“.

                Dómurinn telur sannað að ákærði hafi beitt brotaþola bæði hótun og ólögmætri nauðung til þess að hafa við hana samræði og önnur kynferðismök umrætt sinn. Breytir hér engu að mati dómsins að brotaþoli hafi átt samskipti við ákærða eftir þetta. Til þess er að líta að ákærði hafði nektarmyndir af henni enn í sínum fórum og hafði ekki eytt þeim eins og hann hafði lofað henni. Hafði hann því enn tangarhald á henni og verður að meta samskiptin í því ljósi. Við slíkar aðstæður eru því orðin tóm að halda því fram að vilji brotaþola hafi verið frjáls. Hins vegar telur dómurinn ósannað að ákærði hafi neytt aflsmunar með ofbeldi. Framburður brotaþola um þetta fær hvorki fullnægjandi stoð af vitnisburði þeirra sem hún talaði við fyrst eftir atburðinn né öðrum gögnum málsins. Þá er ekki samræmi á milli þess sem vitni hafa eftir henni. Með vísan til 108. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, verður ákærði sýknaður af þeim hluta ákæru.

                Að öllu ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði var með dómi Hæstaréttar frá 1. október 2015 dæmdur í fangelsi í 3 ár og 6 mánuði fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Brot hans nú voru framin fyrir uppkvaðningu þess dóms og ber því að dæma honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga sbr. 77. gr. laganna, sem samsvarar þeirri þyngingu hegningarinnar sem kynni að hafa orðið ef öll brotin hefðu verið dæmd í fyrra málinu. Við ákvörðun refsingar er til þess litið að brot ákærða beindist að 14 ára stúlku. Brot hans var gróft og ófyrirleitið. Sérstaklega er litið til stigs ásetnings í tengslum við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga en að mati dómsins var um aukinn ásetning að ræða. Þá hefur verið sýnt fram á í málinu með framburði vitna að brotið hafði áhrif á andlega líðan hennar. Vísast í þessu sambandi til 1., 2. og 6. tl. 70. gr. og 195. gr. a í almennum hegningarlögum. Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

                Ákærði hefur verið fundinn sekur um alvarlegt kynferðisbrot gegn brotaþola og er brot hans til þess fallið að valda henni miska. Verður hann dæmdur til að greiða henni miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Til stuðnings kröfu um lækkun bóta vísaði verjandi ákærða til þess í málflutningi að brotaþoli hefði orðið fyrir kynferðisbroti um líkt leyti auk þess sem ekki sé útilokað að hún hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi á heimili sínu.

                Dómur í ofangreindu kynferðisbrotamáli féll 29. júní sl. í Héraðsdómi Reykjaness en ákærði í því máli játaði brot sín og samþykkti bótakröfu. Vörðuðu brot hans gegn brotaþola við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga og 209. gr., 1. mgr. 210 a og 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga Með vísan til framburðar D, barnasálfræðings, sér í lagi um verklag við mat á afleiðingum kynferðisbrots ákærða, hafnar dómurinn því að annað brot dragi úr miska brotaþola vegna þessa tiltekna máls. Hið sama gildir um ætlað heimilisofbeldi en það á sér enga stoð í gögnum málsins. Telur dómurinn fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðna 1.200.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

                Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, ber ákærða að greiða allan sakarkostnað málsins. Verjandi lagði ekki fram sundurliðaða tímaskýrslu en gerði þess í stað grein fyrir vinnu sinni og akstri í upphafi málflutnings með því að tilgreina áætlaðan tímafjölda og kílómetra í akstri. Þegar málið er virt í heild sinni, meðferð þess og umfang þykja hæfileg málsvarnarlaun verjanda hans Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 1.150.000 krónur og 55.000 kr. vegna aksturs.

                Ákærði skal einnig greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur. Með hliðsjón af tímaskýrslu hennar er hæfileg þóknun ákveðin 650.000 krónur og 13.090 krónur vegna aksturs. Þá skal ákærði greiða 75.000 krónur í annan sakarkostnað.

                Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Sigríður Hjaltested, sem dómsformaður, Sigrún Guðmundsdóttir og Þórður Gunnarsson.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Ingvar Dór Birgisson, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

                Ákærði greiði A, 1.200.000 krónur með vöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 11. mars 2014 til 9. janúar 2015 en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 1.150.000 krónur og 55.000 kr. vegna aksturs, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur, 650.000 krónur og 13.090 krónur vegna aksturs svo og 75.000 krónur í annan sakarkostnað.